02. október, 2005

Ókei, leikskýrsla. Við vorum að enda við að tapa 4-1 á heimavelli fyrir Chelsea, stærsta tapið okkar síðan vorið 2003 þegar við töpuðum 4-0 fyrir manchester united
á Old Trafford.
Venjulega fer ég yfir það sem er jákvætt og það sem er neikvætt en í dag ætla ég ekki að gera það. Við höfum rætt nógu mikið um það jákvæða undanfarið, það er af nógu að taka þar, og ég er alveg handviss um að Rafa Benítez er á réttri leið með þetta lið. Í dag hins vegar mættum við Englandsmeisturunum á okkar heimavelli og vorum að vissu leyti teknir í kennslustund. Þeir sýndu okkur í dag, svart á hvítu, hvað þeir hafa fram yfir okkur. Hvað við þurfum að laga til að geta látið okkur dreyma um að keppa við þá í deildinni. Ég ætla að fara yfir það hér.
Þetta er það sem okkur vantar til að geta barist við Chelsea um sigur í Úrvalsdeildinni:
Betri vörn. Og þá meina ég: betri miðvörð með Jamie Carragher, fyrst og fremst. Sami Hyypiä er frábær miðvörður og í raun lítið yfir honum að kvarta fyrir utan tvennt: hann er að verða kominn á aldur og hann hefur engan hraða til að takast á við toppliðin lengur. Að sjá hversu illa Drogba fór með hann í þessum leik var átakanlegt. Þá er ég einnig að tala um vinstri bakvarðarstöðuna. Djimi Traoré gerði svakaleg mistök og gaf þeim fyrsta markið, og þar með í raun sigurinn í leiknum. Chelsea er lið sem gefur ekki eftir þegar þeir eru komnir með undirtökin í leiknum og því má að miklu leyti skrifa þetta tap á Djimi. Ef Warnock á að verða okkar fyrsti kostur í bakverðinum á hann að fá að tryggja sig í sessi þar.
Vængmenn. Í alvöru, ég hef sagt þetta svo oft en staðreyndin er sú að það er langt að bíða þangað til í janúar. Luis García, Florent Sinama-Pongolle og Djibril Cissé eru ekki kantmenn. Í okkar sterkasta liði væri García sennilega í holunni fyrir framan Gerrard og Alonso. Hinum megin hefur ekkert komið út úr Bolo Zenden, að mínu mati, og Jonny Riise var gjörsamlega úti á þekju í dag. Bauð ekki upp á neitt. Ef Harry Kewell getur komið inn og lagað vinstri vænginn fyrir okkur er það algjör himnasending, en það hlýtur að vera algjört forgangsatriði að fá einhvern á hægri kantinn strax í janúar.
Djibril Cissé. Í dag, 3-1 undir og svo 4-1, beið Rafa þangað til tíu mínútur voru eftir af leiknum með að setja Cissé inná. Að mínu mati bendir allt til þess að Cissé eigi sér nær enga framtíð hjá Liverpool. Ef svo er, þá verðum við að treysta Rafa í þeim efnum og þá vill ég líka bara sjá okkur selja hann í janúar. Ef Crouch og Morientes eiga að vera framherjarnir okkar þá er eins gott að fá bara pening fyrir Cissé og nota í kaup á Joaquín eða einhverjum álíka vængmanni. Því miður, þá er staðan ekki góð fyrir Cissé í dag.
Þrír punktar. Einfalt. Ekki satt? Kaupa fljótan miðvörð fyrir Sami, fá alvöru mann á vinstri vænginn og selja Cissé til að eiga fyrir Joaquín. Hljómar einfalt…
…málið er bara hvað við eigum að gera þangað til.
Í dag skoruðu Chelsea 2 mörk í seinni hálfleiknum, en mér er slétt sama um þau. Við þurftum að jafna, þurftum að taka sénsa og fara framar á völlinn og þeir refsuðu okkur. Þeir eru það góðir að þeir gera það bara, einfalt mál.
Það sem olli mér áhyggjum er það að nú höfum við spilað 180 mínútur á Anfield gegn þessu Chelsea-liði. Á þessum 180 mínútum vorum við í sókn nær allan tímann, með boltann megnið af tímanum og pressuðum þá hátt uppi á vellinum. Samt efast ég um að við höfum náð mikið meira en 5-6 skotum að marki á þessum 180 mínútum.
Ég hef svona takmarkaðar áhyggjur af þessu. Það er ömurlegt að tapa fyrir Chelsea, og 4-1 tap þýðir að mér (og ykkur hinum eflaust) verður strítt í vinnunni á morgun. En það breytir því ekki að við vorum að tapa fyrir Chelsea. Þeir eru einfaldlega allt of gott lið í dag, að mínu mati, til að nokkuð enskt lið geti gert sér vonir um að keppa við þá. Því miður, en það er bara staðreynd.
Ég hef hins vegar séð nóg til Arsenal, manchester united
og hinna liðanna í toppslagnum í vetur til að vita að við getum unnið þau, hiklaust. Að mínu mati eigum við, þrátt fyrir slæmt tap í dag, að setja stefnuna hiklaust á annað sætið í deildinni. Við getum það alveg, en til þess þarf liðið líka að fara að vinna leiki - jafntefli duga skammt - og til þess að vinna leiki þurfum við að fara að skora mörk. Rafa á ærið verk fyrir höndum.
p.s.
Eftir þennan upplífgandi dag fyrir okkur Púllarana er meira gleðiefni á leiðinni … tveggja vikna helvítis landsleikjahlé! Þetta er orðið svo óþolandi að það hálfa væri nóg, að maður þurfi að kyngja þessu Chelsea-tapi í tvær heilar vikur áður en við fáum séns á að laga stöðuna gegn Blackburn. Við erum í þrettánda sæti í deildinni næstu tvær vikur, við erum bara með sjö stig fram í miðjan október, við erum með tvö mörk í mínus í markatölu næstu tvær vikur! Óþolandi!
Allavega, við lærðum ansi margt um liðið okkar í dag en mig grunar að menn hafi líka lært ansi margt um Chelsea. Þetta lið verður ekki stöðvað á fótboltavellinum, ekki á meðan þeir geta keypt eins og þá lystir. Ímyndið ykkur ef við hefðum ótakmarkaða fjármuni, þá værum við búnir að kaupa menn á borð við Gabriel Milito, Joaquín, Simao Sabrosa, Dirk Kuijt, Patrice Evra, Pablo Ibanez og Sergio Ramos í dag. Liðið okkar væri töluvert öðruvísi en það er, ef Roman Abramovitch væri eigandi Liverpool. Það sama má segja um Arsenal og manchester united
… þess vegna getum við hinir ekkert keppt við þetta lið.
Er ekki kominn tími á að gera alvöru úr þessari hugmynd um launaþak á Englandi? Þetta Chelsea-lið mun valta yfir samkeppnina, ekki bara í vetur heldur næstu árin, ef ekkert verður að gert.