Upphitun: Sevilla í Meistaradeild

Þá er komið að fyrsta leik Liverpool í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og á Anfield mætir óljúfur óperudraugur fortíðar eða Sevilla Fútbol Club sem við mættum síðast ósælla minninga fyrir rúmlega ári síðan. Baslið í Basel er óþarfi að tíunda mikið hér enda búið að eyða of miklum tíma í dáleiðslu og áfallahjálp við að gleyma þeirri minningu til að rifja hana upp að nýju. Þetta er þó tækifæri til að kvitta fyrir það klúður og skipbrot síðustu helgar samtímis og vonandi grípum við það tvöfalda tækifæri tveimur höndum. En til þess að það geti gerst þá þarf að hita sig upp á eldheitt tapas-hitastig með sjóðandi salsa og fuðrandi flamencó-fótbolta.

Comenzar el calentamiento!

Sagan

Liðin hafa eingöngu mætt hvort öðru í fyrrnefndum leik og því er söguleg tölfræðin takmörkuð að því leyti. Leikmannaviðskipti liðanna síðasta áratuginn eru teljandi á fingrum annarar handar eftir alls engin í rúm hundrað ár þar á undan. Til okkar hafa komið Alberto Moreno og Luis Alberto ásamt því að Daniel Ayala og Antonio Barragán komu sem pjakkar á meðan að Rafa Benitez réð ríkjum. Á móti þá lánuðum við og síðan seldum Iago Aspas til Sevilla en á heildina litið er varla hægt að segja að hvorugt lið hafi átt blússandi velgengni að fagna í viðskiptum sín á milli.

Saga liðanna segir okkur því lítið sem ekkert annað en að áhugaverðasti safngripurinn telst vera Moreno hafandi spilað sitt hvorn Europa League úrslitaleikinn fyrir bæði lið og hafa hjálpað Sevilla að vinna í bæði skiptin! Lo siento Alberto.

Sevilla FC

Sevilla FC kemur frá samnefndum höfuðstað Andalúsíu og er rauða liðið í borginni en Real Betis eru þeirra borgarbræður og erkifjendur. Borgin er sögufræg og hefur ofanritaður notið þeirrar ánægju að eiga þar vetursetu og búa steinsnar frá heimavelli þeirra rauðu á Ramón Sánchez Pizjuán. Sevilla er margfræg fyrir að vera sögustaður fjölmargra ópera eins og Rakarinn frá Sevilla, Brúðkaup Fígarós, Carmen og Don Juan en í seinni tíð var hún notuð sem sviðsmynd í Star Wars. Í vinstra horni á merki Sevilla FC má sjá þrjá vörpulega og valdsmannslega höfðingja sem kallast á spænsku el tres reyes eða kóngarnir þrír. Þessir þríkóngar eru engir aðrir en vitringarnir þrír úr sunnudagaskólanum en á Spáni eru þeir hinir gjafmildu sveinar sem mæta á úlföldum um jólaleytið og útdeila gjöfum á þrettándanum að kaþólskum sið.

En nóg um hágólandi hárgreiðslumeistara eða úlfaldaútdeilandi yfirnáttúrulegheit. Í Andalúsíu-liðinu eru engir jólasveinar og það mætir til leiks sem það lið sem var skrifað pottinum hærra en Liverpool í CL-drættinum og hafa skilað mun fleiri titlum í hús síðustu 5 árin með því að hampa heilum þremur Europa League titlum í röð og unnu 2 slíka til viðbótar stuttu þar á undan. Þeir enduðu í 4. sæti í sinni deild líkt og við á síðasta tímabili, en ströggluðu þó við að klára lágt skrifað lið Istanbul Basaksehir í forkeppni Meistaradeildarinnar og unnu einvígið bara með samtals eins marks mun.

Á vordögum þá missti Sevilla þáverandi þjálfara sinn þegar að hinn argentínski Jorge Sampaoli tók við argentínska landsliðinu en hann hafði eingöngu verið eitt tímabil með Sevilla eftir að Unai Emery fór til PSG árið 2016. Við stjórnartaumunum tók samlandi hans Eduardo Berizzo en hann hafði gert ágæta hluti með Celta Vigo þar á undan. Undir hans stjórn hefur Sevilla byrjað tímabilið sterkt, eru taplausir í öllum keppnum og í 3. sæti La Liga með 7 stig eftir 3 leiki, en þó hafa andstæðingarnir í öllum þessum leikjum verið af veikara taginu. Þeir gátu því leyft sér þægilegheit á heimavelli í síðasta leik með 3-0 sigri á Eibar og hvílt lykilmenn fyrir átökin á Anfield.

Það mætti halda að Sevilla-menn hafi fundið á sér að þeir myndu dragast gegn Liverpool í CL því að þeir spiluðu fjóra æfingarleiki í sumar á Englandi og þar af þrjá þeirra gegn ensku úrvalsdeildarliðunum Arsenal, Southampton og Everton í Liverpool-borg. Í þokkabót þá háðu þeir einvígi gegn Leicester í 16-liða úrslitum CL á vordögum sem þeir töpuðu tæpt í frægum leik þannig að engilsaxnesk samskipti hafa verið með mesta móti hjá Spánverjunum síðustu misserin. Til viðbótar þá skarta þeir fjarska fallegri rauðri New Balance varatreyju sem myndi sóma sér vel með Liverbird í stað Sevilla-merkisins og hún gerði leikinn gegn Everton ansi derby-legan áhorfs.

Éver Banega mætti Everton í sumar og lét Rooney finna fyrir því

 

Í leikmannamálum þá seldi Sevilla tvo sterka leikmenn, spænska landsliðsmanninn Vitolo til Atletico Madrid og Vicente Iborra til Leicester, fyrir samanlagt 50 millur evra í sumar en í staðinn snéru Jesús Navas og Éver Banega aftur eftir mislanga fjarveru og auk þeirra komu í hús Luis Muriel, Simon Kjær og Nolito sem helst ber að nefna. Sumarinnkaupin voru svo gott sem á sléttu og hafa Sevilla hafa verið ansi lunknir í leikmannamálum síðustu 17 ár undir stjórn señor Monchi sem el director de fútbol en hann var reyndar keyptur til starfa hjá Roma nú í apríl. Þeir eru því með ansi sterkan hóp og reynslumikið lið í Evrópufótbolta sem mun því miður ekki víla fyrir sér að mæta á öflugan Anfield.

Ég ætla að spá þessari uppstillingu hjá Sevilla þar sem þeir munu vera þéttir fyrir með N’Zonzi djúpan á miðjunni og reyna að nýta hraða vængmenn og sendingargetu Éver Banega í skyndisóknir.

Líklegt byrjunarlið Sevilla í taktíkinni 4-1-4-1

Liverpool FC

Skellur síðustu helgar er ólíklegur til að hafa mikil áhrif á liðsval Jürgen Klopp þar sem að hann hefur væntanlega verið búinn að lista upp megnið af byrjunarliðinu fyrirfram með róteringu í huga. Að því marki má taka mark á þeirri umræðu að markvörður þessa leiks verði hinn sultuslaki og smjörgreiddi en þó áhættusækni Loris Karius. Hvort að það sé sanngjarnt skal ósagt látið en það sem Herr Klopp vill blífur og á Herr Klopp leggjum við okkar trú og traust.

Ég gæti vel séð að báðum bakvörðum verði skipt út (perdón otra vez Alberto) og að Lovren komi inn við hlið Matip í hafsentinn. Varnartilburðir síðustu helgar hafa að sjálfsögðu ýft upp þá tilfinningu að við hefðum átt að styrkja okkur varnarlega í kaupglugganum en það skip hefur siglt að sinni og við verðum að láta þessa háseta duga fram að næstu höfn.

Kafteinn Henderson verður fastur punktur á miðjunni og mig grunar að Milner fái tækifærið til að hlaupa víðavangshlaup en stóra spurningin mun snúast um hvort að Coutinho fái að koma inn úr skammarkróknum. Ég ætla að spá því að Philippe í Kattholti sé ekki búinn að tálga nógu marga spýtukarla ennþá og þurfi að láta sér tréverkið duga í þessum leik, en hann mun pottþétt byrja næstu helgi þegar Mané verður í banni. Að því leyti verður okkar uppstilling svona að mínu mati.

Líklegt byrjunarlið Liverpool í taktíkinni 4-3-3

Spaks manns spádómur

3-1 sigur Liverpool þar sem Anfield tekur völdin og okkar eigin þrír vitringar, Mané, Salah og varamaðurinn Coutinho, sjá um mörkin.

29 Comments

  1. Takk fyrir góða upphitun. Nú et tækifæri til að þagga niður niðurlægingu helgarinnar ásamt því að ná fraþ hefndum frá því vorið 2015.

    Ég vona að Robertson og Gomez komi inn fyrir Moreno og Klavan – kæmi mér alls ekki á óvart ef Klopp hefur verið búinn að ákveða að láta Coutinho og/eða Sturridge spila þennan leik.

    Ég spái þægilegum sigri á sturluðu CL kvöldi á Anfield, 4-1!

  2. Frábær upphitun, virkilega skemmtileg lesning.

    Spái sama byrjunarliði nema að Sturridge kemur inn fyrir Firmino og við tökum þetta 3-1

  3. Bravó!

    Virkilega vel skrifaður pistill. Flott viðbót í pennahópinn 🙂

  4. Robertson, Gomez, Karius, Lovren, Sturridge, og Millner inn.

    Moreno, TAA, Mignolet, Klavan, Salah og Can út.

    Coutinho byrjar á bekknum spái ég.

  5. Sæl og blessuð.

    Glæsileg upphitun og þetta verður dauðans alvara. Vona að Róbertsson fái að spila og Gomez.

    Verður gaman að sjá ,,heimavallar-Winjaldum” í ham. Coutinho skreppur svo inn, í lokin og fær að taka eina aukaspyrnu.

  6. Steindi Jr hvíslaði að mér 5-0 sigur! ég ætla að halda mig við þá spá bara líka…

    YNWA!

  7. Nú byrjar ballið, 2 leikir á viku og kominn tími á að þurfa rótera liðinu all hressilega á mili leikja. Verður forvitnilegt að sjá hvernig liðinu reiðir af. Klopp var allavega greinilega með þennan leik í huga þegar hann tók bestu mennina frekar snemma útaf í tapaðir stöðu gegn City.

  8. Sælir félagar

    Ég hefi ekkert um þetta að segja minnugur þess hvernig við stuðningmenn spáðum fyrir síðasta leik. Ég læt það mér að keningu verða og vonast bara eftir sigri og ekkert annað.

    Það er nú þannig

    YNWA

  9. Sæl öll.

    Ég hef sjaldan lesið jafn skemmtilega upphitun og var næstum því búin að gleyma hörmungum síðustu helgar. Takk fyrir frábæran pistil.

    Nú er bara að vona að þetta smiti yfir í liðið og að við sjáum skemmtilegan sóknarbolta…að það verði öskrandi þungarokk sem glymji á Anfield annað kvöld ekki rómantískar ballöður .

    Síðasta helgi var ein sú erfiðasta sem ég hef upplifað ég var að vinna og trúið mér vinir það er mjög erfitt að standa og afgreiða með kökk í hálsinum og tárin í augunum og oft þurfti ég að útskýra fyrir yndislegum viðskiptavinum hvað væri að hrjá mig. Ég sagði hinsvegar aldrei að mitt lið Liverpool væri að skíttapa heldur bar ég við veiku nú stundum dauðu gæludýri. Fólk hefur mun meiri skilning á því heldur en fótboltasorg.

    En kæru vinur nú byrjar geðveikin aftur loforð og áheit vinstri hægri , heita á Strandarkirkju lofa því að borða hollt og hreyfa mig rosalega mikið ,vera góð við gamalt fólk og United stuðningsmenn ég sver það krakkar ég skal gera hvað sem er (nema koma nakin fram) bara ef mínir menn rúlla þessu upp og ég geti hoppa og glaðst af leik loknum.

    Ég ætla að spá 3-0 fyrir mína menn því það er jú Evrópukvöld á Anfield og þá geta stórkostlegir hlutir gerst.

    Þangað til næst
    YNWA

  10. Frábær upphitun enda ekki við öðru að búast.
    Býst við grjóthörðum 5-0 sigri, Salah allt í öllu með 3 mörk og 2 stoddara.

    Má ég spyrja að öðru…… er búið að cansela ferðina á Huddersfield leikinn?

    y.n.w.a

  11. # 8 Sala er veikur og var sendur heim í dag og tala þeir um að það sé ólíklegt að hann verði með á morgun. Því miður.
    Coutinho aftur á móti æfði með aðaliðinu í dag og gæti hann byrjað leikinn.

  12. Ótrúlegt að þessi risaeðla fái ennþá vinnu í þessari deild.

  13. Frábær pistill!

    City leikurinn er að baki og nú er það Sevijah sem er næst á dagskrá.
    Þetta verður erfiður leikur og nokkuð opinn,gæti ég trúað.
    Coutinho byrjar þennan leik og Wijnnie fær hvíld á móti – enda var hann hrein hörmung um daginn.

    Mín spá – 3- 2…..Couturinn með hattinn á Rikka!!

  14. Frábær upphitun, þetta verður spennandi og hrikalega gaman að vera komnir aftur í CL Spái hörku leik en yrði bara sáttur með sigur, í hvaða formi sem hann kemur.

    En hvernig hvernær munu vinir okkar í ManU spila við eitthvað lið sem getur eitthvað í fótbolta á þessu ári ? Held að Davíð Oddson, sorry, gamli rauðnefur standi á bakvið þetta samsæri ; )

  15. Verð a Anfield annað kvöld og get ekki beðið, vefður magnað kvöld!!

  16. Má ég spyrja að öðru…… er búið að cansela ferðina á Huddersfield leikinn?

  17. @ Atli nr. 11. Crystal Palace er með lakasta stjórann í deildinni núna an vafa. Það er það sem ég segi um það.

  18. Steindi Jr hvíslaði að mér 5-0 sigur! ég ætla að halda mig við þá spá bara líka…

    YNWA!

  19. Ég held að Salah taki Alfreð Finnboga á þetta – spili með flensu og skorar þrennu í 3-0 sigri 🙂

  20. Staðfest lið af LiverpoolFc

    Liverpool team: Karius, Gomez, Lovren, Matip, Moreno, Henderson, Can, Wijnaldum, Salah, Mane, Firmino.

    Substitutes: Mignolet, Milner, Coutinho, Sturridge, Klavan, Oxlade-Chamberlain, Robertson.

Man City – Liverpool 5-0

Liðið gegn Sevilla