23. október, 2005
Þegar leiknum í gær lauk slökkti ég á sjónvarpinu. Beið eftir leikskýrslu Einars, og þegar hún birtist skrifaði ég mín fáorðuðu ummæli og slökkti svo á tölvunni. Í gær ákvað ég að leyfa mér, í allavega sólarhring, að vera eitthvað annað en Liverpool-aðdáandi. Það koma nefnilega tímar þar sem maður fær nóg af liðinu sínu og í gær, þar sem ég sat í sófanum og fór alvarlega að velta fyrir mér hvers vegna ég væri að halda með þessu helvítis liði, var einn þessara tíma.
Þannig að nú hef ég í raun ‘ekki’ haldið með Liverpool í sólarhring. Ég hef gert aðra hluti. Svo í morgun hef ég farið aðeins yfir spjallsíðurnar og lesið ummælin við leikskýrsluna í gær, og mig langar til að koma frá mér nokkrum punktum, sólarhring eftir tapið. Stundum skýrist hugsunin aðeins eftir því sem lengra líður frá atviki, og því er ég feginn að það var Einar en ekki ég sem skrifaði leikskýrslu í gær. Ég hefði sennilega verið miklu harðorðari en hann.
En allavega, hér koma nokkrir punktar sem liggja þungt á mér - og sennilega flestum Púllurum - á þessum sunnudegi:
LEIKMENN: Ég ákvað eftir leikinn í gær að vera alveg vægðarlaus. Héðan í frá er ég hættur að verja leikmenn, bara af því að mér finnst þeir stundum vera gagnrýndir of mikið. Það er ennþá satt, mér blöskrar stundum það skítkast sem ákveðnir leikmenn verða fyrir (og oft óverðskuldað) en það má ekki leyna sannleikanum.
Josemi, Djimi Traoré, Fernando Morientes og Peter Crouch eru ekki nógu góðir fyrir Liverpool FC. Munurinn er samt í því hvernig við skilgreinum ‘nógu góðir’. Til dæmis, þá er Traoré búinn að vera hjá okkur í sex ár. Hann þarf ekkert að aðlagast eða komast yfir slæman kafla, það sem við erum að sjá núna er Traoré eins og hann er. Hefur frábæra eiginleika, en skortir stundum leikskilning, er mistækir með meiru og í raun ekki treystandi í vörnina til lengri tíma. Hann, eins og Jerzy Dudek, getur verið brilljant í 4-5 leikjum í röð og svo kostað okkur þrjú stig í þeim næsta (sbr. Chelsea um daginn).
Josemi er ekki jafn mistækur og hann, en heldur ekki jafn rosalega hæfileikaríkur. Josemi hefur í rauninni allt sem varnarmaður á að hafa … samt vantar bara eitthvað. Hann er ágætis kostur að hafa í varaliðinu, en við vitum að hann verður aldrei tekinn alvarlega sem fyrsti kostur í liðið. Finnan er svo miklu, miklu, miklu betri.
Morientes og Crouch eru síðan öðruvísi. Þeir eru svo nýkomnir, þeir brilleruðu hjá sínum fyrri liðum og, eins og klisjan segir, við vitum hvað þeir geta. Málið er bara það að það sem við vitum að þeir geta, það gátu þeir hjá öðrum liðum. Hjá Liverpool hafa þeir nánast ekkert sýnt, og þá sérstaklega Morientes.
Það skiptir engu hvort hann heitir Morientes, Shearer, Schevchenko eða Maradona. Ef hann spilar eins illa fyrir Liverpool og Morientes er að gera núna á hann ekkert erindi í liðið.
Okkur vantar betri leikmenn, og okkur vantar líka leikmenn sem spila samkvæmt getu. Höfum ekkert með menn að gera sem við erum alltaf að vona og bíða eftir að hrökkvi í gang, og sýni okkur það sem við sáum svo oft hjá þeim með öðrum liðum.
RÓTERING: Ef það er eitthvað sem má gagnrýna Rafa fyrir, þá er það sú staðreynd að mér finnst hann rótera leikmönnum of mikið. Hversu oft sáum við sama byrjunarliðið tvo leiki í röð hjá Gérard Houllier? Mjög sjaldan. Hversu oft höfum við séð Rafa stilla upp sama liði tvo leiki í röð? Svar: nánast aldrei!
Ég veit að við höfum “valkosti” í allar stöður, en ég er alvarlega á þeirri skoðun að liðið væri betra - stöðugra - ef hann bara tæki ákvarðanir. Veldi Warnock fram yfir Traoré eða öfugt, og héldi sig við það val. Annar þeirra á að vera #1 (að mínu mati Warnock) og fá að spila meira. Sama gildir um Zenden og Riise, sem fá sjaldnast nema 1-2 leiki í einu og eru svo hvíldir, og einnig menn eins og Cissé, Morientes, Sissoko, Hamann. Hvernig getum við t.d. ætlast til þess að Morientes komist í form ef hann fær að byrja inná í einum leik, og er svo á bekknum í þeim næsta, af því að allir þurfa að fá að spila? Hmm?
Ég held stundum að vandamálið sé það að Rafa hreinlega veit ekki hvert sitt sterkasta lið er. Ef allir væru heilir, engin meiðsli eða neitt, þá myndi ég vilja stilla upp þessu liði hjá Liverpool:
Reina
Finnan - Carra - Hyypiä - Warnock
García - Gerrard - Alonso - Kewell
Cissé - ???
Set spurningarmerkið, af því að með þetta lið væri möguleiki á smá sveigjanleika. Til að mynda gæti Rafa sett Sissoko eða Hamann á miðjuna og ýtt Gerrard fram í holuna, eða haft framherja með Cissé (þá yfirleitt Crouch), eða sett t.d. Zenden á vænginn fyrir García eða Kewell og ýtt þeim fram í holuna.
En bottom line-ið væri það að þarna værum við með 8-10 leikmenn sem væru að spila nánast hvern einasta leik. Vörnin, þessir fjórir, ættu að spila alla leiki að mínu mati. Það eykur stöðugleika ef menn eru ekki alltaf að aðlagast nýjum samherjum. Miðjan á að vera sjálfvalin og að mínu mati eiga García og Kewell alltaf að vera í byrjunarliðinu. Sáuð þið þá í gær? Þeir eru einu leikmennirnir sem við eigum sem eru að skapa fram á við. Með öðrum orðum, ómetanlegir í dag.
Og Cissé á ALLTAF AÐ VERA FRAMMI, því hann er sá eini sem við eigum í dag sem er að skora reglulega. Hinir framherjarnir okkar eru ekki einu sinni líklegir til að skora … nema Pongolle, sem hefur leikið einhverja 3-4 leiki og þegar skorað mark. Hann þarf ekki 20 leiki til að skora mark eins og Crouch og Morientes, af hverju fær hann ekki að spila meira?
Rafa þarf að finna sitt sterkasta byrjunarlið og halda sig við það, með örfáum breytingum á milli leikja. Sjáið bara Chelsea - þessi gríðarsterki hópur og samt róterar hann mjög lítið. Varnarlínan hans spilar alla leiki, hann breytir henni í raun bara í meiðslum, og miðjumennirnir þrír spila líka alla leiki. Drogba byrjar oftast frammi, en ekki alltaf, og svo róterar hann vængmönnunum sínum stundum en ekki mikið. Með öðrum orðum, níu af ellefu leikmönnum Mourinho eru nær alltaf í byrjunarliðinu: Cech, Ferreira, Terry, Gallas, del Horno, Makelele, Lampard, Essien, Drogba.
“Okkur vantar 2-3 nýja leikmenn í þetta lið.” Hversu oft höfum við ekki heyrt þetta?
Nú spyr ég ykkur, sem hafið séð liðið spila jafn vel og það gerði gegn Betís á útivelli, og jafn illa og það gerði í gær: haldið þið virkilega að Michael Owen hefði einhverju breytt í gær? Hefðum við haldið hreinu í gær, ef Gabriel Milito hefði verið í vörninni?
Svarið er einfalt: NEI. Og þá er ég ekki að dissa þessa menn, sem ég tók sem dæmi. Owen og Milito, og allir hinir frábæru leikmennirnir sem ég vildi óska að hefðu komið til okkar í sumar, eru toppklassa leikmenn sem myndu bæta hvaða lið sem er.
En á meðan liðið spilar með jafn lítið sjálfstraust og jafn litla trú á sjálfu sér og það gerði í gær - þá gætum við allt eins stillt upp heimsliðinu, og við hefðum samt tapað fyrir Fulham. Munurinn á liðunum í gær var sá að Fulham-menn komu af krafti inn í leikinn, höfðu trú á því sem þeir voru að gera og ætluðu sér að sigra hvað sem það kostar. Þeir voru grófir, þeir byrjuðu að tefja leikinn um leið og þeir komust yfir, þeir reyndu að fiska spjöld á okkar leikmenn, þeir vörðust með kjafti og klóm og þeir skoruðu þessi tvö mörk.
Þessi geta til að geta bitið á jaxlinn, kreppt hnefana og sagt við sjálfan sig: “Mér er sama þótt ég drepist í leiðinni, ég ÆTLA að vinna þennan helvítis leik!”
Fulham hafa þessa getu í dag. Við ekki. Það var ekki fyrr en á 65. mínútu, u.þ.b. þegar Luis García kom inná, að við fórum að spila eins og við ætluðum okkur að skora. Þar áður var þetta búið að vera ótrúlega stefnulaust, kraftlaust og í raun áhugalaust.
Mér er sama hvort leikmaðurinn heitir Josemi eða Steven Gerrard. Við getum rætt um getu leikmanna eins og við viljum … en það eina sem ég ÞOLI EKKI er þegar ég sé leikmenn spila eins og þeir hafi ekki trú á sér eða liðinu, þegar ég sé menn ekki gera sitt besta.
Í gær gerðu okkar menn ekki sitt besta. Svo einfalt er það bara.
Sem sagt, þrír punktar sem hafa legið mikið á mér síðan í gær. Við erum enn að spila með leikmenn í okkar liði sem kæmust ekki í byrjunarliðin hjá manchester united
eða Arsenal, hvað þá Chelsea, og á meðan það er staðreynd getum við ekki ætlast til að vera með jafn gott lið í deildinni og þessi þrjú lið.
Við erum ennþá að rótera allt of mikið, Rafa þarf að ákveða hvert sitt sterkasta 11-manna lið sé og halda sig við það í eins mörgum leikjum og hann getur.
Og, leikmennirnir sem eru valdir þurfa að hætta þessu helvítis væli og bara láta slag standa. Haldið þið að Cissé þjáist einhvern tímann af litlu sjálfstrausti? Ef svo er, þá sér maður það ekki á velli. Hann er grimmur, hann ætlar sér að skora, hann skammar menn alveg sama hvort þeir heita Jói Jóns eða Stevie G. Hann hefur trú á þessu.
Sama gildir um Jamie Carragher, Steven Gerrard, Xabi Alonso (sem var einn fárra sem reyndi í gær) og, miðað við leikinn í gær, Harry Kewell (hann var okkar besti maður, eini jákvæði punktur leiksins).
En á meðan menn eins og Morientes og Riise, sem fá boltann og hugsa bara “ég get ekki” eru að spila í Liverpool náum við aldrei árangri. Hversu oft reyndi Kewell að sóla mann í gær? Hversu oft reyndi Riise að sóla mann í gær? Hversu oft reyndi García að sóla mann í gær? Aðeins einn af þessum þremur hafði greinilega ekki trú á því að hann gæti sólað mann … og það var ekki Kewell eða García.
Úff, þetta er bara svo pirrandi. Jafnvel þótt liðið okkar sé gallað og gæti verið betra, þá vitum við að þessir leikmenn sem spiluðu í gær eiga að geta miklu betur en þetta. Ég þoli ekki að sjá þetta lið sífellt spila undir getu. Þoli það ekki!
Vona að þið njótið vikunnar.
Viðbót (EÖE): Ég er fullkomlega sammála þessu. Vil bæta nokkrum punktum varðandi bakverði, kantmenn og sókn.
Er það tilviljun að í fyrstu fjórum leikjunum okkar, á móti Boro, Sunderland, Tottenham og manchester united
spiluðum við með þessa vörn:
Finnan - Carra - Hyypia - Warnock
Og fengum á okkur EKKI EITT EINASTA MARK! Núll! Þessi fjögurra manna varnarlína hefur ekki fengið á sig eitt einasta mark í vetur, hvort sem er í deildinni eða Meistaradeildinni.
Í leiknum á móti Birmingham breytti Rafa vörninni (Josemi kom inn) og þá strax fengum við á okkur 2 mörk. Rafa breytti svo vörninni AFTUR í næsta leik (setti Traore í vinstri bakvörðinn) og við fengum á okkur FJÖGUR mörk.
Ég er ekki að segja að mörkin tvö og fjögur hafi verið Josemi og Traore að kenna. En það er augljóst að vörnin með Finnan, Carra, Hyypia og Warnock fékk ekki á sig eitt einasta mark í deildinni. Um leið og Rafa fór að breyta henni, þá hrundi vörnin. Hvaða fokking vit er að breyta vörn, sem fær ekki á sig mörk? Fyrir utan það náttúrulega að Finnan og Warnock eru umtalsvert betri framá við en Josemi og Traore.
Ef að Rafa telur að Warnock sé framtíðarbakvörður hjá enska landsliðinu, SETTU HANN ÞÁ Í LIÐIÐ. Það er ekki bara að varnarvinnan hjá Traore sé oft misjöfn, heldur er það hreinlega pínlegt að sjá hann sækja fram. Bjóst einhver við að vinstri kanturinn hjá okkur myndi skila einhverju í gær?
Ég er kominn með hundleið á framherjum með lítið sjálfstraust. Ég vil sjá menn, sem eru kokhraustir og hafa endalausa trú á sjálfum sér. Ég fékk nóg af þessu þegar að Heskey var hjá liðinu og Houllier var alltalf að blaðra um að hann hefði svo viðkvæmt sjálfstraust. Þjáist Wayne Rooney stöðugt af of litlu sjálfstrausti? Hvað með Thierry Henry, Samuel Eto’o, Nilsteroy og svo framvegis? Nei, þetta eru framherjar, sem eru eigingjarnir, hafa endalaust álit á sjálfum sér og eru sannfærðir um að þeir muni skora. Það á ekki við um Crouch og Morientes í dag og ég nenni hreinlega ekki að vorkenna þeim vegna skorts á sjálfstrausti.
Cisse á að vera sjálfkrafa í þessu liði þó ekki væri nema bara fyrir það að hann hefur trú á sjálfum sér.
Og þessi sífellda stefna Rafa að vera alltaf að rótera leikmönnum. Og ég hef hugsað mikið um samanburðinn á Chelsea og okkur. Einn stór munur á þessum liðum er að þeirra tveir bestu miðjumenn, makelele og Lampard eru ALLTAF í liðinu. Alonso og Gerrard eru hins vegar bara öðru hvort saman í liðinu okkar, hvort sem það er vegna meðisla eða hvíldar.
Og ég er 100% sammála því að ég vil sjá Kewell og Garcia spila á köntunum okkar næstu leiki, þeir eru hreinlega einu mennirnir, sem geta skapað eitthvað hjá þessu liði. Ef það á að gefa þeim hvíld, þá á EKKI að hafa Sissoko eða Riise á köntunum, heldur er Zenden eini maðurinn, sem getur leyst þá af.
Það er alveg hægt að gera gott lið úr þessum hóp. En til þess að það gerist, þá verður Rafa að hætta þessu hringli, sérstaklega með vörnina. Þegar að Finnan er orðinn heill, þá á að hann að setja aftur þá vörn, sem byrjaði tímabilið fyrir okkur og hætta með þennan fíflaskap með Josemi og Traore. Hann á svo að gefa Cisse, Garcia og Kewell fast sæti í liðinu í næstu leikjum.
Svo þarf hann að slá Morientes og Crouch hressilega, svo þeir hætti þessu væli og fari að skora fyrir þetta lið. Ég er að missa þolinmæðina, og þá sérstaklega með Fernando Morientes. Það efast enginn um hæfileikana hans, en svo lengi sem hann sýnir þá ekki fyrir okkar lið, þá er hann gjörsamlega gagnslaus fyrir okkur.