27. nóvember, 2005
Athugasemd (EÖE): Nota bene, ég skrifaði þetta í síðasta landsleikjahlé, en vegna mistaka birtist þetta aldei.
Er það ekki til marks um fréttadeyfð í landsleikjahléum þegar að ég sest niður við skriftir fyrir þessa síðu og ætla mér að tala um….
fatatísku!
Ég hef talsvert mikinn áhuga á tísku, en hef samt ekki fundið hjá mér þörf fyrir að tala um þann áhuga minn á þessari síðu. Þangað til að mér veittist gott tækifæri núna.
Fyrir þá, sem hafa ratað inní eina af mínum uppáhaldsfatabúðum, H&M einhvers staðar í Evrópu á síðustu vikum, þá hafa þeir sömu væntanlega tekið eftir því að aðalmódelið fyrir karlalínu H&M er litli Spánverjinn okkar, Luis Garcia.
H&M er stærsta keðja af fatabúðum í Evrópu og er með haug af búðum í nánast öllum Evrópulöndum (fyrir utan Ísland náttúrulega). Það er því ljóst að þetta mun gera umtalsvert mikið til að auka vinsældir Luis Garcia og eflaust draga einhverja nýja aðdáendur að Liverpool liðinu. Sem er bara gott mál.
En allavegana, þið getið séð allt um karlalínuna hjá H&M, sem Luis Garcia er að kynna á þessari síðu og meira að segja skoðað myndbönd með honum. Fatalínan er líka að mínu mati geðveikt flott, en það er annað mál. Ef karl-lesendum þessarar síðu gengur illa að fá sinn betri helming til að horfa á Liverpool leiki, þá ætti Garcia að geta hjálpað.
Annars er leikur á laugardaginn, sem þýðir að efni þessarar síðu fer vonandi batnandi.