02. ágúst, 2005
Jæja, okkar menn kláruðu dæmið í kvöld og eru komnir á sama stig og Everton & manchester united
eftir síðbúinn 2-0 sigur á Kaunas á Anfield í kvöld. Ég missti af fyrri hálfleiknum en skilst á þeim sem sáu hann fyrir mig að það hafi nákvæmlega ekki neitt markvert gerst á þeim 45 mínútum. Eins og Einar kom inná hér áðan, þá voru Crouch og Morientes frammi saman og höfðu víst báðir hægt um sig. Að sögn þeirra sem sáu leikinn var Sissoko sennilega bestur í daufu liði Liverpool í fyrri hálfleik.
Í hálfleik tók svo Rafa Morientes útaf og setti Cissé inná - hvort það var útaf meiðslum eða slöppum leik veit ég ekki, en leikur liðsins var allavega allt, allt, allt annar eftir að Cissé kom inná. Hann var nákvæmlega eina ógnin í seinni hálfleik og átti markið sem hann skoraði undir lok leiksins fyllilega skilið. Hefði getað skorað tvö í viðbót með smá heppni.
Eins og venjulega þá var ekkert að gerast þangað til Steven Gerrard kom inná, þegar 17 mínútur voru eftir. Þegar 14 mínútur voru eftir vorum við svo komnir í 1-0, boltinn lak á milli fóta markvarðar Kaunas eftir fast skot Gerrard. Cissé innsiglaði þetta svo.
MAÐUR LEIKSINS: Djibril Cissé og Mohammed Sissoko fá þennan heiður saman, og Gerrard fær Óskarsverðlaun fyrir besta aukahlutverk. Sissoko var víst góður í síðari hálfleik og studdi það sem ég sá til hans í síðari hálfleiknum alveg fyllilega undir þá tilgátu, á meðan Cissé sýndi enn og aftur að hann er langbeittasti sóknarmaður okkar um þessar mundir. Mér er einfaldlega spurn; þurfum við Michael Owen eins og hann er að spila? Hann er nú kominn með 3 mörk í 4 alvöru leikjum á þessu tímabili, en Stevie Wonder er kominn með 7 mörk í þessum 4 leikjum. Gott hjá þeim.
Annars er Milan Baros til í að fara til Everton, sem þýðir að honum er nákvæmlega skítsama um það hvernig Rauðir Púllarar munu hugsa til hans að honum förnum. Gott hjá honum, svekkjandi fyrir þá okkar sem hafa reynt að verja hann í gegnum tíðina. Þá vill ég frekar sjá hann fara til Aston Villa.
Jamm. CSKA Sofia frá Búlgaríu skilst mér eftir viku, vonandi verða engin slys þá. Við erum skrefi nær því að komast inn í Meistaradeildina, þar sem titilvörnin mun fá fullt stými áfram, og næsti leikur þar á eftir er gegn Middlesbrough í 1. umferð Úrvalsdeildarinnar. Þetta er allt að skella á!