Allar færslur eftir Ólafur Haukur

Maribor á morgun

Á morgun mætir Liverpool aftur til leiks í Meistardeildinni en þá heimsækir liðið Maribor í Slóveníu í leik sem ætti öllu jafna að teljast skyldu sigur fyrir Liverpool með fullri virðingu fyrir Maribor.

Maribor er frá samnefndri borg sem er næst stærsta borg Slóveníu og búa um 95 þúsund manns þar. Félagið var stofnað árið 1960 og er eitt þriggja liða sem aldrei hefur fallið úr efstu deild þar í landi frá því að slóvenska deildin var stofnuð, áður spilaði liðið í júgóslavísku deildinni. Maribor er sigursælasta lið Slóvena og jafnframt ríkjandi meistarar. Félagið á 14 deildartitla og níu bikartitla þar í landi. Blómaskeið þeirra hefur verið á tveimur tímabilum, fyrra á milli 1990 og 2000 og það seinna frá 2008 og til dagsins í dag.

Þjálfari liðsins er að stýra liðinu í annað skipti en hann var fyrst með þá á árunum 2008-2013 en þá vann hann fjóra deildartitla af fimm mögulegum áður en hann tók við Sturm Graz í Austurríki og stutt stopp í Leeds en hann tók aftur við liðinu fyrir síðustu leiktíð og vann deildina með þeim aftur. Darko Milanic, þjálfarinn sem um ræðir, var slóvenskur og júgóslavískur landsliðsmaður og spilaði á sínum tíma með Sturm Graz í Austurríki og Partizan Belgrade í Serbíu. Milanic er lang sigursælasti þjálfari Maribor en auk fimm deildartitla hefur hann unnið fjóra bikara.

Án þess að þekkja nú alltof mikið til þessa Maribor liðs þá virðist sem að þeir Damjan Bohar, kantmaður, og Jasmine Mesanovic, framherji, séu þeirra atkvæðamestu og hugsanlega hættulegustu leikmenn en það eru nú ekki nöfn í þessu liði sem maður kannast eitthvað við.

Maribor hefur áður mætt enskum liðum í Evrópukeppnum en liðið hefur til að mynda mætt Tottenham, Chelsea og Wigan. Þeir lögðu Wigan 2-1 í Evrópudeildinni en hafa annars ekki riðið feitum hesti gegn ensku liðunum og vonandi verður það sama upp á teningnum á morgun þegar Liverpool heimsækir þá á hinn 12700 sæta Ljudski vrt völl.

Í leikjum þeirra í riðlinum hingað til hafa þeir gert jafntefli við Spartak Moskvu og töpuðu gegn Sevilla en eins og áður segir þá er þetta hreinlega skyldusigur fyrir Liverpool og ætti að öllu eðlilegu að vera öruggur sigur, það er bara staðreynd og allt annað yrði stór og mikil vonbrigði.

Liverpool átti heilt yfir góðan leik gegn Man Utd um helgina en tókst ekki að klára tækifæri sín en nái liðið svipuðum takti og í þeim leik þá mun liðið valta yfir Maribor en líklega mun Klopp gera einhverjar breytingar á liðinu þar sem liðið mætir svo Tottenham um næstu helgi en vonandi ekki of mikið því það er mjög mikilvægt að þessi leikur endi með sigri ætli Liverpool sér áfram í Meistaradeildinni. Sex stig úr viðureignunum gegn Maribor er það eina sem ég teldi ásættanlegt.

Karius kemur líklegast aftur í markið eins og í hinum Meistaradeildarleikjunum. Alexander Arnold gæti kannski komið inn fyrir Gomez og Robertson fyrir Moreno. Klavan gæti hugsanlega komið inn, sérstaklega ef Lovren er enn eitthvað tæpur. Líklega mun Oxlade-Chamberlain byrja leikinn og hugsanlega Sturridge og Milner líka. Það kæmi mér ekki mikið á óvart ef þessir þrír sem byrjuðu fremstir gegn Man Utd muni hvíla enda voru þeir í löngum ferðalögum í landsleikjahléinu. Ég vona að það verði ekki of mikið af breytingum en þær verða líklega einhverjar, Klopp mun freista þess að hafa flesta lykilmenn sína freska fyrir helgina því Tottenham mun pottþétt ekki hvíla þegar þeir heimsækja Real Madrid á morgun.

Karius

Arnold – Matip – Klavan – Robertson

Can – Henderson – Milner

Sturridge – Solanke – AOC

Algjört skot út í loftið en þetta lið ætti að vinna Maribor og annað kvöld þá bara hreinlega vænti ég þess að Liverpool hafi tryggt sér örugg og góð þrjú stig og menn verði klárir í erfiðan leik um næstu helgi.

Liverpool 0-0 Man Utd

Þessi leikur hefði alveg getað verið spilaður eftir handriti þar sem það var í raun ansi, ansi fátt sem kom okkur á óvart þegar Liverpool og Man Utd gerðu markalaust jafntefli í dag. Annað liðið vildi sækja til sigurs en hitt mætti og ætlaði sér fyrst og fremst ekki að tapa. Enn einu sinni bjargaði David De Gea gestunum fyrir horn með því að eiga einhverja sturlaða markvörslu sem hefði í níu af hverjum tíu skiptum endað sem mark.

Frammistaða Liverpool í leiknum var heilt yfir mjög góð og, ekki að það sé eitthvað nýtt af nálinni, vantaði í raun aðeins upp á þessa loka sendingu eða skot sem þurfti til að gera út um leikinn. Matip átti lang, lang besta færi leiksins þegar hann nær skoti af stuttu færi en De Gea nær að reka tánna í boltann og Salah setur hann framhjá í kjölfarið.

Mignolet bjargaði vel þegar Lukaku slapp í gegnum vörn Liverpool í þetta eina skipti í leiknum og þó hann hafi nú aldrei í raun reynt á miðverði Liverpool þá var jákvætt að sjá hvernig hann var að mestu þaggaður niður í leiknum og var fyrir utan þetta eina skot, sem var þó í raun ekki sérlega gott, var hann í öruggum höndum þeirra Matip og Lovren.

Bakverðirnir voru góðir fram á við og til baka í dag og áttu báðir bolta inn í teiginn sem var mikil ógn af og þá sérstaklega Gomez þegar hann lyfti boltanum í teiginn en skot Can af stuttu færi var ekki nægilega gott.

Pressan á miðjunni var mjög góð og stjórnuðu þeir Henderson, Can og Wijnaldum leiknum þaðan. Wijnaldum hefur fengið mikla og réttmæta gagnrýni fyrir það að hafa týnst í leikjum undanfarið en sá mætti nú til leiks í dag og var að mínu mati frábær – sterkur kostur fyrir val á manni leiksins finnst mér.

Salah og Coutinho voru báðir mjög líflegir og þeir gera svo mikið fyrir þetta lið. Það vantaði upp á slúttið hjá Salah og Coutinho náði ekki að koma sér í skotstöður en þeir voru stöðugt í bolta, stöðugt að snúa á leikmenn og opna völlinn. Firmino leiddi línuna og spilaði mjög vel, varðist framarlega, skapaði færi og setti vörn gestana á mikla hreyfingu – það sem ég vildi að það væri marksæknari nía með honum!

Það er í raun ekkert slæmt að segja frá þessum leik annað en að þetta eru klárlega tvö töpuð stig fyrir Liverpool í leik sem hefði átt að vinnast. Án þess að hafa séð og heyrt eitthvað af Klopp eftir leik þá myndi ég giska á að hann verði sáttur með frammistöðuna og telji hana líklega til að vinna flesta leiki – sem er held ég heilt yfir satt.

Annað liðið grætur tvö töpuð stig, hitt fagnar að hafa haldið út með eitt stig.

Næst er Meistaradeildarleikur gegn Maribor í miðri viku og þar á eftir er útileikur gegn Tottenham. Ekki alslæmt í dag en vonandi verður spýtt enn frekar í lófana og næstu leikir kláraðir.

Liðið gegn Man Utd

Klopp hefur valið byrjunarliðið sem mun mæta til leiks í stórleikinn í dag og er það sterkt miðað við fjarveru Mane, Clyne og Lallana.

Mignolet

Gomez – Matip – Lovren – Moreno

Can – Henderson – Winjaldum

Salah – Firmino – Coutinho

Bekkur: Karius, TAA, Klavan, Milner, AOC, Solanke, Sturridge.

Ekkert þar sem kemur á óvart. Stærsta spurningin hefði verið hvort Chamberlain hefði byrjað en mér fannst það ekki líklegt.

Vantar nokkra í lið Man Utd, til að mynda Pogba og Fellaini en lið þeirra engu að síður sterkt og má búast við hörku leik.

Það væri ansi fínt að snúa við genginu með því að klára leikinn á eftir!

Upphitun: Leicester í deildarbikarnum

Á þriðjudaginn mun mjög róterað lið Liverpool heimsækja Leicester í fyrra skiptið í vikunni og þá í Deildarbikarnum og er upphafið af fjórum útileikjum í röð hjá liðinu. Tveir leikir í röð úti gegn Leicester, svo er útileikur í Rússlandi gegn Spartak Moskva og svo verður Rafa Benítez heimsóttur til Newcastle.

Gengi liðsins í síðustu þremur leikjum hefur heilt yfir verið vonbrigði þrátt fyrir að það séu margir jákvæðir punktar sem hægt er að taka úr þeim leikjum, þá sérstaklega þeim gegn Sevilla og Burnley sem enduðu þó báðir með mjög svekkjandi jafnteflum. Það er ljóst að liðið á erfitt prógram fyrir höndum í næstu leikjum svo liðið má varla við því að misstíga sig eitthvað mikið meira á næstunni svo leikmenn endi ekki á að missa móðinn og geti komið tímabilinu almennilega á flug.

Það hefur verið og verður töluverð keyrsla á liðinu og Klopp hefur verið einstaklega duglegur við að hræra í liðinu sínu á milli leika, stundum kannski aðeins of en ég sé ekki að það verði neitt annað upp á teningnum í þessum leik annað en að það verði frekar margar breytingar í þessum leik.

Mignolet er sá sem stendur vaktina í markinu í deildarleikjunum, Karius virðist vera sá sem sér um Meistaradeildina svo við getum líklega gefið okkur það að Danny Ward muni vera sá sem skellir sér í hanskana í bikarkeppnunum og verður í markinu á þriðjudaginn.

Markvarðarstaðan er nokkuð negld en guð má vita hvað Klopp dettur í hug að gera með allar hinar stöðurnar en líklega verður liðið þó nokkuð sterkt heilt yfir. Sadio Mane er auðvitað í banni og mikið hefur mætt á Salah svo mér þykir líklegt að hann taki sér sæti á bekknum í þessum leik og líklega þeir Can og Firmino líka. Það kom mér smá á óvart að það hafi verið gerðar jafn margar breytingar og gerðar voru fyrir Burnley leikinn því ég hefði talið líklegast að t.d. Robertson, Milner og Sturridge spiluðu þennan leik sem gæti þó alveg orðið raunin.

Nú ætla ég að taka algjört gisk út í bláinn hérna og segja að þetta verði einhvern veginn á þennan veg:

Ward

Flanagan – Lovren – Gomez – Robertson

Milner – Wijnaldum – Woodburn

AOC – Sturridge – Solanke

Nú er maður algjörlega að skjóta algjörlega út í bláinn og það er erfitt að lesa í það hvað Klopp hyggst gera í þessum leik þar sem það er mikilvægur deildarleikur og stór leikur í Meistaradeild allt á einhverjum sjö eða átta dögum og inn í því er langt ferðalag til Rússlands. Það er því ómögulegt að spá fyrir um það hvar áhersla Klopp með notkun lykilmanna mun vera í þeim leikjum.

Eflaust verður þetta leikurinn til að „fórna“ í þessari leikjahrynu en ég efa að leikurinn verði lagður upp sem slíkur og liðið verður líklega sterkt þrátt fyrir breytingar en helstu lykilmenn verða hvíldir fyrir hina leikina en vonandi verður liðið nógu sterkt og gott til að koma sér áfram í næstu umferð með því að sigra Leicester.

Ég held að Leicester noti svona að mestu sitt öflugasta lið og eru þeir oftar en ekki frekar erfiðir viðureignar með þéttan varnarleik, beinskeyttar skyndisóknir og nokkra hraða menn frammi sem geta gert liðum lífið leitt. Liverpool hefur ekki gengið sérlega vel úti gegn Leicester á síðustu tveimur leiktíðum og því ákveðin prófraun að mæta liðinu nú tvisvar í röð með nokkura daga millibili.

Þetta verður vonandi góður leikur og Liverpool nær að halda svipuðum dampi og undanfarið en ná að fá fram þau úrslit sem hefur skort.

Langþráð Meistaradeildarkvöld á Anfield!

Gamla góða klisjan um „úrslitaleik“, mikilvægasta leik tímabilsins og allt það er eitthvað sem við heyrum – og jafnvel notum sjálf – mjög mikið. Sjónvarpsstöðvar, spekingar og aðdáendur eiga það til að over hype-a leiki til að magna upp stemminguna í kringum þessa leiki.

Á miðvikudaginn kemur Hoffenheim á Anfield í seinni leik liðanna í forkeppni Meistaradeildarinnar í mikilvægasta leik tímabilsins, hreinum úrslitaleik um það hvort að þessi viðureign sé eini smjörþefurinn af langþráðri þátttöku okkar í Meistaradeildinni þetta árið.

Tvö skipti á einhverjum átta leiktíðum sem liðið hefur tekið þátt í keppninni og í bæði skiptin hefur liðið valdið vonbrigðum og þá sérstaklega nú síðast þar sem liðið átti mjög slæman sumarglugga og hreinlega skeit upp á bak í riðli sem liðið átti að komast upp úr. Nú fær félagið tækifæri til að bæta fyrir síðasta skiptið og gera betur, sumarglugginn gekk ekki vel til þessa en liðið er í góðri stöðu eftir seinni leikinn.

2-1 sigur á útivelli er fínt veganesti inn í seinni leikinn en auðvitað er heill hellingur eftir og ansi margt getur farið úrskeiðis á 90 mínútum í fótbolta svo menn þurfa augljóslega að vera fókuseraðir í leiknum enda mikið í húfi fyrir félagið. Aðdráttarafl, staða, heiður og ansi margir peningar eru í húfi – ég ætla að teygja mig aðeins hérna en hugsanlega gæti þessi leikur haft eitthvað að segja til um hvort að félagið muni kaupa fleiri leikmenn í sumar og hugsanlega eitthvað með gæði þeirra að gera.

Fyrri leikurinn var afar opinn og má vel búast við því sama í þessum leik. Hoffenheim liðið getur sótt, vill sækja og þarf að sækja enda þurfa þeir tvö útivallarmörk til að eiga séns í þessari viðureign sem gæti nú reynst Liverpool nokkuð vel þar sem hugsanlega gæti skapast aftur töluvert pláss fyrir aftan varnarlínu þeirra sem þeir Salah og Mane gætu nýtt sér vel. Líkt og þeir gerðu í síðasta leik, þá sérstaklega Salah sem hefði nú alveg klárlega átt að gera betur og koma sér á blað.

Jurgen Klopp hvíldi töluvert af leikmönnum í síðasta leik en þeir Trent Alexander Arnold, Dejan Lovren, Alberto Moreno, Emre Can og Mohamed Salah fengu allir pásu þegar liðið lagði Crystal Palace í fínum leik af hálfu Liverpool. Ég reikna fastlega með að flest allir þessir leikmenn muni snúa aftur í byrjunarliðið í þessum leik – helsta spurningin að mínu mati yrði líklega hvort Moreno eða Andy Robertson myndu byrja í vinstri bakverðinum. Moreno byrjaði fyrstu tvo leiki leiktíðarinnar en Robertson byrjaði gegn Crystal Palace og var feykilega frískur og stóð mikil ógn af honum, það gæti því vel verið að hann fengi að halda sinni stöðu.

Þó hann hafi nú ekki gert, að mínu mati, sérlega mikið í þeim leik en þá snéri Daniel Sturridge aftur eftir að hafa meiðst við að skora stórglæsilegt mark í æfingarleiknum gegn Bayern Munchen. Hversu svakalega er það týpískt Sturridge og súmmerar feril hans hjá Liverpool ansi ágætlega upp. Hann kemur líklega aftur inn í hópinn og þá á bekkinn ásamt Solanke sem virðist vera kominn fyrir ofan Origi í fæðukeðjunni og átti stóran mark í sigurmarki Sadio Mane gegn Crystal Palace.

Það verða engir Coutinho, Lallana eða Clyne í leiknum eins og við er að búast en hingað til höfum við ekki fengið neinar slæmar fréttir af meiðslum innan hópsins svo við verðum bara að krossleggja fingur og vonast eftir því að við fáum engar slíkar á næstu dögum.

Hoffenheim róteruðu nú aðeins í sínu liði líka um liðna helgi í 1-0 sigri á Werder Bremen svo þeir eru líka klárlega með mest allan sinn fókus á þessum leik, enda eins og segir áðan hreinn úrslitaleikur um framhald þessara félaga í keppninni og ansi mikið af peningum og öðrum þáttum í húfi fyrir bæði liðin.

Miðja okkar manna hefur ekki beint verið sannfærandi hingað til og vantar klárlega einhvern eins og Coutinho eða Lallana inn í hana til að gefa henni betra jafnvægi, hraða og hjálpa liðinu að snúa fyrr vörn í sókn. Þar sem Can hvíldi í síðasta leik er nokkuð líklegt að hann komi aftur inn í liðið en hinar tvær stöðurnar eru kannski aðeins meira spurningarmerki enda hvorki Henderson né Wijnaldum tekist að finna taktinn. Það myndi nú ekki koma mér sérlega á óvart ef Milner héldi sömuleiðis stöðu sinni í liðinu frá því um síðustu helgi en hann átti frábæra innkomu í fyrri leiknum og var mjög mikilvægur partur í spili Liverpool í gegnum miðjuna á móti Palace – töluvert meira en til dæmis Wijnaldum sem átti aðeins 23 af um það bil 770 sendingum Liverpool, sem gerir aðeins um það bil 3% sem er nú afar lítið fyrir miðjumann í liði sem var töluvert meira með boltann. Það kæmi mér því ekki á óvart ef hann myndi víkja fyrir Can.

Klavan stóð sig vel gegn Crystal Palace en heilt yfir var nú ekki mikið reynt á varnarlínu liðsins í þeim leik svo ég reikna nú fastlega með að hann og Joe Gomez fari aftur á bekinn fyrir þá Alexander Arnold og Lovren. Framlínan ætti nú að vera sjálfvalin með þá Mane, Salah og Firmino.

Það verður frábært að fá aftur að heyra þemalag Meistaradeildarinnar heyrast aftur við flóðljósin á Anfield og ég vona svo fjári mikið að þetta verði fyrsta af ansi mörgum í vetur. Við erum með hálfan fótinn inn í keppninni og þurfum að klára þennan leik, þetta er allt í okkar eigin höndum og tek ég bara ekki neitt annað í mál en að við verðum í pottinum á föstudaginn þegar dregið verður í riðlakeppnina. Það er allt undir á miðvikudagskvöld.

Koma svo!