beach
« Birmingham á morgun! | Aðalsíða | Chelsea-vikan hefst... (uppfært) »

24. september, 2005
B'ham 2 - L'pool 2

zenden_melchiot.jpgÚff, enn eitt helvítis jafnteflið. Og það í ansi hreint fróðlegum leik, sem að mínu mati sagði okkur ansi mikið um stöðu liðsins í dag. Bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt.

Svona yfir heildina litið, þá var þessi leikur bæði leiðinlegasti og skemmtilegasti leikur okkar í deildinni það sem af er. Fyrri hálfleikurinn var einfaldlega hrútleiðinlegur og maður var ekki beint bjartsýnn í hálfleik, staðan 0-0 og okkar menn ekkert að ná að sækja að ráði.

Seinni hálfleikurinn var síðan bara dramatík af hæstu gráðu og hin fínasta skemmtun, ótrúlegt en satt - svo virðist sem það geti verið gaman að horfa á leik í Úrvalsdeildinni? Hvern hefði grunað það?!?!?

Allavega, Rafa gerði fjórar breytingar frá því gegn manchester united og hóf leikinn með þessu liði:

Reina

Josemi - Carragher - Hyypiä - Warnock

Pongolle - Alonso - Hamann - Zenden
Gerrard
Crouch

BEKKUR: Carson, Finnan, Riise, García, Cissé.

Eins og áður sagði þá var fyrri hálfleikurinn ömurlega leiðinlegur. Birmingham-menn virtust vera sáttir við að liggja í vörn með 11 menn fyrir aftan boltann, á heimavelli, og því var þetta nær allan tímann bara spurning hvort okkar menn næðu marki eða ekki. Við áttum allan fyrri hálfleikinn, en eins og svo oft áður vantaði allt bit í sóknina okkar.

Emile Heskey var nærri því búinn að koma þeim bláu yfir á 26. mínútu þegar hann vann boltann af Carra og skaut vel að marki úr dauðafæri, en Reina sá við honum og varði vel með fótunum. Þetta reyndist vera bókstaflega eina færi Birmingham-manna í leiknum, að mörkum síðari hálfleiksins undanskildum.

Stuttu síðar braust Stevie Gerrard fram miðjuna og átti gott skot með vinstri að markinu. Maik Taylor, markvörður Birmingham átti aldrei séns í skotið en sem betur fer fyrir hann hafnaði boltinn í stönginni og þaðan út af hættusvæðinu. Nokkrum mínútum síðar átti Bolo Zenden gott skot af svipað löngu færi en boltinn fór rétt framhjá samskeytunum.

Hálfleikur, þrjú færi og 45 mínútur af leiðindum. Maður hefði betur leyst krossgátu en að eyða tíma í fyrri hálfleikinn í dag.

Liðin gerðu svo engar breytingar í hálfleik, þannig að maður sá fram á það sama, en það varð svo aldeilis ekki. Síðari hálfleikurinn byrjaði með jafnræði liðanna en svo óx þeim bláu ásmegin og eftir svona 10-15 mínútur af síðari hálfleik voru þeir hreinlega farnir að pressa okkur, án þess þó að skapa nokkur færi af viti. Þar fór fremstur í flokki Jermain Pennant, hægri vængmaðurinn knái, sem var þeirra besti maður í dag. Hann lét Warnock og Carra hafa fyrir laununum sínum í dag og náði að taka þá hvorn um sig illa einu sinni.

Rafa gerði svo breytingu þegar u.þ.b. hálftími var eftir, tók Sinama-Pongolle útaf og setti García inn. García var ekki búinn að vera inná nema í örfáar mínútur þegar Gerrard fékk boltann á miðjum vallarhelmingi Birmingham, stakk honum innfyrir vörnina og þar var García mættur - eini miðjumaðurinn sem við eigum í dag sem þorir að keyra inn í teig - og setti hann öruggt framhjá Taylor í fyrstu snertingu. 1-0 fyrir okkur og miðað við varnarstyrk okkar í haust þá hélt ég að þetta væri komið.

Ekki aldeilis. Fimm mínútum síðar vorum við komnir 2-1 undir. Það er erfitt að útskýra hvað gerðist, en það var engu líkara en að okkar menn bara hættu að reyna. Eins og þetta væri öruggt eða eitthvað. Birmingham-menn fóru bara beint í stórsókn og eftir smá pressu fyrir utan teig okkar manna náði Julian Gray fyrirgjöf frá hægri, sem virtist ætla að sigla hættulas beint í fangið á Pepe Reina í markinu. En þá rak Stephen Warnock hausinn í boltann og hann breytti um stefnu, fór yfir öxl Reina og í netið. 1-1, frekar klaufalegt mark en erfitt að ætla að ásaka Warnock eitthvað harkalega fyrir. Hann gerði sitt besta, en stundum gerist svona lagað bara.

Birmingham-menn gengu á lagið og tveimur mínútum síðar áttu þeir skot utarlega úr teignum. Reina varði en hélt ekki boltanum, Emile Heskey mætti fyrstur á svæðið og skaut en Reina varði aftur með fótunum frá honum, þrátt fyrir að vera liggjandi eftir fyrri markvörsluna. Það kom þó ekki að sök því að Walter Pandiani náði öðru frákasti og setti boltann inn - 2-1 fyrir Birmingham og maður spurði sig einfaldlega: hvar var vörnin? Menn horfðu á mann skjóta utarlega úr teignum, Reina varði og menn horfðu á Heskey taka frákastið og aðhöfðust ekkert, Reina varði aftur og enn horfðu menn bara á þegar Walter Pandiani náði þriðja skotinu að marki, og í það skiptið kom Reina engum vörnum við.

Ótrúlegur sofandaháttur hjá þessari “næstbestu vörn Englands” …

Þegar hér var komið sögu henti Rafa John Arne Riise inná fyrir Didi Hamann - skipting sem hefði mátt koma miklu fyrr - og við fórum að pressa þá til baka. Síðustu 20 mínútur leiksins vorum við einfaldlega í stórsókn. Þegar 8 mínútur voru eftir náði Peter Crouch að skalla boltann að marki eftir stórsókn okkar manna, boltinn fór í slána og niður á línuna fyrir aftan Taylor og þaðan virtist hann fara út í teiginn. Okkar menn hrópuðu á eitthvað - mark sýndist manni - og það ríkti smá ringulreið í teignum um stund. Dómarinn var samt viss í sinni sök, dæmdi víti og rak Kilkenny útaf, en endursýningin sýndi að hann hafði blakað boltanum af línunni með hendinni.

Vel dæmt þar og Djibril Cissé - laaangöflugasta vítaskyttan okkar í dag - skoraði örugglega úr vítinu. 2-2 og okkar menn höfðu 10 mínútur til að ná sigurmarkinu. Það gekk þó ekki, Cissé skaut framhjá úr góðu færi utarlega í teignum, Riise skaut himinhátt yfir fyrir utan teig og Peter Crouch skallaði boltann yfir slána af markteig eftir góða fyrirgjöf Cissé, þegar auðveldara virtist fyrir hann að skora.

Sem sagt, á endanum urðu 2-2 lokatölur leiksins. Förum aðeins yfir það jákvæða og neikvæða:

JÁKVÆTT: 2-2 jafntefli þýðir eitt stig úr leik sem tapaðist í fyrra. Enn erum við að bæta okkur í deildinni, tölfræðilega, og enn erum við taplausir. Þetta er svona leikur sem við hefðum tapað í fyrra, þannig að maður sér hvað Rafa meinar þegar hann segir að liðið sé stöðugra og öruggara í vetur. Við erum með betra lið en fyrir ári síðan, ekki spurning.

Luis García. Hann átti engan stórleik svosum í þennan hálftíma sem hann var inná, en ef það lék einhver vafi á því hvers vegna hann er í liðinu þá hlýtur hann að hafa dáið í dag. Hefðum við komist yfir ef hann hefði ekki verið inná? Einfalt svar: nei, því fyrstu 60 mínútur leiksins var nánast ekkert sem benti til þess að við gætum yfir höfuð komist inn í vítateig Birmingham-manna.

Peter Crouch og Djibril Cissé. Staðan er einfaldlega sú að við höfum ekki nógu góða vængmenn til að spila með 4-5-1. Því miður. Við erum með frábæra miðju, sterka vörn og alveg fullkominn framherja í þetta kerfi - Crouch eða Morientes, eiga báðir við hér - en á meðan við erum með svona steingelt vængspil þýðir ekkert að spila með 4-5-1. Og eftir að Cissé kom inná sýndu hann og Crouch enn og aftur það sem ég er alltaf að reyna að segja, þeir ná mjög vel saman. Af hverju þeir fá ekki að spila saman frá byrjun skil ég ekki, ef Crouch hefur enga miðjumenn til að senda á af því að hann er svo einangraður þarna frammi, því ekki bara að spila 4-4-2 og leyfa honum að mata Cissé á skallasendingum? Þeir ná vel saman, Rafa, leyfðu þeim að njóta þess!

NEIKVÆTT: Mörkin tvö sem við fengum á okkur sýndu að þótt liðið sé stöðugra og vörnin betri en á sama tíma í fyrra, þá er klaufaskapurinn og getuleysið sem einkenndi okkur á útivelli í fyrra aldrei skammt undan. Við munum fá á okkur mörk á útivelli í vetur, færri en í fyrra vonandi en samt einhver.

Zenden/Riise og Pongolle/García. Aðeins einn þessara fjögurra manna er einhver sérfræðingur í vængstöðunni, og mér finnst ekkert hafa komið út úr Zenden það sem af er tímabili. Við eigum ekki nógu góða vængmenn. Við erum í raun að spila sömu taktík og Chelsea núna, munurinn er bara sá að á meðan við erum að nota Riise og Pongolle á vængjunum, eða Zenden og García, þá eru þeir með Arjen Robben, Damien Duff, Joe Cole og Shaun Wright-Phillips. Þess vegna fá Drogba og Crespo meiri framleiðslu og stuðning í teignum en Crouch er að fá, vegna þess að þeir eru með menn sem réttlæta kerfið. Mikið djöfull þörfnumst við þess að fá Harry Kewell sterkan inn á næstu vikum…

Djibril Cissé á bekknum. Sko, hann er núna markahæsti leikmaður liðsins og er sennilega búinn að spila færri mínútur en allir aðrir leikmenn í 16-manna hópnum okkar í dag (fyrir utan Carson, að sjálfsögðu) … af hverju fær hann ekki að spila meira? Af hverju ekki að mæta á Anfield á miðvikudag, í stórleik gegn Chelsea, með Crouch og Cissé saman frammi, og láta þá finna fyrir almennilegri pressu? Því ég skal LOFA ykkur því að Terry og Gallas munu eiga mjööög auðvelt með Crouch á miðvikudaginn miðað við hversu steingelt vængspilið hjá okkur er.

MAÐUR LEIKSINS: Þetta er í rauninni erfitt val, þar sem mér fannst ekki neinn leikmaður liðsins skara neitt sérstaklega fram úr í dag. Ef ég ætti að velja einhvern myndi ég sennilega velja Gerrard fyrirliða, en hann var samt sem áður ekkert spes neitt frekar en hinir. Við getum miklu betur.

Jæja … jafntefli er betra en tap, það er þó jákvætt, en ég tek samt undir með Rafa í því að þetta eru tvö töpuð stig, frekar en eitt grætt stig. Nú ríður á að spila vel í næstu tveimur leikjum, það er liðið sem enginn á að geta unnið sem kemur í heimsókn!

Stór vika framundan en í dag finnst mér eðlilegt að við séum pirraðir yfir leik liðsins.

.: Kristján Atli uppfærði kl. 14:11 | 1639 Orð | Flokkur: Leikskýrslur
Ummæli (31)

Tvennt sem fer í taugarnar á mér hérna.

1) Hvernig menn geta endalaust tönglast á að þetta sé 4-5-1 kerfi sem Rafa er að stilla upp þegar það er deginum ljósara að sóknarlega á þetta að vera 4-2-3-1. Þetta er svona afbrigði af 4-5-1 og 4-2-4, fer eftir því hvort liðið sækir eða verst. Þrír menn, Zenden, Gerrard og Flo í dag, eru fljótandi sóknarmenn sem styðja við Crouch.

2) Hvernig menn geta síðan kennt Reina um fyrra markið. Nú getur vel verið að hann hafi ekki kallað, en hvernig í andskotanum vita menn það. Getur ekki verið að Warnock hafi ekki áttað sig á kallinu fyrr en og seint, ekki heyrt kallið eða eitthvað? Ég vil flokka þetta mark sem óheppni þar til annað kemur í ljós.

Ég er sammála þeim sem vijla frekar 4-4-2, en aftur á móti skil ég Rafa vel að vilja nota 4-2-3-1 þar sem það kerfi er mjög flexable og bíður upp á nokkra möguleika. En svo að það virki sem skyldi, þá verður leikmannahópurinn að bjóða upp á það. Ég er nefnilega sammála Kristjáni um að okkar hópur gerir það ekki í dag vegna skorts á kantmönnum. Maður myndi ætla að Zenden gæti leyst þetta hægra meigin(þó hann hafi svo sem ekki sýnt það ennþá) en við eingum engan sem getur það vinstra meigin. Ég hef mikla trú á Kewell í þessu kerfi þegar hann kemur aftur, hann vinstra meigin, Garcia fyrir aftan sóknarmanninn með nýjum hægri kantmanni. Xabi og Gerrard/Sissoko þá á miðjunni.

En það er annað sem veldur mér áhyggjum. Er ég sá eini sem finnst Xabi ekki hafa náð sér á strik hingað til á tímabilinu? Sendingar hans eru ekki jafn góðar og í fyrra og hann dreyfir spilinu ekki nærri því jafn vel og í fyrra. Einnig finnst mér hann missa boltann allt of oft og oft á klaufalegan og óþarfann hátt.

Innvortis sendi inn - 24.09.05 16:38 - (
Ummæli #8)

Rólegur Einar, rólegur

Davíð Már sendi inn - 24.09.05 21:18 - (Ummæli #17)

Jákvætt: Við skoruðum mörk (fleirtala).

Neikvætt: Töpuðum aftur 2 stigum. Fengum á okkur mörk. Erum ekki að virka vel í sókninni, því sóknarmaður okkar skorar eftir víti.

Call me crazy og gagnrýnið mig, en ég hefði gert meira til að fá Owen. Með Baros í attitude-adjustment hefðum við líka getað haldið Cisse-Baros-Owen-Crouch markahátíð... en nei nei... kantmennirnir eru að klikka. Margauglýst í sumar, altalað, ekki gekk það eftir. Betra að kaupa engan heldur en einhvern yfirverðlagðan... við skulum endilega tala um okkar viðkvæma stolt, þ.e. að við kaupum bara réttu menniná á rétta verðinu... hvað gerist í janúar? Sama og í sumar eða borgum við of mikið fyrir einhvern? ... Efast um það, Rafa veit sko best hvaða verð skal setja á hvern og einn.

Svo er spurning ... ef einhver af þeim sem um var talað í sumar kemur í janúar ... af hverju gat það ekki gerst í sumar? Hefur verðmiðinn lækkað? Viljum við mann sem ekki nýtist í meistaradeildinni?

Liverpool er gott lið, en skv. stöðu liða í deildinni þá eru bara þó nokkur lið betri. Charlton í baráttu við Chelsea?

Og by the way ... mér finnst alveg hárrétt að vera fúll eftir þennan leik. Þoli ekki þennan samanburð við síðasta keppnistímabil, þ.e. að við höfum unnið eitt stig á Birmingham miðað við í fyrra. Aarrrgh!

Eða hvað...? Á maður bara að vera jolly Pollýanna? Gott - við skoruðum mörk. Gott - töpuðum ekki. Gott - við erum taplausir. Frábært. Woo hoo!

Doddi sendi inn - 25.09.05 21:53 - (Ummæli #27)
Senda inn ummæli

Athugið að það tekur smá tíma að hlaða síðuna aftur eftir að ýtt hefur verið á "Staðfesta".

Hægt er að nota HTML kóða í ummælunum. Hægt er að nota a href, b, br, p, strong, em, ul, li og blockquote

Við áskiljum okkur allan rétt til að eyða út ummælum, sem eru á einhvern hátt móðgandi, hvort sem það er gagnvart stjórnendum síðunnar eða öðrum. Þetta á sérstaklega við um nafnlaus ummæli.

Nafn:


Tölvupóstur (ath. póstfangið birtist ekki á síðunni):


Heimasíða (ekki nauðsynlegt):
:smile: :biggrin: :biggrin2: :blush: :confused: :laugh:

:mad: :rolleyes: :shock: :sad: :tongue: :wink:

Ummæli:


Muna upplýsingar?





Flokkar

Almennt · Enski Boltinn · Fjölmiðlar · Heimsmeistarakeppni Félagsliða · Landslið · Leikmannakaup og sölur · Leikmenn · Leikskýrslur · Liverpool · Meiðsli · Meistaradeild · Slúður · Topp10 · Upphitun · Vangaveltur · Veðmál · Þjálfaramál ·

Um Síðuna

Um Síðuna

Um höfundana

Einar Örn

Kristján Atli

Aggi

Síðustu leikir

·Bolton 2 - L'pool 2
·Liverpool 1 - W.B.A. 0
·Everton 1 - L'pool 3
·Liverpool 2 - Newcastle 0
·Sao Paulo heimsmeistarar! (uppfært)

Síðustu Ummæli

MR.DALGLISH: það minnist enginn á það að annað mark l ...[Skoða]
Eiki Fr: Innvortis: Það þarf enga fótboltakennsl ...[Skoða]
Davíð Már: Mjög góður punktur hjá Dodda. Svo er sp ...[Skoða]
Jón Magnús: Mér finnst nú að sumir séu að fara á tau ...[Skoða]
Doddi: Jákvætt: Við skoruðum mörk (fleirtala). ...[Skoða]
Kristján Atli: Sem betur fer fyrir hann... ...e ...[Skoða]
Gunnar: Sem betur fer fyrir Taylor stupid... ...[Skoða]
Berti: Hvað í helv... þýðir þetta? "Stuttu síð ...[Skoða]
sildi: Svavar, ég veit ekki hvort þetta er kald ...[Skoða]
Stebo: GK. Þetta hlýtur að vera e-ð það fáranl ...[Skoða]

Síðustu færslur

· Paul Anderson semur við Liverpool
· Gerrard og Nolan (uppfært)
· Bolton 2 - L'pool 2
· Bolton á morgun!
· Ársuppgjör 2005!
· Liverpool 1 - W.B.A. 0

Tenglar

Einar :: EOE.is

Kristján Atli.com


NewsNow Liverpool

SKY

Liverpool Echo

BBC

Liverpool (official)

LFC History

Liverpool.is

This Is Anfield

UEFA


Staðan í ensku

Tölfræði í ensku




Við notum
Movable Type 3.2

Efni þessarar síðu er birt undir skilmálum frá Creative Commons.

Creative Commons License