Allar færslur eftir Magnús Þórarinsson

Upphitun: Watford í fyrsta leik

Þá er komið að því! Þið hafið dundað ykkur í laxveiðiám, á götóttum golfvöllum og skuggalegum diskóbörum á sólarströndum í þeim eina tilgangi að drepa tímann fram að þessari stundu sem senn er komin. Tímaeyðslan hefur gert sitt gagn og stundaglasið er á síðasta snúningi. Alvaran er að byrja!

Hamstrengurinn var blótsyrði ársins 2015 hjá Herr Jürgen Klopp. Tökum því upplýsandi og upplífgandi upphitun og stillum strengi okkar þannig að ekkert alvarlegt togni á ögurstundu í fyrsta leik tímabilsins.

Sagan

Í þeim 20 deildarleikjum sem liðin hafa spilað sín í milli þá höfum við haft gott tak á Watford og LFC er með slétt 75% vinningshlutfall gegn þeim. Merkilegt nokk þá hefur eingöngu einn deildarleikur þessarar liða endað með jafntefli. Þetta er því allt eða ekkert einvígi út frá sagnfræðinni.

Nóg hefur verið um sögulega sykurmola síðustu tvö tímabil og hafa bæði lið hafa unnið sína stærstu sigra á hvort öðru á þeim tíma (3-0 tap úti og 6-1 sigur á Anfield). Ég leyfi mér einnig að fullyrða að því órannsökuðu að fallegasta mark í viðureign þessara tveggja liða var skorað af Emre Can nú á vordögum. Um það þarf varla að deila.

Það er því vel við hæfi að við séum að mæta Watford í þessum ágæta ágústmánuði þar sem að fyrir sléttum 30 árum síðan var John nokkur Barnes að undirbúa sig fyrir sinn fyrsta leik fyrir Liverpool eftir að hafa verið keyptur frá Watford. Barnes hafði brillerað fyrir brilluberandi eiganda sinn Sir Elton John og stuðlað að mesta árangri klúbbsins tímabilið 1982-83 þegar þeir lentu í 2.sæti á eftir Englandsmeisturum Liverpool á síðustu leiktíð Bob Paisley.

 

Litlu munaði að Barnes endaði hjá Man Utd árið 1987 þegar hann fór frá Watford en sem betur fer hafði Sir Alex ofurtrú á Jesper Olsen og hafnaði tækifærinu til að kaupa manninn sem síðar var kenndur við Digger í Dallas. Með innkomu Barnes, Aldridge og Houghton ásamt undarlega útlítandi snillingi með gorkúlugreiðslu frá Newcastle þá vannst titillinn það tímabilið. And the rest is history.

Mótherjinn

Watford skartar nýjum stjóra í byrjun leiktíðar en tíð stjóraskipti hefur verið ítalskt tískufyrirbrigði á Vicarage Road síðan Pozzo fjölskyldan eignaðist klúbbinn fyrir 5 árum. Stjóraskiptin þetta árið voru reyndar röklegri en oft áður þar sem að undir enskuhömluðum Mazzarri var búningsklefinn klofinn og liðið orðið stefnulaust. Frá áramótum tapaði Watford 12 af 20 EPL-leikjum og vann eingöngu 5 leiki og endaði í 17.sæti. Þeir enduðu tímabilið á 6 leikja taphrinu og þar með var silkisæng Signor Walter útbreidd.

Portúgalinn Marco Silva tók við liðinu eftir að hafa vakið athygli fyrir hetjulega björgunartilraun á hinum sökkvandi tígristogara Hull City sem sökk þó engu að síður. Silva þessi er efnilegur og ungur stjóri sem hefur unnið bikar með Sporting frá Lissabon og deildartitil með Olympiakos og er afar áhugaverð ráðning fyrir Watford. Því miður tókst honum einmitt að stýra Hull til sigurs gegn Liverpool í febrúar sl. og við þurfum að vona að það verði undantekning frekar en regla.

Undirbúningstímabilið hjá Watford hefur verið frekar brösótt með eingöngu 5 mörk skoruð í 6 leikjum og bara 2 sigurleiki. Mótherjarnir voru heldur ekkert þeir sterkustu með Real Sociedad, Aston Villa og Glasgow Rangers sem rjómann af rislitlu leikjaprógrammi og þeim tókst ekki að vinna neinn af þeim leikjum.  Þeir hafa verið að þétta sig varnarlega en þó er það á beinan kostnað sóknarleiksins. Þeirra helsti markaskorari, Troy Deeney, hefur verið meiddur í æfingaleikjunum þannig að það hefur háð þeim og Deeney mun missa af leiknum gegn Liverpool. Mauro Zarate er einnig meiddur og Cathcart og Kabasele tæpir en enginn þeirra telst lykilmaður.

En Watford hefur heldur betur verið blásið í herlúðra þessa vikuna þar sem að tveir sóknarmenn hafa bæst í hópinn á síðustu dögum. Hinn brasilíski U-21 árs landsliðsmaður Richarlison fékk atvinnuleyfi í byrjun viku og þar er á ferð fljótur og flinkur vængframherji sem virkar afar efnilegur. Í gær voru svo kaupin á Andre Gray frá Burnley fyrir 18,5 millur punda staðfest en hann skoraði 9 EPL-mörk í fyrra (þ.m.t. gegn Liverpool) og er öflugur á velli. Auðvitað tekur alltaf tíma fyrir nýja leikmenn að aðlagast nýju liði, en í sól og sumaryl á fyrsta leikdegi þegar nóg er af orku og adrenalíni inná velli og uppí stúku þá geta svona sóknarmenn verið afar skeinuhættir.

Fyrr í sumar keyptu Watford einnig efnilegu ensku miðjumennina Nathaniel Chalobah frá Chelsea og Will Hughes frá Derby County, en þeir hafa leikið samanlagt 135 landsleiki fyrir yngri landslið Englands. Sérstaklega hefur Chalobah verið iðinn við enska landsliðskolann frá barnæsku en hann hefur m.a. spilað 40 leiki fyrir England U-21 en eingöngu James Milner með 48 landsleiki hefur spilað meira fyrir England U-21. Glókollurinn Will Hughes ætti að vera slúðursjúkum Púlurum vel kunnugur en hann hefur verið orðaður við LFC að því virðist frá örófi alda. Báðir gætu farið beint í byrjunarliðið og þannig myndað alenska miðju með Tom Cleverley sem á þá alslæmu alslemmu að hafa spilað fyrir bæði Man Utd og Everton.

Allt að ofansögðu leiðir okkur að þeirri niðurstöðu að Watford verða sýnd veiði en ekki gefin.

Líklegt byrjunarlið Watford í taktíkinni 4-2-3-1

Liverpool

Okkar menn hafa verið á góðu róli í aðdraganda móts, spilað fínan fótbolta og ekki tapað leik í venjulegum leiktíma. Sóknarmaskínan hefur mallað vel með 2,4 mörk að meðaltali í leik en varnarvinnan hefur komið skemmtilega á óvart með eingöngu 4 mörk fengin á sig í 8 leikjum. Sérstaklega var sterkt að halda hreinu gegn Bayern München á þeirra heimavelli og þrátt fyrir mikinn spilatíma hjá Gomez, Alexander-Arnold og Moreno. Svo vel hafa þeir tveir síðastnefndu staðið sig að þeir eru líklegir til að vera í byrjunarliðinu gegn Watford.

Það kemur auðvitað líka til vegna þess að Clyne er meiddur og Milner missti af nokkrum leikjum í Þýskalandi og gæti verið sparaður fyrir Hoffenheim í CL í miðri næstu viku. Couthino mun varla byrja eftir að hafa verið þjakaður af bakmeiðslum í rúma viku en kemst vonandi á bekkinn ef þörf krefur á kraftaverkamanni. Sömu sögu má segja af Sturridge sem er tæpur og fær vonandi bekkjarpláss, en Lallana er því miður meiddur næstu 2-3 mánuði.

Nýju mennirnir Solanke og Robertson byrja væntanlega á bekknum en miðað við markaformið á heimsmeistaranum enska þá er maður spenntur að sjá hann fá einhverjar mínútur í innáskiptingu. Sömu sögu má segja um Ryan Kent sem í dag skrifaði undir langtímasamning eftir flottar frammistöður á æfingatímabilinu og sem lánsmaður Barnsley á síðasta tímabili. Kent er uppalinn í LFC akademíunni frá 7 ára aldri og væri frábært ef hann yrði valkostur sem öskufljótur vængframherji  til að létta undir með Mane og Salah. Þarna er nálgun og þjálfaraspeki Klopp upp á sitt besta og frábært fordæmi til að flagga í ljósi eyðsluklónna í nálægri borg og víðar.

Það hefur óneitanlega mikil áhrif á taktíska nálgun liðsins að hafa ekki sköpunarkraft Coutinho til að toga í strengina en við ættum að hafa nógan styrk á miðjunni og hraða á vængjunum og yfirhlaupum bakvarðanna til að setja mörk á þetta Watford lið. Salah verður væntanlega hægra megin í vængframherjastöðunni en hann og Mane munu eflaust skipta um kanta eftir því hvernig leikurinn spilast. Þá er það bara stóra spurningin hvort að vörn og mark halda áfram í sínu góða formi frá undirbúningstímabilinu, en þar er ekki á vísan að róa miðað við fyrra tímabil. Að mínu mati er bráðnauðsynlegt að styrkja stöðu hafsent í formi van Dijk og myndi hann vera frábær yfirverkstjóri til að deila og drottna yfir vörninni.

Ef við höldum sama dampi síðustu leikja og spilum af eðlilegri getu þá eigum við að vinna þennan leik.

Líklegt byrjunarlið Liverpool í taktíkinni 4-3-3

Spaks manns spádómur

1-2 sigur okkar manna með mörkum frá Salah og Mane.