Liverpool – Swansea 2-3 (Skýrsla)

BESTU LEIKMENN LIVERPOOL

Auðvelt val aldrei eins og vant. Aðalega af því að allir voru slakir í dag utan Firmino. Tvö góð mörk og nánast eini ljósi punkturinn.

VONDUR DAGUR

Úff hvar á að byrja. Allt liðið virkaði þreytt, pressan var slök, hugmyndasnauður sóknarleikur og heilt yfir bara slakur leikur hjá flestum. Vörnin var mjög slök, miðjan ekki betri og sóknin bitlaus.

Lovren og Klavan voru ekki með þetta í dag og á miðjunni fór Can líklega mest í taugarnar á mér. Fyrir utan góða þrjá mánuði, siglandi lygnan sjó í miðri deildinni, hefur hann ekki sýnt mikið. Ég veit ekki alveg ennþá hvað hann á að gera í liðinu hjá okkur og hvar hans besta staða er, sem er ekki jákvætt eftir þrjú ár hjá félaginu.

UMRÆÐAN EFTIR LEIK

Ég ætla að reyna að horfa bara á staðreyndir frekar en að missa mig í eymd og volæði. Klopp talar oft um að hann horfi meira á frammistöðu liðsins umfram annað. Það hlýtur að valda honum áhyggjum en liðið hefur verið afskaplega ósannfærandi í næstum tvo mánuði. Skoðum þetta aðeins.

Síðustu 12 leikir (4.12.16 – 21.1.17):

  • 9 deildarleikir, 4 sigrar, 3 jafntefli og 2 töp sem gerir 15 stig af 23 mögulegum.

  • 3 bikarleikir, 1 sigur, 1 jafntefli og 1 tap.

Þetta eru því 5 sigrar, 4 jafntefli og 3 töp.

12 leikir þar á undan (16.9.16 – 29.11.16):

  • 9 deildarleikir, 7 sigrar og 2 jafntefli sem gerir 23 stig af 27 mögulegum.

  • 3 bikarleikir, 3 sigrar.

Þetta eru því 10 sigrar og 2 jafntefli.

Formið síðustu 9 deildarleiki (s.a. fjórðungur af tímabili) hafa skilað okkur 15 stigum af 27 mögulegum sem er 1,667 að meðaltali í leik. Það er um 63 stig yfir heilt tímabil (38 leiki) en það hefur skilað 6-8 sæti síðustu 5 ár. Hljómar kunnuglega?

Það er alveg hægt að tala um að við höfum saknað Coutinho eða söknum Mané – en væri það þá ekki ástæða til þess að opna veskið nú í janúar ef að 1 leikmaður er það sem skilur að á milli liðs sem stefnir á 1 sætið eða liðs sem stefnir á Europa League?

Auðvitað á maður að reyna að vera ekki of svekktur eftir tapleiki en spilamennska liðsins síðustu 2 mánuði eða svo hefur valdið mér áhyggjum. Liðið verður að fara að snúa við blaðinu fljótlega ef það ætlar að halda sér í topp fjórum.

NÆSTU VERKEFNI

Liðið á 3 heimaleiki á næstu 10 dögum eða svo. Síðari leikurinn gegn Southampton í deildarbikarnum er á miðvikudaginn, eftir viku tökum við svo á móti Wolves í FA bikarnum áður en Chelsea kemur svo í heimsókn þriðjudaginn 31. janúar.

39 Comments

  1. Flott skýrsla

    Tölum ekki kring um hlutina. Þetta vita allir sem eitthvað vit hafa á boltanum – Liverpool hefur ekki breiddina eða gæðin til þess að geta kallast stórlið sem keppir um alla titla. Klopp hefur komið með ferska vinda, margt gott en verum líka heiðarleg. Varnarleikurinn er ennþá höfuðverkurinn og markvarslan. Hann hefur ekki styrkt liðið nægilega á þessum svæðum og hvar er þýska skipulagið? Sóknin hefur verið góð en síðustu mánuði hafa liðin lesið okkur og menn virka þreyttir.

    Ég heimta kaup á ferskum og góðum leikmanni sem getur aðeins híft þetta upp því ennþá er dauðafæri á einum bikar og topp4.

    Nái Klopp ekki topp4 þá er hann ekki stikkfrí frekar en aðrir. (Er alls ekki að segja að það eigi að láta hann fjúka – vil að hann fái amk 3-5 timabil)

    Sjáum hvað setur en ég hef heyrt í mörgum í dag sem eru í Liverpool og þar er andrúmsloftið ekki gott, pirringur í gangi.

  2. Sturridge á að byrja svona leiki þegar hann mané er ekki að spila þá bara því miður virkar þetta kerfi ekki án hans.Gríðarlega pirrandi úrslit en kemur manni ekkert á óvart þannig séð enda er maður búin að upplifa svona í mörg ár.

  3. Góð skýrsla

    Er samt ekki sammála #1 með að varnarleikurinn og markvarslan hafi verið eini höfuðverkurinn. Miðjan og sóknin hafa verið með eindæmum slök undanfarið. Liðið virkar þungt og algerlega hugmyndasnautt. Dólandi með þversendingum í miðjunni og í vörninni sem er engu að skila. Ég fullyrði það að við verðum í vandræðum í öllum þeim leikjum sem eftir eru með svona spilamennsku. Það væri samt alveg eftir öllu að við myndum vinna Chelsea í næstu viku en tapa síðan fyrir Hull í næsta leik.

    Svo skulum við ekki gleyma því að önnur lið eru farin að lesa okkur og loka á þau svæði sem leikmenn eins og Coutinho og Lallana sækja í. Við erum einfaldlega ekki að finna lausnirnar. Það að benda eingöngu á vörnina finnst mér einfaldlega ekki rétt. Vandamálið er miklu dýpra en það og liggur í leikskipulaginu og skorti á gæðum. Það vantar allan sprengikraft og öflugri leikmenn til að sprengja upp svona varnir, t.d. öfluga kantmenn, sem við höfum svo sannarlega ekki.

    Staðreyndin er bara sú að það eru bara margir leikmenn í liðinu sem eru bara ekki nógu góðir. Jú, vissulega geta þeir lent á góða leiki og verið frábærir, en þess á milli eru þeir algerir meðalmenn. Leikmenn eins og Klavan, Can, Clyne og jafnvel Wijnaldum eiga ekki að vera byrjunarliðsmenn hjá okkur. Svo sárlega vantar okkur öflugan striker.

    Nenni svo ekki að ræða leikmannahópinn í heild sinni. Breiddin er bara engan vegin nægileg. Vera með Moreno og einhverja unglinga á bekknum segir meira en mörg orð.

    Ömurlegt hvernig þetta ár hefur byrjað, en það er bara eins og tankurinn sé tómur og liðið virkar þreytt. Það sem verra er, við höfum ekki menn á bekknum til að að bjarga okkur þegar illa gengur.

    Verðum samt að vera þolinmóð. Róm var ekki byggð á einum degi og kannski hafa byggst upp óraunhæfingar væntingar eftir frábæra fyrstu 3 mánuði á tímabilinu. Eitt er víst, við erum ekki lengur í titilbaráttu. Topp 4 er kannski raunæft, en ekki ef spilamennskan verður svona áfram.

    Hef fulla trú á Klopp, en þetta mun taka lengri tíma en maður vonaðist til. Hann þarf nokkra leikmannaglugga í viðbót til að búa til almennilegt lið. Janúar-glugginn er sérstaklega erfiður og væntingar til hans eru ekki miklar. Þolinmæði kæru Poolarar, þolinmæði.

  4. Sælir félagar

    Takk fyrir góða skýrslu Eyþór og mér finnst þú bara býsna fljótur að telja. En að öllu gamni slepptu þá er augljóst það sem bæði Eyþór og LFC benda á. Hópurinn er ekki nógu góður, breiddin er þar af leiðandi lítil og það eru leikmenn jafnvel byrjunarliðsmenn sem eru ekki nógu góðir. Þannig að ef Klopp tekur ekki upp pyngjuna og lætur þar að auki ekki menn spila sem hafa getuna en fara í taugarnar á honum (Sakho) þá verðum við í 6. til 10. sæti í lok leiktíðar.

    Byrjunarliðsmenn sem eru að reyna en eru ekki nógu góðir þrátt fyrir góðan vilja amk. stundum. Minjo þó honum verði ekki kennt um tapið í dag. Karíus (verður ef til vill einhverntíma klassamarkmaður) Clyne, Lovren, Klavan, Can, Winjaldum, Origi og ef til vill fleiri. Sturridge hefir tvímælalaust getuna en hausinn á honum er í klessu og kjúllarnir verða eins og Kaíus einhverntíma góðir. Sumir þessara leikmanna eru ef til vill nógu góðir til að vera á bekk svona einn og einn en ekki margir í einu. Þannig að nú er boltinn hjá Klopp og félögum um það hvað á að gera við þessa leiktíð.

    Það er nú þannig

    YNWA

  5. Asskoti hefur Liv verið lélegir á nýju ári. Það vantar skot frá þeim fjær en 2-3 metra frá marki, svona eins og Coutinho gerði stundum, en þetta kemur.

  6. Með ömurlegri úrslitum.
    Liðið okkar hleypur meira en aðrir.
    Þessi desember/janúar törn ásamt meiðslum eru að taka sinn toll.
    Nokkuð þétt dagskrá áfram.

    Við erum ekki að keppa um titilinn. Né önnur lið í kringum okkur. Chelsea landar þessu.
    Við erum að keppa um meistaradeildarsæti og þar er allt í járnum ennþá.
    Við eigum þokkalega hagstætt heimaleikjaprógramm eftir.

    Það væri upplífgandi ef eitthvað ferskt topp eintak af meginlandinu bættist við hópinn núna. Ekki líklegt.

    Nú fer man management hjá Klopp á fullt og hann mun motivera mannskapinn.
    Ég er sannfærður að mars til maí verða frábærir . Við þurfum að halda þetta út þangað til.
    YNWA

  7. Ég væri til í að sjá Can prófaðan sem miðvörð eða bakvörð. Man ekki betur en að hann hafi spilað eitthvað einhvern tímann aftast, og það er ekki mikið úrval af leikmönnum þar.

  8. Dejan Lovren er ekkert betri en Alberto Morenos og Emre Can er ekkert betri en Lucas L.
    Fatta ekki Klopp að nota þessa 2 nánast alltaf en þetta finnst bara mér auðvita, treysti Klopp fyrir þessu og held að mörg önnur lið eigi eftir að misstíga sig.

  9. Þurfum ekkert að nota janúar-gluggan. Þurfum ekkert að styrkja liðið. Breiddin er góð. Vörnin er góð. Liðið er gott.

    Svo eru líka allir vondir við okkur. Dómararnir, FA, FIFA, UEFA. Allir á móti Liverpool.

    Svo mun okkur ganga miklu betur að gera atlögu að titlinum þegar við spilum líka í Evrópudeildinni á fimmtudögum.

    Svo er málið að finna unga, ódýra leikmenn sem hægt er að þróa og selja svo til Barcelona eða Manchester City.

    Stefna síðustu ára er að virka og mun halda áfram að virka. Þetta er allt á réttri leið.

  10. Dude.
    Hjartanlega sannála kaldhæðninni
    Vandi Liverpool er FSG módelið. Það er bara staðreynd.
    Peningur til í Kína. Auglýsa LFC til sölu.

  11. Aðeins varðandi leikstílinn hjá Klopp, ég held að þessi ofboðslegi hraði og yfirferð sem leikmenn hafa og eiga að skila af sér í leikjum gangi ekki upp á Englandi, a.m.k. ekki nema með talsvert stærri hóp sem myndi dreifa álaginu betur.
    Í Þýskalandi gengur þetta betur upp þar sem leikmenn fá mánaðar hvíld á miðju tímabili, mánaðarhvíld, huxið ykkur hvað það hjálpar.

    Ég er á því að ef Sturridge er heill þá á hann að byrja, þess á milli er hann bara í læknismeðferð.
    Origi á langt í land með að verða sá striker sem krafist er hjá liðum sem ætla sér að vera í toppbaráttu í erfiðustu deild heims, hann náði smá rönni fram að desember byrjun en svo hefur hann verið alveg vonlaus.

    Eitt að lokum.
    Leikmenn Liverpool verða að fara að læra hvernig á að hreinsa út úr teignum, þessi vindspörk og kinx og klúður þegar boltinn kemur inn í teiginn eru óþolandi.

    Ég eins og margir er orðinn hræddur um að nú stefni í baráttu um meistaradeildarsæti, tiltilbaráttan er búin hvað Liverpool varðar, algert hrun hjá Chelsea þyrfti til.

  12. Ég ætla ekki að tjá mig mikið um umræddan leik en langar að segja að sjaldan hafa Púlarar verið verri.
    Það er engu líkara en Klopp sé að missa móðinn sem var á honum í haust. Gæti það verið vegna þess að eigendur félagsins tíma eki að kaupa leikmenn? Er það vegna þess að honum hafa borist tilboð frá öðrum liðum?
    Menn hafa talað um Sturridge þetta og Sturridge hitt, að hann verði að fá leikæfingu, en þessi brothætta dúkka kom inn á í gær og hvað….??
    Að lokum það sem blasir við; Liverpool hefur ekki nógu marga góða leikmenn, það þarf að bæta úr því.

  13. Sammála að E.Can undanfarið hefur ekki verið að virka. Finnst hann áberandi slakastur í pressunni. Væri til i að sjá Milner taka hans sæti og leyfa Trent Arnold eða Gomez að koma inn í vörnina.
    Sammála að Liverpool vantar að taka upp veskið. Hópurinn er þunnur, meiðsli hafa hrjáð liðið. Góðu fréttirnar eru að Coutinho er mættur.

    Sá ekki þennan leik….sem betur fer.

  14. Ekki nóg með að hafa tapað fyrir liði í botnbaráttu þá dettur lokið af saltstauknum sem stráir í sárin þegar maður áttar sig á því að Liverpool hafði ekki tapað deildarleik á heimavelli í rétt rúmlega ár! Næstu þrír heimaleikir í deildinni eru svo Chelsea, Tottenham og Arsenal, algjörir make it or break it leikir í baráttunni. Hvert einasta tap í þeim leikjum væri eins og framúrakstur í Mónakókappakstrinum. Vonandi að saltið úr Swansea-stauknum hafi ekki fyllt upp í Anfield gryfjuna. Þetta lið okkar held ég að sé með ansi brotið sjálfstraust þessar vikurnar.

  15. Eftir svona leik er gott að kíkja á U-23
    Unnu Ipswich 3-0.
    Matip og Moreno fengu 60 mín.
    Matip aðeins ryðgaður. Gaf næstum mark með mjög slakri sendingu til baka og skallaði hátt yfir úr auka inn í teig þegar hann var algerlega aleinn og boltinn beint á pönnuna. Annars gott run. Vonandi spilar hann á miðvikudag, þurfum hann í gang.
    Gomez var algerlega solid í miðverðinum, flottur leikur hjá honum.
    Stewart var frábær á miðjunni, hann fer að ýta Can út ef Can fer ekki að girða sig.
    Woodburn og Wilson eru flottir.

    En stjarnan var 17 ára gutti Rhian Brewster.
    Ekta framherji, öskufljótur, flottar fyrstu snertingar hvort sem hann er að linka við aðra eða hreinlega að láta vaða. Skoraði flott mark í held ég debut hjá U-23.
    Þessi verður eitthvað 😀

    YNWA

  16. Uhhh.
    Var liðið með brotið sjálftraust á Old trafford um daginn. Þa var mikill kraftur i Liverpool og sjalftraustið i botni.
    Þo Liverpool spili illa og tapi einum leik þá þyðir þsð ekki að leikmenn Liðsins geti ekkert og klopp ömurlegur þjálfari.
    Þessi Swansea leikur var hikst það vantar Mane, Matip kemur i næsta leik Coutinho er að nalgast besta form . Hendersohn er greinilega sð glíma við meiðsli.
    Við erum að eiga við meiri meiðsli og vesen en hin liðin í kringum. okkur( Matip)
    Liverpool er lið í uppbyggingu .
    Gefið Klopp tíma og ekki heimta höfuð hans þegar liðið tapar fyrsta leik a heimvelli í heilt ár.
    Ef einhver hefði sagt mer í haust að Liverpool yrði í bullandi séns á öðru sæti í deildinni í janúar hefði eg tekið því.
    Klopp þarf einn sumarglugga í viðbót.
    Þolimæði krakkar please.

  17. Vont að þurfa að treysta á leikmenn sem missa heilan mánuð vegna Afríkukeppninnar og engan veginn undarlegt að liðið hrynur í janúar.

    Klúðrið er algjörlega hjá managementinu. Annars vegar missum við besta leikmann okkar í Mane, enginn til að taka við. Svo kemur drullan með Matip og kom þá á daginn að Ragnar er ekki alveg einn besti miðvörður í heimi þó svo hann hafi grísað á örfáa góða leiki í röð.

    Þetta er einfaldlega ekki nógu gott og erfitt fyrir Klopp og félaga að skýla sér bakvið einhver meiðsli. Þeir hefðu einfaldlega átt að vera búnir að teikna þetta og ver leysa það síðasta sumar.

  18. …. teikna þetta upp og vera búnir að leysa það síðasta sumar” átti þetta að vera.

  19. Þetta var ekki góður leikur og vörnin í marki 1 og 3 ekki góð. Virkilega svekkjandi og liðið hefur reynt á taugarnar á manni síðustu viku. Jafnvel Klopp er ólíkur sjálfum sér bæði argur og pirraður. En við eigum öll okkar slæmu augnablik og jafnvel tímabil.

    Það þarf mikla bjartsýni til að halda að Liverpool verði meistari með þennan mannskap, rétt er það. Ég held að t.d. Klopp hafi aldrei dottið slíkt í hug og hefur aftur og aftur varað við of mikilli bjartsýni. Þetta er “langes Rennen” segir hann gjarnan og fram til þessa gengur langhlaupið samkvæmt áætlun í stórum dráttum eins og ég sé þetta.

    Liverpool er 2 stigum frá öðru sætinu og, ef við sleppum óraunhæfum meistarapælingunum, á sjens í tvo bikara auk þess að hafa spilað tvo úrslitaleiki í fyrra. Þá er liðið betur mannað í dag þrátt fyrir allt. Flest kaupin hafa gengið upp og þarna veit Klopp sínu viti eins og ég kem að síðar.

    Maður sér í athugasemdum við þennan leik að Klopp eigi bara að kaupa mann og annan. Hvaða leikmenn er verið að ræða um nákvæmlega? Hvaða leikmenn eru núna á markaðnum t.d. sem geta fyllt skað Mané? Hvaða markmenn eru til sölu sem eru svona miklu betri en okkar? Hvaða sóknarmenn eru þarna o.s.frv.? Vita menn um einhvern super miðvörð þarna úti til sölu? Mikið væri gaman að fá fram þessi nöfn eða getur verið að menn séu bara að fabúlera um eitthvað sem ekki festir neina hönd á?

    Eini leikmaðurinn sem ég veit að mun mjög líklega koma til Liverpool í sumar er Mahmoud Dahoud frá Gladbach. Það er tilhlökkunarefni enda snillingsefni þar á ferðinni. Annað heyrir maður ekki í vínberjalundinum sem þýðir einfaldlega eitt eða fleira af þrennu; Liverpool hefur ekki áhuga, leikmenn hafa ekki áhuga eða leikmenn eru ekki til sölu.

    Ég ætla að treysta “the Klopp way” þarna. Hann gæti hugsanlega átt spaðaás uppi í erminni eins og þegar hann fékk Shinji Kagawa og Lukasz Piszczek ókeypis til Dortmund og þá má ekki gleyma að Lewandowski, Gundogan og Hummels voru búnir til úr engu nema af þá óuppgötvuðum hæfileikum af Klopp. Ég man í svipinn aðeins eftir 2 leikmönnum sem segja má að Klopp hafi keypt fyrir alvöru peninga þ.e. Marco Reus og Mkhitaryan en samt bara smáaura miðað við verðmæti þessara leikmanna í dag eftir handleiðslu Klopp.

    Eitt veit ég að Klopp mun seint gera eins og tíðkaðist stundum undir Brendan Rodgers að kaupa leikmenn og svo seinna að reyna að finna út úr hvað á að gera við þá? Hér á þessari síðu hafa ófáir reitt hár sitt og skegg í örvæntingu sínu yfir þeim ósköpum. Vonandi samt ekki þeir sömu og núna heimta að Klopp taki upp veskið og splassi peningum í einhverja ótilgreinda leikmenn þó að liðið sé í tímabundinni lægð.

  20. það koma ràð og það koma betri tímar. Verum ekki of neikvæðir þó à móti blàsi. Kannski hefur þróunin verið of hröð upp à við síðasta àrið og þà er eðlilegt að liðið hiksti. Framtíðin er björt!!!

  21. Mæltu manna heilastur leiftursóknarmarskálkur. Desperation er ekki góður jarðvegur fyrir stórar ákvarðanir og enginn vill nýjan Carrol, Baló eða Benedikt.

    Sá hins vegar blálokin af leikum í dag, þegar ég hélt að Burnley ætluðu að veita okkur skussaskjól og halda jöfnu gegn Arsenal. Þvílíkur maður sem þessi Sansés er! Baráttan og sigurviljinn skein út úr hverjum svitadropa og ákafinn í honum fyllti Burnley-menn ótta og ugg sem leiddi af sér klaufagang í blálokin og viti menn? Þeir unnu, skollarnir af þeim. Samherjar smituðust af eldmóðnum og ólmuðust eins og tuddar þótt einum manni væru þeir fámennari.

    Já, krakkar mínir. Þetta er munurinn á drengjum og fullorðnum. Það er sorglegt að sjá vonina slokkna í augum okkar manna þegar á móti blæs. Nú, eða einhverja glæpsamlega ofmetakennd þegar þeir mæta þessum smáhundum.

    Okkur til varnar ber að nefna að við erum með ungt lið og reynslan drýpur ekki af mönnum. Það ætti þó að standa til bóta með hverju árinu sem líður. Reynslan, maður, reynslan. Þurfum að passa okkur á því að klára ekki leikmenn á fyrstu mánuðum. Ekkert grín hvað menn meiðast í höndum Klopparans. Þurfum að hafa ærlegt bakköpp. Og hvað er málið með Origi og Sturridge? Ef þeir spiluðu á pari, hefði það lyft okkur yfir þann hjall á þeim tímum sem liðið hefur mest þurft á því að halda.

    Nú sjáum við til og vonum að vorið komi þrátt fyrir allt, þótt ekki gangi alltaf allt í haginn fyrir okkar heittelskuðu rauðliða. Það er súrsætt að vera ánetjaður þessu liði.

  22. Þvílík veisla sem er framundan í úrvaldsdeildinni í vetur.

    Chelsea líklega meistara eru með 55 stig og eru mjög sterkir í vörn og sókn.

    Arsenal eru í 2.sæti með 47 stig en mér finnst þeir ekki hafa verið mjög sanfærandi. Vörnin er brotthæt og sóknin eins og jójó.

    Spurs eru í 3.sæti með 46 stig. Þetta er liðið sem er eins solid og þau gerast. Gríðarlega sterkir í vörn og vel skipulagðir og fá alltaf færi sem þeir eru að nýta ágætlega. Svona næsta skref fyrir aftan Chelsea.

    Liverpool eru í 4.sæti með 45 stig – ég held að stórliðinn hata að spila á móti okkur en þau litlu sjá möguleikan með því að pakka í vörn en við höfum ekki verið að finna lausnir. Vörnin heilt yfir slök en þegar við erum að spila vel sóknarlega þá er ekkert lið með tærnar þar sem við erum með hælana.

    Man City eru í 5.sæti með 43 stig – frábært sóknarlið en eins og við eru þeir lélegir í vörn.

    Man utd eru í 6.sæti með 41 stig – eftir erfiða byrjun þá hafa þeir verið að komast í gang. Virka samt ekki mjög sterkir sóknarlega en vörninn hefur verið að solid. Það hefur hjálpað þeim að skora 7 rangstöðumörk á tímabili en Móri er að fara í rétta átt með þetta lið og hjálpar kannski að vera með ríkasta lið heims og hafa fengið að versla dýrasta leikmann heims.

    Það er 16 leikir eftir af tímabilinu og við eigum eftir að sjá allskonar breyttingar milli liða. Munu meiðsli, evrópuálag, smá heppni(jájá menn skapa sína heppni og allt það kjaftæði) og svo stöðuleiki vera lykilinn á lokasprettinum.

    Ég er bara bjartsýn fyrir okkar stráka. Afhverju?
    1. Klopp – ég hef bullandi trú á þeim manni að hann munn halda liðinu gangandi.
    2. Matip – hann er að koma aftur og hann er stöðuleikinn í vörninni sem okkur hefur vantað.
    3. Coutinho – er að komast í gang og þá verðum við enþá hættulegri.
    4. Mane – kemur til baka fljótlega í Febrúar en hann er lykilmaður í okkar liði.
    5. Leikjaálag – fer minnkandi hjá okkur eftir deildarbikarinn og FA Cup er bara deildinn eftir en sum lið í kringum okkur verða í Evrópukeppni.

    Djöfull er maður pirraður útaf þessum Swansea leik. Svona svipað og eftir Burnley og Bourmouth leikina en eins og eftir þá leiki héldum við áfram og náðum góðum úrslitum og ég hef trú að við gerum það.

    Ég ætla að vera bjartsýn og spá meistaradeildarsæti og bikar(FA Cuð eða deildarbikar)

    YNWA og við förum brosandi inn í sumarið

  23. Þó að ég sé mikill Klopp aðdánadi þá skrifa ég þennan ósigur algjörlega á hann – þetta var mikið vanmat og td. að láta Matip ekki spila sýnir að hann vanmat Swansea, hélt að þetta yrði auðveldur leikur. Eins fannst mér hvað hann var óvenju rólegur á bekknum og lét lítið fyrir sér fara, eins og hann væri öruggur með sigur

  24. Sammála Magnúsi. Tapið skrifast á Klopp sem hafði lang besta miðvörðinn okkar á bekknum nánast allan leikinn. Klavan / Lovren er fullkomlega afleitt miðvarðapar sem dettur inn á einn og einn góðan leik.

  25. Sadio Mané er lykilmaður og það virðist enginn koma í hans stað í þessu liði.

    Við höfum tapað 3 leikjum í deild á þessu tímabili:
    Burnley 2-0 (Mané ekki með)
    Bournemouth 4-3 (Staðan var 3-1 f. LFC þegar hann var tekinn út af)
    Swansea 3-2 (Mané ekki með)

    Töpuðum fyrir Southampton í deildarbikarnum án hans líka.

  26. #23 og #24.
    Ég sá u23 leikinn í dag þar sem Matip spilaði 60 mín á móti u23 Ipswich.
    Hann var eilítið ryðgaður, gaf t.d. næstum mark en gerði alveg gott á milli.

    Kannski var hann einfaldlega ekki tilbúinn og ekki að ástæðulausu að hann taki run með u23 liðinu.

    Klopp veit líklega aðeins meira en þið hver staðan er og hvað best er að gera 🙂

    Vonandi nær Matip heilum leik á miðvikudag.

    YNWA

  27. Klopp svaraði fyrir það afhverju Matip byrjaði ekki inná.

    Hann var búinn að vera með þrjár æfingar til að undirbúa liðið fyrir þennan leik og þar voru Raggi/Lovren í miðverðinum. Svo fær hann fréttir klukkan 20:00 um að Matip má spila og því engin undirbúningur til að henda honum beint í liðið fyrir utan að hann hefur ekki verið að spila eins og ryðgaður leikur með U23 sýndi í dag.

    Þessi leikur einfaldlega tapast á þriðjamarkinu. Eftir að staðan er 2-2 og allt með okkur þá gefum við þetta klaufalega mark. Þar sem Klavan(Raggi) hreinsar boltan beint á Gylfa.

    Þetta lið sem Klopp stilti upp í fyrir þennan leik var ekkert vanmat heldur okkar sterkasta lið sem var í boði. Hefði hann átt að henda Matip beint í liðið eftir fréttinar kvöldið áður? Hann mat það sem svo að hann gæti ekki gert það og fáum við aldrei svarið við því hvað Matip hefði geta breytt miklu og hvort að hann hefði verið tilbúinn.
    Við skulum ekki gleyma því að Klavan/Lovren hafa verið stundum í miðverðinum í virkilega flottum sigrum t.d 1-0 sigur gegn Man City þar sem þeir fengu mikið hrós.

  28. Ok. Matip var ryðgaður. En ég fer ekki ofan af því að Lovren / Klavan er afleitt miðvarðarpar, og að Matip í 50% standi er betri en þeir tveir til samans.
    En það að Klopp viti meira en ég um fótbolta… já, það þarf engan geimfræðing til að fatta það.

  29. Eftir að Lallana var látinn taka stöðu Mane framan á vellinum hefur miðjan hrunið. Hún hefur ekki varið vörnina nægjanlega, og þar er auðvelt að sækja á Klavan. Sem er mjög óöruggur á móti fljótum mönnum. Þetta lagast þegar Matip kemur inn fyrir Klavan. Og vonandi verður Lallana færður á miðjuna aftur til að fá þar sprengju kraftinn. En ég treysti Klopp fyrir þessu.

  30. Er í fótboltaþunglyndi og hlakka mikið til þegar þessi færsla verður færð niður! Ég ætla rett að vona að Klopp hafi látið menn heyra það eftir þetta ömurlega vanmat. Verðum að styrkja hópinn i janúar!

  31. Það er eðlilegt eftir svona leik að menn leggist í smá þunglyndi, enda hefur þessi íþrótt þau áhrif á mann, langt út fyrir landamæri og heimsálfur jafnvel.

    Eftir gengi síðustu vikna er alveg jafn eðlilegt að margir hugsi með sér að leikmannahópurinn sé ekki nógu góður. Sjálfur er ég í þeim flokki. Klopp er búinn að keyra mestmegnis á sömu 15 mönnunum allt tímabilið og þótt ég þoli ekki að menn tali um leikjaálag og annað slíkt, þá geri ég mér fulla grein fyrir því að það er virkilega þörf á að hafa til taks leikmenn sem geta komið inn í liðið án þess að það bitni á úrslitunum eða frammistöðunni.

    Það er hins vegar í hæsta máta óeðlilegt að krefja menn um svör um hvaða leikmenn eigi að kaupa til að bæta hópinn, eins og Guderian #19 gerir. Við erum bara áhugamenn um fótbolta og ástríðufullir fyrir okkar klúbb. Ef við vissum hvaða leikmenn hjá öðrum liðum væru sannanlega til sölu, þá værum við væntanlega ekki að pósta slíku yfir alnetið heldur værum við í vel borguðu starfi hjá einhverju knattspyrnuliði úti í heimi! 🙂

    Ég get hins vegar sagt það að mér finnst okkar fyrstu 11 vera frekar góðir:

    Mignolet
    Clyne – Matip – Lovren – Milner
    Lallana – Henderson – Gini
    Mané – Firmino – Coutinho

    Vandamálið er hins vegar hvað á að gera þegar einhver af þessum mönnum dettur út. Coutinho meiðist og Klopp leysir það með að færa Lallana í framlínuna (úr sinni bestu stöðu, hann hefur verið okkar besti leikmaður ásamt Cout og Firmino) og setja Can inn. Mikil mistök. Mané fer á Afríkumótið og Origi kemur inn, og þá er Firmino tekinn úr sinni bestu stöðu og færður á kantinn, þar sem hann týnist. Matip meiðist og Klavan kemur inn. Hann er ágætur sem 4ji miðvörður en hann er búinn að fá að spila allt of mikið miðað við getu.

    Ergo, það þarf einfaldlega betri leikmenn í hópinn. Hverjir það eru, get ég ekki sagt til um. Ég veit hins vegar að fæstir leikmenn eru til sölu fyrr en það kemur tilboð í þá. Sem dæmi var Torres ekkert til sölu á sínum tíma, fyrr en Chelsea bauð í hann. Sama má segja um Luis Suarez. Og svo má lengi halda áfram.

    Homer

  32. Það er búið að finna leið til að stöðva Liverpool, það er augljóst. Nú þarf Klopp að finna leið framhjá þessari leið, hvaða leið er það, allavega eru það ekki leikmenn einsog Origi og Sturage, þeir virðast allveg hverfa í svona leikjum, við þurfum Suarez týpu,, ég ætla ekki að vera svo bjartsýnn að við reynum að fá Suarez til baka.

  33. Aldrei verið jafn margir íslendingar á Anfield og á þessum leik. Stemmingin aldrei verið jafn léleg. = merki þarna á milli? Nei djók. Djöfull var þetta pirrandi samt.

  34. Sælir félagar

    Tek undir það sem Homer #31 segir um okkur áhugamennina og það að við eigum að koma með tillögur að mannakaupum. Eina er ég ósammála því að menn eigi bara að vera rólegir yfir þessu síðasta tapi. Það væri ef til vill hægt að sætta sig við að tapa fyrir Chelsea á heimavelli einfaldlega af því að þeir væru betri og ættu sigur skilinn. En að tapa fyrir neðsta liðinu í deildinni og það á heimavelli er bara fullkonleg óásættanlegt.

    Þó það sé ekki “heimsendir” er það samt nánast algert niðurbrot á vonum stuðningsmanna á góðum árangri í deildinni þetta árið. Eins og ég hefi bent á annarstaðar þá kenni ég Klopp um það alveg eins og ég þakka honum árangurinn fram að des/jan ömurðinni. Það þýðir samt ekki að ég vilji hann burtu. Nei alls ekki hann á að fá einhver ár til að búa til sigurlið sem verður í alvarlegri toppbaráttu og ræður við það. En þetta tap á móti Swansea er til skammar hvernig sem á það er litið.

    Það er nú þannig

    YNWA

  35. Gerrard kominn með vinnu á melwood.
    Markovic lánaður til Hull.
    Klopp hélt “krísufund” á sunnudaginn.
    Leikmannaslúður !!!
    Eru menn alveg hættir að skrifa pistla ?

  36. Hehe til lukku með ofeldið di Stefano 😉

    Þar sem það er leikur á morgun held ég niðri í mér andanum í spennu fyrir upphitun 🙂

Liverpool – Swansea 2-3 (leik lokið)

Podcast – Botnliðið, auðvitað!