Man Utd – Liverpool 2-1

1-0 Rashford 14′
2-0 Rashford 23′
2-1 Bailly (sjálfsmark) 66′

Leikurinn

Leikurinn fór rólega af stað. Liðin voru varkár til að byrja með og lítið að gerast. Það var svo eftir einstaklega einfalt útspark og skalla frá Lukaku sem fyrsta markið kom. Vörn Liverpool var sofandi og Rashford komst innfyrir. Í stað þess að þrengja skotrammann og leyfa Rashford að skjóta með vinstri þá fór TAA alltof hratt í hann, Rashford snéri frábærlega inn á teig og smellti knettinum í fjærhornið, 1-0.

Van Dijk fékk frábært skallafæri á 22 mínútu eftir að Matic hafði misst af honum eftir hornspyrnu en boltinn fór af öxlinni og framhjá.

Mínútu síðar eða svo var svipuð uppskrift hjá United. Langur bolti á Lukaku, Lovren hafði betur í skallaeinvíginu í þetta skiptið en heimamenn náðu frákastinu og sendu boltann innfyrir á Mata, Dijk varðist vel  en boltinn barst til Rashford sem skaut í fyrsta, boltinn fór í hælinn á TAA og þaðan í fjærhornið, 2-0 partý hjá heimamönnum. Verð að setja stórt spurningamerki við Can þarna í varnarvinnunni. Alltof mikið pláss fyrir utan teig sem heimamenn fengu pressulaust.

Það var afskaplega lítið að frétta af okkar mönnum. Engin færi sem heita getið og áttu fá svör. United var líklegra til að bæta við og fékk Mata dauðafæri en “klippa” hans af markteig fór framhjá.

2-0 í hálfleik og Liverpool  vandræðilega lélegir og flenging líklegri á þessum tímapunkti heldur en eitthvað ótrúlegt comeback.

Liverpool liðið kom svipað ráðalaust til leiks í síðari hálfleik. Helling með boltann en sköpuðu sér lítið sem ekki neitt. Jú, við hefðum getað fengið víti þegar boltinn fór klárlega í hendina á Smalling en ekkert var dæmt.

Lallana kom inná í stað Ox, ég get ekki sagt að ég hafi verið sammála þessu. Tveimur mörkum undir og Can og Milner báðir búnir að vera slakir og Ox líklega sá mest sóknarsinnaði af miðjumönnum okkar, þó hann hafi ekki verið að gera mikið heldur.

Það var svo upp úr nákvæmlega ekki neinu (eins og fyrra mark Utd) sem að Liverpool minnkaði muninn. Mané fór upp vinstramegin, sendi boltann fyrir en Bailly sem ætlaði að hreinsa boltann í burtu fékk knöttinn í hælinn í staðinn og meira að segja De Gea var ráðalaus í markinu þó hann væri vissulega í boltanum. 2-1.

Á 81 mínútu hefði Liverpool átt að fá víti. Mané tók þríhyrning með Firmino en þegar Mané kom í boltann eftir hælspyrnu Firmino ætlaði Fellaini að sækja sér stöðu fyrir framan Mané en fór þess í stað aftan í hann og svo í boltann. Klárt víti að mínu mati en ekkert dæmt. Ég er nú ekki mikið fyrir að ræða dómarann en ansi margt sem var farið að fara gegn okkur á þessum tímapunkti.

Sex mínútum var bætt við en Liverpool fann ekki jöfnunarmarkið þrátt fyrir nokkur hættuleg tækifæri og einhverjar þrjár eða fjórar hornspyrnur. Sigur Man Utd í höfn og eru þeir nú fimm stigum fyrir ofan okkur í öðru sæti.

Þessir stóru leikir standast sjaldnast væntingar og leikurinn í dag var engin undantekning frá því. Það er oftast þannig í þessum leikjum að liðið sem gerir færri mistök vinnur. United var það lið í dag, því miður.

Bestu menn Liverpool

Erfitt. 75% af leiknum fannst mér við ekki vera gera neitt. Barnarleg mistök í varnarleik og hugmyndasnauðir í sókn. Miðjan í raun ekki til staðar lengi vel.

Mané fannst mér vera slakur í fyrri hálfleik, rétt eins og allt liðið, en skánaði í síðari hálfleik og var einn af fáum sem tók á skarið í síðari hálfleik. Átti “stoðsendinguna” í sjálfsmarki Bailly og átti að fá víti seint í leiknum. Flestir voru daufir í dag. Gekk erfiðlega að ná stjórn á knettinum, sendingar voru lélegar og við náðum aldrei almennilegu flæði í okkar leik. Sérstaklega fannst mér þó TAA, Lovren og Can vera slakir í dag.

Afskaplega erfitt að velja bestu menn leiksins að þessu sinni, segi pass í þetta sinn.

Umræðan

Vandræðileg viðtöl. Klúbburinn hlýtur að fara og taka sig til og banna Lovren að fara í viðtöl fyrir leiki. Finnst eins og í hvert sinn sem að hann fer í viðtöl og er með yfirlýsingar þá á hann slaka leiki í kjölfarið. Hann leit ekki vel út í fyrri hálfleik, þó vissulega hafi hann ekki verið einn um það.

3-14 í skotum, 1-12 í hornspyrnum og 68% með boltann. Þessi tölfræði gefur okkur nákvæmlega ekki neitt en ég man ekki eftir svona tölfræði eftir heimsókn okkar á Old Trafford. Þetta er aftur á móti nákvæmlega það sem að JM er svo góður í, hann stillir sínum liðum upp til að ná úrslitum og er alveg nákvæmlega sama um skemmtanagildið. Þetta snýst um úrslit þegar uppi er staðið.

Pawson/VAR/Vítaspyrnur. Dómarinn, ef og hefði, það gerir nákvæmlega ekkert fyrir okkur en þegar við erum farin að fá smjörþrefin af VAR mun umræðan snúast um þessa tækni þegar vafaatriði eru til staðar. Liverpool hefði átt að fá eina ef ekki tvær vítaspyrnur í þessum leik en af einhverjum orsökum fengum við ekki neitt. Jafntefli hefði verið flott úrslit úr því sem komið var. Eins þreytt og það er þá fannst mér Pawson ekki eiga góðan dag og mun umræðan (Liverpool megin a.m.k.) væntanlega snúast talsvert um hann þessa helgina.

Næsta verkefni

Næsta verkefni er Watford eftir viku (laugardaginn 17. mars) á Anfield og það er bara krafa að liðið vinni þann leik, sérstaklega eftir þessi úrslit. Annað  sætið er ekkert útilokað, þó það sé erfitt eftir úrslit dagsins, en að sama skapi eru topp fjórir ekki heldur í hús.

Það er alltaf hundleiðinlegt að tapa gegn United. Staðan hefur aftur á móti oft verið verri og munurinn á liðunum meiri.

Það kemur dagur eftir þennan dag.

We go again.

63 Comments

  1. Sælir félagar

    Þetta voru auðvitað verstu úrslit sem við gátum fengið út úr þessum leik. Jafntefli hefði verið skárra en er þó komið nóg af þeim á þessari leiktíð. Það er ekki ástæða til að hengja einhverja leikmenn fyrir niðurstöðuna en mér sýnist svona eftir á að hyggja að spennustigið hafi verið of hátt hjá okkar mönnum og t.d. Lovren þolir illa svona hátt spennustig samanber T‘ham leikinn fyrr í vetur. Þar af leiðir hefði ef til vill verið betra að hafa Matip inná í stað hans þó mér finnist að öðru jöfnu að Lovren sé betri miðvörður en hann.

    Niðurstaðan er gífurleg vonbrigði og setur okkur í slæma stöðu. Við húrrum niður í fjórða sætið eftir þessa umferð og verðum komnir með Chelsea í ógnandi stöðu rétt á eftir okkur. Við eigum eftir að spila við þá og miðað við þennan leik megum við þakka fyrir að ná jafntefli. Móri tók KLopparann í ósmurt og það voru í raun engin svör frá Klopp í leiknum. Þar með erum við komnir í hörku baráttu við að halda okkur í efstu fjórum og megum hvergi misstíga okkur í þeim leik.

    Leikmenn héldu afram að hjakka og voru svo sem að leggja sig fram en leikurinn tapaðist á miðjunni þar sem Lukaku vann sem framliggjandi miðjumaður og fleytti boltanum hvað eftir annað fram í hættulegar stöður. Lovren sem sagði fyrir leik að hann hlakkaði til að eiga við hann en réði ekkert við líkamsburði og hraða Lukaku og því fór sem fór Klopp hefði átt að láta miðverðina skipta um hlutverk því Virgil var eini maðurinn sem hafði eitthvað í þennan framherja MU. Lovren getur alveg ráðið við aðra leikmenn MU inni í teig. Sigur Móra var því miður aldrei í hættu og markið sem við fengum var alger grís.

    Það er nú þannig

    YNWA

  2. Algjörlega ósammala skýrsluhöfundi, Liðið spilaði bara fínan leik, en það féll bara ekki mikið með okkur í dag,

  3. Eitt jákvætt alla vega…

    Karíus tæklingin uppvið miðlínu. Hún var flott.

  4. Við áttum ekkert skilið úr þessum leik. Vantaði alla grimmt og baráttu. Með því lélegra hjá Liverpool. Gátum ekki einu sinni gert eitt mark!!!!!

  5. Áttum vel skilið jafntefli. Eitt viti hefði breytt öllu. Scums eiga ekkert að fá hjálp, en þeir fá hana alltof oft, því miður.

  6. Hef sjaldan séð mann jafn étinn og Mo Salah í dag, af Ashley fokking Young.

    United spilaði sinn “fótbolta” sem við réðum ekki við og vann sanngjarnan sigur.

  7. Ok. við töpuðum þessum leik, spiluðum ekki vel en áttum klárlega skilið að fá eitt stig úr honum þrátt fyrir það. Tvö augljós víti og þessi dómari er ekki að fara á jólakortalistann hjá stuðningsmönnum LFC.

    Þurfum ekki að ræða varnarleikinn neitt sérstaklega í báðum mörkunum, mörg mistök í aðdraganda þeirra beggja.

    Er samt ánægður með að við gáfumst ekkert upp og héldum áfram. Nóg eftir af þessu móti og United þarf að mæta á Ethiad fljótlega. Verðum að bregðast hratt og örugglega við þessum bakslagi og vinna Watford um næstu helgi.

  8. Sanngjarn sigur hjá skummeronum þar sem alltof margir af okkar mönnum voru að leika illa.

  9. Þó að Umræðan um dómara sé orðinn þreytt á okkar bæ þá er það því miður þannig að LFC þarf allt allt of oft að spila á móti 12 mönnum en eina jákvæða sem ég sé við leikinn er að ég hélt að dómarinn yrði verri en þetta hversu ömurlegt er það. En nú vonum við að sjálfsögðu að Sevilla komi og slátri þessu liði með gæða dómgæslu. Og eitt að lokum kæru vinir við tökum þetta annað sæti slæmu dagarnir er búnir, hef það á tilfinningunni að þeir séu rétt að byrja hjá ManU.

  10. Scums fengu hjálp á móti chelski um daginn líka þegar lögleg mark hjá moratta var dæmt af. Við áttum alveg skilið stig úr þessu og auðvitað er erfitt að spila á móti 6-4-0 varnarlínu í 70 min. Við eigum samt að gera betur úr þrettán fokkings hornspyrnum! 2-2 hefði verið mjög sanngjarnt.

  11. Okkar mættu einfaldlega ekki til leiks fyrr en það var orðið um seinan.
    Þetta tap skrifast ekki á dómarann, við vorum ekki með í fyrri hálfleik og það er bannað gegn Man Utd.
    Sendingar og tímasetningar off.

    Ekkert katastrof, bara svekkjandi.
    Næsti leikur takk.

  12. Svekkjandi.
    Kennir mönnum að bíða með digurbarkann þar til eitthvað vinnst.
    Mané yfirlýsingaglaður eftir Porto leikinn og gat svo ekki sent einföldustu sendingar.
    Lovren að slá um sig fyrir leik og getur ekki varist af skynsemi á móti lurkinum.

    Þetta gleymist cirka núna. Næsti leikur takk.
    YNWA

  13. ég er helvíti sár og svekktur með framistöðuna, það vantaði alla grimmd og við mættum ekki til leiks fyrr en í seinni hálfleik.

    Klassískt að ‘local’ leikmaðu hafi gert útslagið í þessum leik – í þetta sinn var það Rashford, veit um hvað þessir leikir snúast og kláraði þetta. Þvílíkt efni sá strákur, sá í viðtali eftir leikinn að þetta hafi verið hann fyrsti leikur í byrjunarliðinu í ár, sem er jafnframt sorglegt fyrir þá en týpískt fyrir Mourinho.

    Við hefðum átt að fá víti á Fellaini og með smá lukku í okkar liði hefði þetta endað í jafntefli.. Þegar öllu er á botnin hvolft þá tapaðist þessi leikur alls ekki á dómaranum, þetta var bara sanngjarnt.

    TAA sefur eflaust ekki vel í nótt eftir rimmuna við Rashford, en hann er ungur og lifir og lærir. Hann hefði átt að fá betra bakkup frá Lovren.

    Það verður bara að segjast, helsti munurinn á liðunum í dag var vörnin. Ashley Young var því miður frábær á móti Salah, átti sýna standard dífu en hvað um það – það er magnað að Bailly hafi verið að spila sinn fyrsta byrjunarleik síðan í November, óheppinn með markið okkar.

    VVD er eini almennilega varnamaðurinn í liði okkar í dag.

  14. United spiluðu alveg nokkuð vel, við skítlélegir í þessum leik og mættum bara ekki. Finnst vanta meiri ævintýramennsku í skiftingunum hjá Klopp, sérstaklega á miðjumönnunum. Hefði mátt gera eitthverjar rótækar skiptingar til að brjóta þetta upp á eitthverjum tímapunkti. Ekki það við áttum skilið að vinna en þegar hann á svona slæman dag hreinlega hugsar maður er ekki kominn tími á að það séu ekki valinn dómari fyrr en hálftíma fyrir leik eða eitthvað, alveg óútskýranlegt hvernig við fengum allavega ekki eitt víti þetta var mjög augljóst eins og með hendina á smalling, hvað ætli dómarinn hafi haldið breytti stefnu á boltanum ? O_o

  15. #14
    “fyrsti leikur í byrjunarliðinu í ár, sem er jafnframt sorglegt fyrir þá en týpískt fyrir Mourinho.“

    Held það sé ekki hægt að gagnrýna hvernig Móri hefur spilað unglingum hjá United og ástæðan afhverju Rashford hefur ekki byrjað leiki á þessu ári er að hann var meiddur í byrjun árs og er stutt síðan hann kom úr meiðslum.

  16. Það er rétt hjá mörgum við spiluðum lengstum verulega illa, eiginlega fáránlega. Sennilega spennustigið of hátt, no matter what, við áttum að fá meira. Nú er bara að hýfa upp brók!!!!
    YNWA

  17. Karius langbestur í dag af okkar mönnum, allt sem hann gerði , gerði hann uppá 10. Hugrakkur í úthlaupinu og þegar hann sló fyrirgjöfina burt. Lovren þolir illa spennustigið og Klopp hefði mátt lesa betur Lovren/Matip og TTA-Gomez fyrir þennan leik, kom mér verulega á óvart að þetta var ekki öfugt. Söknuðum Hendo mikið í þessum leik.

    Komin með leið á að tapa fyrir liðum sem spila uppá okkar veikleika, sást á fyrstu 10 hvað þeir ætluðu að gera . De Gea sparkaði alltaf í áttina að Lovren/TTA þar sem Lukaku staðsetti sig, í fjarlægð frá VVD. Svona var þetta allan leikinn og við gerðum ekkert til að bregðast við því. Mér leiðist að Klopp getur ekki kyngt stoltinu í hálfleik og breytt.

    Það er samt ásæða fyrir því að Klopp er að þjálfa Liverpool og ég ekki:)

  18. Svo fer maður að pæla. það var vitað að manu myndu passa Salah eins og sjáaldur augna sinna, sem þeir gerðu. Eftirá getspá, hefði sennilega verið klókt hjá Klopp að notast við Ings og Solanke? Bara pæling, alla vega skipta þeim inná í seinni???????
    YNWA

  19. Við áttum svo sannarlega ekkert skilið út úr þessum leik. Enginn leikmaður Liverpool lék vel og Lovren og Arnold voru hreinlega lélegustu menn vallarins.

  20. Þurfum líka að hafa fyrirliða sem er alltaf fyrstur a liðs skrá sama við hverja Liverpool er að spila.

  21. Ömurlega svekkjandi tap móti liði sem pakkar alltaf í vörn, Klopp á að vita það. Mér fannst Lovren skelfilegur í þessum mörkum utd. De gea þrumar fram á Lukaku sem vinnur bæði skallaeinvígi við Lovren auðveldlega.

    Nú er bara að taka sig saman í andlitinu og taka þetta annað sæti af þessum “rich man´s Stoke” klúbb sem spilar svo ömurlegan bolta að það er leitun að öðru eins.

    Vonum bara að Sevilla hefni fyrir þetta tap og nái 1-1- jafntefli á gamla klósettinu 🙂

  22. Hrikalega fúlt að tapa gegn manutd!

    Er ekki sammála um að þetta hafi verið víti á Míkrafóninn með háu olnbogana, en það átti hins vegar alltaf að vera víti þegar boltinn fór í hönd Valencia. Dómarinn var með buxurnar langt niðurumsig í þessum leik, t.d. þegar hann stoppaði leikinn vegna þess að Smalling fékk högg í klobbann.

    Dómarinn var samt ekki þess valdur að Liverpool tapaði þessum leik. Mourinho sá við Klopp, þetta var bara skák og mát hjá mótorkjaftinum. Það er alveg ástæða fyrir því að Mourinho hefur unnið alla þá titla sem hann hefur unnið, á meðan Klopp burðast með sína örfáu á bakinu.

    Mourinho kann þessi fræði betur en margir aðrir. Þetta er ekki áferðarfallegt hjá honum en hann “gets the job done” – nema þegar svona svindlið eins og ManCity er í spilinu! Þetta er ekkert flókinn leikur, skora fleiri mörk en andstæðingurinn og útiloka andstæðinginn frá því að nýta sér sína styrkleika.

    Firmino sást varla í leiknum (þótt baráttan hafi sannarlega verið til staðar), Salah er líklega enn týndur í rassvasanum hjá Dettum Young og Mané var sá eini sem kom sér í boltann og reyndi að gera eitthvað. Honum voru hins vegar mislagðar fætur í dag, eins og hjá flestum okkar manna.

    Með því að stimpla út sóknarlínu LFC, draga tvær af þremur tönnunum (Salah og Firmino), þá var enginn annar leikmaður sem gat mögulega stigið upp.

    Og svo fór Mourinho á veikleika LFC, þ.e. vörnina. TAA var lélegasti leikmaður vallarins í dag, ásamt Lovren. Við höfum samt meiri þolinmæði gagnvart TAA því hann er ungur og efnilegur, hann er ennþá að læra. Lovren aftur á móti var bara eins og álfur út úr hól. Ég þykist viss um að Mourinho hafi lagt að Lukaku að herja á Lovren, halda sig við hann því þar er veikleikinn. Lovren átti aldrei séns gegn Lukaku, og átti svo tvær glórulausar tæklingar á Míkrafóninn með ca 3 sekúndna millibili. Beit svo höfuðið af skömminni með því að rífast til baka við Klopp, þegar sá síðarnefndi öskraði á hann fyrir að missa hausinn svona.

    En, þessi leikur er búinn, þarna fóru 3 stig og manutd er komið í bílstjórasætið um baráttuna um 2. sætið. Hægt er að nýta svona tap á góðan hátt, en nú reynir á að rífa sig upp fyrir næsta leik og sýna fórnarlömbum okkar manna þar enga miskunn!

    Áfram gakk! Áfram Liverpool!

    Homer

  23. Elska þennan klúbb.

    En…

    Afsakið mig.

    Man U unnu nokkra titla í fyrra, kæmi manni ekki á óvart komist þeir í 8-liða í CL og með þessari frammistöðu sinni í dag eru þeir að styrkja stöðu sína í 2. sætinu + með City út úr FA cup þá er erfitt að veðja gegn þeim þar. Samt eru menn að tala um mikla óánægju með Mourinho. Það eru engir titlar sjáanlegir hjá Klopp en samt eru flestir Poolarar bara hamingjusamir. Afsakið á meðan ég kasta örlítið upp en því miður er þetta bara staðan með okkar klúbb. Margt jákvætt í gangi en þetta sigureðli er bara ekki til lengur. Alvöru sigurvegarar kunna að vinna leiki eins og í dag. Já United voru leiðinlegir í dag en haldið þið að einhver stuðningsmaður þeirra fari að sofa í kvöld ósáttur?? Nei.

    Við erum orðnir svo meðvirkir í hugsun meðalmennskunnar að flestir hér brosa í gegn um tárin og reyna að sjá eitthvað jákvætt. Afsakið aftur en ég er ekki alveg þar, hef fengið uppí kok af 28ára þurk og þeim hugsunarhætti sem er við líði hjá okkur í dag.

    Sé alls ekki allt svart en við þurfum að hætta að sætta okkur við “næstum því” hugsunina. Herr Klopp hefur margt til brunns að bera en hroki og kænska Mourinho skákaði honum í dag.

    Er að drekkja sorgum mínum en á morgun kemur nýr dagur en LFC á ennþá talsvert í land – það er staðreynd þrátt fyrir gott run að undanförnu. Þá vil ég færri mörk en fleiri (leiðinlega) sigra.

    YNWA

  24. Slappur leikur, margir af okkur bestu mönnum ekki á deginum sínum. Þurfum nýjan markvörð Karius er alls ekki að heilla og dómarinn lélegur. En það kemur dagur eftir þennan dag.

  25. Við áttum einfaldlega ekki góðan dag og fengum 0 stig.

    Versta er að Man utd voru ekki að spila eitthvað sérstaklega vel. Þeir voru ekki að sækja mikið en hár bolti vinna skalla og TAA gerði illa og við orðnir 1-0 undir.
    Svo er það svipað aftur og núna skot í TAA og við orðnir 2-0 undir gegn liði sem elskar að pakka í vörn.

    Við setjum allveg pressu á þá og fannst mér fyrstu 15 mín í síðarihálfleik við koma út af miklu karafti og svo eftir að staðan var 1-2 þá náði Man utd gjörsamlega að drepa leikinn með leiktöfum og gáfu sér tíma í allt sem er einfaldlega mjög sniðugt en ég held að við hefðum ekki skorað úr hornspyrnu þótt að þær hefðu verið 100(þær fóru nú hátt í það).

    Hefðu við átt að fá víti? Já líklega
    Það var klárlega hendi inn í teig þar sem varnarmaðurinn er langt frá fyrirgjöf og því ekki hægt að afsaka að hann var of nálagt.
    Salah var svo ofheiðarlegur þegar Young var að hanga í honum en hann stóð það af sér.
    Við fyrstu sín þá fannst mér Mane ekki eiga að fá vítaspyrnu en svo í endursýninguni þá er klárlega sparkað í kálfan á honum og var þetta ekkert annað en víti.

    Burt séð frá þessu þá var framistaðan í heildina það slöpp að maður nennir ekki að gera of mikið úr þessu.

    Nú er það bara næsti leikur og við verðum að koma okkur aftur í gang gegn Watford heima og ná í 3 stig.

    P.s Mér langar enþá í Man utd í meistaradeildinni í 8.liða úrslitum.

  26. Fyrir mer segir Homer J Simpson #22 allt sem segja þarf, aldrei viti a Fellaini en alltaf viti a Valencia en það sem stendur upp ur er að Mori er sennilega bara taktiskari stjori en Herr Klopp??

  27. Salah, Mane, Can, TAA, Karius og Lovren mikið verri í dag heldur en Pawson.

  28. Leiðinleg úrslit og okkar menn hefðu átt að gera betur í báðum mörkunum. Skil ekkert í mönnum sem eru að setja út á taktíkina, það er ekki hægt að gera ráð fyrir einstaklings mistökum í taktík og okkar menn gerðu einfaldlega of mikið af þeim í dag. Ekkert annað hægt en að læra af þessu og einbeita sér að næsta leik.

  29. Maður leiksins er fæddur 18 júlí 1979 í Manchester og ber nafnið Craig Pawson !!!!!!

  30. Sæl og blessuð.

    Ekkert að gera annað en að greina, læra og bæta:

    1. TAA og Lovren hafa hvorugir taugar í svona leiki. TAA má eiga það að hann er ungur. Lovren er eiginlega kominn á sölulistann því svona lagað er frágangssök í liði eins og okkar sem ætlar sér stóra hluti.

    2. Þetta var ekki taktísk viðureign, enginn napóleonsk viðureign með tangarsóknum, plathörfi og úthugsuðum tilfærslum á sóknarþunga og mætti. Hjá þeim var þetta einfalt – sækja á þess tvo og treysta því að þeir muni klúðra einhverju. Það auðvitað martröð á Gömlutröð að lenda tveimur mörkum undir og eftir það var augljóst að nú yrði pakkað og stappað í vörn. Þá var ekkert annað í stöðunni hjá okkar mönnum en að sækja og nýta færin. Það tókst ekki.

    3. Furðaði mig á því fyrir leikinn að keyra Hendó greyið út eins og hann gerði. Sjúddhefkúddhef – en mögulega hefði karlinn gefið einhverja rósemd í liðið og haldið áfram að senda góða bolta á sóknarmenn.

    4. Þetta rómaða sóknartríó okkar er auðvitað ekki fullkomið. Í svona leikjum, þegar þeir áttu að stíga upp, voru þeir ekki starfi sínu vaxnir. Þetta var nú enginn kínamúr þarna. Kornungur strákur og svo þessi Bailly sem er nýstiginn upp úr meiðslum, hefðu ekki átt að draga neinar augntennur úr okkar mönnum. Þeir fengu á sig tvö mörk gegn CP og við hefðum átt að gera betur.

    5. Það kemur dagur eftir þennan dag (er reyndar runninn upp) og leikur eftir þennan leik. Ef við mætum þeim aftur þá verður það höfuðverkurinn hvernig #1 verður leyst. Það sama á við um aðra stórleiki sem framundan eru. Mögulega verður það Clyne í bakverði og TAA í miðverði ef það hjálpar eitthvað. Framtíðarplanið er samt að fá nýjan miðvörð í stað Lovren.

  31. Kick and run fótbolti byggir á heppni og varnarmistökum. ÞAð gerðist í gær. MU átti eina sókn þar sem boltanum var spilað upp, falleg sókn sem endaði á Mata sem skaut sem betur fer framhjá. Liverpool átti nokkrar slíkar sem enduðu á varnarmúr sem spilði óheiðarlega og treysti á heigilshátt dómarans. Þegar talað er um að Liverpool hafi ekki átt nein færi þá er það ekki rétt því þrisvar voru sóknir okkar stöðvaðar á óheiðarlegan hátt og dómarinn hafði ekki kjark eða vilja til að stoðva það´Leikgreinendur á MOTD töluðu um 2 augljós víti þegar boltinn fór í höndina á Valencia og þegar sparkað var aftan í Mane. Þriðja vítið er þegar Smalling leggst ofaná Salah í teignum en hann er of heiðarlegur til að láta sig detta. Lovren fékk á sig víti fyrr í vetur fyrir að styðja hendi á bak andstæðings,þetta brot var þrisvar sinnum það. Allt eru þetta sóknir sem eru stöðvaðar á óheiðarlegan hátt og dómari sem hefur ekki kjark til að dæma á þessi brot á ekki að fá að dæma svona leiki. Mörk úr þessum sóknum eða úr vítum sem átti að dæma hefði leitt til sigurs í þessum leik og þá væru allir að tala um að Liverpool hefði átt leikinn og átt sigurinn skilið. Munurinn er því eingöngu dómgæslan sem var ekki boðleg.

  32. Slök frammistaða okkar manna í dag.

    Varðandi vítið sem Mané átti að fá þá var mjög sambærilegt víti dæmt í leik Everton og Brighton.

    Stundum dæmt, stundum sleppt. Óheppni.

    En Liverpool má alveg fara að fá svona vafaatrið með sér.

  33. Sælir félagar

    Það sem Spáll segir hér fyrir ofan. Við það þarf engu að bæta.

    Það er nú þannig

    YNWA

  34. 70% með boltan og þeir fengu eina hornspyrnu í öllum leinkum, þetta var ekki jafn leikur, hrikalegt að vinna ekki svona leik, þeir á heimavelli og voru aulgjóslega ekki að fara að sækja. mikið svakalega myndi ég skammast mín ef ég væri utd maður.

  35. Við verðum að sætta okkur við það, að öll lið eiga sinn slæma dag, ok þetta var kannski ekki besti dagurinn til þess hjá okkur, en nú rífum við okkur upp, koma svo.

    YNWA

  36. 1-0 bournemouth á móti Tottenham Harrý kane meiddur á ökkla farinn utaf, einnig er aguero frá í 2 vikur nú er dauðafæri fyrir salah að verða markakóngur

  37. Æji daginn eftir 3 stig töpuð manutd með montréttin…
    Við erum að fara spila í 8 líða úrslitum í cl og með sæti í henni á næsta tímabili í höndunum okkar.

    Það er best að fara gleyma þessu . Uppbygging Klopp á liðinu er en jafn spennandi og hann hefur sjálfsagt fengið svör í gær við mörgu hvað það varðar tökum það útúr þessu.

    We go again….

  38. Okkar menn komnir í fjórða sætið eftir að Tottenham valtaði yfir Bornmouth áðan og það eftir að Kane fór meiddur af velli.Þetta fjórða sæti er alls ekkert öruggt lengur við getum alveg tapað fyrir Conte og hans liði í London.
    Að fá bara eitt stig út úr tveim leikjum við Man UTD er ekki gott og heldur ekki á móti Tottenham og ef við fáum líka bara eitt stig út úr báðum Chealsa leikjonum eigum við kanske ekki skilið að vera í topp fjórum.
    Það þarf greinilega að kaupa betri miðjumenn í sumar fyrir allt budgetið.

  39. Ég er ólgandi reiður ennþá og mig langar að nefna nokkur dæmi sem veldur því. Kannski virkar maður bitur og tapsár en þá er það bara þannig. Mér finnst þetta bara vera orðið of mikið af því góða!

    Soft viti á móti everton. Lovren rétt kemur við bakið á leikmanninum, sem hrynur í jörðina.

    Holgate árásin. Ég bíð ennþá eftir útskýringu á því hvernig það gat ekki verið rautt spjald!

    Spurs vitin tvö. Þar gátu dómarar leiksins séð ótrúlegustu smáatriði og þó svo að þeir væru ekki vissir í sinni sök þá bara keyrðu þeir full fart áfram og dæmdu víti, dómarar eiga ekki að dæma eftir agiskunum. Þetta heyrðist í sjónvarpinu.

    Newcastle brotið á síðustu sek. Blindi maðurinn í stúkunni sá brotið, ekki dómarar leiksins.

    Manju-leikurinn í gær:
    Rashford hoppaði upp í áhorfendur en slapp við spjald. Hann hefði átt að fá amk 2 gul spjöld í þessum leik.
    Young braut greinilega á Mo Salah en sá er ekki spursari og stóð í lappirnar. Alli og Kane hefðu alltaf hrunið í grasið.
    Valencia handlék boltann, 100% viti.
    Fellaini braut mjög greinilega á Mané og, eins og alltaf, þá sleppur sá fautur, við refsingu. 100% viti.
    Valencia sparkar í bringuna á Mané með sólanum. Höfum séð gul og rauð kort á þetta.
    Til að toppa þetta allt saman þá er þessi hlutdrægi dómari leiksins fæddur í manchester.

  40. Hættiði þessu væli og Hættiði að kenna dòmaranum um,svo barnalegt og Liverpool hefur alveg hagnast á dómara á tímabilinu.Mòri spilar leiðinlega bolta sem virkar og situr í öðru sæti,samt væla allir yfir manjù hvað þeir eru lélegir og rùtan oft nefnd en rútan virkar og við þekkjum það því 2005 unnum við CL með rùtuna í utileikjum.2-1 tap og næsti leikur takk.

  41. #38

    Ég er alveg samála því að heilt yfir þetta tímabil þá hafa ákvarðanir dómara ekki verið að falla fyrir liverpool. Það eru ótrúleg dæmi komið upp og mikið af 50/50 dómum fallið gegn lfc og svo ekki með þeim.
    Ég vona að félagið fái ekki annað svona tímabil.

    En Pawson er fæddur í Sheffield.

  42. Núna var tapið dýrt á móti Utd og Tottenham komir í 4 sætið eftir leik dagsins úff helv skita.

  43. #41. Tottenham var að hirða af okkur 3. sætið, ekki 4. Við erum í 4. sæti og heilum 4 stigum fyrir ofan Chelsea.

    Enginn heimsendir þrátt fyrir vonbrigðin í gær. Tottenham á bæði Chelsea og City eftir og United á City eftir á Ethiad. Öll liðin í kringum okkur, þ.e. liðin í sætum 2., 3. og 5. sæti eiga eftir að tapa stigum. Við þurfum að fyrst og fremst að einbeita okkur að þeim leikjum sem við eigum framundan. Næst eru það Watford og það er bara leikur sem verður að vinnast. Svo verður dregið í Meistaradeildinni í næstu viku. Spennandi vika framundan!

  44. Sælir félagar

    Bara biðja Sigfús G að vera ekki mneð þessa stæla. Ábendingar eins og hjá Svavari, Spáli og fleirum eru alveg réttar og sannar. Meira segja Gary Neville segir að Liverpool hafi átt að fá 3 vítaspyrnur og Valencia rautt og þá er nú meira en eldur þegar rýkur á þeim bænum. Það má kalla það að vera tapsár þegar við Púllarar heimtum að fá sömu dómgæslu og önnur lið. En ég kalla það kröfu um réttlæti. Pawson er skíhæll og basta.

    Það er nú þannig

    YNWA

  45. Kvöldið .
    Svekkjandi tap og auðvitað var dómarinn í sviðsljósinu . En það er ekki það sem ég er svekktastur með heldur þroska leysið ef svo má orða það barnaskapur í mörgum leikmönnum lpool. Er ég orðinn smeykur um að Klopp sé svolítið þar líka , sá merki um þetta hjá Brendan líka á sýnum tíma .
    Uppsetningin á liðinu í leiknum á útivelli á móti liði í 2 sæti í deild á alltaf að snúast bara um að halda hreinu og þjálfarinn á alltaf að vera búin að lesa út andstæðinginn .
    Bæði mörkin , fáránlega einfölt komu beint af æfingasvæði scums , aldrei kom miðjumaður niður til að hjálpa Lovren , Salah var aldrei nálægt í aðstoð við trent .
    1 stig á móti manu í 2 leikjum í vetur og 1 mark sem var sjálfsmark .
    Það er því miður margt annað sem maður er hissa á í uppstillingu liðsins , skipta inna fleiri miðjumönnum og sækja en meir upp miðjuna sem dæmi , liðið bara hélt ekki breidd og það er það sem virkar helst á móti rútunni .
    Djöfull sakna ég benitez í svona leikjum .

  46. Rashford snýtti Trent Arnold í fyrsta markinu, sá ekki annað markið. Virðist eins og flest okkar mörk eru að koma þarna hægra megin hjá bæði Gomez og Trent. Það þarf eitthvað að gera þarna í sumar.
    Svo verð ég að setja spurningarmerki við Klopp að nota nánast aðalliðið í seinni leiknum við Porto í miðri viku 5-0 yfir. Hvað í anskotanum er það? Skipta síðan Salah inná í seinni hálfleik í stöðunni 0-0. Hvað er í gangi hjá klúbbnum?

  47. Ég er á því að Karius hefði átt að taka þessa bolta sem fóru inn úr þröngri stöðu fyrir Rassford. Svo má deila um TTA en hann rann er Rassfort bremsaði. Og svo áttum við að fá víti og jafnvel 2 stk. En svona er boltinn og dómarar sjá ekki allt.

  48. Það var ekkert auðveldara að vakna í morgun en í gær og reyndar var þræl erfitt þegar ég vaknaði í nótt fyrir klósett-ráp. Þá reyndar laust í huga minn að ef við hefðum drattast til að halda aftur af Tottenham og unnið þá, þá værum við enn í 3 sæti. En svona er staðan. Vissulega höfum við verið óheppin með þessa vítaspyrnudóma, maður hefur á tilfinningunni að við megum ekki snerta andstæðinginn inn í teig en önnur lið mega rífa í okkur, sparka í okkur o.s.frv. Við áttum örugglega að fá víti á móti Man United en svona er boltinn og lítið við því að gera, því miður.

    Það sem bergmálar hinsvegar í huga mínum eftir góða gerjun er að við verðum líka að líta í eigin barm. Slakur varnarleikur varð okkur að falli og þá meina ég ekki bara varnarleikur varnarmanna heldur var litla hjálp að fá frá öðrum leikmönnum í nokkur skipti, sérstaklega frá miðjumönnum. Auðvitað gerði TAA hálfgerð byrjendamistök, amk í marki númer eitt, og Lovren varð aftur “gamli góði” Lovren í 2-3 skipti… en það er samt rétt hjá Klopp að allir verða að hjálpast við að verjast.

    Annað atriði sem ég vil nefna er að plan Móra gekk fullkomlega upp eins og margir hafa nefnt. Lið hans varðist mjög vel og þrátt fyrir snjóblindu dómarans og hans slektis eða aðra blindu þá vorum við ekki að ógna marki andstæðingsins eins og oft áður. Það reyndi í raun aldrei á de Gea, tja nema í sjálfsmarkinu. Þetta var því alls ekki nógu gott og við vorum í raun með lukkudísirnar í liði okkar þegar Mata ákvað að taka Bruce Lee karatespart á tuðruna aleinn í dauðafæri dagsins en sem betur fer er hann enginn Bruce… Þetta hefði því líka getið farið enn verr.

    En, treystum á Klopp og co, þeir munu finna rafmagnsgítarinn sinn aftur og CL sætið er enn í okkar höndum. Maður sér að Klopp hefur verið að læra mikið og það hafa verið miklar framfarir í vetur. Ég trúi því að leikurinn um helgina hafi verið ein besta kennslustund liðsins í langan tíma og fari á góðan stað í reynslubankann.

    Örkum áfram saman, trúum og höfum gaman að þessu…

  49. Kæru félagar.

    Ekki fór þetta nú vel og eitt er víst að foreldrar mínir mega þakka fyrir ef ég býð þeim inn, þau fá allavega ekkert að borða eða drekka hvorki vatn ,né rúsínu þar sem áheitið á þau klikkaði þegar við þurftum mest á því að halda.

    Í dag var þetta nú að lagast tárin voru nokkurn vegin hætt að renna við kinnarnar og ég gat orðið hugsað um leikinn án þess að bresta í grát. Ég var búin að stunda jákvæði sálfræði og var komin í baráttu gírinn. Þetta var ekki endir alls, það dó engin og við myndum mæta sterkari til leiks um næstu helgi….en

    þá las ég grein þar sem sagt var að verðið á Salah væri 180 milljónir ef Real myndi bjóða í hann og þeir hafa víst mikin áhuga og svo segir næst ” Salah hefur áhuga að áð spila með Spænska stórliðinu ” þá fóru tárin að renna aftur.
    Hvers eigum við að gjalda…Suaréz,Couthino fara, Can á förum og svo vill Salah fara .Er ekki hægt að setja bara lög á þetta að þú allavega klárir þinn samning. Við finnum fína leikmenn sem hafa by the way ekki getað neitt þeir koma til okkar og blómstra og boom allir vilja þá.

    Sorry ég er bara frekar leið og sár yfir þessu…

    Þangað til næst
    YNWA

  50. Sælir félagar, þið sem hafið verið að fara út á leiki, hvernig er það að fara frá London yfir til Liverpool, er þetta mikið bras og er þetta ekki fjandi dýrt að fara með lest þarna yfir ?
    Erum við að tala um 4 kls í lest á milli ?

  51. Ég hefi tvisvar farið þarna á milli með lest og mér fannst það ekkert dýrt þá. En það eru 10 ár síðan 🙂

  52. Sorry Tottenham í 3 sæti átti þetta að vera og núna eru nýjustu fréttir að Real Madrid ætli að kaupa Salah í staðinn fyrir Bale, Það væri nú eftir því.

    en auðvitað eru allir voða sáttir við það hér inni og byrja sama sönginn um að Klopp sé nú að byggja upp liðið og að engin sé stærri en Liverpool og jarí jarí jarí og það verður keyptur annar maður í staðinn og svo byrjum við aftur á byrjunarreit eins og við höfum gert síðstu 20 árin eða svo.

  53. @51 Það fara margar lestar til Liverpool frá London, tekur rúma 2 tíma. . Miðarnir eru að fara niður í 20-30 pund en geta líka farið upp í 150 pund. Planaðu ferðina með góðum fyrirvara með hjálp google. Það eru nokkur fyrirtæki sem eru að selja miða og ef þú vilt forðast að taka Carragher á þetta þá myndi ég drífa í könnunarvinnu.

  54. Ég er ósammála Kristjáni Atla….ég myndi reka Carragher. Þetta náðist á teipi, hvað ætli svona fífl ( skiptir ekki máli þótt hann eigi 17k leiki fyrir Liverpool) geri þegar hann er fullur….kúkar á barborðið?

  55. Þessi helgi fór svo sannarlega á versta veg – öll liðin í kringum okkur unnu og við töpuðum á móti MU og erum komnir niður í fjórða sætið. Þetta getur orðið mjög dýrkeypt þegar upp verður staðið en ég stend með Carragher. Hann tekur viku pásu og kemur síðan aftur ferskur. Ekki til betri leikgreinandi en hann, Neville er líka góður en hann er meiri gosi.

  56. Red. Ef þú ert að fara út til að fara á Liverpool leik, þá myndi ég alltaf sleppa því a fara í gegnum London. Þú sparar líklega lítið á því vegna þess að lestin frá flugvelli-London-Liverpool og til baka kostar morðfjár og drepleiðinleg þar að auki. Ég myndi frekar splæsa 20 þúsund kall og rúmlega það til að lenda frekar í Pakistan.

  57. #51 red, verð ræðst bara eftir hve langt er í ferð, hve mikið bókað er í hana o.s.frv.

    Fljótasta tekur 2 tíma og 12 mínútur og kostar um 20 EUR, kostar því ekki svo mikið, og er nokkuð þægilegur ferðamáti.

    það er allt í lagi að taka lestina t.d. aðra leiðina.

  58. Ætla menn að hafa þennan viðbjóð endalaust efst á síðunni eða hvað?

  59. Carra finnst mér leiðinlegur pundit, þó hann hafi verið frábær leikmaður.. langar leiðinlegar langlokur sem hvaða sófamanegerar geta bezzerwizzað út í loftið.. æj.. hræðilegt þegar lið skilja eftir svæði á vellinum sem einhver nýtir sér.. ekki nógu gott sko. Græt ekki fjarveru hans. Reyndar eru fáir sem manni finnst góðir.. einna helst Gerrard, Keano, Ian Wright.. Shearer.. Gullit ágætur þo hann geti verið flókinn (efast samt um að maðurinn sjálfur sé flókinn ).. Danny Murphy góður.. hnitmiðaður og snöggur, og Souness líka goður. Tierry Henry vondur sem og Neville systur.

Liðið gegn Man Utd

Opinn þráður – Viljiði VAR núna?