Allar færslur eftir Kristján Atli

Podcast – Einn af leikjum tímabilsins

Sérstakur gestur þáttarins að þessu sinni var Arngrímur Baldursson, einn forsprakka LFC History, og ræddi hann nýútkomna bók sína Mr Liverpool: Ronnie Moran um ævi og störf goðsagnarinnar Ronnie Moran. Þá ræddu strákarnir sigurinn gegn Burnley, leikform þeirra Phil Coutinho og Divock Origi, líkamsburði leikmanna og hituðu loks upp fyrir stórleik næstu helgar gegn Manchester City.

Stjórnandi: Kristján Atli.
Viðmælendur: SSteinn, Einar Matthías og Arngrímur Baldursson.

MP3: Þáttur 144

Podcast – Nokkrar tómar treyjur

Í þessum þætti voru strákarnir hetjurnar sem við þörfnumst, ekki hetjurnar sem við eigum skilið. Þeir fóru yfir tapið gegn Leicester, reyndu að finna jákvæðu hliðarnar á þessari leiktíð sem er óðum að fjara út og verða að engu, ræddu aðeins um fortíð Claudio Ranieri og framtíð Arsene Wenger og hituðu upp fyrir stórleikinn gegn Arsenal.

Stjórnandi: Kristján Atli.
Viðmælendur: Maggi og SSteinn.

MP3: Þáttur 142

Podcast – Köllum hann bara Trent

Á meðan Klopp og Liverpool-liðið eru í æfingaferð á Spáni vegna skorts á kappleikjum nota strákarnir tækifærið og skoða framtíð aðalliðsins, nánar tiltekið U23-lið Liverpool og þá ungu stráka sem hafa verið að stíga sín fyrstu skref með aðalliðinu á síðustu misserum. Þá var hitað vel upp fyrir leikinn gegn ríkjandi Englandsmeisturum Leicester og gengi þeirra krufið til mergjar.

Stjórnandi: Kristján Atli.
Viðmælendur: SSteinn, Magnús og Einar Matthías.

MP3: Þáttur 141

Molar á mánudegi

Í upphafi svona mánudags skulum við fyrst af öllu skoða stöðutöfluna í einu keppninni sem skiptir máli (eða, þið vitið, þeirri einu sem Liverpool er enn þátttakandi í fram á vorið):

tafla_130217

Þessi sigur um helgina var einfaldlega það stór að í stað þess að sitja í 6. sæti og með öll liðin fyrir ofan okkur eru okkar menn í 4. sæti og eiga enn eftir að fá Arsenal í heimsókn (og heimsækja City). Það sem er samt í raun áhugaverðast við töfluna er formið á Liverpool. Loksins kom eitt grænt ‘W’ á þá töflu í deildinni, en liðið hafði í alvöru ekki unnið deildarleik síðan gegn City á gamlárs.

Þetta er galopin tafla. Liverpool getur lent í 2. sæti í vor, Liverpool getur líka lent í 6. sæti. Game on.


Af leikmannamálum er lítið að frétta. Eftir tíðindalausan janúarmánuð hafa helst verið fréttir af því að leikmenn eins og Adam Lallana og Dejan Lovren séu við það að fá nýja samninga. Sennilega sýnir það okkur að Jürgen Klopp sé að meta hópinn sinn, verðlauna þá sem hann vill halda í lykilhlutverkum og sía hina í burtu. Ég sé t.d. Alberto Moreno, Daniel Sturridge eða Kevin Stewart ekki eiga mikla framtíð þegar þeir eru varla að fá mínútu með liðinu undanfarið og það er ekkert eftir nema deildin fram á vorið. Ég yrði hissa ef við sjáum Sturridge nokkurn tímann byrja leik aftur hjá Liverpool, satt best að segja.

Jordan Henderson fyrirliði vann vinnuna sína fyrir viku og kallaði leikmennina saman á Melwood í smá naflaskoðun. Það virðist hafa breytt miklu meðal leikmanna, ef eitthvað er að marka frammistöður þeirra allra gegn Tottenham þar sem mér fannst eiginlega ekki einn einasti leikmaður í byrjunarliði vera að spila undir 8 í einkunn.

Annars eru í dag tvær vikur í næsta leik gegn Leicester og eins og við mátti búast ætlar Klopp að nýta tímann til að hressa enn betur upp á móralinn. Liðið heldur í dag til La Manga á Spáni í fjórar nætur þannig að þið megið búast við Instagram-myndum frá Alberto Moreno úr sundlauginni og svona. Vonandi hristir þetta mannskapinn enn betur saman, eftir að Tottenham-sigurinn gaf tóninn. Það væri gaman að sjá haust-Liverpool verða að vor-Liverpool líka, svo að við getum gleymt vetrar-Liverpool sem fyrst.


Aðeins að lokum um eigendurna. Mikið hefur mætt á FSG frá lokun janúargluggans, og þökk sé genginu frá áramótum hefur sú umræða orðið háværari að þeir séu slæmir fyrir félagið og svo framvegis. Mér finnst vert að minna á hvernig þeir reka félagið í dag og að það er að mínu mati varla hægt að gera það betur. Þetta eru skynsamir eigendur sem eru að ná því mesta út úr félaginu, bæði fyrir okkur og fyrir sig.

Í haust skrifaði ég pistil í fyrsta landsleikjahléi þar sem ég talaði um raunhæfar væntingar, sagði að við ættum að njóta þess að horfa á gott lið sem væri sennilega ekki nógu sterkt til að fara alla leið og vinna titilinn. Ég fékk bágt fyrir að lesa stöðuna svona í haust, meira að segja frá nokkrum pennum Kop.is á samfélagsmiðlum, en það sem ég sagði þar hefur nánast allt gengið eftir. Liverpool er stórskemmtilegt lið í baráttu um Meistaradeildarsæti, en ekki nógu gott til að vinna titilinn.

Allavega, í ummælum fyrir þann pistil setti ég svo inn myndband sem mér fannst lýsa vel hvernig FSG hafa unnið fyrir félagið frá innkomu og mig langar að deila því aftur hér:

Hitt er svo önnur umræða að þótt ég sé á því að FSG hafi unnið hlutina skynsamlega og eins vel og hægt er innan þess ramma sem LFC býður upp á held ég að við getum nánast sagt að þeir séu að sanna að þú einfaldlega nærð ekki árangri í ensku Úrvalsdeildinni án þess að eignast sykurpabba eða tvo. Eitt Meistaradeildarsæti, vonandi tvö, og einn titill úr fjórum úrslitaleikjum, á sjö árum er ekki ásættanlegur árangur fyrir Liverpool en ég held í alvöru að FSG geri ekkert mikið betur án þess að selja félagið áfram til eigenda sem eru reiðubúnir að loka Excel-skjölunum og finna leiðir til að geta sturtað peningum í leikmannakaup. Að öðrum kosti sé ég lítið annað í stöðunni en að við höldum í raunsæjar væntingar. Ef Klopp nær Meistaradeildarsæti með liðið í vor getum við verið sátt við árangur vetrarins.

Þetta er opinn þráður, orðið er laust í ummælum.

YNWA

Podcast – Er hægt að kaupa klaka í Hveragerði?

Febrúar átti að vera öðruvísi en janúar. Það fór þó ekki alveg svoleiðis. Strákarnir gerðu upp tapið gegn Hull, ströndun móralsins á meðal stuðningsmanna og köfuðu djúpt ofan í það hvers vegna þetta gerist ár eftir ár hjá Liverpool. Í lokin var hitað upp fyrir Tottenham-leikinn og gerð heiðarleg tilraun til að finna jákvæðnina á ný.

Stjórnandi: Kristján Atli.
Viðmælendur: SSteinn, Einar Matthías og Magnús.

MP3: Þáttur 139