15. janúar, 2005
Þetta var eins svekkjandi og fótboltaleikir geta verið. Við töpuðum 0-1 fyrir Man U, og eins og það í sjálfu sér hafi ekki verið nógu svekkjandi þá var það Wayne “Shrek” Rooney sem skoraði sigurmarkið. Helvítis.
Ég ætla að hafa þetta eins stutta skýrslu og ég get, aðallega af því að ég er svo reiður að ég er hræddur um að missa mig í einhverja 5,000-orða reiðiskýrslu sem verður ólæsileg. Þannig að ég hef þetta í hálfgerðu glósuformi bara:
Byrjunarliðið var svona:
Dudek
Carragher - Hyypiä - Pellegrino - Traoré
García - Gerrard - Hamann - Riise
Baros - Morientes
Jerzy Dudek. Ég ætla ekki að skrifa ritgerð hérna um hann. Of pirraður til þess. Hann þurfti að verja eitt skot í dag, aðeins eitt skot hjá þeim á mark, og hann gat það ekki. Rooney skaut beint á hann, enginn snúningur á boltanum, hann sá hann allan tímann … og missti hann í netið. Ekki nógu góður markvörður fyrir Liverpool FC.
Vörnin stóð sig mjög vel varnarlega séð í dag. Þeir héldu Saha, Rooney, Ronaldo, Fletcher og Scholes mjög vel niðri allan leikinn. Þeir fengu í raun aðeins einu sinni gott pláss til að athafna sig og það var þegar Rooney skoraði - og það var lengst utan af velli. Eina sem vantaði hjá vörninni í dag var spilið fram á við. Mér fannst Pellegrino og Hyypiä sérstaklega vera með allt of mikið af löngum, vonlausum boltum fram á Morientes sem gengur ekki. Við verðum að spila boltanum meira í grasinu gegn toppliðunum.
Miðjan? Vá, hvað get ég sagt. García og Riise voru góðir á köflum í dag en náðu ekki að skapa neitt pottþétt úr sinni vinnslu, á meðan Hamann var bara hreinlega ekki með. Steven Gerrard spilaði sinn lélegasta leik fyrir Liverpool síðan bara árið 2003 eða eitthvað. Scholes og Keane hökkuðu okkur í sig í dag. Ég sakna Xabi Alonso.
Frammi var okkar besti maður í dag, Milan Baros, gjörsamlega óstuddur af miðjunni en náði samt að vera þeim erfiður ljár í þúfu. Morientes ógnaði með sköllunum og náði einstaka sinnum að finna félaga sína í góðu plássi, en bæði hann og Baros voru bara allt of einir þarna efst í sókninni til að geta gert alvöru úr ógn sinni. Því miður.
Steve Bennett, dómari leiksins, sleppti tveimur augljósum vítaspyrnum í dag. Phil Neville rak höndina lengst uppí loft og varði fyrirgjöf Riise í fyrri hálfleik, og það sáu það allir nema Bennett. Í seinni hálfleik stökk Gabriel Heinze á Morientes, fellti hann og boltinn stóð allan tímann kyrr. Enn og aftur sáu það allir nema Bennett, já og Rikki Daða sem getur varla talist hlutlaus þulur. Óþolandi að hlusta á hann. En mér dettur samt ekki í hug að kenna Bennett um þetta tap - við fengum á okkur aulamark og höfðum 90 mínútur til að skora en tókst það ekki.
Á heildina litið þá fannst mér það standa upp úr að United-menn spiluðu þennan leik hárrétt, taktístkt séð. Þeir brutu 29 sinnum á okkur í þessum leik og uppskáru sex gul spjöld fyrir það (tvö fyrir Wes Brown, sem var rekinn útaf með hálftíma rúman eftir en það skipti engu máli fyrir þá). Þetta var mjög sniðuglega spilað hjá þeim því þeir náðu að stífla flæðið í leik okkar algjörlega með því að stöðva leikinn með brotum.
Þá verð ég að segja eins og er að manchester united
hafa það fram yfir okkur í dag að þeir senda boltann betur á milli sín. Á meðan við erum ekki að láta boltann vinna hratt fyrir okkur eins og lið í þessum stórleikjum þá getum við ekki ætlast til að vera í toppbaráttunni á Englandi. Við vorum í löngum boltum og menn virtust hverjir að vera vinna í sínu horni, á meðan þeir létu boltann vinna fyrir sig og voru iðulega komnir upp að vítateig okkar með stuttu spili einu saman.
Að endingu þá verður bara að segjast að þetta var leikur miðjubaráttunnar og þeir unnu þá styrjöld, svo einfalt er það bara. Lykilmenn í okkar liði voru heillum horfnir og við náðum ekkert að skapa. Þá fengum við á okkur hræódýrt mark sem reyndist dýrkeypt - þetta er í þriðja tímabilið í röð sem Dudek tapar leiknum við United á Anfield fyrir okkur. Ég held að Benítez versli sér markvörð eftir þennan leik, kæmi mér ekkert á óvart þótt César verði kominn til okkar innan næstu viku.
Já, og við erum búnir að tala mikið um meiðslavesen sem hefur háð okkur. Og það er satt, við höfum verið ótrúlega óheppnir með meiðsli í vetur. Í þessum leik vantaði okkur Vladimir Smicer, Djibril Cissé, Xabi Alonso, Josemi, Chris Kirkland og Harry Kewell.
En í dag voru United að spila án Ole Gunnar Solskjær, Ruud van Nistelrooy, Alan Smith, Gary Neville, Rio Ferdinand og Ryan Giggs. Og þeir unnu, ekki við.
Sem segir mér bara eitt: United eru í dag með betra lið en við. Við erum á uppleið, jújú, en við eigum enn nokkuð í land með að geta endað ofar en United í þessari deild. Betur má ef duga skal, því miður.
Uppfært (Einar Örn): Þetta er fokking magnað með Jerzy Dudek. Þrjú ár í röð hefur hann eyðilagt leikinn móti United fyrir okkur. Fyrst var það klobbinn hans Forlan, svo fyrirgjöfin frá Giggs og núna þetta skot hjá fokking Wayne Rooney.
Í alvöru, þurfti þessi pólski snillingur akkúrat að leyfa mest óþolandi framherja í heimi að skora hjá okkur? Ég hefði getað sætt mig við það (eftir umtalsverðan tíma þó) að Rooney hefði skorað sigurmarkið ef það hefði verið fyrir einhverja snilli. En skot af 30 metra færi, sem er BEINT Á FOKKING MARKIÐ, án snúnings og alles, og að Dudek missi hann inn - Það get ég ekki sætt mig við!
Þessir tveir markmannshaugar, herra mistök og herra meiddur eru einfaldlega búnir að klúðra of mörgum leikjum fyrir okkur í vetur. Þetta er ekki hægt að þola þetta lengur.
Rafa, kauptu markmann, mér er sama hvaða markmann. Ég myndi frekar vilja sjá Fabian Barthez í markinu heldur en þessa tvo trúða. Ég höndla ekki að tapa aftur á móti manchester united
útaf markmanns mistökum. Aðdáendur Liverpool munu ekki höndla það. Og þið, sem komið alltaf Dudek til varnar, sleppið því. Hann er kannski ágætis markvörður, en hann er EKKI nógu góður fyrir Liverpool. Mér er alveg sama þótt að hann hafi varið einu sinni 50 skot í leik. Staðreyndin er sú að hann fékk EITT SKOT Á SIG og hann klúðraði því. Alveg einsog hann hefur klúðrar síðustu tveim leikjum gegn United á Anfield. Og alveg einsog hann og Kirkland hafa klúðrar oft í vetur.
Hversu gaman haldiði að það sé fyrir manchester united
aðdáendur að sjá þegar Dudek er í markinu hjá okkur? Hann er aðhlátursefni þeirra! Nefnið mér líka hvenær þið hafið síðast heyrt einhvern annann en Liverpool menn segja að Jerzy Dudek sé góður markmaður! Menn eru blindaðir af einhverri fornri frægð Dudeks.
Þetta markmannaástand er fullkomlega óþolandi. Ég er þó svona 95% viss um að Benitez fer núna og kaupir markmann í vikunni. Kæmi ekki á óvart þó sá markvörður (t.d. Cesar) færi beint inní liðið.
Og já, VÁ hvað við söknuðum Xabi Alonso í dag. Biscan hefði án efa átt að koma fyrr inná. Miðjan gat ekki skilað neinum almennilegum boltum frá sér og það sama má segja um Hyypia og Pellegrino. Ég get ekki talið öll skiptin, sem við gáfum boltann frá okkur af algerum aulaskap. Biscan skilaði allvegana öllum sínum boltum til samherja.
En Dudek á þennan leik algjörlega. Við vorum búnir að hafa algera yfirburði á vellinum alveg fram að markinu. Hversu óþolandi er það að allt liðið sé að leika vel í hálftíma og þegar 11. maðurinn á loks að gera sitt, þá klúðrar hann því algjörlega. Maður sá greinilega að mesti krafturinn fór úr liðinu við það.