Allar færslur eftir Magnús Þórarinsson

Upphitun: Fyrsti leikur tímabilsins gegn West Ham

Þá er komið að stundinni sem beðið hefur verið eftir allt þetta regnvota og stormasama sumar. Fyrsti Liverpool-leikur tímabilsins er að bresta á með tilheyrandi eftirvæntingu og tilhlökkun. Klopp og forráðamenn klúbbsins hafa kynt eldana undir spennubálinu með því að hlaða á bálköstin brjálæðislega spennandi og metnaðarfullum nýjum leikmönnum sem allir bera með sér auknar vonir og væntingar okkar Púlara. Verður þetta árið okkar? Eldrauð hjörtu okkar og titilvonir eru í þeirra höndum og við munum hvetja þá áfram við hvert skref, spark og spyrnu í von um langþráðan árangur. Það er því ekki eftir neinu að bíða og best að þreyja þorrann fram að upphafspyrnunni með upphitun að hætti hússins.

Hefjum nú leikana!!!

Continue reading

Liðið gegn Brighton á Anfield

Þá er komið að lokaleik Liverpool í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2017/2018 og enn er mikið til að spila fyrir hjá Rauða hernum. Meistaradeildarsæti er í húfi en til þess að komast yfir marklínuna þá þurfa okkar menn eingöngu eitt stig á heimavelli gegn Brighton & Hove Albion. Í morgun var tilkynnt að Mohamed Salah hefði bætt við sig enn einum verðlaununum þetta tímabilið með því að hljóta nafnbótina leikmaður ársins hjá úrvalsdeildinni sjálfri en fyrir hafði hann hlotið sama titil hjá PFA, FWA og Liverpool FC.

Salah er margfaldur meistari í verðlaunum þetta tímabilið

Liverpool munu leika í sínu nýjasta og fínasta pússi en þeir prufukeyra liðsbúninga næsta tímabils í dag. Byrjunarliðin hafa verið kunngerð og eru eftirfarandi:

Bekkurinn: Woodburn, Lallana, Clyne, Mignolet, Ings, Moreno, Klavan.

Herr Klopp hefur gert eina óvænta breytingu í dag en Dominic Solanke kemur inn í framlínuna og það er fyrir miðjumann en Milner er ekki á bekknum í dag eftir að hafa haltrað lengi vel gegn Chelsea í síðasta leik. Hvort að Firmino verði við hlið Solanke í fremstu röð eða detti niður í holuna mun koma í ljós en þetta er klárlega sókndjörf breyting.

Lið Brighton er eftirfarandi en þar kemur á óvart að hvorki Murray né Ulloa séu í framlínunni og þeirra mest skapandi leikmaður, Pascal Groß, er einnig á bekknum. Ef að gestirnir ætla að spila upp varnarleik og jafntefli þá væri það alveg nægilega gott fyrir okkur:

Nú styttist í leikinn, grasið er snyrtilega slegið og sólin skín á iðagrænan Anfield í dag. Við Rauðliðar þurfum að fara að finna okkar samastað, byrja að fikta í stressböndunum og ná í eðaldrykk við hæfi. Blásum til sóknar og gulltryggjum okkur sæti meðal þeirra bestu í Evrópu á næsta vetri!

Come on you REDS! YNWA!

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


Upphitun: Lokaleikur gegn Brighton & Hove Albion á Anfield

Hvítu mávar, segið þið Brighton.
Að mitt hjarta slái aðeins fyrir stig.

Hér erum við komin að loknum 37 deildarleikjum í vetur og hin stórfína staða er sú að Liverpool þarf aðeins jafntefli á heimavelli gegn nýliðum Brighton & Hove Albion til að tryggja okkur í Meistaradeildina á næsta tímabili. Í fótbolta er ekkert sjálfgefið frekar en fyrri daginn og þrátt fyrir að við hefðum óskað okkur að topp 4 sæti hefði verið gulltryggt fyrir nokkrum vikum síðan að þá er þetta kjörstaða fyrir okkar menn. Hefði okkur verið boðið þetta dauðafæri í byrjun tímabils með útréttri hendi þá hefðum við gleypt gylliboðið upp að öxl. Til viðbótar eigum við úrslitaleik í Meistaradeildinni sem er stærsta kirsuber sem hægt er að setja á kökutoppinn.

Vinargreiði svaramannsins Wagner fyrir úrvalsvin sinn Klopp var kærkominn og létti þeirri pressu á Liverpool að verða að vinna Brighton í síðasta leiknum ellegar gætu Chelsea stolist upp fyrir þá með sigri á St. James’ Park. En að sama skapi er alltaf hættuspil ef spila á upp á jafntefli þar sem eitt slysamark á lokasekúndum gæti haft hörmulegar afleiðingar. Því trúi ég því að Klopp muni áfram láta sem ekkert hafi breyst varðandi sigurþörfina og spili vonandi glymrandi sóknarbolta á heimavelli til að ná sigurstöðu sem fyrst í leiknum. Þar getur Anfield líka haft sinn þátt að spila með því að hafa stuðningsstemmningu í staðinn fyrir stress í stúkunni. En skoðum liðin.

Mótherjinn

Mávarnir frá Brighton & Hove geta vel við unað eftir sitt fyrsta tímabil í efstu deild enskrar knattspyrnu síðan 1983. Rúmri þrjátíu ára þrautagöngu um hinar ýmsu neðri deildir er lokið með niðurstöðu sem fæstir hefðu gert ráð fyrir í byrjun tímabils. Liðið var aldrei í fallsæti í vetur, reyndi ávallt að spila sæmilegan fótbolta og það hefur skilað þeim virðingarverðri stöðu í 14.sæti deildarinnar. Leikmenn og stuðningsmenn geta því verið stoltir af sinni frammistöðu í vetur og farið að velta fyrir sér liðsstyrk í sumar fyrir næsta vetur í úrvalsdeildinni.

Reyndar hefur útivallarformið þeirra verið eitt það versta í deildinni og af einungis tveimur útisigrum BHA þá var sá síðasti þeirra í byrjun nóvember. Það að Brighton hefur ekki unnið útileik á árinu 2018 ætti að kæta okkur Púlara í leik sem við megum ekki tapa en hins vegar hafa þeir verið að stríða stórliðunum upp á síðkastið með heimasigrum á Man Utd og Arsenal að viðbættu jafntefli gegn Tottenham. Liðinu hefur gengið illa að skora og eru með innan við mark að meðaltali í leik eða 33 mörk í 37 leikjum en að sama skapi hefur vörnin verið nokkuð traust miðað við nýliða og t.d. fengið á sig einu færra mark en Arsenal eða bara 50 mörk fengin á sig.

Pascal Groß hefur vakið mesta athygli í vetur með sín 7 mörk og 8 stoðsendingar og hefur átt sína bestu leiki sem framliggjandi sókndjarfur miðjumaður. Sigurmarkið gegn Man Utd um daginn gerir hann bæði að auðfúsugest allra Púlara en einnig að hættulegasta leikmanni gestanna. En þó að Groß hafi unnið vel fyrir sínum fyrirsögnum þá hefur hávaxna hafsentaparið Shane Duffy og Lewis Dunk verið bestu leikmenn liðsins í vetur með flottar frammistöður og góðar tölfræðilegar einkunnir skv. WhoScored (7,19 og 7,04). Þeir félagar misstu samanlagt bara úr einn leik í vetur, samstarf þeirra verið sérlega stabílt og t.d. toppar einkunn Duffy mörg stærri nöfn í sömu leikstöðu eins og Otamendi, Koscielny og Azpilicueta.

Brighton hafa verið heppnir með fá meiðsli í vetur og það hefur hjálpað liðinu í að geta oftast stillt upp sína sterkasta liði og sú verður raunin á sunnudaginn á Anfield. Hin fallega föðurnefnda varnarlína Bong-Dunk-Duffy-Bruno verður væntanlega á sínum stað. Liðið mun líklega verða stillt upp svona með einni breytingu frá tapinu í miðri viku gegn Man City þar sem sóknarmaðurinn Murray kemur inn fyrir Ulloa:

Líklegt byrjunarlið Brighton í leikkerfinu 4-4-1-1

Liverpool

Klopp og hans kátu kappar hafa haft þann lúxus að geta safnað kröftum og stillt saman strengi alla vikuna. Að öllum líkindum munum við stilla upp okkar sterkasta liði til að koma í veg fyrir katastrófu, vitandi það að við höfum svo tvær vikur fram að úrslitaleiknum í Kænugarði. Vikan hefur verið notuð í taktískar æfingar á Melwood en einnig í verðlaunaafhendingar þar sem Liverpool úthlutuðu sínum viðurkenningum fyrir tímabilið á fimmtudagskvöldinu. Engum kom á óvart að Mohamed Salah var leikmaður ársins hjá klúbbnum og meðal leikmanna enda hefur egypski snillingurinn orðið hlutskarpastur í vali á Liverpool-leikmanni mánaðarins í heil sjö skipti í vetur. Trent Alexander-Arnold hlaut nafnbótina besti ungi leikmaður ársins og Harry Wilson besti akademíuleikmaðurinn. Mark ársins var þrumufleygur Alexander Oxlade-Chamberlain gegn Man City í Meistaradeildinni og það er vel þessi virði að endurnýja gæsahúðina sem maður fær við að sjá það mark aftur.

Kvöldinu var þó ekki lokið hjá Mohamed Salah sem brunaði til höfuðborgarinnar til að taka við verðlaunum frá Football Writers Association sem besti leikmaður ársins. Með þessu fullkomnar Mo Salah þrennuna í þeirri ágætu nafnbót og á ennþá möguleika á að næla í gullskóinn til viðbótar. Bjartsýnustu spekingar og faraóar hefðu ekki geta spáð svona mögnuðu fyrsta tímabili hjá Egyptanum elskulega og við þurfum allir að finna okkur viðeigandi höfuðfat til að taka hatt okkar að ofan fyrir meistaratöktum Mo Salah á þessu tímabili.

Mohamed Salah er leikmaður ársins hjá Football Writers Association

Vonandi hefur þessi vika gert sitt gagn fyrir leikmenn í að hvíla lúin bein og fyrir Klopp til að fara yfir taktískar áherslur fyrir næsta leik eftir tapið gegn Chelsea. Sú neikvæðni og gildishlöðnu ofsögur af aumingjaskap okkar manna var reyndar full mikið fyrir minn smekk þar sem mér fannst við ekki alslæmir í þeim leik. Leikmenn voru aðallega uppgefnir á líkama og sál eftir afrekið í Rómaveldi og þungir fætur eru ekki heppilegir fyrir gegenpressen eða til að brjóta niður ítalskættaðan varnarmúr fráfarandi Englandsmeistara á þeirra eigin heimavelli.

Meiðslastaðan hefur lítið skánað nema hvað að Adam Lallana ætti kannski séns á sæti á bekknum eftir að hafa verið í leikmannahópnum sem flaug til Rómaborgar. Gomez fór í aðgerð í vikunni og Emre Can er ekki að braggast nógu hratt þannig að hvorugur verður í boði um helgina né í Kiev. Gróusögurnar í greipvíninu hafa reyndar verið að hvísla í eyra hinna alheyrandi að Buvac the Brain sé á leiðinni aftur á Anfield en enn sem komið er hefur það ekki verið staðfest. Það væru þó kærkomnir endurfundir hans og Klopp ef svo væri og vel tímasett lyftistöng fyrir þessa síðustu tvo leiki tímabilsins.

Mín tilfinning fyrir þennan leik er að Klopp muni stilla upp sínu sterkasta liði og það liðsval er nokkurn veginn sjálfvalið miðað við meiðslalistann. Hér er uppkast að mínum töflufundi og liðsuppstillingu í lokaleiknum:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

Spakra manna spádómur

Liverpool mun ekki láta þetta happ sér úr hendi sleppa og munu klára þennan úrslitaleik um Meistaradeildarsætið á sama hátt og árið áður. Ég spái sömu markatölu og í fyrra eða 3-0 lokaniðurstaða með tveimur mörkum frá Mo Salah og einu marki frá Firmino. Það ætti að duga þreföldum leikmanni ársins til að fá gylltan fótabúnað, nema ef ske kynni að Harry Kane krefjist allra marka sem skoruð verða í lokaumferðinni.

YNWA

Upphitun: Liverpool í Rómaveldi

 

Kató gamli var fríður maður og forkunnafagur fýr

Praeterea censeo Carthaginem esse delendam“  eða á hinu ástkæra ylhýra:  „Auk þess legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði!„. Þannig endaði Rómverjinn Kató gamli allar sínar ræður sökum einstakrar óbeitar sinnar á Púnverjum sem hýstu þá ágætu borg. Gilti þá einu máli hvort að ræða hans fyrir öldungarráði Rómverja snérist um það málefni eða eitthvað algerlega ótengt; alltaf skildi Karþagó vera gereytt!

Halda mætti að Andrea Cecchini, talsmaður rómversku lögreglunnar, upplifi sig sem nútímaútgáfu af Kató gamla og hafi skipt heiftinni gegn Púnverjum í Karþagó út fyrir hatur á Púlverjum Liverpoolborgar. Slíkur er boðskapurinn sem miðlað er frá lögregluyfirvöldum Rómaborgar um að von sé á þúsundum Lucas-Lazio-styðjandi boltabullna með Scouser-vegabréf til hinnar eilífu borgar. Þá er auðvitað sú staðreynd lögð algerlega til hliðar að Rauði herinn hefur verið á sinni allra bestu hegðun á fótboltaferðalögum sínum um Evrópu á meðan svokallaðir stuðningsmenn Roma gerðu heigulslega og lífshættulega árás á írska Púlarann Sean Cox fyrir utan The Albert rétt fyrir fyrri leik liðanna.

Má vel vera að Roma og stuðningsmenn þeirra hjá lögregluyfirvöldum sjái þá eina von vænsta í stöðunni að hleypa stemmningunni og ástandinu upp á lífshættulegt stig miðað við það hvernig Liverpool slátraði Rómverjum á fótboltavellinum fyrir viku síðan. Eða kannski eru Rómverjarnir bara klikk eins og Evrópu-Einar fjallaði svo listavel um í síðustu viku. Við verðum einfaldlega að vona að leikurinn fari stórslysalaust fram og að allir Púlarar komi heilir heim.

Ástæðan fyrir örvæntingu rómverskra er sú að Liverpool er í afar sterkri stöðu. Vissulega hleyptu okkar menn vonarglætu í unnið einvígi með eftirgjöf á lokamínútum fyrri leiksins, en þeir unnu samt leikinn með þriggja marka mun og það er stór biti til að kyngja fyrir hvaða lið sem er. Jafnvel þótt að Roma hafi tekist að hesthúsa þann markamun gegn meistara Messi og hans katalónsku kumpánum þá þarf klifun á kraftaverki til að ná slíku fram að nýju. Liverpool hefur algerlega yfirhöndina og Kató gamli, Cecchini , Di Francesco þjálfari og allir hinir vita það mætavel.

Mótherjinn

Roma geta stólað á svo gott sem sitt sterkasta lið á heimavelli með enga menn alvarlega meidda né í leikbanni. Þeir hituðu upp fyrir leikinn gegn Liverpool með því að vinna Chievo 4-1 í ítölsku Seria A deildinni um síðustu helgi. Nöturleg tilhugsun þar sem að sú niðurstaða myndi einmitt koma heimamönnum alla leið til Kænuborgar ef hún næðist gegn Púlverjum. Þeir gátu einnig leyft sér þann munað að hvíla nokkra leikmenn og munu pottþétt blása til sóknar frá fyrstu mínútu.

Mín taktíska ágiskun er að þeir muni falla frá 3-4-3 kerfinu sem þeir stilltu upp á Anfield og fari í 4-3-3 líkt og þeir spiluðu með um helgina. Reyndar voru þeir með 3-5-2 gegn Barcelona sem svínvirkaði í það skiptið og því gæti Di Francesco reynt að koma Klopp og okkar mönnum í opna skjöldu með óvæntum tilfæringum. En mitt skot í myrkri með liðsuppstillingu heimamanna er svona:

Líklegt byrjunarlið Roma í kerfinu 4-3-3

Liverpool

Síðasta vika hefur verið viðburðarík í okkar herbúðum frá því að við lögðum Roma 5-2 í stórkostlegum fótboltaleik á mögnuðum Anfield. Skyldusigur gegn botnliði Stoke stóð ekki undir væntingum og breyttist í frústrerandi fýlubombu með dæmigerðu dómarabulli. Svekkelsið entist ekki lengi því að daginn eftir skrifaði meistari Firmino blindandi undir 5 ára samning og gladdi rauðliða víða um heim. Sérlega mikilvæg skilaboð um framtíð lykilmanns liðsins þó að reyndar séum við Púlarar ýmsu vanir varðandi það hversu lengi s-amerískir leikmenn verða hjá okkur eftir að þeir skrifa undir langtímasamninga.

Gleðin var þó skammlifuð því að í gær staðfesti klúbburinn að Klopp yrði heilalaus út tímabilið þar sem að Buvac the Brain, nánasti samstarfsmaður Jürgen til tæpra tveggja áratuga, verði ekki meira með liðinu á tímabilinu útaf persónulegum ástæðum. Hugsanlega kemur ofurheilinn og hægra höndin til greina sem stjóri hjá stórliðum Dortmund eða Arsenal eða kannski kom alvarlegur ágreiningur upp á milli þeirra félaganna. En það sem við Púlarar höfum mestar áhyggjur af er hvort að þetta gæti haft einhver skammtímaáhrif á undirbúning liðsins fyrir þennan gríðarlega mikilvæga leik. Persónulega held ég að leikmenn séu alveg nógu miklir atvinnumenn og þokkalega mótiveraðir af úrslitaleik Meistaradeildarinnar til að komast í gegnum þennan leik án herra Zeljko. En þetta hjálpar ekki til.

Mannaval fyrir leikinn hefur farið minnkandi á síðustu vikum og er svo komið núna að byrjunarliðið velur sig að mestu leyti sjálft. Hin slæmu meiðsli Oxlade-Chamberlain ásamt fjarveru Emre Can tryggja byrjunarliðssæti Wijnaldum ásamt Milner og Henderson. Mané og Alexander-Arnold virðist vera búinn að jafna sig og hin óvæntu tíðindi um að Lallana sé nógu heilsuhraustur til að komast í 23 manna hópinn sem ferðast til Roma í dag eru vel þegnar fréttir í jákvæðari kantinum. Svona mun lið Liverpool væntanlega vera stillt upp á Stadio Olimpico annað kvöld:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í kerfinu 4-3-3

 

Það að Roma þurfi að opna sig og sækja á okkur mun væntanlega hjálpa Liverpool með að beita hröðum skyndisóknum á móti. Það er kjörstaða fyrir okkar taktík en líkt og við sáum gegn Man City um daginn að þá getur mark snemma leiks sett skrekk í mannskapinn og þá er aldrei að vita hvað getur gerst í suðupottinum í Rómaborg. Fótbolti er fótbolti og getur rúllað í hvaða átt sem er. Liverpool þurfa því að mæta óhræddir til að spila sinn hugrakka fótbolta áfram og muna hvernig þeir komust svona langt. Ef við förum að ætla að verja forskot í heilan leik þá er voðinn vís. Við höfum ekki tapað leik í Meistaradeildinni í vetur og vonandi verður framhald á því þegar að mest á reynir (7,9,13).

Spakra manna spádómur

Mín vongóða spádómsviska er sú að við skorum mark í fyrri hálfleik sem rói taugar og dragi úr trú Rómverja á kraftaverkefninu. Sagan er með okkur og ég vonast eftir 1-2 sigri Rauða hersins í Rómaborg.

YNWA

Byrjunarliðið vs. Roma á Anfield!

Dömur mínar og herrar! Ladies and gentlemen! Signore e signori! Púlarar nær og fjær!

Það er komið að risastórri stundu í Mekka menningarfótboltans og höfuðvígi hápressunnar: fyrri leikur undanúrslita í Meistaradeildinni 2018 á Anfield Road í Liverpool.

Í kvöld mætast fjendur með forsögu í sögu Evrópufótboltans. Spagettílappirnar og hormottan hjá Bruce Grobbelaar hræddu líftóruna úr vítaskyttum Roma á Ólympíuleikvanginum í Róma árið 1984 og Michael Owen afgreiddi sama lið á sama stað árið 2001. Báðar herferðir enduðu með evrópskum silfurbikurum í höndum Rauða hersins og við krjúpum á hné og krossleggjum fingur í von um sömu niðurstöðu að þessu sinni (7,9,13).

Herr Klopp hefur stillt sína strengi á rafmagnsgítarnum og þungarokkhljómsveit kvöldsins er skipuð eftirfarandi rauðum rokkhundum:

Bekkurinn: Mignolet, Clyne, Wijnaldum, Klavan, Moreno, Ings, Solanke.

Liverpool stillir upp líkt og flestir gerðu ráð fyrir og eina spurningin var um hvort að Wijnaldum yrði í byrjunarliðinu en Milner og Oxlade-Chamberlain fá það hlutverk að spila við hlið fyrirliðans Henderson. Bakvarðakapallinn er stokkaður og inn koma Robertson og Alexander-Arnold í stað Gomez og Moreno sem áttu dapran síðasta leik.

Liðsuppstilling rómversku gestanna er eftirfarandi:

Nú er innan við ein ögurstund í að ofurleikurinn hefjist. Farið í lukkusokkana, haldið á fjarstýringunni í réttri hendi og náið ykkur í taugastillandi happadrykk að eigin vali. Rúta Roma hefur vonandi komist óskemmd á leiðarenda með skjálfandi Rómverja innanborðs yfir mögnuðum stuðningi Rauða hersins.

Við vitnum í yfir-púlarann og látunsbarkann, Pál Sævar „Röddina“ Guðjónsson og staðfærum:

Þetta er okkar Anfield! Þetta er okkar stund! ÁFRAM LIVERPOOL!

Come on you REDS! YNWA!

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.