22. október, 2005
EÖE: [Draga andann djúpt]
Þetta Liverpool lið, sem mætir til leiks í ensku úrvalsdeildinni getur ekki talist neitt nema hörmung. Í Evrópu erum við frábært lið. Í ensku úrvalsdeildinni getum við hreinlega ekki talist meira en miðlungslið. Svo einfalt er það.
Þetta eru staðreyndirnar:
- Við erum í 12 sæti í ensku úrvalsdeildinni. Við höfum leikið 8 leiki, unnið 2, tapað 2 og gert 4 jafntefli. Úr 8 leikjum erum við með 10 stig. ALLS EKKI NÓGU GOTT!
Við höfum skorað 5 mörk í þessum 8 leikjum. Okkur hefur mistekist að skora í helming leikja okkar. EKKI NÓGU GOTT!
Markatalan okkar er mínus 3 mörk. ALLS EKKI NÓGU GOTT!
Aðeins einn framherji okkar hefur skorað mörk. EKKI NÓGU GOTT!
Í þremur af 8 leikjunum höfum við fengið á okkur 2 eða fleiri mörk. Vörnin, sem við héldum að væri nógu góð, er einfaldlega ekki nógu góð.
Í leiknum í dag byrjuðum við með miðvörð í vinstri bakverði, vinstri bakvörð á vinstri kantinum og vinstri kantmann á hægri kantinum. Við enduðum leikinn með okkar langhættulegasta sóknarmann á hægri kantinum. EKKI GOTT!
Að mínu mati:
Þá stillir ekkert lið í ensku úrvalsdeildinni upp lélegra bakvarðapari en við gerðum í leiknum í dag. Skoðið bakverðina hjá öllum liðunum og spyrjið ykkur hvort eitthvert lið myndi vilja skipta við okkur á Josemi og Djimi Traore.
Það má vel vera að Peter Crouch hafi leikið vel á síðasta tímabili. Það má einnig vera að Fernando Morientes hafi einu sinni verið góður framherji. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að þessir framherjar, sem kostuðu okkur 15 milljónir punda hafa ekki skorað eitt einasta mark fyrir okkur. Ég get talið upp allavegana 10-15 sóknarmenn úr ensku deildinni, sem ég myndi frekar vilja hafa í okkar liði heldur en þessa tvo.
Sissoko er enginn Steven Gerrard.
Luis Garcia ógnaði markinu oftar á 20 mínútum en Riise hafði gert næstu 70 mínútur á undan. Hann var að mínu mati okkar skásti leikmaður.
Ok, komum formsatriðunum frá. Rafael Benitez stillti liðinu svona upp:
Reina
Josemi - Carra - Hyypiä - Traoré
Kewell - Sissoko - Alonso - Riise
Cissé - Morientes
Stern John skoraði fyrra mark Fulham og Luis Boa Morte skoraði það seinna. Leikmenn Liverpool létu Luis Boa fokking Morte líta út einsog Diego Maradona og þeir létu Tony Warner, einhvern gaur, sem komst ekki einu sinni í varalið Liverpool, líta út einsog Gianluigi Buffon.
Þetta var ömurlegt, en það kemur manni svo sem ekki á óvart. Við vitum að við töpum þessum útileikjum. VIð vitum að við munum leika illa og við vitum að við munum klúðra þeim fáu tækifærum, sem við fáum.
Ég er að missa trúna. Svo einfalt er það. Ég er hreinlega að missa trúna á að Rafael Benitez sé rétti maðurinn fyrir Liverpool. Ég mun seint efast um að hann sé rétti maðurinn til að stýra Liverpool í Evrópukeppnum. Eeeen, alveg einsog sumir frábærir leikmenn finna sig ekki í enska boltanum, þá er að mínu mati vel hugsanlegt að sumir frábærir þjálfarar finni sig ekki í enska boltanum. Kannski er Rafael Benitez einn af þeim.
Síðan að Rafa tók við af Gerard Houllier, þá hefur Liverpool spilað 46 leiki í ensku úrvalsdeildinni. Við höfum unnið 19 leiki, gert 10 jafntefli og tapað 17 leikjum. Semsagt, við höfum unnið tveimur fleiri leiki en við höfum tapað. Fullkomlega óásættanlegt fyrir Liverpool.
Ef við skoðum árangur liðanna í deildinni á þessum tíma, sem Rafa hefur stjórnað, þá lítur hann svona út (lið og stigafjöldi)
Chelsea 122
Arsenal 99
Manchester United 95
Bolton 72
Tottenham 71
Manchester City 69
Liverpool 68
Midddlesboro 67
Semsagt, frá því að Rafa tók við þá erum við með sjöunda besta liðið í enska boltanum. Við erum ekki eitt af “fjórum stóru liðunum”, einsog við reynum að telja okkur trú um. Við rétt komumst inná topp 8. Heldur einhver Liverpool aðdáandi því fram í dag að við séum með betra lið en Tottenham? Ef svo er, af hverju sýnum við það ekki?
Rafa hefur einfaldlega engum árangri náð í enska boltanum. En ok, gefum honum tíma segja einhverjir. En hvaða liði tók Rafa við fyrir einu og hálfu ári? Var það lið í botnbaráttu? Nei, hann tók við fjórða besta liðinu á Englandi og hann hefur á þessum tíma breytt því í sjöunda besta liðið á Englandi. Á meðan hann hefur verið við stjórnvölinn hafa Tottenham. Bolton og MANCHESTER CITY komist fram úr okkur. Middlesboro, fokking Middlesboro hefur bara fengið einu stigi minna á þessu tímabili. Er þetta eitthvað grín?
Rafael Benitez hefur selt Michael Owen og Milan Baros, að mínu mati okkar bestu sóknarmenn. Þeirra í stað hefur hann keypt Peter Crouch og Fernando Morientes, sem hafa nákvæmlega EKKERT sýnt til að réttláta þau fjárútlát. Að sjá þá saman í farmlínunni í dag var í einu orði sagt sorglegt.
Benitez hefur keypt Peter Crouch, Josemi, Morientes, Nunez og Zenden. ENGINN þeirra hefur náð að sanna sig hjá Liverpool. Á móti hefur hann keypt einn leikmann, sem allir eru sammála um að sé frábær, Xabi Alonso, einn leikmann, sem getur verið frábær en mistækur í Luis Garcia og svo einn, Sissoko, sem hefur leikið ágætlega á stundum. Þetta er einfaldlega ekki góður árangur.
Rafael Benitez hafði NÆGA peninga úr að spila í sumar, en hann eyddi þeim ekki. Það er ekki stjórn Liverpool að kenna, heldur einfaldlega framkvæmdastjóranum.
Bæði stjórn liðsins og aðdáendur eru þolinmótt fólk. Við þoldum Gerard Houllier í mun lengri tíma en önnur lið og aðáendur hefðu gert. Því fer víðsfjarri að ég vilji að Rafael Benitez verði rekinn frá félaginu. Langt því frá! En hins vegar, þá hefur núna opinberlega ljóminn frá Istanbúl horfið og Benitez mun þurfa að þola gagnrýni frá okkur aðdáendum. Við getum ekki lengur varið hann og hans liðsval, leikmannakaup og taktík með þeim formerkjum að hann hafi unnið Meistaradeildina. Já, hinn evrópski Benitez vann Meistaradeildina með hinu evrópska Liverpool. Sá Benitez, sem leiðir liðið í ensku úrvalsdeildinni, þarf hins vegar að gera ansi margt til að sanna sig í augum mínum og annarra.
Ég trúi því enn að Rafael Benitez sé sennilega einn af fimm bestu þjálfurum í heimi. Ef hann væri ekki hjá Liverpool, þá gæti ég sennilega fáa nefnt, sem ég vildi fá í hans stað. Hann hefur sýnt það í Evrópukeppninni að hann er ótrúlega snjall.
En það er eitthvað við enska boltann, sem hann er ekki að fatta. Ég veit ekki nákvæmlega hvað það er. Ok, kannski þarf hann meiri tíma, en það er erfitt að segja það þegar að Martin Jol hefur á einu ári breytt Tottenham í bæði betra og skemmtilegra lið heldur en okkur. Reyndar hafa þeir ekki þurft að spila í Evrópu, sem myndi sennilega hafa umtalsverð áhrif á leik þeirra. En hvort sem við notum Evróopukeppnina sem afsökun eður ei, þá er einfaldlega eitthvað við enska boltann, sem Rafa Benitez hefur ekki enn áttað sig á.
Það á enginn skilið að vera maður leiksins. Næsti leikur er í deildarbikarnum gegn Crystal Palace og svo eigum við leik næsta laugardag gegn West Ham. Eitthvað þarf að breytast hjá þessu liði, svo mikið er víst.