26. ágúst, 2005
Liverpool: Super Cup meistarar 2005

Liverpool unnu Súper-bikarinn í Evrópu í kvöld í 3. sinn og urðu þar með aðeins þriðja liðið til að afreka það - hin eru Ajax og AC Milan. Það leit þó lengi vel ekki út fyrir að okkar menn myndu hafa þetta, en eftir að hinn brasilíski Daniel Carvalho hafði gefið Mosvku-mönnum óvænta forystu á 28. mínútu (eftir klaufagang í vörn okkar manna) þá þurftum við að bíða þangað til á 82. mínútu eftir jöfnunarmarkinu. En það kom þó að lokum og okkar menn innsigluðu þetta síðan með tveimur mörkum í framlengingu, og
annar bikar ársins er því kominn í hús!
Í hnotskurn, þá sóttu okkar menn allan leikinn en náðu ekki að skapa sér nógu hættuleg færi, fyrir utan tvö skotfæri hjá Luis García í fyrri hálfleik, á meðan Rússarnir vörðust skipulega og vel og virtust hafa þetta allt í hendi sér. Þangað til á 78. mínútu. Það má í rauninni segja að munurinn á liðunum hafi verið einn leikmaður: Djibril Cissé!
Rafael Benítez hóf leikinn með þessu liði:
Reina
Josemi - Carra - Hyypiä - Riise
Finnan - Alonso - Hamann - Zenden
García
Morientes
BEKKUR: Carson, Warnock, Sissoko, Pongolle, Cisse.
Þessi leikur var ekkert ósvipaður tapleiknum gegn Sofia á þriðjudag. Við sóttum án afláts í fyrri hálfleik, fengum á okkur mark úr skyndisókn gegn gangi leiksins um miðjan hálfleikinn og eftir það virtist sóknarþungi okkar manna fjara út. Það er eins og við eigum gríðarlega erfitt með að sigrast á liðum sem leggjast í vörn þessa dagana, því að þótt okkar menn hafi verið í nær stanslausri sókn í seinni hálfleik var nákvæmlega ekki neitt sem benti til þess að við næðum að skapa okkur þau færi sem þurfti til að skora.
Rafa tók Alonso útaf fyrir Sissoko og Finnan út fyrir Pongolle eftir um 70 mínútna leik, og svo þegar 12 mínútur voru til leiksloka tók hann Riise út fyrir Cissé og færði Morientes aðeins aftar. Þessar skiptingar áttu eftir að breyta öllu, og þá sérstaklega sú síðasta.
Þegar 8 mínútur voru eftir af leiknum fengu Moskvu-menn sjaldgæfa sókn. Reina greip boltann í teignum eftir fyrirgjöf og sparkaði honum samstundis fram. Þar lenti boltinn hjá Luis García sem skallaði hann áfram innfyrir, þar sem Djibril Cissé var í kapphlaupi um boltann við varnarmann Rússa. Varnarmaðurinn skaut boltanum klárlega í hönd Cissé en það sá það enginn fyrr en í endursýningu, þaðan fór boltinn yfir Akinfeev markvörð Moskvu og Cissé skaut honum í tómt netið. 1-1 og framlenging.
Í framlengingu skoraði Cissé svo aftur eftir stungusendingu frá Didi Hamann og svo innsiglaði García sigurinn með skalla af stuttu færi, eftir að Cissé hafði fengið stungusendingu upp hægri kantinn og átt góða fyrirgjöf.
Með öðrum orðum, Moskvu-menn höfðu þetta allt í hendi sér og virtust sáttir við að liggja í vörn og stöðva hægar sóknir Liverpool … þangað til hinn eldfljóti Cissé kom inná. Þá skyndilega var lausnin á varnarmúr Moskvu-manna kominn og okkar menn gengu á lagið, skoruðu þrisvar og í öll skiptin var það hraði Cissé sem gerði útslagið.
Það var að sjálfsögðu frábært að vinna þennan titil - og ná að skora heil þrjú mörk án Steven Gerrard - en þó verður maður að taka þessu með örlitlum vara. Staðreyndin er sú að Liverpool-liðið sótti allt of hægt og var fyrirsjáanlegt í flestum sínum aðgerðum í kvöld, alveg þangað til Cissé, Pongolle og Sissoko komu inná. Þá var loksins eins og einhver kraftur kæmi í sóknina og við urðum miklu líklegri til að skora fyrir vikið.
MAÐUR LEIKSINS: García var góður og klaufi að skora ekki þrennu í kvöld, og þá fannst mér þeir Hyypiä, Carragher og Josemi sterkir í vörninni í kvöld. Sérstaklega finnst mér ástæða til að hrósa Josemi, sem virðist vera að finna fæturna aftur eftir erfið misseri. Hann fékk laaangerfiðasta hlutverk okkar manna í kvöld - að halda aftur af besta leikmanni Moskvu-manna, hinum göldrótta Brasilíumanni Daniel Carvalho, og þótt Carvalho hafi tvisvar leikið hann upp úr skónum náði Josemi að standa fyrir sínu í 120 mínútur gegn honum og stóð á endanum uppi sem sigurvegari í því einvígi. Þá var Josemi einnig duglegri en flestir aðrir í liðinu að sækja fram á við og átti t.a.m. 3 markskot. Vonandi er þetta til marks um hvað koma skal hjá þeim spænska.
Á miðjunni fannst mér lítið vera að gerast, allir fjórir sem hófu leikinn voru frekar daufir og það var ekki fyrr en Sissoko og Pongolle komu inn á miðjuna að hlutirnir fóru að gerast. Sissoko er að verða stjörnuleikmaður í þessu liði, það sjá það allir, og það er af góðri ástæðu.
Frammi átti Fernando Morientes í miklum vandræðum - bæði var ekkert að gerast fyrir aftan hann og svo var hann í góðri gæslu hjá sterkum varnarmönnum rússneska liðsins. Þær fáu fyrirgjafir sem komu svo inní teiginn tók hinn ungi markvörður Akinfeev vel - hann er aðeins 19 ára! - þannig að þótt Morientes hafi verið slappur í kvöld finnst mér erfitt að gagnrýna hann að öllu leyti fyrir.
Það er þó engin spurning hver maður leiksins er … það var að sjálfsögðu DJIBRIL CISSÉ, sem breytti gjörsamlega öllu með sinni innkomu. Það hefur mikið mætt á honum undanfarna daga út af öflugu slúðri um framtíð hans - en ég verð mjööög hissa ef það reynir einn fréttamaður að halda því fram yfir helgina að hann verði seldur fyrir 1. september. Liverpool einfaldlega selur ekki Djibril Cissé eins og hann er að spila (kominn með 6 mörk nú þegar á tímabilinu), svo einfalt er það bara. Ef Owen kemur er hann frábær viðbót, en Cissé verður ekki seldur til að rýma fyrir þeim velska. Ekki séns!
Jæja, við getum allavega glaðst yfir því að bikarinn vannst í kvöld og okkar menn geta haldið inn í landsleikjahléð með bros á vör! Næsti leikur Liverpool er þann 10. september gegn Tottenham á útivelli í deildinni - og það kæmi mér ekkert á óvart þótt við sjáum Michael Owen og Djibril Cissé spila þar sinn fyrsta alvöruleik saman fyrir Liverpool!
Viðbót (Einar Örn): Já, mikið var gott að okkar mönnum tókst að klára þetta. Ef leikurinn hefði endað 1-0 hefðu komið í blöðunum 20 greinar um að við getum ekkert án Gerrard, að framherjarnir okkar séu vonlausir og svo framvegis og framvegis.
En í stað þess, þá bjargaði Djibril Cisse deginum. Hann og Sissoko voru virkilega góðir. Ég held að allir Liverpool aðdáendur hafi samglaðst Djibril Cisse í kvöld. Það er augljóst að þetta slúður hefur haft áhrif á hann, sem er vont því það er augljóst af viðtölum við hann að hann þráir ekkert heitar en að slá virkilega í gegn með Liverpool.
Hann þurfti bara smá heppni til að eitthvað færi inn og það gerðist í fyrsta markinu. Það var líka augljóst hvar styrkur Cisse liggur, því öll mörkin komu eftir langa stungusendingu inná hann. Það reyndist eina leiðin til að brjóta aftur þessa sterku vörn CSKA Moskva.
Það var líka ánægjulegt að Luis Garcia var loksins að spila vel í vetur. Hann hefði auðveldlega getað skorað, en annars lék hann virkilega vel. Undirbúningurinn hans fyrir skotið hans Josemi var hreinasta snilld. Einnig, þá lék Josemi vel, sem var virkilega gott. Er sammála Kristjáni um að hann hafi sinnt gríðarlega erfiðu hlutverki vel.
En fyrsti bikarinn kominn í hús, þrjú mörk án Steven Gerrard, tvö mörk fyrir Djibril Cisse og Luis Garcia kominn á blað. Þetta byrjaði seint, en mikið var þetta gaman. Ég var allavegana skælbrosandi þegar ég sá Cisse og Pongolle dansa saman á verðlaunapallinum.
Núna getum við allavegana farið inní þetta landsleikjahlé virkilega sátt!