13. nóvember, 2005
Þegar Luis Aragones landsliðsþjálfari Spánverja tilkynnti um landsliðshóp sinn fyrir leikina tvo í umspili Heimsmeistarakeppninnar gegn Slóvökum var hann gagnrýndur fyrir í spænskum fjölmiðlum. Ástæðan? Jú, Joaquín hjá Real Betís var ekki einu sinni í hópnum. Aragones var spurður að því á fréttamannafundi hverju þetta sætti og hann sagði einfaldlega: við eigum betri vængmenn en Joaquín í augnablikinu.
Hvaða vængmenn eiga Spánverjar sem eru betri kostir en Joaquín - oft kallaður “besti hægri kantmaður í heimi” - fyrir þessa tvo mikilvægu leiki?
Svar: SANZ LUIS GARCÍA … leikmaður Liverpool!
Ókei, þannig að í kvöld var Aragones með vængmennina Vicénte og Ezquerro á bekknum og þá José Antonio Reyes og Luis García - Tumi okkar Þumall - á vængjunum í byrjunarliðinu. Og hvað gerðist? Jú, Spánverjar rústuðu Slóvökum í kvöld með fimm mörkum gegn einu. Mark Slóvaka kom eftir hræðileg mistök Luis García, sem gaf boltann hreinlega á Szilard Nemeth sem skoraði, en það kom ekki að sök því að García fiskaði vítaspyrnu og skoraði auk þess þrennu.
Já, þrennu. Sem hægri kantmaður hjá spænska landsliðinu.
Miðað við það sem maður sá í þessum leik, og miðað við hvernig García hefur verið að spila undanfarið hjá okkur, þá get ég eiginlega bara tekið undir með Aragones: Spánverjar eiga einfaldlega betri vængmenn í dag en Joaquín hjá Real Betís! Og Tumi Þumall er einn þeirra.
Sniðugt, ekki satt?
p.s.
Fimmta mark Spánverja í kvöld skoraði Fernando Morientes, bara nokkrum mínútum eftir að hann kom inná fyrir títtnefndan Luis García (sem fékk mikla hyllingu á leikvanginum í Madríd). Hvernig skoraði Nando? Jú, með skalla nema hvað … eftir fyrirgjöf frá Vicénte. Ef hann bara fengi nú alltaf sömu þjónustu hjá Liverpool og hann fær hjá spænska landsliðinu …
En allavega, ég útnefni hér með Luis García mann helgarinnar í boltanum! Hvern hefði grunað það fyrir rúmu ári síðan, þegar hann ákvað að yfirgefa sitt heittelskaða Barcelona-lið af því að hann sá fram á að vera bara á bekknum þar, að ári síðar yrði hann ein skærasta stjarnan í erlendri deild, Evrópumeistari með Liverpool og maðurinn sem veldur því að Joaquin á ekki eftir að sofa mikið á næturnar á komandi mánuðum?
Það er metnaður í þeim stutta, en ég hugsa að hann hefði sjálfur viðurkennt fyrir ári síðan að það væri helst til mikil bjartsýni að ætlast til alls þessa. En í dag er þetta staðreynd!
