Hversu mikið spilar “byrjunarliðið”?

Fjarvistir lykilmanna geta hæglega skorið úr um leiki, það segir sig sjálft. Auðvitað skipta fjarvistir lykilmanna misjafnlega miklu máli, það er sem dæmi allajafna ekki jafn stórt högg að missa vinstri bakvörð og það er að missa helsta markaskorara liðsins. Allar fjarvistir hafa engu að síður áhrif á þá keðju sem liðsheildin er og því meiri sem þær eru því meira kemur það væntanlega niður á leik liðsins.

Öll lið í nútíma fótbolta samanstanda af 25-30 manna leikmannahópum sem hjálpar liðunum við að takast á við fjarvistir lykilmanna en hjá flestum liðum er nokkuð auðvelt að sjá hvaða 11-16 eru lykilmenn.

Samkeppnin á Englandi hefur aukist verulega undanfarin ár og mun fleiri af hinum svokölluðu minni liðum hafa núorðið bolmagn til að vera miklu betur samkeppnishæf og njóta oft góðs af því að missa sjaldnar lykilmenn í meiðsli þökk sé mun minna leikjaálags. Leicester sýndi á síðasta tímabili að bókstaflega allt er mögulegt, sérstaklega ef liðið sleppur nánast alveg við meiðsli.

Toppbaráttan á Englandi er svo jöfn um þessar mundir að aðeins tvö stig skilja að efsta sætið og sjötta sætið ef allar þrjátíu umferðir ársins 2016 eru lagaðar saman. Þegar staðan er svona jöfn er ljóst að hvert einasta atriði sem eykur líkur á sigri skiptir máli.

Einn mælikvarði er að skoða mínútufjöldan sem lykilmenn toppliðanna spiluðu yfir heilt tímabil. Þetta svarar ekki öllum spurningum en kannski opnar á vinkil sem við höfum ekki mikið skoðað í tölum. Það að horfa á spilaðar mínútur tekur ekki mið af heilsu leikmanna meðan þeir spiluðu, okkar menn voru sem dæmi oft að spila 2-3 leiki á viku á síðasta tímabili. Eins er ekki tekið mið af meiðslum eins og þeim sem Henderson var að glíma við en spilaði oft þrátt fyrir að vera meiddur. Þessi mælikvarði er ekki nærri því fullkominn frekar en aðrir mælikvarðar í fótbolta en spilaðar mínútur gefa okkur engu að síður ágæta hugmynd um hvað liðin voru að glíma við.

Hvað spilaði “besta byrjunarliðið” mikinn hluta af tímabilinu?

Hvernig var besta byrjunarlið Liverpool á síðasta tímabili í samanburði við liðin sjö sem enduðu fyrir ofan og hvernig er núverandi tímabil í samanburði við undanfarin ár hjá okkar mönnum. Þetta langaði mig að skoða betur og til þess að gera það setti ég upp besta byrjunarlið hvers liðs út frá blöndu af mínútum spiluðum, augljósu mikilvægi leikmanns og huglægu mati. Sem dæmi tel ég Sturridge klárlega með sem byrjunarliðsmann hjá Liverpool þó hann hafi spilað mjög lítið. Sama á við um leikmenn í öðrum liðum sem væru klárlega (að ég held) byrjunarliðsmenn væru þeir heilir, Vincent Kompany sem dæmi flokka ég sem byrjunarliðsmann hjá Man City.

Hvert lið er með 25-30 menn á skrá og það er ekki til neitt ellefu manna byrjunarlið sem spilar saman 38 leiki (Leicester fór reyndar ansi nálægt því). Því er ljóst að ekki er hægt að stilla þessu upp þannig að allir séu sammála. Ég er búinn að liggja töluvert yfir þessu og útskýri hvert lið betur neðar í færslunni.

Svona kemur minn samanburður út þegar borið er saman bestu byrjunarlið efstu liðanna á síðasta tímabili.

2015-16-samantekt
Hér má sjá hvernig hverju liði var stillt upp


Það sem stendur upp úr þarna er munur á spilatíma sóknarmanna Liverpool í samanburði við hin liðin, þeir leikmenn sem ég flokka sem fremstu fimm í fyrra spiluðu minna en 50% af deildarleikjunum, þetta eru okkar mikilvægustu leikmenn.

Eins sést þarna vel hversu ótrúlega vel Leicester slapp við meiðsli í fyrra. Þeirra bestu menn spiluðu samtals 86% af tímabilinu eða 78 mínútur að meðaltali í hverjum leik. Aðeins 12% leiktímans kom frá varamönnum sem flestir komu inná í leikjum Leicester frekar en vegna langtímameiðsla. Þeir notuðu nánast ekkert menn sem ekki voru í 18 manna hópnum. Leicester gat stillt upp sínu besta liði 22 mínútum lengur að meðaltali heldur en Liverpool á síðasta tímabili.

Tottenham gat notað sína bestu menn í 75 mínútur af hverjum leik á meðan Liverpool gat stólað á sitt besta lið í 56 mínútur af hverjum leik. Það er því kannski ekki furða að okkar menn hafi verið óstöðugir. Það vantaði að meðaltali 4,2 lykilmenn í lið Liverpool í hverjum leik. Eins verður að hafa í huga að þetta voru alls ekki alltaf sömu leikmennirnir sem voru frá og því auðvelt að ímynda sér hversu lítill stöðugleiki var á liðinu.

Bestu menn Man Utd og Man City misstu af 1/3 spilaðra mínútna en stórir hópar þessara liða gera það aðeins erfitt að meta “besta byrjunarliðið”. Hjá bæði Liverpool og Man Utd fengu meira en 30 leikmenn spilatíma og þessi hlið eru með langstærsta hlutfallið yfir spilaðar mínútur frá leikmönnum sem ég flokka fyrir utan 18 manna hópinn.

Þrjú efstu liðin síðasta vetur náðu að spila á sínu besta byrjunarliði töluvert oftar en liðin fyrir neðan. Auðvtað er ekki nóg að bestu menn liðsins geti spilað, þeir þurfa einnig að vera nógu góðir en kannski náði Leicester að brúa eitthvað af fjárhagslega bilinu þarna, þeir lentu nánst ekkert í meiðslum og höfðu alla vikuna til að undirbúa sig fyrir hvern leik.


Samanburður á bestu byrjunarliðum Liverpool undanfarin ár

Leikjaálagið á þessu tímabili hefur aðeins verið sýnishorn af því síðasta hjá Liverpool og okkar lykilmenn hafa mun oftar náð að spila deildarleikina. Viti menn liðið er á toppnum.

liverpool-samantekt
Hér má sjá hvernig hverju liði var stillt upp

Samkeppni um stöður nú í bland við lítið leikjaálag gerir það mun meira að verkum að okkar “besta byrjunarlið” hafi ekki spilað meira en 79% það sem af er þessu tímabili. Winjaldum er t.a.m. á bekknum og þegar einhver af Mané, Coutino eða Firmino hafa misst úr leiki kemur Sturridge inn.

Tímabilið 2013/14 spiluðu fremstu fimm leikmenn Liverpool 76% af tímabilinu sem er það mesta sem við höfum séð á þessum áratug. Þetta kemur líklega lítið á óvart og ennþá minna að mun meira rót var á vörninni sem spilaði aðeins 63% leiktímans á sínum bestu mönnum.

Tímabilið 2010/11 er hálf ónýtt í þessum samanburði (reyndar bara í öllum samanburði) þar sem liðinu var breytt svo mikið í janúar. Til að rétta það aðeins af bætti ég mínútum Suarez og Carroll við mínútur Torres og N´Gog. Það tímabil var spilað töluvert mikið á okkar bestu mönnum, þeir voru bara ekki nógu góðir og því síður helmingur þjálfaranna.


En til að skilja betur hvað er á bak við þessa uppsetningu hjá mér læt ég fylgja með útreikningana fyrir hvert og eitt lið ásamt útskýringum þar sem við á.

Liverpool 2016/17 – 11 umferðir

16-17-liverpool

Ekki erfitt að stilla upp besta liði Liverpool á þessu tímabili. Winjaldum er gríðarlega góður kostur sem tólfti maður úr því ég flokka hann sem varamann. Spilatími Sturridge og Origi er lítið skárri núna en á síðasta ári en telur auðvitað alls ekki eins mikið enda Sturridge ekki partur af “besta byrjunarliðinu” núna en var það klárlega í fyrra. Coutinho hefur svo spilað 85% af mínútum þessa tímabils en aðeins 58% af síðasta tímabili.

Liðið er líka að spila saman eins og ein heild og því augljóst að það mun hafa áhrif ef við verðum aftur án 4,2 “byrjunarliðsmanna” að meðaltali yfir heilt tímabil.

Mæli eindregið með grein sem kom á ESPN um mikilvægi þess að vera ekki í Evrópukeppni. Sérstaklega ekki Evrópudeildinni sem er bara ekki þess virði þegar titillinn er markmiðið heimafyrir.


Tímabilið 2015-16 – Spilatími hjá átta efstu liðunum

Skoðum aðeins hvað er á bak við þessar tölur, hvernig ég er að stilla upp “bestu byrjunarliðunum”. Hér er ekki séns að allir séu sammála en þetta gefur vonandi einhverja hugmynd um fjarvistir lykilmanna í deildarleikjum síðasta tímabils. Fjarvist getur verið hvað sem er (meiðsli, hvíld/bekkjarseta, bann o.s.frv).

Liverpool 2015-16

15-16-liverpool
Liverpool notaði 34 leikmenn í deildinni síðasta vetur sem skýrir að hluta hatur mitt á Evrópudeildinni. Auðvitað er erfitt að miða ekki við Milner sem byrjunarliðsmann en ástæðan fyrir því að hann er bakvörður núna er að þessir leikmenn (efstu fimm) eru heilir núna. Aðeins Clyne og Mignolet voru að spila jafn mikið og allt lið Leicester að meðaltali. Svona miklar fjarvistir kosta mjög mikið af stigum.

Það hefur ekki teljandi áhrif á heildarútkomuna að skipta einhverjum inn sem ég flokka sem varamann. Lið eru vissulega með 25-30 manna hópa til að nota þá en það virðist alls ekki vera gott fyrir stöðugleika að nota of marga leikmenn utan 18 manna hópsins. Liverpool spilaði 12% af mótinu á leikmönnum sem flokkast utan hópsins og ég er blíður þegar ég flokka Benteke frekar en Origi sem part af 18 manna hópnum. Það breyttist klárlega þegar leið á mótið.

Ings var í liðinu undir stjórn Rodgers og hefði klárlega hentað betur hjá Klopp en nokkurntíma Benteke. Þess vegna tel ég hann með sem part af 18 manna hópnum. Sama á við um Gomez sem var byrjunarliðsmaður í byrjun mótsins.


Leicester 2015-16

leicester-15-16

Þetta er auðvitað ótrúlegur stöðugleiki og enn eitt dæmi þess að það gekk gjörsamlega allt upp hjá Leicester á síðasta tímabili. Shinji Okazaki er eini leikmaðurinn sem sker sig aðeins úr en hann hljóp jafnan mest og fór fyrstur útaf. Ulloa kom inná sem varamaður í 22 leikjum, eiginlega alltaf fyrir Okazaki. Ég er ekki viss um að Leicester hefði haldið svona út ef t.d. vinalegi draugurinn Kasper í markinu hjá þeim hefði meiðst í 4-6 vikur á þessum árstíma fyrir ári líkt og gerðist núna.

Ítreka samt að þessi stöðugleiki er alls ekki eina skýringin fyrir því afhverju Leicester vann mótið en spilaðar mínútur lykilmanna útskýra kannski lítinn part af velgengni þeirra.


Arsenal

arsenal-15-16
Meiðsli miðjumanna fóru hvað verst með Arsenal í fyrra en þeir hafa Meistaradeildarhóp og fengu 74% spilaðar mínútur hjá sínu “besta byrjunarliði”. Hefðu sannarlega átt að taka titilinn úr því það var gap year hjá öllum hinum stóru liðunum.


Tottenham

tottenham-15-16

Tottenham tókst að enda í þriðja sæti í tveggja liða titilbaráttu. Þeir voru ótrúlega heppnir með meiðsli á síðsta tímabili sem hjálpaði klárlega til við að koma þeim í toppbaráttuna en mögulega fengu þeir þetta aðeins í bakið undir restina. Tottenham var í Evrópudeildinni rétt eins og Liverpool og notaði lykilmenn lengi vel þar líka, sú keppni kostar eins og ég þreytist ekki á að ítreka.

Pochettino fór öfugt við Klopp að nota hópinn meira í Evrópudeildinni eftir áramót og leggja meiri áherslu á deildina enda liðið á bullandi siglingu þar. Tottenham virðist hinsvegar hafa sprungið í restina, líklega bæði vegna pressu og eins vegna þreytu lykilmanna. Þeir unnu aðeins tvo af síðustu sjö leikjum tímabilsins.

Tottenham gat spilað sínu “besta byrjunarliði” í 83% leikja tímabilsins og notaði aðeins 2,5% leikmenn utan 18 manna hópsins. Til að setja þetta í samhengi þá vantaði að meðaltali 1,9 menn í þeirra “besta byrjunarlið” á meðan Liverpool var að meðaltali án 4,2 “byrjunarliðsmanna” og notaði 12% af leikmönnum utan “18 manna hópsins”.

Þetta er ein helsta ástæða þess að ég held að þetta tímabil verði erfiðara fyrir Tottenham. Væntingarnar eru meiri eftir síðasta tímabil, Meistaradeildin er orkufrekari á bestu menn liðsins (þó þeir kveðji hana mögulega fljótlega) og þeir bara geta ekki sloppið svona vel við meiðsli tvö ár í röð, er það?


Man City

man-city-15-16

Fjarvistir lykilmanna Man City voru töluverðar en dreifðust sæmilega vel á allt liðið. Eins er City með varamenn sem væru lykilmenn í flestum öðrum liðum og kostuðu meira en lykilmenn flestra liða. Aguero spilaði 70% af tímabilinu og ég þori alveg að fullyrða að Liverpool og City hefðu haft sætaskipti í deildinni hefði örlögum Sturridge og Aguero verið öfugt farið.

City liðið í fyrra var komið á aldur og eru þeir núna að ganga í gegnum töluverðar breytingar. Þeir verða ekki svona langt frá pari aftur á næstunni.


Man Utd

man-utd-15-16
Ofan á töluvert af meiðslum er ég ekki viss um að LVG hafi nokkurntíma vitað hvert sitt besta byrjunarlið væri síðasta vetur. United er með gríðarlega stóran og sterkan hóp en stöðugleikinn var svipaður og hjá okkar mönnum og vel yfir 30 manns fengu mínútur í deildinni. Þeirra mikilvægasti leikmaður spilaði þó 89,5% af tímabilinu og líklega skar hann hvað mest úr um að Liverpool væri fyrir neðan United í deildinni. Reyndar spilaði okkar markmaður líka 89,5% af tímabilinu en það voru alls ekki jafn jákvæðar fréttir.


Southamton

southamton-15-16

Líklega er Southamton rétt eins og Leicester gott dæmi um að bilið er að minnka á Englandi og leikjaálag skiptir töluverðu máli. Enn eitt árið misstu þeir stjórann og sína bestu menn og voru í 11.sæti þegar mótið var hálfnað.

Það hinsvegar fer minna fyrir því að þeir voru næstbesta lið deildarinnar í seinni umferð tímabilsins er Koeman var búinn að koma skipulagi á liðið og fá menn úr meiðslum. Engu að síður notuðu þeir töluvert af 18 manna hópnum en mjög lítið reyndar umfram það.


West Ham

west-ham-15-16
Þeir féllu strax úr leik í Evrópudeildinni sem hjálpaði þeim líklega töluvert í deildinni enda var liðið aðeins fjórum stigum frá Meistaradeildarsæti. Engu að síður lentu þeir í töluverðum meiðslavandræðum og notuðu 18 manna hópinn mikið. Hver veit hvert sama meiðslalukka og Leicester bjó að hefði skilað þessu West Ham liði?


Höfum svo eitt bónus lið með sem þó endaði fyrir neðan Liverpool.

Chelsea

chelsea-15-16
Það voru svo sannarlega ekki bara meiðsli lykilmanna sem voru að hrjá Chelsea í fyrra. Stjórinn var á stórskemmtilegan hátt kominn fram yfir síðasta söludag með liðið. Meiðsli hjá báðum miðvörðum og markmanni í liðum Mourinho er áhyggjuefni og fór það líklega sérstaklega illa með hann. Þeirra “besta byrjunarlið” spilaði engu að síður 71% af tímabilinu og bekkurinn var alls ekkert slor þar fyrir utan.


Liverpool liðið er komið á tíma til að springa út

Fyrir úrslitaleikinn gegn Sevilla sl. vor var ég mjög ánægður með allt eða ekkert möguleika Liverpool m.t.t. til næsta tímabils.

Sigur hefði gefið sæti í Meistaradeildinni og ég vill ólmur hafa Liverpool í þeirri deild á hverju einasta tímabili. Félagið verður að fara komst þangað aftur og festa sig þar í sessi. Það kostar gríðarlega orku og álag á bestu leikmenn liðsins en Meistaradeildarlið fá líka fjármagn til þess að byggja upp lið sem getur tekist á við slíkt. Eins viljum við bara sjá Liverpool etja kappi við bestu liðin á hverju ári. Félag af þessari stærðargráðu á bara að vera í þessum hópi.

Staðan í deildinni var ljós og tap gegn Sevilla þýddi enga Evrópukeppni að ári. Byrjun þessa tímabils er ein af fjölmörgum ástæðum þess að ég tel þá keppni ekki vera fyrirhafnarinnar virði. Reyndar eykur Meistaradeildargulrótin vægi keppninnar mikið og Liverpool vissulega gat ekki farið mikið nær því að vinna en þessir 15 leikir auk bikarleikja kostuðu mjög mikið í deildinni. Þáttaka í Evrópudeildinni takmarkar líkur á árangri í deildinni og þegar samkeppnin er svona hörð er það áhætta sem Liverpool hefur illa efni á að taka.

Fari Liverpool í Meistaradeild að ári útiloka ég alls ekki að liðið geti alveg haldið dampi og verið í toppbaráttu heimafyrir líka, það verður aðeins erfiðara en sama gildir jafnan um öll liðin.

Þetta tímabil er óvanalegt að því leiti að bæði Liverpool og Chelsea eru ekki í neinni Evrópukeppni en eru bæði með lið og stjóra til að taka þátt í titilbaráttu. Vanalega er stökkið meira en svo að lið geti farið frá því að komast ekki einu sinni í Evrópukeppni í það að taka þátt í titilbaráttu en tímarnir virðast klárlega vera að breytast.

Liverpool hefði átt að vinna tímabilið 2013/14. Leicester var í fallbaráttu á þar síðasta tímabili en bjargaði sér með svo miklum stæl að þeir hættu ekki og unnu mótið árið eftir. Southamton var næstbesta lið deildarinnar eftir áramót á síðasta tímabili.


Misheppnaðar tilraunir eru oft undanfari glæsilegra sigra

Talandi um tímabilið 2013/14 þá gerist það nánast aldrei að lið komi fullmótuð fram á sjónarsviðið. Ef við horfum framhjá Leicester þá hóta góð lið oft árangri áður en þetta loksins smellur. Man City var í 2.-3.sæti 2011 áður en þeir unnu titilinn árið eftir. Chelsea var í öðru sæti árið áður en þeir unnu 2005. Liverpool vann Evrópudeildina 2001 og fór langt í Meistaradeildinni árin á eftir áður en þeir svo unnu mótið 2005 með marga af sömu leikmönnunum. Sá titill var sannarlega óvæntur en liðið var alveg búið að sýna klærnar áður. Eftir sigurinn 2005 vorum við með mjög þétt lið sem fór langt í Evrópu og deildinni árin á eftir.

Þetta eru bara þrjú random dæmi, líklega er hægt að taka til endalaust fleiri dæmi en á móti er þetta ekki alglilt eins og okkar menn sýna í hvert einasta skipti sem þeir gera atlögu að titlinum.

Þessi áratugur hefur heldur betur verið stormasamur hjá Liverpool en þátt fyrir öll vandræði innan sem utanvallar er Liverpool oft búið að vera nálægt því að vinna til verðlauna. Það er lítið eftir af liðinu sem tapaði FA bikarnum og vann deildarbikarinn 2012. Hluti af þeim kjarna gerði samt atlöguna að titlinum 2013/14. Árið eftir fór liðið í undanúrslit í báðum bikarkeppnum (sem kostnaði reyndar mikla orku).

Síðasta tímabil var jafnvel ennþá verra en 2014-15 en enn einu sinni hótar liðið stórum titlum og fór skrefi nær en árið áður. Núna erum við farin að sjá kjarna myndast í liðinu sem hefur verið að spila saman í nokkur ár og er að nálgast aldur þar sem menn fara oft að springa út. Liðið tapaði deildarbikarnum á vítaspyrnum og var yfir í hálfleik í úrslitaleik Evrópudeildarinnar. Það er ekki hægt að komast mikið nær því að vinna titla.

Með þennan stjóra og það lið sem hann er að móta er algjörlega ljóst að hungrið er til staðar. Hvað þá meðal stuðningsmanna. Tap í úrslitaleikjum síðasta tímabils magnar hungrið enn frekar. Coutinho er að springa út eins og stuðningsmenn Liverpool hafa búist við að hann geri undanfarin þrjú ár. Firmino er á sama aldri og er engu síðri leikmaður. Hann er (ennþá) aðeins í skugga Coutinho. Mané er einnig á sama aldri. Henderson er bara 26 ára rétt eins og Sturridge. Origi og Can eru bara 21-22 ára og miðvarðaparið er 25-26 ára.

Svona er hægt að fara í gegnum nánast allann hópinn sem sýnir að FSG er alls ekki að tjalda til aðeins einnar nætur. Þetta lið er komið ansi nálægt tíma til að springa út og er kannski að gera það núna. Tímabilið 2013/14 er (letilega) skrifað á Suarez og hann eingöngu. Henderson var 22 ára þá og svo mikilvægur að það stórsá á leik liðsins þegar hann fékk leikbann undir lok tímabilsins. Sturridge skoraði 21 mark en spilaði 20% minna af mótinu heldur en Suarez. Coutinho var frábær á miðjunni og sýndi svipaðan stöðugleika eftir áramót það tímabil og hann er að gera núna. Engin tilviljun að hann er núna aftur kominn með viðlíka vinnusemi, hreyfingu og hraða í kringum sig og hann hafði 2013/14. Þessir menn (o.fl.) voru risapartur af tímabilinu 2013/14 ásamt Suarez og þeir búa allir af þeirri reynslu. Þeir eru þremur árum eldri og að nálgast þau ár sem eiga að vera hátindur ferilsins hjá knattspyrnumönnum.

Liðið núna er ekki að skora minna en 2013/14 árgangurinn en holningin er miklu betri frá aftasta til fremsta manns.

Takist að halda okkar bestu mönnum og bæta við hópinn jafnt og þétt er að springa út lið hjá Liverpool sem er til alls líklegt næstu árin. Leikmenn og stuðningsmenn eru að byrja trúa á þetta og stjórinn trúir svo sannarlega á það sem hann er að gera.

Það eitt og sér er hálf leiðin.

21 Comments

  1. þú ert búinn að jinxa þetta fyrir allan peninginn.nú verða vonbrigðin svo mikil þegar fck.chelski vinnur deildina i vor.

  2. Hey ekkert svona dunkur!

    Ekkert í þessum pistli segir að þeirra möguleikar séu eitthvað minni en möguleikar Liverpool og aðeins verið að skoða með tölum einn (mikilvægan) þátt sem vinnur með okkur núna. Chelsea hefur töluvert forskot t.a.m. að því leiti að megnið af þeirra hópi vann deildina fyrir tveimur árum.

    Það er svo ekkert að því að tala vel um liðið þegar klárlega er innistaða fyrir því. Nóg gagnrýnum við þegar illa gengur.

    Jinx er t.d. að segja að Zlatan sé útbrunninn sem verður til þess að hann skorar tvö í næsta! leik!

  3. Veit að þið heyrið þetta oft en verð nú bara að segja það samt ..Ég sem Poolari er mjög þakklàtur fyrir þessa síðu og ykkar miklu vinnu og tíma sem þið eyðið í hana ?
    Ég get sagt það með góðri samvisku að það að vera stuðningsmaður Liverpool à Íslandi er fràbært …Þessi síða …Àrshàtíðin..Liverpool klúbburinn …Àrshàtíð fyrir börnin okkar og tala nú ekki um að vera saman að horfa à leik à Spott.. Held að við getum verið stolt af okkar klúbbi bæði sem fótboltafélagi og sem fràbærum félagsskap okkar allra ..
    Àfram LIVERPOOL ?

  4. Fróðlegt og takk fyrir þetta tölugrúsk. Eins og þú segir Einar þá gekk nánast allt upp hjá Leicester á síðasta tímabili meðan hin toppliðin voru “jafnari” ef segja má svo. Spurning hvort okkar menn geta tekið Leicester á þetta í vetur og náð upp sama stöðuleika. Það má bara ekki sleppa tækifærinu veturinn sem engin Evrópukeppni er til að auka álagið. Getur það ekki verið að í vetur verði að jafnaði hátt í einum degi lengra á milli leikja heldur en síðasta vetur. Allt útlit er fyrir að næsta vetur komi aftur aukaálag í einhverri Evrópukeppni og það mikið.
    Alveg magnað að jafn frábær leikmaður og Sturridge skuli ekki vera partur af byrjunarliðinu sem sýnir hve mögnuð framlínan er. Sennilega einhver besti varamaður í heimi. Held þó að Sturridge stimpli sig heldur betur inn á næstunni með tveimur þrennum með stuttu millibili. Eftir það verður hressilegur jákvæður hausverkur hjá Klopp að velja byrjunarliðið. Það eru svo skemmtilegir tímar framundan að varla er hægt að sofa fyrir spenningi.

  5. Þetta eru ekki staðfestar tölur en mér reiknast svo til að hvíldardagar milli deildarleikja á síðasta tímabili hafi verið samtals 183. Við teljum hvíld fyrir fyrstu umferð ekki með þannig að 183 deilt með 37 umferðum gera að meðaltali 4,9 daga í hvíld milli leikja. Þarna eru fjögur landsleikjahlé með talin sem eru jafnan 13-15 daga “hvíld”.

    Þarna er miðað við hvíld fyrir deildarleiki, ef það var Evrópuleikur á fimmtudegi og deildarleikur á sunnudegi byrjar talningin frá Evrópuleikjum (3 dagar). Þarna er ekki tekið mið af ferðalögum. Heilt yfir mótið var miklu minna milli leikja Liverpool en 4,9 dagar endar bara verið að taka mið af deildarleikjum. Ef tímabilið náði yfir 279 daga tímabil (9.ágúst – 15.maí) var Liverpool að spila 63 leiki samtals á 279 dögum. Einn leik á 4,4 daga fresti en eins og áður segir telja landsleikjahléin mikið eða samtals 53 daga. Erfitt að flokka þá sem hvíld.

    Það sem af er þessu tímabili hafa verið 101 dagar í hvíld. Ef við sleppum fyrstu umferðinni þá eru þetta 10,1 dagar sem líða milli deildarleikja Liverpool frá síðasta leik. Inni í þessari tölu eru þrjú landsleikjahlé sem skekkja þetta aðeins en það er ljóst að Liverpool er að fá miklu meiri hvíld milli deildarleikja núna.

  6. Vá þvílík greining! þú hlýtur að vera á einhverjum dúndur launum við að semja svona 🙂
    Takk fyrir Einar Matthías.

  7. Þetta Liverpool lið er að ganga frá mér með allri sinni tölfræði.

    “Liverpool’s back 4 have created 37 chances! That’s more than nearly every other teams strikers excluding only City, United & Everton.”

    sbr. https://www.facebook.com/liverpooltransfernews/?hc_ref=PAGES_TIMELINE&fref=nf

    Hafi enginn tekið eftir því þá er komin fram Einar Mattías eftirherma í pistlaskrifum út í heimi.

    http://www.thisisanfield.com/2016/11/youll-never-walk-alone-lyrics-and-history/

  8. Kop.is pennar eru the real mvp´s. Búnir að vera on fire þetta tímabili og ekki kom maður að tómum kofanum fyrir. Kærar þakkir.

  9. Nr.9

    Gaman af þessu, held samt að það sé lengri saga á bak við það afhverju Gerry and the Pacemakers tóku YNWA yfirhöfuð.

    Eins hef ég aldrei heyrt af þessu áður (Mummi – Arngrímur?)

    “We were in New York doing The Ed Sullivan Show and the Liverpool team were playing around America,” recalled lead singer and guitarist, Gerry Marsden. “So I said to Ed, ‘there’s a soccer team here from England, called Liverpool, get them on stage and they’ll sing ‘Walk Alone’ with me.’

    “So we got the whole team on the stage and we sung ‘Walk Alone’ on the Ed Sullivan show. Coming off Bill Shankly said to me, ‘Gerry my son, I have given you a football team, and you have given us a song.’”

  10. Ég er hjartanlega sammála því að þessi síða er frábær og er þakklátur fyrir hana. Hinsvegar finnst mér frábært hvað þessi síða er 100 sinnum stærri, betri og miklu skemmtilegri en íslenska síðan hjá Manutd scums sem er ekki ólík þessari síðu, eða þeir eru allavega að reyna það greyin. Krúttlegasta síða sem ég hef séð í langan tíma.

    Það er eru bara örfáar hræður sem commenta á pistlana hjá þeim, ætli það séu ekki bara stjórnendur síðunar. Hlýtur að vera fjör hjá þeim á árshátíðinni hjá rauðu djöflunum.is. Höldum okkar skriði áfram og gerum þessa síðu enþá virkari og stærri.

  11. Maggi ég með spurningu handa þér…..

    Þegar þú varst úti og varst að spjalla við heimamenn úti kom þá einhverntímann upp samtal um stöðu sturridge í liðinu??

  12. Nr. 12

    Þökkum hrósið en ekki alveg sammála með síðu United manna (ekki að ég lesi hana mjög mikið). Við hvöttum þá einmitt til að setja upp sambærilega síðu á sínum tíma og þetta er mjög flott framtak hjá þeim þó viðfangsefnið sé United. Formið er svipað á báðum síðum enda hvorug svosem að finna upp hjólið hvað það varðar.

  13. Sögusagnir á kreiki um að Sturridge sé að fara í burtu í janúarglugganum ? Hmmmm…. Ef liðið er enn þá í toppbaráttunni þá og Sado Mane er á leiðnni í landsleikjafrí, afhverju í ósköpunum ætti hann þá að fara til lægra skrifaða klúbba og missa mögulega af því að fá tækifæri til að sanna sig og verða jafnvel Englandsmeistari í vor, sem yrði án nokkurs vafa sögulegasti Englandsmeistari titill Liverpool og eini tititllinn sem væri hærra skrifaður en þegar Liverpool vann meistaradeildina 2005, sökum þess að Englandsmeistaratitillinn hefur látið bíða eftir sér í 26 ár..

  14. Algjörlega magnaður pistill sem synir algjörlega hversu mikilvægt er að sleppa við meiðsli. Liðið okkar er í dag ekkert ólíklegra en hin stórliðin til þess að vinna þessa deild að mínu mati. Auðvitað er stutt á milli efstu liða og okkar menn geta alveg eins endað í 6 sæti eins og því fyrsta en það nkl sama gildir um hin stórliðin. þessi deild í ár verður gríðarlega jöfn og ég gæti alveg seð 3-4 lið eiga séns á titlinum fram í síðustu umferð. Nú er bara að vona að okkar menn verði heppnir með meiðsli í allan vetur og ef það gengur eftir verðum við sennilega í baráttunni allt til loka…

    En það sem ég spáði í mestmegnis á meðan ég las þetta allt saman var vinnan sem Einar hefur lagt í þetta. ég segi bara váá hvað er að frétta. það hafa farið nokkrir klukkutímar í þetta held ég svo ég segi bara takk takk Einar, þú ert magnaður ….

  15. Og í þeim töluðu orðum fór Lallana út af meiddur í vináttuleik gegn Spánverjum

  16. jæja þá var lallana að fara meiddur af velli hjá englandi ! djöfulsins…………

  17. Helvítis djöfullsins . Lallana besti maður Englands og búinn að vera einn af bestu mönnum Liverpool á tímabilinu fer meiddur af velli.
    Er ekki hægt að taka Fergie á þetta en Man utd gauranir spiluðu varla æfingarleiki á hans tíma, alltaf eitthvað tæpir en svo allt í einu góðir næstu helgi á eftir.

    Ég vona að þetta sé ekkert alvarlegt en þetta virtist vera nárin og þau meiðsli ertu oftast langrækinn :/

    Maður verður bara svo pirraður að horfa á liverpool liðið ár eftir ár lykilmenn meiðast í helvítis landsleikjunum.

  18. hvers vegna að skipa á svona sterku liði æfingaleik, það er hreinlega útí hött, þá áttu að vera að prófa leikmenn, ekki meiða þá fyrir félagsliðin.

  19. Beið eftir þessu. Og auðvitað Lallana.
    Menn verið að hrynja niður í öðrum liðum í kringum okkur, Hazard og Costa, Bravo, Bellerin og Sanchesz þannig að það hlaut að koma að okkur.
    Vonandi nær Lalli sér fljótt.
    Helvítis landsleikjahlé.

    YNWA

Af hverju ekki?

Kop.is Podcast #128