15. október, 2005
Eh, hvað getur maður sagt? Takk, Djibril Cissé? Nei, ég meina, það var lítið annað að gerast í þessum leik, var það nokkuð?
Allavega, okkar menn í Liverpool gerðu sér mikið fyrir … en unnu Blackburn þó á endanum, 1-0 í leik sem hefði hæglega getað endað 5-0, en hefði líka hæglega getað endað 0-0. Þetta var sem sagt frekar skrýtinn leikur, minnti að vissu leyti á sigurinn gegn Sunderland í ágúst.
Rafa stillti upp eftirfarandi liði í byrjun leiks:
Reina
Josemi - Carragher - Traoré - Warnock
Finnan - Alonso - Sissoko - Zenden
Cissé - Crouch
BEKKUR: Riise, Hamann, García, Morientes, Carson.
Það er lítið hægt að segja um framvindu leiksins, þar sem þetta var allt svo einhæft eitthvað. Blackburn-menn mættu á Anfield til að ná 0-0 jafntefli og fóru langleiðina með að ná því. Þeir lögðust bara í vörn, negldu boltanum fram og vonuðu að Shefki Kuqi myndi ná að vinna einhverja skallabolta. Þeir gerðu í raun ekkert annað en þetta, allan leikinn. Svo er sagt að við spilum leiðinlegan bolta?
Eins og venjulega, þá voru okkar menn miklu meira með boltann og í sókn nær allan tímann … en eins og venjulega þá gekk mjög illa að skapa færi fyrir framherjana. Peter Crouch fékk ekki eitt einasta færi til að moða úr í dag, einu boltarnir sem rötuðu á hann komu langt utan af velli, og þá gerði hann oft vel og lagði upp tækifæri fyrir Cissé í teignum. Oftast var Brad Friedel þó vel á verði og greip seinni boltann frá Crouch, þannig að Cissé komst eiginlega framan af ekkert í nein góð færi.
Þegar líða fór á seinni hálfleikinn fór hann þó að fá sénsa. Hann átti tvo skalla úr upplögðum færum en framhjá, og svo komst hann einn innfyrir og virtist vera kominn inn í teiginn þegar varnarmaður Blackburn, Khizanishvili, felldi hann. Dómarinn ráðfærði sig við línuvörðinn og dæmdi svo aukaspyrnu (réttur dómur, miðað við endursýninguna) og rak Khizanishvili útaf. Þrjátíu mínútur búnar og við einum fleiri.
Eftir þetta pökkuðu Blackburn-menn endanlega í vörn, tóku framherja útaf fyrir miðvörð fyrir hlé, og okkar menn náðu lítið að skapa sér. Maður var farinn að pirrast allverulega í seinni hálfleiknum á aðgerðarleysinu, þegar við fengum aukaspyrnu örlítið vinstra megin til móts við teig Blackburn-manna. Alonso tók spyrnuna, rúllaði honum um tvo metra til hægri og þaðan negldi Djibril Cissé, hættulegasti maður okkar í dag, boltanum beint í netið. 1-0 sigur, staðreynd, þrjú stig sem betur fer í húsi.
Crouch fór svo fljótlega útaf og Fernando Morientes kom inná. Hann var fljótur að koma sér í færin, fékk a.m.k. þrjú dauðafæri til að skora en tókst á einhvern ótrúlegan hátt ekki að koma boltanum í netið.
Á endanum þó var sigurinn aldrei í hættu eftir að við komumst yfir, þetta var bara spurning um hvort við myndum skora sigurmarkið eða ekki og á endanum tókst það. Ég talaði við Einar Örn eftir leik, en hann var á leiknum í dag, og hann var sammála mér því að við gætum verið sáttir með stigin þrjú en ekkert ofboðslega sáttir við frammistöðu liðsins.
Við erum einfaldlega ennþá allt of lélegir fram á við, náum ekkert að sækja upp kantana og erum ekki að skila nógu mörgum miðjumönnum inn í teig. Zenden reyndi að mæta í teiginn í fyrri hálfleik og García í þeim seinni, en einu sinni og einu sinni er ekki nóg. Við erum ekki að ná að pressa lið, ekki einu sinni fyrir framan The Kop, og erum ekki að skapa nógu mörg færi.
Cissé hefði getað skorað þrennu í dag ef hann hefði ekki verið felldur þegar hann var kominn einn inn fyrir, og ef hann hefði nýtt þessi skallafæri sín í fyrri hálfleik. Þá hefði Morientes átt að skora a.m.k. eitt mark úr þessum þremur dauða-dauðafærum sínum undir lok leiksins. En þar fyrir utan vorum við ekkert að skapa okkur og því hefði þessi leikur - eins og ég sagði - alveg eins getað endað 0-0 … eða 5-0. Þetta var einn af þeim leikjum.
MAÐUR LEIKSINS: Mér fannst í raun Xabi Alonso og Momo Sissoko yfirburðamenn í miðjubaráttunni við Blackburn-menn (hversu leiðinlegur leikmaður er Robbie Savage? Fjandinn sjálfur, hvað hann er pirrandi… ) en ég verð að veita DJIBRIL CISSÉ nafnbótina. Hann átti í raun ekkert góðan dag í dag, var að pirra sig of mikið, klúðraði færum og slíkt, en hann á eitt sem verður aldrei tekið af honum. Ef hann er á vellinum, þá er líklegt að hann skori! Og staðreyndin er sú að í dag er hann eini leikmaðurinn sem við eigum sem býr yfir þessum kosti. Hann er núna markahæsti leikmaður okkar og kominn með tvö mörk í deildinni, tveimur meira en Morientes, Crouch og Pongolle til samans.
Sem sagt, í hnotskurn þá voru þetta góð þrjú stig og gott mark hjá Cissé en annars lítið til að hrópa húrra fyrir í þessum leik. Ég er bara feginn að Einar fékk sigur, það er fátt jafn fúlt og að fara á Anfield og horfa á markalaust jafntefli.