Allar færslur eftir Einar Örn

Besiktas 1 – Liverpool 0 (Besiktas áfram eftir vítakeppni)

Jæja, þá er hræðilegu Evrópuævintýri okkar manna þetta tímabili lokði. Því lauk á sama stað og við unnum Meistaradeildina á fyrir nærri því 10 árum.

Brendan hvíldi meðal annars Hendo og Coutinho og færði Can á miðjuna.

Mignolet

Toure – Skrtel – Lovren

Ibe – Allen – Can – Moreno

Sterling – Balotelli – Sturridge

Fyrri hálfleikurinn var fínn hjá okkar mönnum. Við vorum meira með boltann og sköpuðum öll hættulegu færin þrátt fyrir að það væri Besiktast sem þurfti að skora. Þeir voru aldrei nálægt því að ógna markinu að neinu ráði.

Í nokkur skipti áttu okkar menn að skora og gera hreinlega útum leikinn og sá sem fór einna verst með færin var Daniel Sturridge.

Í seinni hálfleik byrjuðu Besiktas að ógna meira og meira, án þess að skapa sér nein frábær færi – flest skotin komu langt fyrir utan teiginn. En þó fór það svo að Besiktas menn skoruðu markið sem þeir þurftu á 72.mínútu. Hröð sókn upp vinstri kantinn skilaði sér í sendingu á Demba Ba, sem óvart sendi boltann áfram á Tolgay Arslan, sem að skoraði með flottu skoti, óverajandi fyrir Mignolet.

Manquilo (fyrir Ibe), Lallana (fyrir Balotelli) og Lambert (fyrir Sturridge) komu inná, en það gerðist lítið það sem eftir lifði af leik og í framlengingunni fyrir utan það að Demba Ba átti skot í þverslá.

Í vítakeppninni skoruðu Lambert, Lallana, Allen og Can úr sínum vítum og Besiktas skoruðu úr öllum sínum 5 vítum áður en Dejan Lovren brenndi af í síðasta víti Liverpool manna.


Maður leiksins: Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja um þennan leik. Mestallan leikinn var Liverpool ekki að spila sérstaklega vel, en þó nógu vel til að klára þessa viðureign. En eftir því sem liðið bakkaði meira þá jókst hættan og að lokum kom markið sem sendi leikinn í vítakeppni og þá ræðst viðureignin á einstaka mistökum.

Ég hafði líka blendnar tilfinningar varðandi þessa viðureign. Miðað við hversu mikið meiðslin hrannast upp hjá Liverpool, þá er alveg ljóst að liðið er ekki að fara að gera almennilega atlögu að Evrópudeildinni, FA Cup OG top-4 sæti í deidlinni – til þess er hópurinn ekki nógu breiður. Partur af mér vildi sjá gloríu í Evrópu, en annar partur er hálf feginn að leikjáálagið verður núna aðeins viðráðanlegra. Það hefði verið erfitt að berjast við Man U, Tottenham og Southampton, sem eiga enga Evrópuleiki eftir og Arsenal, sem á líklega bara einn eftir.

En það er hins vegar ekki hægt að horfa fram hjá því að þetta tímabil í Evrópu hefur verið algjör katastrófa. Hræðilegur riðill í Meistaradeildinni og svo að detta út með svona aulaskap gegn Besiktas. Það er ekki nógu gott. Vonandi hafa Brendan og strákarnir lært eitthvað af þessu og vonandi klára menn núna verkefnið í deildinni svo að við fáum annað tækifæri í Meistaradeildinni næsta haust.

Núna þarf svo bara að pakka mönnum inní plast, uppí flugvél, heim til Liverpool, inní súrefnisklefa með næringu í æð svo að menn hafi orku til þess að takast á við Manchester City á sunnudaginn.

Liðið gegn Besiktas

Svona er liðið sem mætir á Ataturk í dag. Nokkrar breytingar – Hendo og Coutinho fá langþráða hvíld og Toure kemur inn í vörnina og Can færir sig yfir á miðjuna. Mer list ágætlega á þetta. Balo byrjar svo frammi með Sterling & Sturridge.

Mignolet

Toure – Skrtel – Lovren

Ibe – Allen – Can – Moreno

Sterling – Balotelli – Sturridge

Á bekknum: Ward, Manquillo, Williams, Brannagan, Lallana, Lambert, Borini

Blackburn í FA Cup

Það er búið að draga í 8-liða úrslit FA Cup. Við fengum á pappírnum auðveldan leik því Blackburn munu mæta á Anfield. Svona lítur þetta út:

  • Aston Villa – WBA
  • Preston – Arsenal
  • Bradford City – Reading
  • Liverpool – Blackburn

Leikirnir fara fram 7-8.mars.

Bolton 1 – Liverpool 2

KOMDU MEÐ KOP.IS Á ANFIELD!
SJÁ UPPLÝSINGAR HÉR!

Jæja okkar menn fóru í kvöld í stutt ferðalag til Bolton og slógu þar heimamenn útúr FA-Cup í annari tilraun eftir 0-0 jafntefli í fyrri leiknum.

Rodgers stillti upp mjög sterku liði í kvöld.

Mignolet

Can – Skrtel – Sakho

Markovic – Gerrard – Allen – Moreno

Lallana – Sterling – Coutinho

Á bekknum: Ward, Johnson, Borini, Henderson, Sturridge, Lambert og Manuqilo.

Allan fyrri hálfleikinn var Liverpool langtum betra liðið á vellinum, en á einhvern ótrúlegan hátt tókst okkar mönnum ekki að skora frekar en í fyrri leiknum á Anfield. Sterling átti skot í stöng þar á meðal og markvörður Bolton varði nokkrum sinnum. Ekki bætti það að dómari leiksins var arfaslakur, rændi okkur marktækifærum og leyfði Bolton mönnum að brjóta oft á Sterling.

Í seinni hálfleik hélt þetta áfram eins. Um miðjan hálfleikinn refsuðu Bolton svo okkar grimmilega þegar að Clough fékk boltann inní vítateig, Skrtel mætti honum og Clough datt við það sem virtist vera lítil eða engin snerting. Víti dæmt og Eiður Smári mætti á staðinn og skoraði. 1-0 fyrir Bolton.

Stuttu seinna fékk Danns varnarmaður Bolton sitt annað gula spjald í leiknum og var réttilega sendur útaf (brotin voru bæði klár gul spjöld). En bara mínútu seinna hefði Eiður geta gert útum leikinn þegar hann fékk frían skalla af 2 metra færi, en sem betur fer varði Mignolet.

Okkar menn héldu áfram að sækja. Hendo skaut í stöngina og svo Can í slána en ekkert fór inn og ég var farinn að sætta mig við að þetta myndi hreinlega ekki ganga upp í kvöld.

Við rauða spjaldið hafði Emre Can verið færður framar á völlinn og hann spilai frábærlega. Hann sá snilldarhlaup frá Raheem Sterling inn fyrir vörnina og vippaði boltanum yfir alla vörnina á Sterling, sem að skoraði frábært mark. 1-1 og nokkrar mínútur eftir. Sjáið þetta!

Okkar menn vildu sennilega helst af öllu sleppa við framlengingu og það tókst því að Phil litli Coutinho skoraði sigurmarkið með algjörlega frábæru langskoti. 2-1 og okkar menn komnir áfram.

Maður leiksins: Þetta var að mörgu leiti ágætt í kvöld, en færanýtingin var afleit einsog svo oft áður. Vörnin var ekki í miklum vandræðum fyrir utan vítið en á miðjunni fannst mér Allen og Gerrard ekkert sérstakir og það er alveg klárt í mínum huga að Lucas og Henderson eru talsvert sterkara miðjupar. Lallana var ekki nógu góður og var skipt útaf snemma, en Sterling og Coutinho skoruðu mörkin sem að skiptu máli. Borini átti ágætis innkomu og barðist einsog óður maður, en Sturridge var áttavilltur í sinni innkomu.

En ég ætla að velja Emre Can mann leiksins. Hann var í vörninni til að byrja með og steig ekki feilspor, var svo færður framar þegar við urðum einum fleiri og spilaði þá stöðu líka frábærlega. Hann átti skot í slá og svo þessa ótrúlegu sendingu á Sterling. Þvílíkur leikmaður sem þessi 21 árs gamli strákur er orðinn. Hann getur orðið algjör lykilmaður í þessu liði næstu árin.

Okkar menn eru því komnir í 16 liða úrslit og spila á útivelli gegn Crystal Palace á laugardag eftir viku. Draumur okkar um að sjá Gerrard lyfta bikar á Wembley í sínum síðasta leik á Englandi lifir því enn.

Liðið gegn Bolton

KOMDU MEÐ KOP.IS Á ANFIELD!
SJÁ UPPLÝSINGAR HÉR!

Svona stillir Rodgers þessu upp gegn Bolton á útivelli í FA Cup. Mjög sterkt lið.

Mignolet

Can – Skrtel – Sakho

Markovic – Gerrard – Allen – Moreno

Lallana – Sterling – Coutinho

Á bekknum: Ward, Johnson, Borini, Henderson, Sturridge, Lambert og Manuqilo.

Það er alveg ljóst að Rodgers er ekki mikið fyrir að rótera í þessum leik. Einu mennirnir úr okkar sterkasta byrjunarliði þessa dagana sem fá hvíld eru Lucas, Henderson og Sturridge.

Það er augljóst að það á að klára þetta dæmi í kvöld og ég hef fulla trú á að menn geri það.