Nýliðar Huddersfield mæta á Anfield.

Kl. 14:00 á kjördag fáum við nýliða Huddersfield í heimsókn á Anfield. Huddersfield hafa farið vel af stað og eru sýnd veiði en ekki gefin eins og vinir okkar í Manchester fengu að kynnast um síðastliðna helgi. Við áttum einnig erfitt síðustu helgi og þörfnumst sem aldrei fyrr þriggja punkta og hljótum að gera þá kröfu eftir martröðina gegn Tottenham.

 

Sagan

Ég kem betur inná það á eftir en Huddersfield er gamalt stórveldi í enskum fótbolta og þegar við skoðum viðureignir okkar við þá frá upphafi eru tölurnar nokkuð merkilegar. Liðin hafa mæst 75 sinnum, Liverpool sigrað 27 leiki, 17 sinnum hafa liðin skilið jöfn og í 31 skipti hafa Huddersfield lagt Liverpool að velli. Seinast mættust þessi lið í bikarnum 1999 á heimavelli þeirra og fórum við með sigur 0-2 þar sem Titi Camara og Dominic Matteo skoruðu mörkin. Þar á undan léku liðin síðast 1972 en síðasti tapleikur Liverpool gegn Huddersfield var 28. nóvember 1959 1-0.  Rétt rúmum hálfum mánuði síðar eða þann 14. desember réðu Liverpool nýjan stjóra. Stjórinn hét Bill Shankly.

Seinasta starf Bill Shankly áður en hann tók við Liverpool var einmitt að stýra Huddersfield og gerði hann það frá 1956-1959. Í nóvember 1959 buðu Liverpool Shankly samning sem hann varð spenntur fyrir enda fannst honum komið ákveðið metnaðarleysi hjá eigendum Huddersfield sem voru á þessum tíma að selja sína bestu menn án þess að kaupa neitt í staðinn fyrir þá ( hljómar kunnuglega). 1. desember sagði hann svo starfi sínu lausu þrátt fyrir sigurinn gegn Liverpool 28. nóvember. Shankly sem var í tilvistarkreppu stýrði Huddersfield ekki í þeim leik heldur Edward nokkur Boot sem átti eftir að stýra þeim til ársins 1964. Restina af sögu Bill Shankly hjá Liverpool þekkja svo allir.

 

Huddersfield Town A.F.C.

Borgin Huddersfield liggur mitt á milli Leeds og Manchester og telur um 163.000 íbúa sem gerir borgina að elleftu stærstu borg Englands. Borgin þykir falleg mjög og er þekkt fyrir arkitektúr frá Viktoríutímabilinu. Þekktustu synir Huddersfield eru þeir Harry Wilson fyrrum forsætisráðherra Bretlands, James Mason fyrrum kvikmyndastjarna og sjálfur ,Sheriff of  Huddersfield, Rod Smallwood umboðsmaður hljómsveitarinnar Iron Maiden ( mér finnst hann merkilegur).

Huddersfield Town A.F.C. var stofnað 1908 og byrjuðu í deildarkeppni 1910. Árið 1919 stóðu þeir frammi fyrir fjárhagsörðuleikum og voru íbúar Huddersfield beðnir um að kaupa hlut í félaginu fyrir eitt pund hver til að forðast hreppaflutninga til erkifjendanna í Leeds og heppnaðist sú aðgerð hjá þeim. 1922-1926 eru gullaldarár Huddersfield. 1922 urðu þeir bikarmeistarar og frá 1923-1926 unnu þeir deildina þrjú ár í röð, árangur sem aðeins Liverpool, Manchester Utd og Arsenal geta einnig státað af. Síðan þá hefur liðið rokkað upp og niður um deildir og ekki náð að hasla sér völl á meðal hinna bestu fyrr en nú.

Eigandi Huddersfield er hinn fimmtugi Dean Hoyle sem hagnaðist gríðarlega á gjafavöruversluninni The Card Factory sem hann og eiginkona hans stofnuðu 1997 og óx  reksturinn svo gríðarlega að árið 2009 voru verslanirnar orðnar rúmlega 500 talsins og höfðu þau hjónin um 5000 manns í vinnu. Keðjuna seldu svo hjónin árið 2010 og segir sagan að kaupverðið hafi verið um 350 milljónir punda. Hoyle hefur alltaf stutt Huddersfield og liðið er í dag hans líf og sál.

Árið 2015 réð Hoyle, David nokkurn Wagner 44. ára Þýsk-Amerískan efnilegan þjálfara til að stýra liðinu sínu. Þarna komum við að tengingu sem við þurfum að skoða. David Wagner og Jurgen Klopp eru nefnilega bestu vinir. Þeir spiluðu saman hjá Mainz snemma á tíunda áratugnum og urðu þeir strax góðir vinir. Wagner þótti betri kostur í framherjann og stal stöðunni af Klopp sem hafði leikið þar en Klopp færðist í vörnina.

” I’ve known Jurgen longer than I’ve known my wife, We met at Mainz and i took his place in the team, so he changed his role from a striker to a defender because it was much easier for him!”

Síðar lék Wagner svo með Schalke og þar spilaði hann með Bandarískum landsliðsmanni Thomas Dooley sem fékk þáverandi landsliðsþjálfara Bandaríkjanna Steve Sampson til að velja Wagner í landsliðið. Wagner var gjaldgengur því faðir hans er Bandarískur en móðir hans þýsk. Wagner lék alls átta landsleiki fyrir Bandaríkin en lagði skóna svo á hilluna árið 2005 eftir viðkomu með nokkrum Þýskum smáliðum. Eftir að hafa hætt að spila tók Wagner sér pásu frá fótbolta og stundaði nám í líffræði og íþróttafræði við Darmstadt háskólann. Klopp og Wagner héldu sambandi og Klopp hvatti Wagner til að fara í þjálfun. Wagner þjálfaði U 17 og U19 ára lið Hoffenheim um stund en svo bauð Klopp honum að taka við varaliði Dortmund sem hann þáði og þótti gera góða hluti. Margir töldu að Klopp tæki Wagner með sér í þjálfarateymi Liverpool en ekkert varð úr því. Þeir félagarnir eru svo góðir vinir að Wagner var svaramaður Klopp í brúðkaupi hans. Wagner kom svo Huddersfield uppí úrvalsdeild og meðal hinna bestu síðastliðið vor eftir að hafa lagt Reading í umspili eftir vítaspyrnukeppni þar sem Danny okkar Ward varði tvær spyrnur.

Wagner vill spila heavy metal fótbolta eins og Klopp en liðið hans er ekki alveg komið á þann stall. Við megum búast við klassískum erfiðleikum þar sem Huddersfield munu liggja til baka og beita eitruðum skyndisóknum líkt og þeir gerðu með góðum árangri gegn Manchester Utd um síðustu helgi. Huddersfield eru með 12 stig og sitja í ellefta sæti deildarinnar aðeins stigi á eftir okkur. Ég ætla nú að giska á að þeir stilli upp sama byrjunarliði og gegn Manchester Utd og það verði svona:

Lossi

Smith – Jorgensen – Schindler – Malone

Kachunga – Hogg – Mooy – Van La Passa

Ince – Mounie

 

Liverpool

Tottenham leikurinn er að baki og algjörlega vonlaus frammistaða í þeim leik hlýtur að hafa hreyft við mannskapnum. Það er ekki gott að segja hvað Klopp muni gera en ég tel að hann róteri ekki mikið í liðinu þó svo að það sé mín persónulega ósk. Ég tippa samt á að hann prófi Gomez í miðvörðinn og setji Lovren útí kuldann enda nákvæmlega engu að tapa. Að öðru leyti held ég að hann geri ekki margar breytingar og Mignolet heldur plássi sínu í rammanum. Maribor leikurinn á að vera nokkuð þægilegur og við þurfum þrjá punkta á laugardaginn framar öllu svo ég held að hann muni frekar prófa sig áfram og hvíla menn í þeim leik enda eigum við svo West-Ham þar á eftir á útivelli í deildinni.  Ég tippa á liðið svona:

Mignolet

TAA – Matip – Gomez – Robertson

Can – Henderson – Wijnaldum

Salah – Firmino – Coutinho

Bekkur: Karius, Lovren, Moreno, Milner, AOC, Solanke, Sturridge

Wijnaldum kemur aftur inn fyrir Milner, Robertson fær sénsinn, Gomez fer í miðvörð og Trent Alexander í hægri bakvörðinn. Mikið væri ég samt til í að sjá Woodburn og eða Harry Wilson í hópnum en ég hef trú á að Klopp bíði með það um stund.

Spá

Ég ætla bara að vera bjartsýnn en spái samt sem áður hörkuleik. Ég spái 4-2  fyrir okkur þar sem Coutinho mun skora tvisvar og Salah og Firmino með sitt markið hvor. Eftir leik klæðum við okkur svo í sparifötin, göngum útí sólina og nýtum kosningarétt okkar með Liverpool brosi á vör.  YNWA!!!!

17 Comments

  1. Við tökum þetta 1-0 í hörku leik.
    Það er langt síðan maður hefur verið svona spentur/stressaður fyrir leik, ég ætla ekki að reyna að giska á byrjunarliðið það er vita vonlaus að átta sig á hvað Klopp geri hann gæti þess vegna komið með sama lið og laut í gras um síðustu helgi og eins gæti hann gert róttækar breytingar og skift út nánast allri hryggsúluni úr liðinu.

  2. Hvernig nálgast maður miða á L.pool vs s.ton 18.11.20017? Afsakið, veit þetta á ekki við í þessum þræði…

  3. Við verðum að vinna þennan leik annars gæti Klopp fengið reisupassann.

  4. Sælir félagar

    Það er ekkert annað en sigur í mínum kortum. Eftir skitu síðustu helgar geta leikmenn ekki annað en tekið nokkur skref uppá við. Mér er alveg sama hvernig Klopp stillir upp og hverjir spila þennan leik ekkert annað en sigur á minn disk.

    Það er nú þannig

    YNWA

  5. Vinnum þetta 2-0. Algörlega bókað. Held að við förum á run núna.

    hashtag polianna

  6. Held að svaramaðurinn þekki klopp nógu vel til að standast honum snúning.
    En ég er bjartsýnn svo ég spái 1-1

  7. Vorum að spila betur áður en Coutinho snéri aftur til leiks eftir “meiðslin”….Kannski veit þetta á gott.

    Verður erfitt en trúi ekki öðru en að við klárum þetta lið.

  8. Manni hefur nú oft liðið betur fyrir leik og á pappír ætti þetta að vera skyldusigur en aftur á móti þá hefur liverpool verið með drulluna ansi lengi. Ef þetta á ekki að vera kroniskur sjúkdómur þá er heldur betur kominn timi til að skeina sér almennilega, sturta niður og drullast til að spila eins og menn.

  9. Í dag er góður dagur til að hefja sigurgöngu sem slær öll fyrri met félagsins og deildarinnar.

    Í dag er góður dagur til að vinna 4-0.

    Í dag er góður dagur til að hætta öllum klaufalegum mistökum.

    Í dag þarf Klopp að sýna að liðið sé á réttri leið.

    Í dag vinnur okkar lið.

  10. Geggjuð upphitun. Ef við vinnum ekki þennan leik þá tek ég mér fótbolta pásu til 1.jan!

  11. Sæl öll

    Ég mundi taka Can úr first 11 og leyfa AOC að byrja. Henderson, Gini og Coutinho á miðjunni. Þó svo að Mignolet hafi tekið miklum framförum hjá Klopp, er í mínum huga fullreynt með hann. Hann er 29 ára og ætti að vera á toppnum núna og sá toppur er langt frá því að vera nægjanlegt furir Liverpool. Nú á bara gefa Karius marga leiki í röð og sjá almennilega hvað hann hefur að bjóða.

    3-1 fyrir Liverpool.

Podcast – Hvar ertu á histeríu skalanum?

Liðið gegn Huddersfield