01. ágúst, 2005
Framherjamálin.
Úff, þrátt fyrir að það viti allir Púllarar fullvel að þær stöður sem Rafa á eftir að styrkja séu varnarmaður og hægri vængmaður, virðist samt sem fréttir síðustu daga hafi snúist nær eingöngu um vangaveltur varðandi framherjana okkar. Bara svona til að rifja aðeins upp helgina (fyrir þá sem höfðu hugan við annað) þá er þetta staðan:
Milan Baros er að fara frá Liverpool til Schalke í Þýskalandi, væntanlega á láni (Einar verður ekki sáttur). Á meðan er allt að verða vitlaust í höfuðborg Spánar, þar sem Madríd voru að kaupa Julio Baptista OG Robinho, sem þýðir að Michael Owen er nær örugglega á leið heim til Englands á ný … og þá til manchester united
af öllum liðum! Auðvitað þýðir þetta að það myndast þrýstingur á Rafael Benítez að kaupa Golden Boy aftur til Liverpool, en hann er harður á því að framherjakaup séu EKKI forgangsatriði, auk þess sem Peter Crouch sé fullkomlega nógu góður fyrir okkur eins og er, sem meikar sens því að José Mourinho hlýtur að hafa áhyggjur.
Náðuð þið þessu öllu? Gott.
Allavega, ég er nokkurn veginn sammála Rafa. Auðvitað myndi ekkert lið í heiminum, nema sennilega Real Madríd, slá hendinni á móti þeirri tilhugsun að hafa Michael Owen í sínum röðum, en því miður höfum við ekki endalaust fjármagn og ef ég á að velja á milli þess að fá góðan hægri kantmann og bráðnauðsynlegan þriðja miðvörð, eða að fá Michael Owen - þá sjöunda framherjann okkar - og þurfa að taka sénsinn á heilu tímabili með bara Hyypiä og Carragher í miðverði, þá er alveg ljóst hvorn kostinn ég vel.
Því miður, St Mike, þú yfirgafst okkur fyrir ári og hugsaðir ekki um hag Liverpool heldur eigin hag, því er lítið annað að gera en að sjá þig ganga til liðs við manchester united
… MANCHESTER fokking UNITED … og vona svo að Crouch, Cissé og Morientes skori miklu, miklu, MIKLU meira en þú í vetur!
Annars hafði Paul Tomkins mjög áhugaverðar pælingar um Michael Owen. Hvet þá sem þyrstir í dramatík til að lesa nýjasta pistil hans.
Nú, ekki get ég látið mánudaginn líða án þess að minnast á það sem mér finnst vera bestu fréttir dagsins fyrir okkur. Við endurheimtum nefnilega framherja í dag, og nei hann heitir ekki Michael Owen. Þetta er framherji sem, í fjarveru Owen og Baros, getur boðið okkur upp á einstaka eiginleika sem munu nýtast liðinu gríðarlega vel í vetur. Þetta er leikmaður sem var hetja gegn Olympiakos í Meistaradeildinni, vann Southampton á heimavelli fyrir okkur einn síns liðs og var sennilega einn besti ungi leikmaður okkar, þangað til hann meiddist í janúar s.l. Þessi leikmaður heitir Florent Sinama-Pongolle.
Hver þarfnast Michael Owen svo sem?