05. nóvember, 2005
Jæja, þetta er allt að gerast. Fyrsti sigur okkar á útivelli staðreynd!!! Góður 0-2 sigur gegn Aston Villa í Birmingham.
Liverpool hefur núna unnið þrjá leiki í röð og eftir tapið gegn Crystal Palace (sem var vonandi botninn á leiktíðinni), þá er markatalan í þessum þrem leikjum 7-0!
Þetta var kannski ekki auðveldur sigur, en Liverpool átti skilið að vinna þennan leik, þrátt fyrir að maður hafi á tímabili grunað að þetta yrði típískur útileikur, þar sem við myndum ekki ná að skora.
En aldrei þessu vant, þá kláruðum við leikinn. Við vorum betri nær allan tíma og þrátt fyrir að það hafi tekið 82 mínútur að skora fyrsta markið, þá allavegana kláruðum við dæmið.
En allavegana, Rafa gerði bara eina breytingu frá því gegn Anderlecht og Cisse kom inn fyrir Crouch:
Reina
Finnan - Carragher - Hyypiä - Riise
Gerrard - Alonso - Sissoko - García
Cissé - Morientes
Liverpool var betraa liðið nær allan leikinn, fyrir utan kannski um 10 mínútna kafla í seinni hálfleik, þar sem Villa ógnaði vel. Það kom sennilega engum á óvart að lang hættulegasti leikmaðurinn þeirra var Milan Baros.
Liverpool náði ekki að skapa neitt alltof mörg færi í fyrri hálfleik. Cisse, Gerrard og Garcia skiptust ótt og títt á stöðum og virstust allir spila á hægri kantinum hluta af leiknum. Cisse lagði Gareth Barry gjörsamlega í einelti í leiknum. Hefði Cisse bara fengið betri stuðning frá Morientes, þá hefðu þeir örugglega skorað einhver mörk.
Cisse fékk þó besta færi fyrri hálfleiksins, þegar hann komst aleinn inn fyrir vörnina, um 15 metrum á undan næsta manni. En í stað þess að reyna að skora ákvað Cisse að reyna að drepa Sörensen með skotinu, svo að Daninn varði.
Í seinni hálfleik þá datt leikur Liverpool nokkuð niður og Aston Villa byrjaði að ógna. En það má segja að skiptingarnar hjá Rafa hafi gengið virkilega vel upp. Fyrstur kom Zenden inn fyrir Luis Garcia (sem virtist þreyttur eftir tvo virkilega góða leiki) og svo kom Peter Crouch inn fyrir Fernando Morientes og þegar stutt var eftir kom Kewell inn fyrir Cisse.
Sóknin breyttist við þetta og Liverpool fór að ógna meira. Crouch fékk frábært skallatækifæri, en skallaði beint á Sörensen. Svo komst Zenden loks upp kantinn, gaf góða sendingu á Crouch, sem var dreginn niður í teignum af Liam Ridgewell. Steve Bennet dómari dæmdi réttilega vítaspyrnu. Fyrirliðinn tók spyrnuna og skoraði örugglega úr henni, aðeins 7 mínútum fyrir leikslok. Frábært fyrir Gerrard í hans 300. leik fyrir Liverpool.
Aðeins nokkrum mínútum seinna komst Liverpool aftur í góða sókn. Kewell komst upp hægri kantinn, gaf fyrir á Crouch, sem var óheppinn að skora ekki. Boltinn fór út til Zenden, sem gaf aftur á Crouch, sem var aftur óheppinn að skora, en boltinn skoppaði út til Xabi Alonso, sem þrumaði honum í hægra hornið, óverjandi fyrir Sörensen.
Semsagt, miðjusnillingarnir, Xabi og Stevie skoruðu mörkin, en Peter Crouch átti stóran part í þeim báðum. Það vantar svo fáránlega lítið að hann skori fyrir þetta lið, en hann átti virkilega góða innkomu í þessum leik og gaf okkur betri vídd í sóknarleiknum.
Maður leiksins: Ég eiginlega er ekki alveg 100% viss um hvern ég á að velja. Xabi spilaði aftur virkilega vel og Jamie Carragher bjargaði okkur nokkrum sinnum virkilega vel, en Milan Baros er ekki auðveldasti framherji í heimi til að dekka. Svo átti Cisse virkilega góða spretti í fyrri hálfleik, en hvarf í seinni hálfleik.
En ég held að ég velji Steven Gerrard. Hann var að leika sinn 300. leik fyrir liðið og var ógnandi fyrir liðið og vann einnig gríðarlega vel fyrir allt liðið. Frábært fyrir hann að skora þetta mikilvæga mark í þessum tímamótaleik fyrir Liverpool.
En núna er komið tveggja vikna frí hjá Liverpool vegna landsleikjahlés. Við erum núna í fyrsta skipti búin að vinna tvo leiki í deildinni í röð og alls þrjá leiki í röð í öllum keppnum. Næsti leikur er eftir tvær vikur gegn Portsmouth á Anfield, sem við eigum auðvitað klárlega að vinna og þar á eftir kemur svo úrslitaleikurinn í Meistaradeildinni gegn Real Betis á Anfield.
Við getum allavegana (í fyrsta skipti í vetur) farið sáttir inní þetta landsleikjahlé. Þetta lið er á réttri leið.