Allar færslur eftir Ólafur Haukur

Watford 3-3 Liverpool

1-0 – Okaka 8.mín
1-1 – Mane 29.mín
2-1 – Okaka 32.mín
2-2 – Firmino 55.mín
2-3 – Salah 57.mín
3-3 – Britos 94.mín

Bestu leikmenn Liverpool
Eins og svo oft áður sýnir Liverpool hversu mikið liðið líkist Jekyll og Hyde. Ákveðnir þættir í leik liðsins eru nær gallalausir og í algjörum topp klassa en svo er auðvitað annað sem er algjört skrímsli. Hreinn og beinn viðbjóður sem enginn vill sjá.

Fram á við er Liverpool enn gífurlega sterkt. Liðið er frábærlega spilandi, fljótir leikmenn og margir sem geta skorað úr alls konar aðstæðum. Það er ekkert að því og gott að byrja leiktíðina á að skora þrjú mörk og að þrír helstu sóknarmenn liðsins komist á blað.

Firmino heldur áfram að gera sitt í framlínunni, hann er og verður aldrei „pjúra nía“ en hann er stór þáttur í skapandi og léttleikandi sóknarbolta liðsins. Hann skoraði úr mjög öruggri vítaspyrnu og er nú að því virðist aðal vítaskytta liðsins og er nú búinn að skora fjórar mjög öruggar vítaspyrnur frá því í sumar, það er mjög gott. Einnig lagði hann upp mark Salah með góðri vippu, hvort sem það átti að vera skot eða sending veit ég ekki en það allavega virkaði.

Salah stimplaði sig heldur betur inn og skoraði gott mark ásamt því að fiska vítaspyrnu. Hann komst sömuleiðis í nokkrar ákjósanlegar stöður en hefði alveg mátt skjóta betur í einhverjum þeirra. Hann var mjög flottur og hlakka ég mikið til að sjá hann meira í vetur.

Mane minnti á mikilvægi sitt fyrir liðið og var mjög líflegur og skoraði frábært mark. Þessir þrír sem helstu sóknarmenn liðsins í vetur er ógeðslega spennandi!

Alexander Arnold þótti mér líflegur, sérstaklega fram á við og Moreno líka. Can óx í leikinn og var líflegur í restina.

Vondur dagur
Allt annað en fremsti partur sóknarleiksins.

Vörnin í föstu leikatriðunum var auðvitað algjört djók eins og fyrri daginn og það er klárt mál að enginn treystir sjálfum sér né öðrum í þessum aðstæðum. Það er alveg glatað að horfa upp á þetta leik eftir leik.

Mignolet var slakur, Lovren og Matip hefðu mátt gera betur í ákveðnum atriðum og skiptingar Klopp voru nú ekki alveg til hins betra í dag. Miðvörður Watford meiðist í restina og þarf að spila áfram en þá er tekið út Firmino og Salah sem væru líklega þeir tveir síðustu sem ég myndi nenna að eltast við ef ég væri eitthvað tæpur. Gomez átti ekki góða innkomu fyrir Alexander Arnold.

Miðjan var ekki nógu góð í dag og klárlega vantar ákveðinn faktor í hana þegar Coutinho og Lallana eru ekki með. Wijnaldum, Henderson og Can eru allir mjög góðir en enginn þeirra hefur sömu eiginleika til að snúa og opna leikinn eins og hinir og það sást vel í dag, sérstaklega í fyrra hálfleik.

Vörnin léleg. Sóknin mjög góð þó hún eigi eflaust talsvert inni.

Umræðan eftir leik
Þetta er að mestu sama vörn og var til staðar þegar Rodgers var rekinn. Það er að klárast annar sumargluggi Klopp og það að Mignolet, Clyne, Lovren og Moreno séu líklegir sem fjórir af fimm byrjunarliðsmönnum varnarinnar eftir allan þennan tíma er bara ekki ásættanlegt. Þar á eftir kemur Klavan og með fullri virðingu fyrir honum þá er hann bara ekki nægilega góður og Gomez sem hefur misst af tveimur leiktíðum vegna meiðsla á meðan að Sakho situr á aerobic hjóli og setur inn motivational quotes á Snapchat.

Vörnin er og verður vandamál í vetur verði þetta ekki bætt. Vandamálið er ekki bara það að liðinu vanti einn mann inn og allt er lagað sí svona. Vandamálið er skortur á gæðum, breidd og trausti í vörninni. Við verðum að klára Van Dijk sem gæti nú alveg klárlega hjálpað helling til og elsku Klopp, það var hálf kjánalegt þegar þú hélst að það væri ekki hægt að nefna fimm varnarmenn sem væru betri en þeir sem við eigum nú þegar. Það er heill hellingur af þeim og ef það er ekki hægt að klára Van Dijk þá þarf bara að klára einhvern annan í hans stað.

Það vantar líka klárlega annan á miðjuna sem getur snúið og opnað leiki hvort sem Coutinho verður áfram eða fer. Það er mjög mikilvægt að þessir tveir hlutir verði lagaðir fyrir september, annars gæti tímabilið reynt ansi mikið á þolinmæði okkar stuðningsmanna.

Næstu verkefni
Fyrri leikurinn gegn Hoffenheim í umspili Meistaradeildarinnar er á þriðjudaginn og Crystal Palace um helgina eftir. Liverpool þarf að ná góðum úrslitum í báðum leikjum og rétta úr kútnum.

Já og styrkja leikmannahópinn fyrir komandi leiktíð!

Liðið gegn Watford

Þá er loksins komið að því! Enski boltinn er að byrja að rúlla af stað á ný og okkar menn heimsækja Watford í öðrum leik umferðarinnar. Mikið hefur gengið á hjá okkar mönnum síðastliðinn sólarhring eins og hefur líklega ekki farið framhjá mörgum. Coutinho, þótt ótrúlegt megi virðast er ekki með í dag vegna meiðsla í baki – hvort þau séu alvöru eða ekki er erfitt að segja til um.

Annars er liðið svona að mestu sjálfvalið. Matip og Lovren byrja í miðvörðunum, Mignolet í markinu og Salah, Firmino og Mane frammi. Miðjan nokkuð sjálfvalin og Trent Alexander Arnold byrjar í bakverði ásamt Moreno, sem stóð sig frábærlega í sumar og virðist geta fengið endurnýjun lífdaga hjá Liverpool.

Mignolet

TAA – Matip – Lovren – Moreno

Can – Henderson – Wijnaldum

Salah – Firmino – Mane

Bekkur: Karius, Klavan, Milner, Gomez, Solanke, Origi, Grujic

Sterkasta byrjunarliðið sem við getum að mínu mati stillt upp eins og staðan er í dag og sæmilegur bekkur, klárt mál að það vantar samt aðeins meiri breidd í þetta lið en meira um það seinna.

Koma svo!

Always look on the bright side of… eða eitthvað þannig!

Jæja smá samantekt af nokkrum marktækum atburðum sem hafa verið að frétta frá Liverpool undanfarið.

Byrjum á sögunum endalausu af Naby Keita og Virgil Van Dijk. Það heyrist ekki mikið af Van Dijk þessa dagana og allur fókus Liverpool virðist vera á Naby Keita þessa stundina. Liverpool á að hafa lagt fram tvö tilboð í leikmanninn á síðustu dögum bæði eru mjög há og það mesta sem boðið hefur verið í leikmann í þýsku deildinni og lang stærsta boð sem Liverpool hefur teiknað upp. Fyrra boðið var upp á einhverjar 57 milljónir punda og það seinna einhverjar 65 milljónir punda. Nú er félagið víst að skoða næsta leik sinn og hvort það undirbúi nýtt tilboð sem fari yfir 70 milljón punda múrinn.

Klopp hefur virkað rólegur yfir þessu öllu saman en gaf þó í skyn á síðustu dögum að félögin, til að mynda Red Bull Leipzig, þurfa ekki að selja og það geri hlutina erfiða. Liverpool gæti því alveg þurft að skoða aðra valkosti. Sama staða virðist vera á Van Dijk þó ekki virðist sem tilboð hafi verið lögð fram til Southampton til að fá hann.

Ég hef alltaf sagt og trúi því fullkomlega að Liverpool geti styrkt sig gífurlega vel í sumar og þó þeir virki fullkomnir í liðið þá eru fleiri leikmenn í heiminum sem gætu styrkt liðið en bara Keita og Van Dijk svo það er fullkomlega óásættanlegt ef liðið bætir ekki fleiri góðum leikmönnum í lið sitt í sumar.

Fyrst ég held áfram í svona upplífgandi og skemmtilegum fréttum. Vissuði að Barcelona var að bjóða einhverjar 75 milljónir punda í Phil Coutinho? Liverpool neitaði því að sjálfsögðu enda bara sármóðgandi og alveg ömurlega glatað tilboð. Hins vegar, er þetta ógnvekjandi hátt opnunartilboð frá Barcelona og ef við erum alveg hreinskilin þá er þetta líklega upphafið af söluferli Coutinho frá Liverpool. Það gerist líklega ekki í sumar en það mun gerast, það er erfitt að trúa öðru.

Það sem Barcelona og Real Madrid vilja, það munu þau fá. Það er afar sjaldan sem félögum tekst að standa á sínu og segja þeim að taka þessi tilboð sín og troða þeim upp í… já, þið fattið hvert ég er að fara. Fjandinn hafi það samt, ef Southampton og Red Bull Leipzig geta lokað á að sínir menn fari á háar upphæðir til liða eins og AC Milan, Arsenal eða Liverpool þá tek ég nú ekki neitt annað í mál en að Liverpool eigi að geta staðið fast á sínu. Engin klásúla og (vonandi) engin þörf á fjármunum inn í félagið svo Coutinho eða hvaða lykilmaður liðsins það nú er, á ekki að fara á einhverju tombóluverði.

Endum þetta á skemmtilegu nótunum. Andy Robertson verður líklega tilkynntur sem leikmaður Liverpool í dag eða á næstu dögum, hann fór í læknisskoðun í Liverpool í gær og eru formsatriðin líklega að klárast. Hann kemur frá Hull City á einhverjar átta milljónir punda sem gætu hækkað í tíu milljónir en Kevin Stewart er á leið til Hull á móti og gæti hans kaupverð endað í einhverjum átta milljónum punda, svo næstum sléttur skiptidíll þarna. Hann er flottur ungur vinstri bakvörður sem verður forvitnilegt að fylgjast með þó hann sé klárlega ekki stærsta nafnið í bransanum. Hér er mjög góð lesning um leikmanninn.

Hann er afar óheppinn með tímasetningu ef hann verður opinberaður þegar svona jákvæðar og skemmtilegar fréttir berast af tveimur stærstu skotmörkum félagsins og stóru tilboði í besta leikmann liðsins!

Mohamed Salah til Liverpool – staðfest!

Liverpool hefur staðfest kaup sín á Mohamed Salah frá Roma á rúmlega 34 milljónir punda en kaupverð hans gæti hækkað upp í einhverjar 40 milljónir punda nái hann og Liverpool einhverjum ákveðnum árangri. Búist var við að kaupverðið myndi gera hann að dýrasta leikmanni í sögu félagsins en svo er víst ekki og á Andy Carroll á enn þann titil mörgum árum seinna, þrátt fyrir að Liverpool hafi keypt leikmenn eins og Salah, Firmino, Mane og Benteke sem allir eru rétt fyrir neðan það verð. Innskot: Roma segir kaupverðið vera 36 milljónir punda og aðrar sjö milljónir muni geta bæst við svo samkvæmt því er hann dýrasti leikmaðurinn í sögu Liverpool en félagið hefur að minnsta kosti ekki staðfest það hingað til.

Við höfum heyrt talað um áhuga Liverpool á Salah frá því í janúar 2014 þegar Liverpool reyndi að kaupa hann frá Basel en einhverjir hnökrar voru hjá Liverpool í viðræðunum við Basel og Chelsea skaust inn á milli og nældi sér í kappann.

Ferill hans hjá Chelsea var ekki dans á rósum en hann fékk lítin spilatíma og tók þátt í mjög fáum leikjum fyrir þá. Hann tók þátt í 19 leikjum með Chelsea í öllum keppnum og byrjaði inn á í aðeins sex þeirra.

Líkt og flest allir ungir leikmenn sem eru á lager hjá Chelsea þá endaði hann á að fara á lán til annars liðs og endaði hjá Fiorentina á Ítalíu. Dvöl hans hjá Fiorentina var nákvæmlega það sem hann þurfti eftir erfitt fyrsta tímabil hjá Chelsea og var lánaður í janúar 2015 og spilaði hann 26 leiki í öllum keppnum fyrir þá fjólubláu og skoraði níu mörk. Orðspor hans var aftur farið að rísa og þótti dvöl hans hjá Fiorentina vel heppnuð.

Sumarið eftir fékk Roma hann lánaðann og hélt hann áfram að gera það gott á Ítalíu. Hann varð strax í mjög stóru hlutverki hjá Roma og spilaði hann 42 leiki það ár í öllum keppnum, byrjaði þá flesta og skoraði fimmtán mörk og níu stoðsendingar. Það var nóg til þess að Roma ákvað að festa kaup á kappanum og greiddu Chelsea fimmtán milljónir evra fyrir hann síðasta sumar.

Á síðustu leiktíð hélt hann ekki uppteknum hætti heldur gaf hann aðeins í. Hann óx mikið sem leikmaður og átti frábært tímabil hjá Roma. Hann skoraði 19 mörk og lagði upp 15 í 41 leik í öllum keppnum sem er frábært fyrir vængframherja.

Nokkrir áhugaverðir punktar frá síðustu leiktíð:
Salah created 22 chances for Džeko in 2016-17 of which 7 became assists–only Dembélé to Aubameyang was more lucrative with 10. (@StatsBomb)

Mohamed Salah has created more chances from inside the penalty area (51) in Serie A since 2015/16 than any other player.

Salah er mjög skapandi leikmaður og eins og sést þarna þá kemst hann mikið inn á teiginn og veldur gjarnan miklum ursla þegar hann er þar. Hjá Roma og Fiorentina hefur hann mest megnis spilað á hægri vængnum þó hann leiti nú stundum yfir á hinn vænginn og á miðsvæðið.

Hann sækir á vinstri fót sinn og er það eitthvað sem mótherjar hans eru mjög áræðnir í að stöðva þar sem hann nær góðum og kraft miklum skotum með vinstri fæti sínum og er með gott auga fyrir marki.

Einkennismerki Salah er samt án nokkurs vafa hraði hans. Ef þið hafið ekki séð til hans og ykkur finnst Sadio Mane vera hraður þá skulið þið bara bíða og sjá!

Leikur Salah hefur vaxið mikið á síðustu árum en hann hefur altlaf haft hraðann og tæknina til valda ursla í sókn en hann hefur þurft að bæta alhliða leik sinn og varnarskyldu sína á síðustu árum og hefur gert það vel hjá Roma undir stjórn Luciano Spalletti. Þeir unnu saman að því bæta tímasetningar hans, hvar hann á að skila sér þegar liðið tapar boltanum og að hann þurfi ekki að gera allt á fullum hraða heldur geti hann leyft sér að líta upp og meta stöðuna oftar. Þetta kom í hans leik og átti hann frábært tímabil sem einn skæðasti leikmaður ítölsku deildarinnar.

Liverpool hefur fylgst með þessum leikmanni lengi og var talað um að hann hafi verið einn þeirra leikmanna sem Liverpool horfði til síðasta sumar þegar bæta átti við kantmanni og nú loksins er leikmaðurinn á leið til Liverpool.

Hann er svakalega spennandi sem virðist henta leik Liverpool fullkomlega. Hann kemur til með að auka enn fremur við hraðann í sóknarleik liðsins og er mjög áreiðanlegur markaskorari af kantinum og skapandi. Hann er áræðinn, fórnsamur og duglegur svo það er erfitt að vera ekki virkilega spenntur fyrir þessum kaupum. Nú er Liverpool ekki eins „hátt“ hraðanum í Mane og getur nú sótt hratt á báðum hliðum vallarins.

Eina stóra spurningin varðandi þessi kaup eru hvar hann og Sadio Mane munu spila. Mane var í fyrra á hægri vængnum og stóð sig frábærlega þar en þar sem þetta er besta staðan fyrir Salah og vinstri fót hans þá gæti þótt líklegt að hann færi sig yfir á vinstri og Liverpool færi sig í aðeins meira þriggja „framherja“ kerfi og Coutinho færist ögn neðar á völlinn.

Það að Liverpool skuli fá svona spennandi leikmann á besta aldri eftir tvær mjög góðar leiktíðir hjá sterku liði í sterkri deild svona ódýrt er í raun nokkuð ótrúlegt. 34-40 milljónir punda er ekkert fyrir svona leikmann eins og markaðurinn er í dag. Jú, hann hefði getað fengist ódýrari fyrir nokkrum árum – líkt og t.d. Sadio Mane áður en hann fór til Southampton – en Liverpool er að kaupa leikmanninn tilbúinn og mikið betri en hann var fyrir þremur til fjórum árum síðan.

Mohamed Salah tekur við treyju númer ellefu af Roberto Firmino sem færir sig yfir í treyju númer níu sem á alltaf að klæða aðalframherja Liverpool.

Vonandi er þetta fyrstu af nokkrum stóru kaupum Liverpool í sumar. Mohamed Salah vertu velkominn til Liverpool og bakverðir hinna liðana í deildinni – þið eigið sko ekki von á góðu!

Enn ein skitan!

Hingað og ekki fucking lengra, þetta er bara ekki í boði!

Ég stóð mig að því fyrr í dag og síðustu daga að hrósa Liverpool fyrir það að koma af krafti inn í sumarið og loksins haga sér eins og stóri klúbburinn sem það á að vera. Tilboð í spennandi leikmenn og félagið virtist komið langt með að gjörsamlega pakka saman metinu sem Andy Carroll á enn í dag yfir dýrustu kaup félagsins – og jafnvel um leið að slá heimsmet í kaupverði á dýrasta varnarmanni sögunnar. Liverpool ætlaði að hnykkla vöðvana og hafði betur í baráttunni við Chelsea og Manchester City um kaup á hinum frábæra Virgil Van Dijk.

Eeeeeeeen….

Liverpool er og verður alltaf Liverpool. Það getur víst aldrei neitt gerst án þess að það fylgi einhver dramatík og vesen. Southampton leggja fram kvörtun til enska knattspyrnusambandsins vegna þessa ð Liverpool og Klopp áttu í ólöglegum samskiptum við leikmanninn.

Það er eins og gengur og gerist. Félög gera þetta trekk í trekk og tala nær ávallt fyrst við umboðsmenn og/eða leikmenn áður en einhver alvöru tilboð fara að fljúga á milli félagana. Allir vita þetta og allir gera þetta. Þrátt fyrir það þá fór þetta greinilega í taugarnar á Southampton og þá sérstaklega að það skuli hafa farið fyrst í blöðin að Van Dijk skildi vilja fara til Liverpool eftir að hafa rætt við Klopp. Hvorki leikmaðurinn né Liverpool á að hafa látið Southampton vita og þeir kannski nokkuð skiljanlega fúlir. Allt gott og gilt.

Þá loks byrjar gamanið og Liverpool gefur út yfirlýsingu í kvöld þar sem félagið biðst innilegrar afsökunar á þessum misskilningi og félagið muni nú láta eftir allan áhuga sinn Van Dijk. Auðvitað…

Klopp var ekki bara á því að þetta væri leikmaður sem hann vildi fá heldur var þetta „THE“ leikmaður sem hann vildi fá. Leikmaðurinn, skrifað með stóru L-i. Forgangsfélagsskipti félagsins í sumar og hann var númer eitt. Félagið var búið að sannfæra hann um að koma og var reiðubúið að borga fáranlegar upphæðir fyrir hann, heimsmets upphæð.

Það er því alveg fullkomlega skiljanlegt að Liverpool ákveði að sýna þennan heigulshátt og gangi í burtu frá dílnum án þess að einu sinni leggja fram eitt alvöru formlegt tilboð í hann. Nei, áhuginn er farinn og lífið gengur áfram. We go again!

Þvílíkt djölfulsins kjaftæði er það?!?

Liverpool hefur greinilega gert eitthvað af sér í þessu máli og ætlar ekki að taka neina sénsa og það er bara frekar pirrandi. Einhver hefur lekið þessu út og greinilega mistúlkað stöðuna all svakalega sem lætur félagið líta afskaplega illa út – enn einu sinni!

Félagið er í félagsskiptabanni hvað varðar unga leikmenn innan Englands fyrir nákvæmlega eitthvað svona og hefur áður lent í sömu stöðu varðandi Clint Dempsey fyrir nokkrum árum. Þetta lítur bara mjög illa út og kemur mjög slæmur stimpill á félagið í kjölfarið sem gæti jafnvel hamlað samskipti og traust á milli okkar og annara félaga hvað félagsskipti varðar. Þetta er mjög stórt og alvarlegt mál og svona atvik geta orsakað fjársektir eða jafnvel félagsskiptabönn.

Vinnubrögð Liverpool á félagsskiptamarkaðnum eru oft algjör brandari en þetta er nú það allra versta. Lowest of the low, worst of the worst. Alveg gjörsamlega glatað dæmi!

Kannski er þetta það eina í stöðunni en hamingjan hjálpi mér hvað mér finnst þetta ræfilsleg vinnubrögð hjá félaginu. Að láta þetta allt komast upp, fylgja því ekki eftir með alvöru tilboði og leggjast í fósturstellingu á gólfinu þegar þaðkemur skellinn og stinga þumlinum í kjaftinn á sér. Nei, við erum alveg hættir við plan A og höfum ekki lengur áhuga á leikmanninum sem við vorum tilbúin að eyða fúlgum fjár í og gera eitthvað sem aldrei hefur verið gert áður til að fá í gegn. *Púff* Áhuginn farinn og við förum í plan B. Algjört fucking djók!

Ekki nóg með það að kaup á Van Dijk virðast runnin okkur úr greipum heldur höfum við ekki enn snúið aftur með annað tilboð í Mohamed Salah sem við buðum í fyrir viku og virkaði nú ansi nálægt því að geta klárast. Nú er félagið farið að skoða aðra valmöguleika í staðinn fyrir Salah – en ekki hvað? Ég er alveg viss um að Salah finni all svakalega fyrir ástinni frá Liverpool því það virðist aftur vera að gerast það sama og orsakaði það að hann kom ekki til okkar fyrir nokkrum árum frá Basel.

Við höfum heyrt af því frá því í janúar að Liverpool sé með Naby Keita og Virgil Van Dijk séu aðalskotmörk Liverpool fyrir sumarið og nú er júní ekki einu sinni hálfnaður og við höfum nú séð Van Dijk renna okkur úr greipum og við höfum ekki einu sinni boðið í Naby Keita hingað til.

Síðastliðið ár hefur félagið og þeirra helstu blaðamenn blásið upp helling af leikmönnum og áhuga Liverpool á þeim. Zielinski, Gotze, Chilwell, Dahoud, Pulisic, Brandt, Van Dijk, Keita og eflaust einhverjir fleiri en enginn hefur komið úr þessum hópi og félagið annað hvort ekki sannfært þá um að koma eða þeir endað annars staðar.

Liverpool er ekki að eignast einhverja vini á markaðnum með þessum vinnubrögðum sínum og eru oftar en ekki sjálfum sér verstir. Ég er alveg á því að félagið geti og muni eflaust styrkja sig vel í sumar og allt það en það að vera endalaust að lofa einhverju upp í ermina á sér og blása upp einhver voða flott skotmörk í gegnum fjölmiðla er ekki að skila neinu nema bara hreinlega láta félagið líta illa út ef þeir leikmenn koma ekki.

Sama þó Liverpool kaupi flotta leikmenn í sumar þá er það bara þannig að ef Van Dijk verður ekki leikmaður Liverpool í haust og endar þess í stað hjá Chelsea eða Manchester City þá lítur félagið mjög illa út eftir þetta mál. Stórt félag klárar þetta úr þessu, það reynir – þá vonandi aðeins hljóðlátara en áður – að fá leikmanninn til að þrýsta á sölu og klára dæmið.

Virgil Van Dijk er ekki aðeins frábær varnarmaður sem kæmi til með að styrkja lið Liverpool alveg helling heldur er hann líka sá leikmaður sem Klopp taldi mikilvægasta partinn í liðið fyrir næstu leiktíð og þetta hefði getað orðið risa stórt statement fyrir félagið og framtíðina.

Það er alveg greinilegt að félagið þarf að fara í alvarlega naflaskoðun eftir þetta mál og kæmi mér það ekkert á óvart ef einhverjir hausar myndu fjúka ef rekja mætti þetta til slæmrar vinnubragða eða leka út frá félaginu. Hvort sem Klopp eigi sök að máli eða ekki þá get ég vel trúað að hann sé langt frá því að vera sáttur með það sem er að gerast hjá félaginu þessa stundina.

Elsku Liverpool ef þið lumið á einhverjum jákvæðum fréttum þá er tíminn til að opinbera þær sem fyrst, við þurfum svakalega á góðum viðbrögðum og jákvæðum fréttum að halda því þetta er gjörsamlega fáranlega vandræðaleg staða sem félagið er komið út í. Hvernig í ósköpunum ætlið þið að klóra ykkur út úr þessu, þolinmæði stuðningsmanna gagnvart ákveðnum þáttum innan félagsins virðist gjörsamlega hanga á bláþræði.