Allar færslur eftir SSteinn

Liverpool búið að bjóða í Alisson (Uppfært: Tilboði tekið!)

Uppfært: Roma og Liverpool hafa komist að samkomulagi um kaupverð á Alisson Becker sem hljóðar upp á 66 milljónir punda og verður hann þar með dýrasti markvörðurinn í bransanum ef og þegar skiptin ganga í gegn. Liverpool hefur því fengið grænt ljós á að ræða við leikmanninn (sem er nú líklega komið langt á leið samkvæmt ítölskum miðlum) og taka hann í læknisskoðun. Eflaust fáum við fleiri tíðindi af þessu á næstu tímum eða dögum.

Það er komið út um allar trissur núna í netheimum að Liverpool hafi formlega lagt fram boð í Alisson Becker, markvörð AS Roma

Um met upphæð er að ræða fyrir markvörð. Heildarverðmæti tilboðsins er talið vera um 62 milljónir punda, 53 milljón punda strax og 9 milljónir punda í árangurstengdar greiðslur. Þetta eru algjör RISA tíðindi og ef þetta gengur eftir, þá er þetta enn eitt dæmið um að Jurgen Klopp vill aðeins fá fyrsta kostinn sinn, ekkert annað. Þetta er ROSALEGT statement hjá félaginu. Ef þessu tilboði verður tekið, þá erum við að tala um að Liverpool hafi keypt dýrasta varnarmann í heimi og dýrasta markvörð í heimi á rúmu hálfu ári.

Það er líka algjörlega ljóst að Alisson hefur verið kostur númer eitt hjá Klopp í langan tíma. Þetta er nútíma markvörður sem virkar vel fyrir aftan vörn sem spilar hátt uppi á vellinum, getur spilað sem nokkurs konar „Sweeper“. Við fylgjumst spennt með framvindu mála.

Það VAR mikið

Fátt hefur meira verið á milli tannanna á fótboltaunnendum en hið svokallaða VAR (Video Assistant Referee) og kannski ekki skrítið. Það hafa skapast heitar umræður um þessa nýju tækni í boltanum og sitt sýnist hverjum. Heimsmeistarakeppnin er í fullum gangi og þar hefur VAR svo sannarlega komið við sögu og er í rauninni fyrsta risakeppnin þar sem þessi tækni er nýtt til fulls. Reyndar hefur þetta verið í gangi í efstu deildunum á Ítalíu og í Þýskalandi á síðustu leiktíð og við fengum aðeins að kynnast þessu í bikarkeppnunum á Englandi í vetur. Í mínum huga er þetta ekki spurning, VAR er komið til að vera, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

Ein af helstu rökum þeirra sem alfarið eru á móti þessu eru þau að leikurinn eigi að vera eins hjá 4. flokki Sindra á Hornafirði og á leik á stórmóti. Sorry, en það er bara ekki þannig. Það er ekki þannig, hefur ekki verið þannig og mun ekki vera þannig. Þótt leikurinn hafi sömu grunn undirstöður, þá er það liggur við ekki sama íþrótt sem er stunduð á þessum mismunandi „levelum“. Þótt við förum í að bera saman meistaraflokksleiki, þá er himinn og haf á milli leikja í 4. deildinni á Íslandi og í Úrvalsdeildinni á Englandi. Við erum jú að tala um 11 menn í hvoru liði, svipað stóran grasvöll, einn bolta, tvö mörk og grunnreglurnar þær sömu. En aðstöðumunurinn, hraðamunurinn, munurinn á fjölda þeirra sem fylgjast með og munurinn á því sem er í húfi, hann er gígantískur.

Það var stórt skref stigið fyrir nokkrum árum þegar marklínutæknin var tekin upp. Þá voru einnig margir afar mikið á móti henni og vildu ekki skemma þennan fallega leik sem fótboltinn er. Eins og gefur að skilja, þá mun marklínutæknin aldrei verða innleidd í 4. deildinni á Íslandi. Líklegast verður hún bara aldrei innleidd á Íslandi. Kannski er þetta gamla góða, aldrei að segja aldrei, vel við hæfi. En eins og staðan er í dag, þá er þetta talsvert flókin tækni sem tók mörg ár að þróa og er gríðarlega kostnaðarsöm. En hver veit, kannski verður þetta einfaldara í framtíðinni, en það er langt í það í það minnsta. Marklínutæknin er hreint út sagt frábær. Það er alveg ömurlegt þegar gilt mark er skorað (boltinn inn fyrir línuna) en ekki dæmt vegna þess að aðstoðardómari er blokkaður eða of seinn niður á línuna. Eins og þetta er í dag, þá tekur engan tíma að skera úr um þetta, dómarinn fær bara strax í úrið hjá sér hvort boltinn hafi farið inn eða ekki. Gott dæmi um það hvernig tæknin getur hjálpað til við að gera leikinn betri.

Maður heyrði á sínum tíma þau rök gegn marklínutækninni að þetta væri fyrsta skrefið til að taka út þann faktor að geta skipst á skoðunum eftir leik um umdeilda hluti. Taka „passion“ úr leiknum. Mér fannst þau rök fíflaleg á sínum tíma og mér finnst þau ennþá fíflalegri í dag. Það er ekkert verið neitt að taka „passion“ úr boltanum að mörk þar sem boltinn fer yfir línuna séu dæmd sem mörk, eða að mörk sem voru ekki skoruð séu ekki dæmd sem mörk. Menn vilja varla að dómskerfið væri svona, dæma menn hægri vinstri þó ekkert tilefni sé til, bara svo menn geti skipst á skoðunum eftirá (ekki hægt að leiðrétta dóminn þó svo að hið rétta yrði sannað). Auðvitað erfitt að bera þetta tvennt saman þar sem við erum jú „bara“ að tala um fótboltaleik, en meira svona sett fram til að setja þetta í samhengi við annað. Marklínutækni…JÁ TAKK.

Sjálfur hef ég dæmt mikið af fótboltaleikjum í nokkuð mörg ár. Ég hef dæmt í öllum deildum á Íslandi, fyrir utan sjálfa Pepsi deild karla. Ég veit það fyrir víst af eigin reynslu og dómarar eru fyrst og fremst með eitt í huga þegar þeir labba inn á völlinn. Þeir vilja dæma öll atriði sem koma upp í leiknum á sem réttasta hátt. Sjálfur dómarinn hefur sem betur fer nokkrar leiðir til að hjálpa sér við að ná þessum markmiðum. Í flestum leikjum er hann með tvo aðstoðarmenn sem eru með flagg í hendi og hjálpa honum við að reyna að sjá það sem hann kannski sér ekki. Við höfum líka í seinni tíð verið með fjórða dómara (varadómara) sem einnig hjálpar til við að koma auga á atvik. Í Evrópukeppnum höfum við svo séð líka svokallaða sprotadómara, sem standa við endalínurnar. Allt er þetta gert til að fá fleiri augu á leikinn þannig að hægt sé að fá sem réttasta niðurstöðu í atvik sem gerast í leiknum. Það varð líka ákveðin bylting þegar píp flöggin svokölluðu komu til sögunnar fyrir all mörgum árum síðan. Það auðveldaði mönnum að gera dómaranum viðvart um ákveðna hluti, hann ræður svo alveg hvort hann hunsi það eða ekki. Enn eitt hjálpartækið til að taka réttar ákvarðanir. Svo kom samskiptabúnaðurinn til leiks, það er líklegast mesta bylting sem orðið hefur í boltanum, sem snýr að dómaramálum. Það er himinn og haf á milli þess að dæma fótboltaleik með samskiptabúnað eða ekki. Þarna strax sjáum við mikinn mun á hlutunum þegar kemur að sama leik hjá 4. flokki Sindra eða liðum í Pepsi deildinni. Með samskiptabúnaðinum geta allir 3 (eða fjórir og jafnvel 6) dómararnir rætt um hin ýmsu sjónarhorn á hlutina. Oft hefur t.d. verið talað um að sprotadómararnir geri aldrei neitt. Þeir eiga ekki að sýna eitt eða neitt, þeir eiga bara að koma með sitt mat í kerfið, ýta á takka á sprotanum og koma með sitt input. Áhorfandinn sér aldrei hversu mikið eða lítið sprotadómararnir koma við sögu.

En þá að VAR. Ég lít á þetta dæmi sem algjörlega frábært hjálpartæki til að ná réttri niðurstöðu í dómgæslu þegar kemur að stærstu atriðunum. Það að geta ekki rætt lengur eftir leik um ósanngjarnt rautt spjald, ólöglegt mark sem var skorað eða árás sem einhverra hluta vegna fór framhjá dómurum leiksins, það finnst mér bara allt í lagi. Það er margt í hverjum fótboltaleik sem hægt er að ræða fram og tilbaka, hluti sem menn verða áfram ósammála um og menn geta þá pælt út og suður um einstaka mistök leikmanna og þjálfara. Leikurinn þarf bara að vera sanngjarn að því leiti að honum sé stýrt innan lagarammans sem fótboltinn býr við. Menn geta svo alveg verið ósammála ákveðnum reglum í boltanum, það er allt önnur umræða.

En hvað er það sem menn eru helst ósáttir við fyrir utan þessa aðila sem vilja geta rætt vitlausa dóma sem hafa stórkostleg áhrif á leikinn? Jú, stóra málið er tíminn sem það tekur að fá rétta niðurstöðu. Ég er algjörlega handviss um að það sé hlutur sem eigi eftir að slípa til. Við höfum til að mynda séð það á þessu Heimsmeistaramóti að framkvæmdin getur tekið mjög stuttan tíma. Sumir af þessum dómurum hafa greinilega pælt mikið í þessum hlutum og menn verða lítið sem ekkert varir við tafir út af þessu og við fáum sanngjarna niðurstöðu í flestum þessum tilvikum. Í mínum huga er það algjört lykilatriði upp á framtíðina að gera að það komi upp sama traust til VAR dómara eins og ríkir á milli dómaranna á vellinum. Ef dómarinn missir einhverra hluta vegna af stóru atriði, gulu spjaldi, rauðu spjaldi eða víti, þá lætur aðstoðardómarinn hann vita í kerfinu og dómarinn dæmir út frá hans ráðleggingum í flestum tilvikum. Hann treystir sínum aðstoðarmönnum, enda þeir búnir að fara vel yfir samstarfið fyrir leikinn. Hann fær ekkert að fara sjálfur að kíkja á málið, enda ekki hægt. Í mínum huga þarf nákvæmlega það sama að gerast með þessa VAR tækni. Í VAR búrinu eru alvöru dómarar, dómarar sem hafa margoft verið í sömu sporum og þeir sem á vellinum eru. Þeir sem í búrinu eru geta séð atriðin hægt í endursýningu og frá nokkrum hliðum. Líkt og þegar aðstoðardómarinn metur atvikin og lætur dómarann vita, þá ætti það sama að vera uppi á teningnum í þessum tilvikum. Dómarinn fer þá ekkert til að horfa sjálfur á einhverjum skjá, hann bara treystir sínum samstarfsmönnum sem áður og dæmir eftir þeim ráðleggingum. Þar með ætti þetta ekki að taka langan tíma, max 30 sekúndur. Það er einmitt tíminn sem þetta hefur verið að taka að meðaltali í t.d. Ítalska boltanum.

Auðvitað snýst þetta um æfingu, þetta er alveg nýtt og eins og áður sagði, þarf að slípa til. Við vitum líka að þetta setup eins og er á HM, er eitthvað sem verður líklegast ekki almenna uppsetningin. Þetta er RIIIIISA mót og því eru ansi margir í VAR herberginu. Líklegast verður þetta þannig að það verður bara einn VAR dómari með 2 tæknimenn með sér sem geta sýnt honum hlutina hratt og örugglega. Ef við segjum sem svo að þetta muni ekki taka svona langan tíma í framtíðinni, hvaða mótrök eru þá eftir? Eru það bara atriðin að geta rifist um glórulausa dóma sem geta ráðið úrslitum leikja á jafnvel mjög ósanngjarnan máta? Við erum ekki að tala um að nota VAR við ákvörðun einstaka aukaspyrna eða allra litlu hlutanna sem gerast í leiknum. VAR þarf að nota við stóru hlutina, líkt og verið er að gera núna á HM. Þar er VAR notað þegar um er að ræða víti/ekki víti, mark/ekki mark og rautt/ekki rautt. Það eru risadómarnir sem eru stóra málið í þessu. Ég bara neita að trúa því að menn vilji ekki hafa þá rétta, þó í einstaka tilvikum hagnist liðið manns á röngum dómi, þá yfir heildina viljum við sjá fair play. Það eru líka talsverð vafaatriði ennþá, þrátt fyrir VAR. Við sjáum nú bara úrslitaleikinn á HM. Dómarar út um allan heim eru ekki sammála um hvort vítið hafi verið réttur dómur eða ekki. Dómarinn fékk allavega öll þau sjónarhorn á málið sem hann þurfti og tók svo ákvörðun um vítið. Ekki allir sammála um það, en hann mat þetta svona. Stóra málið er að hann fékk allavega að sjá atvikið vel.

VAR er ekki fullkomið og verður það líklegast aldrei. Það mun hjálpa til við stóru atriðin og það er í rauninni óskiljanlegt að Enska Úrvalsdeildin skuli hafa ákveðið að fara ekki þessa leið fyrir næsta tímabil. HM hefur sannað að þetta er gríðarlega öflugt hjálpartæki og hefur jafnframt sýnt það að dómarar geta vel notað þetta án þess að það hafi mikil tefjandi áhrif á leikinn. VAR er komið til að VERA.

Shaqiri næstur inn?

Það virðist allt benda til þess að þriðju kaup Liverpool í sumar verði Xherdan Shaqiri, leikmaður Stoke. Þetta ætti að vera nánast pottþétt mál þar sem að James Pearce er búinn að setja inn tíst um það, en eftir Fekir dæmið allt, þá er ekkert pottþétt fyrr en það er komin endanleg staðfesting á heimasíðu Liverpool. En ef mark er takandi á einhverjum þegar kemur að kaupum og sölum hjá Liverpool FC, þá er það James hjá Liverpool Echo.

Það var magnað þetta Fekir dæmi. Það var búið að taka myndirnar af honum í treyjunni að halla sér upp að Melwood skiltinu. Það var búið að taka fyrsta viðtalið við hann við Liverpool TV. Menn tala um að félagaskipti hafi í rauninni aldrei verið komin jafn langt og svo hafi annað liðið bakkað út, í þessu tilviki Liverpool.

En Xherdan Shaqiri er öflugur leikmaður með fullt af vopnum í búrinu sínu. Sjálfur þráði ég að fá hann fyrir nokkrum árum síðan, spennan við þessi félagaskipti er talsvert minni núna. En engu að síður er ég ánægður með þessa viðbót. Hann er hugsaður til þess að bæta breiddina í liðinu fram á við og hann hefur verið einn af örfáum ljósum punktum hjá Stoke undanfarin ár. Hann er líka að koma á frekar lítinn pening eins og staðan er á markaðnum í dag eða í kringum 12 milljónir punda. Þessi gaur er á besta aldri, með fullt af reynslu og var fínn með Sviss á HM.

Ég er á því að þessi leikmaður sé ekki að koma í staðinn fyrir Fekir kaupin, þessi kaup voru alltaf hugsuð með slíkum kaupum. Vonandi að menn hristi fram úr erminni 2 kaup til viðbótar (alvöru markmann og sóknarsinnaðan mann) áður en glugginn lokar fyrir fyrsta leik í Úrvalsdeildinni (nú er ég farinn að tala eins og þetta sé staðfest). Það þýðir ekkert annað en að bretta upp ermar og halda ótrauð áfram.

Annars reiknum við félagarnir með að henda í eitt stykki podcast í kvöld, enda langt síðan við gerðum slíkt síðast.

„Nýr“ samstarfsaðili Kop.is

Eins og glöggir lesendur hafa eflaust séð, þá hefur bæst í hóp samstarfsaðila síðunnar. Við höfum í gegnum tíðina haft þá reglu að drekkja henni ekki í auglýsingum, heldur höfum við leitast við að komast í samstarf til lengri tíma við góð fyrirtæki til að standa undir rekstrinum. Það er því ákaflega ánægjulegt að fá Humarsöluna inn sem samstarfsaðila okkar, enda þekkjum við fyrirtækið vel og það hefur verið öflugt í stuðningi sínum við okkur í gegnum tíðina.

Humar er líklegast besta fæða sem til er í veröldinni og gæðin á vörum Humarsölunnar eru í algjörum topp klassa. Við viljum því benda okkar tryggu lesendum á að hafa þá í huga, ætli menn sér að gera vel við sig í humarveislu. Með því slá menn slatta af flugum í einum höggi, fá hágæða humar og hjálpa um leið til við að efla síðuna okkar. Reyndar eru þeir með talsvert meira í boði en bara humarinn, eins og t.d. Risarækju, Hörpuskel og Rækju, Saltfisk, Lúðusteikur, Skötuselskinnar, Steinbítskinnar, Túnfisk og margt fl.

Við stefnum á talsverðar breytingar á næstunni sem falla vonandi vel í kramið, spennandi tímar framundan, bæði hjá okkur á Kop.is og vonandi líka hjá liðinu okkar í Scouseland.

Við fáum okkur humar í sumar (vetur, vor og haust).

Vandræðastaðan

Það er óhætt að segja það að síðustu árin (áratugina) hefur vinstri bakvarðarstaðan hjá Liverpool verið ansi veikur hlekkur hjá liðinu. Djimi Traore var til að mynda í þessari stöðu þegar við tókum titilinn fræga í Istanbul 2005. Með fullri virðingu fyrir þeim ágæta dreng, þá hefði hann ekki komist í hóp hjá sterkustu liðum í Evrópu síðustu árin. Þetta er búin að vera þvílík eyðimerkurganga að meira að segja John Arne Riise stendur uppúr þegar horft er tilbaka, það er að mestu leiti vegna frábærs marks sem hann skoraði gegn Man.Utd á sínum tíma en ekki fyrir snilldartakta í vinstri bakvarðarstöðunni. Ég hef gengið svo langt að tala um að þessi staða hefur ekki verið vel mönnuð síðan Alan Kennedy hætti, það eru komin 32 ár síðan það gerðist. Þetta er í rauninni ótrúlegt miðað við alla þá leikmenn sem hafa spilað með liðinu þennan tíma og fjölda bakvarða sem hafa spilað stöðuna. Tilefni þessa pistils er einmitt það að loksins virðist þessi vandræðastaða vera orðin vel mönnuð hjá liðinu. Andy Robertson er líklegast það besta sem við höfum haft síðan Kennedy var og hét og í ofanálag þá er hann með öflugt backup í Moreno, sem heldur honum vel við efnið. En kíkjum aðeins á hvernig þessi staða hefur verið mönnuð í gegnum tíðina síðan meistari Alan yfirgaf sviðið:

Steve Nicol
Steve var frábær bakvörður en spilaði oftast hægra megin og telst því varla með í þessari upptalningu. Hann spilaði afar margar stöður á vellinum, í raun þar sem vantaði. Frábær leikmaður en telst þó ekki stórkostlegur í vinstri bakvarðarstöðunni.

Jim Beglin
Kappinn þessi var vel sprækur og lofaði góðu. Ferill hans var þó styttur verulega í annan endann þegar hann fótbrotnaði mjög illa í skelfilegri tæklingu frá Gary nokkrum Stevens, leikmanni Everton. Þegar hann var klár eftir þau meiðsli, þá lenti hann í erfiðum hnémeiðslum. Ferill hans fór því aldrei á það flug sem búist var við.

David Burrows
Borrows blessaður var einn af þessum næstumþví leikmönnum. Slatti potential, en naut góðs af því að vera í afar sterku liði, ágætlega traustur, en ekkert frábær, hvorki varnarlega né sóknarlega.

Gary Ablett
Gary var lurkur, stór og stæðilegur og var fyrst og fremst sterkur varnarlega. Hann náði aldrei að festa sig í sessi til lengri tíma, til þess skorti hann ákveðin gæði, sér í lagi sóknarlega.

Steve Staunton
Steve var alveg bráðefnilegur á sínum tíma og menn töldu að þarna væri loksins verið að ná að fylla þessa vandræðastöðu. Hann var orðinn fastamaður í liðinu og bætti sig stöðugt og það kom því mikið á óvart á sínum tíma þegar hann var seldur frá félaginu til Aston Villa. Margir hugsuðu Souness þegjandi þörfina þegar hann lét hann fara. Hann kom reyndar aftur til Liverpool nokkrum árum seinna, en ferill hans komst aldrei aftur á flug.

Julian Dicks
Ja hvað skal segja um Dicks. Harðhaus sem var afskaplega laus við að geta eitthvað í fótbolta. Eini listinn sem hann kemst hátt á er listi yfir verstu kaupin í gegnum tíðina.

Stig Inge Björnebye
Stig Inge var fyrstur í Norsku byltingunni. Hann var líka skástur af henni. Hann var svo sem ekkert al slæmur, en hann var heldur ekki í nægilega háum klassa til að berjast um titla. Duglegur og allt það, en það er ekki alltaf nóg. Félagi hans Oyvind var til að mynda afar duglegur, en það mátti helst ekki senda boltann til hans.

Steve Harkness
Steve náði aldrei að brjótast almennilega í gegn, hann var svona í og við hópinn og aldrei nægilega góður til að festa sig í honum.

Dominic Matteo
Dominic færði sig í miðvörðinn þegar leið á ferilinn og var í rauninni miklu sterkari sem slíkur. Var aldrei nálægt því að vera góður í vinstri bakvarðarstöðunni.

Christian Ziege
Það sem maður batt vonir við þennan dreng. Hafði svo sannarlega talent og þetta voru risa kaup á sínum tíma. Hann bara náði einhvern veginn aldrei alvöru flugi með Liverpool. Einhver hegðunarvandamál spiluðu eitthvað þar inní.

Jamie Carragher
Vinstri bakvarðarstaðan er langt því frá að vera sterkasta staðan hjá Jamie. Hann skilaði henni engu að síður ágætlega frá sér, en það var meira svona til að hjálpa liðinu fremur en að menn hafi talið einhverja framtíð í honum í þeirri stöðu. Hann spilaði engu að síður oft í þessari stöðu i byrjun ferils síns.

Fabio Aurelio
Fabio er líklegast sá hæfileikaríkasti af öllum þessum vinstri bakvörðum sem spilað hafa með félaginu síðustu áratugina. Það skorti svo sannarlega ekki talent, en því miður var hann þjakaður af meiðslum og náði aldrei að stimpla sig inn á þann hátt sem hann hefði getað gert.

John Arne Riise
Stór furðulegt eintak. Skoraði þetta líka markið gegn Man.Utd. en eftir það rotaði hann reglulega fólkið í röð 89 með sínum rosalegu skotum. Einhverjir tala ennþá um hann sem virkilega góðan vinstri bakvörð, en ég verð bara að fá að vera fullkomlega ósammála því. Veikur hlekkur í Liverpool liðinu og ég held að menn hafi fyrst og fremst hugsað til þessa fræga marks.

Gregory Vignal
Líklegast frægastur fyrir sinn þátt í markinu góða hjá Gary Macca gegn Everton. Var óþekktur þegar hann kom, náði engum hæðum og hvarf svo bara.

Stephen Warnock
Uppalinn strákur sem var álíka látið með eins og Stevie G á sínum tíma. Lenti í mjög erfiðum meiðslum ungur að árum og náði sér aldrei á það flug sem menn bjuggust við. Hæfileikaríkur og með margt til að bera, en því miður náði hann ekki að verða sá leikmaður sem menn vonuðust til.

Djimi Traore
Var fenginn til liðsins sem miðvörður, en spilaði oftast sem vinstri bakvörður. Stór, klaufskur og náði aldrei að springa almennilega út. Hann vann þó Meistaradeild Evrópu 2005. Það reyndar átti að skipta honum út í hálfleik, eftir hörmulegan fyrri hálfleik. Við þurfum ekkert að fara nánar út í þessa sálma og ég held að hann gleymi þessu seint blessaður.

Álvaro Arbeloa
Arbeloa var fyrst og síðast öflugur varnarmaður og hægri bakvarðarstaðan var hans aðal staða. Hann var þó oft notaður vinstra megin og skilaði því oftast með mikilli prýði. Telst samt ekki með þeim bestu þar.

Emiliano Insúa
Insúa var efnilegur í 45 ár og varð bara aldrei neitt meira en það. Stuðningsmenn Liverpool öskruðu eftir að fá hann í liðið eftir að hafa spilað afar vel með varaliðinu, en það vantaði alltaf helling uppá að hann myndi slá í gegn.

Jose Enrique
Eftir að hafa verið frábær hjá Newcastle, þá var Jose keyptur til Liverpool. Hann er nú samt líklegast þekktastur hjá stuðningsmönnum Liverpool fyrir að vera bestur í að spila FIFA tölvuleikinn. Hann átti sína spretti inni á vellinum en náði aldrei að verða verulega góður.

Aly Cissokho
Nú verð ég að passa mig, Einar Matthías er mjög fljótur upp þegar nafn Aly ber á góma. Mun fljótari en Aly var í sínum sprettum. Í mínum huga er Aly alltaf maðurinn sem féll á læknisskoðun hjá AC Milan vegna lélegrar tannhirðu.

Andrea Dossena
Living Legend, þannig er það bara. Skoraði síðasta markið í stórsigrum gegn Man.Utd og Real Madrid í sömu vikunni, geri aðrir betur. Annað var það ekki frá Andrea.

Paul Konchesky
Þegar þú ákveður að ganga í hjónaband með ákveðinum manni, þá veistu það að sonur hans fylgir með, sama hversu leiðinlegur hann er. Takk fyrir ekkert Roy.

Jack Robinson
Var lengi efnilegur, hætti að vera efnilegur, spilar í dag með QPR.

Brad Smith
Náði aldrei að brjóta sér leið í aðalliðið, seldur til Bournemouth og fær fá tækifæri þar.

Jon Flanagan
Átti eitt frábært tímabil hjá félaginu. Er í rauninni hægri bakvörður en spilaði best vinstra megin. Meiðsli hafa farið afar illa með hann. Stevie G var að taka hann til sín til Rangers.

James Milner
Miðjumaður sem leysti heilt tímabil í vinstri bakverðinu og gerði það bara nokkuð vel. Hann er samt miðjumaður.

Alberto Moreno
Alberto ef afar mistækur leikmaður, en góður í þessari stöðu sem hann er núna. Góður í hóp og getur átt frábæra leiki. Ef hann er til í að vera áfram í því hlutverki að vera squad player, þá bara flott mál. Viðheldur góðri pressu á Andy Robertson.

Eins og sjá má á þessari upptalningu, þá hefur þetta verið ansi hreint skrautlegt í gegnum árin. Sumir hafa komið inn og vakið upp vonir og væntingar, en í nánast öllum tilvikum þá hafa vonbrigðin orðið ofaná. Margir þessara leikmanna lofuðu góðu. Eitt gott tímabil er jú eitt gott tímabil, en til að verða talinn alvöru vinstri bakvörður, þá þarf meira en það. Andy Robertson var verulega góður á síðasta tímabili, það besta sem ég hef séð síðan Steve Staunton (fyrra skiptið) og Aurelio. Vonandi heldur hann uppteknum hætti því við megum svo sannarlega við því að þessi staða hætti að verða þessi vandræðastaða sem hún hefur verið öll þessi ár.

Andy, yfir til þín.