24. október, 2005
Við erum víst að spila í Deildarbikarnum á morgun, gegn Crystal Palace á útivelli, í leik sem verður sennilega í meira lagi fróðlegur. Þetta Palace-lið vann okkur í deildinni sl. tímabil, og við vorum hreinlega heppnir að vinna þá 3-2 á Anfield í leik þar sem Milan Baros var hetjan okkar, skoraði þrennu. Andy Johnson, næst markahæsti leikmaður Úrvalsdeildarinnar í fyrra, skoraði sigurmarkið gegn okkur á útivelli.
Hvorugur þeirra verður með á morgun. Baros er náttúrulega farinn til Aston Villa, og Andy Johnson er meiddur. Sem betur fer, þetta hefði orðið talsvert erfiðari leikur ef hann hefði verið með.
Eftir því sem við best vitum þá munu leikmenn á borð við David Raven, Zak Whitbread, Darren Potter og sennilega Florent Sinama-Pongolle líka. Hvort þeir byrja allir inná veit ég ekki, og það er orðið gjörsamlega ómögulegt að sjá fyrir um byrjunarlið Rafa Benítez, en ég ætla samt að giska. Bara upp á gamnið:
Carson
Raven - Carragher - Whitbread - Warnock
Potter - Gerrard - Hamann - Zenden
Kewell
Cissé
Auðvitað er þetta bara út í lofið. Ég styð Rafa Benítez ennþá fyllilega og tel hann vera rétta manninn fyrir Liverpool, en hann er ekki undanþeginn gagnrýni þessa dagana og mér finnst stundum sem hann hrófli of mikið við byrjunarliðinu hjá okkur. Auðvitað verður hann að gera að að einhverju marki, við erum að spila það marga leiki að það myndi gera útaf við menn að vera alltaf í byrjunarliðinu, en stundum getur þetta orðið of mikið af því góða.
Kannski spilar hann með 4-4-2 á morgun og lætur Mori, Crouch eða Flo-Po spila í stað Cissé. Ég veit það ekki. En ég skýt allavega á það svona, sjáum hversu margar stöður ég hef svo réttar.
MÍN SPÁ: Ég get ekki að því gert, eftir laugardaginn leggst þessi leikur frekar illa í mig. Ekki af því að við erum lélegt lið, ekki af því að Rafa getur ekki lagað vandamálin, heldur af því að við sáum greinilega gegn Fulham hvað liðið hefur lítið sjálfstraust í leikjunum í Englandi - sérstaklega á útivelli. Við töpuðum gegn Crystal Palace í fyrra og þrátt fyrir fallið hafa þeir haldið meira og minna sama liði, sem þýðir að þeir eru bara líklegir til sigurs á morgun.
Þetta leggst bara illa í mig. Þannig að ég ætla að spá 2-1 tapi gegn Crystal Palace á morgun. Vona þó að ég hafi rangt fyrir mér.
Ef ekki annað … þá verður þetta athyglisverður leikur. Sjálfur væri ég til í að sjá hinn unga Ramón Calliste spila, er orðinn forvitinn að sjá hvað hann getur, en við erum með það marga framherja í aðalliðinu núna að ég efast um að hann komist að.
Áfram Liverpool!!!