29. október, 2005
KRISTJÁN ATLI: Jæja, okkar menn jöfnuðu sig af erfiðleikum liðinnar viku í dag með fínum 2-0 sigri á West Ham á Anfield. Eftir þennan leik erum við komnir í 13 stig og í 11. sætið í deildinni, sem er auðvitað ekki nærri því nógu gott en þó skref í rétta átt. Róm var ekki byggð á einum degi, og allt það dæmi, þannig að í dag getum við allavega glaðst yfir því að liðið sé komið á beinu brautina aftur.
Rafa kaus að hafa byrjunarliðið í dag með þessum hætti:
Reina
Finnan - Carragher - Hyypiä - Riise
Gerrard - Sissoko - Alonso - García
Cissé - Morientes
Fyrri hálfleikur fór hægt af stað og það var lítið að gerast fyrsta kortérið eða svo. Maður hafði áhyggjur af því að sama lognmollan og þokan lægi yfir liðinu eins og í síðustu tveimur leikjum, en eftir því sem fór að líða á virtist liðið finna fæturna og menn fóru að láta boltann ganga. Það skilaði sér strax í nokkrum ágætum hálf-færum fyrir Cissé og Morientes, en þó engu alvarlegu strax.
Á 17. mínútu kom svo fyrsta markið; eftir hornspyrnu frá vinstri skallaði varnarmaður West Ham boltann út úr teignum, þar lenti hann beint á Alonso sem skaut viðstöðulausu skoti fast að marki. Boltinn fór í höfuð Tomas Repka og breytti örlítið um stefnu og þaðan í bláhornið, eitt-núll. Alonso er núna kominn með tvö mörk í deildinni.
Eftir markið hægðist aðeins um aftur og okkar menn virtust sáttir við að stjórna leiknum frá miðjunni og reyna að sækja hratt á fáum mönnum, á meðan West Ham liðið var algjörlega úti á túni og ekki að skapa nokkurn skapaðan hlut. Við náðum að ógna nokkrum sinnum fyrir hlé en engin alvöru færi sköpuðust.
Síðari hálfleikurinn fór svipað af stað og sá fyrri, rólegur og yfirvegaður af hálfu okkar manna og Hamrarnir í erfiðleikum með að gefa 2-3 sendingar á milli manna. Og eins og í þeim fyrri þá óx Rauða hernum ásmegin eftir því sem leið á og síðustu 20 mínúturnar eða svo vorum við í nær stanslausri sókn. Einu skiptin sem Hamrarnir ógnuðu okkur var með hornspyrnum og/eða föstum leikatriðum, en það var ekkert sem þeir Finnan, Carra, Hyypiä og Riise réðu ekki við.
Það var síðan á 82. mínútu sem að Liverpool innsiglaði sigurinn; við náðum hraðri sókn upp miðjuna og boltinn barst út til vinstri á Bolo Zenden - þá kominn inn fyrir Djibril Cissé - og hann fór með hann inn í teig og lét bara vaða á markið. Boltinn fór í fjærstöngina og svo í bláhornið, 2-0 fyrir okkur og sigurinn í höfn. Þetta var fyrsta mark Zenden fyrir Liverpool og stórfín innkoma hjá honum!
Á heildina séð þá er varla hægt að vera ósáttur við liðið í dag, en samt hefðu menn getað spilað miklu betur. Reina átti tvær tæpar sendingar í dag en var annars traustur í öllu sem að honum kom, vörnin var frábær í dag og Steve Finnan þar fremstur meðal jafningja, við gjörsamlega drottnuðum yfir miðjunni (í alvöru, Reo-Coker og Etherington gegn Alonso, Sissoko og Gerrard?) og Luis García var líflegur fyrir framan miðsvæðið. Frammi reyndu þeir Cissé og Morientes, voru duglegir við að skapa sér svæði og búa til spil allan leikinn en hvorugur var á skotskónum í dag.
Ég þarf kannski að eyða auka málsgrein í Morientes, þar sem hann hefur verið svo mikið gagnrýndur. Mér fannst hann eiga fínan leik í dag, að öllu nema einu leyti. Hann var rosalega duglegur, frábær vinnsla í honum og hann var sískapandi bæði fyrir sig og aðra. Þá voru hann og Cissé loksins að finna hvor annan í lappir í dag, í fyrsta skiptið sem þeir líta út fyrir að geta orðið gott sóknarpar. HINS VEGAR … þá er Morientes ennþá álíka hættulegur/skæður og sápukúla fyrir framan markið, og á meðan hann ekki sýnir betri takta í þeim færum sem hann fær heldur hann áfram að halda vonbrigðum. Því miður, en þetta var samt skárra en oft áður.
MAÐUR LEIKSINS: Mér fannst liðið í dag í raun allt leik vel, menn voru svona á bilinu ‘fínir’ og upp í ‘rosalega góðir’ en það var einn maður sem stóð upp úr. LUIS GARCÍA var einfaldlega allt í öllu í sóknarleik okkar í dag - auðvitað hjálpaði það honum að Alonso, Sissoko og Gerrard voru í hörkuformi fyrir aftan hann, en það var samt frábært að fylgjast með honum í dag. Ef hann héti Robinho þá væri enska pressan að tapa sér yfir frammistöðu hans í dag, en þar sem hann er bara Tumi litli Þumall frá Spáni, þá verður þessi frammistaða eflaust hunsuð. Ekki af mér, samt, því mér fannst hann frábær og verðskuldaður maður leiksins.
Þessi frammistaða var betra en það sem við höfum séð undanfarið og nú er bara um að gera að anda aðeins léttar og leyfa sér að hlakka til næsta leiks: Anderlecht á heimavelli í Meistaradeildinni. Sá leikur gæti/ætti að geta orðið skemmtilegur!