Liverpool – Huddersfield 3-0

Gríðarlega mikilvægur sigur í dag í leik tveggja hálfleika gegn nýliðum Huddersfield. Eftir grútleiðinlegan fyrrihálfleik hresstust leikar og Liverpool skoraði þrjú góð mörk og landaði stigunum þremur.

Leikurinn

Fyrri hálfleikur minnti um margt á Liverpool á síðustu leiktíð Rodgers. Enginn ákefð í spilamennsku liðsins, hreyfanleiki lítill og færasköpun eftir því. Það kom því svolítið upp úr engu þegar Liverpool fékk réttilega dæmda vítaspyrnu eftir að varnarmaður gestanna hafði húkkað sér farm með Firmino og rifið hann niður. Á vítapunktinn fór Salah (skil reyndar ekki enn afhverju Milner tók ekki vítið, þó hann hafi klikkað á einu víti í fyrra var hann virkilega öruggur fram að því) en slök spyrna hans var auðveldlega varinn.

Ég blótaði liðinu það mikið í hálfleik að þeir komu tvíefldir til leik í þeim síðari. Allt annað að sjá liðið og hefðu mörkin í raun getað verið fleiri þegar uppi var staðið.

Sturridge kom okkur á bragðið eftir mistök í vörn gestanna áður en Firmino skoraði úr skalla eftir hornspyrnu og heimavallar-Gini skoraði svo þriðja og síðasta mark liðsins.

Bestu menn Liverpool

Erfitt að velja einhvern einn, fannst enginn bera af. Það reyndi ekki mikið á vörnina í dag en hún var mjög örugg í öllum sínum aðgerðum. Gomez fannst mér flottur í dag. Salah var ógnandi, Firmino pressaði vel, skoraði og fékk víti og miðjan virkaði ágætlega á mig í síðari hálfleik.

Vondur dagur

Þetta á svo sem ekkert við, nenni ekki að röfla eftir kærkominn 3-0 sigur.

Umræðan

Þrátt fyrir slaka byrjun, mikil meiðsli og enn meiri pirring þá er liðið eingöngu þremur stigum frá fjórða sæti. Það er auðvitað alveg hellingur sem þarf að laga en m.t.t. að við erum búnir að vera án Coutinho og Mané stóran hluta mótsins þá er þetta ekki alslæmt.

Það væri samt svo týpískt Liverpool að bjarga starfi Bilic um næstu helgi en næsti deildarleikur er einmitt útileikur gegn West Ham. Nú þarf að fylgja þessu eftir.

Og jú, jákvæð markatala! Það er eitthvað!

YNWA!

30 Comments

  1. Hreint lak, 3 mörk og allir sáttir.
    Það er hinsvegar verulega niðurdrepandi að lesa ummælin í þræðinum við leikinn, þetta glatað og þessi ömurlegur og ég veit ekki hvað og hvað.
    Feita konan hefur sungið, hættum þessu tuði og reynum að vera jákvæðir.

  2. Klavan maður leiksins, fallegar sendingar og stjórnaði leiknum.

    (Matip vantar gleraugu)

    3-0!!

  3. Sæl og blessuð.

    Flott frammistaða. Höddararnir eru sýnd veiði en ekki gefin og þetta hefði getað orðið rírönn í seinni hálfleik. Feykilega sáttur við að Klavan skyldi halda haus. Var eins og hrædd bráð framan af leiknum en var svo öryggið uppmálað þá sjaldan reyndi á hann.

    Talandi um að vera ekki með plan B þá voru gestirnir með sama leikplan allan leikinn! Ellefu tröll á bak við boltann í stöðunni 0-0 og upp í 3-0!

    En menn dagsins voru Mané og Coutinho sem gátu verið fjarri góðu gamni án þess að tannhjólaverkið festist í hægagangi!

  4. Mignolet fær lika hrós. Þvílíkar hreinsnir meeð hægri og vinstri. Huddersfield réðu ekkert við hann.

  5. djofull er madur anaegdur ad sja tetta.
    turfti ad bregda mer fra og missti af sidari halfleik. var ta hreinlega bara ad vona ad vid myndum vinna ljott 1-0 eda eitthvad.

    jakvaed markatala og erum ad banka a topplidin. Nu tarf sma stodugleika og urslit!

  6. Flottur sigur. Framistaðan var samt ekki mjög sanfærandi og fengum við varla færi sem við sköpuðum sjálfir(ekki heimskulegt tog sem gaf vítaspyrnu hjá gestunum) þangað til að við komust yfir.
    Eftir að við komust í 1-0 þá var eins og allir önduðu léttar og maður sá hvað þeim leið vel inná vellinum sem skilaði sér í tveimur mörkum í viðbót.

    Þetta er nefnilega skrítin leikur að fjalla um liðið var bara solid og vann sangjarnan sigur án þess að einhverjir áttu einhvern mjög góðan leik.
    Það reyndi ekkert á vörnina enda þeir bara með einn frami með enga hjálp.
    Miðjan okkar ógnaði ekki mikið og þurfti ekki að vinna mikla varnarvinnu því að við vorum alltaf með boltan.
    Sturridge, Firminho og Salah hafa oft spilað betur en Sturridge kláraði sitt færi vel, Salah átti ekki marga spretti en er alltaf ógnandi og Firminho var ákveðin í skallanum.

    3 stig og næsti leikur gegn West Ham úti og samkvæmt Klopp ættu bæði Mane og Lallana ekki að ná honum en ættu að geta náð deildarleiknum á eftir honum.

  7. Gríðarlega mikilvægur sigur og solid frammistaða í seinni hálfleik. Ætla ekkert að pirra mig meira yfir fyrri hálfleiknum.

    Sammála skýrsluhöfundi. Erfitt að velja mann leiksins. Allir áttu ágætan seinni hálfleik. Þetta Huddersfield lið fer hins vegar beint niður aftur í 1. deild.

    Augljóslega áherslubreyting hjá Klopp, þ.e. bakverðirnir Gomez og Moreno fengu lítið að fara fram og voru mjög afturliggjandi. Munum sjá mun meira af þessu á útileikjum okkar í vetur. Það á klárlega að reyna að berja í brestina í vörninni. 5 stig af 15 á útivelli er ekkert til að hrópa húrra yfir.

    Eigum við ekki bara að vera bjartsýn á kjördegi og segja að þetta sé allt að koma hjá okkur? Komnir með jákvæða markatölu og því ber að fagna.

  8. virkilega flottur leikur hjá okkar mönnum sérstaklega seinni hálfleikurinn,allt annað að sjá vinnsluna í liðinu.vonandi að einhver stöðugleiki sé að komast á vörnina.hlakka til næsta leiks. góða helgi félagar.

  9. Sæl öll

    Milner að mínu mati maður leiksins. Augljóslega allan leikinn að öskra menn áfram og eins og venjulega sýndi fyrirmyndar vinnusemi.

  10. Sælir félagar

    Takk fyrir skýrsluna Eyþór og ekki miklu við hana að bæta. Eftir leiðinlegan fyrri var sá seinni góð skemmtu það sem ég sá (sá 2 fyrstu mörkin). Vonandi er liðið að komast á rönn og klára næstu 6 – 7 leiki með sigrum. Ég er sáttur við þessi 3 stig og nú fara leikmenn að koma inn úr meiðslum og þetta lítur vel út.

    Það er nú þannig

    YNWA

  11. Göngubolti í fyrri hálfleik en margt skemmtilegt í seinni hálfleik.

    Fannst áberandi ró, í jákvæðri merkingu, yfir miðjunni og held að það séu áhrif Milners. Hann virðist aldrei spennast á taugum, ólíkt Henderson sem á það til að leysast upp í stressi og gera tóma vitleysu.

    Að sama skapi varð meiri óreiða á miðjunni um leið og Can kom inná. Hann er alltof mikið hothead og spilar út um allt – að því er virðist án tengsla við restina af liðinu – í dag var hann aftur og aftur kominn ofaní sinn eigin samherja.

    Milner er kannski hættur að geta hlaupið en hann er með skapgerð til algjörrar fyrirmyndar. Þvílíkt svalur nagli og leiðtogi.

    Winjaldum fannst mér vel að því kominn að vera valinn maður leiksins, hann er sívinnandi og skoraði glæsimark. Nú þarf bara að koma honum í andlega meðferð hjá Milner og þá munu allar stíflur bresta hjá honum. Sannið þið til.

  12. Já, fyrri hálfleikur var einn sá leiðinlegasti sem maður hefur lengi séð hjá liðinu okkar. Var á hlaupabretti að horfa á þetta og orðin “sköpunarleysi” og “leiðinlegt” komu oftar en ekki upp í hugann. Var svosem ekkert alltof vel stemmdur fyrir brettinu heldur. Fór út í hálfleik og fékk mér göngutúr sveittur í dúnúlpu. Ég dröslaðist svo úr úlpunni og aftur á brettið. Og þetta kom.

    Liðið var eins og tvö lið í dag og það ber gott vitni um skapgerð bæði þjálfarans og leikmannanna. Fínn sigur sem alls ekki ber að kvarta yfir á nokkurn hátt. Mörg stóru liðanna spila leiðinlega í 85 mínútur og ná svo að pota inn einu í lokin. Liverpool byrjaði með stæl á 45. mínútu og sýndi hversu mikið býr í liðinu. Flott.

  13. Flottur sigur eftir ròlegann fyrrihàlfleik. Gòð 3 stig ì hùs. Það sem veldur mér mestum vonbrigðum er hversu fàir tjà sig eftir jàkvæð ùrslit, miðað við þegar illa gengur. Jæja hvað um það ég er sàttur eftir daginn. You never walk a lone

  14. Mjög flottur sigur og þvílíkt mikilvægur. Núna er bara að halda áfram, getum vel híft okkur upp jafnt og þétt. Eigum helling inni!

  15. Eiginlega magnað að við höfum örfá komment eftir 3-0 sigur.

    Menn tala um leiðinlegan fyrri hálfleik, hvernig et þetta hjá man. Utd? Drulluleiðinlegt í 90 mínútur, en árangursríkt.

    Ég þakka allavega fyrir mig.

  16. Þessi leikur var skin og skúrir, eða öllu heldur skúrir og skin.

    Fyrri hálfleikur var alls ekkert svo lélegur, við sýndum að við vorum mun betra liðið á vellinum, sóttum aðeins en það kom ekkert uppúr sóknunum, vantaði aðeins uppá hugmyndaflugið og áræðnina. Auðvitað ákvað maður að leikurinn færi 0-0 eða 1-0 fyrir Huddersfield þegar Salah (sem átti aldrei að taka vítið) klúðraði. Annað kom upp á daginn.

    3-0 sigur gegn liði sem hefur verið í góðri stemmningu uppá síðkastið, með þjálfara sem veit nákvæmlega hvernig Klopp hugsar. Alls ekki slæmt, ég hefði tekið 3 stigum fagnandi í dag sama með hvaða hætti þau hefðu verið fengin. 3-0 fyrir mér var vonum framar og er ég drullusáttur með þetta.

    Nú er bara að halda áfram, gera þennan sigur að byrjun á sigurhrinu og blanda okkur í baráttu, það er ekki til of mikils ætlast. Bakverðirnir verða sennilega áfam aftar á vellinum en vanalega og styrkja þar með vörnina, okkar 5 fremstu menn eiga að geta skorað 2-3 mörk í leik.

  17. Flottur og nauðsynlegur sigur fyrir okkar menn eftir afleitan leik síðustu helgi. Núna er bara halda áfram á þessari braut og taka bara einn leik í einu og þá nálgustum við toppinn smátt og smátt. Baráttan verður að ná í þriðja eða fjórða sætið.

  18. Flottur sigur og nauðsynlegur fyrir sjálfstraustið.

    Verð að koma inná það hvað múgæsingur og fjölmiðlar geta litað og stýrt umræðunni einsog t.d Klopp out kjaftæðið og allt það, semog kominn pressa á Klopp sem stjóra.
    Þetta er meira ruglið við erum búnir að spila við stærstu liðin í bili erum 3 stigum frá 4 sæti þar sem ég tel okkar lið eiga að vera miðað við styrkleika, já við erum ekki með sterkari hóp en til að berjast um 3-4 sætið að mínu mati.

    Klopp þarf tíma og vonandi fær hann þann tíma til að byggja upp lið, það er ekki nóg að kaupa góða leikmenn það þarf líka að fá réttu leikmennina í hópinn.

    YNWA

  19. Fínt skref til baka eftir afhroð síðustu helgar.

    Var ósáttur með liðsvalið á margan hátt og er enn á því að Klopp hefði átt að taka betur til…og skil ekki alveg hvers vegna hann nýtti ekki tækifærið á að hleypa öðrum miðjumanni en Can inn á völlinn.

    Og vá hvað ég skil ekki að láta Salah taka víti!!!

    Nóg um það – frábært að sjá Sturridge klára færið sitt svo yfirvegað og gott að sjá menn keyra á þetta í seinni hálfleik eftir dapran fyrri. Nú er að byggja á þessu og hlaða saman nokkrum góðum leikjum í röð!

  20. Koma svo LFC. Bara ekki láta Salah taka vítin plís.:) , frábært vandamál. Lalli og Sane að koma inn, fáum fullmannað lið og tökum næstu alla leiki, í alvöru!

  21. Hér hafa einn eða tveir minnst á hversu leiðinlegt það sé að sjá svona fá komment eftir góðan sigur. Ég held að það séu einkum tvær ástæður fyrir því:

    Í fyrsta lagi þá er mannskepnan þannig gerð að þegar blæs á móti, þá finnur hún frekari þörf á að tala en þegar vel gengur. Þegar illa gengur þá vill fólk einfaldlega fá að “rasa út”, koma neikvæðum hugsunum frá sér og ágæt leið til þess er að henda þeim inn á bloggsíður eða samfélagsmiðla.

    Og í öðru lagi þá held ég að ein ástæðan fyrir fáum kommentum hér sé einfaldlega sú að á undanförnum misserum – kannski sérstaklega á þessu tímabili – þá hefur neikvæðnin fengið að grassera hér meira en góðu hófi gegnir. Þótt ég hafi engar upplýsingar um þetta, þá finnst mér eins og hingað séu komnir nýjir aðilar sem taka þátt í umræðum. Sem er auðvitað alveg frábært. En með nýjum aðilum þá breytist líka kúltúruinn í umræðunum. Hér eru umræðurnar miklu frekar í einnar-línu-formi eins og gerist á samfélagsmiðlum og færri hafa metnað í að gera “lærðar” (eða vel ígrundaðar) athugasemdir. Þeim hefur í það minnsta fækkað umtalsvert.

    Ég hef yfirleitt frá mörgu að segja – þegar ég kemst af stað, og mínar athugasemdir eru oft nokkrar málsgreinar. En ég finn bara sjálfur að ég hef minni áhuga á að taka þátt í umræðum hér því neikvæðnin virðist frekar fá að ráða för.

    Kannski er ég alveg úti á túni með þetta en þetta er svona mín tilfinning þegar ég kíki á þessa síðu. Sem ég gert oft. Ca 5 sinnum á dag og les yfirleitt öll komment. Og skrifa svo eitthvað til að svara einhverjum, en ákveð svo að stroka allt út því ég nenni ekki að taka þátt í neikvæðninni.

    Hvað sem öðru líður, þá þakka ég fyrir að við stuðningsmenn á Íslandi eigum aðgang að þessari síðu og þessum frábæru pistlahöfundum. Frábærir pennar og þvílíkur metnaður sem þeir leggja í sína vinnu!

    En svo ég haldi mig við umfjöllunarefni dagsins, þá vil ég bara halda því fram að ég eigi heiðurinn af sigrinum gegn Huddersfield. Ég missti af fyrri hálfleik en horfi á þann seinni, og eins og allir hjátrúarfullir menn vita þá skiptir öllu máli fyrir úrslitin hvort ég horfi eða ekki! 🙂

    Eins og #1 sagði – héldum hreinu, tókum 3 stig og skoruðum 3 mörk. Hvað getur maður farið fram á meira á heimavelli? Flottur sigur og vonandi eru okkar menn hrokknir í gírinn á nýjan leik.

    Homer

  22. Hómer #22
    Mikið er ég sammála þér, í einu og öllu. Hef svona sirka milljón sinnum strokað út það sem ég ætlaði að pósta út hérna. Svo sem fínt að fólk geti pústað út en fyrir mitt leiti þá held ég að lausnin á þessari neikvæðni hérna er að tengja kommentakerfið við fb. Nafnlausir manhjú-aðdáendur fá örugglega kitl í puttana að skrifa e-ð hérna annað slagið.

  23. Jónas #21 Ertu að tala um Madio Sane?
    Hvað leikinn varðar er engin ástæða til að kvarta þótt fyrri hálfleikurinn hafi verið rólegur. Klopparinn stillti vélina í hálfleik og drengirnir sigldu sigrinum örugglega í höfn. Skiptir engu þótt fyrsta markið hafi komið eftir varnarmistök, yfirleitt þarf andstæðingurinn að gera mistök svo liðið skori, og þetta voru langt frá því að vera verstu mistök sem maður hefur séð. Vel klárað hjá Danna. Robbi kom svo með snyrtilegt mark og sýndi nokkur góð tilþrif. Hann er ennþá uppáhalds framherjinn minn í liðinu þótt ég vonist til að einhver guttinn eignist þann sess fyrr en síðar, það er amk enginn skortur á markaskorurum hjá yngri liðunum.
    Goggi fær svo klapp á bakið fyrir flottasta mark leiksins og fína frammistöðu eftir miður góðar frammistöður að undanförnu.
    Vonandi eru okkar menn búnir að finna leið til að vinna “litlu” liðin sem pakka í vörn, þótt það þýði leiðinlegan fyrri hálfleik. Verst að hafa ekki fundið leiðina til að vinna litlu liðin fyrir síðasta heimaleik á undan þessum 😉

  24. #24: Madio Sane er náttúrulega flopp tímabilsins. Hann hefur ekki sést í einum einasta leik!

  25. Hómer #22

    Spot on.
    Ég er nánast hættur að taka þátt í umræðunni hér, enda er rússíbaninn sem það er að vera Liverpool aðdáandi nógu erfiður fyrir mig, þarf ekki þessa neikvæðni sem yfir tekur sviðið þegar illa gengur.

    Læt mér nægja að lesa og “líka” við þau komment sem eru mér að skapi.

    Y.N.W.A.

  26. Varðandi Salah og vítið.
    Tók hann ekki víti í uppbótartíma sem tryggði Egyptum á HM.
    Kannski ástæðan.

  27. Við erum svo góð í að kvarta, að við kvörtum yfir skorti á kvörtunum 🙂

    En grínlaust. Þá er öll umræða af hinu góða. Mér sýnist þessi neikvæðni bara vera almenn í Liverpool heiminum. Hún kemur til af því að þetta lið hefur sýnt okkur hið góða, slæma og svo hið ljóta á undanförnum árum. Þessir sömu gaurar, ég meina Lovren er sami gaurinn og neitaði að brosa þegar hann skallaði okkur áfram í evrópudeildinni gegn Dortmund. Töp eins og gegn Burnley í fyrra, þar sem tvær skyndisóknir gerðu útaf okkur eru slæm. Tapið gegn Sevilla í úrslitunum og eins núna gegn Tottenham var ljótt. Við erum því eiginlega ekki vön því að vinna 3-0 án þess að það komi til af einhverjum töfrabrögðum, spretti yfir völlinn eða þrumufleyg langt fyrir utan teig. Þessi sigur var einhvern veginn of litlaus fyrir Liverpool aðdáenda. Þetta var eins og einhver Diesel vél sem át upp lífsgleði andstæðingsins, þangað til hann sá ekki lengur tilgang í að spila fótbolta.

    Það er ekki hægt að segja að þetta sé stöðugasta lið í heimi en inn á milli koma leikir þegar það er hið skemmtilegasta. Síðan koma leikir þar sem manni finnst það gæti ekki verið verra, þegar einföldustu hlutir ganga ekki upp. Með auknu álagi, virðist eins og það verði minna um hið fyrrnefnda. Við sáum það á lokametrunum á seinasta tímabili að þegar á þarf að halda getur þetta lið verið hundleiðinlegt. Maður spyr sig er það lausnin, er þetta kannski eina leiðin áfram? Að drepa andstæðinginn úr leiðindum og okkur í leiðinni? Eða fáum við meiri heavy metal fótbolta, þar sem allt getur gerst og allt fer til fjandans inn á milli?

  28. Amen Hómer.

    Þetta var mjög góður sigur hjá okkar mönnum gegn tegund af fótbolta sem hefur verið stórt vandamál, sérstaklega gott þar sem Liverpool var án sinna bestu manna og eins verðum við að flokkar Clyne, Lovren og jafnvel Lallana sem lykilmanna líka (hvað sem mönnum finnst um það). Þetta var besti seinni hálfleikur Liverpool í vetur og ef við værum að tala um nákvæmlega eins frammistöðu frá Chelsea eða United væri umræðan á allt öðrum og jákvæðari nótum.

    Varðandi umræðuna hérna inni þá tökum við það til okkar að stýra aðeins betur þessum einnar línu metnaðarlausu niðurrifs kommentum sem engu bæta við umræðuna. Byrjunarliðsfærslan hefur alltaf verið aðeins sér á báti og tekur ágætlega við þeim geðsveiflum sem við göngum í gegnum yfir leikjum og er hún fyrir vikið ekki ritskoðuð jafn gaumgæfilega. Svipað og twitter hjá manni á meðan leik stendur 🙂

    Klopp gerði ekki breytinga á byrjunarliðinu nema vegna meiðsla sem var áhugavert, hann gerði samt heljarinnar breytingu á uppleggi liðsins sem við fáum líklega að sjá meira af á næstunni. Þar á ég sérstaklega við hlutverk Joe Gomez og Moreno sem spiluðu sem varnarmenn í þessum leik þrátt fyrir að Liverpool væri 75% með boltann.

    Milner hljóp mest allra í Englandi í þessari umferð og var töluvert betri en í síðustu umferð (ekki annað hægt). Sturridge skoraði loksins, Liverpool skoraði eftir horn og örfættir leikmenn eiga ALDREI að taka víti sem skipta máli!

    Tökum þetta allt og fleira fyrir í podcast þætti í kvöld.

Liðið gegn Huddersfield

Maribor á miðvikudaginn