Allar færslur eftir Hannes Daði Haraldsson

City menn mæta á Anfield á sunnudaginn

Þá er Coutinho farinn og ekkert fab four lengur, aðeins skytturnar þrjár en lífið heldur áfram og á sunnudaginn mæta verðandi deildarmeistarar Manchester City á Anfield. City liðið er taplaust í deildinni á árinu og hafa aðeins tapað einum leik yfir höfuð, gegn Shakhtar í meistaradeildinni þegar þeir voru þegar búið að vinna sinn riðil.

Andstæðingarnir

Margir vilja meina að þetta City lið Guardiola sé besta lið í sögu ensku úrvalsdeildarinnar og eiga þeir margt til síns máls. Liðið situr í efsta sæti með 62 stig eftir 22 leiki en það gerir að meðaltali 2,8 stig í leik. Ef þeir halda sama tempói út tímabilið enda þeir í 107 stigum en met stigafjöldi í deildinni er 95 stig, met sem Mourinho setti með Chelsea 2005. Þeir hafa skorað 64 mörk tæplega 3 mörk í leik, næsta markahæsta lið deildarinnar er Liverpool með 50 mörk.

Liðið hefur þó sýnt að þeir eru ekki ósigrandi þeir hafa unnið nokkra góða karakter sigra með sigurmörkum undir lok leikja og voru heppnir gegn Crystal Palace um jólin þegar Palace menn klúðruðu víti á 92. mínútu í markalausu jafntefli.

David Silva gæti misst af leiknum en kona hans fæddi fyrirbura um miðjan desember mánuð sem berst nú fyrir lífi sínu og hefur Silva verið inn og út úr liðinu síðan en Guardiola hefur gefið það út að Silva hefur fullt vald yfir því hvaða leikjum hann vilji vera með í og hverjum hann vilji sleppa. Vonum að barninu heilsist vel og gott að sjá liðið standa við bakið á sínum manni.

Af öðrum leikmönnum City að þá er sóknarmaðurinn Gabríel Jesus enn frá vegna meiðsla ásamt hinum símeidda Vincent Kompany og skemmtilegasta twittara deildarinnar Benjamin Mendy. Ég gæti því trúað að þeir stilli upp sínu liði eitthvað á þessa vegu.

Ederson

Walker- Stones – Otamendi – Delph

B.Silva – Fernandinho – De Bruyne

Sané – Aguero – Sterling

Undanfarnir leikir

Okkur hefur undanfarið gengið vel gegn City, sérstaklega á heimavelli en Liverpool hefur ekki tapað á Anfield gegn City síðan árið 2003 þegar Anelka skoraði bæði mörk City-manna í 2-1 sigri eftir að Milan Baros hafði komið Liverpool yfir. Síðasti leikur liðanna fór hinsvegar á versta veg, fyrsta hálftíman var jafnræði með liðunum þar til að Mané var rekinn útaf og féll þá allur botn undan okkar mönnum og City kláraði leikinn með 5-0 sigri. Liðin fara þó bæði inn í þennan leik full sjálfstrausts eftir jólatörnina þar sem bæði lið sóttu þrettán stig af fimmtán mögulegum.

Liverpool

Stóru fréttirnar koma nánast daglega nú eftir að janúarglugginn opnaði fyrst bætum við við okkur dýrasta varnarmanni sögunnar sem skorar sigurmark í sínum fyrsta leik gegn erkifjendunum fyrir framan kop stúkuna en augnabliki seinna er Coutinho farinn á brott. Brotthvarf hans dró mig þó ekki eins mikið niður og ég bjóst við, kannski er það vegna komu Van Dijk eða jafnvel frammistöðum Mo Salah en ég er bara frekar bjartsýnn á framhaldið.

Liverpool stendur eins og er í fjórða sæti deildarinnar, þremur stigum á undan Tottenham í fjórða sætinu og einnig þremur stigum frá Manchester United í öðru sætinu. Það er ljóst að meistaradeildar baráttan verður hörð í ár og það væri mjög verðmætt að vera fyrsta liðið til að leggja City í vetur, ekki bara stigana vegna heldur einnig uppá móral liðsins næstu vikurnar og sýna heiminum hversu gott lið við erum með þrátt fyrir að Coutinho sé farinn.

Við erum búnir að vinna þrjá góða karakter sigra í síðustu þremur leikjum, fyrst þar sem við lenntum undir snemma leiks og svo tvo þar sem við fengum á okkur jöfnunarmark seint í leiknum. Ég hef talað mikið um öll þessi jafntefli sem liðið hefur gert í ár og verið mjög pirraður yfir þeim og fyrr á tímabilinu hefðu allir þessir þrír leikir endað með jafntefli en liðið er greinilega að bæta sig á þessu sviði og ég er ekki frá því að þetta hafi verið með ánægumestu Liverpool leikjum sem ég hef horft á í vetur. Auðvitað er skemmtun að sjá liðið vinna 7-0 sigra í meistaradeildinni en þetta var eitthvað sem ég hélt að liðið hefði ekki í sér og hvað þá þrisvar í röð!

Meiðslalistinn er svipaður og undanfarnar vikur en þar eru Clyne, Henderson og Moreno en Mo Salah mun að öllum líkindum byrja leikinn þrátt fyrir litilháttar meiðli sem hann varð fyrir í Leichester leiknum og urðu til þess að hann missti af síðustu tveimur leikjum. Ég býst því við að liðið verði eitthvað í þessa áttina.

Mignolet

Gomez – Van Dijk – Matip – Robertson

Wijnaldum – Can – Chamberlain

Salah – Firmino – Mané

Einnig gæti verið að við sjáum Lovren á kostnað Matip en ég hugsa að Klopp haldi sig við parið úr Everton leiknum og svo gæti Milner komið inn á miðsvæðið í stað annað hvort Chamberlain eða Wijnaldum.

Það er alveg ljóst að þetta verður hrikalega erfiður leikur en það er kominn tími á að einhver stoppi þetta City lið og ég held að við séum með lið sem hefur fulla getu til að gera það. Ég spái því að við vinnum þennan leik 2-1 þar sem Salah og Chamberlain skora fyrir Liverpool en Sterling setur eitt fyrir City.

Burnley 1 Liverpool 2

0-1 Mané 60′

1-1 Jóhann Berg 87′

1-2 Klavan 94′

Liverpool mætti á Turf Moor í dag og náði að sækja þrjú mjög dýrmæt stig á erfiðum útivelli. Jorgen Klopp gerði sjö breytingar á byrjunarliðinu frá því að liðið spilaði gegn Leicester 30.desember meðan að Burnley stillti nánast upp sama liði, eina breytingin var að Tarkowski kom inn úr leikbanni.

Leikurinn

Fyrri hálfleikur var frekar daufur, Liverpool hélt boltanum mest megnis en Burnley átti betri færi. Á 20. mínútu leit út fyrir að Jóhann Berg myndi sleppa einn í gegn en Lallana náði að renna sér í boltann á síðustu stundu. Stuttu seinna missti Can boltan á hættulegum stað og Arfield komst í ágætis skallafæri en Mignolet varði vel og leikurinn hélst markalaus í hálfleik.

Eftir klukkutíma leik vann Chamberlain boltann á miðsvæðinu og kom boltanum út á Trent sem var með mikið svæði fyrir framan sig. Hann reyndi fyrirgjöf sem hafði viðkomu í varnarmanni barst til Mané á D-boganum sem snéri í fyrstu snertingu og hamraði boltanum í netið. Loksins vaknaði Mané til lífsins en hann hafði verið frekar slakur í leiknum fram að þessu, líkt og undanfarna leiki, og ég skal vera fyrstur til að viðurkenna að ég var farinn að vona að Klopp færi að skipta honum útaf rétt áður en þetta átti sér stað.

Þegar tók að líða á leikinn opnaðist hann töluvert og var ekki að sjá að Burnley hafði spilað leik aðeins 48 tímum fyrir þennan. Þeir börðust um hvern bolta og ullu miklum urlsa. Það bar svo ávöxt á 87 mínútu þegar Sam Vokes vann skallaeinvígi við Klavan eftir fyrirgjöf og flikkaði boltanum á fjærstöngina þar sem Jóhann Berg hennti sér á boltan og skallaði honum í netið. Flott sókn en var slæmt að sjá Joe Gomez sofna á verðinum en hann elti ekki hlaup Jóhanns á fjærstöngina. Einnig er orðið dálítið þreytt hvað íslensku landsliðsmönnunum gengur vel gegn Liverpool.

Á þessum tíma var maður farinn að sætta sig við enn eitt jafnteflið en í uppbóta tíma fengu Liverpool aukaspyrnu sem Chamberlain tók fann höfuðið á Lovren sem átti frábæran skalla sem var á leiðinni í netið en Ragnar Klavan tryggði markið.

Bestu menn leiksins

Liðið vann góðan sigur og maður verður að gefa kredit fyrir mörkin. Mané skoraði flott mark en átti erfitt með að fóta sig á löngum tímum í leiknum. Klavan skoraði sigurmarkið og átti flotta björgun í leiknum. Maður leiksins að mínu mati var þó Alex Oxlade-Chamberlain sem átti stóra hluta í báðum mörkum liðsins og spilaði vel í leiknum og er að mínu mati að stimpla sig mjög vel inn í þetta lið.

Umræðan eftir leik

Liverpool er búið að ná í 2 stig að meðaltali í leik með 44 stig eftir 22 leiki og venjulega værum við í baráttu um titilinn með þessa stigasöfnun en eins og oft hefur verið nefnt er City að brjóta alla skala á þessu tímabili og við sitjum í fjórða sæti og erum aðeins í baráttu um meistaradeildarsæti. Nú ætti bara setja allt í gang ná öðru sætinu og fara að festa sig í sessi bæði sem meistaradeildarlið og sem topplið í þessari deild.

Liðið er búið að vinna fjóra og gera eitt jafntefli í síðustu fimm leikjum þrátt fyrir miklar róteringar, nú eru tveir erfiðir leikir framundan gegn Everton og Man City en menn vera að reyna að taka sjálfstrausið sem við höfum byggt í síðustu leikjum inn í þá leiki. Liðið er fært um að sigra hvaða lið sem er á góðum degi og það væri ekkert leiðinlegt að vera liðið sem stoppar City sem er vonandi pínu vængbrotið eftir jafntefli gegn Palace í síðasta leik.

Að lokum erum við nú búnir að vinna tvo erfiða karakter sigra í síðustu tveimur leikjum, leiki sem við vorum að missa í jafntefli og vonandi heldur þetta áfram!!

Liðið gegn Burnley

Þá er komið að fyrsta leik ársins hjá Liverpool en þá kíkjum við til spútnik liðs ársins Burnley.

Klopp heldur áfram að gera breytingar á liði sínu en það eru sjö breytingar frá síðasta leik en liðið lítur svona út:

Mignolet

Trent – Klavan – Lovren – Gomez

Wijnaldum – Chamberlain – Can

Lallana – Solanke – Mané

Bekkur: Karius, Milner, Firmino Robertson, Ings, Matip og Woodburn

Þá er vonandi að með þessum breytingum séum við ferskari en Burnley á erfiðum útivelli og það nægi til að sigra í dag.

Við minnum á #kopis myllumerkið og umræðurnar hér að neðan.


 

Svanirnir í heimsókn annan í jólum

Gleðileg jól lesendur, vonandi hafiði haft það gott yfir jólin og mætið södd og sæl fyrir framan skjáina á morgun þegar svanirnir í Swansea mæta á Anfield.

Mest alla sögu sína hefur Swansea spilað í þriðju eða fjórðu efstu deild á Englandi en árið 1977 tók fyrrum Liverpool maðurinn John Toshack við félaginu og fjórum árum seinna var liðið komið upp í efstu deild í fyrsta sinn. Þeir komu af miklum kraft inn í efstu deildina 1982 og eyddi hluta tímabilsins á toppi deildarinnar en endaði að lokum í sjötta sæti. Það var toppurinn fyrir Swansea sem þurfti að bíða lengi eftir sambærilegum árángri því á næstu tveimur árum féll liðið tvisvar og árið 2002 varð liðið nánast gjaldþrota áður en það var selt á eitt pund eftir miklar lagadeilur og björguðu sér frá falli niður í utandeildina sama ár á lokadegi tímabilsins.

Uppganga félagsins að nýju hófst síðan 2005 þegar þeir réðu Roberto Martínez til starfa en hann skóp nýja leikaðferð hjá félaginu sem átti eftir að einkenna Swansea í mörg ár. Liðið spilaði hraðan sendingarbolta þrátt fyrir að spila í League one á þeim tíma. Þeir flugu upp í Championship deildina en rétt misstu af umspili, þá hafði Martínez vakið athygli Úrvaldsdeildarliða og var ráðinn til starfa hjá Wigan. Eftir stutta stjóratíð Paulo Sousa var Brendan Rodgers ráðinn og stýrði hann liðinu upp í úrvalsdeild en liðið var þá komið þangað í fyrsta sinn síðan á níunda áratuginum. Liðið hélt sér við stílinn sem Martínez hafði komið með til félagsins og kom á óvart í efstu deild með skemmtilegum fótbolta og sniðugum félagskiptum en fyrstu árin í deildinni fengu þeir leikmenn á borð við Mishu, Vorm, Graham, Bony og Gylfa sem allir voru frekar lítil nöfn áður en þeir komu til félagsins.

Liðið hafði fest sig í sessi um miðja deild þrátt fyrir að vera með 5 mismunandi stjóra á tíu árum frá því að Martínez tók við félaginu og var talað um að módel Swansea væri eitthvað sem öll lið á Englandi þyrftu að skoða. Árið 2016 var liðið svo keypt af bandaríksum viðskiptamönnum og eitthvað virðist hafa breyst. Hew Jenkins var enn stjórnarformaður líkt og hann hafði verið frá 2002 en hann hafði fengið mest af hrósinu þegar vel gekk en samt fóru knattspyrnustjórar með misjafnar hugmyndir að taka við liðinu, liðið fór fjær og fjær eigin módeli og eigin leikaðferð og nú þegar liðið situr á botni ensku úrvaldsdeildarinnar með afleytan leikmannahóp er jafnvel talað um að Tony Pulis taki við þessu fyrrum sóknarliði. Meðan við sjáum hvað gerist með það hefur miðjumaðurinn Leon Britton tekið við sem spilandi knattspyrnustjóri og ég fagna því enda alltof langt síðan við höfum fengið slíka í úrvalsdeildinni.

Liverpool liðinu gegnur töluvert betur en við sitjum í fjórða sæti deildarinnar og erum í hörku baráttu um sæti í meistaradeildinni að ári. Nokkur svekkjandi jafntefli undanfarið hafa skemmt nokkuð fyrir annars væri tímabilið mjög jákvætt. Liðið tapar varla knattspyrnuleikjum en erum búnir að gera flest jafntefli í deildinni sem er búið að kosta okkur helling af stigum.

Við horfðum á liðið okkar kasta frá sér sigri gegn Arsenal í síðustu umferð á 5 mínútum en í jafn samkeppnishæfri deild og við erum að horfa á í dag að þá er ekki í boði að tapa stigum í jafn mörgum leikjum þar sem við erum með yfirhöndina eins og við höfum gert í ár.

Fyrir leikinn í dag eru Clyne, Moreno, Grujic og Henderson ásamt því að Matip og Sturridge eru tæpir. Því skýt ég á að liðið á morgun verði eftirfarandi.

Mignolet

Trent – Klavan – Lovren – Robertson

Wijnaldum – Milner – Chamberlain

Salah – Firmino – Coutinho

Býst við því að Trent komi inn fyrir Gomez, ekkert vegna mistaka Gomez í síðasta leik frekar því við búumst við að sækja meira gegn Swansea. Mané hefur verið frekar hljóðlátur undanfarið og ég gæti séð hann hvíldan en þessa dagana er svipað erfitt að skjóta á byrjunarlið Klopp eins og að skjóta á lottótölurnar.

Swansea er slakasta liðið í ensku úrvalsdeildinni í ár og það væri hrikalegt að tapa stigum á morgun en ég skýt á auðveldan 3-0 sigur okkar manna þar sem Salah og Coutinho halda áfram að skora að vild.

Liverpool 0-0 West Brom

Leikurinn

West Brom mætti á Anfield í dag með það markmið að ná í eitt stig og tókst áætlunarverk sitt. Klopp mætti með gríðarlega sterkt lið til leiks í dag en ekki tókst að brjóta á bak skipulagða vörn gestanna. Miðjumenn West Brom sátu meirihluta leiksins rétt fyrir framan varnarlínu sína og gekk mönnum erfiðlega að finna svæði og var hálf vandræðanlegt hversu margar sendingar rötuðu beint til hvítblárra leikmanna. Fyrsta alvöru færi leiksins fékk Roberto Firmino þegar hann fékk góða gegnum sendingu frá Mo Salah en setti boltan rétt framhjá stönginni í fjærhorninu. Coutinho var í afbragðsstöðu ef Firmino hefði rennt boltanum fyrir markið en sé ekkert af því að reyna við þetta færi. West Brom menn ógnuðu lítið en minntu aðeins á sig eftir hálftíma leik þegar Hal Robson-Kanu fann sér svæði á vallarhelmingi Liverpool og hlóð í skot sem endaði í þverslánni. Rétt fyrir hlé var Salah nálægt því að pota inn fyrirgjöf frá Trent en vantaði nokkra sentimetra uppá.

Seinni hálfleikur var nánast keimlíkur þeim fyrri Liverpool hélt boltanum á miðjum vellinum en ef þeir reyndu að sækja framar var lítið um pláss og sendingarmöguleikar fáir. Menn fóru að reyna allt of mikið af erfiðum boltum og okkur sárvantaði menn til að taka hreinlega af skarið og koma boltanum á markið. Á 50. mínútu áttu West Brom menn sitt besta færi þegar Yacob náði að skalla boltan á markið en Karius gerði vel og varði í horn.

Atvik leiksins var síðan á 82. mínútu þegar Gomez kom boltanum fyrir markið á Solanke sem hitti boltann illa og hann skoppar upp í hendina á honum og þaðan inn í markið.

Bestu menn Liverpool

Það er erfitt að velja menn leiksins eftir svona leik. West Brom liðið má eiga það að þeir vörðust mjög vel og gerðu okkar mönnum erfitt fyrir en með alla þessar kanónur innanborðs vill maður sjá meira en við fengum að sjá í dag. Einna helst fannst mér Emre Can komast ágætlega frá leiknum en hann stýrði miðjunni ágætlega og komst vel frá sínum verkefnum í dag. Ásamt því greip Loris Karius vel inn í þegar á hann reyndi, greip inn í nokkrar fyrirgjafir og átti góða markvörslu.

Slæmur dagur

Hvað er að frétta hjá Sadio Mané í undanförnum leikjum? Hann virðist ekki vera í takti við hina sóknarmenn liðsins og virðist eiga pínu erfitt með að vera ekki aðalstjarna liðsins líkt og í fyrra þegar hans var sárt saknað þegar hann var ekki með. Erfitt að segja til sitjandi hér heima en eitthvað virðist vera að angra hann. Einnig átti Klopp ekki góðan dag, það var lítið að frétta í leiknum og hann beið með skiptingar fram á 76. mínútu en ég hefði verið til í að sjá hann skipta fyrr. Að lokum átti ég sjálfur dapran dag en í fljótfærni skrifaði ég að Mignolet hefði verið í byrjunarliði í dag í færslunni hér að neðan þegar það var að sjálfsögðu Karius. Maður er bara orðinn svo vanur þessari deildar og meistaradeildarskiptingu að ég áttaði mig bara ekki einu sinni á því fyrr en nokkrar mínútur voru liðnar af leiknum.

Umræðan eftir leik

Þessu fjárans jafntefli!

West Brom er eina liðið í deildinni sem hefur gert fleiri jafntelfi í deildinni en við. Þetta eru alveg ótrúlega mikið af stigum sem við erum að tapa í leikjum sem við erum yfirleitt betri. Þetta er eitthvað sem þarf að breytast ef liðið ætlar að halda sér í þessari baráttu um meistaradeildarsæti. Sjöunda jafntelfið í ár staðreynd og ég vona að við grátum þessi stig ekki of mikið í vor

Næsta verkefni

Næst mætum við Bournemouth á sunnudaginn en þeir hafa átt erfitt uppdráttar undanfarið, ekki unnið í síðustu fimm leikjum vonandi sýna okkar menn flotta takta um helgina.