04. september, 2005
BBC Sport segja frá því í dag að Djibril Cissé sé hundfúll yfir því hvernig Liverpool höguðu sér áður en lokað var fyrir félagaskipti. Hann segist vita að þeir hafi verið að semja við lið um kaupverð á honum að honum forspurðum og að svona framkoma særi hann. Hann lét m.a. hafa þetta eftir sér:
“It’s a World Cup year and I need to win a place in the French side. At the moment that dream is under threat.
I’m not like Michael Owen at Newcastle - I’m not guaranteed my place. I’ve spoken to my international manager and he told me I need to play as much as possible.
He said I should go where I want as long as I am playing regularly.
I ask myself, can I be happy only playing every other game? I can’t help but wonder about the club’s attitude towards me, but I’m prepared to put my head down and keep battling.”
Með öðrum orðum, honum finnst skrítið að hann sé ekki í byrjunarliðinu þegar hann er sá leikmaður okkar sem er að skora mest. Honum finnst líka skrítið að vera settur á hægri kantinn, auk þess að vera sár yfir því að klúbburinn hafi (greinilega) viljað losna við hann fyrir 1. september.
Sko, yfirleitt þegar leikmenn eru að gagnrýna Rafa og/eða klúbbinn hallast ég frekar að því að verja klúbbinn - sjá Milan Baros í vor, eða Emile Heskey & El-Hadji Diouf í fyrra - enda er ég á þeirri skoðun að menn eigi ekki að vera að viðra óánægju sína í blöðunum heldur ræða það við þjálfarann, ella þegja. Í þetta sinn ætla ég hins vegar að taka undir með leikmanninum - mér finnst Cissé bara hafa fullan rétt á því að viðra sína óánægju. Ég var hundfúll með það hvernig Liverpool stóðu að hans málum á síðustu tveimur vikum, fannst sem þeir væru að fara á bak við hann (þar sem hann vissi greinilega ekki neitt um málið) og fannst sem verið væri að fórna honum fyrir Michael Owen!
Og sjáiði til, þið eigið eftir að vera fegin að það tókst ekki! Ég skal lofa ykkur því að Cissé mun skora fleiri mörk en Owen í ár, þó svo að Owen komi til með að byrja fleiri leiki með sínu liði! Ég er handviss um það!
Allavega, Rafa tjáir sig líka í dag um þetta og segir að sölu-slúðrið muni ekki há Djibril Cissé í vetur. Ég er þar sammála honum, Cissé er þannig karakter að ef hann er reiður/fúll þá bara spilar hann betur ef eitthvað er (sjá pirringinn í honum gegn Moskvu og tvö mörkin þar), en auðvitað kemur þetta niður á andlegu ástandi leikmannsins. Kannski hefur hann ekki sömu ást á klúbbnum nú og fyrir tveim vikum, kannski hefur hann ekki sömu trú á Rafa Benítez nú, kannski hefur hann ekki sama vilja til að sanna sig fyrir Liverpool fyrst Liverpool hefur ekki vilja til að leyfa honum að sanna sig? Ég myndi skilja hann vel ef eitthvað af þessu ætti við…
MÍN SKOÐUN er sú að Djibril Cissé er ekki aðeins besti framherji sem við eigum í dag, heldur la-a-aaangbesti framherji sem við eigum í dag! Morientes er betri skallamaður og Crouch heldur bolta betur og er betri í að finna samherja sína í fætur. En hvað varðar aðalstarf framherjans - að skapa & skora mörk - kemst hvorugur þeirra með tærnar þar sem Cissé hefur hælana.
Ég meina, nú þegar ágúst er búinn er staða markahæstu manna þessi:
Djibril Cissé - 6 mörk
Steven Gerrard - 6 mörk
Fernando Morienets - 2 mörk
Luis García - 1 mark
Jamie Carragher - 1 mark
Xabi Alonso - 1 mark
Sjáið þið mynstur myndast hérna? Ætlar einhver að mótmæla því að Steven Gerrard verði markahæsti miðjumaður okkar í vetur? Ókei, en ætlar þá einhver að mótmæla því að Cissé verði markahæsti framherjinn? Hélt ekki.
Vandamálið sem háir Cissé er það að af þessum þremur framherjum okkar hentar hann síst af þeim í það kerfi sem Rafa notar. Rafa vill helst spila 4-4-1-1 með annað hvort Gerrard eða García í ‘holunni’ fyrir aftan fremsta mann. Þetta kerfi snýst um að stjórna miðjusvæðinu á vellinum og geta svo sótt á miðjumönnunum, bæði upp vængina og miðjuna. Þannig að þegar við erum í sókn séu vængmennirnir og maðurinn í holunni nánast eins og framherjar 2, 3 og 4 ásamt þeim eina sem er fyrir.
Málið er bara það að til að geta verið eini framherjinn í þessu kerfi þarftu að hafa tvo eiginleika öðru fremur: vera góður skallamaður og góður í að halda bolta & finna samherjana. Það þarf að vera hægt að láta þig fá boltann og þú að halda honum á meðan Gerrard & co. kemur á sprettinum til að hjálpa til við sóknina.
Þetta eru akkúrrat þeir eiginleikar sem Morientes & Crouch hafa umfram Cissé, og þess vegna óttast ég að hann verði aldrei nokkurn tíma fyrsti kostur í þetta leikkerfi.
Þegar við hins vegar spilum með 4-4-2 - eins og Rafa var vanur að gera á heimavelli í deildinni í fyrra - þá er Cissé nokkuð auðveldur fyrsti kostur í framherjastöðuna, þar sem hann býður upp á hluti sem enginn annar leikmaður okkar býður upp á. Hann er ekki fljótur, hann er fljótasti leikmaður Úrvalsdeildarinnar (já, jafnvel fljótari en Henry) og hann hefur miklu betri skotnýtingu en Crouch & Morientes. Hann er eini “hlauparinn” sem við eigum. Crouch og Morientes ættu síðan með réttu að berjast um að fá að vera stóri framherjinn við hliðina á honum, og mig grunar að Crouch muni vinna þá baráttu.
Þannig að þetta fer svolítið mikið eftir því hvaða leikaðferð við spilum. Ef við erum að spila 4-5-1 þá efast ég um að Cissé byrji marga leiki, nema þá á kantinum, en ef við erum að spila 4-4-2 ætti hann að byrja inná í hverjum leik.
Ætli við sjáum ekki að miklu leyti til hvað Rafa gerir um næstu helgi? Crouch er kominn inn í liðið að nýju eftir meiðsli, Morientes hefur byrjað alla leiki hingað til og skoraði fyrir Spán í gær, en Cissé er langmarkahæstur, skoraði tvö og lagði upp eitt í síðasta leik okkar og skoraði tvö og “lagði upp” það þriðja fyrir Frakka í gær (skot hans fór í varnarmann og í netið).
Það er allavega erfitt fyrir Rafa að segja nei við Cissé þessa dagana. Ég held að hann fái að byrja inná í næsta leik. Cissé skoraði á White Heart Lane í fyrra og var mjög góður. Spurningin verður bara hvort það er á kantinum í 4-5-1 kerfi eða frammi í 4-4-2 kerfi. Sjáum til…