Allar færslur eftir Ólafur Haukur

Stórleikur á laugardaginn

Í hádeginu á laugardag mun Liverpool heimsækja Old Trafford og etja kappi við Man Utd í leik sem gæti endað á að vera afar mikilvægur í baráttu beggja liða um að tryggja sig í eitt af efstu fjórum sætum deildarinnar. Staðan í þessari baráttu er afar jöfn en Liverpool er fyrir leikinn með 60 stig í þriðja sætinu, tveimur á undan Tottenham og tveimur á eftir Man Utd en á sjö stig á Chelsea í fimmta sætinu. Sigur fyrir annað liðið í þessum leik gæti komið því í ansi þægilega stöðu.

Þegar liðin mættust fyrr á leiktíðinni var engin rosaleg flugeldasýning í markalausu jafntefli þar sem upplegg liðana varð gjörólíkt og gestirnir fengu akkúrat það sem þeir vildu úr þessum leik, stig á útivelli. Það má alveg reikna með svipuðu uppleggi í þessum leik nema ég vænti þess að sjá Man Utd ögn framar en engu að síður munu þeir leitast eftir því að drepa niður hraðann og plássið á vellinum með þeim tilgangi að núlla út helstu styrkleika Liverpool.

Bæði lið hafa verið á ágætis skriði undanfarið en í síðustu umferð vann Liverpool góðan og þægilegan 2-0 sigur á Newcastle á heimavelli en Man Utd þurfti að hafa aðeins meira fyrir sínum sigri gegn Crystal Palace á útivelli en þeir lentu 2-0 undir og unnu 3-2 í blálokin.

Af okkar mönnum er held ég bara allt fínt að frétta. Ekkert hefur heyrst af óvæntum meiðslum og má reikna með að Gini Wijnaldum verði aftur klár í slaginn eftir að hafa fengið niðurgang. Má segja það hér? Ef Klopp má segja þetta á blaðamannafundi af hverju má ég ekki segja það hér? Ok, afsakið. Hann var með magakveisu.

Henderson á að hafa haltrað aðeins eftir leikinn gegn Porto í miðri viku en eflaust ekkert alvarlegt þar. Ef hann verður á bekknum þá held ég að það sé frekar vegna þess að hann spilaði tvo leiki í síðustu viku og kannski ekki alveg með skrokkinn í þann þriðja. Salah fékk fína hvíld og þeir Mane og Firmino spiluðu stutt gegn Porto svo þeir ættu að vera ferskir.

Ég býst nokkuð fastlega við því að þeir sem voru teknir úr liðinu eftir leikinn gegn Newcastle muni koma aftur inn. Salah kemur klárlega inn ásamt Van Dijk og ég held að þeir Trent Alexander Arnold og Chamberlain komi sömuleiðis inn aftur ásamt Robertson.

Karius

TAA – Van Dijk – Lovren – Robertson

Chamberlain – Can – Milner

Salah – Firmino – Mané

Ég ætla að giska á að þetta verði byrjunarliðið gegn Man Utd og svona nokkurn veginn það sem ég myndi vilja sjá. Eins og áður segir þá held ég að Henderson fari ekki að byrja þrjá leiki í röð en ef hann er maður í það þá mun hann byrja. Chamberlain var mjög sprækur gegn Newcastle og er með kraft og hraða sem gæti nýst mjög vel í þessum leik. Milner hefur leikið frábærlega undanfarnar vikur og ætti að vera í liðinu en hann fékk hvíld gegn Newcastle um síðustu helgi.

Van Dijk er fast nafn þarna í miðverðinum en Klopp hefur verið að rótera aðeins þeim sem er með honum. Lovren byrjaði gegn Newcastle og ef ég fengi einhverju ráðið myndi ég frekar vilja sjá hann byrja en Matip í þessum leik. Liðið er að fara að mæta mjög hávöxnu og physical liði sem mun væntanlega spila Lukaku sem fremsta manni og því fínt að hafa tvo af bestu skallamönnunum og líkamlega sterkari leikmönnum sem við eigum gegn þeim. Það gæti til dæmis verið ein ástæða þess að Klopp myndi notast við Henderson á miðjunni í stað t.d. Milner eða Chamberlain en er ekki viss um að það verði raunin.

Þetta verður áhugavert verkefni en leikir þessara liða eru oft mjög taktískir, varkárir og oft bara frekar leiðinlegir. Það gæti orðið breyting þar á ef Liverpool skorar fyrst og nær að draga þétt og agað lið Man Utd úr skotgröfunum. Þetta er eitt af þeim liðum sem hentar Liverpool oft mjög illa að mæta ef þeir hyggjast verjast eins djúpt og síðast þegar þau mættust. Því gæti mark snemma leiks orðið afar öflugt vopn fyrir Liverpool en ef ekki þá mun þetta krefjast mikillar einbeitingar og þolinmæði því ég efa ekki að þeir muni reyna að drepa niður allt tempó í leiknum.

Kannski kemur eitthvað á óvart og dæmið snýst við þar sem Liverpool ákveður að liggja til baka, fá Man Utd á sig og freista þess að ná að fella þá á skyndisóknum. Hver veit? Mér þykir ansi erfitt að lesa í þessar viðureignir því mér þykir þær oft svo furðu óútreiknanlegar. Síðustu þrír leikir þessara liða í deildinni hafa endað í jafntefli og hinn með 1-0 sigri ef ég man rétt – það má því alveg vænta þess að það verði eitthvað svipað upp úr teningnum núna.

Ég er bjartsýnn, vongóður og farinn að setja þá frekjulegu kröfu á að Liverpool nái úrslitum sama á móti hverjum þeir spila og hvar þeir mæta þeim. Man Utd á Old Trafford? Ég vil sigur og vonandi fáum við slíkann og komum okkur í bílstjórasætið í þessu kapphlaupi.

Ég vil svo endilega benda á frábæra upphitun í podcastinu í færslunni fyrir neðan þar sem Kristján Guðmundsson mætti með strákunum að hita upp fyrir leikinn. Tékkið á því!

Liverpool í átta liða úrslitin!

Liverpool og Porto gerðu markalaust jafntefli á Anfield sem þýðir að Liverpool siglir áfram í næstu umferð með 5-0 samanlagðan sigur á Porto.

Eins og við mátti búast spilaðist leikurinn þannig að augljóst var að annað liðið hafði fimm marka forystu eftir fyrri leikinn og var hann nokkuð rólegur heilt yfir en Liverpool stjórnaði allri ferðinni og hefðu í raun átt að klára leikinn með sigri.

Klopp gerði þó nokkrar breytingar á byrjunarliðinu frá því í síðasta leik en þeir Chamberlain, Van Dijk, Robertson, Alexander Arnold og Salah byrjuðu ekki í dag en liðið engu að síður nokkuð öflugt.

Karius

Gomez – Matip – Lovren – Moreno

Milner – Henderson – Can

Lallana – Firmino – Mané

Liverpool byrjaði leikinn nákvæmlega á sama hátt og þeir enduðu hann. Þeir pressuðu ákaft á leikmenn Porto, komu þeim úr jafnvægi og unnu af þeim boltann sem þeir héldu svo lengi og reyndu að finna opnanir. Fullkomin stjórn á leiknum og Porto gerðu nær ekkert í þau skipti sem þeir komu yfir á vallarhelming Liverpool.

Maður skynjaði nú alveg að það vantaði ákveðinn takt í sóknarleiknum í kvöld og að menn voru innst inni ekkert í lífsnauðsynlegri þörf á að skora mörk í kvöld. Mane fékk tvö færi í fyrri hálfleik, annað þegar hann hoppar upp í fyrirgjöf Gomez en nær ekki að stýra boltanum á markið og hitt var þegar hann átti kraftmikið skot sem endaði í stönginni. Lovren átti svo fínan skalla sem fór yfir markið og ef ég man rétt þá var þetta það mest marktækasta úr fyrri hálfleiknum.

Klopp skipti óvenju snemma og tók Firmino útaf – sem, líkt og fyrri daginn, var frábær í pressunni fram á við þó hann hafi líkt og aðrir ekki alveg verið í taktinum fram á við. Danny Ings kom inn á í hans stað og var mjög líflegur. Það er gaman að sjá hann aftur á vellinum og hann er í rosalega flottu standi líkamlega þrátt fyrir að hafa misst úr nær rúmlega tvær leiktíðir vegna slæmra meiðsla. Hann átti tvo góða skalla að marki og í annað skiptið þurfti Iker Casillas, í marki Porto, að taka á honum stóra sínum til að blaka boltanum framhjá.

Lovren átti frábæra björgun seinni part leiks þegar hann hoppar fyrir skot af stuttu færi í teignum og bjargaði mjög líklega marki. Salah kom inn á þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum og minnti á að hann er ógeðslega góður en tókst ekki að gera það sem gera þurfti til að klára leikinn.

Ég veit nú ekki hvað skal segja meira um þennan leik nákvæmlega. Viðureignin var unnin í fyrri leiknum og þetta kvöld því aðeins formsatriði að spila þessar 90 mínútur og að tapa ekki 6-0, það var nákvæmlega það sem var gert. Porto fengu engan séns í leiknum og leikmenn Liverpool fengu ágætis æfingaleik til að vonandi brýna hnífa sína fyrir stórleikinn á laugardaginn.

Það er í raun ekki einhver ákveðinn sem stendur upp úr í vali á manni leiksins. Allir þrír á miðjunni voru góðir. Henderson fannst mér virkilega góður, Can var gjörsamlega út um allt og James Milner var flottur – sá er búinn að vera frábær síðustu vikur by the way!

Lallana var frekar daufur frannst mér á vængnum og þegar hann og Gomez voru saman á hægri vængnum þá fannst mér við rosalega bitlausir og vanta meiri áræðni. Hann nældi sér í góðar 90 mínútur sem hann þarf til að komast í stand. Mane minnti ágætlega á sig í leiknum og Firmino var fínn en vantaði ögn upp á frammi fannst mér. Moreno átti mjög líflega spretti en vantaði að stilla miðið í fyrirgjöfum og skotum sínum. Ings var líflegur þegar hann kom inn á og Salah líka. Lovren fannst mér mjög flottur þegar á reyndi en fannst Matip ekki eins dominerandi. Veljið einn af þessum þremur sem voru á miðjunni í dag og réttið honum titilinn, mér er sama hvern þið takið þeir ættu það allir skilið.

Já og Emre Can, viltu bara vinsamlegast hætta þessu „play hard to get“ bulli þínu og skrifa undir nýjan samning við Liverpool, takk!

Liverpool er komið í fyrsta skiptið í örugglega – guð má vita hvað mörg ár, ég er ekki einu sinni viss um að það hafi verið búið að finna upp á ljósaperunni þegar það var!

Við fögnum þessu stóra skrefi í rétta átt og sjáum nú á næstu sjö til átta dögum hvaða liðum við getum mætt í næstu umferð en þangað til við komumst að því þá er erfiður útileikur í hádeginu á laugardag þegar Liverpool heimsækir Man Utd í leik sem getur spilað stóra rullu í topp fjögur baráttunni svo það er fínt að leikmenn hafi fengið ágætis hvíld í kvöld.

Liðið gegn Porto

Klopp hefur valið liðið sem mun byrja seinni leikinn gegn Porto í sextán liða úrslitum Meistardeildarinnar í kvöld en liðið stendur ansi vel að vígi eftir 5-0 sigur í Portúgal. Það er því nokkuð skiljanlegt að Klopp gefi nokkrum leikmönnum smá hvíld og öðrum séns fyrir leikinn gegn Man Utd um helgina.

Karius

Gomez – Matip – Lovren – Moreno

Can – Henderson – Milner

Lallana – Firmino – Mané

Bekkur: Mignolet, Van Dijk, Salah, Klavan, Chamberlain, TAA, Ings

Það er því ansi sterkt lið í dag þó svo að nokkrir leikmenn setjis á bekkinn. Matip kemur inn fyrir Van Dijk í miðvörðinn, Robertson er eitthvað smávægilega meiddur og Moreno kemur í hans stað. Gomez tekur við bakvarðarstöðunni af Alexander Arnold. Milner kemur á miðjuna fyrir Chamberlain, sem var frábær um síðustu helgi, og Lallana kemur inn fyrir sjóðheitan Salah. Sterkt lið og sterkur bekkur sem ætti að sjá út þennan leik og klára einvígið.

Líst vel á þetta og vonandi fáum við góðan leik í kvöld!


Huddersfield 0-3 Liverpool

26.mín 1-0 Emre Can
45.mín 2-0 Roberto Firmino
78.mín 3-0 Mo Salah

Liverpool vann afar, afar, afar mikilvægan og þarfan sigur á Huddersfield í kvöld og var það klárlega eitthvað sem allir stuðningsmenn, leikmenn, þjálfarar, ræstitæknar, kokkar… félagsins þurftu á að halda eftir tvo ömurlega tapleiki í röð gegn Swansea og WBA.

Leikurinn fannst mér byrja svona frekar stirt og leit ekkert rosalega vel út en ekki leið að löngu þar til Liverpool tók öll völdin á vellinum. Karius átti ágæta vörslu þegar Huddersfield komst í fínt færi en skot sóknarmannsins rataði nokkurn vegin beint á Karius sem varði fínt – ekki oft sem maður sér eitthvað svona falla með Liverpool!

Liverpool jók pressuna á Huddersfield í kjölfarið og braut loks ísinn þegar Emre Can átti fast skot fyrir utan teig sem straukst aðeins við varnarmann Huddersfield en endaði í markinu. Gott mark hjá Can og afar mikilvægt fyrir Liverpool.

Rétt fyrir hálfleik datt boltinn einhvern veginn fyrir Firmino sem slapp í gegn og hljóp meðfram endalínunni vinstra meginn og tókst að lauma boltanum á nærstöngina og skoraði laglegt mark og kom Liverpool í mjög góða stöðu þegar flautað var til hálfleiks. Frábært mark hjá Firmino sem var að skora sitt nítjánda mark á leiktíðinni, það ellefta í deildinni. Svakalegt stökk hjá honum í markaskorun í vetur sem er bara frábært.

Seinni hálfleikur byrjaði svipað og sá fyrri endaði. Sadio Mane átti skalla eftir flotta fyrirgjöf Can en skallinn sem var af löngu færi endaði nokkuð beint á markvörð Huddersfield. Milner átti fínt skot nokkru seinna en aftur nokkuð beint á markvörðinn sem sló boltann yfir markið.

Emre Can og Sadio Mane léku sama leikinn aftur þegar Can lyfti boltanum inn á Mane sem skallaði af löngu færi og náði meiri kraft í skallann en boltinn fór framhjá. Salah slapp svo framhjá markverði Huddersfield en var á miklum hraða úr þröngu færi og skot hans fór í hliðarnetið.

Liverpool fékk vítaspyrnu þegar Emre Can var keyrður niður á 76.mínútu sem Salah tók og skoraði af miklu öryggi og skoraði sitt 26.mark í vetur. Eftir það lét Liverpool leikinn nokkurn veginn bara fjara út og vann sannfærandi og góðan 3-0 sigur.

Þessi sigur var afar kærkominn eftir tvo ömurlega tapleiki gegn tveimur neðstu liðum deildarinnar. Þetta var klárlega skyldusigur en líkt og sást í síðustu tveimur leikjum þá geta þessir leikir verið erfiðir ef menn eru ekki með fótinn á bensíngjöfinni og hausinn í lagi.

Heilt yfir spilaðist þessi leikur nákvæmlega eins og hann ætti að hafa spilast. Karius hafði lítið að gera í markinu en tók þennan eina bolta sem hann þurfti að hafa áhyggjur af – það er ekki sjálfgefið hjá Liverpool. Vörnin var þétt og góð með þá Matip og Lovren í miðvörðunum. Sturluð staðreynd en Joel Matip átti víst 161 sendingu í þessum leik sem er það mesta sem leikmaður Liverpool hefur átt í Úrvalsdeildinni frá því farið var að skrá niður slíka tölfræði!

Gomez var þéttur til baka í hægri bakverðinum en gerði lítið fram á við á meðan að Robertson var virkilega öflugur fram á við og var mikið í boltanum. Flottur strákur þar á ferð sem ég held að sé að eigna sér þessa stöðu þessa dagana.

Milner var líflegur á miðjunni og átti nokkrar góðar rispur. Henderson byrjaði leikinn eftir meiðsli og var virkilega flottur, hann var út um allt og stýrði þessu vel. Frábært að fá hann aftur inn í myndina. Emre Can stal hins vegar senunni og var klárlega maður leiksins. Hann skoraði gott mark, hefði getað lagt upp tvö og vann víti. Frábær leikur hjá honum og elsku Emre minn, viltu vinsamlegast hætta að daðra við önnur lið og skrifa bara undir þennan blessaða samning við Liverpool.

Salah var líflegur og skoraði sitt 26.mark á leiktíðinni og það nítjánda í deildinni. Þvílík kaup sem hann hefur verið. Var ánægður með að sjá að hann vildi fá að fara á punktinn og skemmtilegt að sjá að boltinn var varla farinn yfir línuna þegar hann snýr sér í átt að Milner og þakkar honum fyrir að hafa gefið honum spyrnuna. Hann er enn að skora mörk sem er frábært.

Sadio Mane var líflegur og reyndi og reyndi og reyndi en líkt og fyrri daginn þá er touch-ið hjá honum bara eitthvað off og hann virðist oft vera að ofhugsa hvern einasta hlut sem hann reynir of mikið. Komst í tvær góðar stöður sem voru nokkurn veginn nákvæmlega eins en skallar hans rötuðu ekki í netið. Hann á helling inni og mikið hlakka ég til þess að hann finni aftur taktinn.

Roberto Firmino var flottur og var góður í tengingunni á milli miðju og sóknar. Hann skoraði stórglæsilegt mark sem minnti ansi mikið á mark sem Luis Suarez skoraði hér um árið. Firmino er algjör töffari, hann er afar furðulegur leikmaður en mikið anskoti er hann góður og ekki skemmir fyrir að hann sé farinn að skora meira en hann hefur verið að gera til þessa. Frábær nía og lykillinn í sóknarleik Liverpool.

Sem stendur er Liverpool með átta stiga forskot á Arsenal sem tapaði í kvöld gegn Swansea og með fimm stiga forskot á Tottenham sem mætir Man Utd annað kvöld en það síðarnefnda er þremur stigum meira en Liverpool. Úrslitin í þeim leik munu því líklega hagnast Liverpool eitthvað sama hvernig fer og það er fínt.

Á morgun er deadline day og ég reiknaði nú með að verða alveg kraft pirraður eftir leikinn og nota þessa skýrslu til þess að blása út og tala um það hvað mér finnst það ógeðslega, viðbjóðslega, fáranlega heimskulegt að selja Coutinho á miðri leiktíð án þess að kaupa í staðinn og sitja á peningnum og leggja allan árangur sem gæti náðst á leiktíðinni að veði – en ég læt það bíða. Ég er sáttur með sigurinn og leikinn, ég er jákvæður og sé fyrir mér að geta náð smá hvíld í kvöld svo ég geti leyft mér að vera ógeðslega pirraður á Twitter á morgun þegar öll liðin í kringum okkur opinbera einhver kaup á meðan við sitjum og gerum ekki neitt.

Um næstu helgi mætum við Tottenham á Anfield og ef úrslitin falla á þann veg þá gætum við verið átta stigum ríkari en þeir þegar sá leikur klárast en sjáum hvað setur. Það er nóg að spá í fram að því.

Klopp kom með smá cliffhanger eftir leik svo fylgist með Kop.is á deadline day á morgun! :)

Þetta quote hans þýðir að ég mun ekki komast hjá því að refresha Twitter eins og brjálæðingur á morgun. Takk kærlega fyrir þetta Klopp!

Liðið gegn Huddersfield

Klopp gerir töluvert af breytingum á byrjunarliðinu í kvöld en það eru alls sex breytingar á liðinu frá tapleiknum gegn WBA í bikarnum.

Karius

Gomez – Matip – Lovren – Robertson

Henderson – Can – Milner

Salah – Firmino – Mane

Bekkur: Mignolet, TAA, Solanke, Chamberlain, Wijnaldum, Ings, Van Dijk

Karius kemur aftur í markið, Gomez og Robertson mæta aftur í bakverðina, Lovren í miðvörðinn í stað Van Dijk sem átti að hafa verið eitthvað tæpur. Henderson og Milner koma inn á miðjuna í stað Wijnaldum og Chamberlain sem hafa ekki átt góða leiki undanfarið – ekki frekar en Emre Can sem heldur þó stöðu sinni. Framlínan óbreytt.

Sjáum hvað setur. Þrjú stig í kvöld, annað er bara ekki í boði.

Við minnum svo á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.