Allar færslur eftir Einar Örn

Moyes rekinn (staðfest)

Dagurinn byrjar ekki vel því að Manchester United hafa fært okkur þær slæmu fréttir að David Moyes hefur verið rekinn.

Klúbburinn sem rekur ekki þjálfara og þar sem að stuðningsmennirnir styðja alltaf þjálfarann „no matter what“ hefur brugðist knattspyrnuheiminum og látið Moyes fara þrátt fyrir að hann hafi glatt okkur Liverpool stuðningsmenn í hverri viku allt þetta tímabil. Það er kannski við hæfi að rifja upp uppáhalds atvikin tengd Moyes á þessu ári. Fyrir mig persónulega þá mun ég sakna mest viðtalanna eftir leik þar sem hann hrósar liðinu fyrir að vera yfirspilað af liðum í neðri hluta deildarinnar.

Já, og fagnið þegar að United komst yfir gegn Fulham á heimavelli. Já, og töpin tvö gegn Liverpool, sérstaklega 3-0 tapið á Old Trafford. Já, og The Chosen One bannerinn! Já, og aðdáendurnir (sem styðja alltaf þjálfarann) sem leigðu flugvél til að fljúga yfir völlinn með skilaboð um að það ætti að reka Moyes. Já, og allir Manchester United stuðningsmennirnir sem við þekkjum, sem hættu algjörlega að hafa áhuga á fótbolta. Já, og svo var svo frábært að sjá hvern einasta United stuðningsmann styðja við sitt lið og Moyes í gegnum alla erfiðleikana. Já, og allir United stuðningsmennirnir sem vældu sífellt yfir slæmu gengi eftir að hafa haldið með liði sem var á toppnum í 25 ár. Þeir eru hetjur.

Ó David Moyes, við eigum eftir að sakna þín.

LIVERPOOL 3 – Man City 2

Liverpool unnu í dag mikilvægasta deildarsigur liðsins í áratugi. 3-2 gegn milljónaliði Manchester City á Anfield á 25 ára afmæli Hillsborough harmleiksins í alveg hreint stórkostlegum knattspyrnuleik. Þetta eru frábær úrslit og ef að okkur tekst að landa titli númer 19 í maí þá var sigurinn í dag einn sá mikilvægasti.

3-2 með mörk skoruð af 19 ára gömlum Englending, 21 árs gömlum Brassa og tæplega þrítugum Slóvaka sem við höfðum flest afskrifað fyrir nokkrum mánuðum síðan. Við erum efstir í deildinni, höfum unnið 10 leiki í röð og höfum nú skorað 93 mörk í deildinni, sem er met í sögu Liverpool. Ótrúlegt!

Hvernig á ég að skrifa skýrslu um þetta? Klukkan er orðin níu hérna í Svíþjóð og það eru 5 klukkutímar síðan ég stóð uppá borði á Southside barnum og faðmaði hóp fólks sem ég horfi á leikina með í hverri viku. Það eru þegar komin um 80 komment við þessa færslu, enda gleðin gríðarleg á meðal Liverpool stuðningsmanna í dag.

Rodgers var ekkert að hika við hlutina, heldur stillti upp sókndjörfu liði í dag.

Mignolet
Johnson – Skrtel – Sakho – Flanagan
Henderson – Gerrard (c) – Coutinho
Sterling – Sturridge – Suarez

Á bekknum: Jones, Toure, Agger, Aspas, Moses, Allen, Lucas

Einsog svo oft áður á Anfield í vetur þá byrjaði Liverpool liðið á 100 km hraða. Við yfirspiluðum City liðið og eftir aðeins 5 mínútur vorum við búnir að skora. Luis Suarez gaf frábæra sendingu á Raheem Sterling, sem að tók bæði Vincent Kompany og Joe Hart í nefið og skoraði ótrúlegt mark. Sjáiði þetta!

Hvernig hefur 19 ára strákur kjark í svona hreyfingar í mikilvægasta leik Liverpool í áratugi? Ég veit það ekki, en Sterling á ekki í vandræðu með þetta. Liverpool hélt áfram að sækja. Sturridge fékk dauðafæri og Hart varði frá Gerrard úr opnu skallafæri. Mark númer 2 kom þó beint eftir Gerrard færið þegar að Gerrard tók horn, sendi boltann á Martin Skrtel, sem að stakk Kompany af og skallaði boltann yfir Hart og í netið.

2-0 og Liverpool var með þetta í höndunum. Ekki skemmdi fyrir að Yaya Toure, sem hefur verið besti maður City í allan vetur, þurfti að fara útaf vegna meiðsla og Javi Garcia kom inná og var kominn með gult spjald á innan við mínútu. Liverpool mun betri og City í tómu rugli.

En fljótlega komu City menn sér inní leikinn og Mignolet varði frábærlega frá Fernandinho auk þess sem að Sterling bjargaði á línu. 2-0 í hálfleik og ég hélt að Rodgers myndi ná að róa menn aðeins niður.

En í byrjun seinni hálfleik þá jókst pressan frá City. Navas (sem hafði ekki getað neitt gegn Flanagan) var tekinn útaf og James Milner settur inná og við það jókst pressan svakelga og það fór svo að á fimm mínútuna kafla voru City búnir að jafna. Fyrst David Silva og svo Glen Johnson með sjálfsmark. Strax eftir markið var Sturridge tekinn útaf fyrir Allen – skipting sem flestum fannst sennilega koma of seint því forskotið var þegar farið.

En stuttu eftir það kom furðuleg skipting (að mínu mati) frá Pellegrini þegar hann tók Dzeko útaf og setti Aguero í staðinn. Sóknin hjá City hafði verið gríðarlega sterk, en mér fannst þessi skipting draga úr kraftinum.

10 mínútum seinna kom svo markið sem að kláraði leikinn. Liverpool höfðu ekki verið að ógna mikið og ég vonaðist í besta falli eftir jafntefli úr leiknum, en klúður í vörninni hjá City leiddi til þess að Coutinho fékk boltann og afgreiddi hann frábærlega í netið. Frábært mark hjá Coutinho, sem ég hefði verið búinn að taka utaf nokkrum mínútum áður en einsog svo oft áður í vetur þá kom það sér vel fyrir Liverpool að Brendan Rodgers er þjálfari liðsins en ekki ég.

Dómarinn bætti við 5 mínútum, sem voru einsog heil eilífð, en annars gerðist lítið fyrir utan það að Jordan Henderson fékk réttilega rautt spjald þegar hann missti boltann og tæklaði svo Samir Nasri. Svekkjandi fyrir Henderson, sem mun missa af Norwich, Crystal Palace og Chelsea leikjunum.

Niðurstaðan frábær 3-2 sigur á Manchester City. Liverpool á toppnum með 2 stiga forskot á Chelsea (og miklu betri markatölu) og 7 stiga forskot á City. Í lokin fögnuðu Liverpool menn gríðarlega. Ég missti algjörlega af því þar sem ég var upptekinn við að faðma fólkið í kringum mig, en það er erfitt að missa sig ekki í gleðinni við að horfa á innilegan fögnuð okkar manna í leikslok. Þeir áttu þetta skilið. Þvílíkt lið. Þvílíkt lið. Fyrirliðinn okkar faðmaði félaga sína með tárin í augunum 25 árum eftir Hillsborough. Ógleymanlegt.


Maður leiksins: Þessi leikur skiptist í nokkra hluta. Fyrstu 40 mínúturnar voru okkar menn stórkostlegir og yfirspiluðu City liðið. Svo kom kafli frá 40-70 mínútu þar sem City voru mun betri og svo var þetta jafnt síðustu mínúturnar.

Allt Liverpool liðið á hrós skilið eftir þessa frammistöðu. City er klárlega besta liðið sem við höfum spilað við í vetur og eina liðið sem hefur yfirspilað Liverpool á þessu ári. Ég ætla að velja Coutinho sem mann leiksins. Hann og Sterling voru að mínu mati frábærir á miðjunni ásamt Gerrard og Sterling og Coutinho sáu um að skora tvö af þremur mörkunum þegar að við þurftum mest á því að halda – annan leikinn í röð skoruðu hvorki Suarez né Sturridge. Baráttan í Coutinho var frábær og hann skoraði mark sem gæti verið eitt mikilvægasta markið í sögu Liverpool.

13.apríl og við erum efstir í deildinni. Tottenham, Arsenal, Everton, Manchester United og núna Manchester City hafa mætt á Anfield og tapað.

tafla13apr

Hvernig sem þetta fer, þá hefur þetta verið stórkostlegt tímabil. Þetta lið er frábært. Þessi þjálfari er frábær. Þessi klúbbur er frábær.


Það eru fjórir leikir eftir. FJÓRIR LEIKIR. Sigrar gegn Norwich (ú), Chelsea (h), Crystal Palace (ú) og Newcastle (h) og þá MUN Steven Gerrard, captain fokking fantastic, lyfta enska úrvalsdeildarbikarnum á Anfield þann 11.maí.

Þetta er enn í okkar höndum. Draumurinn lifir áfram. YNWA.

West Ham 1 – Liverpool 2

Í síðasta podcast þætti fórum við yfir næstu þrjá leiki liðsins, sem voru Sunderland og Tottenham á Anfield og West Ham á útivelli. Ég spáði okkur 9 stigum en einsog aðrir þá sagðist ég vera langmest stressaður fyrir West Ham á útivelli. Þetta var einfaldlega of típískur leikur til að tapa stigum. Feiti Sam að þjálfa, Downing á kantinum og stóri Andy Carroll dýrvitlaus inní teignum.

En þetta Liverpool lið er einfaldlega magnað og okkar menn kláruðu West Ham liðið í dag sanngjarnt, 1-2.

Rodgers stillti þessu upp svona í byrjun:

Mignolet
Johnson – Skrtel – Sakho – Flanagan
Henderson – Gerrard (c) – Coutinho
Sterling – Sturridge – Suarez

Bekkur: Jones, Toure, Cissokho, Allen, Lucas, Aspas, Moses

Fyrri hálfleikurinn var verulega erfiður. West Ham liðið tók ekki mikla sjensa og þeir voru að vinna baráttuna á miðjunni gegn okkar mönnum. Coutinho var alls ekki að finna sig og West Ham menn sköpuðu oft hættu með kantspili sínu og þeir áttu til að mynda ágætlega greiða leið framhjá Flanagan.

En þegar stutt var til leikhlés gaf Steven Gerrard stórkostlega sendingu á Luis Suarez, sem að ætlaði framhjá varnarmanni West Ham, sem tók boltann með hendi og réttilega dæmt víti. Steven Gerrard mætti á svæðið og skoraði auðvitað. 0-1 og ég var hóflega bjartsýnn á að þetta ætti að hafast í seinni hálfleiknum.

En þegar að hálfleikurinn var að klárast gerðist alveg ótrúlegt atvik. Í hornspyrnu nær Mignolet að grípa boltann en sekúndubroti seinna kýlir Andy Carroll hann í hausinn, Mignolet missir boltann fyrir Guy Demel, sem að skorar 1-1. Aðstoðardómarinn flaggar strax að þetta hafi verið aukaspyrna, en dómarinn var svo viss á sínu að hann hundsaði skilaboð aðstoðardómarans og dæmdi mark. Þetta varð svo súralískara þegar að atvikið var sýnt á risaskjá á vellinum fyrir aftan dómarann og hálft Liverpool liðið hópaðist að dómaranum og bað hann um að snúa sér til að hann gæti séð atvikið, en hann neitaði því.

Hérna er vídeó af þessu – þetta atvik var ótrúlega magnað og ég var þegar byrjaður að skrifa leikskýrslu í hausnum þar sem ég færi yfir dómaraskandalana gegn City, Chelsea og í þessum leik sem hefðu kostað okkur titilinn.

1-1 í hálfleik og flestir Liverpool aðdáendur sennilega drullu stressaðir. Í hálfleik gerði Rodgers breytingu – tók Coutinho út fyrir Lucas. Einsog svo oft áður þá vissi Rodgers 100% hvað hann var að gera því að skiptingin breytti ansi miklu.

Í seinni hálfleik var í raun bara eitt lið á vellinum. Andy Carroll átti reyndar skalla í slá, en það var það eina sem kom útúr West Ham liðinu. Okkar menn reyndu og reyndu, en á endanum þurfti markið að koma úr hálf furðulegri átt þegar að Lucas Leiva lagði upp frábært færi fyrir Jon Flanagan, sem var felldur af Adrian, markverðu West Ham og víti dæmt. Að mínu mati rétt víti. Captain Fantastic, Steven Gerrard mætti á punktinn og skoraði auðvitað.

Síðustu 20 mínúturnar í leiknum var Liverpool svo meira með boltann og West Ham voru aldrei nálægt því að skapa færi, hvað þá að skora. 1-2 sigur í höfn og toppsætið er okkar á ný.


Maður leiksins: Mignolet hafði lítið að gera í markinu í leiknum – það var auðvitað brotið á honum í markinu en annars áttu West Ham ekki skot á markið. Bakverðirnir voru í lagi – ekki meira en það, en Flanagan bætti fyrir það með því að fá vítið. Miðverðirnir Sakho og Skrtel voru að mínu mati verulega góður, sérstaklega Skrtel sem að tók Carroll og hélt honum ótrúlega vel niðri – vann ótrúlega mörg einvígi gegn honum. Kolo Toure kom svo inn fyrir Sturridge og hélt vörninni saman á síðustu mínútunum.

Á miðjunni voru Coutinho slappur og Henderson svona la la. Lucas var mun betri og allra bestur var Steven Gerrard, sem ég vel sem mann leiksins. Frammi átti Sturridge alls ekki góðan dag, en Sterling var mun betri – sérstaklega í seinni hálfleik. Suarez barðist einsog ljón og skaut tvisvar í slá.


Þetta er staðan í deildinni 6.apríl þegar að við höfum spilað 33 leiki:

taflan6april

Við erum efst og titillinn er í okkar höndum ef okkar menn klára sitt prógramm.

Okkar menn hafa núna unnið stórlið á Anfield og stórlið á útivelli. Þeir hafa hangið á tæpum sigri gegn botnlið deildarinnar á Anfield og núna unnið leiðinlegasta lið deildarinnar á þeirra heimavelli. Okkar menn eru einfaldlega að standast allar prófraunir sem eru lagðar fyrir þá.

Fimm leikir. Fimm leikir frá því að okkar menn geti gert eitthvað stórkostlegt. Fimm leikir frá því að Stevie fokking Gerrard gæti lyft enska titlinum á Anfield. Hver á það meira skilið en hann?