08. maí, 2005
Jæja, síðasti útileikur okkar í deildinni á þessu tímabili endaði með 3-1 tapi fyrir Arsenal á Highbury. Þrátt fyrir tapið ætti í raun ekki að vera hægt að kvarta mikið yfir þessum leik … en ég ætla samt að reyna. Hmmm.
Allavega, í hnotskurn þá töpuðu okkar menn þessum leik af því að þeir léku illa í 25 mínútur. Hræðilega illa. Fyrir utan þann 25 mínútna kafla vorum við betri í leiknum, og á köflum miklu, miklu betri. Þannig að þótt ég hafi spáð okkur tapi og spáð markaleik, þá var erfitt að sætta sig við tapið miðað við hvernig þessi leikur spilaðist.
Spá mín um byrjunarlið kolféll sem sagt, aðeins ein breyting frá því á þriðjudag gegn Chelsea (Alonso inn, Biscan út) og furðulegt var að sjá hvorki Pellegrino né Morientes í hópnum. Held reyndar að Pellegrino fari frá liðinu strax í sumar, og ég get bara giskað á að Morientes hafi verið meiddur eða í lélegu leikformi úr því hann var ekki einu sinni á bekknum. En nóg um það.
Liverpool byrjaði í dag með þetta lið:
Dudek
Finnan - Carra - Hyypiä - Traoré
García - Hamann - Alonso - Riise
Gerrard
Baros
BEKKUR: Carson, Smicer, Biscan, Kewell, Cissé.
Fyrstu fimmtán mínútur þessa leiks eða svo voru opnar og skemmtilegar - Liverpool höfðu stjórn á miðjunni og voru meira með boltann, en bæði lið voru að skapa sér opin og skemmtileg færi og skoruðu sitt markið hvort, sem voru bæði réttilega dæmd af. Þetta leit vel út og maður skemmti sér ágætlega við að horfa á þetta.
Svo bara gerðist eitthvað, á svona 15.-20. mínútu fyrri hálfleiks gjörsamlega hrundi Liverpool-liðið. Arsenal-menn gengu á lagið, óðu í færum og fengu allt of mikið pláss í sókninni … og þegar þetta Arsenal-lið er annars vegar þurfti ekki að spyrja að leikslokum. Þeir skoruðu tvö mörk á tíu mínútum og gerðu nánast út um leikinn fyrir hlé.
Fyrsta markið kom með aukaspyrnu Robert Pires, yfir vegginn og í nærhornið Thierry Henry-style. Samt fannst mér sá bolti vera vel verjanlegur ef markmaðurinn væri vel staðsettur, þar sem skotið var nokkuð laust. En hvar var Jerzy Dudek? Endursýningar sýndu að hann var svo illa staðsettur að ég saup hveljur, það var brandari að sjá hvað hann var langt yfir í fjærhorninu … hann hefði aldrei varið neitt sem kom á nærhornið. Aldrei. Ég var ótrúlega ósáttur við þann pólska þarna og þótt hann hafi átt góða leiki undanfarið, þá segi ég það sama nú og ég segi alltaf: hann fer frá Liverpool í sumar, enda er hann ekki nógu góður.
Seinna mark fyrri hálfleiksins var svo ennþá verra, ef eitthvað var. Það var engu líkara en menn væru búnir að gefast upp á 25. mínútu eða svo, því Carragher rann á rassinn og gaf Reyes færi á að hlaupa í svæðið sitt með boltann. Og hvað gerðu hinir varnarmennirnir? Ekkert! Alonso reyndi af veikum mætti að ná Reyes, á meðan Finnan, Hyypiä og Traoré horfðu á hann rölta í rólegheitum inn að markteignum. Þar mætti hann Jerzy Dudek, sem virtist ekki alveg viss hvort hann ætti yfirhöfuð að nenna að mæta honum, og setti boltann þægilega í nærhornið - sem var galopið.
2-0 fyrir Arsenal og ég var því feginn þegar flautað var til leiksloka. Rikki Daða var með það á hreinu að þetta væri af því að Rafael Benítez væri að spila hundleiðinlegan varnarbolta en það var bara rugl - fyrsta kortérið var þessi leikaðferð að ganga vel upp og Liverpool voru í mikilli sókn, en síðan bara hættu menn að reyna að spila gegn þessu Arsenal-liði. Ótrúlegt á að horfa, og enn verra að þurfa að hlusta á þennan bjána sem veit ekkert um fótbolta lýsa þessu á SkjáEinum.
Í hálfleik gerði Rafael Benítez það eina rétta, skipti Harry Kewell inná fyrir John Arne Riise - sem átti hér sinn slakasta leik í vetur - og Djibril Cissé inn fyrir Milan Baros, sem hefur einnig leikið betur.
Það var líka ljóst að hann hafði lesið hressilega yfir liðinu í hálfleik og líklega sagt eitthvað á þessa leið: “Ekki bera svona mikla virðingu fyrir Arsenal, ekki óttast þá, þið hafið engu að tapa, farið þarna út og pressið þá niður að eigin vítateig og jafnið þennan helvítis leik!”
Árangurinn lét ekki á sér standa. Í seinni hálfleik var bara eitt lið á vellinum, og það var ekki Arsenal. Eins lélegir og okkar menn voru seinni part fyrri hálfleiks, þá fóru þeir á kostum í síðari hálfleik. Gerrard, Alonso og Hamann lokuðu umferðinni á miðjunni, Traoré og Finnan óðu upp vængina með þeim Kewell og García og Cissé fékk haug af góðum færum og góðum sendingum - ef Philippe Senderos hefði ekki verið jafn góður og raun bar vitni hefði Djib getað skorað þrennu í dag. Við vorum einfaldlega með yfirburði í seinni hálfleik.
Það byrjaði líka vel, eftir 5 mínútur vorum við búnir að minnka muninn eftir að skot Steven Gerrard úr aukaspyrnu fór í fótinn á Senderos, að mér sýndist, og þaðan í bláhornið. Eftir það var pressa okkar manna mikil og manni fannst þetta bara vera spurning um hvort við næðum að jafna. En því miður gekk það ekki eftir, Cissé, Gerrard og Kewell sérstaklega klúðruðu nokkrum góðum færum hver og Luis García var nálægt því að skora í tvígang.
Undir lok leiksins, þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma, fór svo loks að draga af okkar mönnum sem voru búnir að gefa upp baráttuna um 4. sætið og þá komu Arsenal-menn með náðarhöggið. Boltinn datt fyrir Bergkamp í teignum sem sýndi enn kænsku sína, flikkaði honum aftur fyrir sig og inn á Fabregas sem var einn gegn Dudek. Og hvað gerði sá pólski? Óð hann kannski út, lagðist og reyndi með öllum ráðum að loka á Fabregas, þótt það væri vonlítið?
Nei. Hann lagðist á annað hnéð og setti hendurnar út eins og handboltamarkvörður. Og Fabregas þakkaði fyrir sig og renndi boltanum í nærhornið, 3-1 fyrir Arsenal og annað sætið gulltryggt hjá þeim, fjórða sætið endanlega farið hjá okkur.
Þegar upp er staðið er 3-1 sanngjörn niðurstaða, þar sem menn fá það sem þeir kalla yfir sig. Þrátt fyrir að hafa verið betri aðilinn í alveg 55-60 mínútur í þessum leik skoruðum við bara eitt mark, á meðan Arsenal-menn voru grimmir og refsuðu okkur harðlega á þessum 25 mínútna kafla í fyrri hálfleik. En engu að síður getur maður ekki annað en verið ósáttur með þetta tap, þar sem það er ekki oft sem maður sér Arsenal yfirspilaða á Highbury.
MAÐUR LEIKSINS: Af báðum liðum fannst mér Philippe Senderos, miðvörðurinn ungi, standa upp úr með frábærri frammistöðu en hjá okkar mönnum fannst mér sennilega Alonso og Gerrard standa upp úr annars jöfnu liði. Þeir áttu enga yfirburðaleiki en voru driffjöðurin í liðinu, sérstaklega í seinni hálfleik. Þá áttu Kewell og Cissé góðar innkomur og breyttu gangi mála í sóknarleiknum í seinni hálfleik.
Því miður er ekki hægt að segja það sama um Vladimir Smicer, né Jerzy Dudek. Ég skal fyrirgefa John Arne Riise þar sem hann hefur annars verið ótrúlega góður í vetur, en við höfum einfaldlega of oft séð Smicer koma inná og geta ekki rassgat. Hann er samningslaus í sumar og má fara fyrir mér, ég er búinn að fá nóg.
Og Jerzy? Greyið, mér þykir eilítið vænt um hann og hann hefur oft átt stórleiki fyrir Liverpool. En staðreyndirnar tala sínu máli: við vinnum aldrei deildina með markvörð eins og Jerzy Dudek milli stanganna. Þannig er það bara. Býst fastlega við að sjá José Reina frá Villareal milli stanganna í fyrsta deildarleik í haust, hreinlega vona það, því allt er betra en sú frammistað sem Jerzy sýndi okkur í dag.
Þannig fór um sjóferð þá, fjórða sætið farið og Everton-menn geta byrjað að fagna. Þeim óska ég til hamingju og vona bara að okkar menn nái að tryggja sér 5. sætið með sigri á Aston Villa eftir viku, í síðasta deildarleik þessa tímabils. Það eina sem getur komið okkur í Meistaradeildina úr þessu er að við vinnum Meistaradeildina í lok maí og UEFA ákveði að hleypa okkur inn sem fimmta liðinu frá Englandi - en það er harla ólíklegt, því miður.
Þannig að öllum líkindum verður það Evrópukeppni Félagsliða á næsta ári. Það er mjög slæmt, samanborið við toppleiki í hverjum mánuði í Meistaradeildinni, en á móti kemur að við getum vel unnið Evrópukeppni Félagsliða á næsta ári … og minni pressa í Evrópu gæti þýtt betri og meiri fókus á ensku Úrvalsdeildina á næsta ári. Hvort menn kjósa að einblína á jákvæðu eða neikvæðu punktana verður hver og einn að eiga fyrir sig - en ég er á þeirri skoðun að þetta gæti kannski reynst örlítil ‘blessun í dulargervi’ … minnugur þess hvað gerðist síðast þegar Rafael Benítez stjórnaði liði í Evrópukeppni Félagsliða.