Allar færslur eftir Ólafur Haukur

Mohamed Salah til Liverpool – staðfest!

Liverpool hefur staðfest kaup sín á Mohamed Salah frá Roma á rúmlega 34 milljónir punda en kaupverð hans gæti hækkað upp í einhverjar 40 milljónir punda nái hann og Liverpool einhverjum ákveðnum árangri. Búist var við að kaupverðið myndi gera hann að dýrasta leikmanni í sögu félagsins en svo er víst ekki og á Andy Carroll á enn þann titil mörgum árum seinna, þrátt fyrir að Liverpool hafi keypt leikmenn eins og Salah, Firmino, Mane og Benteke sem allir eru rétt fyrir neðan það verð. Innskot: Roma segir kaupverðið vera 36 milljónir punda og aðrar sjö milljónir muni geta bæst við svo samkvæmt því er hann dýrasti leikmaðurinn í sögu Liverpool en félagið hefur að minnsta kosti ekki staðfest það hingað til.

Við höfum heyrt talað um áhuga Liverpool á Salah frá því í janúar 2014 þegar Liverpool reyndi að kaupa hann frá Basel en einhverjir hnökrar voru hjá Liverpool í viðræðunum við Basel og Chelsea skaust inn á milli og nældi sér í kappann.

Ferill hans hjá Chelsea var ekki dans á rósum en hann fékk lítin spilatíma og tók þátt í mjög fáum leikjum fyrir þá. Hann tók þátt í 19 leikjum með Chelsea í öllum keppnum og byrjaði inn á í aðeins sex þeirra.

Líkt og flest allir ungir leikmenn sem eru á lager hjá Chelsea þá endaði hann á að fara á lán til annars liðs og endaði hjá Fiorentina á Ítalíu. Dvöl hans hjá Fiorentina var nákvæmlega það sem hann þurfti eftir erfitt fyrsta tímabil hjá Chelsea og var lánaður í janúar 2015 og spilaði hann 26 leiki í öllum keppnum fyrir þá fjólubláu og skoraði níu mörk. Orðspor hans var aftur farið að rísa og þótti dvöl hans hjá Fiorentina vel heppnuð.

Sumarið eftir fékk Roma hann lánaðann og hélt hann áfram að gera það gott á Ítalíu. Hann varð strax í mjög stóru hlutverki hjá Roma og spilaði hann 42 leiki það ár í öllum keppnum, byrjaði þá flesta og skoraði fimmtán mörk og níu stoðsendingar. Það var nóg til þess að Roma ákvað að festa kaup á kappanum og greiddu Chelsea fimmtán milljónir evra fyrir hann síðasta sumar.

Á síðustu leiktíð hélt hann ekki uppteknum hætti heldur gaf hann aðeins í. Hann óx mikið sem leikmaður og átti frábært tímabil hjá Roma. Hann skoraði 19 mörk og lagði upp 15 í 41 leik í öllum keppnum sem er frábært fyrir vængframherja.

Nokkrir áhugaverðir punktar frá síðustu leiktíð:
Salah created 22 chances for Džeko in 2016-17 of which 7 became assists–only Dembélé to Aubameyang was more lucrative with 10. (@StatsBomb)

Mohamed Salah has created more chances from inside the penalty area (51) in Serie A since 2015/16 than any other player.

Salah er mjög skapandi leikmaður og eins og sést þarna þá kemst hann mikið inn á teiginn og veldur gjarnan miklum ursla þegar hann er þar. Hjá Roma og Fiorentina hefur hann mest megnis spilað á hægri vængnum þó hann leiti nú stundum yfir á hinn vænginn og á miðsvæðið.

Hann sækir á vinstri fót sinn og er það eitthvað sem mótherjar hans eru mjög áræðnir í að stöðva þar sem hann nær góðum og kraft miklum skotum með vinstri fæti sínum og er með gott auga fyrir marki.

Einkennismerki Salah er samt án nokkurs vafa hraði hans. Ef þið hafið ekki séð til hans og ykkur finnst Sadio Mane vera hraður þá skulið þið bara bíða og sjá!

Leikur Salah hefur vaxið mikið á síðustu árum en hann hefur altlaf haft hraðann og tæknina til valda ursla í sókn en hann hefur þurft að bæta alhliða leik sinn og varnarskyldu sína á síðustu árum og hefur gert það vel hjá Roma undir stjórn Luciano Spalletti. Þeir unnu saman að því bæta tímasetningar hans, hvar hann á að skila sér þegar liðið tapar boltanum og að hann þurfi ekki að gera allt á fullum hraða heldur geti hann leyft sér að líta upp og meta stöðuna oftar. Þetta kom í hans leik og átti hann frábært tímabil sem einn skæðasti leikmaður ítölsku deildarinnar.

Liverpool hefur fylgst með þessum leikmanni lengi og var talað um að hann hafi verið einn þeirra leikmanna sem Liverpool horfði til síðasta sumar þegar bæta átti við kantmanni og nú loksins er leikmaðurinn á leið til Liverpool.

Hann er svakalega spennandi sem virðist henta leik Liverpool fullkomlega. Hann kemur til með að auka enn fremur við hraðann í sóknarleik liðsins og er mjög áreiðanlegur markaskorari af kantinum og skapandi. Hann er áræðinn, fórnsamur og duglegur svo það er erfitt að vera ekki virkilega spenntur fyrir þessum kaupum. Nú er Liverpool ekki eins „hátt“ hraðanum í Mane og getur nú sótt hratt á báðum hliðum vallarins.

Eina stóra spurningin varðandi þessi kaup eru hvar hann og Sadio Mane munu spila. Mane var í fyrra á hægri vængnum og stóð sig frábærlega þar en þar sem þetta er besta staðan fyrir Salah og vinstri fót hans þá gæti þótt líklegt að hann færi sig yfir á vinstri og Liverpool færi sig í aðeins meira þriggja „framherja“ kerfi og Coutinho færist ögn neðar á völlinn.

Það að Liverpool skuli fá svona spennandi leikmann á besta aldri eftir tvær mjög góðar leiktíðir hjá sterku liði í sterkri deild svona ódýrt er í raun nokkuð ótrúlegt. 34-40 milljónir punda er ekkert fyrir svona leikmann eins og markaðurinn er í dag. Jú, hann hefði getað fengist ódýrari fyrir nokkrum árum – líkt og t.d. Sadio Mane áður en hann fór til Southampton – en Liverpool er að kaupa leikmanninn tilbúinn og mikið betri en hann var fyrir þremur til fjórum árum síðan.

Mohamed Salah tekur við treyju númer ellefu af Roberto Firmino sem færir sig yfir í treyju númer níu sem á alltaf að klæða aðalframherja Liverpool.

Vonandi er þetta fyrstu af nokkrum stóru kaupum Liverpool í sumar. Mohamed Salah vertu velkominn til Liverpool og bakverðir hinna liðana í deildinni – þið eigið sko ekki von á góðu!

Enn ein skitan!

Hingað og ekki fucking lengra, þetta er bara ekki í boði!

Ég stóð mig að því fyrr í dag og síðustu daga að hrósa Liverpool fyrir það að koma af krafti inn í sumarið og loksins haga sér eins og stóri klúbburinn sem það á að vera. Tilboð í spennandi leikmenn og félagið virtist komið langt með að gjörsamlega pakka saman metinu sem Andy Carroll á enn í dag yfir dýrustu kaup félagsins – og jafnvel um leið að slá heimsmet í kaupverði á dýrasta varnarmanni sögunnar. Liverpool ætlaði að hnykkla vöðvana og hafði betur í baráttunni við Chelsea og Manchester City um kaup á hinum frábæra Virgil Van Dijk.

Eeeeeeeen….

Liverpool er og verður alltaf Liverpool. Það getur víst aldrei neitt gerst án þess að það fylgi einhver dramatík og vesen. Southampton leggja fram kvörtun til enska knattspyrnusambandsins vegna þessa ð Liverpool og Klopp áttu í ólöglegum samskiptum við leikmanninn.

Það er eins og gengur og gerist. Félög gera þetta trekk í trekk og tala nær ávallt fyrst við umboðsmenn og/eða leikmenn áður en einhver alvöru tilboð fara að fljúga á milli félagana. Allir vita þetta og allir gera þetta. Þrátt fyrir það þá fór þetta greinilega í taugarnar á Southampton og þá sérstaklega að það skuli hafa farið fyrst í blöðin að Van Dijk skildi vilja fara til Liverpool eftir að hafa rætt við Klopp. Hvorki leikmaðurinn né Liverpool á að hafa látið Southampton vita og þeir kannski nokkuð skiljanlega fúlir. Allt gott og gilt.

Þá loks byrjar gamanið og Liverpool gefur út yfirlýsingu í kvöld þar sem félagið biðst innilegrar afsökunar á þessum misskilningi og félagið muni nú láta eftir allan áhuga sinn Van Dijk. Auðvitað…

Klopp var ekki bara á því að þetta væri leikmaður sem hann vildi fá heldur var þetta „THE“ leikmaður sem hann vildi fá. Leikmaðurinn, skrifað með stóru L-i. Forgangsfélagsskipti félagsins í sumar og hann var númer eitt. Félagið var búið að sannfæra hann um að koma og var reiðubúið að borga fáranlegar upphæðir fyrir hann, heimsmets upphæð.

Það er því alveg fullkomlega skiljanlegt að Liverpool ákveði að sýna þennan heigulshátt og gangi í burtu frá dílnum án þess að einu sinni leggja fram eitt alvöru formlegt tilboð í hann. Nei, áhuginn er farinn og lífið gengur áfram. We go again!

Þvílíkt djölfulsins kjaftæði er það?!?

Liverpool hefur greinilega gert eitthvað af sér í þessu máli og ætlar ekki að taka neina sénsa og það er bara frekar pirrandi. Einhver hefur lekið þessu út og greinilega mistúlkað stöðuna all svakalega sem lætur félagið líta afskaplega illa út – enn einu sinni!

Félagið er í félagsskiptabanni hvað varðar unga leikmenn innan Englands fyrir nákvæmlega eitthvað svona og hefur áður lent í sömu stöðu varðandi Clint Dempsey fyrir nokkrum árum. Þetta lítur bara mjög illa út og kemur mjög slæmur stimpill á félagið í kjölfarið sem gæti jafnvel hamlað samskipti og traust á milli okkar og annara félaga hvað félagsskipti varðar. Þetta er mjög stórt og alvarlegt mál og svona atvik geta orsakað fjársektir eða jafnvel félagsskiptabönn.

Vinnubrögð Liverpool á félagsskiptamarkaðnum eru oft algjör brandari en þetta er nú það allra versta. Lowest of the low, worst of the worst. Alveg gjörsamlega glatað dæmi!

Kannski er þetta það eina í stöðunni en hamingjan hjálpi mér hvað mér finnst þetta ræfilsleg vinnubrögð hjá félaginu. Að láta þetta allt komast upp, fylgja því ekki eftir með alvöru tilboði og leggjast í fósturstellingu á gólfinu þegar þaðkemur skellinn og stinga þumlinum í kjaftinn á sér. Nei, við erum alveg hættir við plan A og höfum ekki lengur áhuga á leikmanninum sem við vorum tilbúin að eyða fúlgum fjár í og gera eitthvað sem aldrei hefur verið gert áður til að fá í gegn. *Púff* Áhuginn farinn og við förum í plan B. Algjört fucking djók!

Ekki nóg með það að kaup á Van Dijk virðast runnin okkur úr greipum heldur höfum við ekki enn snúið aftur með annað tilboð í Mohamed Salah sem við buðum í fyrir viku og virkaði nú ansi nálægt því að geta klárast. Nú er félagið farið að skoða aðra valmöguleika í staðinn fyrir Salah – en ekki hvað? Ég er alveg viss um að Salah finni all svakalega fyrir ástinni frá Liverpool því það virðist aftur vera að gerast það sama og orsakaði það að hann kom ekki til okkar fyrir nokkrum árum frá Basel.

Við höfum heyrt af því frá því í janúar að Liverpool sé með Naby Keita og Virgil Van Dijk séu aðalskotmörk Liverpool fyrir sumarið og nú er júní ekki einu sinni hálfnaður og við höfum nú séð Van Dijk renna okkur úr greipum og við höfum ekki einu sinni boðið í Naby Keita hingað til.

Síðastliðið ár hefur félagið og þeirra helstu blaðamenn blásið upp helling af leikmönnum og áhuga Liverpool á þeim. Zielinski, Gotze, Chilwell, Dahoud, Pulisic, Brandt, Van Dijk, Keita og eflaust einhverjir fleiri en enginn hefur komið úr þessum hópi og félagið annað hvort ekki sannfært þá um að koma eða þeir endað annars staðar.

Liverpool er ekki að eignast einhverja vini á markaðnum með þessum vinnubrögðum sínum og eru oftar en ekki sjálfum sér verstir. Ég er alveg á því að félagið geti og muni eflaust styrkja sig vel í sumar og allt það en það að vera endalaust að lofa einhverju upp í ermina á sér og blása upp einhver voða flott skotmörk í gegnum fjölmiðla er ekki að skila neinu nema bara hreinlega láta félagið líta illa út ef þeir leikmenn koma ekki.

Sama þó Liverpool kaupi flotta leikmenn í sumar þá er það bara þannig að ef Van Dijk verður ekki leikmaður Liverpool í haust og endar þess í stað hjá Chelsea eða Manchester City þá lítur félagið mjög illa út eftir þetta mál. Stórt félag klárar þetta úr þessu, það reynir – þá vonandi aðeins hljóðlátara en áður – að fá leikmanninn til að þrýsta á sölu og klára dæmið.

Virgil Van Dijk er ekki aðeins frábær varnarmaður sem kæmi til með að styrkja lið Liverpool alveg helling heldur er hann líka sá leikmaður sem Klopp taldi mikilvægasta partinn í liðið fyrir næstu leiktíð og þetta hefði getað orðið risa stórt statement fyrir félagið og framtíðina.

Það er alveg greinilegt að félagið þarf að fara í alvarlega naflaskoðun eftir þetta mál og kæmi mér það ekkert á óvart ef einhverjir hausar myndu fjúka ef rekja mætti þetta til slæmrar vinnubragða eða leka út frá félaginu. Hvort sem Klopp eigi sök að máli eða ekki þá get ég vel trúað að hann sé langt frá því að vera sáttur með það sem er að gerast hjá félaginu þessa stundina.

Elsku Liverpool ef þið lumið á einhverjum jákvæðum fréttum þá er tíminn til að opinbera þær sem fyrst, við þurfum svakalega á góðum viðbrögðum og jákvæðum fréttum að halda því þetta er gjörsamlega fáranlega vandræðaleg staða sem félagið er komið út í. Hvernig í ósköpunum ætlið þið að klóra ykkur út úr þessu, þolinmæði stuðningsmanna gagnvart ákveðnum þáttum innan félagsins virðist gjörsamlega hanga á bláþræði.

Tilboði í Salah hafnað

Uppfært: Í kvöld eru allir áreiðanlegu Liverpool tengdu miðlarnir að greina frá því að Liverpool muni að öllum líkindum snúa aftur til Roma með tilboð upp á rúmlega 35 milljónir punda í Salah og er mjög líklegt að því yrði tekið.

Það virðist því margt benda til að Mohamed Salah gæti orðið leikmaður Liverpool á næstu dögum og líklega hrint þar af leiðandi Andy Carroll af stalli sem dýrustu kaup félagsins – en ekki í langan tíma ef marka má sömu fréttir því Liverpool mun reyna að klára kaup á leikmönnum sem gætu reynst dýrari en Salah.

Frábært ef satt reynist og vonandi verður Salah orðinn leikmaður Liverpool á þessum tíma í næstu viku. Continue reading

Punktar varðandi sumarið

Það eru nokkrir hlutir sem hafa verið í hausnum á mér undanfarna daga og ég tjáð mig um á Twitter annað slagið. Ég ætla að henda þeim fram hér í annars svona nokkuð opnum pistli.

Mikilvægi Meistaradeildarsætis ofmetið?
Í svo langan tíma hefur mikilvægi Meistaradeildarsætis verið troðið í andlitið á okkur og okkur eiginlega sagt að liðið gæti ekki farið upp á næsta stig nema komast þangað. Takist okkur það þá fáum við betri leikmenn, meiri pening og allt það. Gulrótin fyrir framan nefið á okkur og gullkistan við enda regnbogans.

Nú erum við loks komin í þá stöðu að Liverpool er með þátttökurétt í keppninni sem er alveg frábært og þar af leiðandi eigum við séns í bestu leikmenn heims aftur, ekki satt?

Ég ætla að gerast svo neikvæður og fúll og segja að það sé hreinlega ekki þannig. Liðið er í annað skipti í Meistaradeildinni á síðustu sjö árum eða eitthvað álíka og það er nú ekkert sérlega sterkt þannig séð. Liverpool er sagt vera á eftir svipuðum leikmönnum og félög eins og Chelsea og Manchester City sem eru mun reglulegra í Meistaradeild og titilbaráttu en Liverpool og því töluvert „öruggara“ að fara þangað en til liða eins og t.d. Liverpool eða Tottenham sem hafa verið inn og út úr keppninni á síðasta áratugnum.

Tökum bara sem dæmi Virgil Van Dijk sem er sagður á óskalista Liverpool, Chelsea og Man City – gæti maður áfellst honum að velja frekar að fara í „öruggara“ umhverfið í Chelsea eða Man City en hjá Liverpool?

Fyrir mitt leiti þarf að sýna fram á að þetta sé ekki undantekningaárið og Liverpool verði mun tíðari gestur í titilbaráttu og Meistaradeild áður en félagið stendur þessum liðum jafnt að vígi hvað þetta varðar. Er það hægt ef maður missir af þessum leikmönnum? Það er erfitt að segja.

Value for money?
Peter Moore er nýtekinn við sem stjórnarformaður Liverpool og var nú ekki lengi að koma sér á milli tannana hjá stuðningsmönnum eftir eitt viðtal, sem ég persónulega fatta ekki alveg.

Hann talaði um þetta klassíska „value for money“ sem hefur haldist í hendur við Liverpool á félagsskiptamarkaðnum og hér eru þeir punktar sem virðast stuða fólk hvað mest:

„Everyone wants to see massive money but my business background is buying talent at the right price. We have a kid called Philippe Coutinho who cost £8m, and he is as good as other guys who cost four or five times as much. What I am about, and what I believe this club is about, is making good business decisions.“

Þarna talar hann um ansi eðlilegan hlut að mínu mati um að það sé hægt að finna gott verðmæti á markaðnum og að félagið stefni á að reyna að kaupa leikmenn á „réttu“ verði og reyna að komast hjá því að þurfa að yfirbjóða í alla leikmenn sem liðið hyggst kaupa.

Hitt sem hefur verið á milli tannana á fólki er að hann talaði um að þó að t.d. Manchester City séu að eyða hundruð milljónum punda í leikmannakaup þá þýði það ekki endilega að Liverpool þurfi að gera það sama einfaldlega bara af því að einhver annar geri það. Liverpool þurfi að einblína á að gera sitt og gera það vel en þurfi ekki að eyða jafn mikið og hinir alveg upp á pund. Þó maður vilji nú sjá Liverpool eyða stórum fjárhæðum í kaup þá hlýtur þetta nú að teljast fullkomlega eðlileg hugsun, ekki satt?

Aftur á móti þar sem verðmat á markaðnum er gjörsamlega upp úr öllu valdi þá gæti það reynst félaginu afar erfitt að standa fast á sínu þarna því leikmenn virðast alltaf enda á að kosta eitthvað meira en þeir ættu að gera.

Notum aftur Virgil Van Dijk sem dæmi. Þar sem mikill áhugi frá Man City, Chelsea, Liverpool og fleirum er á honum þá flýgur upp verðmatið á honum og er nú talað um fimmtíu til sextíu milljónir punda sem þarf til að kaupa hann frá Southampton og ofan á það þá gæti hann endað á að fá hátt í 200 þúsund pund í vikulaun hjá nýju félagi. Þetta er miðvörður – mjög góður miðvörður – en come on, þessar upphæðir er eitthvað sem maður hefur séð framherja vera að fara á.

Því miður, ég hreinlega sé ekki fyrir mér að Liverpool taka svona allt í einu upp á að tvöfalda sín dýrustu félagsskipti og borga svipaðan launapakka og leikmenn eins og Coutinho, Suarez og Gerrard hafa verið á fyrir miðvörð. Framherji, kantmaður, miðjumaður er allt annað en miðvörður, nei ég sé það bara ekki gerast. Bilið á milli 60 milljóna punda miðverði og einhverjum sem kostar kannski 30 milljónir punda er hreinlega ekki eins langt og fyrir framherja á sama verði. Er Van Dijk jafn mikils virði og t.d. bæði Matip og Lovren myndu vera í kaupverði og launum á viku? Nei, ég held ekki. Það er einn miðvörður í heiminum sem ég myndi „réttlæta“ svona fé á og það er Sergio Ramos og er það aðallega bara af því að hann skorar stór mörk sem vinna titla.

Er alltaf eldur þar sem þar er reykur?
Ef við horfum til baka á síðasta sumar þá erum við alveg nokkuð sátt með þann félagsskiptaglugga, ekki satt?

Sadio Mane, Gini Wijnaldum, Joel Matip komu allir beint í liðið og gerðu mjög vel. Ofan á það komu nokkrir efnilegir leikmenn og reyndur Klavan sem við náðum að fá nokkrar góðar frammistöður út úr. Fínn gluggi og heilt yfir líklega enn af betri gluggum félagsins í langan tíma.

Ef við skoðum hann frá öðru sjónarhorni þá getum við litið á þetta sumar sem nokkuð slæmt líka. Alveg frá janúar glugganum fyrr á síðasta ári þá fórum við að sjá „óskalista“ Liverpool dragast upp. Ben Chilwell, Mahmoud Dahoud, Piotr Zielinski, Mario Gotze, Christian Pulisic, Jonas Hector og Ousmane Dembele voru meðal þeirra nafna sem mikil læti voru í kringum og „Liverpool pressan“ var dugleg að slengja fram þessum nöfnum og þótti þetta nær alveg bókað að flestir þessara leikmanna myndu koma á Anfield.

Annað kom á daginn og einhverjir enduðu í öðrum liðum á meðan hinir urðu um kyrrt. Ef þessir leikmenn voru, eins og sagt var, helstu skotmörk Liverpool fyrir sumarið er þá ekki bara nokkuð slæmt að enginn þeirra hafi endað hjá félaginu?

Julian Brandt, Mohamed Salah, Virgil Van Dijk, Ryan Sessegnon og Naby Keita eru þau nöfn sem hafa verið á milli tannana hjá þessum sömu blaðamönnum síðan snemma á árinu og því spyr maður sig hreinlega hvort að þessi nöfn séu hreinlega sönn eða að minnsta kosti minni forgangsatriði en af er látið eða hefur Liverpool misst af þessum leikmönnum í fyrra og nú virðast nöfnin af þessum lista nokkuð líkleg til að detta út. Getur Liverpool ekki klárað samninga við sín helstu skotmörk á markaðnum eða er verið að villa fyrir okkur?

Síðasta sumar þá komu fréttirnar af t.d. Karius, Mane, Wijnaldum og Klavan mjög fljótlega áður en að kaupin kláruðust. Sama má segja um t.d. Firmino og Benteke í fyrra. Það liðu ekki nema einhverjar tvær til fjórar vikur frá fyrstu fréttum um áhuga Liverpool á leikmanninum eða fyrsta tilboði og frá því að kaupin voru staðfest, allt nokkurn veginn upp úr þurru. Kaupin á Dominick Solanke komu nokkurn veginn mjög óvænt fram svo það verður afar forvitnilegt að sjá hvernig sumarið þróast – ég vona að ég hafi rangt fyrir mér en samkvæmt þessu þá gæti verið afar ólíklegt að einhver af Brandt, Van Dijk, Keita eða Salah endi hjá Liverpool – sá síðasti er nýlegasti orðrómurinn svo kannski þar af leiðandi líklegastur!

Southampton á morgun

Á morgun mun Southampton heimsækja Liverpool í 36.umferð deildarinnar og er mjög mikið í húfi fyrir Liverpool í þeim leik en í raun ekkert merkilegt fyrir Southampton nema það að þeir geta hoppað aðeins upp töfluna en það gefur þeim ekkert nema einhvern smá heiður og kannski smá auka pening í kassann. Ef okkar menn mæta ekki í þennan leik og verður sá aðili sem vill vinna leikinn meira en hinn þá verð ég afar vonsvikinn.

Þrír leikir eftir og þetta er allt í okkar höndum. Við verðum bara að klára okkar og þá verðum við í Meistaradeildinni að ári. Á morgun mun að öllum líkindum eitt lið falla úr baráttunni um eitt af efstu fjórum sætunum og verður það líklega annað hvort Arsenal eða Man Utd sem munu mætast innbyrðis eftir Liverpool leikinn. Sigur gæti því farið mjög langt með að klára þetta fyrir okkur og maður setur hreinlega kröfuna á það.

Man City þurftu auðvitað að vera með eitthvað vesen í dag og rústuðu sínum leik 5-0 og eru því með jafn mörg stig og við en eru nú komnir fyrir ofan á markatölu. Það virðist stefna í mjög jafna baráttu á milli fjögurra liða um tvö sæti og getur hvert einasta mark og hvert einasta stig, unnið eða tapað, vegið þungt í lok leiktíðar það má því ekki mikið út af bregða hjá okkar mönnum.

Coutinho ætti líklega að vera klár fyrir leikinn eftir að hafa fengið smá högg á fótinn í sigurleiknum á Watford í síðustu umferð. Lallana mætti aftur fyrir þann leik og Sturridge er klár svo hópurinn er bara heilt yfir nokkuð fínn.

Mane og Henderson eru enn frá vegna meiðsla eins og búist var við. Maður er farinn að hafa töluverðar áhyggjur af þessum meiðslum hjá Henderson sem áttu nú í upphafi ekki að vera talinn sérlega alvarleg en það eru ansi margar vikur síðan hann var sagður „tæpur“ fyrir fyrsta leik eftir þessi meiðsli.

Southampton hefur ekkert gengið eitthvað sérstaklega vel undanfarið og verða án Virgil Van Dijk (sem er vonandi verðandi Liverpool leikmaður fyrir næstu leiktíð!) og gæti munað um hann í vörn þeirra því hann hefur nú náð að þagga heldur betur í sóknarmönnum okkar í þessum tveimur leikjum sem við höfum mætt þeim í vetur.

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Can – Lucas – Wijnaldum

Lallana – Firmino – Coutinho

Ef Coutinho er tilbúinn í að byrja leikinn, sem ég myndi nú giska á, þá held ég að eina breytingin sem Klopp gerir á liðinu verði sú að Lallana muni koma inn í byrjunarliðið og þá líklega á kostnað Divock Origi. Ég væri alveg til í að sjá annað hvort Origi eða Sturridge byrja en finnst líklegra að Klopp vilji koma Lallana inn í liðið og þá líklega á þeirra kostnað.

Fínt lið nær sama hvernig þetta yrði sett upp og á að vera nógu sterkt að mínu mati til að klára þennan leik á morgun. Klárum okkar leik og fylgjumst svo með Arsenal og/eða Man Utd tapa stigum í leiknum sem fylgir í kjölfarið.

Frammistaða liðsins í leikjunum upp á síðkastið hefur verið svona upp og niður og kannski heilt yfir ekki nógu sannfærandi en við höfum náð að klára dæmið í flestum síðustu leikjum og það er það sem máli skiptir. Ég tæki alveg klárlega aftur einhvern erfiðan eins marks sigur og þrjú stig en það væri nú ekki verra að sjá góða spilamennsku, öruggan sigur og vonandi fleiri mörk en sjáum til – ætla nú ekki að verða of frekur hérna.

Við erum svo nálægt því að tryggja okkur aftur inn í Meistaradeildina og Liverpool bara plís, ég grátbið ykkur – ekki fuck-a þessu upp!