beach
« Mourinho kvót | Aðalsíða | Milan »

26. ágúst, 2005
Liverpool 3 - CSKA Moskva 1

Liverpool: Super Cup meistarar 2005



Liverpool unnu Súper-bikarinn í Evrópu í kvöld í 3. sinn og urðu þar með aðeins þriðja liðið til að afreka það - hin eru Ajax og AC Milan. Það leit þó lengi vel ekki út fyrir að okkar menn myndu hafa þetta, en eftir að hinn brasilíski Daniel Carvalho hafði gefið Mosvku-mönnum óvænta forystu á 28. mínútu (eftir klaufagang í vörn okkar manna) þá þurftum við að bíða þangað til á 82. mínútu eftir jöfnunarmarkinu. En það kom þó að lokum og okkar menn innsigluðu þetta síðan með tveimur mörkum í framlengingu, og annar bikar ársins er því kominn í hús! :-) :-)

Í hnotskurn, þá sóttu okkar menn allan leikinn en náðu ekki að skapa sér nógu hættuleg færi, fyrir utan tvö skotfæri hjá Luis García í fyrri hálfleik, á meðan Rússarnir vörðust skipulega og vel og virtust hafa þetta allt í hendi sér. Þangað til á 78. mínútu. Það má í rauninni segja að munurinn á liðunum hafi verið einn leikmaður: Djibril Cissé!

Rafael Benítez hóf leikinn með þessu liði:

Reina

Josemi - Carra - Hyypiä - Riise

Finnan - Alonso - Hamann - Zenden
García
Morientes

BEKKUR: Carson, Warnock, Sissoko, Pongolle, Cisse.

Þessi leikur var ekkert ósvipaður tapleiknum gegn Sofia á þriðjudag. Við sóttum án afláts í fyrri hálfleik, fengum á okkur mark úr skyndisókn gegn gangi leiksins um miðjan hálfleikinn og eftir það virtist sóknarþungi okkar manna fjara út. Það er eins og við eigum gríðarlega erfitt með að sigrast á liðum sem leggjast í vörn þessa dagana, því að þótt okkar menn hafi verið í nær stanslausri sókn í seinni hálfleik var nákvæmlega ekki neitt sem benti til þess að við næðum að skapa okkur þau færi sem þurfti til að skora.

Rafa tók Alonso útaf fyrir Sissoko og Finnan út fyrir Pongolle eftir um 70 mínútna leik, og svo þegar 12 mínútur voru til leiksloka tók hann Riise út fyrir Cissé og færði Morientes aðeins aftar. Þessar skiptingar áttu eftir að breyta öllu, og þá sérstaklega sú síðasta.

Þegar 8 mínútur voru eftir af leiknum fengu Moskvu-menn sjaldgæfa sókn. Reina greip boltann í teignum eftir fyrirgjöf og sparkaði honum samstundis fram. Þar lenti boltinn hjá Luis García sem skallaði hann áfram innfyrir, þar sem Djibril Cissé var í kapphlaupi um boltann við varnarmann Rússa. Varnarmaðurinn skaut boltanum klárlega í hönd Cissé en það sá það enginn fyrr en í endursýningu, þaðan fór boltinn yfir Akinfeev markvörð Moskvu og Cissé skaut honum í tómt netið. 1-1 og framlenging.

Í framlengingu skoraði Cissé svo aftur eftir stungusendingu frá Didi Hamann og svo innsiglaði García sigurinn með skalla af stuttu færi, eftir að Cissé hafði fengið stungusendingu upp hægri kantinn og átt góða fyrirgjöf.

Með öðrum orðum, Moskvu-menn höfðu þetta allt í hendi sér og virtust sáttir við að liggja í vörn og stöðva hægar sóknir Liverpool … þangað til hinn eldfljóti Cissé kom inná. Þá skyndilega var lausnin á varnarmúr Moskvu-manna kominn og okkar menn gengu á lagið, skoruðu þrisvar og í öll skiptin var það hraði Cissé sem gerði útslagið.

Það var að sjálfsögðu frábært að vinna þennan titil - og ná að skora heil þrjú mörk án Steven Gerrard - en þó verður maður að taka þessu með örlitlum vara. Staðreyndin er sú að Liverpool-liðið sótti allt of hægt og var fyrirsjáanlegt í flestum sínum aðgerðum í kvöld, alveg þangað til Cissé, Pongolle og Sissoko komu inná. Þá var loksins eins og einhver kraftur kæmi í sóknina og við urðum miklu líklegri til að skora fyrir vikið.

cisse-cska.jpgMAÐUR LEIKSINS: García var góður og klaufi að skora ekki þrennu í kvöld, og þá fannst mér þeir Hyypiä, Carragher og Josemi sterkir í vörninni í kvöld. Sérstaklega finnst mér ástæða til að hrósa Josemi, sem virðist vera að finna fæturna aftur eftir erfið misseri. Hann fékk laaangerfiðasta hlutverk okkar manna í kvöld - að halda aftur af besta leikmanni Moskvu-manna, hinum göldrótta Brasilíumanni Daniel Carvalho, og þótt Carvalho hafi tvisvar leikið hann upp úr skónum náði Josemi að standa fyrir sínu í 120 mínútur gegn honum og stóð á endanum uppi sem sigurvegari í því einvígi. Þá var Josemi einnig duglegri en flestir aðrir í liðinu að sækja fram á við og átti t.a.m. 3 markskot. Vonandi er þetta til marks um hvað koma skal hjá þeim spænska.

Á miðjunni fannst mér lítið vera að gerast, allir fjórir sem hófu leikinn voru frekar daufir og það var ekki fyrr en Sissoko og Pongolle komu inn á miðjuna að hlutirnir fóru að gerast. Sissoko er að verða stjörnuleikmaður í þessu liði, það sjá það allir, og það er af góðri ástæðu.

Frammi átti Fernando Morientes í miklum vandræðum - bæði var ekkert að gerast fyrir aftan hann og svo var hann í góðri gæslu hjá sterkum varnarmönnum rússneska liðsins. Þær fáu fyrirgjafir sem komu svo inní teiginn tók hinn ungi markvörður Akinfeev vel - hann er aðeins 19 ára! - þannig að þótt Morientes hafi verið slappur í kvöld finnst mér erfitt að gagnrýna hann að öllu leyti fyrir.

Það er þó engin spurning hver maður leiksins er … það var að sjálfsögðu DJIBRIL CISSÉ, sem breytti gjörsamlega öllu með sinni innkomu. Það hefur mikið mætt á honum undanfarna daga út af öflugu slúðri um framtíð hans - en ég verð mjööög hissa ef það reynir einn fréttamaður að halda því fram yfir helgina að hann verði seldur fyrir 1. september. Liverpool einfaldlega selur ekki Djibril Cissé eins og hann er að spila (kominn með 6 mörk nú þegar á tímabilinu), svo einfalt er það bara. Ef Owen kemur er hann frábær viðbót, en Cissé verður ekki seldur til að rýma fyrir þeim velska. Ekki séns!

Jæja, við getum allavega glaðst yfir því að bikarinn vannst í kvöld og okkar menn geta haldið inn í landsleikjahléð með bros á vör! Næsti leikur Liverpool er þann 10. september gegn Tottenham á útivelli í deildinni - og það kæmi mér ekkert á óvart þótt við sjáum Michael Owen og Djibril Cissé spila þar sinn fyrsta alvöruleik saman fyrir Liverpool! smile


Viðbót (Einar Örn): Já, mikið var gott að okkar mönnum tókst að klára þetta. Ef leikurinn hefði endað 1-0 hefðu komið í blöðunum 20 greinar um að við getum ekkert án Gerrard, að framherjarnir okkar séu vonlausir og svo framvegis og framvegis.

En í stað þess, þá bjargaði Djibril Cisse deginum. Hann og Sissoko voru virkilega góðir. Ég held að allir Liverpool aðdáendur hafi samglaðst Djibril Cisse í kvöld. Það er augljóst að þetta slúður hefur haft áhrif á hann, sem er vont því það er augljóst af viðtölum við hann að hann þráir ekkert heitar en að slá virkilega í gegn með Liverpool.

Hann þurfti bara smá heppni til að eitthvað færi inn og það gerðist í fyrsta markinu. Það var líka augljóst hvar styrkur Cisse liggur, því öll mörkin komu eftir langa stungusendingu inná hann. Það reyndist eina leiðin til að brjóta aftur þessa sterku vörn CSKA Moskva.

Það var líka ánægjulegt að Luis Garcia var loksins að spila vel í vetur. Hann hefði auðveldlega getað skorað, en annars lék hann virkilega vel. Undirbúningurinn hans fyrir skotið hans Josemi var hreinasta snilld. Einnig, þá lék Josemi vel, sem var virkilega gott. Er sammála Kristjáni um að hann hafi sinnt gríðarlega erfiðu hlutverki vel.

En fyrsti bikarinn kominn í hús, þrjú mörk án Steven Gerrard, tvö mörk fyrir Djibril Cisse og Luis Garcia kominn á blað. Þetta byrjaði seint, en mikið var þetta gaman. Ég var allavegana skælbrosandi þegar ég sá Cisse og Pongolle dansa saman á verðlaunapallinum. :-)

Núna getum við allavegana farið inní þetta landsleikjahlé virkilega sátt!

.: Kristján Atli uppfærði kl. 21:46 | 1270 Orð | Flokkur: Leikskýrslur
Ummæli (37)

Hérna eru koptalk að tala um þetta.

Kopalk

JayMatteo sendi inn - 26.08.05 22:27 - (Ummæli #5)

Þegar maður sá byrjunarliðið velti maður því óneitanlega fyrir sér hvernig sóknarleikur okkar mann yrði. Og ekki froðufelldi maður af gleði yfir honum.

Ég botna illa í þessum pælingum Rafa að spila með Morientes fremstan. Hann myndi nýtast mun betur að mínu viti fyrir aftan fremsta mann (í þeirri stöðu sem Garcia lék í dag). Óttast að það sé að verða gæluverkefni hjá Rafa að láta Morientes raða inn mörkum. Hann er með vandaðan knattspyrnukoll og minnir mig alltaf á Jari Litmanen. Morientes getur hæglega skorað mörk en virkar úti á túni í stöðu fremsta manns í þessu kerfi Rafa.

Ég botna enn minna í söluhjali Cisse. Ekki myndi ég skipta á Owen og Cisse. Nógu slæmt er að horfa á eftir Baros :-) Málið er að við erum ekki með marga leikmenn sem geta brotist með látum og djöfulgangi fram hjá þéttmönnuðum vörnum og það væri tóm dómsdagsgeðveiki að selja einn slíkan frá okkur. Owen er auðvitað vandaður leikmaður og klárar færin sín mun betur en Cisse en hann var orðinn ansi freðinn undir það síðasta og varnir andstæðinganna áttu ekki í stórkostlegum vandræðum með hann.

Við þurfum nauðsynlega á leikmönnum að halda sem geta gert óvænta hluti og brotið upp þrjóskar og þéttmannaðar varnir. Cisse er einn af þeim. Finnan og Zenden skapa engan sérstakan usla í vörnum andstæðinganna með hraða sínum og leikni…. Vonandi verður þetta tímabilið hans Kewels og við fáum dýrvitlausan hægri vængmann. Maður fékk ekki beint gæsahús af spenningi þegar Nunez var með boltann á síðustu leiktíð…

En á jákvæðu nótunum, djöfull er Sissoko magnaður leikmaður. Gjörsamlega frábær kaup.

-Baros.

Baros sendi inn - 27.08.05 00:10 - (
Ummæli #16)

Ha? Átti það að vera hús? :-)

Annars held ég að vandamál manna með Josemi sé það að sumir búast við því að bakvörðurinn hakki þann sóknarmann sem hann dekkar yfir allar 90 mínúturnar, að ekkert minna en gallalaus frammistaða dugi. Ef Hermann Hreiðarsson væri að spila fyrir Ísland og ætti að dekka Joaquin, og Ísland ynni 3-1 og Joaquin myndi bara ná að klobba hann tvisvar en annars næði Hemmi að stöðva hann með því að annað hvort vinna boltann af honum eða brjóta á honum … þá myndi hver einasti Íslendingur segja að Hemmi hefði átt súpergóðan leik.

Það sama virðist ekki gilda um Josemi. Daniel Carvalho var súpergóður í kvöld og greinilega mjööög góður leikmaður sem erfitt er að dekka. Hann slapp innfyrir Hyypiä og Riise í markinu og skoraði, en þegar hann var nálægt Josemi náði hann ekki að skapa jafn mikið. Hann komst tvisvar framhjá honum, í bæði skiptin með klobba, en í bæði skiptin var Carra mættur til að kóvera eins og góður miðvörður á að gera.

Restina af leiknum var Carvalho að reyna öll sín trikk til að komast framhjá Josemi en gekk ekki. Josemi vann oft boltann af honum, lokaði vel á hann niður vinstri vænginn (munið þið eftir einni fyrirgjöf þeim megin frá??? ) og ef einhver vafi lék á braut hann frekar á Carvalho en að missa hann hreint innfyrir sig. Með öðrum orðum, Josemi tók hættulegan leikmann á borð við Carvalho og gerði hættuna að nánast engu allan leikinn, í 120 mínútur.

Fyrir utan klobbana tvo átti Josemi aðeins tvenn önnur mistök - fyrst hitti hann boltann illa þegar hann var að reyna að hreinsa þannig að hann fór beint upp í loftið (og skallaði hann svo sjálfur frá þegar hann kom niður) og í seinna skiptið átti hann aðeins of lausa sendingu á Carra sem Vagner Love komst næstum því inní, en Carra var sem betur fer vakandi.

Þannig að ég myndi ekki segja frábær frammistaða hjá Josemi, en hann var samt gríðarlega góður … allavega langt því frá að vera “ömurlegur,” “ómögulegur” eða “hundlélegur” eins og sumir myndu vilja segja. Þegar varnarmaður mætir góðum sóknarmanni er það bara mjög sjaldgæft að annar aðilinn hafi vinninginn í öllum baráttum. Ég meina, frá sjónarhorni CSKA séð þá lét Carvalho Josemi oft hakka sig en samt eru allir sammála um að Carvalho hafi átt góðan leik, af því að hann náði þó að skapa hættu nokkrum sinnum og var duglegur að ná í aukaspyrnur.

Frá Liverpool-sjónarhorninu séð þá fékk Josemi gríðarlega erfitt hlutverk í kvöld og hann leysti það með sóma. Jú, Carvalho hafði betur en hann tvisvar og jú, Josemi hefði mátt fá á sig færri aukaspyrnur en þegar allt er upp talið þá hélt hann hættulegasta leikmanni Moskvu-liðsins niðri í 120 mínútur, og eina skiptið sem þeir skoruðu var þegar þessi hættulegasti leikmaður þeirra fór úr sinni stöðu og stakk sér í gegn hinum megin í vörn Liverpool. Samt sé ég enga lesendur þessarar síðu koma hér inn til að húðskamma Hyypiä og Riise fyrir að hafa gert Carvalho réttstæðan og gert þeim kleift að komast yfir … neeeeiii … menn virðast ákveðnir í að allt sem fór aflaga í kvöld hafi verið Josemi að kenna.

Einnig: Hvaða leikmaður Liverpool átti flest skot á mark í kvöld? Svar: Luis García. Hvaða leikmaður Liverpool átti næst flest skot á mark í kvöld? Svar: Josemi … þannig að auk þess að halda hættulegasta manni þeirra niðri í 120 mínútur (fyrir utan þessa tvo klobba) þá var hann líka, skv. tölfræðinni, einn af okkar hættulegustu mönnum fram á við. Getið þið nefnt mér eitt dæmi þess það sem af er tímabili að Finnan hafi tekið skorpu fram völlinn eins og Josemi gerði í kvöld? Svar: NEI.

BOTTOM LINE: Josemi var ekki fullkominn í kvöld og gæti spilað betur, ég er ekki að segja að ég sé einhver aðdáendaklúbbur hans og neiti að sjá það slæma í hans fari, en staðreyndin er samt sú að hann hefur núna átt tvo MJÖG góða leiki í röð fyrir okkur en samt virðast menn koma hér inn nær eingöngu til að rakka hann niður. Hann átti ekki sök á markinu í kvöld, hann var einn af fáum sem voru að skapa fram á við og hann tók hættulegasta leikmann andstæðinganna úr umferð í kvöld - en það að hann skyldi fá það hlutverk sýnir að Rafa treystir honum, þótt þið gerið það ekki.

Sem sagt, í gvöðanna bænum hættið að ráðast sífellt á Josemi að ástæðulausu. Hann lét taka sig tvisvar í kvöld en var að öðru leyti einn af okkar bestu mönnum, á meðan t.d. Riise, Zenden, Alonso, Hamann og Morientes voru algjörlega úti á þekju. Samt kemur enginn hingað inn til að gagnrýna þá? Skrýtið… :-)

Kristján Atli sendi inn - 27.08.05 00:32 - (Ummæli #19)
Senda inn ummæli

Athugið að það tekur smá tíma að hlaða síðuna aftur eftir að ýtt hefur verið á "Staðfesta".

Hægt er að nota HTML kóða í ummælunum. Hægt er að nota a href, b, br, p, strong, em, ul, li og blockquote

Við áskiljum okkur allan rétt til að eyða út ummælum, sem eru á einhvern hátt móðgandi, hvort sem það er gagnvart stjórnendum síðunnar eða öðrum. Þetta á sérstaklega við um nafnlaus ummæli.

Nafn:


Tölvupóstur (ath. póstfangið birtist ekki á síðunni):


Heimasíða (ekki nauðsynlegt):
:smile: :biggrin: :biggrin2: :blush: :confused: :laugh:

:mad: :rolleyes: :shock: :sad: :tongue: :wink:

Ummæli:


Muna upplýsingar?





Flokkar

Almennt · Enski Boltinn · Fjölmiðlar · Landslið · Leikmannakaup og sölur · Leikmenn · Leikskýrslur · Liverpool · Meiðsli · Meistaradeild · Slúður · Topp10 · Upphitun · Vangaveltur · Veðmál · Þjálfaramál ·

Um Síðuna

Um Síðuna

Um höfundana

Einar Örn

Kristján Atli

Aggi

Síðustu leikir

·Fulham 2 - Liverpool 0
·Anderlecht 0 - Liverpool 1
·L'pool 1 - Blackburn 0
·Liv'pool 1 - Chelsea 4
·L'pool 0 - Chelsea 0

Síðustu Ummæli

SSteinn: Smá orð í belg varðandi leikmenn og fram ...[Skoða]
Doddi: Skil ekki Kidda en hafði gaman af samt.. ...[Skoða]
Kiddi: Baseball tölfræði er svo sem áhugaverð, ...[Skoða]
davidgud: Varðandi það hvort að Cisse hafi verið g ...[Skoða]
Biggun: Sá reyndar ekki leikinn í heild en ég sá ...[Skoða]
Ingi: Jú sé það í hendi mér að þið sögðuð ekki ...[Skoða]
Ingi: ég var að horfa á leikinn aftur á sýn nú ...[Skoða]
Einar Örn: Jú, Doddi, auðvitað má vera ósammála okk ...[Skoða]
Eiki Fr: Ég er sammála því að Josemi er betri í m ...[Skoða]
Doddi: Í mínum ummælum minntist ég ekkert á Jos ...[Skoða]

Síðustu færslur

· Blaðamenn úti að tapa sér...
· Crystal Palace á morgun!
· Rafa jafnfúll og við
· Raven sennilega með á miðvikudaginn morgun
· Mörk?
· Sunnudagshugleiðingar (+viðbót)

Tenglar

Einar :: Vefleiðari

JupiterFrost

NewsNow Liverpool

ESPN

Cubs

BBC

Liverpool (official)

Liverpool.is

This Is Anfield




Við notum
Movable Type 3.121

Efni þessarar síðu er birt undir skilmálum frá Creative Commons.

Creative Commons License