20. september, 2005

Þið verðið að afsaka fjarveru mína síðustu tvo daga, það er einfaldlega búið að vera brjálað að gera hjá mér í vinnu, skóla og persónulega lífinu. Aggi hefur verið duglegur að halda síðunni á floti, og það eru bara einhverjir 11 dagar eða svo í að Einar Örn komi aftur á klakann, en ég vonast til að geta skrifað meira sjálfur héðan í frá.
Allavega, eftir leikinn um helgina þá hefur sennilega ekki verið rætt jafn mikið um neinn leikmann Liverpool og Luis García. Ég hlustaði t.d. á þáttin Mín Skoðun með Valtý Birni á XFM í dag og þar hringdi einn Liverpool-aðdáandinn inn og kallaði Luis García “kellingu” og sagði að hann væri “of aumur fyrir enska boltann.”
Þannig að mig langaði aðeins til að fjalla um hann, og vonandi koma umræðum af stað. Ég veit að García - eins og t.d. Josemi, Riise og nokkrir aðrir leikmenn okkar - nýtur ekki einróma trausts aðdáenda; sumir dýrka hann, aðrir hata hann. Ég hugsa að ég myndi persónulega falla í fyrri flokkinn, þar sem mér finnst García nánast ómissandi fyrir liðið í dag (útskýri það hér á eftir), en tek þó undir það að hann getur enn bætt ýmislegt í leik sínum.
Mark Lawrenson skrifaði grein um García í Daily Post í dag, þar sem hann talaði um það að García hefði spilað illa á laugardaginn af því að hann er ekki vanur þeirri stöðu sem hann var að spila. Þetta er einfaldlega ekki rétt, þar sem García hefur margoft áður spilað í ‘holunni’ fyrir Liverpool, auk þess sem hann spilaði sem framherji hjá Atletico Madríd og lék á tíðum í ‘holunni’ fyrir Rafa Benítez hjá Tenerife.
Ef þið þurfið sönnunargögn um það að García kunni að leika á milli fremsta manns og miðju þá þurfið þið ekki að leita lengra aftur en viku. Hann var frábær gegn Real Betís í síðustu viku og skoraði markið sem réði úrslitum - alveg jafn frábær þar og hann var slappur gegn United. Jú, ég játa að fyrst eftir leikinn fannst mér García hafa leikið vel og fannst hann of harkalega gagnrýndur, en í gærkvöldi horfði ég á leikinn endursýndan á SkjáEnska og gaf leik hans sérstakan gaum.
Það sem ég sá var það sama og ég hef séð allt of oft áður. Við skulum setja þetta upp í jákvætt og neikvætt, því leikur hans á laugardag var ekki alslæmur:
JÁKVÆTT:
García er ekki latur. Hann vinnur vel og gerði það líka á sunnudag. Hann var út um allt á vellinum og það er ekki með nokkru móti hægt að segja að hann hafi ekki gert allt hvað hann gat til að skapa fyrir Liverpool. Þá hef ég ávallt verið reiður þegar svokallaðir aðdáendur kalla hann “kellingu” eða “aumingja” og/eða gefa í skyn að García sé of linur til að spila í ensku Úrvalsdeildinni. Það er einfaldlega ekki satt - sá fjöldi tæklinga og spjalda sem hann fékk í deildinni í fyrra sannar það. Horfið á næsta leik hjá okkur og berið hann í huganum saman við t.d. Freddie Ljungberg eða Arjen Robben. Er hann eitthvað meira “linur” eða meiri “kelling” en þessir, léttleikandi menn? Svar: nei!
NEIKVÆTT:
García er hins vegar lítill. Svo einfalt er það bara. Þegar Gianfranco Zola spilaði fyrir Chelsea þá var nánast pottþétt að hann missti boltann ef varnarmaðurinn náði að króa hann af eða þjarma að honum líkamlega. Galdur Zola fólst í því að hann hafði svo góðar hreyfingar að varnarmenn komust sjaldan eða aldrei nálægt honum. Það sama má segja að gildi um Shaun Wright-Phillips í dag, og García. García er lítill, og því á hann alltaf undir högg að sækja gagnvart stærri og burðarmeiri varnarmönnum, nái þeir að króa hann af, og því er hann háður því að geta notað snöggar hreyfingar sínar til að leika á þá. Það gengur oft, en það kemur fyrir í nánast hverjum einasta leik að hann missir nokkra bolta, eingöngu sökum stærðar (smæðar) sinnar. Það er ekki það sama og að vera latur/aumur/kelling!
Annað neikvætt er að á laugardaginn var García að hlaupa mikið og koma sér í stöður með boltann, stöður til að geta lagt upp færi fyrir samherja sína eða ná skoti á markið. Í þessum leik hins vegar gekk einfaldlega ekkert upp fyrir hann. Skotin hans enduðu nær undantekningarlaust í varnarmönnum United og það virtist sem rétt svo 1 af hverjum 5-6 sendingum hans rataði rétta leið, sem er vægast sagt slöpp tölfræði. Hann reyndi og reyndi en ekkert gekk.
MÍN SKOÐUN / NIÐURSTAÐA:
Það eru í rauninni til tveir Luis García, og þeir leika báðir fyrir Liverpool. Annar þeirra spilar u.þ.b. helming leikja liðsins, en sá García er ótrúlega skapandi, stórhættulegur, getur sótt úr öllum stöðum á vellinum, á heilan haug af stoðsendingum og er sérfræðingur í að skora mikilvæg mörk fyrir Liverpool - ekki síst í Evrópu.
Hinn Luis García spilar líka u.þ.b. helming leikja liðsins - hinn helminginn - en sá García er mistækur, í besta falli. Hann tapar boltanum auðveldlega, reynir of flókna/erfiða hluti á kolröngum stöðum eða vitlausum tíma, á það til að skjóta boltanum svo hátt yfir mark andstæðinganna að boltasækjarinn þarf að sækja hann út á bílastæði og virðist algjörlega fyrirmunað að gefa boltann á samherja.
Með öðrum orðum, þá er aðeins eitt sem háir Luis García: STÖÐUGLEIKI. Þetta eina er hins vegar, því miður, ansi alvarlegt því það þýðir að við vitum aldrei hvort eintakið af Luis García mætir út á völlinn. Verður það sá García sem getur slátrað dýrasta markverði heims, Buffon, eða sá sem lætur Kieran Richardson - sem hefur aldrei leikið bakvörð áður - dekka sig út úr leiknum? Er það sá Luis García sem Chelsea-menn eru skíthræddir við, eða sá Luis García sem Burnley-menn hlæja að?
Eitt skortir García ekki og það er dugnaðurinn og viljinn til að spila fyrir Liverpool, og ná árangri. Það er ástæða fyrir því að hann er nánast sjálfvalinn í byrjunarlið Rafael Benítez - hann er ekki einungis besti kostur okkar á hægri kantinn þessi misserin heldur sá leikmaður okkar sem er hvað mest skapandi. Hann er eini leikmaður liðsins í dag sem lætur sér detta í hug það sem enginn annar myndi þora að reyna. Það er nauðsynlegt að hafa slíka menn í liðinu - þótt hann klúðri 10 hælsendingum þá þarf bara ein að heppnast til að liðið skori dýrmætt mark. En á móti kemur að hann tapar fleiri boltum en nokkur annar miðjumaður í liðinu. Þetta er tvíeggja sverð - ef hann myndi ekkert reyna en aldrei tapa boltanum myndum við saka hann um að vera hugmyndasnauður leikmaður, en þar sem hann reynir helling og tapar nokkrum boltum í leik sökum við hann um að vera kærulausan.
Á meðan García er langmest skapandi leikmaður Liverpool sé ég enga ástæðu til annars en að hann sé í liði Liverpool, og er það vel. Hann var slappur gegn United um helgina, en hann vann Betís fyrir okkur fyrir viku. Fyrir hvern slappan leik sem hann leikur á hann annan þar sem hann er gersamlega ómissandi. Hann þarf að öðlast stöðugleika og læra hvenær er rétti tíminn til að reyna eitthvað óvænt og hvenær ekki. Ef hann lagar þetta verður hann lykilmaður í þessu liði, en þangað til held ég að við getum samt prísað okkur sæla með að hafa hann. Án hans væri þetta lið sem ekki skapar nóg á vængjunum enn minna skapandi, það verður að viðurkennast.
Sem sagt, mín skoðun er sú að García sé ómissandi í þetta lið en megi þó bæta sig helling áður en við getum verið fyllilega sáttir við hann. Þetta er oft spurning um valkosti og eins og staðan er í dag er hann besti kosturinn okkar á hægri kantinn og næstbesti kosturinn í ‘holuna’ á eftir Gerrard. Það er mín skoðun - hver er ykkar skoðun? Og plís, verið málefnaleg(ir) … ekki bara segja mér að hann sé kelling eða glataður glaumgosi, ég þoli ekki svoleiðis rökstuðning.
Hvað finnst mönnum? Eigum við að spila með Gerrard í ‘holunni’ og Pongolle á kantinum, eða er alltaf pláss fyrir García í liðinu?