Allar færslur eftir Kristján Atli

Hópferðir / Dregið í riðla Meistaradeildar

Við minnum á hópferðir Kop.is núna fyrir áramót. Skráning hefur farið vel af stað og við hvetjum fólk til að slást í hópinn. Skellið ykkur með og sjáið markaveislur á Anfield:

Liverpool – Huddersfield, 27. – 30. október. Nánari upplýsingar og skráning á vef Úrval Útsýnar.

Liverpool – Everton, 8. – 11. desember. Nánari upplýsingar og skráning á vef Úrval Útsýnar.


Nú síðdegis var dregið í riðla Meistaradeildar Evrópu fyrir komandi tímabil. Okkar menn voru loksins aftur sestir að borðinu á meðal þeirra bestu í Evrópu og voru dregnir í riðil E ásamt Spartak Moskvu, Sevilla og NK Maribor frá Slóveníu. Sterkur riðill og spennandi, erfiður en ekki óyfirstíganlegur.

Hér eru riðlarnir í heild sinni:

Hvernig lýst ykkur á þetta? Ég hlakka bara til, Rauði Herinn marsérar upp á meginlandið á ný!

YNWA

Ferð á Merseyside Derby

Það jafnast fátt á við góðan Merseyside Derby.

Komin er í sölu ferð á leikinn gegn Everton helgina 8. – 11. desember n.k. Úrval Útsýn hóf sölu í þessa ferð í gær. Everton hafa mikið verið í fréttum undanfarið enda Gylfi „okkar“ Sigurðsson genginn í raðir þeirra og þetta er því tækifæri til að sjá hann mæta Liverpool í blárri treyju í fyrsta sinn. Þessi ferð er í desember og verður Liverpool-borg þá komin í jólabúning sem er sjón að sjá. Sjá upplýsingar og skráningu á vef Úrval Útsýnar.

Komið með Kop.is til Liverpool fyrir jólin. Sjáumst þar!

YNWA

Vilt þú skrifa fyrir Kop.is?

Kop.is ætlar að bæta við sig penna fyrir komandi tímabil!

Við leitum að skemmtilegri og vel skrifandi manneskju til að taka þátt í almennum pistlaskrifum hjá Kop.is í vetur. Við erum að tala um almenna pistla auk upphitana og leikskýrslna í kringum leiki liðsins á komandi leiktíð og næstu árin ef báðum aðilum líkar vel.

Hæfniskröfur eru einfaldar: kanntu að skrifa? Telurðu þig geta skrifað pistla og/eða leikskýrslur á Kop.is sem lesendur síðunnar gætu haft gaman af? Þetta er ekki flóknasta verkefni í heimi, en það getur samt verið furðu snúið. Fyrst og fremst leitum við að fólki sem hefur persónuleika sem skín í gegn þegar það vélritar orð á tölvuskjá og hefur brennandi ástríðu fyrir besta félagi í heimi.

Við hvetjum konur sérstaklega til að sækja um! Á þrettán ára líftíma Kop.is hefur kona aldrei sótt um þegar við bætum við penna, það væri gaman að breyta þeirri tölfræði núna. Ekki svo að skilja að konur fái forgang og karlar þurfi ekki að sækja um. Ef þú hefur áhuga, karl eða kona, sendu mér póst og við munum svo velja hæfustu manneskjuna í plássið.

Áhugasamir geta sent mér póst á kristjanatli (hjá) gmail. Ég hef samband við alla umsækjendur.

Í umsókn vil ég sjá eftirfarandi: nafn, almennar upplýsingar, smá pistil um hvers vegna þú heldur með Liverpool og hvað þú hefur gert það lengi, og vísanir á skrif á netinu ef þú hefur slíkt til að vísa í. Reynsla af skrifum á netinu er að sjálfsögðu kostur en ekki nauðsynleg.

YNWA

Gúrkan

Hvað er að frétta?

Í einu orði: ekkert.

Í nokkrum orðum: okkar menn eru sennilega á ferð og/eða flugi akkúrat núna enda farnir í æfingaferð til Þýskalands. Þar mun mikilvægasti hluti undirbúningstímabilsins fara fram, þar þjappar Klopp liðinu saman og kemur öllum í það form sem gerir liðinu kleift að spila hápressuna næstu níu mánuði. Í 30-manna hópnum sem ferðaðist til Þýskalands er lítið sem kemur á óvart, leikmenn eins og Moreno og Danny Ward eru með þrátt fyrir að vera orðaðir við önnur lið í sumar.

Einn leikmaður er þó orðaður við sölu þessa dagana, Lazar Markovic er sagður í viðræðum við Fiorentina en Klopp var búinn að staðfesta að hann mætti finna sér nýtt félag og hann fór ekki með til Þýskalands.

Svo er það náttúrulega slúðrið um Coutinho og þetta Barcelona-tilboð. Við sjáum hvað gerist, nýjasta slúðrið frá Brasilíu er að Phil hafi samþykkt launapakka frá Barcelona en boltinn er enn hjá Liverpool sem halda honum ef þeir vilja, þar sem ekki er útlit fyrir að hann óski formlega eftir sölu.

Sama staða og hjá Naby Keita og Virgil Van Dijk, í raun. Liverpool vill þá og þeir vilja Liverpool en félögin virðast ekki vilja selja. Það væri því hræsni af okkur að hrósa Liverpool fyrir þrjósku gagnvart Barcelona en blóta um leið RB Leipzig og Southampton, ekki satt?

Skítt með það. Drullist til að selja, Southampton og Leipzig! Hættið að skemma fyrir Klopp! ;-)

Þetta er gúrkutíðin þessa dagana. Það eru einhverjar fréttir en það er þoka yfir þeim svo það er erfitt að vita hvað verður. Ég get ekki ímyndað mér að Liverpool selji Coutinho nema að fá staðgengil eða gengla inn fyrst. Við verðum svo bara að meta hvort það er nóg að t.d. fá Salah og Keita inn (ef það yrði að veruleika) og missa Coutinho á móti.

Sjáum til. Næsti æfingaleikur er á laugardaginn gegn Hertha Berlín. Þangað til …

YNWA

Liverpool 2 Crystal Palace 0 [æfingaleikur]

Liverpool spilaði í undanúrslitum Hong Kong bikarsins (eða hvað þetta heitir) í hádeginu í dag. Flestir leikmenn liðsins komu við sögu og urðu lokatölur 2-0 í ágætis leik. Liverpool voru betri en sóknarlína Palace minnti aðeins á sig á köflum. Ég var sérlega hrifinn af Trent og Salah (sá hraði, maður lifandi!) í fyrri hálfleik og Origi, Solanke og Coutinho í seinni.

Mörkin komu bæði í seinni hálfleik. 1-0 Solanke:

2-0 Origi:

Sigurinn þýðir að Liverpool leikur til úrslita í þessu móti á laugardag, en mótherjinn á held ég eftir að koma í ljós.

YNWA