Allar færslur eftir Kristján Atli

Gúrkan

Hvað er að frétta?

Í einu orði: ekkert.

Í nokkrum orðum: okkar menn eru sennilega á ferð og/eða flugi akkúrat núna enda farnir í æfingaferð til Þýskalands. Þar mun mikilvægasti hluti undirbúningstímabilsins fara fram, þar þjappar Klopp liðinu saman og kemur öllum í það form sem gerir liðinu kleift að spila hápressuna næstu níu mánuði. Í 30-manna hópnum sem ferðaðist til Þýskalands er lítið sem kemur á óvart, leikmenn eins og Moreno og Danny Ward eru með þrátt fyrir að vera orðaðir við önnur lið í sumar.

Einn leikmaður er þó orðaður við sölu þessa dagana, Lazar Markovic er sagður í viðræðum við Fiorentina en Klopp var búinn að staðfesta að hann mætti finna sér nýtt félag og hann fór ekki með til Þýskalands.

Svo er það náttúrulega slúðrið um Coutinho og þetta Barcelona-tilboð. Við sjáum hvað gerist, nýjasta slúðrið frá Brasilíu er að Phil hafi samþykkt launapakka frá Barcelona en boltinn er enn hjá Liverpool sem halda honum ef þeir vilja, þar sem ekki er útlit fyrir að hann óski formlega eftir sölu.

Sama staða og hjá Naby Keita og Virgil Van Dijk, í raun. Liverpool vill þá og þeir vilja Liverpool en félögin virðast ekki vilja selja. Það væri því hræsni af okkur að hrósa Liverpool fyrir þrjósku gagnvart Barcelona en blóta um leið RB Leipzig og Southampton, ekki satt?

Skítt með það. Drullist til að selja, Southampton og Leipzig! Hættið að skemma fyrir Klopp! ;-)

Þetta er gúrkutíðin þessa dagana. Það eru einhverjar fréttir en það er þoka yfir þeim svo það er erfitt að vita hvað verður. Ég get ekki ímyndað mér að Liverpool selji Coutinho nema að fá staðgengil eða gengla inn fyrst. Við verðum svo bara að meta hvort það er nóg að t.d. fá Salah og Keita inn (ef það yrði að veruleika) og missa Coutinho á móti.

Sjáum til. Næsti æfingaleikur er á laugardaginn gegn Hertha Berlín. Þangað til …

YNWA

Liverpool 2 Crystal Palace 0 [æfingaleikur]

Liverpool spilaði í undanúrslitum Hong Kong bikarsins (eða hvað þetta heitir) í hádeginu í dag. Flestir leikmenn liðsins komu við sögu og urðu lokatölur 2-0 í ágætis leik. Liverpool voru betri en sóknarlína Palace minnti aðeins á sig á köflum. Ég var sérlega hrifinn af Trent og Salah (sá hraði, maður lifandi!) í fyrri hálfleik og Origi, Solanke og Coutinho í seinni.

Mörkin komu bæði í seinni hálfleik. 1-0 Solanke:

2-0 Origi:

Sigurinn þýðir að Liverpool leikur til úrslita í þessu móti á laugardag, en mótherjinn á held ég eftir að koma í ljós.

YNWA

Júlí! Glugginn opinn!! Geisp…

KOMDU MEÐ KOP.IS TIL LIVERPOOL Í HAUST. SJÁ VEF ÚRVAL ÚTSÝNAR!

Gleðilegan júlí öllsömul!

Hvað er svo að frétta? Það er frekar mikil lognmolla yfir Liverpool FC þessa dagana. Meira að segja kvennaliðið er ekki að kaupa eða selja leikmenn.

Talandi um sölur, þá er það kannski það óvæntasta við sumarið. Mamadou Sakho, Lazar Markovic og hinir sem voru á láni, eða leikmenn eins og Daniel Sturridge og Lucas Leiva sem voru stöðugt orðaðir við leikmenn í allan vetur, en við heyrum ekki neitt. Andre Wisdom fór til Derby í júní en annars hefur varla heyrst langsótt slúður um sölur leikmanna, hvað þá annað.

Í innkaupunum er líka rólegt að frétta. Solanke og Salah eru á skrá og mæta til vinnu á næstu dögum eins og aðrir leikmenn, en liðið er að hefja undirbúningstímabilið í miðri viku, enda ekki nema tíu dagar í fyrsta æfingaleik.

Það heyrist eitthvað óljóst slúður um að Naby Keita hafi samþykkt samning við Liverpool og nú þurfi liðin tvö bara að semja um kaupverð. Einmitt. Eftir Van Dijk-söguna er enginn að setja kampavínið á ís, hvað þá að toga í tappann. Sjáum hvað setur.

Þetta sumar gæti ennþá brugðið til beggja vona. Við gætum fengið Solanke og Salah, Keita og Oxlade-Chamberlain á miðjuna, Van Dijk og bakvörð í vörnina og verið dansandi ánægð við lok gluggans. Við gætum líka misst af Keita og Van Dijk og endað með verri kosti, vitandi að Klopp langar virkilega virkilega í þessa tvo, og verið efins þegar tímabilið hefst. Vonum að Klopp fái það sem hann vill, það sem hann þarfnast.

Annars lagði Klopp áherslu á hversu mikilvægt undirbúningstímabilið sé í viðtali fyrir helgina. Hann ætlar sér klárlega stóra hluti á næstu leiktíð. Vonandi fær hann tækin til þess að smíða höll í sumar.

Júlí. Glugginn er opinn. Nú ætti að fara að koma hreyfing á hlutina, inn og út. Vonum það besta.

YNWA

Leikjaplanið 2017/18 komið / Ferðir á vegum Úrval Útsýnar

Leikjaplanið fyrir komandi tímabil var gefið út í morgun. Okkar menn hefja tímabilið úti gegn Watford, enda það heima gegn Brighton. Borgarslagirnir eru í desember (Anfield) og apríl (Goodison), á meðan United og Mourinho munu leggja rútunni á Anfield í október og fagna jafntefli gegn okkar mönnum á Old Trafford í mars.

Við minnum sem fyrr á hópferðir Kop.is og Úrval Útsýnar. Við erum þegar búin að sigta út tvo eða þrjá leiki í haust og munum kynna þær hópferðir strax á næstu dögum svo endilega fylgist með því og komið með okkur að sjá þetta frábæra lið Jürgen Klopp í haust.


Úrval Útsýn eru einnig með frábærar golfferðir fyrir áhugasama en í haust verður hægt að bóka sig í styttri og lengri ferðir til El Plantio Resort við Alicante. Þar er boðið upp á 4, 7, og 10 nátta ferðir en á Plantio er allt innifalið og ótakmarkað golf í boði. Gist er í 4-stjörnu íbúðagistingu en hver íbúð hefur tvö svefnherbergi og tvö baðherbergi – tilvalið fyrir tvo ferðafélaga sem vilja gista í hvoru herberginu! Einungis 5 mínútna keyrsla frá flugvellinum og 10 mínútna keyrsla frá miðbæ Alicante.

Við mælum með þessum ferðum. Ef þið hafið áhuga getið þið séð nánari upplýsingar á UU.is/golf.

Skellið ykkur í golf með Úrval Útsýn!

YNWA

Kop.is semur við Úrval Útsýn!

Kop.is og Úrval Útsýn tilkynna endurnýjað samstarf um hópferðir til Liverpool tímabilin 2017/18 og 2018/19!

Síðan 2013 höfum við hjá Kop.is boðið upp á hópferðir til Liverpool-borgar með frábærum árangri. Undirtektirnar hafa verið ótrúlega góðar og ferðirnar hafa heppnast gríðarlega vel. Í vor undirtók stjórn Kop.is samningaferli sem hefur nú klárast með því að samstarf Kop.is og Úrval Útsýnar hefur verið formlega endurnýjað til næstu tveggja ára.

Luka Kostic frá Úrval Útsýn og Sigursteinn Brynjólfsson frá Kop.is innsigla samstarfið.

Þetta þýðir að við getum staðfest að Kop.is og Úrval Útsýn munu bjóða upp á nokkrar frábærar ferðir til fyrirheitna landsins að sjá liðið okkar allra næstu tvö tímabil, hið minnsta. Að venju munu ferðirnar innihalda:

  • Fararstjórn Kop.is
  • Flug og gistingu á góðu hóteli í frábærri borg
  • Miða á Anfield til að hvetja Liverpool til sigurs

Við hjá Kop.is og Úrval Útsýn hlökkum til að kynna fyrir ykkur fyrstu ferðirnar á næstu vikum. Leikjaplanið fyrir tímabilið 2017/18 verður birt í næstu viku og í kjölfarið stefnum við á að setja saman pakka fyrir tvær ferðir fyrir áramót, eina snemma í haust og aðra nær jólum, og munum við svo kynna þær á næstu vikum þar á eftir. Þannig að ef ykkur hefur dreymt um að koma með okkur til fyrirheitna landsins, eða ef þið hafið farið með okkur áður og viljið koma aftur, bíðið þá aðeins með sparibaukinn þar til við kynnum ferðir okkar í sumar.

Hægt er að sjá ferðasögur frá fyrri ferðum hér:

Everton í maí 2013
Crystal Palace í október 2013
Swansea í febrúar 2014
West Brom í október 2014
QPR í maí 2015
Man Utd í janúar 2016
Sunderland í nóvember 2016
Swansea í janúar 2017

Sjáumst í Liverpool í vetur með Kop.is og Úrval Útsýn!