10. nóvember, 2005
He's big, he's red ...
Jæja, enn bætast fleiri stuðningsmenn Peter Crouch í hópinn, nú síðast Michael Owen, sem vill að menn fagni honum í stað þess að púa gegn Argentíu á laugardaginn.
Ég verð að viðurkenna að ég er forvitinn að sjá þennan leik á laugardag, en þá bara af þeirri einu ástæðu að sjá hvernig móttökur Crouch fær ef/þegar hann kemur inná, eða ef hann verður í liðinu og tekinn útaf.
Ég meina, í sumar vorum við Púllarar flestir frekar ósáttir við kaupin á honum, en menn ákváðu þó að gefa honum séns. Og eins og margir lesendur þessarar síðu muna, þá var ég sennilega manna neikvæðastur í hans garð.
En svo sá ég hann spila fyrir Liverpool …
Jújú, hann hefur enn ekki skorað mark fyrir okkur og það er vissulega áhyggjuefni, en ef við berum hann t.d. saman við Fernando Morientes, þá eru þeir gerólíkir leikmenn þrátt fyrir að eiga báðir í markaþurrð hjá Liverpool. Crouch leggur svo miklu, miklu meira af mörkum til spilsins en Morientes gerir, að það nánast bætir upp markaleysið. Crouch býr til færi, býr til mörk, veldur óöryggi í vörnum andstæðinganna sem vita ekkert hvernig á að dekka hann, og svo framvegis. Þannig að jafnvel þótt hann sé ekki að skora (ennþá) þá er hann samt stórhættulegur.
Ég hef eiginlega fulla trú á því að hann muni vinna stuðningsmenn enska landsliðsins á sitt band á svipaðan hátt og hann hefur gert með flesta stuðningsmenn Liverpool hingað til (nema þig, Aggi, þú ert undantekning). Bíðið bara og sjáið, þegar hann skallar háa sendingu niður fyrir fæturna á Wayne Rooney sem skorar, eða þegar hann snýr tvo menn af sér og leggur boltann viðstöðulaust á Frank Lampard … þá munu Englendingarnir elska hann.