27. september, 2005
Ef þið hafið ekki tekið eftir því áður, þá er Mark Lawrenson asni! Hef oft ætlað að fjalla aðeins um hann hér en sjaldnast haft geð í mér til að gera það. Mér finnst hreinlega ótrúlegt að þessi gaur hafi nokkurn tímann spilað fyrir Liverpool, því í greinum sínum og pistlum fyrir hina ýmsu miðla hefur hann sjaldan eða bara hreinlega aldrei nokkuð gott um Liverpool að segja.
Sjáiði t.d. nýjasta pistilinn hans fyrir Daily Post. Liverpool hefur titilvörnina í Evrópu með sigri gegn Betis, höfðu fram að síðustu helgi ekki fengið á sig mörk í deildinni og virðast bara almennt vera með mjög sterka vörn og frábæran markvörð fyrir aftan sig.
Nægir það Lawrenson? Neeei. Í dag segir hann að Pepe Reina gæti orðið liðinu dragbítur í vetur, og byggir þá skoðun sína á einu úthlaupi gegn Birmingham. Æðislegt!
Ég ætla ekki að sitja hérna og segja ykkur að Reina sé fullkominn/gallalaus markvörður. Hann gerði mistök í fyrra markinu gegn Birmingham, þegar hann reyndi að kýla fyrirgjöf frá markinu. Það tókst ekki og þaðan barst boltinn til Julian Gray sem gaf hann fyrir, þaðan sem Warnock skallaði hann óvart í netið. Óheppnismark en engu að síður átti Reina að gera betur í úthlaupinu. Síðara markið var síðan ekki honum að kenna, hann varði fast skot en hélt því ekki, varði frákastið og svo skoraði Pandiani, loksins … á meðan varnarmenn Liverpool stóðu hjá og boruðu í nefið. Það mark var ekki Reina að kenna að mínu mati, heldur þeim Carra og Hyypiä, sem voru algjörlega staðir.
En er þetta einhver ástæða til að skrifa heila grein og draga hæfni Reina og/eða getu til að leiða þetta Liverpool-lið næstu árin í efa? Svar: NEI … ekki nema þú sért að reyna með einhverju móti að koma höggi á Liverpool-liðið, daginn fyrir stærsta leik tímabilsins til þessa gegn erkifjendunum í Chelsea (sem Lawrenson virðist ekki geta hrósað nóg þessa dagana).
Eins og ég segi, þá er Lawrenson asni. Alan Hansen, David Fairclough, John Barnes og fleiri fyrrum leikmenn Liverpool hafa allir gagnrýnt liðið í fjölmiðlum … en þeir gera það á háttvísan máta. Að skrifa níðgrein um aðalmarkvörð liðsins, sem er nýkominn til Englands og er enn að læra á tungumálið, menninguna, fótboltann og hefur ekki gert sig seka um mikið meira en eina slappa kýlingu frá marki, er ekki háttvís máti. Lawrenson er asni!
Ég er of ungur til að muna eftir Lawrenson sem leikmanni en pabbi hefur sagt mér sögur af því að hann hafi verið frábær og rauður allt í gegn. Ég á persónulega erfitt með að trúa því þegar ég les suma pistlana hans, finnst oft eins og þetta hljóti að vera einhver hrekkur hjá pabba og að Lawrenson hafi í raun og veru leikið fyrir Everton, sem væri góð ástæða til að hata Liverpool.
Einnig: Góð samantekt BBC um nýja leikmenn Liverpool & Chelsea í sumar. Góð viðbót við þessa upphitunardaga fyrir stórleikinn annað kvöld…