beach
« Ég hef (alltaf) rétt fyrir mér! | Aðalsíða | Reina heldur hreinu aftur »

05. nóvember, 2005
Aston Villa 0 - Liverpool 2

Jæja, þetta er allt að gerast. Fyrsti sigur okkar á útivelli staðreynd!!! Góður 0-2 sigur gegn Aston Villa í Birmingham.

Liverpool hefur núna unnið þrjá leiki í röð og eftir tapið gegn Crystal Palace (sem var vonandi botninn á leiktíðinni), þá er markatalan í þessum þrem leikjum 7-0!

Þetta var kannski ekki auðveldur sigur, en Liverpool átti skilið að vinna þennan leik, þrátt fyrir að maður hafi á tímabili grunað að þetta yrði típískur útileikur, þar sem við myndum ekki ná að skora.

En aldrei þessu vant, þá kláruðum við leikinn. Við vorum betri nær allan tíma og þrátt fyrir að það hafi tekið 82 mínútur að skora fyrsta markið, þá allavegana kláruðum við dæmið.

En allavegana, Rafa gerði bara eina breytingu frá því gegn Anderlecht og Cisse kom inn fyrir Crouch:

Reina

Finnan - Carragher - Hyypiä - Riise

Gerrard - Alonso - Sissoko - García

Cissé - Morientes

Liverpool var betraa liðið nær allan leikinn, fyrir utan kannski um 10 mínútna kafla í seinni hálfleik, þar sem Villa ógnaði vel. Það kom sennilega engum á óvart að lang hættulegasti leikmaðurinn þeirra var Milan Baros.

Liverpool náði ekki að skapa neitt alltof mörg færi í fyrri hálfleik. Cisse, Gerrard og Garcia skiptust ótt og títt á stöðum og virstust allir spila á hægri kantinum hluta af leiknum. Cisse lagði Gareth Barry gjörsamlega í einelti í leiknum. Hefði Cisse bara fengið betri stuðning frá Morientes, þá hefðu þeir örugglega skorað einhver mörk.

Cisse fékk þó besta færi fyrri hálfleiksins, þegar hann komst aleinn inn fyrir vörnina, um 15 metrum á undan næsta manni. En í stað þess að reyna að skora ákvað Cisse að reyna að drepa Sörensen með skotinu, svo að Daninn varði.

Í seinni hálfleik þá datt leikur Liverpool nokkuð niður og Aston Villa byrjaði að ógna. En það má segja að skiptingarnar hjá Rafa hafi gengið virkilega vel upp. Fyrstur kom Zenden inn fyrir Luis Garcia (sem virtist þreyttur eftir tvo virkilega góða leiki) og svo kom Peter Crouch inn fyrir Fernando Morientes og þegar stutt var eftir kom Kewell inn fyrir Cisse.

Sóknin breyttist við þetta og Liverpool fór að ógna meira. Crouch fékk frábært skallatækifæri, en skallaði beint á Sörensen. Svo komst Zenden loks upp kantinn, gaf góða sendingu á Crouch, sem var dreginn niður í teignum af Liam Ridgewell. Steve Bennet dómari dæmdi réttilega vítaspyrnu. Fyrirliðinn tók spyrnuna og skoraði örugglega úr henni, aðeins 7 mínútum fyrir leikslok. Frábært fyrir Gerrard í hans 300. leik fyrir Liverpool.

Aðeins nokkrum mínútum seinna komst Liverpool aftur í góða sókn. Kewell komst upp hægri kantinn, gaf fyrir á Crouch, sem var óheppinn að skora ekki. Boltinn fór út til Zenden, sem gaf aftur á Crouch, sem var aftur óheppinn að skora, en boltinn skoppaði út til Xabi Alonso, sem þrumaði honum í hægra hornið, óverjandi fyrir Sörensen.

Semsagt, miðjusnillingarnir, Xabi og Stevie skoruðu mörkin, en Peter Crouch átti stóran part í þeim báðum. Það vantar svo fáránlega lítið að hann skori fyrir þetta lið, en hann átti virkilega góða innkomu í þessum leik og gaf okkur betri vídd í sóknarleiknum.


Maður leiksins: Ég eiginlega er ekki alveg 100% viss um hvern ég á að velja. Xabi spilaði aftur virkilega vel og Jamie Carragher bjargaði okkur nokkrum sinnum virkilega vel, en Milan Baros er ekki auðveldasti framherji í heimi til að dekka. Svo átti Cisse virkilega góða spretti í fyrri hálfleik, en hvarf í seinni hálfleik.

En ég held að ég velji Steven Gerrard. Hann var að leika sinn 300. leik fyrir liðið og var ógnandi fyrir liðið og vann einnig gríðarlega vel fyrir allt liðið. Frábært fyrir hann að skora þetta mikilvæga mark í þessum tímamótaleik fyrir Liverpool.


En núna er komið tveggja vikna frí hjá Liverpool vegna landsleikjahlés. Við erum núna í fyrsta skipti búin að vinna tvo leiki í deildinni í röð og alls þrjá leiki í röð í öllum keppnum. Næsti leikur er eftir tvær vikur gegn Portsmouth á Anfield, sem við eigum auðvitað klárlega að vinna og þar á eftir kemur svo úrslitaleikurinn í Meistaradeildinni gegn Real Betis á Anfield.

Við getum allavegana (í fyrsta skipti í vetur) farið sáttir inní þetta landsleikjahlé. Þetta lið er á réttri leið.

.: Einar Örn uppfærði kl. 14:37 | 696 Orð | Flokkur: Leikskýrslur
Ummæli (20)

Sammál Hafliða, fannst Carragher algjör yfirburðamaður í Liverpool liðinu í dag. Vonandi að hann fari að spila af sama krafti og hann er þekktastur fyrir.

Svo fannst mér sóknarmenn liðsins í dag hver öðrum verri. Ég var farinn að vonast til þess að Morientes væri eitthvað að vakna til lífsins eftir tvo fína leiki en hann var hörmulegur í dag. Vona að hann hafi verið hálf meiddur og það hafi verið að há honum. Cissé fannst mér ekki líklegur til eins eða neins nema færið sem hann fékk í fyrri hálfleik. Hann getur ekki tekið þátt í neinu spili og þegar hann fær boltann þá er það eina sem hann gerir er að setja hausinn undir sig og rjúka af stað með yfirleitt litlum sem engum árangri. Mér finnst Cissé koma að mestum notum þegar lið koma hátt upp á völlinn á móti Liverpool og það myndast pláss fyrir aftan varnir andstæðinganna (eins og t.d. færið hans í fyrri hálfleik í dag og svo gerðist það sama stuttu seinna en þá var hann rangstæður.) Crouch var nú sennilega skástur þeirra þriggja í dag þó svo mér hafi ekki fundist hann neitt sérstakur. Hann átti að skora amk. tvö mörk á þessum tíma sem hann spilaði. Mér fannst bara alltof augljóst með að hann þjáist af of litlu (engu!!) sjálfstrausti en það kemur að sjálfsögðu um leið og hann nær að skora.

En allavega góður útisigur, það hefur ekki verið svo mikið af þeim að undanförnu. Liðið var heilt yfir að spila þokkalega en sóknarleikurinn og sóknarmennirnir eru enn stórt vandamál í mínum huga.

Atli sendi inn - 05.11.05 18:09 - (
Ummæli #9)

Sáttur við þennan sigur í dag. Jú, spilið datt frekar mikið niður á köflum en það er ákveðin kúnst í því að geta unnið útileiki án þess að spila sérlega vel. Í dag tókst okkur það og vonandi er þetta upphafið að því sem koma skal á útivelli í vetur.

Ég var sáttur við Cissé, hann var út um allt og okkar hættulegasti maður, og svo var ég meira og minna sáttur við frammistöðu liðsins. Það áttu fáir stórleik, García, Finnan og Riise voru t.d. sýnilega þreyttir eftir langa törn núna, en liðið í heild sinni var mjög heilsteypt.

Þá finnst mér ég verða að hrósa Peter Crouch fyrir sína innkomu. Á þeim 15 mínútum eða svo sem hann spilaði bjó hann til dauðafæri fyrir Gerrard, fékk eitt dauða-dauða-DAUÐA-skallafæri sjálfur sem hann hefði átt að skora úr, og kom mikið við sögu í báðum mörkunum okkar. Það er ekki of sterkt til orða tekið að segja að Crouchie hafi breytt leiknum til hins betra með innkomu sinni, og sennilega á hann hrós skilið fyrir þessi þrjú stig í dag.

Á móti kemur að vonbrigði dagsins var Fernando Morientes. Ég var sáttur við leik hans fyrir viku gegn West Ham, þótt svo að hann næði ekki að skora þá, og mér fannst hann virkilega góður þessar 50 mínútur sem hann spilaði gegn Anderlecht. Hann náði líka að skora þá, þannig að nú hélt ég að hann myndi loksins reka af sér slyðruorðið og sýna okkur hvað hann getur - svona leikreyndur maður eins og hann bara hlýtur að njóta sín nú þegar pressan er horfin á burt.

En neinei, þess í stað spilar hann sennilega sinn slappasta leik fyrir okkur á tímabilinu, og ég er bara hreinlega hættur að skilja hvað er í gangi með hann. Við vitum að hann getur svo miklu meira, en hann virðist ekki hafa trú á því sjálfur - gott dæmi um það er þegar Cissé tók Barry í nösina í fyrri hálfleik úti við hornfána, lék inn í teiginn og gaf lágan bolta fyrir markið alveg þvert yfir markteigslínuna. García tók hlaupið alla leið af kantinum og var næstum því kominn í boltann á nærstönginni, en á sama tíma var enginn á fjær því Morientes var bara áhorfandi að þessu öllu saman úti við vítapunktinn, í stað þess að keyra að fjærhorninu og reyna að pota eins og alvöru framherjar gera.

Crouch og Cissé hljóta að byrja inná í næsta leik. Þeir eru að spila betur en Morientes núna (fyrir utan Anderlecht-leikinn, þar sem Crouch var slappur, hefur hann verið almennt góður í vetur, ólíkt Nando) … við bara getum ekki haldið áfram að gambla á mann sem við vitum aldrei hvenær spilar vel og hvenær illa.

Og já, það er engin spurning hver var maður leiksins. Hafi dagurinn í dag verið einvígi þá endaði það einhvern veginn svona: Jamie Carragher 25 - Milan Baros 0! Það var engu líkara en að Legend hefði tekið það að sér að elta Milan á röndum og reyna að eyðileggja allt fyrir honum - í hvert sinn sem Milan fékk boltann og/eða reyndi eitthvað, þá var Carra undantekningarlaust mættur til að eyðileggja það fyrir honum. “Welcome to football, lad!” :-)

Kristján Atli sendi inn - 05.11.05 21:41 - (Ummæli #12)

Frábært að sigrja á útivelli. Mér fannst liðið í heild sinni gott og miðjan með Alonso, Sissoko og Gerrard á hægri vængnum er fyrnasterk.

Ég held áfram linnulausum áróðri mínum fyrir því að Gerrard spili áfram á hægri kantinum. Leikmaður eins og Gerrard á að vera frjáls. Þegar þú spilar á miðri miðjunni ertu alltaf með varnarhlutverkið bak við eyrað.

Svo verð ég að viðurkenna að ég skil ekki þetta jákvæðni í garð Crouch. Hann er svo langt frá því að vera í Liverpool klarssa. Í dag lagði hann upp eitt færi þar sem hann fékk að hlaupa einn út á kannt og sækja boltann og hlaupa svo með hann inn í teig. Það er útilokað að hann myndi hafa gert það sama ef einn varnarmaður hefði verið á leið hans. Svo klúðraði hann 2-3 þremur dauðafærum þar af einum deddara sem var algerlega sambærilegur þessum sem Sissé fékk.

Og ég tek svo undir með Atla varðandi Sissé. Hann nýtist ekki í neinu spili. Og af hverju átti Morientes að hlaupa inn í þegar Cissé sendi boltann fyrir markið eftir að hafa unnið hann út á kannti. Af hverju sendi hann ekki bara boltann á Morientes sem var frír út í teig. Og svo stendur hann bara og argast út í allt og alla. Cissé er að mínu viti frábær markaskorari sem gæti plumað sig vel í slakari deildum en ensku úrvalsdeildinni. Enska úrvalsdeildin er því miður það sterk að þú þarft að hafa fleiri hæfileika en að geta hlaupið hratt. Ef eini hæfileikinn þinn er svo að skora mörk þá þarftu að skora fleiri mörk en Cissé hefur gert hingað til.

Þá vil ég hrósa Zenden fyrir frábæra innkomu. Að mínu viti sterkasti vinstri kanntmaðurinn okkar í dag. Ég væri svo til í að spila með Kewell frammi í næsta leik með Morientes.

Ég er alls ekki búinn að gefast upp á Morientes hann á eftir að reynast okkur vel í vetur.

Annars frábær útisigur og frábært að Rafa er hættur með rotation-rugl kerfið.

Áfram Liverpool!

Hössi sendi inn - 05.11.05 22:24 - (
Ummæli #13)
Senda inn ummæli

Athugið að það tekur smá tíma að hlaða síðuna aftur eftir að ýtt hefur verið á "Staðfesta".

Hægt er að nota HTML kóða í ummælunum. Hægt er að nota a href, b, br, p, strong, em, ul, li og blockquote

Við áskiljum okkur allan rétt til að eyða út ummælum, sem eru á einhvern hátt móðgandi, hvort sem það er gagnvart stjórnendum síðunnar eða öðrum. Þetta á sérstaklega við um nafnlaus ummæli.

Nafn:


Tölvupóstur (ath. póstfangið birtist ekki á síðunni):


Heimasíða (ekki nauðsynlegt):
:smile: :biggrin: :biggrin2: :blush: :confused: :laugh:

:mad: :rolleyes: :shock: :sad: :tongue: :wink:

Ummæli:


Muna upplýsingar?





Flokkar

Almennt · Enski Boltinn · Fjölmiðlar · Landslið · Leikmannakaup og sölur · Leikmenn · Leikskýrslur · Liverpool · Meiðsli · Meistaradeild · Slúður · Topp10 · Upphitun · Vangaveltur · Veðmál · Þjálfaramál ·

Um Síðuna

Um Síðuna

Um höfundana

Einar Örn

Kristján Atli

Aggi

Síðustu leikir

·Aston Villa 0 - Liverpool 2
·Liverpool 3 - Anderlecht 0
·Liverpool 2 - West Ham 0
·C. Palace 2 - Liverpool 1 (uppfært)
·Fulham 2 - Liverpool 0

Síðustu Ummæli

Aggi: Frábær sigur og verðskuldaður. Loksin ...[Skoða]
Satan: Góður sigur! Ég held að Cissé þyrfti ...[Skoða]
Davíð Már: Frábært að vinna 2-0, vonandi að við séu ...[Skoða]
einar: fyrir mitt leyti, þá fannst mér liverpoo ...[Skoða]
Stjáni: Ég væri til í að sjá Kewell og Cisse sam ...[Skoða]
Sigtryggur Karlssons: Til hamingju félagar, glæsilegt. "Góður ...[Skoða]
Hössi: Sigrja er nýyrði sem ég var að finna upp ...[Skoða]
Hössi: Frábært að sigrja á útivelli. Mér fannst ...[Skoða]
Kristján Atli: Sáttur við þennan sigur í dag. Jú, spili ...[Skoða]
Hafliði: Þó svo að kommentin séu færri þegar að v ...[Skoða]

Síðustu færslur

· Reina heldur hreinu aftur
· Aston Villa 0 - Liverpool 2
· Ég hef (alltaf) rétt fyrir mér!
· Aston Villa (og Milan Baros) á morgun!
· Moro, Xabi, Garcia og Reina í landsliðinu
· Dudek hefur ekki gefist upp.

Tenglar

Einar :: Vefleiðari

JupiterFrost

NewsNow Liverpool

ESPN

Cubs

BBC

Liverpool (official)

Liverpool.is

This Is Anfield




Við notum
Movable Type 3.121

Efni þessarar síðu er birt undir skilmálum frá Creative Commons.

Creative Commons License