Allar færslur eftir SSteinn

Sami Hyypia og árshátíð Liverpoolklúbbsins

Enn eru nokkrir miðar eftir, ekki mun það drepa stemninguna mikið að okkar menn skyldu tryggja sér inn í Meistaradeildina í gær.

Það er ekki langt síðan við kvöddum Super Sami Hyypia með tárvot augun á Anfield. Eiginlega ótrúlega stutt síðan. En núna er þessi magnaði kappi að mæta til Íslands og heiðra okkur með nærveru sinni á árshátíð Liverpoolklúbbsins á Íslandi. Árshátíðin fer fram næst komandi miðvikudag (frí daginn eftir) og á ég bágt með að trúa að menn láti þetta tækifæri framhjá sér fara. Hvað er betra en að skemmta sér í hópi Poolara og með annan eins heiðursgest og þennan finnska snilling.

Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að mæta. Hátíðin verður haldin í Kórnum í Kópavogi og opnar húsið klukkan 19 með fordrykk, en borðhald hefst klukkan 20. Ennþá eru örfáir miðar eftir og hægt er að næla sér í slíkan á midi.is.

Continue reading

Það er komið að því…

…núna ræðst það hreinlega hvort þetta tímabil telst bara ansi gott og stórt framfararskref liðsins undir stjórn Jurgen Klopp, eða hvort þetta verði hálfgerð vonbrigði, þrátt fyrir góða og bráðskemmtilega kafla inn á milli í vetur. Já, þetta veltur allt á leik á Anfield gegn föllnu liði Middlesbrough, sem var klárlega laaang næst versta liðið i deildinni á tímabilinu. Einhvern tíman hefði maður nú verið ansi hreint „cocky“ fyrir leik sem þennan. En ekki á þessu tímabili. Þetta er alveg furðulegur fjandi. Af hverju er maður svona fyrirfram hræddur? Jú því að þetta Boro lið er svo lélegt. Alla jafna myndi þessi framsetning mín ekki „meika neitt sens“, en vegna þess hvernig þetta tímabil hefur þróast, þá skilja allir hvað ég er að fara.

Ég hef verið að spyrja mig spurninga varðandi þetta. Af hverju ættu leikmenn Boro að koma með viljann að vopni inn í leikinn? Flestir þeirra eru byrjaðir að þurfa að undirbúa sig fyrir að spila í næst efstu deild á næsta tímabili. Sumir vita ekkert hvar þeir verða þá. Einn punkturinn er sá að einhverjir vilja láta taka eftir sér í veikri von um að einhver vilji kaupa þá. Ólíklegt já, því þeir hafa haft 37 leiki til þess. En þetta gæti virkað á einhverja. Eru þeir með eitthvað sjálfstraust? Ég myndi halda ekki. Ný fallnir og varla að það votti fyrir slíku. Eru þeir að ganga í augun á stjóranum fyrir næsta tímabil? Líklegast ekki, þar sem þeir eiga eftir að ráða sér slíkan. Nei, það er ansi fátt sem ætti að keyra þá áfram nema bara persónulegur metnaður að láta ekki valtra yfir sig. Að reyna með einhverjum mætti að þakka stuðningsmönnum sínum fyrir að hafa eytt fúlgum fjár í að fylgja þeim á völlinn og sjá hörmungar frammistöður leik eftir leik. Þetta er líklegast það sem ætti að ýta mönnum áfram. Samt, við erum að tala um atvinnumenn í fótbolta sem eiga ansi hreint takmarkað magn af hollustu í sínum ranni.

Horfum þá í hina áttina. Af hverju ættu okkar leikmenn að mæta með viljan að vopni inn í leikinn? Síðasti heimaleikur tímabilsins á Anfield? Já. Tækifæri til að koma sér á stall með þeim bestu og spila í Meistaradeild Evrópu á næsta ári? Hell Yeah. Tækifæri til að sýna sig og sanna fyrir Jurgen Klopp að þeir séu hluti af liðinu til framtíðar, liði sem vonandi á eftir að vaxa áfram og berjast um titla? Ekki nokkur einsta spurning. Tækifæri á að vinna sér inn spikfeitan launabónus vegna þess að markmið um sæti í deildinni séu að nást? Hvað haldið þið? Uhh, já. Fer liðið með eitthvað sjálfstraust inn í leikinn? Í síðustu 10 leikjum hefur liðið sigrað 7 leiki, gert 2 jafntefli og tapað einu sinni. Síðasti leikur vannst 0-4 á útivelli. Þannig að, já, liðið ætti að vera með bullandi sjálfstraust. Hefur varnarleikurinn eitthvað batnað? Heldur betur, liðið hefur haldið hreinu í síðustu 3 leikjum.

Miðað við þessa upptalningu hér að framan, hvernig má það hreinlega vera að maður sé á skjálftavaktinni fyrir þennan leik? Það er hreint út sagt fáránlegt. Það er hreinlega ekki neitt í neinum kortum sem ætti að vísa til neins annars en hrikalega öruggs sigur okkar manna gegn vonlausu Boro liði. En nei, það vantar einn þátt inn í þessa jöfnu. Þetta Liverpool lið hefur alltof oft í vetur ákveðið það að mæta hreinlega ekki til leiks þegar leikið er við allra neðstu og lélegustu liðin. Er skrítið þótt maður sé smá skjálfandi? Held ekki.

En þetta er það ótrúlega fallega við fótboltann. Þetta er ein af ástæðunum að við elskum þessa íþrótt. Það er alveg sama hvernig þetta lítur allt út á pappír (í tölvunni) það vinnst ekkert fyrirfram. Það er þessi fiðringur sem er innra með manni, þessi hrikalega spenna fyrir leiki, á meðan þeim stendur og svo hnúturinnn í maganum eða gleðin sem brýst út eftir leikina. Þetta snýst um tilfinningar, upp og niður, út og suður. Nú mun þetta allt saman súmmerast upp á einum degi, á einum sunnudegi. Öll liðin spila á sama tíma, núna er það undir hverju og einu liði komið hver örlögin verða. Eða nei, eiginlega ekki. Þetta snýst bara um eitt lið. Þetta snýst bara um þetta Liverpool lið og hvernig þeir ákveða að mæta til leiks. Það skiptir okkur ekki rassgat máli hvað Arsenal gerir í sínum leik. Þeir eru að fara að spila við Everton og bláliðar munu svo sannarlega vera farnir í sumarfrí, það er ekki fræðilegur að þeim detti til hugar að gera eitthvað sem gæti komið Liverpool til góða. Enda er þetta einfalt, sigur á Boro = Meistardeild Evrópu á næsta tímabili.

En nóg um það. Hvernig ætlum við að stilla þessu upp? Hvernig verður uppleggið hjá liðunum? Ég held að það liggi enginn vafi á því hvernig Boro muni leggja upp sinn leik. Þeir eru með stóra og sterka stráka sem munu reyna að loka sjoppunni, treysta á skyndisóknir og að reyna að fá föst leikatriði til að næla í marki. Þeir byrja með eitt stig og yrðu himinlifandi með því að halda því. Þetta er ekkert nýtt þegar Anfield er annars vegar. Öll litlu liðin gera þetta og sumum þeirra tekst að fara með eitt stig í burtu með þessari taktík, munum bara þegar Moaninho fór himinlifandi með eitt stig í töskunni sinni. Nei, þetta snýst um hvernig við ætlum okkur að brjóta svona varnarmúr á bak aftur. Eins og svo oft áður, þá mun þetta snúast um að ná að brjóta ísinn snemma, þá geta opnast flóðgáttir. Ef Boro nær að halda okkur í skefjum lengi, þá er hætt við að menn byrji að verða óþolinmóðir og missa skipulag.

Við þurfum á öllum okkar bestu mönnum að halda. Ings og Mané verða pottþétt frá vegna meiðsla og ég efast stórlega um að Hendo verði orðinn klár í slaginn. Hann verður eflaust látinn bara jafna sig almennilega og settur í sumarfrí. Stóra spurningamerkið er Bobby Firmino. Ég myndi persónulega allan tímann setja hann í liðið, en ég reikna með að Klopp verði í mesta lagi með hann á bekknum. Ég ætla því að spá óbreyttu liði frá því sem slátraði liði West Ham:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Can
Wijnaldum – Coutinho
Lallana

Origi – Sturridge

Þetta lið Á að slátra þessu Boro liði á heimavelli fyrir framan okkar stórkostlegu stuðningsmenn, þetta er ekkert flókið. Ekki einn leikmaður í liði andstæðinganna ætti séns á að komast í byrjunarlið Liverpool, ekki einn einasti. En núna þarf að sýna gæðin, það er ekki nóg að tala um þau eða hugsa um þau, það þarf að sýna þessi gæði. Þó svo að ég komi til með að verða á skjálftavaktinni fyrir leikinn og þegar hann hefst, þá hef ég alveg tröllatrú á að þetta lið okkar muni mæta til leiks. Ég hef þá trú að þeir vilji klára það sem þeir hófu í ágúst. Ég vil trúa því að löngunin til að spila Meistaradeildarbolta sé það mikil að þeir munu ekki gefa andstæðingum okkar nokkurn frið. Hápressa, hraði, áhugi, fókus, harka, gæði og vilji. Þetta er það sem við þurfum að sjá. Ég ætla að spá okkur sigri, ég ætla að spá okkur stórsigri. Mikið lifandis skelfingar ósköp vona ég að ég hafi rétt fyrir mér í þetta skiptið. 5-0 skal það vera. Sturridge með 2, Coutinho 1, Lallana 1 og Matip 1.

Þetta er síðasta upphitun tímabilsins. Þetta hefur að vanda verið rússíbanareið og vil ég formlega þakka ykkur lesendur góðir fyrir samfylgdina í upphitunum þetta tímabilið. Að sjálfsögðu erum við ekkert hættir, það eru bara upphitanir sem eru komnar í sumarfrí. Vonandi er framundan stórkostlegt sumar þar sem bætt verður í leikmannahópinn til að takast á við deilarkeppni, bikarkeppni, deildarbikar og síðast en ekki síst, Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.

KOMA SVO…

Úrslitaleikur 1/5

Já ég veit, þreyttasta klisja í veröldinni og allt það. Eeeen, þetta er bara alls ekkert flókið. Meistaradeildarsæti er gjörsamlega í okkar eigin höndum. Það er alveg sama hvað hin félögin gera, Liverpool endar örugglega í topp 4 ef liðið klárar þessa 5 leiki sem eftir eru. Jú, einhver lið eiga leiki til góða og allt það, en það er slatti af innbyrðisleikjum eftir og þar tapast stig, það er bara þannig. Ef við skoðun eingöngu innbyrðisleiki þá sem eftir eru hjá þessum efstu 6 liðum sem eru að keppa um þessi sæti, þá eru það þessir:

Man.City – Man.Utd
Tottenham – Arsenal
Arsenal – Man.Utd
Tottenham – Man.Utd

Þar fyrir utan, ef menn draga Everton inn í umræðuna (ekki að þeir séu að fara að blanda sér í þessa baráttu, heldur gætu þeir kroppað stig af mótherjum okkar), þá eiga þeir þessa leiki eftir:

Everton – Chelsea
Arsenal – Everton

Sem sagt, þau 2 lið sem reyna einna helst að ógna Meistaradeildarsæti hjá okkar mönnum, þau eiga ansi hressilega 3 leiki hvort og þar af innbyrðisleik. Það stefnir því allt í hörku, hörku spennandi „Run-in“ í keppninni um sæti í peningadeildinni margfrægu. Það voru ýmsir svartsýnir fyrir tímabilið og bjuggumst ekki við okkur í þessari baráttu, en ég held að flestir stuðningsmenn hefðu tekið þessari stöðu opnum örmum þegar liðið á aðeins 5 leiki eftir. Af þessum 5 leikjum sem eftir eru, þá eru 3 á Anfield og 2 á útivelli. Aðeins 1 af þessum leikjum er gegn liði sem er í einhverri alvöru fallbaráttu og það er lið Boro í lokaumferðinni og eru nánast allar líkur á því að þeir verði fallnir þegar kemur að þeim leik.

En leikir vinnast aldrei á pappír og aldrei fyrirfram. Þetta Liverpool lið er búið að lenda í fáránlegum meiðslapakka í vetur, en eru samt í þessari stöðu. Ef ég ætti að setja erfiðleikastuðul á þessa leiki sem eftir eru, þá myndi ég raða þeim svona, sá erfiðasti er efst:

Liverpool – Crystal Palace
West Ham – Liverpool
Liverpool – Southampton
Watford – Liverpool
Liverpool – Middlesbrough

Sem sagt, sá leikur sem ég tel að verði erfiðastur fyrir okkar menn, er einmitt þessi Palace leikur. Þetta Palace lið var auðvitað að spila langt langt undir getu undir stjórn Alan Pardew. Því miður er Sammi sopi kominn þangað með öll sín leiðindi, því ég hef lengi verið með soft spot fyrir þessu Palace liði. Þeir eru með frábæra stuðningsmenn, eina þá skemmtilegustu á Englandi, þeir eru með hellings tengingu við Liverpool og hafa oft spilað alveg þrælskemmtilegan bolta. Samma sopa vinkillinnn skemmir þetta mikið fyrir mér, verð bara að viðurkenna það. En það verður ekkert elsku mamma neitt þegar þeir mæta á Anfield, svo sannarlega vonar maður að þeir lendi í yfirvöltrun af hálfu okkar manna.

Þetta Palace lið er einfaldlega með alveg hörku mannskap, sér í lagi framarlega á vellinum. Van Aanholt, Tomkins, Dann, Sakho, Schlupp, Cabaye, Townsend, Puncheon, Remy, Zaha, Benteke og Wickham. Þessi mannskapur á aldrei að vera í fallbaráttu. Það eru þó skörð hoggin í þeirra lið eins og okkar. Sakho má ekki spila, þar sem hann er í okkar eigu og þess utan er Scott Dann meiddur. Fyrir utan þá tvo, þá eru þeir Connor Wickham og Souare fjarri góðu gamni, ekki það að þeir séu algjörir lykilmenn, en samt öflugir leikmenn. Stóra málið verður hvernig við náum að ráða við okkar gamla kunningja, Christian Benteke. Sá hefur í gegnum tíðina reynst okkur erfiður, bæði þegar hann hefur spilað á móti okkur og ekkert síður þegar hann var að spila með Liverpool. Erfiður framherji svo sannarlega.

Við megum alveg eiga von á fullt af fyrirgjöfum og talsvert af kýlingum fram völlinn. Palace eru með fljóta stráka í þeim Puncheon, Townsend og Zaha. Þeir munu nýta sér þá til að komast á bakvið bakverðina okkar, þá sér í lagi hægra megin. Ég á von á árás frá Zaha á Milner allan leikinn, það verður líklegast dagsskipunin og koma boltanum fyrir á Big Ben. Ég reikna fastlega með því að við fáum á okkur mark/mörk í þessum leik. Hef ekki nokkra trú á því að við náum að halda hreinu. Á móti hef ég tröllatrú á okkur hinum megin á vellinum. Það að þeir hafi hvorki Sakho eða Dann, veikir þá mjög. Varnarmenn þeirra munu líklegast liggja djúpt og það á hreinlega að opna möguleika fyrir okkar menn. Við erum með góða skotmenn sem hreinlega eiga að nýta sér slíkt. Ætli við sjáum ekki Tomkins og Martin Kelly saman í miðvarðarstöðunum.

En að okkar mönnum. Samkvæmt Physioroom erum við á toppnum á einum stað í deildinni, það er þegar kemur að meiðslum. Þeir Lucas og Matip eru tæpir fyrir þennan leik en það er ljóst að Klavan, Mané, Lallana, Henderson, Ejaria og Ings munu ekki taka þátt í leiknum. Við hreinlega VERÐUM að fá Matip inn í þennan leik, hann er sá eini sem á einhvern séns í Benteke í loftinu. Hvað annars mun Klopp gera ef bæði Lucas og Matip verða frá? Það er ekki hægt að droppa Can niður í vörnina, þar sem bæði Hendo og Lallana eru fjarri góðu gamni. Erum við að tala um að horfa fram á að Joe Gomez komi alveg hrár inn í þessa mikilvægu miðvarðarstöðu? Nei, nú krossar maður fingur og vonar það besta með Matip, það er algjört lykilatriði. Það er allavega ljóst að ef þessir tveir verða ekki með, þá þurfa menn ekkert að velta því neitt fyrir sér hvort hann byrji með 3 miðverði. Þeir eru einfaldlega ekki til staðar. Ekki það að ég búist við slíkri uppstillingu, síður en svo, held að það sé ekki fræðilegur séns.

Ég ætla mér að vera bara hrottalega bjartsýnn og spá því að Matip verði klár í slaginn. Vörnin verður því ansi hreint kunnugleg, eða sú sterkasta sem við getum stillt upp. Miðjan er nánast sjálfsskipuð líka, ef við erum heppnir og Lucas sé klár í slaginn. Í mínum huga er þetta bara spurning um hvort Origi eða Sturridge byrji frammi. Auðvitað gæti Klopp sett Origi út á kant og Coutinho niður á miðjuna. Ég hef bara einhvern veginn ekki trú á því að hann byrji með báða framherjana í leiknum. Ég væri svo sem alveg til í það, en hef ekki trú á því.

Svona reikna ég því með að Jurgen Klopp stilli upp liðinu, og ég bara treysti á það að menn séu heilir:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Can – Lucas – Wijnaldum

Firmino – Sturridge – Coutinho

Ef Lucas er ekki heill, þá tippa ég á þetta svona:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Wijnaldum – Can – Coutinho

Origi – Sturridge – Firmino

Eins og fyrr segir, þá vil ég bara ekki hugsa þá hugsun til enda ef Matip spilar ekki leikinn. Ég held því líka fram að liðið verði sterkara með Lucas í varnartengiliðnum heldur en að setja Coutinho niður á miðjuna. Johan Cabaye stjórnar miðjunni hjá Palace og hann má ekki fá neitt pláss til að dreifa boltanum. Staða djúpa miðjumannsins mun verða mikilvæg í þessum leik því Palace munu reyna að sækja á okkur og það hratt. Okkar flinku menn eru það góðir í fótbolta að þeir eiga allan tímann að geta skorað mörk á þessa Palace vörn og þurfa einfaldlega að tryggja það að þeir skori fleiri slík en mótherjinn.

Ég þrái það að geta horft á Manchester slaginn í næstu viku og geta nánast fagnað hvaða úrslitum sem er í þeim leik. Til þess að veit mér þá ánægju, þá þurfum við að klára þetta Palace lið og þennann tyggjó jórtrandi Ferguson Wannabe. Sigur á Palace gerir það að verkum að jafntefli í Manchester slagnum væri algjörlega frábært og myndi þýða það að hvorugt þeirra ætti séns á að ná okkur að stigum ef við klárum okkar síðustu 4 leiki. Sigur City myndi gera það að verkum að brekka Man.Utd yrði svaðalega brött og öll áhersla þeirra myndi snúast yfir á Evrópudeildina. Sigur Man.Utd myndi breikka bil okkar í þetta City lið og auka til muna möguleika okkar á að lenda í 3ja sæti í deildinni. En allt þetta hverfur ef okkar menn taka ekki lið Crystal Palace á Anfield. Auðvitað er þetta ekkert búið þótt illa færi, en Jeremías góður hvað sigur myndi setja okkur í sterka stöðu.

Ég ætla að spá okkur sigri og að lokatölur verði 3-1. Daniel Sturridge, Firmino og Coutinho munu sjá um að sigla þessu í höfn fyrir okkur.

Árshátíð Liverpoolklúbbsins og Jamie Carragher

Já, það er enginn smá gestur sem Liverpoolklúbburinn á Íslandi er búinn að fá til að heiðra sig með nærveru sinni. Sjálfur Jamie Carragher mætir á svæðið og er einhver í vafa með það hvort hann hafi skoðanir á hlutunum? Nei, ég hélt ekki. Árshátíðin er óvenju seint þetta árið, en að sjálfsögðu er það vegna þess að Carra er fastur hjá Sky í vinnu þar til tímabilið klárast.

Forsala miða til meðlima klúbbsins hefst í kvöld og er um að gera að hafa hraðar hendur, hver vill ekki fá tækifæri á að hitta þennan snilling. Sjálfur hef ég orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að rabba nokkrum sinnum við hann og hann stóð svo sannarlega undir væntingum og rúmlega það.

Árshátíðin verður sem sagt haldin að kvöldi þess 24. maí nk. og verður haldin í hátíðarsal í Kórnum í Kópavogi. 24. maí er miðvikudagur, en sem betur fer er frí daginn eftir, enda afmælisdagur kraftaverksins í Istanbul.

Nánari upplýsingar er að finna hérna.

Bikarúrslit?

Já, þetta fer að verða vel þreytt fyrirbæri. Annar hver leikur hjá okkar mönnum þessa dagana er nánast bikarúrslitaleikur, en reyndar því miður án nokkurs bikars. Það er eldgömul og alveg hundþreytt lumma að næsti leikur sé make or break leikur, sá mikilvægasti á tímabilinu og jari jari jara. Hversu oft höfum við heyrt slíkt. Við heyrum slíkt að sjálfsöðu oftast þegar við erum að spila við lið sem eru á svipuðum stað og okkar menn. Hvernig flokkast þá þessi leikur gegn Arsenal? Laugardagurinn 4. mars og klukkan 17:30. Liðin sem núna sitja í fjórða og fimmta sæti. Arsenal stigi á undan Liverpool, en eiga leik til góða. Gefum okkur það að sá leikur vinnist hjá Arsenal, þá væru þeir 4 stigum fyrir ofan okkur í hörku baráttu um þetta bölvaða fjórða sæti. Við sem sagt getum sett þá baráttu í algjört overdrive með sigri, komist yfir þá tímabundið og í versta falli heilu stigi á eftir þeim. En hvað ef þetta fer í hina áttina? Hvernig er staðan ef Arsenal vinnur leikinn? Jú, þá komast þeir í fjögurra stiga forystu, sem gæti orðið 7 stiga forysta. Það væri mikið, alveg ferlega helvíti mikið.

Ég viðurkenni það fúslega að ég fékk svo mikið óbragð í munninn yfir frammistöðu okkar manna gegn Leicester að ég gat varla hugsað um fótbolta. Það var af skyldurækni en ekki áhuga að maður tók þátt í Podcasti á þriðjudaginn, ég hafði „beisiklí“ engan áhuga á að horfa á eða fjalla um fótbolta í einu eða neinu formi. En sem betur fer er maður oft fljótur að gleyma og nú er komið að næsta verkefni. Svei mér þá, það er bara komin eftirvænting í mann. Nokkrum korterum eftir að maður hreinlega ákvað að horfa aldrei aftur á fótbolta eftir að liðið okkar tók þá frábæru ákvörðun að mæta ekki til leiks í Ensku Úrvalsdeildinni.

En hvað er maður að kvarta og kveina? Það er ekki eins og að þetta sé eitthvað nýtt fyrir okkur stuðningsmenn Liverpool FC, onei, því fer fjarri. Þetta er eflaust svipað því að mamma manns hafi verið kasólétt í Tívolí og bara ákveðið að fæða í stóra Rússíbanananum. Ekki nóg með það, hún ákvað bara að halda áfram að vera þar. Auðvitað ætti maður þá að venjast þessum dýfum, þessum hæðum og lægðum, upp og niður. En neeeei, þetta bara freaking venst ekki rassgat. Samt hefur maður átt heima þarna síðustu tugi ára (í mínu tilfelli).

Það verður fróðlegt að sjá hvernig liðið mætir til leiks gegn þessu Arsenal liði. Yfirleitt höfum við nú ekki þurft að hafa áhyggjur af því í vetur að menn mæti ekki til leiks í þessa leiki gegn „stóru“ liðunum. Það hefur lítið verið hægt að kvarta yfir genginu gegn þeim. Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig t.d. Klopp ræðir við þessa pilta okkar á æfingunni eftir svona fáránleikhús eins og gegn Leicester. Tekur hann þögla og alvarlega pakkann á þá? Tekur hann hárblásarann? Tekur hann jákvæða gaurinn og reynir að draga fram það sem menn geta bætt sig í? Ég hef í rauninni ekki hugmynd um þetta, en eitt veit ég þó. Þessir drengir voru heppnir að ég hafði ekki það hlutverk að taka á móti þeim á þessari æfingu, svo mikið er víst. Ég hefði sektað hvern einn og einasta af þeim um tveggja vikna laun fyrir að mæta ekki í vinnuna.

Nú ber að svara fyrir þessa hörmung takk fyrir. Klopp var ekkert að grínast neitt með það að sumir af þessum leikmönnum okkar eru að spila fyrir framtíð sinni. Þetta Arsenal lið sem er að koma í heimsókn, það er svona á margan hátt álíka og okkar. Eru með slatta af fínum leikmönnum, en toppstykkið ekki alltaf skrúfað á, og virðist stundum hreinlega vera forskrúfað. Þeir geta hitt á leiki þar sem það virðist hreinlega enginn geta stöðvað þá, en svo mæta þeir næst eins og að þeir haldi að þeir séu í tjaldútilegu með gráhærðan svefnpoka með í för. Könnumst við við þetta? Hell yeah.

Það þarf samt ekki að fjölyrða mikið um hættuna sem þetta Arsenal lið getur skapað. Þeir eru með einn af 5 bestu leikmönnum deildarinnar í Alexis. Özil hefur heldur betur kálað heilu og hálfu liðunum þegar hann hefur á annað borð nennt því. Giroud og Walcott eru svo flottir sóknarmenn. En hvað svo? Þá kemur að vandamáli sem er svipað hjá báðum liðum. Miðjan hefur oft á tíðum virkað illa. Nallar eru með tvo hauslausa miðjumenn í þeim Xhaka og Coquelin og svo lítið annað. Ramsey átti eitt fínt tímabil og hefur lítið gert síðan. Elneny er svo ágætur til síns brúks, en svo er Cazorla meiddur. Þeir eru sem sagt ekkert að kafna neitt úr miðjumönnum (sem geta eitthvað), svipað vandamál og hjá okkur.

Þeir eru reyndar aðeins betur settir í vörninni, eru með stabílt miðvarðarpar í þeim Koscielny og Mustafi og flottan bakvörð í Bellerin. Það sem þeir hafa svo fyrir aftan vörnina er svo eitthvað sem við höfum þráð lengi, stór og solid markvörður. En hvað um það, stoppið þennan Alexis og þá eru menn komnir c.a. 50% af leiðinni.

En hvað um okkar menn? Það er ekki hægt að skipta út 10 mönnum frá síðasta leik, við höfum ekki breidd í það. Nei, við munum sjá svipað lið áfram. Vonandi er Lovren orðinn heill á nýjan leik. Lucas var fullkomlega hræðilegur í síðasta leik, en hentar líklegast skárr gegn liði eins og Arsenal. Hann allavega á ekki break í kerfi sem byggir á spólgröðum Vardy uppi á topp. Matip verður áfram á sínum stað og ég sé ekki að Klopp sé að fara að skipta Clyne neitt út, enda var hann bara í sama rugli og allir hinir síðast. Ég vil svo sjá breytingu í vinstri bakvarðarstöðunni. Menn hafa oft verið fljótir að benda á slakan varnarleik hjá Moreno í gegnum tíðina, réttilega það. En núna ber svo við að hægri bakvörður Arsenal er hraðasti leikmaðurinn í deildinni. Milner er ekkert að fara að eiga neitt í hann á sprettinum. Það gæti Moreno gert. Í þokkabót eru allar líkur á að Hendo nái ekki þessum leik og þá vil ég allan tímann fá Milner inn í varnartengiliðinn. Við skulum orða það þannig að ég vil ekki sjá Emre Can nálægt þeirri stöðu í bráð. En vonandi er Hendo bara klár í slaginn, ég ætla að ganga út frá því að svo sé ekki.

Annað er því miður nánast sjálfvalið. Wijnaldum og Lallana á miðjunni, Mané og Coutinho á vængjunum og eina spurningin í mínum huga er frammi. Eins mikið og ég er mikill Bobby Firmino maður, þá er bara ekki ásættanlegt að hann hafi í síðustu 18 leikjum skorað heil 3 mörk og ekki lagt upp eitt einasta. Nei, það er ekki nógu gott hjá sóknarmanni. Vandamálið er bara það að við erum með 2 ískalda gaura sem eru að „berjast“ við hann um stöðu. Sturridge er búinn að vera með einhvern vírus í 9 eða 10 daga og Origi er búinn að vera offline í ennþá lengri tíma. Hvað skal gera? Svei mér þá, skásta veðmálið er bara að vona að Bobby hrökkvi í gang. Damn hvað okkur vantar mikið breidd í þetta lið. Svona vil ég sjá þetta:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovern – Moreno

Lallana – Milner – Wijnaldum

Mané – Firmino – Coutinho

Sem sagt, þetta lið getur alveg kafsiglt Arsenal. En þeir geta líka fallið til jarðar líkt og loftsteinn án fallhlífar ef svo ber undir. Verðum við ekki bara að vonast til að stórleikja Liverpool mæti til leiks og brjótist út úr skelinni. Þeir geta svo bara farið og falið sig aftur stuttu seinna þegar þeir fá Burnley í heimsókn. Opna sig gegn Arsenal, senda okkur upp í hæstu hæðir eins og flottan flugeld. Við skoðum svo bara síðar hvernig það verður að halda í prikið á leiðinni niður aftur. Við vitum vel að það er vont, en það er seinni tíma vandamál, eigum við ekki að fá bara far upp núna?

Við vinnum þetta dæmi 2-1 með mörkum Firmino og Mané.