Allar færslur eftir Magnús Þórarinsson

Upphitun: WBA á Anfield

Eftir að hafa misst grannaslaginn gegn Everton niður í grútfúlt jafntefli þá er röðin komin að WBA á heimavelli. Leikurinn sem samba-sóknardúettinn okkar var sparaður fyrir og Púlarar því með vonir og væntingar um bót og betrun frá hinni sögulegu sóun síðasta leiks. Allir elska margra marka afsökunarbeiðni til að lægja öldurnar á Rauða hafinu og við biðjum því til Móses um slíka friðargjöf.

Það er komið að upphitun!

Continue reading

Liverpool 3 – 0 Maribor

Liverpool mætti Maribor í annað skiptið á hálfum mánuði og eftir 7 marka slátrun í Slóveníu voru gestirnir mættir á Anfield til að bjarga stoltinu.

Leikurinn

Upplegg gestanna bar þess brennimerki að þeir ætluðu að forðast eldinn í lengstu lög og öryggið var sett á oddinn frá upphafi. Lágu aftarlega með lítið sem ekkert andrými á milli varnar- og miðjulínu. Lái þeim hver sem vill og ekkert óeðlilegt við slíka nálgun á sögufrægum stað þar sem mörg frægari lið hafa fengið flengingar.

Og taktíkin gekk upp til að byrja með. Liverpool voru margfalt meira með boltann en lítið var um opnanir og því síður markfæri. Eftir akadamískt korter var fátt annað að frétta af norðurensku vígstöðvunum en að Wijnaldum hafði snúið sinn ágæta ökkla og Henderson fyrirliði kom inná í staðinn. Hálffærunum fjölgaði og eftir hálftíma leik átti Firmino skot sem fór af varnarmanni og stefndi í áttina að Samúel. Hinn 39 ára Jasmin Handanovic (frændi Samir hjá Inter) var sem köttur í markinu og varði boltann með loppunum í vinkiltréverkið. Fátt markvert gerðist utan þetta og staðan 0-0 í hálfleik.

Það var sem endurtekið efni væri í gangi frá helginni áður gegn Huddersfield því að Rauðliðar mættu einbeittir til leiks eftir hálfleiksræðu á hochdeutsch. Blessunarlega tókst okkar mönnum að brjóta ísinn snarlega og á 49. mínútu sendi Alexander-Arnold eitraða sendingu sem Mo Salah sneiddi með hælnum í netið. Skemmtilegt mark og vel að því staðið.

Anfield lifnaði við og tempóið í sóknarfærslum jókst að sama skapi. Firmino framkvæmdi brasilískt galdraverk með hælklobba á Rajcevic í vítateignum sem verðlaunaði listamanninn með því að brjóta á honum. Víti! Upp steig hin þindarlausa og þaulvana vítaskytta James Milner sem flestir hefðu veðjað bjórsjóðnum á að myndi klára slík skylduverk en Jasmin frændi var á öðru máli og varði glæsilega í tréverkið öðru sinni í leiknum. Örstuttu síðar varði hinn frækni frændi frá Firmino í góðu færi og kom sér kirfilega á lista markmanna sem eiga leik lífs síns á móti Liverpool.

Til þess að hrella okkar Púlara í tilefni hrekkjavökunnar þá skelltu Maribor sér beint í kjölfarið í hættulega sókn og voru nærri því að skora í sínu fyrsta alvöru færi í leiknum. Á 64. mínútu kláruðum við þó leikinn að mestu þegar að Can og Milner áttu frábært samspil við teiginn og hinn hárfagri Þjóðverji smellti glæsilegri innanfótar snuddu niðri við stöng. Eftir þetta datt leikurinn nokkuð niður með nokkrum innáskiptingum en þó áttu Maribor 1-2 hálffæri og fyrnafast langskot sem Karius varði vel. Á 90. mínútu skellti varamaðurinn Sturridge góðri slettu af glassúr á snúðinn með því að skora í teignum eftir fyrirgjöf Moreno og sitt annað mark í tveimur leikjum.

3-0 fer í sögubækurnar þrátt fyrir eilítið japl og juml og fuður til að byrja með.

Bestu menn Liverpool

Flestir leikmenn fóru ekki mikið upp úr 2. gírnum í kvöld en góðar frammistöður ber að nefna hjá Salah, Firmino, Alexander-Arnold og Moreno sem allir voru líflegir og lögðu sitt af mörkum. Minn maður leiksins er Emre Can sem mér fannst gefa sig allan í leikinn frá upphafi til enda með baráttu, tæklingum og áræðni. Hann uppskar sem hann sáði og skoraði glæsilegt mark sem gerði í raun út um leikinn.

Vondur dagur

Í sjálfu sér enginn sem á skilið blammeringu eftir þennan sigurleik. Helst að það sé bömmer fyrir Milner að klikka á sínu öðru víti í röð og fyrir leikmenn eins og Solanke og Robertson sem hefðu gert sér vonir um að spila einhverjar mínútur í kvöld.

Tölfræðin

Fjórða vítaspyrnan sem fer í súginn í röð á Anfield. Þetta fer að verða dýrt spaug og mín uppástunga að næstu vítaskyttu er minn maður þessa leiks, Emre Can. Held að hann sé með nógu mikið hárgel á sjálfstraustinu til að taka hlutverkið að sér. Og hann er þýskur.

Umræðan

Allt er í rólegheitum í rauðheimum eftir tvo 3-0 skyldusigra í röð og það með Klavan í vörninni í báðum leikjum. Efstir í riðlinum í Meistaradeildinni og allt í rétta átt með að komast áfram. Næst er West Ham í höfuðborginni og það er annar skyldusigur þar sem endurteknar lokatölur væru vel þegnar.

Byrjunarliðið gegn Maribor

Meistaradeildin á Anfield á þessu ágæta miðvikudagskvöldi er fín leið til að hefja nóvembermánuð. Eða það vonum við í það minnsta og í heimsókn eru komnir fyrrum heiðursgestir úr Hafnarfirði sem Púlarar unnu sögulegan 0-7 stórsigur á fyrir skemmstu. Það verður erfitt að toppa slík úrslit en eins lengi og stigin 3 falla í okkar skaut þá grunar mig að flestum Púlurum verði nokk sama um markatöluna.

Byrjunarliðið hefur verið kunngert og er eftirfarandi:

Liverpool: Karius, Alexander-Arnold, Matip, Klavan, Moreno, Can, Milner, Wijnaldum, Oxlade-Chamberlain, Salah, Firmino.

Bekkurinn: Mignolet, Gomez, Robertson, Henderson, Grujic, Sturridge, Solanke

Mestu athygli vekur að Oxlade-Chamberlain byrjar inná og það er fyrsti byrjunarliðsleikur hans á Anfield og í CL fyrir LFC. Í markið er Karius mættur,  Alexander-Arnold í hægri bakvörðinn og Emre Can á miðjuna. Einhverjir hefðu vonast eftir að sjá Robertson fá einn leik í vinstri bakverðinum en það verður að bíða betri tíma og er hann til taks á bekknum.

Skyldusigur, 3 stig og ekkert múður!

Come on you REDS! YNWA!

Við minnum svo á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


 

Tottenham 4 – 1 Liverpool

Það var engin frægðarför sem Rauðliðar áttu á þjóðarleikvang englenskra til að mæta Tottenham í dag. Að vissu leyti var þetta gott tækifæri til að mæta þeim eftir erfiðan leik þeirra á Bernabeu en við nýbúnir með að teiga tveggja lítra 7 Up gegn Maribor. En svo varð ekki raunin.

Leikurinn

Við mættum ekki til leiks fyrstu 20 mínúturnar eða svo. Vorum reyndar sæmilega mikið með boltann en um leið og Tottenham vann hann tilbaka þá refsuðu þeir okkur grimmilega. Ekki nema 4. mínútur voru liðnar þegar að einfalt innkast Spurs endaði með sóknarfærslu sem við réðum ekki við ásamt slæmu úthlaupi Mignolet og skoti frá Kane sem endaði í marknetinu. Vont varð verra á 12. mínútu þegar að kæruleysislegri sókn okkar er snúið upp í sendingu fram á við sem Lovren misreiknar herfilega og Kane leggur upp hraðauupphlaupsmark fyrir Son. Og verra hefði getað orðið alger hörmung 5 mínútum þar eftir þegar að Son kemst aftur í gegn og á skot í þverslá. En við komumst aftur inn í leikinn. Góð sending Henderson inn fyrir vörnina á hinn sprettharða Mo Salah sem slúttaði með ósannfærandi hægri fótar snúning í stöngina og inn. Game on!

Klopp var búinn að sjá það sem allir sáu innan vallar sem utan með því að skipta Lovren útaf eftir hálftíma leik og færa Gomez í hafsentinn. Eitthvað skánaði varnarleikurinn við það en þó ekki meira en svo að þegar nálgaðist hálfleik dundi ógæfan yfir að nýju. Aukaspyrna frá kantinum leiddi til slæms hreinsunarskalla frá Matip beint á skotlöppina á Alli sem klikkaði ekki af stuttu færi. Leikstaða sem hefði verið hægt að vinna með í hálfleik endaði með rothöggi á rænulausa Rauðliða. 3-1 fyrir tetímann.

Rétt rúmar 10 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik þegar að leikurinn var gjörtapaður. Fyrirgjöf frá hægri var illa blökuð af Mignolet til Citizen Kane sem kláraði þennan leik. Eftir þetta áttum við tvö góð færi sem voru meistaralega varin af Lloris og við það reikaði hugann um það hvernig væri að hafa toppklassa markvörð í markinu þegar á reynir. En það höfum við því miður ekki og hvað þá almennilega vörn sem hægt er að treysta. Eftir þetta fjaraði leikurinn út í eitthvað sem engu máli skiptir og núll stig staðreynd í þessari heimsókn í höfuðborgina.

Bestu menn Liverpool

Mo Salah var manna sprækastur í þessum leik með góðu marki og mörgum ógnunum. Í raun hefur hann verið langbesti leikmaður Liverpool það sem af er leiktíðar og væri gaman að sjá aðra mæta til leiks í sama klassa. Oxlade-Chamberlain fær einnig plús í kladdann fyrir fína innkomu og að gefast aldrei upp.

Vondur dagur

Lovren byrjaði þennan leik á hörmulegustu 20 mínútum sem sést hafa í langan tíma og svo sem óvíst hversu mikið verra hann hefði gert af sér ef hann hefði fengið lengri tíma til þess. Margir fylgdu í kjölfarið og átti Mignolet sérlega vondan dag ásamt Matip, Can, Milner, Henderson o.fl. Í raun fáir í liðinu sem geta litið í spegilinn í dag og verið sáttir við sitt framlag.

Tölfræðin

Fyrsta tap Liverpool fyrir Tottenham í deildinni síðan 2012, bæði heima eða að heiman.

Umræðan

Það verður kröftug umræða eftir þennan leik varðandi innkaup Liverpool í sumar hvað varnarmenn varðar. Það er ekki verjandi (pun intended) að fara inn í tímabil í toppbaráttu með Klavan sem fyrsta valkost inn af bekknum og byrjunarmenn sem eru reglulega tæpir á heilsu og einbeitingu. Það er ekki hægt að selja okkur Liverpool-áhangendum að það hafi hvergi í víðri veröld verið til hafsent innan okkar fjárráða sem heitir ekki Virgill og gæti styrkt þetta lið. Að leggja allt undir þau kaup og einnig Keita sem kemur næsta sumar virkar á mann sem að þetta tímabil hafi verið afskrifað sem áhlaup að titlinum og að það frestist fram á næsta ár. Vissulega er Klopp langtímahugsuður og því ber að fagna en það virkar sem mikið tækifæri tapað með Liverpool verandi í Meistaradeildinni núna og í stöðu til að laða að hágæða leikmenn. Núna var tækifæri en ekki næsta vor ef við klikkum á 4.sætinu sem er klárlega orðið það sem við erum komnir í blóðuga baráttu um. Titilbaráttan búin í október. Aftur.

Svo má einnig endurvekja vangaveltur um varnarsinnaða miðjumenn sem Klopp er klárlega ekki hrifinn af. En ég sé ekki betur en að Madrid, Barca, Bayern, PSG og öll ensk topplið leggi kapp sitt á að hafa öflugan mann í þeirri stöðu til að verja vörn sína og bjarga því sem bjarga verður. Hvað gerir okkur svona sérstaka að geta sleppt því að manna þessa ágætu stöðu? Liverpool sem er þekkt fyrir brimbrjóta og eðalmenni eins og Hamann og Souness? Er Klopp-kerfið yfir það hafið að hafa slíka menn í sinni þjónustu? Hugvekja sem þarf að ræða.

Byrjunarliðið gegn Tottenham

Við erum komnir á Wembley!

Reyndar ekki til að spila upp á bikar í þetta skiptið heldur upp á 3 stig gegn afar öflugum Lundúna-mótherja. Vonandi virkjar grasið græna undir boganum fræga Rauða herinn okkar til góðra verka.

Byrjunarliðin eru klár og þau eru svona:

Liverpool: Mignolet, Gomez, Lovren, Matip, Moreno, Henderson, Can, Milner, Coutinho, Salah, Firmino

Bekkurinn: Karius, Klavan, Alexander-Arnold, Grujic, Oxlade-Chamberlain, Solanke, Sturridge

Tottenham: Lloris; Tripper, Alderweireld, Sanchez, Vertonghen, Aurier; Son, Winks, Alli, Eriksen; Kane

Bekkurinn: Vorm, Rose, Davies, Dier, Sissoko, Nkoudou, Llorent

Liverpool gerir þrjár breytingar frá síðasta leik með því að Alexander-Arnold og Karius setjast á tréverkið og Wijnaldum á við hnémeiðsli að stríða. Henderson fyrirliði kemur því aftur inn á miðjuna, Gomez í hægri bakvörðinn og Mignolet í markið. Mane og Lallana að sjálfsögðu enn fjarri góðu gamni vegna langtímameiðsla.

Nú þarf bara að keyra upp stemmninguna um víðan völl og innan víðóma veggja með græjurnar í botni. Stórleikur á leiðinni!

Come on you REDS! YNWA!

Við minnum svo á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.