15. apríl, 2004
Fótboltagrein!
Liverpool aðdáandi á barmi taugaáfalls!
Nálgist með varúð
Þetta fótboltatímabil verður bara verra og verra fyrir Liverpool aðdáendur.
Nokkrar fréttir á netinu hafa verið að ýta undir þá hugmynd að ég geti hugsanlega upplifað mína hræðilegustu Liverpool martröð í sumar: ‘Houllier’s job is safe’ – Parry
Í þessari grein heldur Rick Parry, hinn getulausi stjórnaformaður Liverpool að Houllier geti haldið starfi sínu, sama hversu neðarlega Liverpool lendi í ár.
Ég er nefnilega hræddur um að mín versta martröð rætist. Það er, að Liverpool lendi neðar en í fjórða sæti, komist ekki í Meistaradeildina og að Houllier haldi starfi sínu. Er hægt að hugsa sér hörmulegri atburðarás? Þá er í raun búið að rústa næsta tímabili áður en það byrjar.
Ég get hreinlega ekki lýst því lengur hversu mikla óbeit ég hef á Gerard Houllier og þess vegna á ég sennilega erfitt með að tala á málefnalegan hátt um hann.
Houllier er smám saman að eyðileggja liðið mitt og fyrir það get ég ekki fyrirgefið honum. Hann er að eyðileggja Liverpool, liðið sem ég elska. Ég get bara ekki höndlað það að hafa hann í eitt ár í viðbót við stjórn.
Ég þoli ekki eitt ár af varnarbolta
eitt ár af Igor Biscan og Bruno Cheyrou
eitt ár af löngum sendingum
eitt ár af fáránlegum afsökunum
eitt ár af meðalmennsku
Ég er svo pirraður yfir því að geta í raun ekkert gert. Ég vildi að það væri einhver leið til að ég gæti haft einhver áhrif. Ég vildi að það væri einhver leið til þess að þessir háu herrar sem stjórna liðinu mínu gætu skilið hversu miklar þjáningar við Liverpool stuðningsmenn þurfum að líða. Ég verð verulega pirraður við að lesa einhver viðtöl við þá, þar sem þeir segjast þjást alveg einsog stuðningsmennirnir. Jeeee ræt! Af hverju gera þeir þá ekki eitthvað í málunum? Sjá þeir ekki að vandamálið er Frakkinn með útstæðu augun, sem þeir þora ekki að reka.
Ég horfi oftast á Liverpool leiki með tveim af mínum bestu vinum og ég er ekki að höndla það að við þurfum að skilja í fýlu eftir hvern einasta leik. Fyrir utan Chelsea leikinn þá höfum við ekki verið ánægðir í leikslok í óralangan tíma.
Við skemmtum okkur jú alltaf vel, en það er frekar vegna hvors annars en ekki vegna fótboltans í sjónvarpinu. Við (eða allavegana ég) nöldrum allan leikinn. Við erum fúlir þegar að Biscan og Heskey eru í byrjunarliðinu. Við erum fúlir þegar að Liverpool legst í vörn eftir að þeir skora. Við erum fúlir þegar að hitt liðið jafnar og kemst yfir, og við erum fúlir yfir því að Houllier skuli bíða fram að síðustu fimm mínútunum áður en hann setur Baros og Pongolle inná.
Þetta er alveg eins, leik eftir leik. Ég þoli þetta ekki lengur.
Þetta vonleysi tengt Liverpool er að gera mig sturlaðan og ég trúi ekki að stjórnarmenn Liverpool taki sig ekki til og losi sig við Houllier. Vandamálið er ekki að Houllier vanti meiri peninga, eða að Houllier þurfi að losa sig við Diouf og Heskey.
Vandamálið er Houllier. Liverpool verða að byrja sumarið á því að losa sig við hann, sama hvernig þetta tímabil endar. Annars tapa ég geðheilsu minni á næsta tímabili.