Upphitun: Fyrsti leikur tímabilsins gegn West Ham

Þá er komið að stundinni sem beðið hefur verið eftir allt þetta regnvota og stormasama sumar. Fyrsti Liverpool-leikur tímabilsins er að bresta á með tilheyrandi eftirvæntingu og tilhlökkun. Klopp og forráðamenn klúbbsins hafa kynt eldana undir spennubálinu með því að hlaða á bálköstin brjálæðislega spennandi og metnaðarfullum nýjum leikmönnum sem allir bera með sér auknar vonir og væntingar okkar Púlara. Verður þetta árið okkar? Eldrauð hjörtu okkar og titilvonir eru í þeirra höndum og við munum hvetja þá áfram við hvert skref, spark og spyrnu í von um langþráðan árangur. Það er því ekki eftir neinu að bíða og best að þreyja þorrann fram að upphafspyrnunni með upphitun að hætti hússins.

Hefjum nú leikana!!!

Mótherjinn

West Ham hafa af mörgum verið titlaðir konungar kaupgluggans þetta sumarið og eru þeir fyrstir á andmælendaskrá Anfield í ár. Nokkur önnur lið geta gert löglegt tilkall til krúnunnar, okkar eigið Liverpool-lið meðtalið, en Austur-Lundúnabúarnir mega eiga það að þeir sýndu mikinn metnað í sumar og skiluðu undraverðum árangri í sínum innkaupaleiðangri. Það er svo sem auðvelt að eyða úrvalsdeildarpeningum með hraði og nettóeyðsla þeirra voru 88 milljónirpunda í þessum glugga, en það sem þeim hefur tekist núna er að laða til sína ansi marga áhugaverða bita á markaðnum sem flest ár hefðu ekki litið við þeirra liði. Hugsanlega hefur höfðinginn Pellegrini meira um þennan áhuga á WHUFC að segja en peningarnir í þeim efnum og við Púlarar könnumst klárlega við Klopp-áhrifin þegar kemur að því að laða leikmenn til liðsins. Þegar fer að síga á tímabilið þá gæti sá snjalli þjálfari einmitt verið verðmætastu innkaupin af þeim öllum.

Á undirbúningstímabilinu hefur West Ham eingöngu tapað einum leik og unnið 5 af 7 viðureignum en mótherjarnir verða seint kallaðir þeir erfiðustu. Mainz og Angers voru í efsta þyngdarflokki af liðum sem West Ham mætti og lentu bæði lið merkilegt nokk í 14.sæti meðal þýskra og franskra á síðasta tímabili. Aðrir andstæðingar í vináttuviðureignum voru ensk neðrideildarlið og var Arnautovic heitastur í markaskorun með 4 af 12 mörkum liðsins. Mælikvarðinn á stöðu þeirra á þessum tímapunkti er því á reiki en það sem við vitum er að þeir hafa fjölgað leikmönnum sem geta unnið leiki upp á eigin spýtur sem gerir þá að afar hættulegum mótherja.

Felipe Anderson orðinn Hammer

Felipe Anderson er mættur á svæðið frá Lazio fyrir um 36 milljónir punda en þar er á ferð afar flinkur og skeinuhættur sóknarmaður sem getur gert glæsilega hluti á góðum degi. Andriy Yarmolenko sem löngum var linkaður við Liverpool er kominn frá Dortmund og hann er þekktur fyrir sín þrumuskot. Þá hefur Jack Wilshere skipt um póstnúmer innan Lundúna og fær tækifæri til að hrista af sér sliðruorðið og meiðslasöguna með nýrri byrjun í nýjum liðsbúningi. Fabianski flúði hina sökknu Svani í sumar og hann hefur oft valdið Liverpool vandræðum með góðum markvörslum og flottum frammistöðum. Issa Diop kemur í vörnina og ásamt honum koma fjórir aðrir leikmenn til viðbótar til West Ham en þess utan hafa þeir haldið öllum sínum sterkustu leikmönnum frá síðasta tímabili og losað sig við nokkra útbrunna og gagnslausa í leiðinni (já, ég er að tala um þig Patrice Evra).

Það má því með sanni segja að West Ham hafi hlaðið heldur betur í hamarhöggin fyrir komandi tímabil en stóra spurningin er hvort að þessi leikur okkar gegn þeim komi á heppilegum tíma áður en þeir hafa náð að stilla almennilega saman sína strengi. Mikið magn af leikmönnum á stuttum tíma, sérstaklega margir sem aldrei hafa spilað í Premier League, getur þýtt byrjunarörðugleika sem við náum vonandi að nýta okkur til fullnustu. Mín tilraun til að giska á byrjunarlið gestanna er eftirfarandi:

Líklegt byrjunarlið West Ham í leikkerfinu 4-3-3

Liverpool

Það hefur mest megnis verið afar skemmtilegt að fylgjast með okkar mönnum á þessu undirbúningstímabili. Við höfum troðfyllt leikvanga út um allar trissur og skapað góðar stundir með eftirminnilegum atvikum og frammistöðum. Liðsandinn hefur verið frábær, enginn meiðst alvarlega og pjakkar eins og Curtis Jones, Nathan Phillips og Rafael Camacho hafa komið sjálfum sér rækilega á radarinn. Í níu leikjum þá höfum við unnið 7 þeirra og eingöngu tapað einum gegn Dortmund. Markatalan er 27 mörk skoruð með 8 fengin á okkur eða 3-1 úrslit að meðaltali. Þetta er þrátt fyrir að Klopp sé afar harður húsbóndi hvað varðar magn æfinga á þessum tíma árs og oft hafa verið strangar æfingar á leikdegi sem tekur vissulega sinn toll á frammistöðu og úthaldi í leikjum. Sérlega ánægjulegt hefur verið að sjá liðið gíra sig upp í gæðum og frammistöðum eftir því sem nær dregur móti, fleiri leikmenn koma úr fríi og andstæðingarnir verða sterkari. Fjórir flottir sigrar gegn Manchester-samlokunni og svo ítalskri Napoli-Torino-panini hafa gefið efni til bjartsýni og virðist Klopp vera að smellhitta á góðan undirbúning fyrir fyrsta deildarleikinn. Sóknarleikurinn hefur verið leiftrandi og hefðu mörkin geta verið mun fleiri en 14 stykki í þessum 4 síðustu leikjum og gera mætti ráð fyrir enn beittari einbeitingu og grimmd þegar út í alvöruna er komið.

Það sem helst skyggir á er alltof algengur draugur síðustu missera með miðvarðameiðsli en vörnin hefur verið undanskilin styrkingum þetta sumarið þó að margir hefðu einmitt viljað fá meiri breidd í hjarta varnarinnar. Matip og Klavan ku vera meiddir og Gomez tæpur meðan Lovren er nýkominn aftur til æfinga eftir hetjudáðir heimsmeistaramótsins. Nathan Phillips hefur verið nefndur sem nærtæk lausn í opnunarleiknum en líklegast er þó að Gomez verði til í tuskið þegar á reynir upp úr sunnudagshádeginu. Á miðjunni er Fabinho tæpur með nett meiðsli og pestagang og Milner verður væntanlega sparaður eftir 15 spora skurð í enninu gegn Napoli. Fyrir vikið ætti fyrirliðinn Henderson að mæta á miðsvæðið þrátt fyrir lítinn æfingatíma enda er hann alltaf í toppformi. Alisson og Keita mun spila sína fyrstu alvöru leiki fyrir Liverpool og sjóðheitir Sturridge og Shaqiri verða væntanlega á varamannabekknum tilbúnir til að koma inn og hamra mörk á Hamrana ef þörf þykir. Mín uppskrift að fyrstu máltíð vetrarins er því eftirfarandi:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

Spakra manna spádómur

Þetta er klárlega tricky leikur miðað við kaupgluggann hjá West Ham og þeirri almennu bjartsýni sem þau innkaup hafa skapað. Að sama skapi þá hafa okkar menn átt sinn eigin frábæra kaupglugga og litið frábærlega út í æfingaleikjunum í þokkabót. Við ættum því ekkert að óttast Hamrana heldur ættu þeir að vera ansi stressaðir um það hvernig þeir eigi að hemja okkur. Ég læt markameðaltal æfingartímabilsins ráða og spái 3-1 heimasigri fyrir Liverpool með mörkum frá Salah, Mané (víti) og Sturridge.

YNWA

25 Comments

  1. Þetta er að bresta á, spennan er gríðarleg. Pressa á Klopp að skila einhverjum titli í ár, allt annað eru vonbrigði. Þetta er liðið hans. Ætla að gerast djarfur og spá okkur deildar titlinum í ár, alveg sannfærður. 4-0 á morgun og senda okkar menn skýr skilaboð. Bobby setur tvö, Salah eitt og Daniel Sturridge endurfæddur smellir einu í lokin. West Ham komast ekkert áleiðis í þessum leik.

  2. Skyldusigur, sennilega besti leikur sem við gátum fengið í byrjun. Ekki of auðveldur, né erfiður en segjir margt. Við nefnilega verðum að byrja strax!

    YNWA

  3. Jæja strákar og stelpur, nú er þetta að skella á. Ekki bara æfingaleikir og ekki einhver forkeppni CL, heldur alvaran sjálf. Þetta árið vill maður sjá liðið sitt á fullu gasi frá byrjun tímabils, en eins og vitum þá hefur oft verið full mikill slaki framan af móti. Síðan er það staðreyndin að öll lið virðast peppast upp við að koma á Anfield og efa ég ekki að WHU muni gera það líka og berjast eins og ljón fyrir stiginu. Reyndar hörkugott lið sem ætlar sér áreiðanlega stóra hluti í vetur. Sturridge kemur af bekknum í dag og setur eitt, hann þarf svo sannarlega á því að halda karlinn. Kannski verður hlutverkið hans í vetur að leysa af, hvíla, hina framherjana sem er bókstaflega frábært á löngum og erfiðum knattspyrnuvetri með allt að 60 leikjum. Auðvitað þarf líka helst tvo menn í hverja stöðu þegar meiðsli og álag fara að segja til sín. Hlakka til.

  4. Þetta er að byrja! Get ekki beðið spái líka 3-1 í hörkuleik og öll mörkin koma í seinni hálfleik Mane skorar 2 og shakírí 1

  5. Ég held að þetta verði hörku leikur og skemmtilegur, endar 4-3 og minn maður Keita með 2 ?

  6. Sterkt byrjunarlið og það er gaman að sjá bekkinn miðað við að þetta sé rétt byrjunarlið.

    Sturridge
    Shaqiri
    Lallana
    Origi
    Solanke
    Þarna eigum við loksina alvöru vopnabúr sem geta breytt jafntefli í sigurleiki.

    Hrikaleg spenna

  7. Ég vil bara sjá Lovren í vörninni. Pogba spilaði megnið af leiknum í gær og þá ætti Lovren að geta það líka.

    Spennan er annars geðveik, maður sveiflast á milli þess að vera ofurbjartsýnn og þess að bíða eftir vonbrigðum sem hafa yfirleitt alltaf síðustu áratugi slegið mann niður þegar bjartsýnin bankar upp á. En tímabilið verður geggjað og þótt maður sé varkár fyrir leik morgundagsins þá held ég að við náum að kreista fram 2-1 sigur.

  8. Takk fyrir þessa flottu upphitun.
    Þetta verður hörku leikur, West Ham koma líka með væntingar inn í tímabilið en fara svekktir heim eftir þennan leik.

    Y.N.W.A.

  9. Sælir félagar

    Þessi leikur verður eldskírn og mun varða leiðina í vetur. Ég hitti einn eldheitan “Hammer” í gær og hann segist ekki hafa neinar væntingar til síns liðs í þessum leik. Þetta verði bókað tap sagði hann. Vonandi verður honum að spá sinni og ég segi því 5 – 1 þar sem öll framlínan mun skora og Mané 2. Miðvörðurinn van Dijk mun setja fyrsta markið eftir hornspyrnu og svo koma hinir á eftir.

    Það er nú þannig

    YNWA

  10. Sæl og blessuð.

    Við verðum að leita aftur til ársins 2005 að jafn ærlegri vörn og markmanni eins og liðið hefur nú á að skipa. Þetta léttir þungri pressu af sókn og miðju og minnkar hættuna af skyndisóknum andstæðinganna.

    Þá er liðið líka með fólk á bekknum sem er til mikilla bóta. Shaquiri er leikjabreytir og maður minn, hvað ég vona að Sturridge haldi uppteknum hætti frá æfingaleikjum. Lúxuspróblemið er bara, að maður veit ekki hver á að fara út af! Svo er aldrei að vita nema að Lallana fari að blómstra.

    Loks eru Hamrar vel mannaðir og vísast munu nýir fætur reyna sitt besta til að sanna sig. Þeir munu því vart liggja í vörn og klappa þann steininn. Þetta verður opinn og skemmtilegur leikur og úrslitin verða 2-0.

  11. Tad er frabaert vedur her i Liverpool. Spair samt rigningu a morgun.

    Talandi um fotbolta. Mikid er eg spenntur fyrir morgundeginum. 🙂 3=0

  12. Red #11 Ég nota NecroIPTV. Hefur reynst mér mjög vel. Streymi beint í gegnum snjallsjónvarp.

  13. utd á toppnum, og það á stafsetningu, við verðum að vinna stórt, utd má ekki vera á toppnum lengi!!!

  14. Ég skrifaði hérna um daginn að mér litist ekkert á stöðuna á miðvörðunum og nú er það að koma á daginn. Eitthvað rugl með Lovren, ofaná öll önnur meiðsl. Tilfinningin segir mér að það sé fiskur undir Lovren-steini. Vill hann hærra kaup kannski?

  15. Lovren er víst meiddur í maga vöðvum. Hann segist hafa spilað svona í þremur leikjum fyrir Króatíu, hann lét Liverpool ekkert vita af þessu, fór bara í frí. Er hann ekki bara að þokast skrefi nær því að fara frá lfc með þessu, alls ekki eitthvað sem atvinnumaður gerir. Hann virðist ekki sá skarpasti ! Vonandi er í lagi með Gomes.
    Annars verður þetta erfiður leikur og ég spái að við náum að taka þetta 2-0. En mikið verður gaman að sjá liðið okkar spila:-)

  16. Maður skilur Lovren 100%. Hann var að spila með Króatíu á HM sem fór langt, hann var meiddur í kviðvöðva en vildi ekki láta það spyrjast út heldur harkaði af sér og spilaði mjög vel og fór alla leið í úrslitaleikinn.
    Okkur hefði verið drullu sama um Everton eða Cardiff ef Gylfi eða Aron hefðu gert það sama.

    Lovren á eftir að koma sterkur inn eftir gott HM þótt að hann nái ekki næsta leik. Hann og Djik náðu vel saman og hefur maður meiri áhyggjur af Matip og þrálátum meiðslum hans.

  17. Eitthvað segir mér að Ruben Neves verði leikmaður Liverpool einhverntímann

  18. Liðið eins og ég sé það
    Becker
    TAA Nat VVD Andy
    Milner
    Winny Keith
    Salah Bobby mane

  19. Jæja félagar er á ferðalagi um landið og er á Hofsós eins og er veit einhver hvar best er að horfa á leikinn á því svæði?

  20. Alisson, Alexander-Arnold, Van Dijk, Gomez, Robertson, Keita, Milner, Wijnaldum, Mane, Salah, Firmino.

    þannig lítur það út í dag.

  21. Sterkur bekkur 🙂
    Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Gomez, Van Dijk, Robertson, Milner, Wijnaldum, Keita, Mane, Salah, Firmino.

    Subs: Karius, Clyne, Fabinho, Henderson, Sturridge, Lallana, Shaqiri.

  22. #20 skilurðu lovren að láta ekki vinnuveitanda sinn vita að hann sé frá vinnu ? Mér finnst þetta afskaplega lélegt hjá honum. Segir sjálfur að hann sé einn besti varnarmaður í heimi, en sýnir allt annað.

Spá Kop.is – síðari hluti

Liðið gegn West Ham