Liverpool 3 – 0 Southampton

Liverpool fékk Southampton í heimsókn á Anfield í dag, og vann öruggan 3-0 sigur.

Mörkin

1-0 Sjálfsmark (Hoedt) (10. mín)
2-0 Matip (21. mín)
3-0 Salah (45+2 mín)

Leikurinn

Taugarnar voru eitthvað aðeins að trufla okkar menn á fyrstu mínútum, en eftir 10 mínútur náðu okkar menn forystu. Hornspyrna frá Shaqiri var skölluð frá, Mané náði boltanum, átti fallega sendingu inn fyrir á Shaqiri sem átti ágæta fyrirgjöf, hún fór í tvo Southampton menn og þaðan í netið. 10 mínútum síðar fékk liðið svo hornspyrnu, TAA tók hana og átti fallega sendingu inn á miðjan teig þar sem Matip stökk manna hæst og skallaði óverjandi í hornið. Mér fannst vera smá svipur með þessu marki og seinna marki Skrtel á móti Arsenal í 5-1 leiknum góða snemma árs 2014. Liverpool var svo sterkari aðilinn það sem eftir lifði hálfleiks. Á 42. mínútu sendi Firmino góða stungusendingu inn á Salah, hann náði að snúa af sér varnarmann en var þá kominn með bakið í netið, svo hann reyndi hælskot en það fór rétt framhjá. Brosið sem hann setti upp var nú ekki eitthvað sem maður myndi eiga von á að sjá hjá rosalega pirruðum framherja. Og á síðustu andartökum hálfleiksins fékk Liverpool aukaspyrnu við vítateigshornið, Shaqiri átti frábæra spyrnu sem small í slánni og fór þaðan í jörðina. Salah, Firmino og Mané voru allir mættir á markteig og það var Salah sem náði að pota boltanum yfir marklínuna. Staðan 3-0 í hálfleik.

Af einhverjum orsökum var Shaqiri skipt út af í hálfleik. Eitthvað hefur heyrst um að þetta hafi verið taktísk breyting, að Klopp hafi viljað ráða miðjusvæðinu betur, mögulega er hann með leikinn á miðvikudaginn í huga, og vill hafa Shaqiri ferskan í þeim leik. Allavega, Milner kom inn á. Á 53. mínútu fór svo Van Dijk út af vegna meiðsla, og Gomez kom í staðinn. Hann og Matip náðu ágætlega saman, og varnarvinna liðsins var reyndar þannig að Southampton áttu ekki skot á markið fyrr en í uppbótartíma. Síðasta skiptingin kom svo um 20 mínútum fyrir leikslok þegar Keita kom inná í staðinn fyrir Wijnaldum. Nokkrum mínútum fyrir leikslok náði Salah svo að koma boltanum í netið aftur, en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Satt að segja fannst manni liðið bara sigla þessu örugglega í höfn í seinni hálfleik, var ekkert að setja í 4. eða 5. gír, einstaka sinnum í 3. T.d. kom hornspyrna nr. 2 í hálfleiknum ekki fyrr en um 10 mínútur voru til leiksloka.

Maður leiksins

Enginn sem var að gera áberandi tilkall að mínu mati, liðið var allt að spila vel, enginn sem átti áberandi slæman eða góðan dag. Shaqiri var ferskur á meðan hann var inná, átti fyrirgjöfina sem gaf fyrsta markið, og frábæra aukaspyrnu sem gaf þriðja markið. Ég ætla að tilnefna fyrirliðann Jordan Henderson sem mann leiksins, enda sívinnandi allan leikinn.

Slæmur dagur

Maður finnur það að Salah á alveg fullt inni, en hann var nú samt að skora mark í dag. Verstu fréttirnar voru auðvitað meiðsl Van Dijk, en nýjustu fréttir herma að hann sé bara með mar nálægt rifbeinunum, og þetta eigi að jafna sig. Það kæmi ekki á óvart að við sæjum hann hvíldan alveg í Chelsea deildarbikarleiknum í vikunni.

Umræðan

  • Þetta var leikur nr. 600 hjá Jürgen Klopp sem knattspyrnustjóri. Gaman að sjá liðið halda upp á þessi tímamót með sigri.
  • Í fyrra var liðið ekki að standa sig nógu vel í næstu deildarleikjum eftir að hafa leikið í meistaradeildinni í miðri viku, og því var alveg ástæða til að spyrja sig hvort einhverjir timburmenn myndu koma í ljós, hafi einhverjir slíkir verið til staðar var það a.m.k. ekki að hafa áhrif á lokaniðurstöðuna.
  • Liðið er nú búið að vinna 6 fyrstu leiki sína í deildinni, og fyrstu 7 leiki í öllum keppnum. Liðið hefur vissulega áður unnið 8 fyrstu leikina í deildinni, en gerðu þá jafntefli í leiknum um góðgerðarskjöldinn svo þessir fyrstu 7 unnir leikir eru met.
  • Liðið hefur nú haldið hreinu á Anfield í deildinni í 750 mínútur, eða í 8 leikjum. Sambærilegur árangur náðist síðast 2006/2007 tímabilið.

Næst (og þarnæst) mætir liðið Chelsea. Það má búast við talsverðri róteringu í leiknum í miðri viku, en að svo verði stillt upp allra sterkasta liði sem í boði er um helgina. Þar gætum við verið að sjá tvö lið takast á með fullt hús stiga í deildinni, þó það velti vissulega á úrslitunum á morgun.

Njótum þess að vera á toppnum, a.m.k. til morguns.

35 Comments

  1. Ég er ekki frá því að við Liverpool aðdáendur séum orðnir ofdekraðir! Á þriðjudaginn vorum við “bara” dekraðir þegar við tókum eitt af bestu liðum evrópu og létum þá líta út eins og lið í fallbaráttu á Englandi. Í dag vorum við ofdekraðir því það eina sem maður hugsaði í seinni (í stöðunni 3-0) ætla þeir ekkert að skora meira??

    Ég vinn með einum sem heldur með Man City og hann talar um að Liverpool sé farið að spila eins og City á síðasta tímabili, eiga kannski ekkert sérstakan leik en klára samt leikinn.

    Er þetta að gerast? Munum við hætta að fókusa á að komast í meistaradeildina og láta okkur dreyma um dolluna sjálfa? Það er amk alveg ljóst að Klopp er búinn að snúa mér “from doubter to believer”

    YNWA

  2. Skrítinn leikur… mikið um furðulegar ákvarðanir og slæmar sendingar á köflum, en job done

  3. Virkilega fagmanlegur sigur.
    3-0 yfir í háfleik þrátt fyri að vera ekki að spila okkar besta leik og svo var bara Millner inn í síðari og við lokuðum sjoppuni en þetta hefur verið smá vandamál undanfarinn ár að ná að hleypa liðum ekki aftur inn í leikinn.

    Við erum að spila flottan fótbolta og Man City eru ekki síðri en við í því. Sem þýðir að við megum ekki misstíga okkur mikið á þessu tímabili því að þeir eru ekki að fara að gera það oft.

    Flott 3 stig og núna er bara að snúa sér að deildarbikarleiknum gegn Chelsea þar sem menn eins og Moreno, Clyne, Fabinho og Sturridge gætu allir komið inn.

    YNWA , Takk fyrir mig og megi þessari veislu aldrei ljúka.

  4. 3 stig og höldum hreinu, flott mál. Vona að Shaq og VVD séu ekki mikið meiddir

  5. Sælir félagar

    Ég tek orð mín um Matip aftur. Hann tróð upp í mig sokk í þessum leik og það var gott. Okkar menn að taka frekar auðveld þrjú stig þó þeir hafi ekki verið að spila neitt sérstaklega vel. En gæðin eru samt það mikil og við svo góðu vön að þetta virtist frekar auðvelt. Átján stig í sex leikjum er nottla snilld.

    Það er nú þannig

    YNWA

  6. Iðnaðarsigur og eftir sex umferðir erum við þegar komnir með átta stiga forskot á hrökkbrauðsdrengina hans Móra.

    Dásamleg helgi framundan – YNWA

  7. Bestu punktar dagsins:

    1) Shaquiri – þvílík aukaspyrna hjá fjörkálfinum!

    2) Joe Gomez – drengurinn verður með þessu áframhaldi betri en VVD!

  8. Gæði og bara meiri gæði. Hættum að drulla yfir einstaka leikmenn því Klopp veit alveg hvað þessir menn geta á góðum degi. Matip ekki nógu góður, Hendó ekki nógu góður, Moreno slakur leikmaður. Ef þessir leikmenn sem við erum með í leikmannahópnum væru ekki
    Liverpool hæfir væru þeir ekki í hópnum.

    Sáttastur hvað kaupin hjá Klopp hafa virkað á aðra leikmenn í hópnum og gert þá betri. Hve góður yrði Firmino ef keypt yrði heimsklassa nía í janúar?

  9. Það er náttúrulega vitað, að stigi menn ekki upp þá far vell. Matip stóð upp. Annars flottur leikur of okkar hálfu, þó ég hefði viljað amk 1 mark til viðbótar, en eins og Stones sungu, you cant always get what you want, eða þannig.

    YNWA

  10. Arnar #13: rak augun í þetta eftir að ég var búinn að gefa út, en þetta er leiðrétt hér með 🙂

  11. Klopp að tala um að skipulagið á liðinu hafi ekki verið nógu gott í fyrirhálfleik og því hafi hann gert skiptinguna með Millner og farið í leikerfið sem þeir þekkja betur.
    Þetta var einfaldlega frábær skipting hjá Klopp sem læsti þessum leik algjörlega og áttu Southampton menn ekki möguleika.

  12. Í stöðuni 3-0 og VvD fær eithvert högg á ribbin, út með hann, hvílum að næsta leik. Það var ekki eins og einhver nobadi kæmi inn fyrir hann, nei bara strákurinn okkar hann Gomes, þið vitið landsliðsmaður Englands og framtíðarmaður okkar. Djö. erum við í góðum málum.

    YNWA

  13. Flottur leikur. Manni finnst ennþá eins og liðið eigi eftir að sýna sínar bestu hliðar á tímabilinu, en þrátt fyrir það er þessi byrjun sú besta í 126 ára sögu klúbbsins (7 sigrar í röð í öllum keppnum)! Þannig að það er ekki hægt að kvarta yfir miklu.

    Eitt smáatriði sem ég verð að benda á því það stingur mig svo í augun, en nafnið hans Firmino er vitlaust skrifað í bannernum efst á síðunni :p

    Annars bara góðar stundir.

  14. Framfarinar hjá Gomez eru þvílíkar og hann er að koma með yfirburði inná völlinn þrátt fyrir að VVD hafi farið útaf þá virkaði hann salla rólegur og át allt sem kom á okkur.

    Shaqiri var brilliant að mínu mati í þessum leik og þeir fremstu 3 góðir og Salah var mjög góður þó hann hafi mögulega getað skorað fleiri þá skiptir það ekki máli núna.
    Skál í botn!

  15. Sælar elskurnar.

    Þetta er nú meiri snilldin. Getum sætt okkur jafntefli á móti þeim fölbláu ef þetta heldur svona áfram. Er það svo ekki rétt munað hjá mér að Samvinnuhreyfing Mansésterborgar hafi aðeins náð jafntefli gegn Fylki? Einhvers staðar sá ég það.

    Held að breiddin okkar sé mun meiri en hjá Chelsea og er þá mikið sagt. Er nokkur ástæða til að hafa of miklar áhyggjur af þeim leikjum?

    Þetta er bara alveg hreint ljómandi og aldrei þessu vant lekur feigðin ekki með síðum – hér er kominn granítsterkur hópur sem ætlar sér að taka stigin þrjú úr hverjum leik.

    Takk.

  16. Spurning: á liðið okkar að pakka öllum öðrum keppnum niður í tengdamömmuboxið (meistaradeildin, bikarkeppnirnar,…) og veðja öllu á að vinna ensku úrvalsdeildina, eða keppa að alvöru í öllum keppnum? Margir kostir og gallar við báðar leiðir. Læk ef þið kjósið fyrri kostinn.

  17. # 20 Svo sannarlega, eftir 28 ára bið – sem verður 29 í vor – skiptir okkur stuðningsmenn fátt meira máli en að vinna þessa erfiðustu og ströngustu keppni af öllum fótboltakeppnum.

    Scotish Cream fyrir allar tengdamömmur heims og Tupperware með pönnsum upp á hvaða fjall sem er. Tengdós mega allar fara í berjalaut.

    Blátært, heiðskírt, ískalt vatn ofan í okkar drengi og helst ekki tapa punkti í deildinni. Eða bara nógu fáum til að vinna hana loksins aftur.

    Rock on Rockall. Að mínu viti er bara einn bikar sem varðar öllu.

  18. Það er alveg hreint magnað að Salah var jafnvel besti leikmaður Liverpool í þessum leik og að við vitum samt að hann á alveg heilmikið inni.

  19. Shaq fór útaf í hálfleik því klopp vildi meiri stjórn á leiknum… bíddu unnum við ekki fyrri hálfleik þrjú núll?
    Ok skil það með taktík en hefði viljað leyfa shaqiri að fá meiri spiltíma, eins varð seinni hálfleikur allt of leiðinlegur.
    Og svo ég sé ekki bara leiðinlegur þá ætla ég að hrósa matip fyrir að troða sokk í mig, góður leikur hjá honum

  20. Já, það er raunar mjög athyglisvert að öll mörkin komu á meðan Shaqiri var inn á !?

  21. Gaman að sjá framlag frá mörgum í upphafi tímabils, náum í sigur leik eftir leik á liðsheild. Þetta er nú það sem oftast vinnur titla á endanum.

    Vonum að þetta haldi áfram, en það lítur allt vel út í augnablikinu 🙂

  22. Top of the league! Eina liðið með fullt hús stiga, skál!

    YNWA

  23. Spái því að chel$e mistígi sig 3 leiki í roð, þar sem MO skorar 3 mörk í leiknum 29.9.

  24. Ég held að það sé í lagi að við fáum að njóta þess aðeins að vinna fyrstu 6 leikina okkar og fá að sitja einir á toppnum.
    Miða við spilamensku liðana þá er þetta spurning um okkur eða Man City á þessu leiktímabili.

    Við
    West Ham heima 4-0 , Palace úti 0-2 , Brighton heima 1-0 , Leicester úti 1-2 , Tottenham úti 1-2 og Southampton heima 3-0

    Næstu leikir Chelsea úti, Man City heima, Huddersdield úti og Cardiff heima

    Man City
    Arsenal úti 0-2 , Huddersfield heima 6-1 , Wolves úti 1-1, Newcastle heima 2-1, Fulham heima 3-1 og Cardiff úti 0-5

    Næstu leikir City eru Brighton heima, Liverpool úti , Burnley Heima og Tottenham Heima

    Það væri frábært ef við næðum að vera á toppnum eftir 10 leiki og komnir í gegnum svakalegt leikjaprógram.

  25. Liverpool þurfti að vinna sex fyrstu leikina í deildinni og setja sigurhrynumet til þess að eiga toppsætið algjörlega út af fyrir sig. Samt sem áður eru tvö önnur stórlið sem eru taplaus og hin stórliðin augljólega að finna sinn takt. Þetta tímabil verður virkilega erfitt og sem stendur er auðvelt að álikta að stóra baráttan verður á milli Chelsea, Man City og Liverpool og líkast til koma innbirgðisviðreignir á milli stórliða að vega ansi þungt í toppbáráttunni.

  26. Þegar menn eins og Sarri eru byrjaðir að segja að kanski verði þeirra lið á sama leveli og Liverpool mögulega eftir ár eða svo þá veit maður að hlutirnir eru að ganga vel.

  27. Ég held að liðið taki þetta í ár. Fartölvur voru ekki komnar á markað þegar liðið vann síðast….kominn tími á það 🙂

  28. Þetta lytur svakalega vel út hjá okkar mönnum og þetta erfiða programm sem við erum í fer mjög el af stað. Ég ætla spá því að við klarum Chelsea í bikarnum, gerum svo jafntefli við Chelsea í deildinni og á sama tima vinnur city sinn leik og við mætum svo city á Anfield og þá bæði lið jöfn að stigum á toppnum fyrir þann leik en við vinnum svo City og verðum aftur einir á toppnum eftir þann leik. Maður myndi ekkert kvarta ef við færum taplausir í gegnum þetta rosalega programm sem við erum þótt það kæmi eitt jafntefli út úr þessu.

Byrjunarliðið gegn Southampton

Kvennaliðið heimsækir Brighton