Allt undir um næstu helgi?

Helgin gat ekki spilast mikið betur fyrir okkur og eftir leiki dagsins er endanlega ljóst að baráttan um þrjú sæti í Meistaradeildinni er milli fjögurra liða, Arsenal er búið að stimpla sig út. Bæði hvað stigasöfnun varðar og ekki síður hvað spilamennsku varðar.

Það er ekki lögmál að 76 stig dugi en þau fara alltaf mjög langt með það að tryggja Meistaradeildarsæti

Liverpool er núna með sjö stig á Chelsea sem má eiginlega ekkert misstíga sig það sem eftir er tímabilsins.

Tökum smá stöðutékk á hinum liðunum og höfum Arsenal með:

Arsenal

Horfið á munin á leikjum Arsenal gegn Man City og síðasta leik Liverpool gegn City. Þar sjáum við hvað best muninn á liðunum í dag. Sjáið líka hvað Chamberlain er að gera hjá Liverpool. Arsenal getur ennþá hrokkið í gír og slátrað liðum, Everton fyrir stuttu fínt dæmi og það er ekkert að þessum mannskap þannig séð. En eftir fjóra mjög slæma tapleiki í röð og átta tapleiki nú þegar frá áramótum er alveg ljóst að þessi hópur er hættur að hlusta á þjálfarann og hans hugmyndafræði líklega komin mjög langt fram yfir síðasta söludag. Mætingin á Emirates í síðasta heimaleik gefur til kynna að hvati stuðningsmanna er takmarkaður um þessar mundir, margir einfaldlega búnir að fá nóg og ef stuðningsmenn hætta að mæta eru eigendur liðanna jafnan fljótir að bregðast við. Þá fara þeir nefnilega að finna beint fyrir þessu sjálfir og það gengur ekki. Arsene Wenger núna og pirringur stuðningsmenna Arsenal minnir mig á tíma Hodgson hjá Liverpool, ekki að það sé hægt að líkja þessum stjórum saman á nokkurn hátt.

Hvað skilur Wenger eftir sig þegar/ef hann fer í sumar? Vinni liðið Evrópudeildina eru tímabilinu bjargað fyrir horn, það er skemmtilegra að vinna þann bikar og komast þannig í Meistaradeildina en að ná 2-4. sætinu, meira að segja ég skal taka undir það (eftir á). En miðað við taktinn í liðinu núna er langt í frá öruggt að þeir geti unnið Evrópudeildina. Þeir hafa ekki getað blautan skít í Meistaradeildinni undanfarin ár og alltaf tapað mjög illa þegar kemur að stóru liðunum. Núna eiga þeir AC Milan næst og það eru ennþá lið eins og A.Madríd og Dortmund eftir í keppninni.

Bestu leikmenn liðsins eru flestir að nálgast þrítugt óðfluga og er í raun magnað að sjá Wenger með svo gamlan kjarna í sínu liði. Özil verður þrítugur í ár á meðan Aubameyang og Mkhitaryan verða 29 ára. Lacazetta verður 27 ára á þessu ári. Þetta er engin aldur þannig en líklega eiga þessir menn ekki eftir að bæta sig mjög mikið héðan af, líklegra að það hægist aðeins á.

Miðjan með Wilshere, Ramsey, Xhaka, Elneny og Maitland-Niles er sú veikasta af toppliðunum og þar finnum við líklega helstu ástæðu þess hversu lélegur varnarleikurinn hefur verið. Mögulega væru þessir leikmenn allir frábærir hjá öðrum stjóra. Xakha var t.d. alls ekki eins ofboðslega lélegur áður en hann kom til Arsenal og hann er sagður vera núna. Ramsey er mjög góður leikmaður en þarf mögulega að taka sama skref og Chamberlain gerði. Eftir að hafa horft á þróun Chamberlain undanfarið er erfitt að skilja hvernig hann var ekki fastamaður á miðjunni í þessu liði. Guði sé lof að hann var það ekki.

Hver tekur við? Arsenal ræður alveg við það að missa af Meistaradeild 1-2 tímabil en eins og staðan er núna stefnir félagið í svipaða eyðimerkurgöngu og Liverpool gekk í gegnum. Það verður erfiðara með hverju árinu að vera ekki með. Bæði upp á að halda sínum bestu leikmönnum, fá leikmenn og auðvitað tekjulega. Það verður klárlega ekkert grín að taka við af Wenger sem hefur byggt þetta félag upp frá grunni og stjórnað öllu í 22 ár. Ef ég væri í stórn Arsenal myndi ég klárlega hringja fyrst í Rafa Benitez og gefa honum smá tíma og þann pening sem þarf. Ekki að ég hafi trú á að það verði raunin. Ítalinn Allegri hefur verið nefndur þó ég sjái hann ekki fyrir mér yfirgefa Juventus fyrir Arsenal eins og staðan er í dag. Líklega væri best hjá þeim að leita aftur til þjálfara frá Monaco, Leonardo Jardim stendur líklega fyrir nákvæmlega þann fótbolta sem stuðningsmenn Arsenal vilja fá á Emirates. Hvernig sem fer þá verður fróðlegt að sjá hvað Arsenal gerir á næstu mánuðum, Arsene Wenger getur ekki átt meira en út þetta tímabil eftir í starfi.

Chelsea

Þetta er erfiðara þegar lykilmenn meiðast og taka þarf þátt í Meistaradeildinni ofan í deildarleikina. Chelsea lenti í nánast engum vandræðum á síðasta tímabili og náðu að sigla deildinni nokkuð auðveldlega í höfn. Conte sýndi það á ítalíu að hann er engin asni og kann alveg að finna jafnvægi milli deildar og evrópuleikja. Hann er samt bara að finna fyrir alvöru leikjaálagi á Englandi fyrst núna. Eins hjálpar ekki að hann virðist vera kominn í sömu innanhússátök og allir stjórar Chelsea undanfarin ár og eftir tapið gegn City í dag bendir allt til þess að hann kveðji Chelsea í vor. Mögulega fyrr takist ekki að slá Barcelona úr leik í Meistaradeildinni. Þrátt fyrir gríðarlega velgengni í fyrra hefur Conte nú þegar lent upp á kant við tvo lykilleikmenn og mjög sterka karkatera í búningsherberginu og ég efast stórlega um að það sé að hjálpa honum. Diego Costa málið gat ekki farið mikið verr fyrir Chelsea og núna er David Luiz út í kuldanum, einn besti leikmaður tímabilsins í fyrra.

Chelsea er sjö stigum á eftir Liverpool núna og það þarf hreinlega allt að ganga upp hjá þeim út tímabilið til að ná Meistaradeildarsæti. Miðað við úrslit undanfarið og leikinn gegn City er ekkert sem bendir til þess að þeir séu að fara vinna alla þá leiki sem þeir eiga eftir. Chelsea er ennþá í bikarnum og líklega er þar þeirra besti séns á verðlaunagrip í vetur.

Áhugavert annars að rekstur Chelsea virðist núna snúast töluvert meira um að vera innan FFP rammans, Roman virðist ekki ætla að keppa við hin Olíufélögin í Evrópu. Ég meina Conte greyið fékk ekki að kaupa leikmenn fyrir nema £185m í sumar (seldu slatta á móti).

Vonandi heldur Liverpool út og endar fyrir ofan Chelsea, ef maður horfir á þessi lið í dag og hvernig þeim er stjórnað finnst mér framtíð Liverpool töluvert bjartari, hlutlaust mat auðvitað.

Man Utd

Þetta er þeirra Anfield Wrap:

Miðað við samtöl við United vini finnst mér United menn alls ekkert einhuga um að fagna tveggja hæða rútu boltanum hans Mourinho jafn innilega og United Stand gerir þarna. Flestir virðast bara alls ekki vera nennan þessum hrútleiðinlega Mourinho bolta. Umræðan um hann er kannski aðeins í bulli samt, liðið spilar ekki alltaf með 10 manna varnarmúr en þvílíki heigulshátturinn í uppleggi fyrir marga stórleiki með þennan mannskap og þessi fjárráð til að kaupa leikmenn.

Stuðningsmenn liða Mourinho fyrirgefa honum jafnan þegar hann landar stórum titlunum og í gegnum ferilinn hefur hann verið að gera það. Flestir leikmenn sem spila fyrir hann elska að vinna fyrir hann og það getur ekki verið alveg að ástæðulausu. United hefur alveg skorað á við Tottenham í vetur og er með betri markatölu en þeir.

Vandamálið hjá Mourinho núna er bara að hann er í fyrsta skipti í miklu meiri samkeppni en hann hefur áður verið og stuðningsmenn United horfa á a.m.k. þrjú lið sem þeir eru í samkeppni við og myndu (flestir) miklu frekar vilja stjóra þeirra liða og að United stæði fyrir svipaðan fótbolta og þau lið. Þar erum við auðvitað að tala um Man City, Liverpool og Tottenham / Guardiola, Klopp og Pochettino.

Mourinho er eini stjórinn á Englandi sem hefur ekki efni á að nota fjárráð Man City sem afsökun. United liðið kostar ekki mikið minna en City liðið og munurinn á leikstíl (og árangri) þessara liða er afskaplega augljós.

Líftími Mourinho hefur hingað til verið max þrjú tímabil í hverju starfi. Hjá Porto og Inter var hann í tvö tímabil og tók svo skref uppá við hjá stærri liðum. Hjá Chelsea hefur hann verið tvisvar, fyrri stjóratíðin endaði með hvelli í september 2007 eftir þrjú tímabil. Seinni stjóratíðin hans endaði með ótrúlegu hruni Chelsea tímabili eftir að liðið vann deildina. Hann var rekinn í desember 2016.

Hjá Real Madríd var Mourinho í þrjú tímabil, tvö þeirra þegar Guardiola var með Barcelona. Það endaði eins og alltaf hjá Mourinho með smá hvelli. Hann sagði þetta t.a.m. stuttu áður en hann fór: “I am loved by some clubs, especially one. In Spain it is different, some people hate me, many of you in this [press] room.” En einnig var hann kominn upp á kant við Ramos, Casillas og Ronaldo, enginn stjóri ræður við slíkt hjá Real.

Líklega hefði Mourinho verið langbestur til að taka við af Ferguson þegar hann fór. Núna er hann á öðru tímabili með United sem er jafnan hans besta tímabil. Maður er aðeins farinn að greina pirring stuðningsmanna í hans garð og það endar jafnan bara á einn veg. Ég efast um að hann fari í sumar og hans lið hafa alveg verið góð á þriðja tímabili. Eins er alveg mögulegt að hann sé eitthvað búinn að læra af fyrri reynslu og endist lengur hjá United en persónulega finnst mér ekkert benda til þess.

United endar pottþétt í Meistaradeildarsæti og þeir eiga klárlega alveg séns á að fara alla leið í Meistaradeildinni eins og hin ensku liðin sem eru þar ennþá. En upp á framtíðina myndi ég nú frekar veðja á Guardiola, Klopp og Pochettina næstu 1-2 tímabil.

Tottenham

Hvert er þakið hjá þessu Tottenham liði? Harry Kane er einn besti leikmaður í heimi um þessar mundir og er með 24 mörk í liði sem hefur bara skorað 55 mörk. Hryggsúlan í liðinu er mjög góð og liðið hefur vaxið jafnt og þétt undir stjórn Pochettino. Liðið er einnig á frábærum aldri. Undanfarin ár hefur mér fundist Tottenham vera svona 2 árum á undan Liverpool í sinni uppbyggingu en Klopp er að breyta því ansi hratt um þessar mundir.

Síðasta sumar héldu þeir næstum því öllum sínum bestu leikmönnum. Kyle Walker var sá eini sem var seldur og miðað við álitið sem þeir virðast hafa á honum skilur hann eftir stórt skrað!!!


Eðlilega er það Walker sem sker úr um þetta á toppnum í vetur!

Vörnin hefur alveg haldið þrátt fyrir þessa sölu og verndin af miðjunni er mjög góð. Miðan hjá Spurs er drullusterk. Líklega er Tottenham í svipaðri stöðu og Liverpool, haldi þeir sínum bestu mönnum og halda áfram að bæta við gætu þeir vel tekið eitt skref upp til viðbótar en ég bara trúi ekki að þeir fái að vera í friði með sína bestu menn mikið lengur. Kane virðist vera mjög hollur sínu liði en hefur einhverntíma reynt á tilboð frá Real, United, City eða PSG? Alli held ég að fari um leið og hann fær alvöru boð og miklu hærri samning annarsstaðar. Launagreiðslur Spurs eru sagðar vel undir því sem önnur stórlið eru að borga sínum bestu mönnum og það ætti að vera áhyggjuefni.

Mest ríður þó á hjá þeim að halda stjóranum. Hann er pottþétt ofarlega á lista hjá öllum stóru liðunum þegar skipta á um stjóra. Hvort ætli Unitedmenn væru frakar til í Pochettino eða Mourinho? Veit hvorn ég myndi frekar vilja til Liverpool ef ég yrði að velja milli þeirra.

Erfitt að segja hvar þakið er hjá Tottenham, þeir verða að ég held alveg pottþétt í Meistaradeildarsæti en líklega var árið sem Leicester vann titilinn stóri sénsinn hjá þessu góða Spursliði að vinna risatitil.

Liverpool

Maður þorir ekki að vera of bjartsýnn, þetta lið hefur svo oft ollið vonbrigðum. En erum við samt ekki aðeins farin að treysta þessum hóp betur? Lesið yfir þennan þráð frá því seint í janúar. Það vantaði ekki bölmóðin í okkur þarna og hvað þá þegar ekkert var keypt fyrir Coutinho. Engin sérstaklega að horfa í það að þarna fram að þessum Swansea leik hafði Liverpool ekki tapað leik 18 leiki í röð. Þetta versnaði svo ennþá frekar þegar W.B.A sló Liverpool og VAR út úr bikarnum í næsta leik, ekki vantaði #KloppOut spekingana þá.

Það sem við erum að horfa á eftir áramót er Liverpool að taka skref uppá við frá fyrri árum. Það gerði enginn stjóri í heiminum oftar breytingu á byrjunarliði sínu fyrir áramót en Klopp sem er að skila sér núna í því að Liverpool virðist vera meira en tilbúið í lokasprettinn en t.d. fyrir ári. Fyrir ári síðan var Liverpool í frábærum málum fram að áramótum en haltraði nánast allt tímabilið eftir áramót og rétt svo slefaði í Meistaradeildarsæti.

Liverpool er ennþá að tapa stigum gegn litlu liðunum, allt of mikið af þeim en við erum samt að sjá breytingu á leik liðsins undanfarnar vikur sem gefur til kynna að liðið sé búið að læra töluvert betur að takast á við svona leiki. Mögulega er þetta tilviljun en Klopp kom inn á það fyrir leikinn um helgina að liðið væri ekki eins fyrirsjáanlegt eftir að Coutinho fór. Eins og við höfum margoft komið inná er leikmaður eins og Coutinho oft lykill gegn minni liðum og Liverpool var nánast alltaf í vandræðum ef Coutinho var ekki í stuði. Aðalmálið er samt að vörnin er miklu meira sannfærandi núna, liðið skoraði langoftast gegn þessu minni liðum, það bara dugði ekki alltaf til enda varnarleikurinn ömurlegur.

Salah, Firmino og Mané hafa klárlega stigið mjög vel upp eftir að Coutinho fór og fá miklu meira svigrúm án hans. Það er erfitt að láta fjóra leikmenn blómstra i einu og því eðlilegt að þeir njóti sín aðeins meira þegar sviðsljósið er farið af Coutinho. Sama má segja um Ox-Chamberlain, hann er engin Coutinho og verður aldrei en hann hefur stigið vel upp eftir áramót og maður veltir fyrir sér hvar þakið er hjá honum, hann er bara 24 ára gamall. Hvað getur Klopp þróað í þessum leikmanni á 2-3 árum?

Auðvitað þarf Liverpool að halda sínum bestu mönnum til að halda áfram að þróast. Coutinho salan var mjög pirrandi og hræðilega tímasett. Can gæti skilið eftir sig töluvert skrað einnig. Samt hefur maður bara alvöru áhyggjur af því að missa einn mann og það er Klopp. Fyrir mót vissi enginn að Salah væri einn af bestu leikmönnum í heimi, Firmino skoraði ekki nóg og Andy Robertson var alls ekkert nógu mikil styrking á vörninni. Þetta er fyrir utan bætingu á nánast öllum öðrum leikmönnum liðsins. Ef við missum einhvern af lykilmönnum liðsins hef ég rosalega litlar áhyggjur af því að Klopp smíði ekki bara nýjan í staðin. Hann gerði það ítrekað hjá Dortmund. Seldi leikmenn sem urðu heimsklassa leikmenn undir hans stjórn en héldu þeim status ekkert endilega hjá öðrum liðum.

Salah er að bæta sig svona rosalega hjá Klopp og að spila fyrir lið sem lætur hann blómstra svona, afhverju ætti hann að vilja fara? Ef Firmino er ekki fyrsta nafn á blað hjá landsliðsþjálfara Braselíu þurfa Brassar að skipta um landsliðsþjálfara. Hann hefur verið frábær í vetur og það þarf ekkert endilega að vera að hann sé að toppa núna. Sama á við um Salah.

Robertson er einn besti vinstri bakvörður deildarinnar eins og hann er að spila núna og Moreno var það áður en hann meiddist. Hver hefur spilað þessa stöðu betur eftir áramót í deildinni? Bara það að styrkja þessa stöðu svona mikið frá síðasta tímabili bætir liðið töluvert. Robertson og Moreno ættu svo báðir að eiga töluvert meira inni en þeir hafa verið að sýna í vetur.

Klopp vill leikmenn sem vilja spila fyrir hann, salan á Coutinho í janúar sýnir að hann er ekkert að grínast með það. Eins og Liverpool er að spila núna er erfitt að skilja afhverju nokkur maður í kjarna liðsins vilji fara annað og ef þeir fara held ég að það sé orðin ansi löng biðröð af leikmönnum sem vilja koma og taka þátt í þessu.


Líklega eru þjálfararnir mikilvægustu menn Man City, Liverpool og Tottenham. Conte ætti að vera á sama stalli hjá Chelsea ef allt væri eðlilegt hjá þeim klúbbi. Ég held að það sé hinsvegar alls ekki sami einhugur um Mourinho hjá United og það er líklega ekki lengur til stuðningsmaður Arsenal sem nennir Wenger.

Það er nú ekki alveg tímabært að velta þessu fyrir sér svona þegar 9 umferðir eru eftir og 27 stig í pottinum. En sjö stiga forskot á Chelsea gerir það að verkum að tímabilið er ekkert undir þegar Liverpool fer á Old Trafford. Sigur þar væri hinsvegar alveg risastór, bæði auðvitað í baráttunni um Meistaradeildarsæti og ekki hvað síst bara móralskt.

Það er töluvert skemmtilegra að vera með Liverpool í Meistaradeildinni og í hörku baráttu um Meistaradeildarsæti en það sem við höfum verið að horfa upp á í mars undanfarin ár.

12 Comments

  1. Stórgóð samantekt, takk fyrir hana! Sammála með Man Utd aðdáendur, enginn af mínum villutrúandi vinum er sáttur við spilamennsku liðsins, sérstaklega hvað skemmtanagildið varðar.

    Ég vísa í kop.is athugasemd mína frá 27. desember síðastliðnum:

    “Ef maður skoðar liðin í 2.-7. sæti eða svo held ég að Liverpool og Tottenham séu líklegust til að bæta í. Mín spá er að annaðhvort Man Utd eða Chelsea sogist í baráttu um 4. sætið og Liverpool endi í þriðja sæti án teljandi vandræða. Ég yrði a.m.k. sáttur við þá niðurstöðu, úr því sem komið er.”

    Ekkert jinx, ég lofa! 🙂

  2. Flott greining á stöðunu í dag Einar.

    Þetta er fljót að breyttast í boltanum en staðan núna er vissulega góð.
    Oft þegar Liverpool er að fara í Old Trafford þá verður maður stressaður viku fyrir leik, því að þetta eru einfaldlega leikir sem eru stæri en aðrir og allir eigum við líklega Man utd félaga sem gott er að skjóta á(já eða vont að fá skot á sig frá) en núna er bara tilhlökkun.

    Leikurinn gegn Man utd getur vel tapast enda þeir með heimsklassa leikmenn og reyndan þjálfara en það sem maður getur gengið að vísu í dag er að okkar menn í Liverpool munu fara þarna til að sækja 3 stig og verður ekki varnarbolti í boði og munum við bara keyra á þetta og þannig lið vill maður styðja.

    Að maður sé byrjaður að plana Man utd leik þegar liðið á leik í 16.liða úrslitum meistaradeildar á þriðjudaginn virkar bara rangt en þegar lið fer á útivöll í fyrileiknum og slátrar liði 0-5 þá ætla ég bara að leyfa mér að horfa framhjá þessu einn leik í einu speki en vona að okkar menn gera það ekki.

  3. Frábær grein. Enn með arsenal. Og hálftímann völl ., Vitna ég i merkan mann., Bill Shankly., “þeir sem geta ekki stutt okkur þegar við töpum., ekki fagna þegar við vinnum :)”

  4. Since the 4-1 loss to Tottenham:
    1.City-50 points, 50 goals scored, 17 conceded
    2.Liverpool-47 points, 52 goals scored, 16 conceded
    3.Man United-39 points, 31 goals scored, 16 conceded
    4.Tottenham-38 points, 36 goals scored, 15 goals conceded
    5.Chelsea-37 points, 33 goals scored, 16 conceded

    Við ættum séns á titlinum núna ef VVD hefði komið í sumar, það er mín skoðun.

  5. Sælir félagar

    Þakka mjög góða samantekt Einar Matthías og ég er henni algerlega sammála í öllu nema einu. Ef MU tapar eða gerir jafntefli í kvöld og tapar fyrir Liverpool um næstu helgi eru þeir komnir í vandræði. Móri er búinn að átta sig á þessu og er farin að tala um 4. sætið sem ásættanlegt. Ef svo fer sem ég tala um hér að ofan gæti Chelsea ýtt þeim úr 4 sætinu og þeir endað í því 5. eins og ég hefi spáð bæði hér á kop.is og í tipphópnum sem ég er í. Ef til vill smá óskhyggja en samt möguleiki.

    Það er nú þannig

    YNWA

  6. Takk fyrir þessa yfirferð.
    Leikurinn um helgina verður æsilegur.
    Hann er samt ekki make or break.

    Það verður áhugavert hvernig hitt liðið mætir til leiks.
    Mun svara mörgum spurningum.
    Lítil áhætta tekin, aðdáendur þess liðs gefast endanlega upp á Móra.
    (Þeir sem ég tala við eru nánast hættir að horfa)

    Keyrt uppúr skotgröfum, leikurinn verður alvöru.

    Ég hef fulla trú á okkar mönnum hvert svo sem upplag hins liðsins verður.
    Sitjum eftir leik í öðru sæti og hinna verður að ná því af okkur.

    Spái því að Tottenham taki þriðja í vor.

    Endaspretturinn verður samt spennandi.
    Meistaradeildin svo alger bónus. Klára fyrst Porto og svo setja undir sig hausinn og taka áhlaup þar.

    Þetta tímabil verður þétt undirstaða undir það næsta.
    YNWA

  7. Takk fyrir yfirferðina. Eins og staðan er núna er Liverpool langnæstbesta liðið í deildinni. City er bara í öðrum klassa, sad but true.

  8. Ég ætla bara að vona að Hr. Klopp fái rútuna lánaða hjá Mórinhó á laugardaginn og leggi henni smekklega í teiginn hjá okkur og reyni að drepa leikinn með Móra taktík.
    5 manna vörn, 4 á miðju og Firmino einn og yfirgefinn á toppnum.
    Sagði engin aldrei.

    Langt síðan ég hef verið jafn cocky fyrir Utd leik. Finnst munurinn á liðunum vera æpandi mikill þessa dagana.

  9. Æi nei #9.
    Móri er svo varnarsinnaður að Manure á jafnvel erfitt með að taka miðju. Svo erfitt fyrir þennan eina frammi að gefa á samherja. Vona að við spilum okkar leik og þeir sinn, því þannig vinnum við.

  10. Þetta er virkilega gott Einar.

    Hlakka mikið til síðustu 9 leikjanna í deildinni þrátt fyrir að 1. sæti sé úr augsýn. Þetta er einum of gaman þegar svona gengur.

  11. Djöf , var að vona að palace næði jafntefli við manutta :-/, en við tökum bara af þeim annað sætið um næstu helgi.

Liverpool 2-0 Newcastle United

Porto mætir á Anfield