Allar færslur eftir Ólafur Haukur

Grannaslagur á sunnudag!

Á sunnudaginn heldur veislan áfram hjá okkar mönnum sem eru sjóðandi heitir um þessar mundir eftir tvo risa sigra í röð, 5-1 og 7-0. Næstu mótherjar eru Gylfi Sig og félagar í Everton á Anfield. Það má því segja að síðustu tveir leiki hafi verið fínasta upphitun fyrir þann leik!

Það á víst að vera mikil snjókoma og ekki gott fótboltaveður á sunnudaginn þegar liðin mætast sem vonandi setur ekki of mikið strik í reikninginn en eitthvað getur þetta Liverpool lið hlaupið svo það má nú alveg reikna með að það verði hiti í skrokknum á þeim.

Everton byrjaði leiktíðina hreint ömurlega og þá sérstaklega í ljósi yfirlýsinga þeirra eftir sumargluggann þar sem þeir eyddu miklum pening í marga leikmenn en seldu sinn besta mann og komu út á sléttu. Það var að myndast valdaskipting í Liverpool-borg og augljóslega myndi Everton enda fyrir ofan Liverpool þar sem þeir keyptu betri leikmenn og allt það.

Ronald Koeman, sem komst í hann krappann á þessum tíma í fyrra þegar hann skreytti jólatréð sitt með rauðu skrauti og fékk heldur betur skítkast frá stuðningsmönnum þeirra bláu. Hvernig dirfist hann?! – Úps, smá útúrdúr!

Ronald Koeman var rekinn frá Everton eftir nokkra leiki sem töpuðust og hreint út sagt ansi daprar frammistöður. David Unsworth tók við keflinu tímabundið og náði nú ekki beint mikið betri árangri og nú er nýkominn Sam Allardyce við stýrið. Hann meira að segja setti á sjálfstýringu og nennti ekki með liðinu sínu í útleik í Evrópudeildinni, þar sem Everton er dottið úr leik eftir hreint hörmulega frammistöðu í riðlakeppninni.

Þeir hafa unnið síðustu tvo deildarleiki sína og litið töluvert betur út í þeim en í mörgum öðrum leikjum sínum. Þeir lögðu West Ham 4-0 og Huddersfield 2-0 svo þeir virðast aðeins vera að ranka við sér og vonandi nær Liverpool að slá þá aftur í rot. Ég get vel ímyndað mér að Everton hefði kosið að fá Liverpool ekki akkúratt á þessum tímapunkti.

Það er alls ekki mikill hraði í þessu Everton liði og það er þá einna helst þeir Calvert-Lewin og Aaron Lennon, sem er frábært að sjá aftur á vellinum eftir að hann hefur náð sér aftur á ról eftir að hafa verið kominn á slæman stað vegna andlegra veikinda, sem sjá um að keyra upp púlsinn hjá Everton. Wayne Rooney hefur verið á góðu skriði undanfarið með þrjú mörk og tvær stoðsendingar í þessum síðustu leikjum og Gylfi okkar Sigurðsson er farinn að finna taktinn. Þetta eru einna helst þessir tveir sem þyrfti helst að loka á í sóknarspili Everton að mínu mati, það má annars reikna með að Everton muni liggja djúpt og munu líklega forðast það eins og heitan eldinn að opna pláss fyrir aftan sig.

Það er erfitt að lesa í það hvað Klopp hyggist gera með liðið fyrir leikinn en hann hefur gefið það upp að Henderson muni byrja leikinn þar sem hann var ekki með gegn Spartak. Væntanlega þá fyrir annað hvort Can eða Wijnaldum. Chamberlain og Sturridge byrjuðu á bekknum og gætu komið inn, Matip verður enn frá vegna meiðsla og líklega verður vörnin óbreytt fyrir utan Milner eða Robertson í vinstri bakverði fyrir meiddan Moreno. Mignolet mun koma aftur í markið og stóra spurningin er auðvitað hvort Klopp muni halda áfram að rótera í þessum fjóru sóknarstöðum.

Það er leikur gegn WBA í miðri næstu viku og Bournemouth um næstu helgi svo leikirnir eru að fara að hrúgast upp á næstunni. Það er því ekki ólíklegt að það muni vera töluverð rótering á liðinu á næstunni líkt og hefur verið undanfarið, eina spurning er hvort að hún verði gerð fyrir „stærsta“ leikinn fyrir Arsenal þann 22.desember eða hvort það gerist frekar gegn WBA og Bournemouth.

Persónulega myndi ég vilja sjá liðið alveg ósnert. Lið sem vinnur 7-0 þar sem sóknarlínan fer hamförum og allir komast á blað og holningin á liðinu almennt frábær á ekki að vera breytt en það voru menn hvíldir þegar liðið vann Brighton 5-1 leiknum áður og Stoke 3-0 þar áður svo það sýnir að breiddin og gæðin í hópnum eru mikil. Liðið vann 7-0, það er grannaslagur og momentum-ið er hátt – Klopp og Liverpool á að fara út all guns blazing.

Þetta viljum við sjá!

Mignolet
Gomez – Lovren – Klavan – Milner

Mané – Can – Henderson – Coutinho (c)

Salah – Firmino

Ég smá efast um það en ég ætla að vona að þetta verði þá bara liðið á sunnudaginn. Við hendum fallbyssunum á völlinn og freistum þess að Everton menn fari grautfúlir af velli í leikslok og hendi öllu rauðu jóladóti sem þeir finna í kringum sig. Líklega kemur Chamberlain og Sturridge inn ef einhverjar róteringar yrðu.

Sigur á sunnudaginn og „hagstæð“ úrslit úr grannaslagnum í Manchester gæti komið Liverpool í fína stöðu í þessum Meistaradeildarsætispakka fyrir jólatíðina – þar sem er fullt af leikjum sem liðið ætti að geta safnað all nokkrum stigum úr.

Höldum áfram og fletjum út Everton á sunnudaginn! Ég vil enn fleiri mörk og þetta flot í sóknarleiknum – shit, hvað þetta lið er skemmtilegt og gæti vel náð ansi langt.

Maribor á morgun

Á morgun mætir Liverpool aftur til leiks í Meistardeildinni en þá heimsækir liðið Maribor í Slóveníu í leik sem ætti öllu jafna að teljast skyldu sigur fyrir Liverpool með fullri virðingu fyrir Maribor.

Maribor er frá samnefndri borg sem er næst stærsta borg Slóveníu og búa um 95 þúsund manns þar. Félagið var stofnað árið 1960 og er eitt þriggja liða sem aldrei hefur fallið úr efstu deild þar í landi frá því að slóvenska deildin var stofnuð, áður spilaði liðið í júgóslavísku deildinni. Maribor er sigursælasta lið Slóvena og jafnframt ríkjandi meistarar. Félagið á 14 deildartitla og níu bikartitla þar í landi. Blómaskeið þeirra hefur verið á tveimur tímabilum, fyrra á milli 1990 og 2000 og það seinna frá 2008 og til dagsins í dag.

Þjálfari liðsins er að stýra liðinu í annað skipti en hann var fyrst með þá á árunum 2008-2013 en þá vann hann fjóra deildartitla af fimm mögulegum áður en hann tók við Sturm Graz í Austurríki og stutt stopp í Leeds en hann tók aftur við liðinu fyrir síðustu leiktíð og vann deildina með þeim aftur. Darko Milanic, þjálfarinn sem um ræðir, var slóvenskur og júgóslavískur landsliðsmaður og spilaði á sínum tíma með Sturm Graz í Austurríki og Partizan Belgrade í Serbíu. Milanic er lang sigursælasti þjálfari Maribor en auk fimm deildartitla hefur hann unnið fjóra bikara.

Án þess að þekkja nú alltof mikið til þessa Maribor liðs þá virðist sem að þeir Damjan Bohar, kantmaður, og Jasmine Mesanovic, framherji, séu þeirra atkvæðamestu og hugsanlega hættulegustu leikmenn en það eru nú ekki nöfn í þessu liði sem maður kannast eitthvað við.

Maribor hefur áður mætt enskum liðum í Evrópukeppnum en liðið hefur til að mynda mætt Tottenham, Chelsea og Wigan. Þeir lögðu Wigan 2-1 í Evrópudeildinni en hafa annars ekki riðið feitum hesti gegn ensku liðunum og vonandi verður það sama upp á teningnum á morgun þegar Liverpool heimsækir þá á hinn 12700 sæta Ljudski vrt völl.

Í leikjum þeirra í riðlinum hingað til hafa þeir gert jafntefli við Spartak Moskvu og töpuðu gegn Sevilla en eins og áður segir þá er þetta hreinlega skyldusigur fyrir Liverpool og ætti að öllu eðlilegu að vera öruggur sigur, það er bara staðreynd og allt annað yrði stór og mikil vonbrigði.

Liverpool átti heilt yfir góðan leik gegn Man Utd um helgina en tókst ekki að klára tækifæri sín en nái liðið svipuðum takti og í þeim leik þá mun liðið valta yfir Maribor en líklega mun Klopp gera einhverjar breytingar á liðinu þar sem liðið mætir svo Tottenham um næstu helgi en vonandi ekki of mikið því það er mjög mikilvægt að þessi leikur endi með sigri ætli Liverpool sér áfram í Meistaradeildinni. Sex stig úr viðureignunum gegn Maribor er það eina sem ég teldi ásættanlegt.

Karius kemur líklegast aftur í markið eins og í hinum Meistaradeildarleikjunum. Alexander Arnold gæti kannski komið inn fyrir Gomez og Robertson fyrir Moreno. Klavan gæti hugsanlega komið inn, sérstaklega ef Lovren er enn eitthvað tæpur. Líklega mun Oxlade-Chamberlain byrja leikinn og hugsanlega Sturridge og Milner líka. Það kæmi mér ekki mikið á óvart ef þessir þrír sem byrjuðu fremstir gegn Man Utd muni hvíla enda voru þeir í löngum ferðalögum í landsleikjahléinu. Ég vona að það verði ekki of mikið af breytingum en þær verða líklega einhverjar, Klopp mun freista þess að hafa flesta lykilmenn sína freska fyrir helgina því Tottenham mun pottþétt ekki hvíla þegar þeir heimsækja Real Madrid á morgun.

Karius

Arnold – Matip – Klavan – Robertson

Can – Henderson – Milner

Sturridge – Solanke – AOC

Algjört skot út í loftið en þetta lið ætti að vinna Maribor og annað kvöld þá bara hreinlega vænti ég þess að Liverpool hafi tryggt sér örugg og góð þrjú stig og menn verði klárir í erfiðan leik um næstu helgi.

Liverpool 0-0 Man Utd

Þessi leikur hefði alveg getað verið spilaður eftir handriti þar sem það var í raun ansi, ansi fátt sem kom okkur á óvart þegar Liverpool og Man Utd gerðu markalaust jafntefli í dag. Annað liðið vildi sækja til sigurs en hitt mætti og ætlaði sér fyrst og fremst ekki að tapa. Enn einu sinni bjargaði David De Gea gestunum fyrir horn með því að eiga einhverja sturlaða markvörslu sem hefði í níu af hverjum tíu skiptum endað sem mark.

Frammistaða Liverpool í leiknum var heilt yfir mjög góð og, ekki að það sé eitthvað nýtt af nálinni, vantaði í raun aðeins upp á þessa loka sendingu eða skot sem þurfti til að gera út um leikinn. Matip átti lang, lang besta færi leiksins þegar hann nær skoti af stuttu færi en De Gea nær að reka tánna í boltann og Salah setur hann framhjá í kjölfarið.

Mignolet bjargaði vel þegar Lukaku slapp í gegnum vörn Liverpool í þetta eina skipti í leiknum og þó hann hafi nú aldrei í raun reynt á miðverði Liverpool þá var jákvætt að sjá hvernig hann var að mestu þaggaður niður í leiknum og var fyrir utan þetta eina skot, sem var þó í raun ekki sérlega gott, var hann í öruggum höndum þeirra Matip og Lovren.

Bakverðirnir voru góðir fram á við og til baka í dag og áttu báðir bolta inn í teiginn sem var mikil ógn af og þá sérstaklega Gomez þegar hann lyfti boltanum í teiginn en skot Can af stuttu færi var ekki nægilega gott.

Pressan á miðjunni var mjög góð og stjórnuðu þeir Henderson, Can og Wijnaldum leiknum þaðan. Wijnaldum hefur fengið mikla og réttmæta gagnrýni fyrir það að hafa týnst í leikjum undanfarið en sá mætti nú til leiks í dag og var að mínu mati frábær – sterkur kostur fyrir val á manni leiksins finnst mér.

Salah og Coutinho voru báðir mjög líflegir og þeir gera svo mikið fyrir þetta lið. Það vantaði upp á slúttið hjá Salah og Coutinho náði ekki að koma sér í skotstöður en þeir voru stöðugt í bolta, stöðugt að snúa á leikmenn og opna völlinn. Firmino leiddi línuna og spilaði mjög vel, varðist framarlega, skapaði færi og setti vörn gestana á mikla hreyfingu – það sem ég vildi að það væri marksæknari nía með honum!

Það er í raun ekkert slæmt að segja frá þessum leik annað en að þetta eru klárlega tvö töpuð stig fyrir Liverpool í leik sem hefði átt að vinnast. Án þess að hafa séð og heyrt eitthvað af Klopp eftir leik þá myndi ég giska á að hann verði sáttur með frammistöðuna og telji hana líklega til að vinna flesta leiki – sem er held ég heilt yfir satt.

Annað liðið grætur tvö töpuð stig, hitt fagnar að hafa haldið út með eitt stig.

Næst er Meistaradeildarleikur gegn Maribor í miðri viku og þar á eftir er útileikur gegn Tottenham. Ekki alslæmt í dag en vonandi verður spýtt enn frekar í lófana og næstu leikir kláraðir.

Liðið gegn Man Utd

Klopp hefur valið byrjunarliðið sem mun mæta til leiks í stórleikinn í dag og er það sterkt miðað við fjarveru Mane, Clyne og Lallana.

Mignolet

Gomez – Matip – Lovren – Moreno

Can – Henderson – Winjaldum

Salah – Firmino – Coutinho

Bekkur: Karius, TAA, Klavan, Milner, AOC, Solanke, Sturridge.

Ekkert þar sem kemur á óvart. Stærsta spurningin hefði verið hvort Chamberlain hefði byrjað en mér fannst það ekki líklegt.

Vantar nokkra í lið Man Utd, til að mynda Pogba og Fellaini en lið þeirra engu að síður sterkt og má búast við hörku leik.

Það væri ansi fínt að snúa við genginu með því að klára leikinn á eftir!

Upphitun: Leicester í deildarbikarnum

Á þriðjudaginn mun mjög róterað lið Liverpool heimsækja Leicester í fyrra skiptið í vikunni og þá í Deildarbikarnum og er upphafið af fjórum útileikjum í röð hjá liðinu. Tveir leikir í röð úti gegn Leicester, svo er útileikur í Rússlandi gegn Spartak Moskva og svo verður Rafa Benítez heimsóttur til Newcastle.

Gengi liðsins í síðustu þremur leikjum hefur heilt yfir verið vonbrigði þrátt fyrir að það séu margir jákvæðir punktar sem hægt er að taka úr þeim leikjum, þá sérstaklega þeim gegn Sevilla og Burnley sem enduðu þó báðir með mjög svekkjandi jafnteflum. Það er ljóst að liðið á erfitt prógram fyrir höndum í næstu leikjum svo liðið má varla við því að misstíga sig eitthvað mikið meira á næstunni svo leikmenn endi ekki á að missa móðinn og geti komið tímabilinu almennilega á flug.

Það hefur verið og verður töluverð keyrsla á liðinu og Klopp hefur verið einstaklega duglegur við að hræra í liðinu sínu á milli leika, stundum kannski aðeins of en ég sé ekki að það verði neitt annað upp á teningnum í þessum leik annað en að það verði frekar margar breytingar í þessum leik.

Mignolet er sá sem stendur vaktina í markinu í deildarleikjunum, Karius virðist vera sá sem sér um Meistaradeildina svo við getum líklega gefið okkur það að Danny Ward muni vera sá sem skellir sér í hanskana í bikarkeppnunum og verður í markinu á þriðjudaginn.

Markvarðarstaðan er nokkuð negld en guð má vita hvað Klopp dettur í hug að gera með allar hinar stöðurnar en líklega verður liðið þó nokkuð sterkt heilt yfir. Sadio Mane er auðvitað í banni og mikið hefur mætt á Salah svo mér þykir líklegt að hann taki sér sæti á bekknum í þessum leik og líklega þeir Can og Firmino líka. Það kom mér smá á óvart að það hafi verið gerðar jafn margar breytingar og gerðar voru fyrir Burnley leikinn því ég hefði talið líklegast að t.d. Robertson, Milner og Sturridge spiluðu þennan leik sem gæti þó alveg orðið raunin.

Nú ætla ég að taka algjört gisk út í bláinn hérna og segja að þetta verði einhvern veginn á þennan veg:

Ward

Flanagan – Lovren – Gomez – Robertson

Milner – Wijnaldum – Woodburn

AOC – Sturridge – Solanke

Nú er maður algjörlega að skjóta algjörlega út í bláinn og það er erfitt að lesa í það hvað Klopp hyggst gera í þessum leik þar sem það er mikilvægur deildarleikur og stór leikur í Meistaradeild allt á einhverjum sjö eða átta dögum og inn í því er langt ferðalag til Rússlands. Það er því ómögulegt að spá fyrir um það hvar áhersla Klopp með notkun lykilmanna mun vera í þeim leikjum.

Eflaust verður þetta leikurinn til að „fórna“ í þessari leikjahrynu en ég efa að leikurinn verði lagður upp sem slíkur og liðið verður líklega sterkt þrátt fyrir breytingar en helstu lykilmenn verða hvíldir fyrir hina leikina en vonandi verður liðið nógu sterkt og gott til að koma sér áfram í næstu umferð með því að sigra Leicester.

Ég held að Leicester noti svona að mestu sitt öflugasta lið og eru þeir oftar en ekki frekar erfiðir viðureignar með þéttan varnarleik, beinskeyttar skyndisóknir og nokkra hraða menn frammi sem geta gert liðum lífið leitt. Liverpool hefur ekki gengið sérlega vel úti gegn Leicester á síðustu tveimur leiktíðum og því ákveðin prófraun að mæta liðinu nú tvisvar í röð með nokkura daga millibili.

Þetta verður vonandi góður leikur og Liverpool nær að halda svipuðum dampi og undanfarið en ná að fá fram þau úrslit sem hefur skort.