beach
« Pongolle í liðinu! | Aðalsíða | Sterkur varnarleikur, slakur sóknarleikur. »

18. september, 2005
Liverpool 0 - Man U 0

liverpoolvmanutd.jpg Jæja þá er komið að því að ég fái að spreyta mig og skrifa leikskýrslu. Það er enginn smá leikur sem ég fæ að skrifa um en því miður þá stóð leikurinn ekki undir væntingum.

Ég var þess handviss að við myndum innbyrða góðan sigur í dag gegn manchester united en það gekk ekki eftir. Ég er drullufúll yfir leik okkar manna, mér fannst við ekki nógu grimmir, hungraðir í öll 3 stigin þrátt fyrir að við værum klárlega betra liðið á vellinum allan leikinn. Ég átti alla vega ekki von á markalausu jafntefli þar sem það hefur ekki gerst í deildinni síðan 1991. Jæja nóg um þetta í bili… byrjunarliðið okkar var eftirfarandi:

Reina

Finnan - Carragher - Hyypiä - Warnock

Pongolle - Gerrard - Alonso - Riise

García
Crouch

BEKKUR: Carson, Josemi, Sissoko, Traoré, Cissé.

Við byrjuðum af karfti og Gerrard átti skot hárfínt framhjá markinu og leit þetta bara þokkalega út. Pongolle var sprækur á hægri kantinum ásamt því sem Crouch virtist valda Rio vandræðum með sína löngu leggi. En einhvern veginn náðum við aldrei að setja mikla pressu á manchester united í fyrri hálfleik né eiga dauðafæri. Hins vegar fékk Van Nistelrooy dauðafæri þegar Rio skeiðaði upp allan völlinn án þess að vera hindraður, gaf stungusendingu á Nistelrooy sem reyndi að “chippa” boltanum yfir Reina… sem tókst en fór líka yfir markið. Í þeim síðari var sama stöðubaráttan á miðjunni í gangi en hvorugt liðið fékk dauðafæri. Garcia fékk tvö hálf-færi þegar hann átti skot framhjá með vinstri sem og skalla sem fór framhjá eftir góða sendingu frá Gerrard. Pongolle og Crouch fóru síðan útaf þegar ca. 13 mín voru eftir, Cisse og Sissoko komu inná en því miður breytti það ekki gangi leiksins (reyndar fannst mér þessi skipting koma ALLTOF seint). Jafntefli varð niðurstaðan og í rauninni eiginlega bara steindautt jafntefli ólíkt leiknum gegn Spurs fyrir viku sem var þrælskemmtilegur leikur þrátt fyrir markaleysið.

Vörnin stóð sig vel eins og hún leggur sig, allir með solid leik og börðust vel að vanda. Lítið reyndi á Reina í leiknum.
Miðjan var ekki nægilega afgerandi og þrátt fyrir að vera betri en hjá manchester united þá vantaði eitthvað hjá flestum. Alonso var óvenju dapur og átti margar feilsendingar, Gerrard var vinnusamur og já bara allt í lagi. Pongolle byrjaði vel og var óhræddur við að keyra á varnarmenn manchester united en þreyttist þegar á leið leikinn. Riise er mjög takmarkaður kantmaður og spilaði eins vel og hann getur (sem er ekki nægilega gott fyrir LFC) og síðan Garcia en hann var ömurlegur í þessum leik. Oft á tíðum virtist sem hann væri ekki með í leiknum, tók furðulegar ákvarðanir með boltann og já segja má að akkúrat EKKERT hafi gengið upp hjá honum í dag.
Í sókninni var Crouch duglegur að tengja saman sókn og miðju og pirraði klárlega Rio framan af en var þreyttur þegar á leið og fékk í raun ekki úr neinu að moða í sókninni.

Neikvætt: Ég var afar ósáttur við spilamennsku Garcia og Alonso í þessum leik. Alonso átti alltof margar vafasamar sendingar (sem er afar ólíkt honum) og virkaði óöruggur allan leikinn. Garcia er ávallt tilbúinn að fá boltann og hættir aldrei en nákvæmlega ekkert gekk upp hjá honum í dag og má segja að hann hafi ávallt valið krýsuvíkurleiðina að markinu í dag. Sóknarlegar vorum við slappir í dag, lítið hugmyndarflug og vondur “houllier-fnykur” af spilamennskunni.

Jákvætt: Við spiluðum varnarlega mjög vel og áttu manchester united í raun aldrei séns að stela sigri í þessum leik. Við héldum hreinu áfram sem er flott en á móti eru mörkin ekki að rigna inn hjá okkur undanfarið í deildinni.

Maður leiksins: Það var enginn frábær í þessum leik, Pongolle átti spretti í fyrri hálfleik og Crouch einnig. En sá sem klikkar aldrei og er minn maður leiksins er Jamie Carragher. Carragher hélt Nistelrooy og Rooney vel niðri í leiknum og var duglegur að hvetja samherja sína.

Það sem stendur uppúr eftir leikinn er að við töpuðum 2 stigum í dag! Við erum búnir að spila 4 leiki, 1 sigur og 3 jafntefli. Markatalan 1-0! Erum sem stendur í 10. sæti. ÞAÐ ER EKKI NÓGU GOTT! Við getum betur en í dag, miklu betur. Sýndum það gegn Betis á þriðjudaginn. Jæja ég er farinn út í hjólreiðatúr og leyfi Benitez sjálfum eiga lokaorðið í dag:

“I’m worried [about the lack of goals] but we don’t any concede goals in four games,” Benitez told Sky Sports 1. “You always need to find positive things, and it’s always important to score as you can’t win if you don’t, but we showed a better performance in defence than last season. “
.: Aggi uppfærði kl. 14:00 | 776 Orð | Flokkur: Leikskýrslur
Ummæli (19)

Flott leikskýrsla Aggi, kannski þú fáir bara að gera þetta aftur á næstunni. :-)

Ég er hins vegar ekki alveg sammála þér með Alonso og García. Mér fannst þeir spila ágætlega í þessum leik; Alonso var iðinn og vann mikið af boltum á miðjunni, en sendingarnar hjá honum voru svolítið misjafnar. García var síðan eini leikmaður okkar, auk Gerrards, sem reyndi eitthvað að koma sér inn í teig og skapa eitthvað. Hann átti einn af þessum dögum, náði ekki að búa til neitt markvert en hann hætti aldrei að reyna, barðist eins og ljón og vann gríðarlega vel allan leikinn. Þótt það hafi ekki komið neitt áþreifanlegt út úr því í dag (né heldur hjá hinum í liðinu) þá reyndi hann samt meira en allir aðrir.

Á heildina litið er ég sáttur við leik okkar manna. Við vorum öruggir og yfirvegaðir í vörn, áttum miðjuna með húð og hári og náðum að pressa United mest allan leikinn. Sáttur við það. Hins vegar verður það að viðurkennast að með Riise/Zenden hægra megin og Pongolle/García/Cissé hinum megin erum við ekki nógu öflugir á vængjunum. Okkar stærsti höfuðverkur í dag, sóknarlega, er sá að við erum ekki að skila nógu mörgum boltum inn í teiginn.

Ég tek undir með Rafa að það er áhyggjuefni að vera bara búnir að skora 1 mark í 4 leikjum, en á móti kemur að við höfum ekki fengið eitt einasta á okkur, erum taplausir og búnir með þrjá erfiða leiki, og að liðið er að spila vel. Mörkin koma ef við höldum áfram á þessari braut, þau koma...

Kristján Atli sendi inn - 18.09.05 17:39 - (Ummæli #7)

Gat (því miður?) ekki séð leikinn. Eini fótboltinn, sem ég gat séð var Ivan de la Pena takandi Real Madrid í nefið. Mikið afskaplega virkar þetta Madrid-ar lið slappt.

Allavegana, ég er farinn að hafa VERULEGAR áhyggjur af þessu markaleysi. Þrátt fyrir Pollýönnu kommentið hans Kristjáns, þá gengur það hreinlega ekki að ná ekki að skora eitt einasta mark úr opnu spili í fjórum heilum leikjum. Það er með hreinum ólíkindum. Auðvitað "koma mörkin", en málið er bara að hingað til hafa þau ekki komið. ÞAð er enginn að halda því fram að við förum markalausir í gegnum tímabilið, en í dag erum við ekki að skora. Þeir framherjar, sem skora ekki mörk, eru ekki nógu góðir fyrir þetta lið. Svo einfalt er það. Ég meina hversu lélegur er Djibril Cisse á æfingum víst hann kemst ekki einu sinni í lið, sem getur ekki skorað?

Sá á BBC að Riise var settur í lið vikunnar, þannig að það hlýtur að hafa verið eitthvað jákvætt í þessum leik og auðvitað eru þessi úrslit betri en á síðasta tímabili alveg einsog með Boro leikinn.

En þetta djöfulsins markaleysi er orðið verulega pirrandi. Eina liðið, sem er jafnlélegt í markaskorun er FOKKING Everton. Sunderland eru búnir að skora fleiri mörk.

Þetta er nákvæmlega það sem ég talaði um í sumar þegar við vorum að selja Milan Baros. Þessir framherjar hjá okkur í dag eru einfaldlega EKKI NÓGU GÓÐIR. Ef þeir væru það, þá værum við búnir að skora mörk!!! :-)

Einar Örn sendi inn - 18.09.05 20:18 - (Ummæli #10)

Já, og er það ekki yndislegt að bresku blöðin séu byrjuð að halda því fram að Gerrard sé óánægður þrátt fyrir að hafa NÁKVÆMLEGA EKKERT til að styðja þær fullyrðingar.

Djöfull pirrar þetta mig. Ég ætla að leggjast uppí hengirúm með lappir uppí loft og ekki hugsa um fótbolta næstu vikuna!!! - er ekki gaman að reyna að plata sjálfan sig?

Einar Örn sendi inn - 18.09.05 20:27 - (Ummæli #13)

Þetta var ekkert Pollýönnu-komment hjá mér, Einar. Ég var bara að líta á staðreyndirnar. Ég skal útskýra það aðeins nánar.

Að mínu mati eru tvær ástæður, öðrum fremri, fyrir því að við erum ekki að skora mörk:

  1. Heppni. Cissé skoraði löglegt mark gegn Sunderland, ranglega dæmt af. Steven Gerrard hefði getað skorað fimm gegn Middlesbrough í fyrsta leiknum. Morientes skaut framhjá og Gerrard í stöng gegn Sunderland. Riise, Cissé, Crouch og García voru allir óheppnir gegn Tottenham, sérstaklega Crouch sem skoraði gott mark en það var því miður ólöglegt. Í leiknum í dag átti Gerrard gott skot sem van der Sar varði og García gott skot rétt framhjá. Auðvitað er ekki hægt að afsaka liðið með heppni, en það er samt staðreynd að stundum bara vill boltinn inn, og stundum ekki. Til dæmis virtust okkar menn ekki geta hætt að skora gegn W.B.A. á útivelli í fyrra, en á heimavelli gegn Birmingham bara vildi boltinn ekki inn. Að því leytinu til getum við alltaf sagt, "mörkin munu koma" ...

  2. Kantarnir. Hægra megin erum við með García, Pongolle og Cissé - tvo framherja og einn sem er bestur í 'holunni' - sem að eru ekki að skila neinu inn í teiginn. Þeir einu sem áttu fyrirgjafir frá hægri í dag voru Gerrard og Finnan, og þær voru lélegar. Hinum megin er Riise mikill hlaupari og góður skotmaður, en hann mun aldrei mata framherja hjá okkur jafn vel og við ætlumst til af kantmanni. Zenden er betri fyrirgjafamaður en hefur ekki náð að skila miklu af viti það sem af er, held að sendingin hans á García gegn Betís á þriðjudag hafi verið fyrsta stoðsendingin hans. Með öðrum orðum: við erum ekki að skapa neitt utan af köntunum. Harry Kewell í fullri leikæfingu gæti lagað stóran hluta af þessu, sem og ef við hefðum keypt t.d. Simao Sabrosa fyrir lokun markaðarins, en þetta eru stór EF ... eins og staðan er í dag er kantspilið einfaldlega akkilesarhæll Liverpool, sóknarlega séð.

Hafið annað í huga. Þegar við vorum ekki að skora í fyrstu tveimur leikjunum gátu menn ekki hætt að ráðast harkalega á Morientes. "Hann er ómögulegur," "hann átti ekki eina marktilraun," og "það er engin ógn af honum!" var á meðal þess sem heyrðist. Í dag hefur Peter Crouch spilað þrjá leiki í röð frá byrjun og ekki skorað eitt einasta mark. Hann átti stóran þátt í báðum mörkum okkar gegn Betís, en að öðru leyti gæti sama gagnrýni átt við um Crouch. Af hverju eru menn þá ekki að gagnrýna hann eins mikið og Morientes? Gæti það verið af því að menn héldu að markaleysið væri Morientes að kenna, þegar hann var frammi, en nú þegar þeir sjá að Crouch á í sömu vandræðum - þ.e. engin þjónusta í formi fyrirgjafa - þá séu menn reiðubúnir að skoða það sem ég hef verið að halda fram í tvo mánuði, að kantspilið sé ekki nógu sterkt?

Rafa þarf að taka stóra ákvörðun fyrir næsta leik, það er ljóst. Það leikur enginn vafi á því að kantspilið er ekki eins og það gæti best orðið, þannig að Rafa hlýtur að spyrja sig hvers vegna hann eigi ekki bara að fara aftur í 4-4-2 og setja Cissé inn við hliðina á Crouch? Láta þá tvo búa til fyrir hvor annan? Að mínu mati væri það ekkert vitlaust - það er erfitt að spila 4-5-1 með alla áherslu á kantspil, þegar það er það eina sem liðið nær ekki tökum á.

Þannig að þótt mér hafi þótt liðið leika vel á flestum vígstöðvum í dag og verið betri aðilinn, þá er markaleysið engu að síður áhyggjuefni. Jú, ef við hefðum verið "heppnir" en ekki "óheppnir" í síðustu leikjum hefðum við getað skorað 2-3 mörk í hverjum deildarleik, en það breytir því ekki að sóknarleikurinn er steingeldur þangað til annað hvort Rafa breytir um taktík eða við fáum betri menn á kantana. Og þar sem við getum ekki fengið betri menn á kantana fyrr en í janúar legg ég til að Cissé og Crouch fái að byrja inná saman um næstu helgi.

Cissé er skiljanlega ekki í byrjunarliðinu í 4-5-1 kerfi þar sem hann er ekki hentugur sem einn framherji í slíku kerfi, en í 4-4-2 á hann að vera fyrsti maður á blað ... þar sem hann er sá eini sem við eigum sem virðist geta skorað í hverjum leik sem hann fær að spila (já, Tottenham-leikurinn er eini leikurinn í vetur, að forkeppni Meistaradeildarinnar meðtalinni, sem Cissé hefur byrjað inná án þess að skora í. Ef hann byrjar inná, fyrir utan þann leik, þá skorar hann) Hann mun hins vegar aldrei skora mörk fyrir okkur ef hann fær áfram bara 10-15 mínútur í leik.

Kristján Atli sendi inn - 18.09.05 23:58 - (Ummæli #16)

Langur og ágætis svarpóstur frá Kristjáni. Varðandi heppnina, þá segi ég það sem svo margir þjálfarar og lýsendur hafa sagt t.d. um Íslandsmótið hér heima: maður sækir heppnina líka!

Og varðandi það að meiri gagnrýni sé á Morientes heldur en Crouch, þá skal ég bæta úr því: það kom akkúrat ekkert úr Crouch í dag! Hann var með betri mönnum í Betis-leiknum, en í dag var hann ekki að gera það fyrir mig.

Ég hef heldur aldrei haldið því fram að kantspilið væri prima gott hjá okkur. Ég tek undir með Kristjáni varðandi það, en gagnrýnin á við kantana og sóknina líka. Annað markið á móti Betis... af hverju var ekki hægt að sjá álíka tilraun á móti manchester united ? Ég held því fram að Owen hefði getað hjálpað okkur og menn mega blammera mig fyrir það. Ég held því fram að kerfið sem við höfum verið að spila 4-5-1 sé ekki að virka nógu vel. Það er eitthvað alvarlega mikið að þegar mörkin láta bíða eftir sér svona mikið!

Og þá er vel hægt að segja það sem ég og fleiri höfum gagnrýnt Rafa og stjórn mikið fyrir: það var alls ekki gert nóg til þess að fá menn til liðs við Evrópumeistara Liverpool. Stolt er gott og við eigum aldrei að missa það, en stundum verðum við jú að koma meira til móts við kröfur/óskir annarra.

Það er á hreinu að eitthvað verður að gera ... ég vona svo sannarlega að Rafa finni hvað það er og framundan sé markaveisla.

Doddi sendi inn - 19.09.05 01:11 - (Ummæli #17)

Já, auðvitað má skrifa eitthvað af þessu á óheppni. En það er hreinlega ekki hægt að líta framhjá því að framherjarnir okkar eru ekki að skora mörk.

Ég nenni ekki að fletta því upp, þar sem ég hef takmarkaðan tíma, en lentum við ekki í svipaðri markaðþurð í fyrra, um mitt tímabil. Ég man að það komu einhverjir 3-4 leikir, þar sem við skoruðum úr opnu spili. Þrátt fyrir allan ömurleikann undir Houllier, þá gerðist slíkt nánast aldrei undir hans stjórn. Ég tel aðalmuninn þá og núna var að Houllier spilaði með framherja, sem skoruðu mörk. Framherjarnir í dag gera það ekki, nema gegn einhverjum prumpliðum.

Ég er svo auðvitað sammála þessu með kantspilið (btw, af hverju spilaði Zenden ekki í gær?). Ég hef varla þorað að skrifa það á þessari síðu, en ég bind miklar vonir við endurkomu Harry Kewell. Ef við fáum einhvern tímann að sjá gamla góða Harry Kewell, þá gæti það breytt miklu. Einnig verður Zenden að fara að sýna eitthvað.

En svo set ég náttúrulega STÓRT spurningamerki við það að Rafa skuli halda áfram með 4-5-1 með þessa gjörsamlega vonlausu kantmenn. Þetta kerfi gekk upphjá Valencia og það gengur upphjá Chelsea vegna þess að þessi lið eru með frábæra kantmenn, sem skapa mikið. Við erum hins vegar með norskan bakvörð og 20 ára gamlan sóknarmann á köntunum okkar. Að mínu mati er enginn stórkostlegur munur á byrjunarliðum Chelsea og Liverpool um helgina, NEMA á köntunum. Flo-Po, Riise, Zenden og Garcia geta hreinlega ekki keppt í sömu deild og Robben, Duff, Wright-Phillips og Cole.

Það er vandamálið og Rafa verður að fara að opna augun gagnvart því.

Einar Örn sendi inn - 19.09.05 16:54 - (Ummæli #19)
Senda inn ummæli

Athugið að það tekur smá tíma að hlaða síðuna aftur eftir að ýtt hefur verið á "Staðfesta".

Hægt er að nota HTML kóða í ummælunum. Hægt er að nota a href, b, br, p, strong, em, ul, li og blockquote

Við áskiljum okkur allan rétt til að eyða út ummælum, sem eru á einhvern hátt móðgandi, hvort sem það er gagnvart stjórnendum síðunnar eða öðrum. Þetta á sérstaklega við um nafnlaus ummæli.

Nafn:


Tölvupóstur (ath. póstfangið birtist ekki á síðunni):


Heimasíða (ekki nauðsynlegt):
:smile: :biggrin: :biggrin2: :blush: :confused: :laugh:

:mad: :rolleyes: :shock: :sad: :tongue: :wink:

Ummæli:


Muna upplýsingar?





Flokkar

Almennt · Enski Boltinn · Fjölmiðlar · Heimsmeistarakeppni Félagsliða · Landslið · Leikmannakaup og sölur · Leikmenn · Leikskýrslur · Liverpool · Meiðsli · Meistaradeild · Slúður · Topp10 · Upphitun · Vangaveltur · Veðmál · Þjálfaramál ·

Um Síðuna

Um Síðuna

Um höfundana

Einar Örn

Kristján Atli

Aggi

Síðustu leikir

·Bolton 2 - L'pool 2
·Liverpool 1 - W.B.A. 0
·Everton 1 - L'pool 3
·Liverpool 2 - Newcastle 0
·Sao Paulo heimsmeistarar! (uppfært)

Síðustu Ummæli

Einar Örn: Já, auðvitað má skrifa eitthvað af þessu ...[Skoða]
Páló: Ég tel að Rafa verði að breyta liðsuppst ...[Skoða]
Doddi: Langur og ágætis svarpóstur frá Kristján ...[Skoða]
Kristján Atli: Þetta var ekkert Pollýönnu-komment hjá m ...[Skoða]
Baros: Okkar menn léku nær allir ágætlega. Gar ...[Skoða]
Doddi: Tek undir því sem Einar segir varðandi s ...[Skoða]
Einar Örn: Já, og er það ekki yndislegt að bresku b ...[Skoða]
Einar Örn: Og já, við erum TÓLF STIGUM á eftir Chel ...[Skoða]
Stjáni: Það má kannski segja að munurinn á góðum ...[Skoða]
Einar Örn: Gat (því miður?) ekki séð leikinn. Eini ...[Skoða]

Síðustu færslur

· Paul Anderson semur við Liverpool
· Gerrard og Nolan (uppfært)
· Bolton 2 - L'pool 2
· Bolton á morgun!
· Ársuppgjör 2005!
· Liverpool 1 - W.B.A. 0

Tenglar

Einar :: EOE.is

Kristján Atli.com


NewsNow Liverpool

SKY

Liverpool Echo

BBC

Liverpool (official)

LFC History

Liverpool.is

This Is Anfield

UEFA


Staðan í ensku

Tölfræði í ensku




Við notum
Movable Type 3.2

Efni þessarar síðu er birt undir skilmálum frá Creative Commons.

Creative Commons License