13. júlí, 2005
Liverpool 3 - T.N.S. 0
Jæja, fyrsti leikurinn búinn og okkar menn náðu að klára þetta með nokkurri sæmd.
TNS liðið barðist vel og náði á tímum að spila fínan fótbolta. Leikmennirnir héldu boltanum vel innan liðsins og vörðust vel. Liverpool menn náðu oft á tíðum ekki að skapa neitt af ráði og þeir nýttu svo færin frekar illa.
En við unnum þó 3-0 sigur, sem eru ágætis úrslit. Besti maður vallarins, Steven Gerrard skoraði þrennu, sína fyrstu fyrir Liverpool.
Allavegana, Rafa kom okkur pínulítið á óvart með því að hafa Warnock, Le Tallec og Potter í liðinu á meðan að Milan Baros kom ekki inná og Jerzy Dudek var uppí stúku.
Svona var byrjunarliðið:
Reina
Finnan - Carragher - Hyypiä - Warnock
Potter - Gerrard - Alonso - Riise
Le Tallec - Morientes
Liverpool byrjaði af krafti og eftir 20 mínútur var liðið komið í 2-0 með mörkum frá Steven Gerrard. Auk þess átti Fernando Morientes fulltaf færum, en hann hefði auðveldlega getað skorað þrennu í leiknum. Hins vegar, þá gerðist nánast ekkert síðustu 20 mínúturnar í fyrri hálfleik og þær fyrstu 20 í þeim seinni. Liverpool liðið lék mest upp miðjuna og kantarnir voru ekki með í spilinu. Nánast engin ógnun var hjá Liverpool og TNS lentu ekki í neinum vandræðum.
Rafa gerði þá tvær breytingar, fyrst tók hann Warnock útaf og setti Zenden á kantinn og Riise í bakvörðinn. Síðan tók hann Potter útaf og setti Cisse á kantinn. Bæði Zenden og Cisse hleyptu miklu lífi í spil Liverpool og loksins kom eitthvað útúr kantspilinu.
Liverpool fékk fulltaf færum, en að lokum var það Gerrard sem kláraði leikinn með sínu þriðja marki með vinstrifótar skoti af löngu færi.
Maður leiksins: Þetta er auðveldasta val á manni leiksins síðan að Xabi Alonso brilleraði gegn Norwich. Steven Gerrard var lang, lang, lang, lang, langbesti maður vallarins. Jafnvel þótt hann hefði ekki skorað eitt mark, þá hefði hann verið besti maður vallarins. En hann skoraði þrennu og því var þetta ekki nokkur spurning. Á tíðum virtist hann vera eini maðurinn, sem væri að spila á fullum hraða (fyrir utan Cisse kannski). Hann vann boltann margoft og skapaði færi fyrir sjálfan sig og aðra.
En allavegana, 3-0 eru fín úrslit og það eru líkur á að menn einsog Gerrard og Xabi geti byrjað á bekknum í næstu viku.