Allar færslur eftir Kristján Atli

Leikmannakaupin 2017?

Jæja, tímabilinu er lokið. Engin ástæða gafst til að opna bikarskápana að þessu sinni en á móti bætti liðið sig helling og náði 76 stigum, sem hefði nægt í titilbaráttu á flestum árum síðasta áratuginn. Í þetta sinn gaf það þó 4. sætið eftir firnasterka deildarkeppni hinna sex stóru. Það gefur sæti í umspil Meistaradeildarinnar í ágúst, hvar okkar menn verða í „sterkari“ pottinum og ættu því að fá viðráðanlega mótherja. Það er þó aldrei á vísan að róa og þótt Einar Matthías hafi farið framúr sér og spilað Meistaradeildarlagið í podcast-þætti vikunnar ætla ég að bíða með að setja það í heyrnartólin fyrr en seint í ágúst.

Fyrst er það sumarið. Það er orðið svo að á þriggja ára fresti fá leikmenn frí frá landsliðunum sínum yfir sumar og er komið að því í ár. Reyndar er einhver Álfukeppni í Rússlandi og mig grunar að Brassarnir okkar hið minnsta verði þar í júní. Aðrir fá frí og ættu að koma ferskir í undirbúningstímabilið í júlí. Jürgen Klopp og FSG verða þó í fullri vinnu næstu vikurnar enda sagði Klopp eftir lokaumferðina síðasta sunnudag að vinnan við að negla niður takmörkin fyrir sumarið væri að mestu búin, nú ætti bara eftir að bjóða í og ná samkomulagi. Vonandi gengur sú vinna vel fyrir sig.

En hvaða leikmenn munu styrkja lið Liverpool í sumar? Síðast þegar liðið komst í Meistaradeildina fyrir þremur árum missti liðið sinn besta mann (Suarez) og í rauninni næstbesta líka (Sturridge, endalaus meiðsli) og fékk andskotann ekki neitt í staðinn, endaði á panikkaupum á Mario Balotelli af öllum mönnum auk hins aldna Rickie Lambert í sóknina. Það er því einfaldlega pressa á FSG að gera betur í sumar og hvorki þeir né Klopp hafa afsakanir ef þetta sumar klikkar.

Svona í upphafi sumars er tilvalið að taka saman nokkur helstu nöfnin í helstu stöðurnar og sjá hvað er til í þeim. Þetta er ekki á nokkurn hátt tæmandi listi enda nokkur ár síðan ég nennti að liggja á transfer-vaktinni eins og þegar ég var yngri, þannig að ef þið sjáið nöfn sem ég hef gleymt megið þið endilega bæta þeim við í ummælum og ég uppfæri listann.

Förum yfir þetta stöðu fyrir stöðu:

Markverðir

Nöfn: Iker Casillas, Joe Hart. Klúbburinn var fljótur að afneita Casillas í vikunni, þar á bæ segjast menn ekkert skilja í þeim orðrómi og Liverpool Echo gengur svo langt að halda því fram að enginn markvörður verði keyptur í sumar. Joe Hart-slúðrið virðist aðallega vera tilkomið af því að hann snýr aftur til City í sumar eftir lán í Torino og þarf að finna sér nýtt félag. Það er hins vegar alveg morgunljóst að Klopp ætlar að treysta á Mignolet, Karius og Danny Ward næsta haust og því er engin þörf á að eyða fé í markvörð.

Niðurstaða: Enginn kemur. Þið sem látið ykkur dreyma um nýjan markvörð, haldið ekki niðrí ykkur andanum. Ekki í ár.

Hægri bakverðir

Nöfn: Engin. Félagið á enska landsliðsmanninn Nathaniel Clyne og ungstirnið Trent Alexander-Arnold, auk Connor Randall í varaliðinu. Og það eru engin nöfn orðuð við þessa stöðu hjá okkur þótt silly-season sé formlega hafið, sem segir ansi margt.

Niðurstaða: Enginn kemur. Trent A-A berst við Clyne um stöðuna næsta vetur.

Vinstri bakverðir

Nöfn: Ryan Sessegnon, Ben Chilwell, Andrew Robertson. Sessegnon virðist einna helst orðaður við okkur og hefur verið í nokkrar vikur núna, þótt ég hafi ekki fundið neina áreiðanlega miðla sem halda því fram að þetta sé langt komið. Það bendir þó ýmislegt í slúðrinu til þess að hann komi til okkar fyrst Fulham komust ekki upp í Úrvalsdeildina í vor. Fyrir þá sem ekki vita er Sessegnon nýorðinn 17 ára bakvörður hjá Fulham, enskur og uppalinn þar. Hann var frábær með Fulham í Championship-deildinni í vetur og þykir mikið efni, leikmaður sem gæti smellpassað í Klopp-módelið hjá Liverpool.

Niðurstaða: Sessegnon kemur og mögulega reyndari leikmaður eins og Andrew Robertson hjá Hull City. Þeir tveir geta þá barist við Milner um stöðuna eftir að Alberto Moreno fer væntanlega aftur til Spánar í sumar. Ég veit ekki með að setja traustið á 17-ára strák en fagna því ef það kemur loks breidd í þessa stöðu.

Miðverðir

Nöfn: Virgil Van Dijk, Michael Keane. Það eru eflaust fleiri nöfn á reiki þarna úti en þetta eru þau tvö sem eru helst orðuð við okkar menn. Ég býst bara við einum kaupum í þessa stöðu, til að bæta við samkeppnina í þeim Matip, Lovren, Gomez og Klavan sem ég býst við að verði allir kyrrir. Hér vantar okkur leikmann sem er helst af hærra kalíberi en þeir fjórir og getur komið með stöðugleika inn í vörnina. Van Dijk er klárlega eitt af stóru nöfnunum á markaðnum í sumar og verður rándýr en ég set smá spurningarmerki við að kaupa mann sem er rétt að jafna sig á slæmum meiðslum (frá síðan í janúar) og ætlast til að hann verði oftar leikfær heldur en meiðslaMatip og lasniLovren. En frábær leikmaður er hann, það er víst. Á móti held ég að Keane fari alltaf heim til United á ný ef Mourinho vill hann þangað, aðeins ef Mo hefur ekki áhuga gætum við átt séns. Ég hef ekki séð hann oft í vetur en leyfi mér að efast um að leikmaður sem Man Utd létu fara fyrir tveimur árum sé af hærra kalíberi en Matip og Lovren.

Niðurstaða: Van Dijk kemur. Ef ekki þá leitar Klopp út fyrir landsteinana og reynir að finna annan Matip/Klavan kost frá Þýskalandinu sem hann þekkir svo vel.

Miðjumenn

Nöfn: Naby Keita, Alex Oxlade-Chamberlain. Keita er 22ja ára Gíneu-búi sem spilar fyrir RB Leipzig í Þýskalandi og hefur slegið í gegn í vetur. Hann þykir sókndjarfur en alhliða miðjumaður með mikinn sprengikraft. Ég hef aldrei séð hann spila en hef heyrt honum líkt við Adam Lallana með hraða, ef það segir ykkur eitthvað. Oxlade-Chamberlain þekkjum við öll en hann hefur verið mikið orðaður við okkur eftir áramót og þykir líklegt að Arsenal gætu látið hann fara í sumar. Við höfum símeiddan Henderson, Can, Wijnaldum, Lallana, Coutinho, Lucas, Grujic og Kevin Stewart til að spila á miðjunni. Ég gæti séð að Liverpool reyndi við báða þessa leikmenn, eða tvo aðra sem við höfum ekki heyrt nefnda ennþá, ef Milner á áfram að vera bakvörður en ef það verða keyptir tveir vinstri bakverðir gæti Milner snúið til baka á miðjuna og þá þyrftum við mögulega bara einn hér.

Persónulega myndi ég einnig vilja setja frábæran varnartengilið í algjöran forgang ásamt heimsklassamiðverði í sumar en enginn slíkur hefur verið orðaður við okkar menn svo að tekið sé eftir, þannig að þá er komið að mér að halda ekki niðri í mér andanum. Þetta verður jafnframt tíunda sumarið í röð sem Lucas Leiva verður orðaður við brottför en ég held að hann verði kyrr enda fínt að hafa menn sem rugga ekki bátnum í hópnum upp á breiddina.

Niðurstaða: Við fáum Keita og einn annan sem við vitum ekki deili á, á meðan Kevin Stewart rær á ný mið. Milner snýr líka á miðjuna og ættum við því að vera ágætlega stödd með miðjumenn næsta vetur, sérstaklega ef Henderson á betra tímabil upp á meiðsli að gera (krosslegg fingur og tær hérna).

Sóknartengiliðir

Nöfn: Julian Brandt, Christian Pulisic. Aðeins eitt nafn sem við höfum heyrt nefnt hér af alvöru enda um alvöru leikmann að ræða. Brandt er 21s árs gamall sóknartengiliður sem leikur fyrir Bayer Leverkusen í heimalandi sínu. Hann getur spilað báða vængina og hefur verið sterklega orðaður við félagaskipti til Englands að undanförnu. Eftir að liðið reyndi við Julian Draxler í janúar en hann fór til PSG virðist Brandt vera næstur á lista. Christian Pulisic er leikmaður sem Klopp bauð í undir lok síðasta sumars en Dortmund neitaði þá og fyrst hann hefur slegið í gegn hjá þeim í vetur, þrátt fyrir ungan aldur, verður að teljast ansi ólíklegt að hann færi sig um set í sumar.

Einnig verður að taka hér með í reikninginn að flestir Liverpool-fréttamenn sem þekkja til segja að hinn ungi Harry Wilson verði færður úr varaliðinu og meira inn í aðalliðið í vetur, á svipaðan hátt og t.d. Trent Alexander-Arnold gerði á nýafstöðnu tímabili. Þá er von til að Sheyi Ojo geti spilað meira á næstu leiktíð eftir erfið meiðsli í allan vetur og þá eru fleiri efnilegir strákar eins og Ben Woodburn og Ovie Ejaria þarna sem gætu fengið fleiri leiki en í vetur til að halda sinni þróun áfram.

Niðurstaða: Allt verður reynt til að fá Brandt. Hann verður eftirsóttur en Klopp-faktorinn gæti gert gæfumuninn. Hann kemur í sumar og verður góð viðbót við frábæra sóknarlínu okkar manna.

Framherjar

Nöfn: Timo Werner, Alexandre Lacazette. Werner er 21s árs framherji hjá RB Leipzig, liðsfélagi Naby Keita. Hann var frábær á nýafstaðinni leiktíð, 21 mark hans í 31 leikjum áttu stærstan þátt í að lyfta Leipzig-liðinu alla leið upp í 2. sætið í Bundesliga og beint inn í Meistaradeildina. Það gæti reynst erfitt að fá hann frá Þýskalandi en þetta er eina nafnið sem ég hef séð orðað við okkur af alvöru fyrir sumarið. Lacazette hefur lengi verið draumur margra en hann er á leið til Atletico Madrid í sumar.

Framherjastaðan er sú sem er mér mestu á huldu. Hér gætum við alveg séð Sturridge og Origi fara og Danny Ings á láni í haust eða næsta janúarglugga og fengið tvo nýja leikmenn inn í sumar. Eins gætum við alveg séð t.d. Werner eða annan slíkan koma inn og bæta breiddina sem þeir Firmino, Sturridge, Origi og Ings bjóða upp á. Það er erfitt að segja til um það og eins erfitt að spá þegar við vitum ekki hverjir fara, hvað þá hversu marga leikmenn Klopp gæti viljað í þessa stöðu.

Mig grunar þó að mest einn leikmaður fari af fjórum núverandi í sumar og einn komi inn í staðinn.

Niðurstaða: Við fáum ekki Werner en einhver annar verður keyptur og þá fær Sturridge að róa á önnur mið eftir að vera orðið ljóst að hann er ekki reglulegur byrjunarliðsmaður í plönum Klopp.


Þar með lýkur þessari yfirferð. Tökum þetta saman:

Mark – Enginn kemur, enginn fer. Ward snýr aftur í stað Alex Manninger sem hætti í dag.
H-Bak – Enginn kemur, enginn fer.
V-Bak – Sessegnon og Robertson koma, Moreno fer.
Miðverðir – Van Dijk kemur, enginn fer.
Miðja – Keita kemur, Stewart fer.
Vængir – Brandt kemur, enginn fer.
Framlína – ______ kemur, Sturridge fer.

Ef þetta gengur upp er mér tvennt í huga: eru leikmennirnir sem koma inn nógu góðir til að koma okkar sterkasta kjarna upp á hærra plan? Og eykur þetta breiddina nægilega mikið? Ég held að ef Van Dijk, Keita, Brandt og nýr framherji koma gæti það orðið lyftistöng fyrir allt félagið enda þrír spennandi leikmenn þar á ferð (og framherjinn yrði vonandi líka mjög spennandi). Sessegnon/Robertson eru meiri spurningarmerki í vinstri bak en Milner hefur sýnt að hann getur a.m.k. eytt vandamálum í þeirri stöðu ef þörf krefur. Þannig að ég get alveg séð fyrir mér að sumargluggi eins og þessi bæti okkar sterkasta lið og lyfti liðinu á enn hærra plan.

Ég er hins vegar ekki sannfærður um að þetta yrði næg bæting á breiddinni. Ekki nema ætlunin sé að nota leikmenn eins og Harry Wilson, Marko Grujic og Trent Alexander-Arnold enn meira en gert var í vetur. Það verður aukið leikjaálag á liðinu strax í haust, þegar liðið þarf að spila tvo leiki á viku frá og með fyrstu umferð þökk sé forkeppni Meistaradeildarinnar. Það þarf breidd í þetta lið og 6 leikmenn inn, 3 leikmenn út myndi auka breiddina en það yrði þá undir leikmönnum eins og Wilson, Grujic, Ojo og Joe Gomez komið að bæta hana enn frekar.

Það er allavega spennandi sumar framundan. Pressan er á FSG eftir öll stóru orðin undanfarnar vikur, ekki síst frá Klopp sjálfum. Nú þurfa menn að fylgja orðunum eftir með aðgerðum.

Eða eins og Óli Haukur penni Kop.is orðaði það …

YNWA

Liverpool 0 Southampton 0 [skýrsla]

Þriðja síðasta umferð. Markalaust jafntefli á Anfield. Vorbragur yfir báðum liðum. 2 stig af síðustu 9 á Anfield. Óbreytt staða í baráttunni um Wenger-bikarinn. Förum aðeins nánar yfir þetta.

BESTU LEIKMENN LIVERPOOL

Hér er fátt um fína drætti. Mignolet þurfti lítið að gera í markinu og vörnin greip vel inní þau fáu skipti sem Southampton-liðar komust í sjónmál við mark Liverpool. Sérstaklega fannst mér Matip nokkrum sinnum stela boltum vel. Annars tók ég varla eftir honum, Lovren eða Lucas í leiknum, slíkir voru „sóknartilburðir“ gestanna í dag.

SLÆMUR DAGUR

Framar á vellinum voru vandamálin. Þessi leikur snerist ekki um að vera þéttir aftur og passa umfram allt upp á að halda hreinu. Eitt stig eða núll skipti ekki svo miklu máli, þótt vissulega geti munað um stigið eftir 38 umferðir. Hér var möguleiki á að ná í þrjú stig, vitandi að Arsenal og United myndu mætast í seinni leik dagsins, og nánast gulltryggja 4. sætið með tvo leiki til góða. Svo fór að Arsenal lagði United í seinni leiknum, sem þýðir að ef Liverpool hefði unnið í dag gætum við opnað kampavínið í kvöld. Þetta jafntefli þýðir hins vegar að menn horfa áfram yfir öxlina, United er sennilega úr leik núna en Arsenal eru komnir á ný inn í myndina og okkar menn geta ekki leyft sér mikið fleiri töpuð stig án þess að opna óvæntan glugga fyrir Wenger og Skytturnar til að ræna og rupla í lokaumferðinni. Þetta er ekki kallað Wenger-bikarinn fyrir ekki neitt, við vogum okkur ekki að afskrifa Arsenal á meðan þeir eiga séns á 4. sætinu.

Það er skemmst að segja frá því að allt liðið fær falleinkunn í dag, þótt lak Mignolet hafi haldist hreint. Verkefni dagsins var að búa til marktækifæri fyrst, og síðan að nýta eitt þeirra hið minnsta, og það mistókst algjörlega. Liðið fékk varla færi í leiknum þar til Sturridge kom inná, og jafnvel þegar varnarmönnum Southampton fór að leiðast þófið og gáfu klaufalega vítaspyrnu upp úr engu tókst James Milner að gera það sem hann hefur ekki gert fyrir Liverpool hingað til og láta verja spyrnuna frá sér.

Þetta var bara drulluslappt. Það var engin pressa, enginn kraftur, engin sköpun. Klopp gaf tóninn með því að stilla upp of varnarsinnaðri miðju með Lallana, sem gat spilað 82 mínútur um síðustu helgi eftir meiðslin síðustu vikur, á bekknum og Lucas sitjandi alveg að óþörfu fyrir aftan tvo miðjumenn sem fóru ekki mikið framar. Wijnaldum virkar mjög þreyttur í lok tímabils á mig og Can gerði sitt besta, átti sennilega hættulegasta langskot leiksins en við getum ekki ætlast til að hann skori hjólhest í hverri viku.

Sóknarmennirnir, maður lifandi. Því minna sagt um þá því betra. Coutinho var örugglega meiddur, ég meina hann hlýtur að hafa verið meiddur því hann gerði ekkert. Og samt tókst Firmino að gera minna. Og enn tókst Origi að gera betur en þeir báðir. Hann skuldar okkur eftir þessa „frammistöðu“, svo lítið gerði hann.

Þetta hófst með liðsuppstillingunni, þreytu eftir langa mánuði, vorbrag og sólgleraugum á Anfield. Útkoman var fyrirsjáanleg.

UMRÆÐAN EFTIR LEIK

 • Liðsuppstilling Klopp var óþarflega varnarsinnuð. Með stórleikinn síðdegis þar sem a.m.k. annar keppinauta okkar var pottþétt að tapa stigum, og í baráttu við City um þriðja sætið og stórsigur þeirra í gær, var bara full ástæða til að stilla upp sóknarsinnuðu og láta vaða. Klopp var allt of varkár í dag og fékk það í andlitið.
 • Átti einhver von á því að liðið kæmi sér í lykilstöðu í baráttunni um Wenger-bikarinn með þremur útisigrum í röð, á meðan aðeins næðust 2 stig af 9 á heimavelli? Þetta lið er algjör ráðgáta. Alltaf þegar maður heldur að þetta sé búið vinna þeir, alltaf þegar maður heldur að þetta sé komið renna þeir á rassgatið. Ég er búinn að afskrifa þetta lið svona tíu sinnum í vetur, og hampa velgengninni svona tíu sinnum í viðbót, og alltaf tryggja þeir að ég líti heimskulega út með frammistöðu næsta leiks.
 • Daniel Sturridge hefði mátt fá meiri tíma en 25 mínútur hér, Lallana líka. Lalli gerði lítið í dag eftir að hann kom inná en Sturridge ógnaði og skapaði meira á 25 mínútum en allir liðsfélagar hans höfðu gert hinar 75 mínúturnar. Hann bjó sér sjálfur til besta færi leiksins en skaut beint á Forster inná teig og var annars hættulegur. Ef leikmenn eru svona þreyttir og sköpunargleðin svona útvötnuð, og ef pressan í liðinu er engin lengur (það var í allan vetur besta ástæðan fyrir því að halda Sturridge utan liðs, að hann pressaði ekki jafn vel og hinir) þá er alveg eins gott að leyfa Sturridge að byrja síðustu tvo leikina eins og að láta Origi þjást mikið lengur. Allt liðið virðist þurfa nauðsynlega á sumarfríi að halda en Sturridge er a.m.k. að reyna að minna á sig fyrir sumargluggann eða eitthvað. Gefðu honum séns, Jürgen.
 • NÆSTU VERKEFNI

  Arsenal á útileik gegn Southampton á miðvikudag og svo útileik gegn Stoke á laugardag, áður en okkar menn heimsækja West Ham á sunnudaginn. Á sunnudag heimsækja Manchester United svo Tottenham. Ég er vongóður um að United og Arsenal vinni hvorugt leik í deildinni næstu 8 dagana, sem myndi nánast sjá um að innsigla topp fjóra fyrir okkar menn án þess að þurfa að vinna leiki sjálfir.

  En svona til öryggis vona ég að menn æfi sóknarleikinn og dusti rykið af hápressunni fyrir gríðarlega mikilvægan útileik gegn West Ham, þar sem sigur þarf helst að vinnast, til öryggis, og jafntefli gæti hreinlega reynst dýrt. Ekki getum við treyst á sigur á Anfield í lokaumferðinni, svo mikið er víst.

  YNWA

  Liverpool v Southampton [dagbók]

  (Þessi færsla er uppfærð á meðan á leik stendur. Nýjasta uppfærslan kemur efst.)

  95. mín. Búið, 0-0. Töpuð stig. Ógeðslega slappt. Leikskýrslan kemur síðar í dag, eftir stórleik Arsenal og United.

  87. mín. Skipting, Grujic inn fyrir Wijnaldum. Enn markalaust og engar líkur á að það breytist á næstu mínútum.

  69. mín. Tvöföld skipting, Origi og Lucas út fyrir Lallana og Sturridge. Koma svo, vinna þennan andskotans leik!

  64. mín. – Víti! Dómarinn dæmir víti á hendi á Stephens, sýnist mér, eða fyrir að rífa Origi niður. Hann var sekur um bæði, í raun. Milner steig upp en Forster varði vítið. Helvítis.

  46. mín. – Seinni hálfleikur er hafinn. Engar breytingar. Vonandi vöknuðu menn aðeins í hálfleik.

  Hálfleikur – Markalaust. Tíðindalaust. Tilþrifalaust. Það er frá nákvæmlega engu að segja eftir þennan hálfleik. Það er svakalegur vorbragur á þessu. Nennir einhver að senda háa sendingu á Can inná teig, takk?

  15 mín. – Geisp. Ekkert að gerast enn. Firmino var að enda við að eiga hálffæri eftir að Romeu missti boltann við teig Southampton, en skot Firmino var blokkað.

  12:30: Leikurinn er hafinn! Koma svo!


  Í dag er það þriðji síðasti leikur tímabilsins, og sá næstsíðasti á Anfield. Það eru tvær vikur eftir af þessu tímabili sem hefur verið alveg jafn laaangt og öll hin. Níu mánuðir, og það ræðst á næstu fjórtán dögum hvort liðið nær Meistaradeildarsæti eða hvort við verðum í fýlu í allt sumar. Mótherjar dagsins eru Southampton og þá þarf einfaldlega að leggja. Keppinautar okkar um þriðja sætið, Manchester City, unnu fimm marka sigur á heimavelli í gær þannig að nú bara má ekkert klikka.

  Byrjunarlið dagsins er sem hér segir:

  Mignolet

  Clyne – Matip – Lovren – Milner

  Wijnaldum – Lucas – Can

  Origi – Firmino – Coutinho

  Bekkur: Karius, Klavan, Moreno, Alexander-Arnold, Grujic, Lallana, Sturridge.

  Þetta er must win, það er einfaldlega allt undir í dag. Koma svo!

  Við minnum á tístkeðjuna okkar. Takið þátt í umræðum yfir leik með því að nota #kopis með tístum ykkar.


  YNWA

  Wenger-bikarinn

  Ath.: Vegna anna verður ekkert podcast í kvöld. Því miður.


  Ég held að Liverpool hafi verið að tryggja sér topp fjóra í gær, ef ekki meira. Og þvílíkt mark hjá Emre Can, ef þetta sigurmark reynist hafa tryggt okkur Wenger-bikarinn þá er það vel. Svona mark á ekki að koma í tilgangslausum leik eða þegar úrslitin eru þegar ráðin. Svona mark á að skipta sköpum.

  Þetta hefur verið skrýtið tímabil. Eins og Eyþór sagði í leikskýrslu í gær þá er þetta lið okkar stórfurðulegt. Átti einhver von á þremur útisigrum í röð gegn Stoke, West Brom og Watford, og þar af tvo 1-0 sigra? Og átti einhver svo von á að liðið myndi tapa fleiri stigum á Anfield en á útivelli eftir áramót, eftir að hafa rústað nánast öllum sem komu í heimsókn fram í janúar?

  Óstöðugleikinn hefur verið stöðugur og það hafa margir gallar komið í ljós á liði og leikmannahópi Liverpool. Það er ágætt líka því hvort sem topp 4 næst eða ekki ætti að vera ljóst að það þarf að styrkja liðið verulega í sumar. Að vissu leyti getum við jafnvel leyft okkur að vera svekkt með að liðið hafi ekki gert enn betur í vetur, miðað við skort á leikjaálagi og stöðu í deildinni um áramót.

  En það dylst samt engum að Liverpool er búið að vera eitt af fjórum bestu liðum deildarinnar í allan vetur, og á löngum stundum eitt af þremur eða tveimur bestu liðunum. Í raun hefur liðið verið í sérflokki með Chelsea og Tottenham í allan vetur ef frá eru taldir tveir slakir mánuðir í janúar og febrúar, þar sem liðið tapaði þremur af sex tapleikjum tímabilsins í níu leikja hrinu.

  Skoðum fyrst töfluna eins og hún leit út um áramótin:

  Þarna er liðið í öðru sæti og bara í titilbaráttu. Svo kom þessi slæma hrina í janúar/febrúar og það er annars konar Liverpool sem hefur rétt úr kútnum síðan þá, ekki lið sem skorar jafn mikið og það sem lék svo vel fyrir áramót heldur lið sem kann að berjast og innbyrða sigra á seiglu, jafnvel þegar spilamennskan er ekkert spes. Hér er gengið frá því að liðið tapaði gegn Leicester 28. febrúar sl.:

  Aftur er liðið í öðru sæti þarna, aðeins Tottenham með betri árangur síðustu rúmlega tvo mánuðina. Níu umferðir, aðeins eitt tap og tvö jafntefli, 20 stig af 27 í boði. Þannig tryggja lið topp fjóra.

  Ég heyrði annars áhugaverðan punkt í spjallþætti í dag. Þar kom fram að við séum orðin svo skemmd sem stuðningsmenn Liverpool að við getum ekki treyst liðinu, líka þegar gengið er gott. Ég hef heyrt þetta í dag, þeir mörgu Púllarar sem ég hef rætt við segja allir það sama: „Það væri týpískt ef liðið myndi svo tapa á heimavelli í næstu umferð.“

  Má vera. Ég held hins vegar að topp fjórir sé í höfn. United eiga þrjá útileiki í röð og næsta viðureign þeirra er úti gegn Arsenal, þar sem a.m.k. annað þeirra getur stimplað sig endanlega út úr veikri von um topp fjóra. Ef okkar menn vinna Southampton um næstu helgi er þetta komið að mínu mati, hvernig sem leikur Arsenal og Utd fer. Ég sé þau tvö lið með sitt slappa gengi (ég veit að United tapa ekki leikjum en þeir eru heimsins dýrasta rúta sem heimsins ofmetnasti stjóri leggur fyrir framan mörk út um víða Evrópu í allan vetur, og fólk hrósar honum fyrir það) en hvorugt þessara liða er að fara að vinna alla sína leiki til að brúa það ef Liverpool klárar Southampton. Eða West Ham. Eða Middlesbrough.

  Ég held að þetta sé komið. Og þá er tímabilið orðið nokkurn veginn eins og við bjuggumst við í haust. Þetta Liverpool-lið er stórskemmtilegt, frábært og meingallað. Það getur unnið alla á góðum degi en líka skotið sig í fótinn, eins og hefur gerst reglulega.

  Þetta er líka eitt af fjórum bestu liðum ensku Úrvalsdeildarinnar, og hefur verið það í níu mánuði núna. Koma svo strákar, siglið þessu heim.

  Lovren, Gerrard, nýr búningur

  Gleðilegan föstudag. Afsakið veðrið.

  Það eru nokkrar áhugaverðar fréttir úr herbúðum okkar manna í þessari leikjalausu viku. Í morgun var það staðfest að Dejan Lovren hefur skrifað undir nýjan langtímasamning við félagið. Hann er 27 ára og hefur leikið fyrir Liverpool í þrjú ár. Það eru ekki allir sammála um ágæti Lovren en þessi samningur þýðir væntanlega að Klopp er með hann í sínum áætlunum og hann verður þarna áfram a.m.k. næsta vetur.

  Þá kynnti félagið nýjan heimabúning fyrir leiktíðina 2017/18. Lovren er einmitt í henni á myndinni hér að ofan. Hvað finnst ykkur? Ég persónulega hugsa að ég fari í fyrsta skipti í nokkur ár út í búð og kaupi mér þessa. Ótrúlega flott treyja, bæði nýtískuleg og minnir á treyjurnar frá gullöldinni okkar fyrir þrjátíu árum.

  Þá er Steven George Gerrard orðinn stjóri U-18 liðs Liverpool. Neil Critchley, sem stýrt hefur liðinu, tekur við U23-liðinu í staðinn þannig að hann er klárlega að fá stöðuhækkun til að koma Gerrard fyrir.

  Ég held að það sjái allir í hvað stefni: ef stjórastarfið reynist eiga vel við Gerrard verður hann orðinn U23-stjóri áður en langt um líður og þá er nokkuð borðliggjandi að hann verði næsti knattspyrnustjóri Liverpool FC þá og þegar að Klopp hverfur af vettvangi, sem verður vonandi ekki alveg á næstunni. En það er ljóst í hvað stefnir með Stevie G.

  Eitthvað fleira? Orðið er laust. Góða helgi.