Allar færslur eftir Hannes Daði Haraldsson

Manchester City 1 – Liverpool 2

1-0 Gabríel Jesus 2′

1-1 Mo Salah 56′
1-2 Roberto Firmino 77′

Leikurinn

Þetta tókst og Liverpool er komið í undanúrslit Meistaradeildar í fyrsta sinn í tíu ár! Leikurinn byrjaði jafn illa og hægt væri að óska sér þar sem brotið var á Van Dijk sem lyfti upp hendi að biðja um aukaspyrnu meðan Sterling stal af honum boltanum og var þá allt opið fyrir City menn og skoraði Gabriel Jesus eftir aðeins tveggja mínútna leik. Við tók einn erfiðasti hálfleikur sem ég hef horft á í langan tíma. City menn settu upp stöðvar fyrir utan vítateig Liverpool og stýrðu leiknum algjörlega en gekk þó illa að koma sér í góð færi. Það var augljóst til að byrja með að Liverpool eru ekki vanir því að liggja svona tilbaka og gekk illa að elta City menn og enn verr þegar boltinn loks barst til okkar manna að halda honum. Eftir hálftíma leik vildu City menn fá víti þegar boltinn fór í hendina á Milner en það var lítið til í því enda hendinn við síðu og hélt leikurinn því áfram. Eitthvað var loftið létt í leikmönnum City í kvöld sem féllu oft við minnstu, ef einhverja, snertingu og í kjölfarið féll Sterling tvisvar við í teig Liverpool en réttilega ekkert dæmt. Það var Alex Oxlade-Chamberlain sem átti fyrsta tækifæri Liverpool í leiknum þegar hann átti fínt skot undan af velli en það var auðvelt fyrir Ederson í marki City. Á 40. mínútu átti Bernardo Silva skot í stöng og rúmri mínútu síðar skoraði Sané annað mark City en það var dæmt af vegna rangstöðu. Sané var vissulega rangstæður en boltinn barst til hans eftir að Karius kýldi boltan í Milner þaðan sem hann kom til Sané og markið hefði því átt að standa. Við fögnum því hinsvegar bara fyrra markið átti líklega ekki að standa og hlutirnir féllu þarna með okkur. Rétt fyrir hlé átti Liverpool loks góðan sprett þegar Firmino og Salah spiluðu sig fallega í gegnum vörn City komu boltanum á Chamberlain sem skaut yfir í þröngu færi. Svo var loks flautað til hálfleiks og hjartað var komið í buxurnar eftir stanslausa pressu City manna. City menn umkringdu dómaran þegar flautað var til hálfleiks, brjálaðir útaf markinu sem Sané fékk ekki, en skilaði það aðeins því að Guardiola fékk að horfa á seinni hálfleik úr stúkunni.

1-0 fyrir City í hálfleik

Pressa þeirra kostaði þó sitt og náðu Liverpool að hæga vel á leiknum. Á 56. mínútu skaust Mané framhjá Laporte og Fernandinho en náði ekki að halda jafnvægi og virtist vera að færið væri að fara í sandinn þegar Ederson náði að pota í boltan en Mo Salah var mættur til að taka við boltanum og vippaði yfir Otamendi sem reyndi að renna sér í boltan og staðan 1-1 og þungu fargi lyft af Liverpool. City menn hefðu þarna þurft að skora fjögur til að komast áfram og virtist mikill vindur fara úr þeim. Aguero kom inn á á 66. mínútu og hann komst strax inn í leikinn og átti fínt skot hálfri mínútu eftir að hann kom inn á völlinn. Það var svo á 77. mínútu þegar Firmino pressaði á Otamendi sem missti boltan og Firmino tók stefnuna beint á markið og setti boltan framhjá Ederson í markinu 2-1 og verkinu lokið – Game over!

Bestu menn Liverpool í dag var hreinlega liðsheildin að standa af sér pressuna í fyrri hálfleik og koma tilbaka og sigra, ekki bara einvígið heldur leikinn. Sadio Mané var mjög öflugur bæði í pressunni og sem outlet til að koma boltanum aðeins af vörninni. Mo Salah er nátturulega unaðslegur leikmaður og skoraði markið sem létti pressunni lítið hægt að segja um hann sem hefur ekki verið sagt. Trent átti í vandræðum með Sané til að byrja með en óx aðeins inn í leikinn þegar hann fékk meiri hjálp, sérstaklega þegar Mané var kominn yfir hægra meginn, leit út fyrir að geta verið mikið vandamál fyrir okkur í leiknum en minnkaði þegar á leið. Milner og Wijnaldum áttu í vandræðum í fyrri hálfleik enda undirmannaðir gegn miðju City en leystu ágætlega úr því. Hafsentarnir Van Dijk og Lovren voru undir mestri pressu og fyrir utan að ég hefði viljað sjá Van Dijk bara losa boltan áður en hann fór að heimta aukaspyrnu í marki City var ekki yfir neinu að kvarta og ég vel Dejan Lovren sem minn mann leiksins.

Umræðan

Klopp vann ákveðinn taktískan sigur. Hjálparvörnin frá Mané eftir að kantmennirnir skipta um kant Salah á réttum stað til að skora eftir að hann og Firmino skipta um leikstöður. Það hefur oft verið rætt hversu fluid þessi sóknarlína er en sjaldan hefur hún flotið jafnmikið og í dag. Liðið átti erfitt með að liggja en óx í það hlutverk og að lokum hrundi City liðið. Einnig er liðið loks komið í lokaumferðir Meistaradeildarinnar eftir alltof, alltof langan tíma og hafa oft verið alltof, alltof langt frá því. Klopp er nú búinn að vera með liðið í tvö og hálft ár og þvílík hamskipti sem hafa verið á þessu liði síðan hann tók við!

Það verður partý í Liverpool borg í kvöld og það verður gaman í hádeginu á föstudaginn þegar Liverpool verður eina enska liðið í pottinum þegar dregið verður í undanúrslit Meistaradeildar.

Byrjunarlið gegn City

Þá er komið liðið gegn City í seinni leiknum og lítur það svona út

Karius

TAA – Lovren – Van Dijk – Robertson

Wijnaldum – Chamberlain – Milner

Salah – Firmino – Mané

Varamenn: Mignolet, Clyne, Moreno, Klavan, Solanke, Ings, Woodburn

3-0 yfir eftir fyrri leik og undanúrslit í boði – Áfram Liverpool!


Grannaslagur í Guttagarði

Eins leiðinlegt er að leyfa ekki síðustu færslu að lifa erum við á þeim punkti tímabilsins að það er nýr dagur og nýr leikur en í hádeginu á morgun mætum við grönnum okkar í Everton. Það hefur oft verið meiri spenna fyrir Merseyside slagnum enda kemur hann á ótrúlega óhenntugum tíma fyrir okkur og Everton hafa ekki að miklu að keppa eins og staðan er í dag. Þrátt fyrir það er bæði montrétturinn mikill og Liverpool ekki tapað fyrir Everton í síðustu sextán viðureignum liðanna sem er met milli liðanna. Everton vann síðast í október 2009 en sá leikur fór 2-0 og skoruðu þeir Mikel Arteta og Tim Cahill.
Continue reading

Páskahelgar heimsókn á Selhurst Park

Í hádeginu á laugardegi páskahelgar lýkur loks þessi gríðarlega langa landsleikjafríi. Sjálfur er ég mikill aðdáandi landsleikja en í þetta skipti líður mér eins og það sé ár og öld síðan Liverpool spilaði síðast. Það ætti að vera hægt að fresta landsleikjahléum eftir stórsigra Liverpool. Á morgun verður andstæðingurinn enginn annar en fyrrum knattspyrnustjóri Liverpool, Roy Hodgson, og ernirnir hans í Crystal Palace. Sumarið 2010 tók Roy við Liverpool og var ég þá að skrifa upphitanir á Liverpool.is og gerði þar pistil um Roy og reyndi ég að vera jákvæður þrátt fyrir að hafa verið á móti ráðningunni. Ég benti á að hann hefði gert vel með minni lið líkt og þegar hann vann Allsvenskuna með Halmstads og komist í úrslit Evrópudeildarinnar með Fulham og einnig gert ágætlega þegar hann væri með stórt lið þegar hann vann deildirnar með Kaupmannahöfn og Malmö ásamt því að vera velliðinn hjá Inter Milan eftir stutta stjóratíð þar. Þrátt fyrir að hafa nánast náð að skrifa inn í mig jákvæðni á sínum tíma þá er sorglegt að horfa yfir þetta í dag að Roy hafi virkilega fengið starfið. Roy stýrði Liverpool í 31 leik vann 13 gerði 9 jafntefli og tapaði 9. Þegar Roy var látinn fara í janúar sat Liverpool í 12 sæti deildarinnar og var þetta versta ár sem ég hef upplifað með Liverpool.

Roy og Palace

Nú mætir hann hinsvegar sem stjóri andstæðinganna og Roy sem andstæðingur hefur reynst Liverpool nánast jafn illa og Roy sem samherji en hann hefur átta sinnum mætt Liverpool þar af fimm sinnum sem stjóri Fulham og þrisvar sem stjóri West Brom og hefur hann sigrað þrisvar tapað þrisvar og gert tvö jafntefli og er markatalan milli Liverpool og Roy 7-7. Palace eru í mikilli fallbaráttu eins og er en þeir sitja í 16.sæti með 30 stig en hafa spila einum leik fleiri en Southampton og West Ham sem elta þá. Palace þurfa því að sækja sér nokkur stig í síðustu átta leikjunum til að halda sér uppi en liðið er í nokkrum meiðslavandræðum. Markmaðurinn Speroni, hafsentinn Scott Dann, kantmennirnir Schlupp, Sako og Puncheon ásamt sóknarmanninum Conor Wickham eru allir frá en Zaha, Tomkins og Joel Ward eru allir tæpir en ég gæti séð Roy stilla svona upp.

Hennessey

Bissaka – Sahko – Tomkins – Van Aanholt

McArthur – Milivojevic

Townsend – Cabaye – Zaha

Benteke

Ef þetta verður raunin verða tveir fyrrum Poolarar í byrjunarliði Palace í Sahko og Benteke en gætum einnig séð Martin Kelly spila ef Tomkins missir af leiknum. Vonum að þessir menn eigi ekki góðan dag á morgun þó það sé ólíklegt hjá Benteke sem finnst ekkert skemmtilegra en að spila gegn Liverpool og hefur skorað sjö mörk í níu leikjum gegn okkur. Hann er þó að eiga slakan vetur fyrir framan markið með aðeins 2 mörk í 25 leikjum.

Liverpool

Á páskadag mætast Chelsea og Tottenham en það eru liðin í fjórða og fimmta sæti að mætast innbyrgðis og því með sigri á morgun værum við pottþétt að koma okkur í þægilega stöðu fyrir meistaradeildarsæti á næsta tímabili. Auðvitað eru líkur á því að Klopp verði með hálfan hug við leikinn næsta miðvikudag í Meistaradeildinni gegn City á Anfield, sérstaklega þar sem nokkrir leikmenn komu tæpir heim eftir landsleikina. Það er ljóst að Joe Gomez verður ekki með í leiknum en hann meiddist í leik með Englendingum og verður frá í ca mánuð. Þá eru einnig Dejan Lovren, Emre Can, Andy Robertson og Solanke tæpir fyrir þennan leik. Í dag snýst þó flest um skytturnar okkar þrjár Mané, Salah og Firmino en í seinni leik landsleikjahlésins voru bæði Firmino og Salah hvíldir en Sadio Mané spilaði 87 mínútur á þriðjudaginn fyrir Senegal gegn Bosníu. Þeir snéru allir aftur til Liverpool í gær ég gæti því hugsanlega séð Klopp hvíla Mané en hinir tveir munu án efa spila.

Nú eru sjö leikir eftir af deildinni Palace úti, Everton úti, Bournemouth heima, West Brom úti, Stoke heima, Chelsea úti og Brighton heima ef farið er eftir leikjum Liverpool við sömu eða sambærilega andstæðinga í fyrra náðum við í nítján stig, unnum alla nema Bournemouth heima sem endaði í jafntefli. Ef sama verður uppi á teningnum í ár endar liðið með 82 stig en á síðustu tíu árum hefði það tvisvar dugað til sigurs í deildinni. Hinsvegar eru stóru leikirnir í ár gegn City næstu tvær vikurnar enda væri stórt statement ef liðið myndi ná lengst allra enskra liða í meistaradeildinni eftir langa fjarveru þaðan og þegar komið er í undanúrslit getur allt gerst eins og við sáum árið 2005. Því gætum við séð einhverja hvílda á morgun en ekki marga. Gæti séð liðið í þessa áttina.

Karius

TAA – Lovren – Van Dijk – Moreno

Wijnaldum – Henderson – Milner

Salah – Firmino – Chamberlain

Ég býst ekki við að hann taki áhættuna á mönnunum sem eru tæpir og geri ráð fyrir að Mané sitji á bekknum. Lallana gæti einnig dottið inn fyrir Chamberlain en veit ekki hvort hann sé orðinn nægilega heill til að byrja leiki, finnst líklegra að hann muni koma inn á í leiknum.

Spá

Ég geri ráð fyrir að menn mæti af miklum krafti og vilji tryggja sér byrjunarliðssæti gegn City og við vinnum leikinn 3-0 með mörkum frá Salah, Chamberlain og Milner.

Porto mætir á Anfield

Það verður undarlegt evrópukvöld á Anfield á morgun þegar Porto mætir í heimsókn, hluti af spennunni á evrópukvöldum er óvissan, í sextán liða úrslitum Meistaradeildar mætast bestu lið Evrópu og allt getur gerst. Liverpool vann hinsvegar fyrri leik liðanna 5-0 í Portugal og þarf Porto því minnst að skora sex mörk til að sigra einvígið og Liverpool því komnir með nánast báða fætur í átta liða úrslit. Ég tel samt að það muni ekki hafa mikil áhrif á stemminguna annað kvöld enda langt síðan við komumst á þennan stað í þessari keppni og stuðningsmenn munu nýta þennan leik í að skemmta sér.

Porto

Þeir sem vilja fræðast um Porto geta lesið doktorsritgerð Einars fyrir fyrri leik liðanna hér.  Porto svaraði skellinum gegn Liverpool vel og vann næsta deildarleik sinn 5-0 og hafa unnið alla fjóra deildarleiki sína milli þessara leikja með markatölunni 15-3. Þeir eru því enn taplausir heima fyrir en það áhugaverðasta er að José Sá virðist hafa misst byrjunarliðsæti sitt eftir afleita frammistöðu gegn Liverpool og hefur Iker Casillas staðið í markinu síðan þá.  Casillas er leikjahæsti leikmaður Meistaradeildarinnar frá upphafi með 166 leiki fyrir leikinn á morgun og þarf nauðsynlega að bæta í sarpinn þar sem Cristiano Ronaldo hefur aðeins spilað 19 leikjum minna og nálgast hann óðfluga.

Porto hefur í ár iðulega átt auðvelt með að skora. Liðið hefur skorað 2,7 mörk að meðaltali í leik í deildinni og skoraði 2,5 mörk að meðaltali í riðlakeppninni í Meistaradeildinni. Flest mörk þeirra koma þó frá tveimur sóknarmönnum liðsins Aboubakar og Marega. Aboubakar spilaði ekki í fyrri leik liðanna vegna meiðsla en er að stíga upp úr þeim en hann spilaði síðustu 18 mínúturnar gegn Sporting um síðustu helgi, fyrsti leikur hans síðan í byrjun febrúar og er því tæpur fyrir leikinn, Marega meiddist í sama leik gegn Sporting og verður hann klárlega ekki með á morgun. Porto þarf því að reyna klífa Everest (sigra með sex mörkum) án súrefnisgrímu (tveir markahæstu leikmenn liðsins).

Liverpool

Margir stuðningsmenn eru komnir með hugan við leik næstu helgar gegn Manchester United og munu líklega margir vilja sjá mjög breytt lið gegn Porto á morgun. Ég held hinsvegar að Klopp vilji halda áfram á því skriði sem liðið er á og á meðan liðið vinnur er auðveldara að spila leiki. Auðvitað býst ég við einhverjum breytingum en held þær verði ekki jafn miklar og margir búast við.

Síðan Liveprool gekk frá Porto hafa þeir spilað tvo leiki, gegn West Ham og Newcastle og hafa unnið báða með glæsibrag og gæti orðið erfitt fyrir Klopp að velja miðju fyrir Manchester United leikinn þar sem Henderson, Can, Chamberlain og Milner hafa allir verið mjög góðir í síðustu leikjum.

Hjá Liverpool eru allir tiltækir nema Wijnaldum sem er enn með einhverja flensu og býst því ekki við að hann spili á morgun. Clyne er byrjaður að sprikla með u23 ára liðinu en hann fær væntanlega að taka nokkra leiki þar áður en hann spilar með aðalliðinu enda var hann frá ansi lengi. Karius verður í markinu eins og síðustu vikur enda engin ástæða að breyta því sem vel gengur. Gæti séð Moreno fá leik í vinstri bakverði til að gefa Robertson pásu til að geta hlaupið úr sér lungun næstu helgi. Hugsa að liðið verði eitthvað í þessa áttina.

Karius

Trent – Matip – Van Dijk – Moreno

Lallana – Can – Milner

Salah – Ings – Mané

Henderson fái hvíld enda verið notaður sparsamlega undanfarið og því ólíklegt að hann spili þrjá leiki á einni viku. Geri einnig ráð fyrir að einn úr sókninni fái hvíld tók Firmino út en gæti alveg séð hann spila þeim öllum. Að lokum býst ég við að Lallana fái að sprikla aðeins hvort sem hann byrji eða komi inn af bekknum.

Spá

Held að leikurinn byrji af miklum krafti enda þurfa Porto menn að snúa þessum leik upp í einhverja vitleysu til að eiga von um að komast áfram en eftir að hafa séð liðið spila tvö mjög professional leiki gegn West Ham og Newcastle þar sem þeir slökktu á andstæðingunum þegar leið á leikinn ætla ég að spá okkur 2-0 sigri þar sem við komumst yfir snemma leik úr snöggri sókn og drepum vonir Porto manna. Svo er það bara sigla þessu heim og eiga nóg á tankinum um helgina.