Allar færslur eftir Magnús Þórarinsson

Upphitun: Newcastle á St James’

Rafa Benitez
Rafa Benitez
La-la-la-la Benitez
Chancel Mbemba, Gino Wijnaldum, Shelvey & Perez

Svona kyrjuðu áhangendur Newcastle á Anfield síðast þegar við mættum þeim vorið 2016. Ástæðan var ástfengni þeirra á nýja stjóranum sínum og taktíska meistaranum frá Madrid. Þeir voru orðnir hugfangnir af Rafalution byltingunni . Við Púlarar þekktum þessa tilfinningu mætavel eftir byltingarkennt og árangursríkt ástarsamband og höfðum ekkert á móti því þó að söngnum okkar hefði verið stolið norður í land til að hylla Rafa „okkar“ Benitez. Reyndar keyptum við Wijnaldum úr erindinu stuttu síðar þannig að tónskáldin þurftu eitthvað að uppfæra söngtextann en því miður fyrir okkur þá svínvirkaði söngurinn sem áður var sunginn af ástríðu í The Kop og liðsstýring yrkisefnisins var formúlan til að ná í 2-2 jafntefli á þessum vordegi eftir að Liverpool hafði komist tveimur yfir. Þau úrslit dugðu Rafa til að vera áfram ósigraður í leikjum sem hann hefur stýrt gegn Liverpool en áður hafði hann náð nákvæmlega sömu úrslitum í einum leik með Chelsea og unnið tvo CL-leiki með Valencia.

En næsta sunnudag verður söngurinn mun háværari og sunginn af um það bil 50 þúsund upptjúnuðum Norðanmönnum. Og taktíski espanjólinn okkar fyrrverandi hefur unnið heimavinnuna sína samviskusamlega upp á 10,0 að vanda og mun mæta þýska þungarokkaranum okkar í þungum þönkum. Það verða því stálin stinn í fuglabardaga svarthvítu Skjóanna við eldrauða Liverfuglinn!

Hefjum upphitunina!

Sagan

Einvígi Liverpool og Newcastle hafa yfir sér áru sókndirfsku og sögulegra úrslita eftir marga frábæra leiki síðustu áratugina. Þar er auðvitað efst á blaði sá leikur sem oft er nefndur besti leikurinn í sögu Úrvalsdeildarinnar þegar meistaraefni Kevin Keegan lutu í gras 4-3 gegn mörkum Fowler og Stan the Man í apríl árið 1996. Upphitunarritari var svo lukkulegur að hafa einmitt farið á þann leik á Anfield í sínum fyrsta Liverpool-leik og séð berum augum þann kamakazi-fótbolta sem spilaður var það kvöldið. Meistari Beardsley var að sjálfsögðu í byrjunarliðinu fyrir þá röndóttu og hann er einn af fjölmörgum leikmönnum sem spilað hafa fyrir bæði lið. Viðskiptasamband liðanna er það sterkt að það skákar næstum tíðum innkaupaferðum okkar í Suðurhafnartúnum en á síðustu tveimur áratugum hefur Liverpool keypt leikmenn frá Newcastle fyrir yfir 75 milljónir punda samtals og tvívegis var keyptur þáverandi dýrasti leikmaður í sögu Liverpool.

Styrkleiki þeirra sem spilað hafa fyrir bæði lið er slíkur að ekki er annað hægt en að stilla upp í geysiöflugt sameiginlegt lið LiverCastle United FC. Taktíkin er að sjálfsögðu sókndirfska í ætt við kamakazi-fótbolta 4-3 leiksins og varnarleikurinn algert aukaatriði. Byrjunarliðið yrði svona:

Bekkur: Bellamy, Carroll, Shelvey, Wijnaldum, Venison, Stubbins

 

Mike Hooper fær hanskana verandi eini markvörðurinn í boði  og í hafsentastöðunum er bakvarðafílingur með Alan Kennedy, James Milner og Jose Enrique en sá síðastnefndi hefur reyndar hnykklað vöðvana í miðvarðarstöðunni í eitt skipti fyrir LFC. Varnartengiliðirnir eru ekki af verri taginu með keisarann Didi Hamann og og meistara Terry McDermott að verja baklínuna. Fram á við fer að færast fjör í leikinn með Digger Barnes á vinstri væng og Peter Beardsley fórnar sér fyrir málstaðinn að vanda með því að taka hægri vængframherjastöðuna. Keegan er settur í holuna til að mata markamaskínurnar Rush og Owen. Á bekknum er svo nóg af mönnum til að breyta gangi leiksins eða að lenda í tómu tjóni með golfkylfu. Þetta lið gæti spilað hinn líflegasta sóknarbolta með alla leikmenn upp á sitt besta og með grjótharða gutta aftar á vellinum til að strauja mann og annan. Ég yrði illa svikinn ef svona lið gæti ekki skilað 4-3 í flestum leikjum sínum.

En að sagnfræðilegum dagdraumum slepptum þá höfum við bara unnið 1 af síðustu 6 leikjum á St James’ Park og í heildina er sigurhlutfall Liverpool á þeim velli eingöngu 28% en þar höfum við tapað 44% af okkar leikjum. Nokkrir eftirminnilegir stórir sigrar hafa komið inn á milli eins og 0-6 árið 2013 og 1-5 árið 2008 en heilt yfir er þetta ekkert sérlega auðveldur útivöllur fyrir okkur þó að við tökum Newcastle oft í bakaríið á Anfield. Það er því engin sérstök ástæða til að vera sigurviss miðað við fyrri tíð.

Mótherjinn

Newcastle byrjaði tímabilið með tveimur töpum í deild og einum í deildarbikar og við það fór smá skjálftahrina í gang, sérstaklega sökum þess að Rafa hafði ekki fengið frjálsar hendur eða fjármagn til að annast sumarinnkaupin með aurapúkann Mike Ashley á handbremsunni. Aðgerða var þörf og Rafa fór í nýrnaaðgerð sem hafði svona aldeilis góð áhrif á liðið og það vann næstu 3 leiki í röð. Síðustu helgi tapaði liðið 1-0 fyrir Brighton en þeir sitja í 8.-10. sæti í deildinni með 9 stig og yrðu eflaust hæstánægðir með slíka niðurstöðu í deildinni næsta vor.

Þetta væri ekki lið undir Rafa ef það væri ekki vel skipulagt varnarlega og vörnin hjá Newcastle hefur eingöngu hleypt 5 mörkum í gegn í þessum 6 deildarleikjum. Enda eru varnarmennirnir í liðinu hæstir á einkunnalistanum skv. tölfræðinni hjá Whoscored og þar er bakvörðurinn Chancel Mbemba, varnartengiliðurinn Mikel Merino og hafsentinn Jamaal Lescalles efstir á blaði. Sprækastur fram á við er hinn skoski Matt Ritchie með 4 stoðsendingar en því miður fyrir okkur þá er hann lunkinn í föstum leikatriðum sem er alræmdur akkilesarhæll okkar. Það kæmi mér ekki á óvart ef Rafa myndi stíla inn á að fá sem flestar hornspyrnur til að gefa okkur hroll af stressi og reyna að pota inn marki eftir mistök.

Uppleggið hjá Newcastle er kunnugleg uppskrift með að liggja þéttir og skipulagðir aftarlega með snögga sóknarmenn sem bíða færis að sprengja fram á við. Þeir eru varla að fara að leggja langferðarbílnum á heimavelli en við getum gert ráð fyrir að þeir verði í kringum sitt 43%  meðaltal með boltann. Í takt við það þá eru þeir rétt með eitt mark að meðaltali í leik og varla von á flugeldasýningum í sóknarleiknum. Undir Rafa er sigurhlutfall Newcastle 55,7% en allan hans tíma með Liverpool þá var það 55,4% og því er hann kominn með þá á gott sigurról þó að vissulega megi rýna í deildir og andstæðinga í þessum samanburði. Þeir verða því ekkert lamb að leika sér við nema það sé þá helst úlfur í þeirri sauðagæru sem bíður í dans.

Líklegt byrjunarlið Newcastle í taktíkinni 4-2-3-1

Liverpool

Það er sem einhver tilvistarkreppa sé að hefta framþróun Liverpool þessa dagana. Fornir draugar fyrri jóla eru mættir aftur til að valda vandræðum í vörn og markvörslu en núna er ný afturganga  í formi færanýtingar mætt á svæðið til að hrella sóknarmenn rauðliða. Eitthvað virðist vefjast fyrir okkur að skjóta síldina í tunnunni vopnaðir hríðskotabyssu og skæðadrífu af sóknarfærum dugar ekki til. Í síðustu 5 leikjum í öllum keppnum höfum við átt 119 skot að marki en það hefur eingöngu skilað okkur 7 mörkum sem er engan veginn nógu mikið þegar við getum sjaldnast haldið hreinu marki í hinum enda vallarins. Reyndar hafa gæðin ekki alltaf verið í takt við magnið en í þessum aragrúa af skotum leynast samt vannýttar vítaspyrnur, skot í tréverkið og markmannslausir galopnir markrammar sem illa gengur að hitta.

Heimspeki Klopp í knattspyrnulegri aðferðarfræði er rock & roll & go for goal og því er grundvallaratriði að nýta sóknarlega yfirburði þegar við erum að ná að skapa færin. Mörk breyta gangi leikja og 2-3 vel tímasett mörk af mýmörgum skotum á þessu tímabili hefðu klárað leiki sem við höfum misst í ósanngjörn jafntefli. Það má svo sem líka horfa á glasið ögn fyllra með því að benda á að við höfum eingöngu tapað 2 leikjum af 11 í öllum keppnum það sem af er tímabili og við erum í seilingarfjarlægð frá toppnum.  Sóknarleikurinn hefur verið líflegur og herslumuninn hefur vantað til að vinna fleiri leiki. Það þýðir því ekki að gráta Björn Tore Kvarme bónda og átta sig á að í næsta leik eru 3 stig í boði sem þarf að heyja af túni.

Einhver rótering mun eiga sér stað eftir Rússkí-karamba-ferðalagið og Klopp gæti komið eitthvað á óvart með liðsvalinu. Ég ætla að spá því að hann gefi Karius annan séns og að Skotinn Robertson fái leik í námunda við landamæri heimalandsins. Að mínu mati verður byrjunarliðið svona:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í taktíkinni 4-3-3

Spaks manns spádómur

Rafa hefur ekki tapað fyrir Liverpool, söguleg tölfræði er gegn okkur og hingað til hafa allir mínir upphitunarspádómar endað með jafntefli. Eina skynsamlega niðurstaðan er því að leikurinn endi í jafntefli en þar sem ég er meira þrjóskur en skynsamur þá spái ég okkur 1-2 útisigri með mörkum frá Mané og fyrsta útivallarmarki Wijnaldum á Englandi.

Leicester 2 – 3 Liverpool

Það er sjaldan lognmolla í kringum Klopp-stýrt Liverpool og þessi leikur á King Power vellinum var engin undantekning. Hjartað var margsinnis í buxunum og stundum jafnvel eitthvað meira en það og þá erum við bara að tala um úthlaupin hjá Mignolet.

Leikurinn

Þetta byrjaði nokkuð þétt hjá okkar mönnum og við vorum vel inni í leiknum fyrstu mínúturnar á meðan bæði lið voru að stunda þreyfingar. Okkur óx ásmegin og Emre Can smellti góðu skoti í stöng og Salah feilaði frákastið á betri löppinni. Einni ögurstund síðar sendi Coutinho gylltan bananabolta á fjærstöng þar sem hinn egypski Messi skallaði boltann í netið framhjá erfðaefni Peter Schmeichel.

Eftir það var leikurinn okkar og þungi í sóknarleiknum. Á 25.mínútu fengum við aukaspyrnu 25 jarda frá marki. Coutinho ákvað að hlaða í fallega afsökunarbeiðni fyrir Barca-bullið í sumar með því að krulla glæsilegt skot út við stöng framhjá blondínubaunanum. Komnir á beinu brautina en Mignolet fannst þetta ögn of auðvelt og hafði aðrar hugmyndir um hvernig skemmtilegur knattspyrnuleikur á að þróast. Hann hafði daðrað við vandræði með hreinsun á snigilhraða en þegar að rétt var að detta í hálfleik fór flippið í gang. Samvinnuverkefni Símons og dómarans í röngum ákvörðun endaði með klúðurslegu marki á versta tíma sem aldrei átti að verða til.

1-2 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var óttaleg moðsuða framan af en allt í einu fór leikurinn á yfirsnúning þegar að Liverpool átti frábæra skyndisókn eftir að hafa verið djúpt í vörn. Sprengdum fram á margmenni og Henderson sem byrjaði manna dýpstur skeiðaði tignarlega upp allan völlinn, fékk fína sendingu frá varamanninum Sturridge og sendi hann framhjá vinalega danska draugnum í markinu.

Game over? Alls ekki enda væri það allt of auðvelt. Gray átti skot úr teignum sem Mignolet varði beint fyrir kollvikin á Vardy sem þakkaði fyrir sig með auðveldu marki. Þarna liðu 90 sekúndur á milli þess að sigur ætti að vera kominn á örugga siglingu en nú sigldi Liverpool á milli skers og báru. Einni ögurstundu síðar var það blindsker! Vardy fær stungu innfyrir og eltir boltann, Mignolet er á undan en kiksar boltann og straujar Jamie í leiðinni. Víti! Vardy kunni greinilega ekki góðu gömlu regluna um að sá tekur ekki vítið sem brotið er á og stígur upp móður og másandi. Símon segir víti skal varið og tekur til eftir eigið klúður með því að verja þrumuskot Vardy.

Eftir þetta var leikurinn alveg á hnífsegg en hvorugt lið fékk færin til að drepa eða jafna leikinn. Hendi á Can hefði getað sett leikinn í vitleysu en sem betur fer héldum við þetta út og kærkominn sigur staðreynd.

Bestu menn Liverpool

Coutinho lagði upp og skoraði þannig að hann er að nálgast sitt eðlilega form eftir farsakennt sumar með vottorð í leikfimi og yfirdrifið spænskt fáránleikhús. Að mínu mati var samt fyrirliðinn herra Henderson frábær í leiknum. Ódrepandi, stanslaust hlaupandi og skoraði á endanum sigurmarkið. Jordan Henderson fær Kop.is-kampavín leiksins.

Vondur dagur

Séra Símon hefur ekki haft gott af hvíldinni eða róteringardansinum sem Klopp hefur boðið upp í. Ákvarðanatakan og almenn fagmennska er úti á túni og vítamarkvarslan er rétt sárabót sem bjargar honum frá því að vera allsherjar skúrkur leiksins. Karius mun pottþétt byrja í marki í Moskvu og ef það endar ekki í stórslysi þá gæti hann haldið stöðunni lengur.

Tölfræðin

Leikina tvo á undan þessum átti Liverpool 56 markskot sem enduðu með einu ögurmarki en nú brustu stíflurnar með 3 mörkum í 23 skotum.

Umræðan

Það hlaut að koma að því að flóðgáttirnar myndu opnast og hægðatregðan fyrir framan markið myndi á endanum skila sér sína leið. Á þessari speki byggði tölfræðitröllið og einkavinur minn Biscant sinn spádóm með hárréttum úrslitum um 2-3 sigur. Biscant, take a bow!

Allir andstæðingar okkar í toppbaráttunni unnu sína leiki í dag og því var lífsnauðsynlegt fyrir okkur að fylgja hópnum. Þrátt fyrir rússíbanareið þessa leiks þá kláruðum við þó ferðina þrátt fyrir miklar meltingartruflanir og það mun væntanlega gera margt gott fyrir sjálfstraustið. Umræðan hafði skapað pressu á liðið og Klopp en í bili þá er því létt og vonandi beina brautin framundan.

Moscow Moscow here we come.

Byrjunarliðið gegn Leicester City

Þá er komið að seinni hlutanum í tvíleik vikunnar gegn Leicester City og vonandi gengur betur að þessu sinni gegn Refunum frá Eystri-Miðlöndum.

Byrjunarliðin eru klár og þau eru svona:

Á bekknum hjá Liverpool eru Karius, Klavan, Milner, Alexander-Arnold, Oxlade-Chamberlain, Solanke, Sturridge.

Sagnaskáldið Shakespeare stillir sínu liði svona upp:

Helstu tíðindi eru þau að Matip og Lovren hafa jafnað sig nógu tímanlega til að byrja báðir í hjarta varnarinnar. Can var líka tæpur en er nógu hraustur til að byrja inná ásamt Coutinho sem er vonandi að komast í almennilegt leikform.

Hjá Leicester þá eru allir þeirra sterkustu leikmenn komnir í byrjunarliðið eftir deildarbikarleikinn fyrr í vikunni. Vardy, Mahrez og Schmeichel allir mættir til leiks.

Koma svo Rauðliðar! Förum á refaveiðar og rífum þetta tímabil í gang! YNWA!

Við minnum svo á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


Upphitun: Sevilla í Meistaradeild

Þá er komið að fyrsta leik Liverpool í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og á Anfield mætir óljúfur óperudraugur fortíðar eða Sevilla Fútbol Club sem við mættum síðast ósælla minninga fyrir rúmlega ári síðan. Baslið í Basel er óþarfi að tíunda mikið hér enda búið að eyða of miklum tíma í dáleiðslu og áfallahjálp við að gleyma þeirri minningu til að rifja hana upp að nýju. Þetta er þó tækifæri til að kvitta fyrir það klúður og skipbrot síðustu helgar samtímis og vonandi grípum við það tvöfalda tækifæri tveimur höndum. En til þess að það geti gerst þá þarf að hita sig upp á eldheitt tapas-hitastig með sjóðandi salsa og fuðrandi flamencó-fótbolta.

Comenzar el calentamiento!

Sagan

Liðin hafa eingöngu mætt hvort öðru í fyrrnefndum leik og því er söguleg tölfræðin takmörkuð að því leyti. Leikmannaviðskipti liðanna síðasta áratuginn eru teljandi á fingrum annarar handar eftir alls engin í rúm hundrað ár þar á undan. Til okkar hafa komið Alberto Moreno og Luis Alberto ásamt því að Daniel Ayala og Antonio Barragán komu sem pjakkar á meðan að Rafa Benitez réð ríkjum. Á móti þá lánuðum við og síðan seldum Iago Aspas til Sevilla en á heildina litið er varla hægt að segja að hvorugt lið hafi átt blússandi velgengni að fagna í viðskiptum sín á milli.

Saga liðanna segir okkur því lítið sem ekkert annað en að áhugaverðasti safngripurinn telst vera Moreno hafandi spilað sitt hvorn Europa League úrslitaleikinn fyrir bæði lið og hafa hjálpað Sevilla að vinna í bæði skiptin! Lo siento Alberto.

Sevilla FC

Sevilla FC kemur frá samnefndum höfuðstað Andalúsíu og er rauða liðið í borginni en Real Betis eru þeirra borgarbræður og erkifjendur. Borgin er sögufræg og hefur ofanritaður notið þeirrar ánægju að eiga þar vetursetu og búa steinsnar frá heimavelli þeirra rauðu á Ramón Sánchez Pizjuán. Sevilla er margfræg fyrir að vera sögustaður fjölmargra ópera eins og Rakarinn frá Sevilla, Brúðkaup Fígarós, Carmen og Don Juan en í seinni tíð var hún notuð sem sviðsmynd í Star Wars. Í vinstra horni á merki Sevilla FC má sjá þrjá vörpulega og valdsmannslega höfðingja sem kallast á spænsku el tres reyes eða kóngarnir þrír. Þessir þríkóngar eru engir aðrir en vitringarnir þrír úr sunnudagaskólanum en á Spáni eru þeir hinir gjafmildu sveinar sem mæta á úlföldum um jólaleytið og útdeila gjöfum á þrettándanum að kaþólskum sið.

En nóg um hágólandi hárgreiðslumeistara eða úlfaldaútdeilandi yfirnáttúrulegheit. Í Andalúsíu-liðinu eru engir jólasveinar og það mætir til leiks sem það lið sem var skrifað pottinum hærra en Liverpool í CL-drættinum og hafa skilað mun fleiri titlum í hús síðustu 5 árin með því að hampa heilum þremur Europa League titlum í röð og unnu 2 slíka til viðbótar stuttu þar á undan. Þeir enduðu í 4. sæti í sinni deild líkt og við á síðasta tímabili, en ströggluðu þó við að klára lágt skrifað lið Istanbul Basaksehir í forkeppni Meistaradeildarinnar og unnu einvígið bara með samtals eins marks mun.

Á vordögum þá missti Sevilla þáverandi þjálfara sinn þegar að hinn argentínski Jorge Sampaoli tók við argentínska landsliðinu en hann hafði eingöngu verið eitt tímabil með Sevilla eftir að Unai Emery fór til PSG árið 2016. Við stjórnartaumunum tók samlandi hans Eduardo Berizzo en hann hafði gert ágæta hluti með Celta Vigo þar á undan. Undir hans stjórn hefur Sevilla byrjað tímabilið sterkt, eru taplausir í öllum keppnum og í 3. sæti La Liga með 7 stig eftir 3 leiki, en þó hafa andstæðingarnir í öllum þessum leikjum verið af veikara taginu. Þeir gátu því leyft sér þægilegheit á heimavelli í síðasta leik með 3-0 sigri á Eibar og hvílt lykilmenn fyrir átökin á Anfield.

Það mætti halda að Sevilla-menn hafi fundið á sér að þeir myndu dragast gegn Liverpool í CL því að þeir spiluðu fjóra æfingarleiki í sumar á Englandi og þar af þrjá þeirra gegn ensku úrvalsdeildarliðunum Arsenal, Southampton og Everton í Liverpool-borg. Í þokkabót þá háðu þeir einvígi gegn Leicester í 16-liða úrslitum CL á vordögum sem þeir töpuðu tæpt í frægum leik þannig að engilsaxnesk samskipti hafa verið með mesta móti hjá Spánverjunum síðustu misserin. Til viðbótar þá skarta þeir fjarska fallegri rauðri New Balance varatreyju sem myndi sóma sér vel með Liverbird í stað Sevilla-merkisins og hún gerði leikinn gegn Everton ansi derby-legan áhorfs.

Éver Banega mætti Everton í sumar og lét Rooney finna fyrir því

 

Í leikmannamálum þá seldi Sevilla tvo sterka leikmenn, spænska landsliðsmanninn Vitolo til Atletico Madrid og Vicente Iborra til Leicester, fyrir samanlagt 50 millur evra í sumar en í staðinn snéru Jesús Navas og Éver Banega aftur eftir mislanga fjarveru og auk þeirra komu í hús Luis Muriel, Simon Kjær og Nolito sem helst ber að nefna. Sumarinnkaupin voru svo gott sem á sléttu og hafa Sevilla hafa verið ansi lunknir í leikmannamálum síðustu 17 ár undir stjórn señor Monchi sem el director de fútbol en hann var reyndar keyptur til starfa hjá Roma nú í apríl. Þeir eru því með ansi sterkan hóp og reynslumikið lið í Evrópufótbolta sem mun því miður ekki víla fyrir sér að mæta á öflugan Anfield.

Ég ætla að spá þessari uppstillingu hjá Sevilla þar sem þeir munu vera þéttir fyrir með N’Zonzi djúpan á miðjunni og reyna að nýta hraða vængmenn og sendingargetu Éver Banega í skyndisóknir.

Líklegt byrjunarlið Sevilla í taktíkinni 4-1-4-1

Liverpool FC

Skellur síðustu helgar er ólíklegur til að hafa mikil áhrif á liðsval Jürgen Klopp þar sem að hann hefur væntanlega verið búinn að lista upp megnið af byrjunarliðinu fyrirfram með róteringu í huga. Að því marki má taka mark á þeirri umræðu að markvörður þessa leiks verði hinn sultuslaki og smjörgreiddi en þó áhættusækni Loris Karius. Hvort að það sé sanngjarnt skal ósagt látið en það sem Herr Klopp vill blífur og á Herr Klopp leggjum við okkar trú og traust.

Ég gæti vel séð að báðum bakvörðum verði skipt út (perdón otra vez Alberto) og að Lovren komi inn við hlið Matip í hafsentinn. Varnartilburðir síðustu helgar hafa að sjálfsögðu ýft upp þá tilfinningu að við hefðum átt að styrkja okkur varnarlega í kaupglugganum en það skip hefur siglt að sinni og við verðum að láta þessa háseta duga fram að næstu höfn.

Kafteinn Henderson verður fastur punktur á miðjunni og mig grunar að Milner fái tækifærið til að hlaupa víðavangshlaup en stóra spurningin mun snúast um hvort að Coutinho fái að koma inn úr skammarkróknum. Ég ætla að spá því að Philippe í Kattholti sé ekki búinn að tálga nógu marga spýtukarla ennþá og þurfi að láta sér tréverkið duga í þessum leik, en hann mun pottþétt byrja næstu helgi þegar Mané verður í banni. Að því leyti verður okkar uppstilling svona að mínu mati.

Líklegt byrjunarlið Liverpool í taktíkinni 4-3-3

Spaks manns spádómur

3-1 sigur Liverpool þar sem Anfield tekur völdin og okkar eigin þrír vitringar, Mané, Salah og varamaðurinn Coutinho, sjá um mörkin.

Liverpool 4 – 0 Arsenal

Sunnudagar eru oft heppilegir dagar til að skella sér á góðan stað til að fá sér bakkelsi og Liverpool ákváðu að hafa það huggulegt á hvíldardeginum með því að taka Arsenal í bakaríið. Snúðum og kleinum splæst á línuna.

Leikurinn

Púlarar byrjuðu af miklum krafti og góðri pressu á fyrstu mínútunum leiksins sem setti Arsenal strax á bakfótinn. Wellbeck fékk reyndar fyrsta alvöru færi leiksins en stuttu síðar fékk Salah algert dauðafæri  sem Cech varði eftir frábært uppspil og fyrirgjöf frá Emre Can. Liverpool héldu pressunni áfram og það skilaði sér með góðu skallamarki Firmino eftir flotta vinstri fótar fyrirgjöf Joe Gomez. Þarna var veislan rétt að byrja því að Liverpool réðu lögum og lofum eftir upphafsmarkið og völtuðu yfir púðurslaust fallbyssufélagið. Liverpool fengu mark nr. 2 sem þeir höfðu algerlega unnið sér inn fyrir þegar Sadio Mane skoraði og smurði sitt rúnstykki með hægrifótarskoti á fjærstöng.

Arsenal hófu seinni hálfleikinn með góðum krafti og því var alltaf vangaveltan hvar hið víðfræga þriðja mark myndi falla. Sem betur fer féll það réttu megin þegar að Mo Salah vann boltann frábærlega og keyrði upp allan völlinn óáreittur og kláraði snyrtilega einn á móti markmanni. Eftir það var þetta ekki spurning um hver myndi sigra heldur hver yrðu lokaúrslitin. Arsenal höfðu öfluga innáskiptingu uppi í erminni með Giroud og Lacazette en það skipti engu því að við svöruðum því með innkomu Sturridge sem skoraði fallegt skallamark á fjærstöng eftir fyrirgjöf Mo Salah. Við hlífðum fallbyssunum við frekari niðurlægingu en þeir voru algert fallbyssufóður fyrir okkar menn í dag.

Bestu menn Liverpool

Það eru ansi margir tilkallaðir á degi þegar allt gekk upp. Firmino, Mane og Salah voru frábærir sóknarlega og statistíkin segir sitt þar. Einnig fannst mér margir varnarmennirnir í flottu formi með Moreno sprækan, Matip í Hyypia-formi og Gomez afar traustan. Fyrir mér var samt sigurinn unninn inni á miðri miðjunni þar sem Henderson, Wijnaldum og Emre Can voru frábærir og til þess að velja einhvern þá ætla ég að gefa fyrirliðanum Henderson mitt atkvæði í dag sem maður leiksins. Lúmskt frábær þó að margir hefðu verið verðugir af titlinum.

Vondur dagur

Loris Karius fékk umdeilanlega sénsinn í dag á kostnað Mignolet sem hefur verið ansi traustur í byrjun tímabils og á því síðasta líka. Í þrígang var hann á tæpasta vaði með hreinsun á boltanum og var í raun bara heppinn að sleppa með sín mistök. Sagan mun skrifa að hann hafi haldið markinu hreinu en þetta var ekki alls ekki traustvekjandi og Klopp mun þurfa að svara fyrir þessa sérstöku ákvörðun.

Tölfræðin

Cech hefur fengið á sig 14 mörk í síðustu 4 leikjum gegn Liverpool. Megi það meðaltal lengi lifa.

Umræðan

Landsleikjahlé er næst á dagskrá og það munaði bara klúðurslegu rangstöðumarki gegn Watford á síðustu mínútu til þess að byrjun Liverpool á tímabilinu væri algerlega fullkomin. 4 sigrar og 1 jafntefli með öruggu CL-sæti er eitthvað sem allir hefðu þegið fyrirfram og byrjunin því frábær. Nú þarf „innkaupanefndin“ bara að taka við boltanum og landa styrkingu á næstu dögum áður en glugganum lokar og einnig að læsa Coutinho inni í hoppukastala til að halda hoppandi pirruðum kútnum kátum á Merseyside.

Wenger verður líka í umræðunni en staða hans er ekki okkar vandamál og varla nema einn af þeirra mönnum sem eru á síðasta ári samnings sem okkur varðar. Uxinn væri alveg velkominn í breiddina í okkar liði en hann á lítinn séns í byrjunarliðið miðað við hvernig flestir þar eru að spila í dag.