28. júlí, 2005
Sky Sports segja í dag að Schalke hafi boðið í Milan Baros og hugsi sér hann sem staðgengil fyrir hinn brasilíska Ailton, sem fór nýverið frá þeim til Besiktas í Tyrklandi.
Ég fékk heimildir fyrir þessu fyrir helgi og nú virðist það hafa verið staðfest. Ég verð að segja að þetta yrðu góð skipti fyrir Baros, þar sem Schalke er stórlið og í Meistaradeildinni, auk þess sem tékkneskum leikmönnum gengur jafnan vel í Þýskalandi. Baros gæti þarna verið #1, aðalmaðurinn í liðinu, sem myndi koma honum til góða fyrir HM 2006.
Það er eitthvað talað um möguleikann á að hann velji Aston Villa fram yfir Schalke, þar sem góðvinur hans Patrik Berger er þar á mála, en ég verð að segja að það kæmi mér óendanlega mikið á óvart ef Baros tæki miðlungslið sem er ekki í Evrópukeppni yfir höfuð, fram yfir lið sem er í titilbaráttu ár hvert í einni af sterkustu deildum Evrópu, og er í Meistaradeildinni. Og ekki einu sinni minnast á West Ham, ég held að jafnvel bjartsýnustu Hammarar myndu ekki reyna að ljúga því að sjálfum sér að Baros vilji spila fyrir nýliðana. Ekkert illa meint, en ef Baros býðst lið í Meistaradeildinni mun það ráða úrslitum fyrir hann.
Ég mun fylgjast spenntur með næstu daga/vikur. Ef Milan á að yfirgefa Liverpool vona ég að hann finni sér góðan klúbb, Schalke gæti vel orðið sá klúbbur.