Sunderland 2 Liverpool 2 [skýrsla]

0-1 Daniel Sturridge 19. mín.
1-1 Jermain Defoe (víti) 25. mín.
1-2 Sadio Mané 72. mín.
2-2 Jermain Defoe (víti) 84. mín.

BESTU LEIKMENN LIVERPOOL
Það er mjög erfitt að kalla marga leikmenn til hér. Liðið var ekkert sérstakt í dag, frekar en mótherjarnir. Leikurinn einkenndist af kaflaskiptum hálfleikum, hálffærum og skotfærum og kraftleysi eða óvönduðum sendingum þegar möguleiki var á einhverju.

Markverðirnir Simon Mignolet og Vito Mannone stóðu upp úr, oft voru skotin á þá full auðveld miðað við möguleikana en þeir vörðu vel það sem kom að þeim og verða ekki sakaðir um mörkin fjögur.

VONDUR DAGUR
Þessi liður ætti sennilega að heita Þreyttur dagur í þetta sinn. Það kom á daginn að 43 klst. (nætursvefn, æfing, ferðalag til Sunderland, nætursvefn og leikur) er ekki nóg fyrir lið af jafn háu kalíberi og Liverpool til að jafna sig svo hægt sé að ætlast til að liðið spili samkvæmt getu. Þetta var bara afskaplega flatt, þreytulegt og ónákvæmt í dag. Í stað þess að gagnrýna leikmenn fyrir frammistöðuna er frekar hægt að tala um þreytuna. Emre Can og Roberto Firmino virkuðu þreyttastir og gáfu reglulega á mótherja allt frá byrjun leiks, restin af útispilurunum virkuðu svipað þreyttir og sá eini í liðinu sem var óþreyttur meiddist að sjálfsögðu og þurfti að fara út af.

Þetta var samt vondur dagur fyrir Jürgen Klopp. Hann getur ekki setið á blaðamannafundum og sagt okkur að hópurinn sé frábær og hann treysti mönnum, og gert svo eina (tilneydda vegna meiðsla) breytingu á milli leikja þegar hann hefur bara 43 klst. fram að næsta leik. Ef maðurinn róteraði ekki í dag, hvenær þá? Það er augljóst að hann treystir varla nema 14-15 manns í hópnum, og þegar 2-3 þeirra eru fjarri vegna meiðsla þýðir það að hann sendir örþreytta leikmenn inn á völlinn frekar en að gefa Moreno, Alexander-Arnold, Stewart, Ejaria eða álíka strákum séns.

Mér hefði fundist lítið að sjá bara Lucas og Moreno koma inn í byrjunarliðið auk Sturridge í dag. En bara Sturridge? Klopp hefur fellt sinn dóm um leikmannahópinn í dag. Ef leikmannaglugginn væri nú bara opinn …

UMRÆÐAN EFTIR LEIK
Einhverjir vilja tuða yfir dómaranum en hann náði stóru dómunum í leiknum rétt að mínu mati, þótt aukaspyrnan á Lucas hefði verið vafasöm í lokin var það ekki það sem kostaði okkur stig. Auðvitað verður breiddin svo rædd eins og ég kom inn á hér að ofan.

Síðasti punkturinn er svo náttúrulega staðan í deildinni. Eftir leik var Klopp strax spurður hvort hann játaði sig sigraðan í baráttunni um titilinn, sem er fáránleg spurning. En það er engin venjuleg staða uppi í þessari deild. Liverpool er enn næstefst og verður það hvernig sem leikir Arsenal og Tottenham fara á morgun og miðvikudag, en Chelsea geta samt náð átta stiga forskoti ef þeir vinna á miðvikudag.

Þetta tímabil hefur verið frábært. Liðið er að fara að leika í undanúrslitum Deildarbikarsins og hefur náð í fleiri stig á hálfu tímabili en nokkru sinni síðan að titillinn vannst síðast. Og samt eru fjögur lið að narta í hælana á okkur í deildinni og efsta liðið að hóta að gera nánast út um keppnina í janúar.

NÆSTU VERKEFNI
En við höldum áfram að hugsa jákvætt. Næsti deildarleikur er á Old Trafford eftir tólf daga, þeir eru nú fimm stigum á eftir okkar mönnum svo að það verður hart barist þar. En fyrst verður leikið í báðum bikarkeppnum. Kjúklingarnir hljóta að fá séns gegn Plymouth um helgina áður en aðalliðið mætir aftur gegn Southampton eftir níu daga. Þá verður liðið án Sadio Mané en vonandi verða Phil Coutinho og Joel Matip mættir í vinnuna á ný, og hver veit nema að það verði nýtt andlit í hópnum þá.

YNWA

12 Comments

  1. Nú er bara að spíta í lòfana og halda áfram ekkert bölmóðs röfl, næsta leik takk. You never walk alone.

  2. Æji.. já þetta var sárt því liverpool gat sett pressuna á Chelsea og haldið sér frá 3 sætinu.

    En það er víst málið að taka stigið í dag og vinna með þessa stöðu…

    Það má ekki gleymast í umræðunni að fyrirliði liðsins er frá sem og countinio sem var talin einn besti leikmaður deildarinnar í byrjun móts svo vel var hann að spila ásamt líklega okkar besta hafsent og margir töluðu um sem kaup ársins í byrjun.

    Ég hef fulla trú á að liðið nái aftur vopnum sínum og fari að taka stóra sigra aftur..

    Og Chelsea er ekki að fara vinna rest þeir hljóta að taka Down tímabil og þá er eins gott að vera en í séns .

  3. Hárrétt greining hjá pistlahöfundi hvað breidd hópsins okkar varðar. Við megum alls ekki við meiðslum og 3 bestu leikmenn liðsins voru ekki með i gær. Við verðum að auka breiddina, þeas ef menn ætla ser eitthvað meir en þessa fjórðusætikeppni! Mótið er hálfnað og við erum i mjög góðum málum með 2,2 stig úr hverjum leik og skorum eins og sunnanvindurinn. Hlakka mikið til að sjá hverjir bætast í hópinn okkar í janúar og i sumar. Er ennþá rasandi reiður yfir því að sjá chelskí fá helmingi meiri hvíld en okkar menn i þessari umferð. Þetta eru forkastanleg vinnubrögð

  4. Ekki gleyma að njóta. Skítaúrslit en tímabilið er enn yfir væntingum.

  5. Kæru félagar.

    Gleðilegt ár og takk fyrir samfylgdina á því gamla. Ef einhver hefði sagt mér, fyrir 2 árum síðan að ég yrði alveg eyðilögð yfir jafntefli þá hefði ég haldið að sá hinn sami væri ekki með réttu ráði.
    Þetta var nefnilega ekki tap heldur jafntefli en maður minn hvað það var sárt og ég gat ekki á heillri mér tekið í allt gærkvöld. Ég held að þetta sé lúxusvandamál að geta verið sár og fúll yfir jafntefli. Meira að segja minn maður Klopp var hundfúll.

    En ég var ekki í réttu vinnunni þegar leikurinn fór fram….ekki síðasta leik heldur þar á undan var ég ekki heldur í vinnu en ég lét sem ég væri í vinnu. Fór í hvítan slopp og sat inni í herbergi og las Sérlyfjaskránna og viti menn þeir unni. Á gamlársdag sat ég inni í herbergi og lét betri helmingin sms mér gang mála (eins og hann gerir þegar ég er að vinna) Niðurstaðan af þessu er sú að ég verð að vera í vinnu (réttu vinnunni) og má bara ekki horfa á allan leikin.
    Kæru félagar það verður ekki tekin áhætta aftur hér eftir verð ég í vinnunni þegar okkar menn eiga leik(nema þegar ég verð á Anfield en það er síðasti leikurinn) eða þykist vera þar. Ótrúlegt að ég venjulega manneskja af flestum talin nokku skynsöm og venjuleg skuli halda að ég geti breytt gangi leiks með einhverju ákveðnu háttalagi en svona er nú bara þetta fótboltalíf maður telur sér trú um að allt sem maður geri hafi áhrif…auðvita trúi ég því ekki en samt ég þori ekki að taka sénsinn.

    Mín ósk í upphafi tímabils var að lenda í fyrstu 4 sætunum eða ofar en Tottenham mín ósk er enn sú sama nema nú vil ég líka lenda fyrir ofan City og Utd. og Arsenal …úff þá er það víst bara 1-2. sætið. Ég hef trú á Klopp og því sem hann er að gera þetta er bara fyrsta heila tímabilið við eigum eftir að hafa hann hjá okkur í mörg ár. Hann segist vilja enda ferilinn hjá okkur og hann er kornungur og á því mörg mörg ár eftir.

    Kæru félagar …ég trúi
    Þangað til næst
    Sigríður

  6. Það var búið að benda á þennan leik sem höfuðverk í október. Kæmi mér ekki á óvart, að álagið þennan mánuð með bikarkeppnunum og Mane fjarverandi gæti átt þátt í að liðið tapi fleiri stigum. Klopp er samt maðurinn með stjórnartaumana og myndi ég ekki skipta á honum og Mourinho, Conte og Guardiola þótt þeir myndu gerast þjálfaratríó og vilja koma til Liverpool.

  7. Það er reyndar alveg ótrúlegt að Liverpool hafi spilað 3 leiki á tæpum 144 klst meðan celski spili 3 leiki á 223 klst, og southampton á aðeins 117 klst. Hvaða fífl eru að raða niður leikjum í þessari deild ????

  8. Er það rétt að þessi Virgil van Dijk sé með klásúlu upp á 25 milpunda, ef svo er þá væri mjög serkur leikur að fá hann, ég er meira til í að fá góðan miðvörð en annan framlínumann þó svo ég tæki því líka fagnandi 🙂 og gleðilegt á kæru vinir.

  9. Sæl öll.

    Nú ætla ég setja út í cosmósið eina ósk…þessi ósk mun líklega aldrei sjást frá mér aftur og ég vona að fleiri taki undir…Þú þarna fótboltaguð viltu láta Tottenham vinna í kvöld og helst stórt……Takk kærlega

    Ég trúi…..

Sunderland v Liverpool [dagbók]

Podcast – “Tjallinn ætlar bara að keyra vinstra megin þar til þessi pláneta er búin”