beach
« Liðið á móti Tottenham komið | Aðalsíða | Möguleikar á fjórða sætinu »

16. apríl, 2005
Liverpool 2 - Tottenham 2

Jafntefli á heimavelli, komnir niður í 6.sæti. Draumurinn um sæti í Meistaradeildinni að breytast í martröð.

Þið, sem rakkið Milan Baros niður fyrir hvert einasta klúður, segið mér: HVERNIG Í ANDSKOTANUM ER FERNANDO MORIENTES BETRI???

Í alvöru!

Ef að Milan Baros hefði klúðrað færi líkt og Morientes í lok leiks, þá hefðuð þið viljað láta hálshöggva hann í leikslok. Að mínu mati er Morientes án efa vonbrigði vetrarins. Hann hefur ekki getað nokkur skapaðan hlut í þeim leikjum, sem hann hefur spilað. Hann berst ekki fyrir liðið, virkar áhugalaus og klúðrar þeim örfáu færum, sem hann skapar sér. Berið það svo saman við Milan Baros, sem hleypur einsog brjálæðingur, berst fyrir liðið allan leikinn og er okkar markahæsti leikmaður. Milan Baros er ekki fullkominn og honum hefur gengið illa að skora að undanförnu, en það er algjörlega augljóst hver þeirra tveggja hefur meiri áhuga á gengi Liverpool.

Ég var brjálaður í leikslok. Hef ekki verið svona brjálaður lengi. Ég er ennþá brjálaður og það mun eflaust sýna sig í þessari leikskýrslu. Yfir síðustu töpum, gegn City, Birmingham og fleirum hef ég verið fúll, verulega fúll, en núna var ég einfaldlega reiður. Við yfirspiluðum þetta Tottenham í leiknum! Við áttum 19 FOKKING SKOT Á MARKIÐ!!!, en náum samt EKKI að vinna!!! Hvað er eiginlega að þessu liði? Í alvöru!? Þetta er gjörsamlega óþolandi.

Núna er Bolton komið fyrir ofan okkur í töflunni og prógrammið þeirra, það sem eftir er af leiktíðinni er ekki svo ýkja erfitt, fyrir utan leik gegn Chelsea. Everton er þremur stigum fyrir ofan okkur og við þurfum nú að treysta á viðbjóðinn í manchester united til að klára það, sem okkur tekst ekki að klára.

EKKI NÓGU GOTT!

Svona byrjaði þetta:

Dudek

Finnan - Pellegrino - Hyypiä - Carra

Nunez - Gerrard - Alonso - Warnock

Morientes - Garcia

Edman skoraði fyrir Tottenham í byrjun leiks með fáránlegu skoti, sem pólska hörmungin hefði átt að verja. En auðvitað varði hann ekki, heldur valhoppaði einungis á línunni og beið eftir að boltinn færi í netið.

Liverpool jafnaði þegar að Luis Garcia snéri af sér varnarmann og setti boltann frábærlega með vinstri fæti í markhornið. Tottenham komst aftur yfir þegar að Pellegrino lét plata sig (deja vu Southampton), það kom sending fyrir og Robbie Fokking Keane skoraði. Pellegrino, sem hefur leikið vel að undanförnu var fullkomlega ömurlegur í þessum leik. Kom sér hvað eftir annað í vandræði og ég er 110% viss um að úrslitin hefðu ekki verið þau sömu ef að Traore hefði byrjað inná.

Gerrard vann sér inn vítaspyrnu þegar hann var felldur eftir gott samspil með Luis Garcia, en Gerrard klúðraði vítinu. Sami Hyypia náði þó að bæta fyrir það með því að skora glæsilegt mark með skoti eftir hornspyrnu. Liverpool fékk eftir það ótal tækifæri til að skora, en öll klúðruðust þau. Sýnu verst var klúðrið hjá Fernando í lokin.

Þið verðið að fyrirgefa, en ég er hreinlega brjálaður nú í leikslok. Þrátt fyrir að ég hafi verið veeeerulega fúll útí Morientes í undanförnum leikjum og fundist hann vera gagnslaus, þá hef ég haldið niðrí mér, jafnvel þótt að gagnrýni á aðra framherja (lesist Milan Baros) hafi verið óvægin. En ég get ekki þagað lengur. Morientes var ömurlegur í þessum leik. Þrír af fimm spænsku mælandi leikmönnunum í liðinu, Antonio Nunez, Fernando Morientes og Mauricio Pellegrino voru hræðilegir. Við getum bætt í þann hóp Stephen Warnock og þá erum við komin með þá leikmenn, sem skiluðu nákvæmlega engu í dag.

Ég veit að lesendur eiga eftir að gagnrýna mig vegna þess að við viljum öll trúa því að Morientes sé betri en hann hefur spilað. En hann hefur einfaldlega verið lélegur og hann á skilið gagnrýni líkt og allir aðrir. Ég nenni ekki að eyða eins mörgum orðum í Nunez, hann allavegana berst fyrir liðið. Vandamálið við hann er einfaldlega að hann skortir alla hæfileika!


Maður leiksins: Þrír af fimm spænsku mælandi leikmönnunum skiluðu engu, en hinir tveir voru frábærir. Luis Garcia var hættulegur allan tímann, skapaði færi fyrir aðra, skoraði frábært mark, barðist og reyndi að gera hluti, sem aðrir voru ekki að gera.

Það er hins vegar engin spurning að besti maður vallarins í dag heitir Xabi Alonso!!! Hann var algjörlega frábær, stjórnaði öllu á miðjunni og gaf Gerrard tækifæri til að sækja. Hann vann fjöldann allan af boltum og nákvæmlega ALLT spil Liverpool fór í gegnum hann. Algjörlega frábær leikur hjá honum, en því miður var það ekki nóg.


Núna er sæti í Meistaradeildinni á næsta ári orðið nánast útilokað. Þetta er svo gott sem búið í bili. Við getum alltaf sagt að þetta geti komið í næsta leik og að Everton og Bolton tapi og svo framvegis. En staðreyndi er einfaldlega sú að við höfum bara náð einu stigi af SEX mögulegum í síðustu tveimur leikjum.

Þvílík vonbrigði. Liverpool og Bayer Leverkusen verða því einu liðin, sem komust í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar í ár, sem fá ekki einu sinni að vera með á næsta ári. Ömurlegt!

Ég ætla út í rigninguna til að reyna að gleyma þessu liði, allavegana í smá stund.

.: Einar Örn uppfærði kl. 16:16 | 842 Orð | Flokkur: Leikskýrslur
Ummæli (42)

Sælir.

Já þetta fór ekki eins vel og björtustu menn höfðu vonað. Reyndar var ég búinn að spá því að 4. sætið væri úr sögunni eftir tapið á móti City. Rökin voru þessi: við eigum 3 útileiki eftir náum kannski 1 stigi út úr þeim og síðan áttum við Tottenham og Middlesb. eftir heima, bæði þessi lið gætu náð stigi á Anfield. Því miður gerðist það í dag að Tottenham náði stigi.

Varðandi leikinn sjálfan þá sá ég bara síðari hálfleik.

Einar ég er hjartanlega sammála þér með frammistöðu hans Pellegrino. Dagskipun Spurs var að sækja á hann, enda fóru allar sendingar upp á hans kant. Finnan hafði ekkert að gera varnarlega í síðari hálfleik. Hvar var Traore? Er hann meiddur?

Svo er það annar leikmaður sem ég því miður verð að segja að eigi ekki heima í byrjunarliði Liverpool. Það er hann Riise. Jú í öllum þessum meiðslum þá er hann betri en enginn ég viðurkenni það. Hann toppaði fyrir nokkrum vikum síðan og skoraði nokkur mörk, en nú er hann að sýna sitt rétta andlit, í síðustu leikjum hefur Riise verið dapur. það er ótrúlegt að hvað hann á erfitt með að þvæla bakverði andstæðinganna, sama hversu slakir þeir eru.

Ég hef alla trú á því að Benitez versli eitt stikki vinstri kantmann næsta sumar.

Vonandi hef ég rangt fyrir mér varðandi næstu leiki, en tíminn einn mun leiða það í ljós.

Kveðja Krizzi

Krizzi sendi inn - 16.04.05 17:58 - (
Ummæli #6)

Við munum líklegast aldrei komast að því hvað það er að vera sannur aðdáandi því að lífið hér á klakanuum snýst um svo margt meira en enska boltann, og það sem meira er þá höfum við viðskiptavinirnir engin tengsl við Liverpool og getum tæknilega séð farið að halda með hvaða liði sem er því að það hrjáir ekki okkar stolt og samvisku.

Víkingur, fyrirgefðu, en þetta er bara tóm tjara hjá þér. Það má vel vera að þú upplifir þig svona, en það sama á ekki við um mig.

Ég get ekkert tæknilega farið að halda með einhverju öðru liði. Jafnvel þótt ég reyndi af öllum lífs og sálar kröftum, þá gæti ég það ekki. Og ég sé alveg glottandi Everton, manchester united og Tottenham menn á hverjum degi.

Ég fór í göngutúrinn, en auðvitað gat ég ekki gleymt liðinu. Það hefur alltof mikil áhrif á mig.

Auðvitað verður þetta aldrei eins hjá okkur og þeim, sem eyða öllum sínum tíma í kringum Liverpool, ferðast á alla útileiki og slíkt.

En það er samt engin ástæða til að gera lítið úr okkar stuðningi og kalla okkur “viðskiptavini”. Þú getur nú sýnt okkur örlítið meiri virðingu.

Og JÚ, Dudek hefði átt að verja þetta. Það er ekki til of mikils ætlast af honum. Svo væri líka frábært ef að hann og Kirkland gætu svona almennt sleppt því að fá á sig mark úr öðru hvoru skoti.

Og Egill, hvernig var Morientes góður? Hann fékk upplagt skallafæri, en skallaði beint á markvörðinn og svo brenndi af hann af með skoti af markteig. Fyrir utan það sá ég ekki til hans í leiknum.

Einar Örn sendi inn - 16.04.05 17:59 - (Ummæli #8)

En hvernig geturu kallað þig stuðningsmann og hvernig geturu kallað þig Liverpool mann? Hvernig getur fólkið sem að þú mætir kallað sig Man Utd, Everton eða Tottenham aðdáendur? Það er enging afsökun að segjast hafa byrjað að halda með Liverpool vegna þess að pabbi hélt með þeim eða álíka. Þú getur aðeins verið sannur stuðningsmaður liðs ef að þú tengist liðinu á þann hátt að þú fæddist í Liverpool eða þú ólst upp í borginni eða að þú ert ættaður þaðan, annars hefuru engin tengsl við þetta lið og ert aðeins viðskiptavinur.

Það er svo margt annað sem að við spáum í hér á klakanum en fótbolti á meðan að lífið snýst aðeins um fótbolta í Bítlaborginni. Miðstéttar verkamenn eyða fleiri þúsundum í ársmiða og ferðast á leiki til þess að styðja liðið á meðan að við sitjum fyrir framan imbann með kaldann bjór í hægri og njótum leiksins. Tap hefur engin áhrif á okkur eins og það hefur á stuðningsmenn félagsins.

Ég er ekki að segja að þið eigið að hætta að fylgjast með fótbolta, en þið eruð ef til vill að taka þessu of alvarlega ef að svona frammistaða hjá Liverpool eyðileggur daginn eða vikuna hjá ykkur þar sem að þessi klúbbur tengist ykkur á engann hátt. Ef að liðið vinnur t.d. CL á þessu tímabili þá hvað með það ? Þú ert mjög glaður þann dag og grobbar þig fyrir framan Man Utd og Arsenal viðskiptavinina og hvað svo? Síðan helduru áfram að gera það sem að þú varst upphaflega að gera á meðan að þetta sýst allt um stolt þarna úti, ekki bara vegna þess að Liverpool vann heldur líka vegna þess að breskt lið vann.

Vikingur sendi inn - 16.04.05 18:46 - (
Ummæli #12)

Það er greinilegt að menn eiga mjög erfitt með að gerast málefnanlegir hér og eiga erfitt með að skilja ritað mál, þá sérstaklega íslensku.

Engin svör fæ ég gagnvart spurningum mínum heldur aðeins úldnar samlokur og sviðasultu.

Það virðist hrökkva í fólki þegar að ég spyrst fyrir um hollustu þeirra gagnvart fótbolta klúbbi og sérstaklega þegar að ég spyr hvað eða hvernig þessi klúbbur snertir fólk svona mikið að eftir eitt tap eða jafntefli að þá er farið í fýlu og bölvað liðinu. Hvernig getur fólk verið annað en viðskiptavinir þegar að það tengist ekki klúbbnum á neinn hátt? Það er eitt að vera fótbolta aðdáandi, þar sem að fótbolti er alþjóðlegur, en Liverpool er breskur klúbbur og 95% fólks sem að styður félagið í öllum (ath öllum) leikjum eru bretar (Þú styður lið með því að mæta á leiki og hvetja það). Ekki endilega fólk sem að á einungis heima í Liverpool, heldur líka fólk sem að á heima í öðrum bæjum og borgum á Bretlandseyjum en eru tengd Liverpool á þann hátt að þeim finnst ógurlega vænt um klúbbinn (ættingjar, fæðing, alast upp í Liverpool).

Hvernig getið þið kallað ykkur stuðningsmenn þegar að þið sáðu Liverpool fyrst á imbanum, byrjuðuð að fylgjast með því að þeir voru bestir á þeim tíma, eða vegna þess að pabbi hélt með þeim, eða hann hélt með Man Utd og þið því með Liverpool, á meðan að stuðningsmenn ferðast um allt England og endilanga Evrópu til þess að styðja sitt heimalið og viðhalda sýnu bæjarstolti?

Ég er ekkert á móti því að viðskiptavinir fylgjast með einhverju liði í boltanum, en afhverju að gera sig svona æstann og leiðann útaf einu liði? Ef að liðið er svona lélegt afhverju ekki þá bara fylgjast með Chelsea? Þið hafið allveg jafn mikinn rétt á að fylgjast með Chelsea eins og þið hafið með því að fylgjast með Liverpool. Ekki eins og þið ólust upp í Bítlaborginni eða fæddust þar eða getið rekið ættir ykkar þangað þannig að þið eruð skulbundin Liverpool.

Ég vil fá næstu samloku með salati, gúrku, papriku og osti!

Vikingur sendi inn - 17.04.05 01:52 - (
Ummæli #25)

Víkingur: “Hvernig getið þið kallað ykkur stuðningsmenn þegar að þið sáðu Liverpool fyrst á imbanum” Hvernig getur þú sagt að við séum það ekki?

“95% fólks sem að styður félagið í öllum (ath öllum) leikjum eru bretar (Þú styður lið með því að mæta á leiki og hvetja það).” Við myndum líklega flestir mæta á alla leiki ef það væri fjárhagslega mögulegt.

Það sem þú ert að halda fram er mjög algengur “rasismi” (eða kannski frekar “elitismi”:-) sem veður uppí í Bretlandi núna, að menn geti ekki verið sannir stuðningsmenn ef þeir mæta ekki á alla leiki. Ef þú vilt ekki hafa okkur sem stuðningsmenn þíns heilaga liðs, þá ert þú um þá skoðun, en ekki reyna að troða þínum skoðunum uppá okkur, við erum flestöll fullorðið fólk sem er fært um að taka okkar eigin ákvarðanir og velja okkar eigin áhugamál og ástríður.

Þú segir að við getum ekki verið málefnalegir, ekki finnst mér þú vera mjög málefnalegur að koma inn á þessa síðu og mála okkur ALLA sem lesum og skrifum hérna með þeim bursta að við séum ekki sannir stuðningsmenn og megum ekki vera það. Það ert ÞÚ sem ert ekki málefnalegur, heldur hreinlega dónalegur. Ef þú ert ekki algerlega að reyna að gera grín að okkur mættu þá endilega niður á Players næst þegar Liverpool leikur er sýndur þar (eða sendu einhvern í þínu umboði ef þú kemst ekki) og haltu fyrirlestur þar um þínar “skoðanir”.

Ég endurtek, þú ert augljóslega þurs (troll) og ég er hálfviti að falla fyrir þessu, en svona er bara lífið. :-)

DaðiS sendi inn - 17.04.05 08:27 - (
Ummæli #27)

Áhugafólk um íþróttir t.d. knattspyrnu finnst oft á tíðum skemmtilegra að taka afstöðu með einhverju liði, það gerir leikinn skemmtilegri. Hafa smá keppni í þessu. Hvers vegna þessi eða hinn heldur með þessu eða hinu liðinu er jafn mismunandi og fólkið. Það er alls ekki algilt að Skagamaður haldi með ÍA eða Eyjamaður haldi með ÍBV og það sama á við England, Ítalíu o.s.frv.

Hvort stuðningsmenn t.d. Liverpool taki það nærri sér þegar liðið tapi eður ei er líka mismunandi og þú ert engu meiri maður ef dagurinn er ónýtur ef liðið þitt tapar. Þrátt fyrir allt þá er þetta leikur og lífið heldur áfram sinn vanagang hvort sem Liverpool vinnur titil eða Arsenal.
Hvað um það þá get ég ekki séð hvernig þú getur sest í dómarasæti og ákveðið að þessi og hinn séu ekki “sannir” stuðningsmenn út frá ákveðnum forsendum sem þú gefur þér… Þetta er einfaldlega svona einfalt og allt er rétt og ekkert er rangt. Hvort sem pabbi hélt með Liverpool eða stóri bróðir eða þú hélst uppá Jan Mølby eða þér fannst Crown Paints auglýsing svo flott það breytir engu… Hversu mikill stuðningsmaður þú ert eða lítill það breytir engu heldur… Fólk heldur með sínu liði, styðru það, fer út á leiki, hittir félagana yfir leik í TV-inu o.s.frv. Stundum er gleði, stundum er sorg… Víkingur: hættu að gera lítið úr skoðunum annarra ef þú þolir ekki að aðrir svari í sömu mynt.
Áfram Liverpool og strákar (Einar og Kristján) þetta er snilldarsíða og umfram allt ekki ritskoða allt áður en þið skrifið um liðið… það verður að vera tilfinning í hlutunum, ekki allt yfirvegað og sterílt. Ses

Aggi sendi inn - 17.04.05 14:02 - (
Ummæli #30)
…og tel t.a.m. sjálfan mig tengjast klúbbnum heilmiklum böndum og það hefur ekkert að gera með landfræðilega legu Liverpool!

Ef að Liverpool hefðu aldrei verið t.d. sýndir í sjónvarpinu, kannski aðeins Man Utd og Arsenal, værir þú þá tengdur Liverpool svona miklum böndum? Ef að Norwitch hefði kannski verið sýnt í sjónvarpinu í staðin fyrir Liverpool værir þú þá ekki tengdur þeim jafn miklum böndum?

Vissulega eru menn misjafnlega miklir stuðningsmenn og láta slæm/góð úrslit hafa mismikil áhrif á sig.

Hvernig þá eru menn mismiklir stuðningsmenn klúbbs? Ég er ósammála þessari staðhæfingu því að bönd fólks við sinn heimabæ eru ekki mismikil. Þessvegna er ekki hægt að kalla ykkur annað en viðskiptavini, því að í rauninni eru einu bönd ykkar við klúbbinn sjónvarpið.

Víkingur: “Hvernig getið þið kallað ykkur stuðningsmenn þegar að þið sáðu Liverpool fyrst á imbanum” Hvernig getur þú sagt að við séum það ekki?

Því að einu bönd ykkar við klúbbinn er sjónvarpið.

Ég skil ekki afhverju fólk tekur þessari staðhæfingu svona alvarlega? Ég er ekki að segja að þið megið ekki horfa á enska boltann, þvert í frá, en mér finnst þið vera að ýkja svo mikið eftir tap eða jafntefli að þið getið ekki verið annað en viðskiptavinir, eða gervi aðdáendur (hvernig sem fólk vill túlka það).

Víkingur: hættu að gera lítið úr skoðunum annarra ef þú þolir ekki að aðrir svari í sömu mynt.

Ég er alls ekki að gera lítið úr skoðunum annars fólks, en þið eruð að gera lítið úr mínum skoðunum því að þið getið ekki afsannað þær. Þið eigið líklega aldrei eftir að komast að því hvað er að vera stuðningsmaður og ástríðuna sem að fylgir henni að þessi fýluköst sem að þið fáið eftir tap leiki er ekkert miðað við tilfinningar stuðningsmannsins sem að sækir alla heimaleiki og alla þá útileiki sem að hann hefur efni á.

Vikingur sendi inn - 17.04.05 15:20 - (
Ummæli #33)

Ég verð að segja að þessir besserwisserataktar í þér Víkingur fara afskaplega mikið í taugarnar á mér. Ef þú þykist vita meira um tengsl mín og annarra stuðningsmanna fjarlægra íþróttaliða við þau lið, þá bara til hamingju með það! Gott til þess að vita að jafn vel upplýst, frótt og réttsýnt fólk og þú gangi um þessa jörð ásamt okkur almúganum.

En fyrst þú ert með þetta allt á hreinu, gætirðu þá bara ekki látið okkur gerviáhangendurna og viðskiptavinina í friði og leyft okkur að lifa áfram í okkar fáfræði og heimsku? Þetta gríðarlega úrhelli sem við höfum fengið hérna úr viskubrunni þínum gerir það nefnilega að verkum að umræðurnar á þessari annars frábæri síðu breytast í einhvern sandkassaleik, kjaftæði og röfl um keisarans skegg sem einkennir ansi marga spjallvefina.

Þessi frábæri bloggvefur Kristjáns og Einars hefur einmitt verið blessunarlega laus við allt slíkt bull og hefur þess vegna verið einn af mínum uppáhaldsáfangastöðum á Netinu síðustu misseri. Plís ekki skemma það fyrir mér. Líttu niður á mig, fyrir alla muni, haltu áfram að vita betur en ég hvernig mér líður eða ætti að líða í samanburði við fólk sem býr annars staðar í veröldinni. Ég bið þig hins vegar bara um eitt: ekki - EKKI - verða leiðinlegi gaurinn sem kíkir hingað reglulega til að snapa röfl og viðbrögð. Takk fyrir.

Kiddi sendi inn - 17.04.05 16:06 - (Ummæli #36)

Ja hérna, það hafa aldeilis verið fjörugar umræður hérna. Ætli ég reyni ekki að svara því, sem hefur verið beint að okkur síðhöfundum fyrst:

Ólafur Örn segir:

Ég verð nú bara að segja það að mér hefur yfirleitt þótt gaman að lesa það sem kemur fram á þessari síðu en þessi grein um leikinn í dag er bara út í hött. Ég held að ef menn geti ekki haldið skapinu þá ættu þeir að bíða aðeins með að skrifa.

Ólafur, ég virði þetta sjónarmið þitt algjörlega. En það er einfaldlega ekki tilgangur okkar að vera prúðir í skrifum okkar, heldur leyfum við okkur að æsa okkur þegar illa gengur og vera í skýjunum þegar vel gengur. Þú getur fundið hundruðir leikskýrslna, þar sem farið yfir leikinn á hlutlausan hátt og því teljum við ekki þörf á að bæta við það. Ef þér finnst gaman að lesa leikskýrslur einsog á BBC, þá hvet ég þig til að heimsækja þær síður. Ég persónulega mun halda áfram að skrifa það sem mér finnst í leikslok, því það er það sem ég vil lesa. Þannig að þú verður bara að fyrirgefa okkur æsinginn og endilega kommenta á það hvar nákvæmlega þér finnst við fara yfir strikið.

Þér er óhætt að benda á það hvað var “út í hött” í skýrslunni. Ég sá í raun bara tvær virkilega radical punkta í þessu, það er gagnrýnina á Morientes og Dudek. Hitt fannst mér ekkert sérstaklega æsilegt. :-)

Einar Örn sendi inn - 17.04.05 16:12 - (Ummæli #38)

Varðandi Víkings kommentið, þá hafa borist mörg málefnaleg og góð svör við þessum pillum hans. Ummæli hans um að lesendur þessarar síðu séu ómálefnalegir og eigi erfitt með að skilja ritað mál, falla um sjálf sig. Þetta er gríðarlega þreytt viðhorf að einu stuðningsmennirnir séu þeir, sem mæta á leiki. Þeir þurfa líka helst að vera verkamenn, sem eyða öllum launum sínum í miða. Þetta er svona nokkurs konar elítismi og ekki í nokkrum takti við raunveruleikann í dag.

Einfaldlega finnt mér skína í gegn að Víkingi finnst það hálf kjánalegt að við skulum vera svona heitir yfir gengi þessa fótboltaliðs. Því er það gjörsamlega tilgangslaust fyrir okkur að reyna að útskýra það eða verja. Víkingur biður okkur um réttlætingu á stuðningi okkar við Liverpool en staðreyndin er einfaldlega sú að við skuldum engum það að útskýra stuðning okkar. Svo einfalt er það.

Ég hef oft lent í að fá spurningar frá fólki, sem fílar ekki fótbolta, af hverju í ósköpunum ég æsi mig svona mikið yfir gengi þessa liðs?. Svarið er einfaldlega að mér er annt um þetta lið. Þegar ég er beðinn um að skýra það nánar, þá er það erfiðara. Enda tel ég enga sérstaka ástæðu til að útskýra eða afsaka þessa ástríðu mína á liðinu. Þeir, sem eru ekki heitir stuðningsmenn munu sennilega aldrei skilja af hverju við hinir æsum okkur svona útaf liðunum okkar. Það er heldur enginn sérstakur tilgangur minn um að frelsa það fólk. Hver er tilgangur þess að verja þessar skoðanir okkar? Hvaða máli skiptir það hvers vegna við byrjuðum að fylgjast með Liverpool? Sú ástæða gerir okkur hvorki betri né verri stuðningsmenn fyrir vikið.

Haukur, varðandi það að eyða kommentunum út, þá sleppi ég því núna því að lesendur þessarar síðu hafa verið fullfærir að svara fyrir sig. En að koma með svona komment í leikskýrslu eftir leik, sem olli okkur vonbrigðum, vitandi það að 90% lesenda yrði í fúlu skapi, er auðvitað til þess eins fallið að reyna að æsa okkur upp. Ef Víkingur hefði í einlægni viljað einhver svör, þá hefði hann komið með þessi ummæli á öðrum tímapunkti. Hann vissi auðvitað að hefði hann kommentað þetta eftir Juventus leikinn þá hefði enginn nennt að æsa sig á þessu. Troll af verstu gerð

Einnig segir Víkingur

Ég er alls ekki að gera lítið úr skoðunum annars fólks, en þið eruð að gera lítið úr mínum skoðunum því að þið getið ekki afsannað þær.

Víkingur, þér getur ekki verið alvara með þessu kommenti. Hvernig á ég að afsanna það að ég sé ekki viðskiptavinur frekar en stuðningsmaður? Þetta er bara eitthvað hugtök, sem þú skellir á okkur og ætlast til að við sönnum eða afsönnum að hugtökin falli á okkur. Það er auðvitað fjarstæðukennt að halda því fram. Ég get ekki sannað eða afsannað það að ég sé stuðningsmaður. Sama hversu mikið ég æsi mig eða hversu marga leiki ég fer á, get ég ekki sannað það að ég sé stuðningsmaður, ekki frekar en að gaurinn með ársmiðann í Kop stúkunni getur sannað það að hann sé stuðningsmaður. Enda er okkur báðum alveg sama og finnum litla þörf á því að sanna stuðninginn okkar fyrir öðrum

Þú getur ekki sannað eða afsannað tilfinningar þínar. Þetta er líkt því og að ég myndi halda því fram að þér væri ekki annt um kærustuna þína og bæði þig um að afsanna það. Þú getur ekki sannað eða afsannað hvort þínar tilfinningar til ákveðins málstaðar eða persónu séu sannar. Svo einfalt er það. Því er þessi umræða öll á villigötum og tilgangur þinn getur sá einn verið að móðga okkur og gera lítið úr okkar skoðunum.

Einar Örn sendi inn - 17.04.05 16:28 - (Ummæli #39)

Sammála, Gísli. Ég var að bæta inn grein, þar sem ég reyni að meta möguleika okkar a fjórða sætinu. Ég var kannski aðeins of þunglyndur í gær :-)

Einar Örn sendi inn - 17.04.05 18:08 - (Ummæli #42)
Senda inn ummæli

Athugið að það tekur smá tíma að hlaða síðuna aftur eftir að ýtt hefur verið á "Staðfesta".

Hægt er að nota HTML kóða í ummælunum. Hægt er að nota a href, b, br, p, strong, em, ul, li og blockquote

Við áskiljum okkur allan rétt til að eyða út ummælum, sem eru á einhvern hátt móðgandi, hvort sem það er gagnvart stjórnendum síðunnar eða öðrum. Þetta á sérstaklega við um nafnlaus ummæli.

Nafn:


Tölvupóstur (ath. póstfangið birtist ekki á síðunni):


Heimasíða (ekki nauðsynlegt):
:smile: :biggrin: :biggrin2: :blush: :confused: :laugh:

:mad: :rolleyes: :shock: :sad: :tongue: :wink:

Ummæli:


Muna upplýsingar?





Flokkar

Almennt · Enski Boltinn · Fjölmiðlar · Landslið · Leikmannakaup og sölur · Leikmenn · Leikskýrslur · Liverpool · Meiðsli · Meistaradeild · Slúður · Topp10 · Upphitun · Vangaveltur · Veðmál · Þjálfaramál ·

Um Síðuna

Um Síðuna

Um höfundana

Einar Örn

Kristján Atli

Aggi

Síðustu leikir

·Aston Villa 0 - Liverpool 2
·Liverpool 3 - Anderlecht 0
·Liverpool 2 - West Ham 0
·C. Palace 2 - Liverpool 1 (uppfært)
·Fulham 2 - Liverpool 0

Síðustu Ummæli

Einar Örn: Sammála, Gísli. Ég var að bæta inn [gre ...[Skoða]
Gísli: Liverpool eiga alveg séns á CL sætinu en ...[Skoða]
Aggi: Heyr heyr ...[Skoða]
Einar Örn: Varðandi Víkings kommentið, þá hafa bori ...[Skoða]
Einar Örn: Ja hérna, það hafa aldeilis verið fjörug ...[Skoða]
Haukur: Hvernig væri að eyða þessum Víkingsummæl ...[Skoða]
Kiddi: Ég verð að segja að þessir besserwissera ...[Skoða]
DaðiS: Ég sé að víkingur svara ekki mínum athug ...[Skoða]
Vikingur:

Ætli það þýði ekki að ég sé
...[Skoða]
Vikingur:
...og tel t.a.m. sjálfan mig
...[Skoða]

Síðustu færslur

· Rafa í hálfleik í Istanbúl
· Liverpool að fá bandaríska fjárfestingu?
· Liverpool að kaupa ungan vængmann
· Crouch ræðir um háværar gagnrýnisraddir (uppfært)
· Lið vikunnar
· Breyting á server

Tenglar

Einar :: Vefleiðari

JupiterFrost

NewsNow Liverpool

ESPN

Cubs

BBC

Liverpool (official)

Liverpool.is

This Is Anfield




Við notum
Movable Type 3.121

Efni þessarar síðu er birt undir skilmálum frá Creative Commons.

Creative Commons License