Undanfarin ár hefur Liverpool verið hálf vonlaust fyrir fjölmiðla sem þrífast á leikmannaslúðri og þess háttar fréttum og eins og útlitið er núna verður þetta sumar ekkert öðruvísi. Luis Diaz sem var alltaf hugsaður sem partur af þessum glugga, Darwin Nunez, Fabio Carvalho og Carlvin Ramsey hafa bæst við hópinn hjá Liverpool og félagið hefur gefið það út að ekki verði keypt meira í sumar. Við eigum þó eitt hálmstrá inni ennþá en það er áhugi félagsins á miðjumanninum Aurélien Tchouaméni. Liverpool var tilbúið að kaupa einn stærsta bita markaðarins núna í sumar sem gefur til kynna að félagið er að huga að breytingum á miðjunni þó þessi díll hafi ekki gengið eftir.
Það er lítið að marka það þegar félagið segist ekki ætla að gera meira á leikmannamarkaðnum, Danny Ward var t.a.m. að fara verja mark Liverpool vikuna áður en Alisson kom. Liverpool var alls ekki á eftir Thiago skömmu áður en kaupin á honum voru staðfest o.s.frv.
Hvað sem gerist hjá Liverpool er hópurinn núna klárlega ekki veikari en hann var þegar síðasta tímabil hófst og ágætt að benda á að félagið spilaði til úrslita í öllum keppnum og var hársbreidd frá því að vinna deildina með þessa miðju.
Þó að það sé rólegt í kringum Liverpool núna er ljóst að hin toppliðin ætla sér stóra hluti og koma með töluvert breytt lið til leiks á næsta tímabili.
Skoðum hvernig staðan er núna í lok júní:

Man City
City losaði Aguero af launaskrá eftir síðasta tímabil en keypti ekki sóknarmann í staðin úr því kaupin á Harry Kane gengu ekki upp. Jack Grealish var engin eftirmaður Aguero sem dæmi. Erik Haaland er mikið frekar eftirmaður Aguero og kemur auðvitað í stað Harry Kane sem verður líklega áfram hjá Spurs úr þessu. Julian Álvarez tekur svo væntanlega við hlutverki Gabriel Jesus sem allt of góður leikmaður til að vera varamaður en launin eru hressandi.
Kalvin Phillips virðist svo vera við það að koma frá Leeds sem eftirmaður Fernandinho. Hann gæti myndað sterka miðju með Rodri í vissum leikjum eða skipt með honum verkum yfir langt tímabil.
Marc Cucurella vinstri bakvörður Brighton er sterklega orðaður við City en gæti kostað töluvert þar sem hann á fjögur ár eftir af samningi og Brighton hefur engan áhuga á að selja. City verður skv. lögum félagsins að kaupa einn rándýran bakvörð á ári og sérstaklega núna m.v. bullið sem Mendy er búinn að skapa sér.
Raheem Sterling er svo sterklega orðaður í burtu, hann á lítið eftir af samningi og er ósáttur við spilatíma hjá City. Chelsea og Arsenal eru sterklega orðuð við hann. Sama á við um Jesus sem er sagður svo gott sem kominn til Arsenal.
Annað slúður sem lítið er marktækt ennþá er t.d. að Chelsea vilji Ake aftur, Gundogan vilji fara og eins hefur Zinchenko verið orðaður við nokkur úrvalsdeildarfélög.
City virðist vera þétta hópinn hjá sér og styrkja byrjunarliðið umtalsvert með Haaland.
Chelsea
Það er alls ekki auðvelt að lesa í Chelsea eins og staðan er núna en ljóst að þeir verða að gera töluvert stórar breytingar á byrjunarliðinu (aftur). Fyrir það fyrsta er miðvarðaparið (Rudiger – Christiansen) farið, báðir samningslausir. Thiago Silva verður 38 ára í september.
Romelo Lukaku gæti toppað Kepa sem verstu kaup í sögu Úrvalsdeildarinnar en hann er farin aftur til Inter, nú á láni. Hakim Ziyech er orðaður frá félaginu, þá sérstaklega við hitt Milan liðið. Auk þess er líklegt að leikmenn eins og Alonso, Barkley o.fl. fari í sumar.
Stærsta spurningamerkið núna er hvernig Chelsea við fáum eftir tíma Roman? Það vantar ekki að þeir eru orðaðir við annanhvern leikmann og koma líklega til með að klára nokkra stóra samninga á næstu dögum og vikum. Sterling og Richarlison gerpið eru orðaðir við félagið. Dembele hefur verið í umræðunni í sumar sem og miðverðir eins og de Ligt hjá Juventus og Kounde hjá Sevilla.
Enn sem komið er hefur Chelsea samt ekki keypt neinn leikmann. Þeir eru að losa töluvert pláss á launaskrá í þessum glugga og eiga að vanda töluvert af leikmönnum á láni sem þeir geta selt með ágætum gróða. Einn af þeim er t.d. Conor Gallagher sem gæti eins verið nógu góður orðið til að komast bara í lið Chelsea.
Of snemmt að dæma hvort Chelsea verði sterkari á pappír fyrir þetta tímabil en þeir voru fyrir það síðasta.
Man Utd
Það er magnað hvað þörf er á mikilli tiltekt núna hjá United þrátt fyrir þróunarstarf og uppbyggingarfasa Ole Gunnar Solskjaer. Liðið er skipað leikmönnum sem Ferguson, Moyes, Van Gaal, Motormouth og Solskjaer fengu undir mismunandi formerkjum á ekki svo löngum tíma, fimm stjórar (sex með Ragnick) og það er ekki eins og United hafi verið með DoF á þessum tíma sem hefur einhverja minnstu yfirsýn yfir leikmannakaup félagsins og framtíðarstefnu. Það var breytt um stefnu í hvert skipti sem nýr maður var settur í brúnna.
Þeir sem voru búnir með samninginn er staðfest farnir og það eru þörf á losa annan eins fjölda strax í sumar en vandamálið er að sumir þeirra eru með samning sem ekkert lið er tilbúið að borga.
Paul Pogba er auðvitað stærsta nafnið sem er farið og styrkir brottför hans strax liðið, móralinn og skapar pláss á launaskrá. Nemanja Matic og Juan Mata eru líka farnir, þeirra hátindur var sem leikmenn Chelsea, Old Trafford var elliheimilið þeirra.
Cavani er farin frá félaginu og Greenwood ógeðið kemur líklega ekkert við sögu í vetur ef hann gerir það þá nokkurntíma aftur. Fyrir utan Greenwood eru þetta allt leikmenn sem voru komnir yfir síðasta söludag, a.m.k. hjá United (guð má vita hvernig Pogba verður annarsstaðar).
Auk þeirra er næsta víst að Lingard fer annað og hefur hann t.d. verið orðaður við West Ham. Martial hlítur líka að fara loksins. Dean Henderson virðist vera að fara og spurning með menn eins og Phil Jones.
United er ekki að fá mikið inn af peningum fyrir þessa leikmenn en brottför þeirra skapar töluvert pláss í hópnum og félagið er komið með miklu betri stjóra en þeir hafa verið með undanfarin ár.
Donny van der Beek fær stjórann sem gerði hann að Donny van der Beek. Mögulega fær hann Frenkie de Jong með sér aftur á miðjuna sem eru gríðarlegt upgrade á þeim leikmanni sem Pogba hefur verið hjá United.
Lisandro Martinez (miðvörður) og Antony (kantmaður) frá Ajax hafa verið orðaðir við United, líklega vegna þess að þeir eru fyrrum leikmenn Ten Haag. Sama á við um Christian Eriksen.
Það er ljóst að United á eftir að láta hraustlega til sín taka á leikmannamarkaðnum næstu vikur en með því að skoða hópinn hjá þeim eins og hann er núna er líka helvíti mikið verk fyrir höndum. Darwin Nunez sýndi að það er ekkert sjálfgefið að þeir bestu vilji taka þátt í þessu sem hefur verið í gangi á Old Trafford undanfarið.
Það er alls ekki einkenni vel rekinna knattspyrnuliða að gera mjög miklar breytingar milli ára og augljóslega of snemmt að dæma þetta sumar hjá United, þeir geta á móti ekki versnað mikið frá síðasta tímabili.
Tottenham
Antonio Conte gæti verið nógu góður stjóri og nógu klikkaður til að þvinga Daniel Levy til að eyða smá peningum í Tottenham liðið, svona úr því að hann skilaði þeim í Meistaradeildina. Hann ætlar a.m.k. að taka töluvert til og byrjaði af krafti í janúar.
Bissouma er komin frá Brighton og Pericic frá Inter Milan, það er ekki til meiri Conte leikmaður en hann þó hann sé reyndar meira búinn að spila wing-back undanfarið frekar en sóknarmann. Klárlega hans hlutverk áfram í 3-4-3 kerfi Conte.
Harry Kane og Son virðast ekki vera á förum og Spurs sleppur við annað svona Harry Kane sumar eins og þeir fengu að upplifa fyrir ári síðan.
Spurs eru núna sterklega orðaðir við Richarlison gerpið og jafnvel Anthony Gordon líka frá Everton. Eins hafa þeir verið orðaðir við Raphinha frá Leeds og hafa verið í viðræðum við Boro um Djed Spence, hægri bakvörðinn sem var frábær á láni hjá Nott Forest í vetur.
Daniel Levy er þó ekki gengin alveg af göflunum, hann á töluvert af góðum leikmönnum til að selja á móti frekari leikmannakaupum Conte. Harry Winks má víst leita á önnur mið, Bergwijn hefur verið í viðræðum við endurkomu til Ajax, Lo Celso hlítur að fara eftir að hafa farið á láni í janúar, sama má segja um NDoumbélé og Bryan Gil
Tottenham munu mæta sterkari til leiks í haust.
Arsenal
Það er ljóst að það fór illa í forráðamenn Arsenal að ná ekki Meistaradeildarsæti næsta vetur. Þeir eru með efnivið sem þeir geta ekki haldið lengi án þess að vera í Meistaradeild og miðað við slúðrið í sumar ætla þeir sér stóra hluti í vetur. Þeirra tiltekt hófst reyndar rétt eins og hjá Spurs strax í janúar.
Fabio Vieira einn besti miðjumaður Portúgal er staðfest kominn á miðjuna og Gabriel Jesus er svo gott sem staðfestur einnig. Auk þeirra kom hinn ungi kantmaður Marquinhos og miðvörðurinn ungi Saliba skilaðir sér aftur úr láni hjá Marseille.
Auk þeirra er Arsenal eitt þeirra liða sem eru sterklega orðað við Rapinha og eins Lisandro Martínez frá Ajax. Á móti losa þeir líklega Torreira, Maitland-Niles og og Pablo Marí frá félaginu.
Arsenal stefnir í að koma mun öflugra til leiks í vetur með spennandi S-Ameríska sóknarlínu.
Liverpool
Liverpool er miðað við sama tíma fyrir ári síðan búið að kaupa Nunez, Diaz og Carvalho í framlínuna og bæta líklega Kadie Gordon enn meira við hana í vetur. Þeir inn í staðin fyrir Sadio Mané, Divock Origi og Minamino. Þetta er mun yngri og ferskari sóknarlína þó vissulega eigi enn eftir að fylla skarð Mané, það er meira en að segja það þó Diaz og Nunez hafi allt til alls að gera einmitt það.
Ramsey er mjög óskrifað blað og óvíst hvað hann verður stór partur af aðalliðshópnum.
Næstu leikmannakaup Liverpool verða líklega á miðjunni en ef maður skoðar núverandi hóp er ekki pláss fyrir mikið fleiri leikmenn, ekki nema einhver fari á móti. Thiago, Henderson, Fabinho og Keita eru aðal miðjumenn Liverpool og verða að berjast um 2-3 stöður í sumar. Það er öflug breidd. Jones, Ox og Milner eru kostir 5-7 þar fyrir aftan. Þróun Elliott og kaupin á Carvalho og Nunez benda svo til að Klopp ætli sér að breyta leik liðsins á næstu misserum eða a.m.k. hafa kost á því og skapa hlutverk fyrir meira sóknarþenkjandi miðjumann. Fabio Carvalho og Harvey Elliott eru báðir líklegir til að festa sig mjög fljótlega í sessi sem byrjunarliðsmenn í aðalliðinu, sérstaklega í slíku hlutverki. Slíkt hlutverk gæti líka hentað Jones og Ox mun betur.
Þetta eru stærstu/ríkustu félögin, West Ham, Newcastle, Aston Villa og Leicester ætla sér t.a.m. öll mun stærri hluti en á síðasta tímabili.
[...]