Allar færslur eftir Kristján Atli

Podcast #149

Ath.: Af tæknilegum ástæðum kom þessi þáttur ekki inn á þriðjudagskvöld eins og venja er. Við biðjumst velvirðingar á því.

Í þætti kvöldsins ræddu okkar menn sigurinn á West Brom, leikaðferð Klopp í síðustu tveimur leikjum, varnarmenn og hituðu upp fyrir leikinn gegn Crystal Palace.

Stjórnandi: Kristján Atli
Viðmælendur: SSteinn, Einar Matthías og Maggi

MP3: Þáttur 149

Stoke 1 Liverpool 2 [skýrsla]

1-0 44. mín. Jonathan Walters
1-1 70. mín. Philippe Coutinho
1-2 72. mín. Roberto Firmino

Fótbolti er svo geggjuð íþrótt. Ég missti næstum alla trú á verkefninu eftir þetta skítajafntefli gegn Bournemouth í miðri viku, sá bara fram á að lið sem er svona brothætt gegn minni spámönnum myndi alltaf tapa of mörgum stigum á útivelli gegn Stoke, Watford, West Ham og West Brom á næstu vikum til að ná að tryggja sér topp fjóra. Ekki skánaði það þegar ég sá byrjunarliðið í dag.

Hvað getur maður annað sagt eftir þennan leik en bara að öskra út í tómið? Þetta eru einfaldlega risastór þrjú stig í baráttunni, í leik sem ég bjóst ekki við neinu úr en voru einfaldlega þrjú nauðsynleg stig eftir jafnteflið í miðri viku? Ótrúlegt!

Bestu leikmenn Liverpool

Það kom á daginn að Stoke-liðið var ekkert að gera góða hluti frekar en okkar menn. Þetta leit út fyrir að vera leikur þar sem gæðaframtak einstakra leikmanna gæti ráðið úrslitum og það gerðist. Liðið var 1-0 undir og 70 mínútur liðnar af leiknum þegar Klopp henti sinni þriðju skiptingu inná völlinn, Sturridge í framlínuna fyrir Origi. Það gaf okkur nýja vídd, Sturridge kom klárlega inn með þau fyrirmæli að hanga á síðasta manni, reyna að komast á bak við vörnina þeirra og ýta henni þá aftur.

Þetta gaf strax í fyrstu almennilegu sókn liðsins þegar Coutinho jafnaði. Phil skoraði en það voru Can (sendingin), Sturridge (ógnin) og Coutinho sem eiga það mark saman. Svo kom sigurmarkið, geggjuð sending inn fyrir frá Wijnaldum og frábært slútt hjá Firmino. Tveimur mínútum síðar átti Mignolet svo eina af markvörslum ársins frá Berahino á markteignum.

Allir þessir leikmenn sem ég nefndi í þessum þremur atriðum hér að ofan eru menn leiksins. Það skiptir engu hvernig þeir spiluðu yfir 90 mínúturnar, hvað menn unnu margar tæklingar eða hver sendingarprósentan er. Þetta var ekki þannig leikur. Þessir leikmenn stigu upp þegar við þurftum á að halda og bjuggu til augnablikin sem gerðu gæfumuninn. Takk, strákar!

Vondur dagur

Allir í 70 mínútur, en mér er skítsama um það núna. Við unnum!

Ulla í leiðinni á Mike Dean dómara fyrir að dæma ekki vítið þegar brotið var á Woodburn rétt áður en Stoke komst yfir. Þeir halda áfram að láta gæðin tala sínu máli, dómarar Englands …

Umræða eftir leik

Miðað við Twitter sýnist mér fólk vera aðallega fegið og hissa og himinlifandi eftir þennan sigur. Fólk var þegar byrjað að greina tapið í ummælum hér á Kop og á Twitter en svo snerist þetta við og þá bara fagnar maður.

Liverpool er núna með 14 stig af síðustu 18 í deildinni, 4 sigrar og jafnteflin gegn City úti og Bournemouth heima. Það er virkilega gott gengi. Höldum áfram!

Við brosum þessa helgina, það er á hreinu.

Næstu verkefni

Heimsókn á The Hawthorns til West Bromwich Albion á sunnudag eftir átta daga. Vonandi fáum við eitthvað af leikmönnum til baka á þeim tíma. Coutinho ætti að jafna sig af vírusnum sem hann fékk í miðri viku, Firmino veitir ekki af hvíldinni í viku og kannski fáum við Henderson eða Lallana inn. Sá Sturridge sem við sáum í dag gæti líka alveg átt eftir hlutverk fram á sumarið, vonandi gerir vika af æfingum honum gott.

Næsti leikur. Það er bara þannig. Liverpool er enn í þessari baráttu. Og ég er enn með hjartaflökt. Góða helgi!

YNWA

Stoke v Liverpool [dagbók]

94. mín. – LEIK LOKIÐ! Þarna!!! Leikskýrslan kemur eftir smá.

74. mín. Ein af markvörslum ársins frá Mignolet! Arnautovic sendir frábæran bolta inn á markteiginn þar sem Berahino skýtur í fjærhornið niðri en Mignolet með handboltatakta, kemur fætinum fyrir þetta. Allt að gerast í þessum leik núna.

72. mín. – MARK! Firmino með eina neglu af vítateignum eftir langa og frábæra sendingu yfir vörnina frá Wijnaldum! 2-1 fyrir Liverpool!

70. mín. – MARK! Coutinho jafnar fyrir Liverpool eftir stórsóknina! Can sendi inná teiginn þar sem Sturridge hótaði skoti en Shawcross náði að bægja boltanum frá, Coutinho tók frákastið og skoraði örugglega. Koma svo!

68. mín. Sturridge inná fyrir Origi, lokaskipting okkar í leiknum. Liverpool hafa legið á Stókurum í nokkrar mínútur núna en það hefur ekki skilað neinu enn. Vonandi getur Sturridge breytt einhverju þar um.

59. mín. Loksins lífsmark! Gott skot frá Coutinho við vítateigslínuna en Grant ver vel í horn. Lovren skallar í slána úr horninu. Það er smá glæta í þessu hjá okkar mönnum, hálftími eftir til að bjarga þessum leik.

46. mín. Seinni hálfleikur er hafinn. Klopp setur Firmino og Coutinho inn strax í hléi fyrir Woodburn og Trent. Vonandi hressir þetta leik liðsins við!

HÁLFLEIKUR – 1-0 fyrir Stoke í hléi. Ekkert að gerast í fyrri hálfleik þar til allt fór af stað á 44. mínútu. Eftir endursýningar er þetta bara pjúra víti fyrir brot á Woodburn, skelfileg dómgæsla, en það afsakar samt ekki að menn hætti bara að verjast hinum megin. Clyne og Klavan nenntu hvorugur að elta sína menn inn á teiginn og Mignolet hefði mátt stíga út í skalla á markteig við sína nærstöng. Menn verða að gera betur en í fyrri hálfleik, og dómarinn mætti alveg hjálpa til þegar hann sér augljósa hluti.

44. mín. – MARK! Jonathan Walters kemur Stoke yfir með skalla undir lok hálfleiksins. Okkar menn vildu fá víti hinum megin, mér sýndist vera brotið á Woodburn en þarf þó að skoða það betur, Stókarar fóru auðveldlega upp hægri kantinn, Shaqiri inn á teiginn og setti hann inn á Walters sem var óvaldaður og skallaði í netið. Skelfileg vörn og sennilega einbeitingarleysi eftir að menn vildu fá víti hinum megin. Það afsakar samt ekkert að menn hætti að verjast.

30. mín. Enn ekkert að gerast. Woodburn var að hrista af sér hnjask. Það er pláss fyrir Liverpool að gera eitthvað með boltann í þessum leik en menn eru ekki að nýta það hingað til.

15. mín. Kortér liðið, fátt um fína drætti hjá báðum liðum í raun. Frekar rólegur leikur hingað til. Liverpool er að spila 3-5-2 með Clyne á vinstri væng, Trent hægra megin, Klavan í vörn með Matip og Lovren, Miler á miðju með Can og Wijnaldum. Woodburn er svo í holunni fyrir aftan Origi.

3. mín. Shaqiri sleppur í gegn og skorar en það er réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Hjúkk!

Uppfært (14:00): Leikurinn er hafinn! Koma svo!

Uppfært: Hér er Stoke-liðið í dag:

Minni svo á að nota #kopis á Twitter og hér má fylgjast með umræðunni.

Walters, Arnautovic og Berahino frammi, Joe Allen og Glen Johnson mæta sínu gamla liði, Peter gamli Crouch á bekk. Það er kannski í lagi að ég færi það til bókar að mér líst ekkert á þennan leik, spái okkur tapi. Ég sé bara ekki hvernig unglingarnir eiga að rífa okkur upp á útivelli gegn Stoke. Kannski var ekkert annað í stöðunni hjá Klopp, eflaust mikil þreyta í Firmino eftir álag undanfarið og Lucas hefur ekki getað spilað þrjá leiki á viku í mörg ár.

Sjáum hvað setur. Vonum það besta. YNWA


Jæja, leikur framundan á Britannia Stadium. Byrjunarlið Liverpool lítur svona út:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Klavan

Trent – Can – Wijnaldum – Milner – Woodburn

Origi

Bekkur: Karius, Moreno, Lucas, Grujic, Coutinho, Firmino, Sturridge.

Þetta er ótrúlegt byrjunarlið! Coutinho væntanlega enn veikur eftir miðvikudaginn eins og Klopp varaði við í gær en það kemur gríðarlega á óvart í þessari manneklu að Firmino og Lucas fari á bekkinn, hvað þá að hinir kornungu Trent Alexander-Arnold og Ben Woodburn komi í liðið. Á útivelli. Gegn Stoke!

Ég teikna þetta upp 4-5-1 hér að ofan en þetta gæti alveg verið 3-5-2 eða 4-3-3 eða 4-4-2. Ég veit ekkert. Sjáum hvað setur.

Eins og venjulega uppfæri ég yfir leiknum og efstu uppfærslurnar koma efst.

Minni svo á að nota #kopis á Twitter. Hér má fylgjast með umræðunni.


Podcast #147

Í þætti kvöldsins glöddust strákarnir yfir sigrinum á Everton, skömmuðu Everton fyrir ömurlega framkomu í leiknum og hrósuðu Everton fyrir að taka stig af Manchester United í kvöld. Já, Everton kom við sögu í þessum þætti. Einnig var hitað upp fyrir leikinn annað kvöld gegn Bournemouth.

Stjórnandi: Kristján Atli
Viðmælendur: Maggi og Einar Matthías

MP3: Þáttur 147

Bournemouth á miðvikudag

Næsti leikur. 31. leikur Úrvalsdeildarinnar hjá Liverpool og Bournemouth koma í heimsókn á Anfield á miðvikudagskvöldið. Orðum það svona, þeir stálu þremur stigum og við viljum fá þau aftur.

Byrjum á stóru fréttunum eftir helgina:

Takk kærlega, Everton. Þetta er náttúrulega gríðarleg blóðtaka fyrir Liverpool ef satt reynist, Mané einfaldlega sjóðheitur og mögulega verið okkar besti maður í vetur. En svona er þetta, við erum Liverpool og megum yfirleitt ekki njóta góðu hluta lífsins of lengi.

Ég átti svo sem ekki von á Mané í þennan Bournemouth-leik, vonaðist frekar eftir að hann fengi vikufríið og væri klár á útivöll gegn Stoke um næstu helgi. En það lítur allt út fyrir að við verðum að sakna hans enn lengur en fram yfir páska, fari það grábölvað.

Allavega, að þessum Bournemouth-leik. Þeir sitja sem er í 11. sæti deildarinnar, sjö stigum frá fallsæti og sigla nokkuð lygnan sjó verður að segjast. Þeir hafa hins vegar aðeins unnið tvo af 15 útileikjum til þessa á tímabilinu, með 4 jafntefli líka eða 10 stig af 45 mögulegum á útivelli í vetur. Það er því lítið að óttast fyrir okkar menn á pappír, jafnvel án Mané, Lallana og Henderson. En við vitum að þannig virkar Liverpool í vetur ekki, og það er allt eins víst eftir sigrana í stórleikjum undanfarið að menn fari að tapa stigum aftur nú þegar mótherjarnir í næstu umferðum eru „minni spámenn“.

Af byrjunarliði Liverpool hef ég lítið að segja annað en þessar ömurlegu Mané-fréttir. Ég býst við að Lallana og Henderson verði enn frá og eftir góða frammistöðu byrjunarliðsins um helgina, og frábæra innkomu Divock Origi, liggur beint við að hann komi í liðið í stað Mané:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Can – Lucas – Wijnaldum

Origi – Firmino – Coutinho

Mín spá: Sigur og ekkert annað. Liðið er á góðum stað í deildinni og getur sett frekari pressu á keppinauta um sæti meðal fjögurra efstu með því að vinna þennan leik. Það bara verður að gerast ef árangur á að nást í vor, jafntefli eru tvö töpuð stig og ekkert annað. Þrátt fyrir fjarveru þriggja lykilmanna tel ég okkur vera með nægilegt púður í sókninni hjá Coutinho, sem hrökk heldur betur í gang í síðustu viku, Firmino sem er að gera allt rétt nema kannski að skora þessa dagana og Origi sem ætti heldur betur að hafa fengið sjálfstraustið um helgina.

Þetta verður kannski öðruvísi leikur í raun en sá gegn Everton, þar sem Bournemouth gætu tekið upp á því að reyna að spila knattspyrnu og sækja eitthvað (annað en smásálirnar sem mættu á Anfield síðasta laugardag) en það held ég að muni bara reynast okkur í hag.

Ég spái þolinmæðisverki en við innbyrðum að lokum 2-0 sigur. Mörkin koma bæði þegar líður á seinni hálfleikinn og maður verður farinn að naga neglurnar aðeins. Milner setur bæði úr vítaspyrnum. Origi og Clyne fiska.

YNWA

(Ath.: Þessi upphitun er í styttra lagi þar sem við ræðum leikinn og Mané-meiðsli betur í podcast-þætti annað kvöld.)