28. september, 2005
Jæja, þessi orrusta er búin en stríð vikunnar er aðeins hálfnað. Við mætum Chelsea-liðinu aftur í deildinni á sunnudag og þá enn á Anfield, en í kvöld gerðum við allavega 0-0 jafntefli við topplið Englands í stórskemmtilegum leik.
Ég var búinn að spá því að það væri svona 0-0 jafntefli í loftinu yfir þessum leik, og ég vissi sem var að fyrir leikinn myndu báðir þjálfarar í raun sætta sig við jafnteflið í þessum slag, en eftir að hafa séð hvernig þessar 90 mínútur spiluðust þá verð ég að viðurkenna að ég er eilítið fúll yfir því að hafa ekki innbyrt 3 stig í kvöld.
Bara svona til að gera langa sögu stutta, þá var jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik en Liverpool miklu, miklu betri í síðari hálfleik. Þannig að 0-0 jafntefli var kannski fyrirfram ásættanlegt, en miðað við hvernig leikurinn spilaðist þá verður það að teljast ósanngjarnt, held ég.
Liverpool-liðið hóf leik í kvöld með eftirfarandi liði:
Reina
Finnan - Carragher - Hyypiä - Traoré
Cissé - Gerrard - Hamann - Alonso - García
Crouch
BEKKUR: Carson, Josemi, Warnock, Riise, Zenden, Potter, Pongolle.
Í fyrri hálfleiknum voru bæði lið frekar varkár, svo virtist sem menn vildu halda hreinu framar öllu. Chelsea-liðið lá mjög aftarlega og virtist nær eingöngu reyna að sækja með því að dæla boltanum langt fram á Drogba og vona að hann næði að búa til eitthvað.
Liverpool-liðið virtist byrja varlega og reyna að koma García eða Cissé í stöður á kantinum, en það gekk illa. Þegar leið á hálfleikinn fórum við að koma framar á vellinum, Peter Crouch fór að fá meira til að moða úr og miðjan fór að sækja meira með. Fyrir vikið opnaðist svæði fyrir framan vörn okkar manna sem að Robben var nærri búinn að nýta sér.
Í raun eru bara þrjú atriði úr fyrri hálfleiknum sem eru eitthvað frásagnarverð. Fyrst, þá áttum við að fá klára vítaspyrnu í fyrri hálfleik. Crouch skallaði boltann niður í teiginn eftir fyrirgjöf Gerrard og þar kom Hyypiä aðvífandi, tók eina snertingu og var að fara að skjóta þegar Mickael Essien kom aðvífandi og þrumaði upp undir legginn á honum. Víti, en dómarinn dæmdi ekkert. Ekki í fyrsta sinn sem við erum sviknir um augljósar vítaspyrnur gegn Chelsea, og ekki í síðasta sinn heldur.
Nú, Chelsea-menn fengu besta færi leiksins þegar Arjen Robben komst einn á móti Hyypiä, lék á hann og skaut að marki úr góðu færi. Pepe Reina varði boltann vel yfir, en eftir á að hyggja vorum við heppnir að Robben ákvað að skjóta - ef hann hefði gefið á Drogba, sem var aleinn á vítapunktinum, hefðum við sennilega lent undir.
Þriðja atriðið sem vakti athygli í þessum annars spennandi og varkára hálfleik var ótrúleg frammistaða varnarsinnuðu miðjumanna liðanna, þeirra Dietmar Hamann og Claude Makelele. Þeir voru í kvöld, að öðrum ólöstuðum, langbestu leikmenn vallarins og það var hrein unun að sjá hvað þeir unnu marga bolta í fyrri hálfleiknum. Alltaf þegar maður heldur að Hamann sé orðinn gamall, svifaseinn, búinn að vera og allt það, þá kemur hann til baka og treður gagnrýninni upp í mann í næsta stórleik. Hann er aldrei jafn góður og þegar mest liggur við, og í kvöld - á meðan Alonso og Gerrard áttu erfitt með að finna fæturna - var Hamann allt í öllu á miðjunni hjá okkur. Að sama skapi er erfitt að ímynda sér þetta Chelsea-lið jafnsterkt án Makelele, sá gaur er úr gulli gerður og sennilega sá eini í Chelsea-liðinu sem er ómissandi.
Í seinni hálfleik urðu áherslubreytingar hjá báðum liðum, en þó á ólíkum grundvelli. José Mourinho kom greinilega út úr búningsklefanum ákveðinn í að tapa þessum leik ekki, sama hvað það kostaði, því Chelsea-liðið lagðist í vörn frá fyrstu mínútu hálfleiksins. Hinum megin virtist Rafa Benítez hafa barið smá hug og kjark í sína menn og sagt þeim að fara þarna út og reyna að hirða þrjú stigin, því í seinni hálfleiknum voru þeir Traoré og Finnan farnir að pressa upp vængina með sókninni og við hreinlega lágum í sókn.
Ég man einfaldlega ekki eftir sókn hjá Chelsea-liðinu í seinni hálfleiknum. Enn og aftur þá hélt vörnin þeirra og í raun voru einu vonbrigði kvöldsins þau að við skyldum ekki ná að skapa okkur nógu mörk skotfæri, miðað við hvað við vorum mikið í sókn og náðum að pressa þá í síðari hálfleik.
Luis García komst sennilega næst manna þegar hann prjónaði sig framhjá Paulo Ferreira en Cech var árvökull í markinu og greip vel inní hlaup hans. Pongolle, Alonso, Crouch, Cissé og Gerrard voru allir líka nærri því að komast í dauðafæri en allt kom fyrir ekki, Chelsea-múrinn stóðst áhlaupið í kvöld og Mourinho getur ekki annað en verið sáttur með að hafa sloppið með eitt stig frá Anfield í kvöld.
Þá gerðist annað atvik í síðari hálfleiknum sem var jafnvel ennþá umdeildara en brot Essien á Hyypiä í þeim fyrri. Liverpool fengu hornspyrnu um miðjan síðari hálfleikinn, boltinn kom inní teiginn og Jamie Carragher náði góðum skalla að markinu. Boltinn virtist sigla óáreittur að vinstra horni marksins þegar William Gallas gerði sér lítið fyrir og varði hann með útréttri hendinni. Cissé og Carragher, sem voru næst atvikinu, heimtuðu strax víti og Heimir Guðjónsson, sem var að lýsa leiknum ásamt Arnari Björnssyni, varð á orði að það vantaði bara að Gallas hefði gripið boltann og hlaupið með hann út úr teignum. Þetta var augljóst víti og endursýningarnar sýndu að dómarinn var vel staðsettur, en rétt eins og með Tiago á nýársdag þorði dómarinn ekki að dæma vítið. Enn og aftur sluppu Chelsea-menn með skrekkinn, þökk sé heigulsskap dómara kvöldsins.
MAÐUR LEIKSINS: Ég var í raun búinn að segja það. Ég var hrifinn af leik flestra leikmanna okkar - helst Stevie Gerrard og Djibril Cissé sem komust aldrei í snertingu við leikinn - en Dietmar Hamann stóð einfaldlega upp úr í annars mjög góðu liði. Þeirra megin fannst mér William Gallas spila vel og Petr Cech góður í markinu, en þeir hefðu samt einfaldlega skíttapað þessum leik ef Makelele hefði ekki verið inná vellinum. Hann var frábær í þessum leik, ekki síður en Hamann.
HELGIN: Tja, hvað skal segja? Breytir þessi leikur einhverju um það hvernig Rafa eða José nálgast stórleikinn í Úrvalsdeildinni á sunnudag? Ákveður Rafa að blása til sóknar, eða mun José leggja meiri áherslu á sóknarleikinn eftir fjóra daga? Ég veit það ekki … en ég veit það hins vegar að það liggur meira á því að við vinnum þá á sunnudaginn en það gerði í kvöld. Í kvöld hefðum við mátt við því að tapa fyrir Chelsea, við hefðum samt auðveldlega getað komist áfram í riðlinum þrátt fyrir tap í kvöld.
Tap á sunnudaginn þýðir hins vegar að við getum afskrifað sigur í Úrvalsdeildinni, og það rétt í októberbyrjun. Ég ætla að leyfa mér að vera svolítið melódramatískur og segja að það sé ekki bara mikilvægt fyrir Liverpool heldur fyrir enska knattspyrnu í heild sinni, að við náum að vinna þetta Chelsea-lið á sunnudaginn. Þeir eiga frekar auðvelda leiki framundan, alveg þangað til þeir þurfa að mæta manchester united
á Old Trafford í nóvember, þannig að ef þeir ná sigri gegn okkur á sunnudag er hætt við að þeir haldi áfram með fullt hús stiga einhverja þrjá mánuði inn í mótið. Ef það gerist gætu þeir verið búnir að nánast vinna deildina áður en jólavertíðin gengur í garð.
Andstæðingar Chelsea í deildinni fá einfaldlega ekki jafn góðan séns á næstunni á að setja rússnesku hraðlestina út af sporinu eins og n.k. sunnudag á Anfield. Hafi allir hlutlausir fótboltaaðdáendur haldið með Liverpool í kvöld er ljóst að jafnvel manchester united
stuðningsmenn munu hvetja okkur ákaft á sunnudaginn. Við einfaldlega verðum að vinna, okkar vegna og allra hinna liðanna í deildinni.
Hálfleikur. Þessi orrusta kláraðist án þess að sigurvegari væri krýndur … en stríðið er bara hálfnað.