Allar færslur eftir Einar Örn

Basel 1 – Liverpool 0

Liverpool menn mættu Basel í kvöld í Sviss og niðurstaðan var 1-0 tap.

Rodgers stillti þessu upp svona í byrjun:

Mignolet

Manquillo – Skrtel – Lovren – Enrique

Henderson – Gerrard – Coutinho

Sterling – Balotelli – Markovic

Á bekknum: Jones, Toure, Moreno, Lucas, Lallana, Lambert, Borini.

Það var nokkuð jafnræði með liðunum allan tímann, bæði í fyrri og seinni hálfleik. Það eina sem skildi að í lokin var enn eitt hálfvitamarkið sem að Liverpool menn fengu á sig úr föstu leikatriði. Einsog í einhverjum lélegum Benny Hill skets þá kom fyrirgjöf, sem að Skrtel skallaði í bakið á Lovren og á Mignolet, sem varði beint fyrir fæturnar á Marco Streller, sem að skoraði af sirka meters færi á 52.mínútu.

Eftir þetta voru Liverpool menn nokkrum sinnum nálægt því að jafna. Balotelli átti frábæra aukaspyrnu, sem var varin og Markovic var óheppinn að skora ekki. Sterling klúðraði fleiri en einu færi á alveg hreint ótrúlegan hátt og svo framvegis.

Þetta hefði átt að vera fínt baráttujafntefli á gríðarlega erfiðum útivelli, en enn einu sinni gefa varnarmenn okkar hinu liðinu forskot á silfurfati.

Ég nenni ekki að pirra mig mikið meira á þessu – þetta tímabil er farið að minna skuggalega mikið á síðasta tímabil Rafa Benitez og Rodgers verður að fara að snúa þessu við. Prógrammið framundan í deildinni er á pappírnum nokkuð létt og það er gott því þetta lið virðist ekki hafa neitt sjálfstraust.

Ef að þetta lið byrjar ekki að spila almennilega strax þá geta menn farið að kyssa Meistaradeildina bless, bæði í ár sem og á næsta ári. Svo alvarleg er staðan orðin. En ég hef enn trú á því að menn snúi þessu við. Það verður að byrja á Anfield á laugardaginn.

Liðið gegn Basel

Fyrsti útileikurinn í Meistaradeildinni og Rodgers stillir svona upp:

Mignolet

Manquillo – Skrtel – Lovren – Enrique

Henderson – Gerrard – Coutinho

Sterling – Balotelli – Markovic

Á bekknum: Jones, Toure, Moreno, Lucas, Lallana, Lambert, Borini.

Semsagt þá kemur Coutinho inn fyrir Lallana og Enrique inn fyrir Moreno, sem fær hvíld á bekknum. Enrique fannst mér fínn á móti Middlesboro og hann ætti að geta klárað þetta hlutverk í kvöld.

Basel hafa verið mjög erfiðir heim að sækja, svo að þetta verður ekki auðvelt. Lykilatriðið fyrir framhaldið er að ná allavegana jafntefli – ég held að það gætu reynst ágæt úrslit í kvöld. Auðvitað er þó þetta Liverpool lið nógu gott til að vinna sigur.

Ströggl

Þegar Phil Jagielka fékk boltann 40 metra frá Liverpool markinu á 92.mínútu fótboltaleiks í Liverpool borg í gær, þá sat ég fyrir framan sjónvarpið inní stofu heima hjá mér í Stokkhólmi. 2 ára sonur minn var þreyttur við hliðiná mér og í fanginu hélt ég á 4 mánaða gamalli dóttur minni.

Ef þau hefðu ekki verið þarna hefði ég helst viljað kasta einhverju þungu í vegginn. Eða öskra. En það gat ég ekki gert og þrátt fyrir að fólk finnist þessi fótboltaáhugi minn á stundum jaðra við einhverja veiki þá lærði ég í gær allavegana að ég hef nægilega sjálfstjórn til að öskra ekki þegar ég held á litlu stelpunni minni í fanginu. Mér tókst einhvern veginn að standa upp, láta konuna mína fá stelpuna, labba svo fram á gang og öskra einhvern veginn innra með mér. Svo horfði ég á síðustu mínútu leiksins og fór svo í göngutúr til að reyna að jafna mig eftir þessi vonbrigði.

Þetta eru talsvert aðrar tilfinningar en ég fann þegar að Ludogorets og Middlesboro skoruðu sín mörk og jöfnuðu gegn Liverpool. Þá voru viðbrögðin að ég hálf partinn hló að því hversu vonlaust þetta Liverpool lið væri. En í gær var þetta öðruvísi. Í gær spiluðu okkar menn virkilega vel og áttu svo innilega skilið að vinna leikinn. Og það er þegar að slíkir leikir detta niður í jafntefli sem að vonbrigðin eru mest og maður verður sárastur og reiðastur þegar að okkar menn fá á sig mörk.


Það er dálítið erfitt að meta þetta tímabil en það skrítna er að ég er talsvert bjartsýnni í dag en ég var á föstudag. Á föstudag hafði ég bara séð þetta Liverpool spila vel í 90 mínútur síðan að við töpuðum fyrir Chelsea. Eftir Ludogorets leikinn skrifaði ég:

27.apríl töpuðum við gegn Chelsea á Anfield og þá endaði ótrúleg sigurganga þessa liðs. Síðan þá höfum við leikið eftirfarandi leiki: Crystal Palace (j), Newcastle (s), Southampton (s), Man City (t), Tottenham (s), Aston Villa (t) og Ludogorets (s). Þetta eru 7 leikir – við höfum unnið 4, tapað tveimur og gert eitt jafntefli. Það er ekki góður árangur. Og það sem meira er að við höfum í raun bara leikið vel gegn Tottenham af þessum 7 leikjum. Hinir 6 leikirnir voru slappir.

Kannski situr eitthvað í þessu liði – kannski er það áfallið að tapa niður titlinum á síðasta tímabili, kannski byrjuðu menn að trúa því að Suarez væri ómissandi. Eða kannski eru menn bara svona óvanir að spila með hvor öðrum. En það er alveg ljóst að eitthvað þarf að breytast.

Síðan þá höfum við spilað gegn West Ham og Boro (sem voru mjög slappir leikir) og svo kom leikurinn í gær.

Fyrir leikinn í gær var ég verulega stressaður yfir því að það vantaði eitthvað mikið í þetta lið. En eftir gærdaginn er ég bjartsýnni á að Rodgers sé að ná einhverjum tökum á þessum stóra hópi og fá nýju mennina til að spila einsog liðið gerði á síðasta tímabili.


Á okkar ótrúlegu sigurgöngu í fyrra spiluðum við oftast svona:

Mignolet

Johnson – Skrtel – Sakho/Agger/Toure – Flanagan

Gerrard(c) – Henderson
Sterling – Coutinho – Suarez

Sturridge

Ég sagði oft á þessari sigurgöngu að það væri erfitt að sjá hvernig við ættum að bæta þetta byrjunarlið (fyrir utan vinstri bakvörð). Í sumar seldum við Suarez, en ég held að ósk Brendan Rodgers hefði verið að halda liðinu sem mestu óbreyttu en taka nýja menn smám saman inn. Fá þá til að læra inná leikstíl Rodgers og smitast af leikgleðinni og baráttunni í liðinu. Þetta sást ágætlega í fyrsta leik þegar að aðeins tveir nýjir menn voru í liðinu – Lovren og Manquilo. Það sama gerðist gegn City (Lovren og Moreno), en gegn Tottenham voru nýju mennirnir orðnir fjórir (Moreno, Lovren, Manquilo og Balotelli) þar sem að Glen Johnson var meiddur og Balotelli orðinn löglegur.

Þetta var á þeim punkti ekkert alltof slæmt. Ágætis þrír leikir – tveir sigrar og eitt tap. Og tveir nýjir leikmenn í fyrstu tveimur leikjunum.

En svo kemur landsleikjahlé og hlutirnir fara að versna. Gegn Villa er 3/4 af vörninni áfram nýjir (Moreno, Manquilo og Lovren) og ÖLL sóknin eru nýjir leikmenn (Balotelli, Lallana og Markovic). Sex nýjir leikmenn, sem er alltof mikið. Af hverju? Jú, bakverðirnir frá í fyrra (Johnson og Flanagan) báðir meiddir, Allen meiddur þannig að Coutinho fer aftar og svo Sturridge meiddur (ásamt því að Sterling var hvíldur). Í West Ham leiknum voru svo 5 nýjir menn (ef við teljum Borini nýjan) og gegn Everton voru sex nýjir leikmenn.


Þetta tel ég helstu ástæðuna fyrir misjöfnu gengi okkar manna. Það er ekki einsog Rodgers hafi bara getað haldið áfram einsog hann hætti á síðasta tímabili (nema að kannski bæta einhverjum inn fyrir Suarez) heldur hafa meiðsli valdið því að hann hefur þurft að gera miklu meiri breytingar á liðinu heldur en hann kannski ætlaði. Það er kannski ekki furða að við spilum ekki sama blússandi sóknarbolta gegn Aston Villa þegar að öll sóknarlínan er ný. Allt menn sem hafa nánast ekki spilað mínútu af fótbolta saman.

Ástæða númer tvö fyrir slæmu gengi held ég svo að sé sálfræðileg. Liðið varð fyrir gríðarlegu áfalli gegn Chelsea og að tapa titlinum í kjölfarið. Flestir leikmenn áttu svo slæma HM keppni (fyrir utan Sakho kannski) og þurfa eflaust að lesa það í blöðum að Luis Suarez hafi verið eini maðurinn með viti í liðinu. Það að Rodgers hafi þurft að henda alltof mörgum nýjum mönnum inn og þetta sálfræðilega plús það að Rodgers hefur ekki verið klár á sínu besta leikkerfi, hefur valdið misjöfnu gengi liðins.


Ég er samt þokkalega bjartsýnn fyrir framhaldið.

Staðan í deildinni er ekki góð. Við erum í 13.sæti með 7 stig eftir 6 leiki. Við erum 9 stigum á eftir Chelsea. Einhverjir myndu segja að titillinn sé farinn – sérstaklega ef að Chelsea heldur svona áfram (sem ég held að þeir muni ekki gera). Við höfum misst okkar langbesta leikmann og nýju leikmennirnir hafa margir hverjir átt erfitt uppdráttar.

En svo getum við horft á þetta öðruvísi.

Við erum búnir að fara á Etihad og White Hart Lane auk þess að spila við Everton á Anfield í fyrstu 6 leikjunum – og að auki höfum við spilað við tvö lið sem hafa reynst okkur mjög erfið í Southampton og Aston Villa. Í keppninni um efstu fjögur sætin erum við 4 stigum á eftir Man City, 3 stigum á eftir Arsenal, og einu stigi á eftir Tottenham og Man United. Og við höfum spilað erfiðara prógramm en öll þessi lið.

Og að mínu mati lofa margir nýju leikmannanna verulega góður. Mér hefur fundist Lallana lofa ótrúlega góðu og sama má segja um bakverðina tvo. Lovren hefur verið mistækur, en ég hef trú á að ef að hann og Skrtel fái nokkra leiki í röð þá verði þeir góðir saman. Balotelli fannst mér líka vinna rosalega vel í gær. Markovic og Can hafa lítið sýnt, en gleymum því ekki að Markovic er bara níu mánuðum eldri en Raheem Sterling! Þetta er bara strákur, sem er að spila í nýrri deild. Og Can hefur verið meiddur.

Við erum vonandi að fá Sturridge tilbaka, sem og Allen. Með vörn sem hefur spilað saman, Allen og Hendo á miðjunni og Sturridge frammi þá held ég að þetta lið sé í fínum málum.

Framundan í deildinni eru Hull (heima), Newcastle (úti), Chelsea (heima), Crystal Palace (úti), Stoke (heima), Leicester (úti) og Sunderland heima áður en við keppum við United og Arsenal rétt fyrir jól. Þarna er erfiður leikur gegn Chelsea á Anfield á milli sex leikja sem við eigum að vinna.

Rodgers þarf núna að halda þessari vörn sem hann vill augljóslega hafa (Moreno, Lovren, Skrtel og Manquilo/Johnson), hætta að horfa á töfluna og reyna að ná upp sömu ákefð og baráttu og á síðasta tímabili. Ef að það gerist og við fáum Sturridge þarna uppi með Balotelli þá er ég fullviss um að mörkin fara að koma og að Liverpool fer að klifra upp töfluna aftur.

Fyrir mér er glasið hálffullt í dag. Vonbrigðin gegn Everton eru mikil, en það má ekki láta eitthvað bull mark af 40 metra færi valda því að menn gleymi frammistöðunni. Það er vonandi að Rodgers nái að peppa menn saman í útileikinn gegn Basel, því það verður að teljast líklegt að leikirnir gegn Basel muni skera úr um hvort við komumst áfram í Meistaradeildinni.

Liverpool 2 – Ludogorets 1

Meistaradeildin mætti aftur á Anfield eftir fimm ára hlé og við áhorfendur fengum 80 mínútur af stórkostlegum leiðindum og 15 mínútur af ekta Liverpool geðveiki.

Rodgers gerði aðeins eina breytingu frá Aston Villa leiknum – Sterling kom inná fyrir Markovic (sem er í Evrópubanni).

Mignolet

Manquillo – Lovren – Sakho – Moreno

Henderson – Gerrard – Coutinho

Sterling – Balotelli – Lallana

Fyrri hálfleikur var hreinasta skelfing. Liverpool voru mun meira með boltann, en liðið skapaði ekki neitt og það var einsog menn hefðu aldrei spilað saman fótbolta, hvorki á æfingasvæðinu né í alvöru leik.

Í þeim seinna skánaði spilið aðeins. En það var að mínu mati ekki fyrr en að Borini og Lucas komu inná fyrir (afleita) Lallana og Coutinho að mér fannst Liverpool byrja að ógna. Leikurinn opnaðist reyndar mjög mikið yfir höfuð og um tíma voru Ludogorets líklegri til að skora.

En það voru á endanum okkar menn sem brutu ísinn á 82. mínútu. Moreno gaf sendingu inná Mario Balotelli, sem hafði verið mjög slakur, og hann sýndi hvað hann getur með því að skora fallegt mark.

En það þurfti svo sem ekki að koma neinum sérstaklega á óvart að Liverpool fengu á sig jöfnunarmark. Sterling tapaði boltanum við vítateig Ludogorets, þeir keyrðu upp völlinn og það kom sending inn fyrir Lovren og Dani Abalo skoraði framhjá Mignolet sem var í einhverju hálf furðulegu úthlaupi. 1-1 á 91.mínútu og ég get ekki sagt að ég hafi verið í sérstaklega góðu formi á sófanum heima hjá mér, hugsandi um hvað ég gæti skrifað jákvætt um þessa hörmung.

En strax eftir markið var markvörður Ludogorets eitthvað að rugla með boltann, Manquilo komst að honum og markvörðurinn braut á honum. Sannkölluð gjöf frá markverðinum. Steven Gerrard mætti á punktinn og skoraði og tryggði okkar mönnum gríðarlega mikilvægan sigur.


Maður leiksins: Ég nenni varla að fara yfir leikmennina í þessum leik. Liðið allt lék illa í kvöld. Fimm af tíu útileikmönnum í kvöld voru keyptir til liðsins í sumar og það sást greinilega. Það þýðir ekki að pikka einhvern einn útúr þessu því að aðalvandamálið var að menn spiluðu ekki einsog lið í kvöld. Það var enginn kraftur og engin ógn.

27.apríl töpuðum við gegn Chelsea á Anfield og þá endaði ótrúleg sigurganga þessa liðs. Síðan þá höfum við leikið eftirfarandi leiki: Crystal Palace (j), Newcastle (s), Southampton (s), Man City (t), Tottenham (s), Aston Villa (t) og Ludogorets (s). Þetta eru 7 leikir – við höfum unnið 4, tapað tveimur og gert eitt jafntefli. Það er ekki góður árangur. Og það sem meira er að við höfum í raun bara leikið vel gegn Tottenham af þessum 7 leikjum. Hinir 6 leikirnir voru slappir.

Kannski situr eitthvað í þessu liði – kannski er það áfallið að tapa niður titlinum á síðasta tímabili, kannski byrjuðu menn að trúa því að Suarez væri ómissandi. Eða kannski eru menn bara svona óvanir að spila með hvor öðrum. En það er alveg ljóst að eitthvað þarf að breytast.

Ef við hefðum gert jafntefli í kvöld hefði stemningin í liðinu eflaust verið erfið. En það er vonandi að menn nýti sér þennan sigur í kvöld til að berja kraft í mannskapinn fyrir útileikinn gegn West Ham á laugardaginn.

Þetta mark hans Gerrard getur verið gríðarlega mikilvægt fyrir þetta tímabil. Okkar menn þurftu á því að halda að vinna fyrsta Meistaradeildarleikinn og þótt það hafi ekki verið sannfærandi, þá erum við með þrjú stig í þessum riðli og getum fagnað því að vera loksins komnir aftur á réttan stað meðal bestu liða í Evrópu.

Gamlar leikskýrslur Kop.is

Ég er búinn að breyta leikskýrsluhlutanum á þessari síðu (sjá tengil í valmyndinni). Núna er þar ein síða sem inniheldur allar leikskýrslur Kop.is frá upphafi. Þannig að mun auðveldara ætti að vera að leita að gömlum leikjum.

Ég veit ekki alveg hversu margar skýrslurnar eru en mér sýnist þær vera um 500 talsins. Þarna eru skýrslur allt frá fyrsta leiknum (æfingaleikur gegn Wrexham), 4-1 á Old Trafford, Istanbúl, bikarsigurinn 2006, 5-1 gegn Arsenal, Luis Garcia gegn Chelsea og svo framvegis og framvegis.

Ef mönnum vantar eitthvað að gera í landsleikjahléinu þá er þetta yfirlit yfir leikskýrslur Kop.is á þessum rúmlega 10 árum magnað safn.

(Sérstakar þakkir fær Vilhjálmur Gunnarsson fyrir að hjálpa mér við WordPress-vinnuna tengt þessu.)