Allar færslur eftir Ólafur Haukur

Samþykkt tilboð í Fekir!

Allir áreiðanlegustu miðlar Englands og Frakklands virðast slá í sömu strengi í kvöld en samkvæmt því eiga Liverpool og Lyon að hafa komist að samkomulagi um kaupverð á sóknartengiliðnum Nabil Fekir. Mikil pressa hefur verið á Liverpool að ná að klára þennan díl fyrir HM en leikmaðurinn var nokkuð „óvænt“ valinn í landsliðshópinn þegar Dimitry Payet meiddist í úrslitum Evrópudeildarinnar.

Áhugi Liverpool á leikmanninum hefur ekki verið leyndarmál en bæði Fabinho, nýjasti leikmaður Liverpool, og Sadio Mane hafa svarað spurningum um leikmanninn á síðustu vikum. Forseti Lyon hefur alltaf gefið í skyn að Lyon liggur ekkert á að selja fyrirliða sinn og þá síðasta bara í dag sagði hann að ólíklegt væri að þeir myndu selja leikmanninn fyrr en eftir HM ef þeir myndu þá gera það.

Hins vegar er Liverpool staðráðið í að klára kaupin fyrir HM og geta fókuserað á næstu kaup sín og virðist það ætla að ganga í gegn komist hann í gegnum læknisskoðun. Samkvæmt helstu miðlum er kaupverðið 48 milljónir og aðrar fjórar milljónir í bónusgreiðslur sem verður að teljast mjög góður díll fyrir þennan leikmann sem var einn sá allra efnilegasti í Evrópu áður en hann meiddist á hné árið 2015 en hann hefur komið flottur til baka eftir það. Franskir miðlar vilja meina að kaupverðið sé nær sextíu milljónum punda en eflaust er þetta einhvers staðar þarna á milli.

Við komum með aðeins nánari umfjöllun um leikmanninn sjálfan og uppfærum þetta eftir því sem eitthvað gerist í þessum málum.

Hugsanlega gæti Liverpool farið á fullt við að ná að klára kaup á Alisson markverði Roma og Xerdan Shaqiri leikmanni Stoke en báðir munu þeir fara út til Rússlands í næstu viku.

Opinn þráður – Karius, slúður og Lijnders

Á yfirborðinu er ansi rólegt hjá okkar mönnum þessa dagana en við fengum auðvitað óvænta sprengju í síðustu viku þegar félagið tilkynnti kaupin á Fabinho frá Monaco.

Rétt til að renna yfir það helsta í slúðrinu þá er lítið að frétta af Nabil Fekir. Viðræður á milli liðana ganga hægt og spurning hvort takist að klára kaupin fyrir HM en Frakkland heldur til Rússlands á fimmtudaginn svo tíminn er orðinn ansi naumur.

Roberto Firmino og Dejan Lovren leiddu saman hesta sína á Anfield um helgina þegar Brasilía og Króatía léku æfingaleik fyrir HM. Leiknum lauk með 2-0 sigri Brasilíu og Roberto Firmino kom inn á sem varamaður og að sjálfsögðu skoraði hann í blálok leiksins með góðu marki fyrir framan Kop stúkuna.

Slúðrið frá brasilískum miðlum segir að Liverpool hafi nýtt tækifærið og rætt við fylgdarlið markvarðarins Alisson sem er sagður vera ofarlega á forgangslista Liverpool í sumarglugganum. Real Madrid hefur líka áhuga á Alisson og er sagt að valið standi á milli Liverpool og Real Madrid. Bæði lið heilli en á ólíkan hátt. Sjáum hvað setur, líkt og með Fekir þá er tíminn til að klára kaupin fyrir HM að verða ansi naumur.

Í kvöld var Liverpool óvænt orðað við 22ja ára nígerískan kantmann frá Gent í Belgíu. Hann heiti Moses Simon… nei, notum fullt nafn. Hann heitir Moses Daddy-Ajala Simon. Alltaf kaupa mann sem heitir Daddy!

Þekki nú ekkert til þessa Simon en hann er hraður og leikinn kantmaður og er einn þeirra sem Liverpool er að fylgjast með og mun jafnvel reyna að fá í sumar. Hann er talinn kosta tíu milljónir punda og á ár eftir af samningi sínum við belgíska liðið. Sjáum hvað setur en eftir að hafa heyrt Leon Bailey, Pulisic, Ousmane Dembele, Malcom og Wilfried Zaha oraða við Liverpool í kantstöðurnar þá er þetta ákveðin „skellur“ ef þetta yrði sá sem félagið kaupir. Meira um það ef af þessu verður.

Hann hefur verið í nígeríska landsliðshópnum en missir því miður (kannski ekki fyrir okkur Íslendinga) af HM þar sem hann meiddist á mjöðm um daginn og nær ekki að vera klár í tæka tíð. Skellur fyrir strákinn en ef Liverpool kaupir þennan strák þá gætum við séð tvo Nígeríumenn bætast í æfingahópinn í sumar.

Taiwo Awoniyi hefur verið á mála hjá Liverpool síðan 2015 en hefur ekki fengið leikheimild í Englandi síðan þá og verið lánaður til félaga í Hollandi, Þýskalandi og í Belgíu. Hann var síðast á láni hjá Mouscron í Belgíu og gerði vel, var í myndinni fyrir landsliðshópinn fyrir HM en náði ekki í næst síðasta úrtakshópinn. Hann hefur fengið leyfi til að dvelja með Liverpool í Bandaríkjunum þar sem það verður í æfingaferð í sumar og gæti verið með hópnum þar. Hann er talinn skrifa undir nýjan samning og fara á láni til stærra liðs sem spilar í Evrópudeildinni og hefur Anderlecht verið nefnt til sögunnar. Gangi það eftir gæti hann fengið atvinnuleyfi í Englandi og loksins komist til Liverpool.

Liverpool sendi Loris Karius í skoðun til sérfræðina í höfuðmeiðslum á sjúkrahúsi í Boston þar sem kom í ljós að hann hafi hlotið heilahristing eftir samstuð (árás) Sergio Ramos í úrslitum Meistaradeildarinnar. Kannski útskýrir það eitthvað mistök hans í leiknum en kannski ekki, staðreyndin að minnsta kosti sú að hann hlaut heilahristing eftir atvikið.

Pepijn Lijnders hefur aftur tekið við stöðu í þjálfarateymi Klopp fyrir komandi leiktíð. Lijnders þekkir nú mjög vel til Klopp og Liverpool enda búinn að vera í félaginu í einhver 4-5 ár núna og verið stór partur í þjálfarateyminu hjá Klopp síðan hann tók við. Hann er mikils metinn þjálfari bæði hjá Liverpool og í bransanum en hann yfirgaf klúbbinn fyrr á leiktíðinni og tók við starfi í hollensku 1.deildinni. Lið hans rétt missti af sæti í efstu deild og var hann látinn fara. Klopp var ekki lengi að bjóða honum að koma aftur heim til Liverpool en ekki er enn búið að gefa upp hvert hlutverk hans verður. Buvac fór í „frí“ undir lok leiktíðar og óvíst er með framhaldið hjá honum hjá félaginu, nákvæmt hlutverk Lijnders gæti orðið skýrara þegar ljóst verður hvort Buvac snýr aftur eða ekki.

Þetta er svona það allra helsta sem hefur verið að frétta síðustu daga, vonandi fáum við einhverjar stórar og jákvæðar fréttir af klúbbnum á næstu dögum. Annars er þetta opinn þráður og þið megið ræða það sem þið viljið (innan siðsamlegra marka!!) hérna.

Fabinho – Drauma varnartengiliðurinn?

Það kom eins og þruma úr heiðskýru lofti þegar franskur fjölmiðill greindi frá því að Liverpool væri að bjóða rúmlega 40 milljónir punda í Fabinho, leikmann Monaco, og díllinn ætti líklega eftir að ganga í gegn. Þetta var það fyrsta sem maður hafði heyrt af þessu (og treystið mér, það er ekki mikið sem fer framhjá undirrituðum þegar kemur að slúðri!).

Þarna má sjá að klukkan er 17:44 og um hálftíma síðar skellir Mohamed Bouhafsi fram sömu fréttum og segir að félögin séu í viðræðum eftir tilboð Liverpool hafi borist. Þetta er einn sá allra áreiðanlegasti þegar kemur að fréttum úr franska boltanum svo þetta var stórt. Ekki nóg með það heldur fóru Liverpool tengdir blaðamenn; Joyce, Melissa Reddy, Dominic King og þeir hjá Echo að koma með sömu fréttir. Fabinho væri skotmark númer eitt á miðsvæðið, tilboð hefði verið lagt fram og Liverpool bjartsýnt á að klára dæmið.

Þremur korterum seinna greindi Bouhafsi frá því að tilboði Liverpool hafði verið tekið og maður sat hálf gáttaður yfir þessu og hve fljótt þetta væri að gerast. Eins og það hafi ekki verið hálf óraunverulegt þá á slaginu klukkan átta birtist þessi færsla frá Liverpool:

Fabinho mættur á svæðið, klæddur í treyju og opinberlega orðinn leikmaður Liverpool. Holy f***ing moly! Tveimur tímum eftir að við heyrðum fyrsta orðróminn um að hann væri að koma þá var hann staðfestur af klúbbnum sem er alveg ótrúlegt miðað við að þetta er mjög stór leikmannakaup.
Continue reading

Fyrri leikurinn í 8-liða úrslitum Meistaradeildar!

Það eru tíu leiktíðir síðan Liverpool var síðast í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Tíu leiktíðir. T-Í-U leiktíðir! 10!

Það var leiktíðina 2008-2009 sem liðið lék síðast í þessari umferð og datt út í ansi fjörugri viðureign gegn Chelsea. Þar áður hafði Liverpool verið dominerandi í keppninni og unnu keppnina 2004-2005, kepptu í úrslitum 2006-2007, undanúrslit 2007-2008. Eftir það tók félagið mikla dýfu í Evrópukeppnunum fyrir utan undanúrslit í Evrópudeildinni 2009-2010 og tap í úrslitum Evrópudeildarinnar 2015-2016 þá hefur þátttaka liðsins í keppnunum tveimur verið vægast sagt sorgleg – tja, þau skipti sem liðinu tókst að vinna sér inn þátttökurétt!

Nú er aftur komið að því að Liverpool er mætt í þessa umferð í Meistaradeildinni og er á góðri leið með að tryggja sér aftur þátttökurétt á næstu leiktíð þar sem baráttan um efstu fjögur sætin í Úrvalsdeildinni eru svona að miklu leiti tryggð nema eitthvað alveg ótrúlegt gerist – en meira um það seinna.

Embed from Getty Images

Á miðvikudaginn kemur Manchester City á Anfield í fyrri leik liðana í átta liða úrslitunum. Þetta var nú heilt yfir ekki draumaviðureignin sem maður hefði viljað sjá á þessu stigi af ansi mörgum ástæðum en maður jafnar sig bara á því þar sem það er nú ansi fátt sem maður gæti gert til að fá því breytt.

Það er kannski nokkuð óhætt að segja að Liverpool komi inn í þessa viðureign sem „underdog“ þar sem City er nú svo gott sem búið að vinna deildina og voru/eru eitt af líklegustu liðunum til að sigra Meistaradeildina í ár. Það er því ansi margt sem segir okkur að City ætti að hafa betur í þessari viðureign ef rýnt væri í stöðu liðana á pappír.

Til allrar lukku er þó fótbolti eða aðrar íþróttir spilaðar á pappír svo við getum bara krumpað hann saman og hent út í horn!

Liverpool er hingað til eina liðið sem hefur tekist að sigra City í deildinni á leiktíðinni og gerði það með afar sannfærandi hætti. 4-3 úrslitin úr leik liðana fyrir nokkrum vikum síðan gefa ekki beint rétta mynd af leiknum verð ég að segja. Fyrir utan niðurlægingu gegn City snemma á leiktíðinni þá hefur Liverpool haft ágætis tak á þeim svona heilt yfir svo ég er nú alveg viss um að þeir séu nú alls ekki spenntari að mæta Liverpool en Liverpool er að mæta þeim.

Embed from Getty Images

Mér finnst vera ansi margt líkt með þessum liðum hvað varðar helstu styrkleika og veikleika. City, líkt og Liverpool, getur kaffært lið með sóknarþunga sínum sem er stútfullur af tækni, hraða og óútreiknanleika. Það má ekki missa dampinn gegn þeim í hálfa sekúndu og þú gætir fengið á þig mark. Það er það sama og hjá Liverpool.

Bæði lið eiga það til að klúðra aðeins í varnarleiknum og lenda oft í óþægilegri stöðu gegn sókn mótherja sinna enda bæði lið sem spila framarlega og taka oft sénsa.

Á margan hátt finnst mér liðin heilt yfir mjög svipað uppbyggð hvað varðar týpur af leikmönnum, áherslur í sóknarleik og þess háttar en stærsti munurinn er eflaust á miðjunni. City er með miklu „Guardiola-legri“ miðju en Liverpool þar sem það eru fleiri menn sem vilja spila stutt og hratt á milli sín, halda bolta, sýna þolinmæði og allt það. Þið vitið, þetta Barcelona tiki-taka dæmi. Miðjan hjá Liverpool gerir svo sem það sama en virðist þó vera ögn meira „direct“ í sínum aðgerðum, ögn meira „Klopp-legt“.

Ég held að það þurfi nú ekkert að fara rosalega ítarlega í það að kynna þetta City lið til leiks enda ættu nú flestir að vera farnir að þekkja það ágætlega og vita hverjir þeirra helstu styrkleikar og lykilmenn eru.

Samkvæmt Physioroom síðunni þá gætu þeir Laporte, Stones, Delph og Aguero verið tæpir fyrir leikinn en ég ætla nú að reikna með að flestir ef ekki allir þeirra verði í hópnum hjá þeim.

Þeir stilltu liðinu sínu upp svona í síðustu viðureign liðana:

Ederson

Walker – Stones – Otamendi – Delph

De Bruyne – Fernandinho – Gundogan

Sterling – Aguero -Sane

Það er ekki ósvipað því sem þeir spiluðu um síðastliðna helgi og það verður í raun það sem ég reikna með að verði byrjunarlið þeirra á miðvikudaginn.

Ederson

Walker – Otamendi – Kompany – Laporte

De Bruyne – Fernandinho – David Silva

Sterling – Jesus – Sane

Aguero byrjar líklega á bekknum fyrir þá ef hann verður með og Jesus leiðir líklega línuna hjá þeim. Sane og Sterling eru fastamenn sitthvoru megin við framherjan hjá þeim og þeir Silva og De Bruyne sá um að stjórna flæðinu fyrir framan Fernandinho. Kompany er mættur aftur í slaginn hjá þeim og virðist sem að Laporte hafi spilað í bakverðinum hjá þeim um helgina og yrði ég ekki hissa ef hann heldur þeirri stöðu áfram með það í huga að reyna að núlla út Salah og gefa sem minnst pláss fyrir aftan vörnina þar og hægt er.

Síðast þegar liðin mættust þá stillti Liverpool liði sínu svona upp:

Karius

Gomez – Matip – Lovren – Robertson

Wijnaldum – Can – Chamberlain

Salah – Firmino – Mané

Þá var Karius nýkominn í markið fyrir Mignolet, Van Dijk var ekki í hóp, Henderson meiddur og Coutinho ný farinn. Karius er áfram í markinu, Van Dijk klár í slaginn, Henderson kominn til baka svo eitthvað gæti nú hugsanlega breyst þar.

Emre Can var ekki með um helgina og gæti kannski verið eitthvað tæpur og verður líklega ekki með, það gæti munað svakalega um hann í þessum leik en hann var frábær síðast þegar liðin mættust og svona leikir henta honum nokkuð vel. Henderson er svo á gulu spjaldi og gæti lent í að missa af seinni leiknum fái hann spjald á morgun.

Framlínan segir sig nú alveg sjálf, þessir þrír flottu sóknarmenn halda sínum stöðum þar. Robertson verður í vinstri bakverðinum, Van Dijk við hlið hans í vörninni og Karius í markinu. Allt annað er töluvert erfiðara að spá fyrir um.

Matip er meiddur og hugsanlega frá í lengri tíma svo miðvörðurinn nokkuð sjálfvalinn og mun Lovren stilla sér upp með Van Dijk.

Það er erfiðara að segja til um hægri bakvörðinn. Gomez er meiddur og verður ekki með svo auðvelt hefði verið að segja að Trent Alexander-Arnold verði sjálfkjörinn í hægri bakvörðinn en þar sem Clyne er kominn aftur í hópinn gæti Klopp tekið óvænt skref og tekið Clyne inn í liðið fyrir þennan leik. Clyne hefur æft í góðan mánuð núna, spilað nokkra leiki með u23 liðinu og var á bekknum um helgina. Hann er því klárlega í einhverju standi en stór spurning hvort það sé nógu mikið til að eltast við leikmenn eins og Sane, Sterling osfrv. Kannski kemur Klopp á óvart og skellir bara Milner í þetta hlutverk eða fer í eitthvað algjört flipp og setur þrjá miðverði í liðið en ég efast um það.

Miðjan í síðustu viðureign liðana er í theoríunni sú miðja sem ætti líklega að henta hvað best í þennan leik. Wijnaldum, Can og Chamberlain voru frábærir í þessum leik og þetta eru þeir miðjumenn liðsins sem eru hraðastir og henta best í leik sem verður mjög líklega með hátt tempó og spilast hratt í báðar áttir. Guardiola talaði um að erfitt hafi verið að eiga við Chamberlain síðast þegar liðin mættust og var hann alveg frábær, það er spurning hvort hann sé að nefna þetta því það er sannleikurinn eða hvort hann telji sig með plan til að blokkera ógnina frá honum og reyna að leiða Klopp í gildru. Það seinna kæmi mér lítið á óvart.

Ég ætla að taka algjört gisk út í loftið og spá því að liðið verði eitthvað á þessa leið:

Karius

TAA – Lovren – Van Dijk – Robertson

Chamberlain – Henderson – Wijnaldum

Salah – Firmino – Mané

Stórleikur í Meistaradeild, útsláttarkeppni, grannalið kemur í heimsókn, kvöldleikur á Anfield… Þetta verður eitthvað!

City menn hafa miklar áhyggjur af þessum leik og hafa farið með það í blöðin að þeir hafi miklar áhyggjur af mótttökuna sem liðsrútan þeirra fær þegar þeir mæta á völlinn, þeir óttast að stuðningsmenn Liverpool mæti með flugelda og blys á svæðið – það er ljóst að stemmingin á Anfield verði líklega upp á sitt besta og þetta útspil City er nú líklega að skella bensíni á eldinn.

Stuðningsmenn verða klárir í leikinn, Anfield titrar af æsingi og hávaða, rauður reykurinn sveimar um svæðið – shit, hvað þetta verður spennandi!

Vonandi mæta leikmenn klárir til leiks og ákveðnir í að sýna það og sanna að þeir eru liðið sem City eigi að óttast hvað mest í þeim keppnum sem þau geta mæst í. Liverpool er eina liðið í vetur sem hefur virkilega fengið City til að skjálfa og virkað ráðalausa – vonandi sýna leikmenn að það er engin tilviljun og haldi uppteknum hætti.

Leikurinn verður pottþétt taktískari en oft áður en stíll og nálgun þessara liða gæti gert það að verkum að þessi viðureign verði eitthvað sem fólk eigi eftir að tala um í langan tíma. Vonandi verður hún það og rauðir fara áfram í undanúrslitin.

Maður er skít stressaður og drullu spenntur í senn, ég get ekki beðið!

Breytir Karius öllu?

Það eru ekki margar vikur síðan allt fór á fullt í slúður pressunum og Liverpool var sagt vera greinilega á höttunum eftir nýjum markverði fyrir sumarið þar sem markvarðarstaða liðsins þótti nú ekki ýkja merkileg. Loris Karius hafði ekki spilað mikið í deildinni en stóð á milli stangana í Meistaradeildinni og Simon Mignolet var í þann mund að missa sæti sitt í byrjunarliðinu í deildinni.

Jan Oblak, Alisson Becker og Jack Butland dúkkuðu upp í þessum helstu miðlum og þótti orðið afar líklegt að Klopp leitaði að nýjum markverði. Ef ekki í janúar glugganum þá allavega í sumar. Allir voru undirbúnir því að nýr maður yrði á milli stangana í sumar.

Svo kemur að því að Mignolet fær sparkið og þarf að hlamma sér á tréverkið og Karius verður gerður að valkosti númer eitt, bæði í Meistaradeild og í deild. Klopp greindi frá því eftir að Karius kom óvænt í byrjunarliðið gegn Man City um miðjan janúar og gaf honum skýr skilaboð. Hann skildi taka sénsinn.

Klopp: „He is a really good goalkeeper and we brought him in because we wanted him to play. But of course Loris has to deliver and he knows that.”

Karius hefur leikið vel á leiktíðinni. Verið flottur í markinu í Meistaradeildinni og átt ágætis frammistöðu í deildinni síðan hann kom aftur inn í liðið. Hann er töluvert öðruvísi týpa af markverði en Mignolet og týpa sem hentar leikstíl liðsins töluvert betur. Hann er fljótur af línunni og mætir í 50-50 lausa bolta í kringum teiginn, hann hefur bjargað oft þannig en einnig lent í því að gefa tvær vítaspyrnur, önnur sem hann varði en hin orsakaði mark. Persónulega er ég hæst ánægður með þessi hlaup hans Karius, ég vil að markvörður liðsins mæti þessum boltum og taki áhættu.

Embed from Getty Images

Nú undanfarið höfum við heyrt fréttir af því að Liverpool ætli ekki að eltast við markvörð eins og Alisson Becker, sem hefur verið sterklega orðaður við liðið, og sjái Karius fyrir sér í lykilhlutverki á næstu leiktíð. Það gæti svo sem verið opinber lygi félagsins þar sem enn er mikið eftir af mótinu og Liverpool þarf Karius á tánum út leiktíðina.

Frammistaða Karius síðan hann kom inn hefur verið góð og má greinilega sjá að hann er kominn með aukið sjálfstraust í aðgerðum sínum. Hann virkar töluvert öruggari í úthlaupum í lausu boltana í háloftunum og þá sem sleppa í gegn, hann er vel á verði á milli stangana og tekið nokkrar mjög mikilvægar vörslur í undanförnum leikjum.

Hann hefur spilað 13 deildarleiki í vetur, fengið á sig 11 mörk og haldið hreinu í sex leikjum. Leikið 8 í Meistaradeildinni, haldið hreinu í fimm leikjum og fengið á sig 6 mörk. 21 leikur, 11 sinnum haldið hreinu og fengið á sig 17 mörk. Þetta er held ég bara nokkuð fín tölfræði hjá honum og sér í lagi þegar við sjáum að sex af þessum 17 mörkum hafa komið í tveimur leikjum (gegn City og Sevilla).

Loris Karius verður 25 ára í sumar og er að komast á góðan aldur – sama aldri og flestr aðrir lykilmenn liðsins – og hann hefur komið sterkur út úr ansi erfiðri stöðu undanfarna eina og hálfa leiktíð sem ungur markvörður í nýrri deild. Ég ætla ekki að telja það með þegar hann var í unglingastarfi Man City. Hann kom með gott orðspor frá Þýskalandi og það hefur verið einhver ástæða fyrir því að Klopp ákvað að fjárfesta í Karius. Erum við að fara að sjá ástæðuna fyrir því og hefur Klopp verið að koma honum hægt og rólega inn í liðið?

Hvað haldið þið, getur Karius verið markvörður liðsins á næstu leiktíð og er hann að sannfæra Klopp um að það þurfi ekki að kaupa mann í hans stað í sumar þó að hann hafi aðeins sýnt jákvæða hluti í stuttan tíma?