18. janúar, 2005
Þannig fór um sjóferð þá. Liverpool FC entust aðeins 90 mínútur í FA Bikarkeppninni vorið 2005, féllu út úr keppni eftir hörmulega frammistöðu fyrir Burnley-liði sem átti sigurinn fyllilega skilinn.
Við stilltum upp talsvert óreyndu og/eða veiku liði í kvöld, ekki bara af því að við vorum með menn í meiðslum heldur líka af því að nokkrir lykilmenn fengu verðskuldaða hvíld. Meiddir: Cissé, Alonso, Smicer, Gerrard, Finnan, Josemi, Kirkland. Farinn: Diao. Hvíldir: Carragher, Riise, Hamann. Ólöglegir: Pellegrino og Morientes.
Þannig að ljóst var að við myndum aldrei ná að stilla upp neinu liði sem gæti talist “klassa ofar” en þetta Burnley-lið, sem er í 10. sæti Championship-deildarinnar og því ekkert langt fyrir neðan okkur í gæðum. Ekki eins og Exeter og manchester united
allavega. Samt átti maður von á að menn á borð við Biscan, Núnez og Pongolle myndu ríða baggamuninn fyrir okkur, auk þess sem maður sá Traoré og Hyypiä fyrir sér loka vörninni vel gegn einum framherja Burnley-manna svo að við yrðum ekki í vandræðum þar.
Annað kom á daginn. Byrjunarliðið var s.s. svona:
DUDEK
RAVEN - HYYPIÄ - WHITBREAD - TRAORÉ
NÚNEZ - BISCAN - POTTER - WELSH - WARNOCK
SINAMA-PONGOLLE
BEKKUR: Harrison, Smyth, Otsemobor, Mellor, Baros.
Ég nenni varla að vera að tjá mig of ítarlega um þennan leik, en hér eru samt nokkrir punktar:
Við hverju bjóst maður eiginlega? Það var ljóst um leið og við sáum völlinn að hvorugt liðið væri að fara að spila léttleikandi og/eða flæðandi knattspyrnu í kvöld. Ég sagði við sessunauta mína yfir sjónvarpinu að þetta yrði spurning um hvort liðið myndi nýta færin sín betur, og hvort liðið hefði betur í “styrjöldinni”. Kom á daginn að hvorugt liðið nýtti færin sín, en Burnley unnu miðjustyrjöldina og síðan leikinn, með einhverju fáránlegasta marki sem ég hef á ævi minni séð.
Það kom mér á óvart hvað reyndari leikmennirnir voru daprir í kvöld. Zak Whitbread var miklu, miklu betri og öruggari í miðri vörninni en Hyypiä. Whitbread vann sína vinnu nær gallalaust, skilaði hverri einustu sendingu til samherja og var bara mjög góður í kvöld, á meðan Hyypiä virkaði seinn og óöruggur (mögulega þreyttur). Að sama skapi var Raven að berjast vel í hægri bakverðinum og skila sínu, á meðan Djimi Traoré var bara gjörsamlega úti að aka frá fyrstu mínútu. Á miðjunni voru Welsh, Warnock og Núnez að berjast gegn margnum en greyið Darren Potter fann sig aldrei, þrátt fyrir að reyna allt sem hann gat. Hins vegar var Igor Biscan svo lélegur í kvöld að það tekur því ekki einu sinni að eyða orðum í það. Ég hef aldrei séð Biscan spila jafn illa fyrir okkur og hann gerði í kvöld - akkúrrat þegar hann hafði góðan séns á að fá að spila nokkra leiki í röð með aðalliðinu (Gerrard & Alonso meiddir, Diao farinn) að þá spilaði hann svo fáránlega illa að ég verð hissa ef hann verður í hópnum gegn Southampton á laugardaginn.
Undir lokin lét Antonio Núnez skapið hlaupa með sig í gönur og gaf einum varnarmanni Burnley olnbogaskot, fékk verðskuldað rautt spjald fyrir. Þetta var óíþróttamannslegt hjá Núnez og nokkuð sem maður vill helst ekki sjá hjá Liverpool - og eins og það hafi ekki verið nógu mikil fjarvera leikmanna fyrir þá verðum við án Núnez á laugardaginn. Menn fá sjálfkrafa rautt spjald í næsta leik fyrir að fá beint rautt spjald, og ég geri ráð fyrir að aganefnd gefi Núnez þriggja leikja bann fyrir þetta. Heimskulegt af honum og kemur sér illa fyrir okkur.
Djimmy, Djimmy, Djimmy. Hvað get ég eiginlega sagt? Ef ég ætti að kjósa núna myndi Djimi Traoré vinna verðlaunin Mestu Framför Ársins með yfirburðakosningu. Hann er einfaldlega búinn að vera nýr maður fyrir okkur í vetur, miðað við fyrstu árin sín á Anfield. En í kvöld var hann bara úti á þekju. Ég treysti mér ekki til að tjá mig um hvort hann var betri eða verri en Biscan í kvöld, en þeir voru áberandi LANGslökustu leikmenn okkar í kvöld. Markið hans Traoré gerði samt útslagið. Ef tapið gegn manchester united
á laugardag var Dudek að kenna, þá var þetta tap í kvöld algjörlega, 110%, gjörsamlega og skuldlaust Traoré að kenna.
Ég meina … hvað eru menn að hugsa að gera svona? Burnley-maður sleppur inn í teiginn vinstra megin og rennir boltanum fyrir markið. Hann fer framhjá Hyypiä og Dudek, sem eiga enga sök hér, og beint í fæturnar á Traoré á fjærstönginni. ALLIR SKYNSAMIR VARNARMENN hefðu áttað sig á aðstæðunum - snúandi baki í völlinn, ekki vitandi hvort það er maður að koma til að pressa á þig eða ekki - og bara rennt boltanum innanfótar í horn. Það er það sem á að gera. Það er skyldan, það er hið skynsama, það er auðvelda lausnin.
En ekki Djimmy. Neeeeiiiiii… hann reyndi einhvern fáránlegan Cruyff-snúning með boltann, Á FOKKING MARKLÍNUNNI, sem tókst ekki og boltinn rúllaði yfir línuna. Hann var aleinn þegar þetta gerðist og ekki undir neinni pressu. Það var hins vegar Burnley-maður að koma aðvífandi og það er til marks um það hversu heimskuleg þessi ákvörðun Djimmys var að þótt þessi tekníski snúningur hefði tekist fullkomlega hefði hann ekkert verið í betri stöðu, hann hefði verið í kyrrstöðu, með boltann á helvítis marklínunni, þegar Burnley-maðurinn hefði einfaldlega tæklað hann yfir línuna. Hann hefði fengið á sig markið hvort sem þessi snúningur hefði tekist eða ekki!!!
Flettið upp orðinu dómgreindarleysi og þá sjáið þið myndina sem er efst í þessari leikskýrslu. Traoré í netinu og boltinn með, á meðan Burnley-maður fagnar þessari síðbúnu jólagjöf.
En já, allavega, svona fór um sjóferð þá. Við erum fimmta Úrvalsdeildarliðið sem fellur út úr FA Bikarnum í þessari umferð - sem sannar enn og aftur hvað er svona heillandi við þessa keppni þar sem allir geta unnið alla. Þetta var fyllilega verðskuldað tap, Burnley-menn voru betri í 90-mínútur og í rauninni er það eina sem var svekkjandi við þennan leik var hvernig við töpuðum. Ef við hefðum ekki fengið þetta heimskulega sjálfsmark á okkur hefðum við sennilega vel getað haldið hreinu í þessum leik og jafnvel náð að stela þessu undir lokin - þar sem Burnley höfðu gert allt rétt í leiknum nema að skapa góð marktækifæri. Flestar þeirra sóknir höfðu endað með töpuðum boltum eða skotum af lööööngu færi, þannig að það var ekkert sem benti sérstaklega til þess að þeir væru að fara að komast yfir þegar Traoré ákvað að eyðileggja leikinn fyrir okkur, og tímabilið fyrir sjálfum sér.
Æji, ég nenni ekki að pæla í þessu. Ég er pirraður yfir þessu tapi en reyni samt að halda rónni, veit að þetta var algjört varalið hjá okkur og reyni að segja sjálfum mér að þetta gæti verið “blessun í dulargervi” eða “lán í óláni” eða eitthvað álíka rugl. Kannski er það bara betra að þurfa ekki að spila í þessari bikarkeppni líka, ef við förum í úrslit Deildarbikarsins og erum að spila í Meistaradeildinni?
Nei, fuck it. Auðvitað viljum við vinna þessa dollu eins og aðrar. En því miður … það verður engin ferna í ár, býst ég við!
Næst: Southampton á útivelli í deildinni á laugardaginn og ég ætla að gerast svo djarfur að spá því að Traoré og Biscan verði ekki í liðinu í þeim leik. Get ekki séð Benítez fyrir mér velja þá í liðið eftir kvöldið í kvöld.