Man United kemur á Anfield

Það er sá dagur ársins.

United að koma á Anfield. Við viðurkennum öll að það er einn fyrsti leikurinn sem við lítum eftir á leikjatöflunn, þegar þessir erkifjendur okkar ferðast eftir M62 hraðbrautinni og taka þátt í einum stærsta leik evrópsk knattspyrnuveturs hvert sinn.

Aðstæðurnar núna eru frekar óvanalegar. Það er ekki algengt að þessi lið eigist við á mánudagskvöldi og hvað þá núna þegar landsleikjahlé spilar inní. Það eru því heilir 16 dagar síðan að LFC spörkuðu síðast í bolta áður en leikmennirnir héldu á vit landsliða sinna. Að þessu sinni var nú óvenju stór hópur heima og flestir leikmenn voru komnir á miðvikudag aftur til æfinga svo að sennilega hefur landsleikjahlé sjaldan spilað eins lítið inní undirbúning. Ekki komu upp ný meiðsli, meir af þeim á eftir en fyrst skulum við aðeins líta á mótherjana okkar.

Ég held að sjaldan hafi verið eins mikil von í okkar brjósti að vinna þetta United lið og nú. Ofan á áralangan ríg milli liðanna verður ekki litið framhjá því að þar er nú við stjórnvölinn maður sem er óvinur númer eitt í hjörtum okkar margra. Þ.á.m. mín. Mér er það sérstaklega erfitt þar sem að móðir mín heitin bjó í 17 ár í Portúgal og ótal heimsóknir mínar þangað hafa gert það land að mínu uppáhalds í alþjóðabolta (svona áður en Ísland steig inn á það svið) og ég hef alveg náð að halda með Pepe og Ronaldo. Var mikill áhugamaður um það að Mourinho yrði valinn umfram Rafa á sínum tíma. Í dag er enginn maður í öllum fótboltaheiminum sem mér mislíkar meira. Enginn bara.

Framkoma hans í starfi ber vott um svo ofboðslega sjálfsupphafningu og hroka að meira að segja hefur honum tekist að skaða ímynd sína á meðal Chelsea-aðdáenda að taka þetta starf núna. Hann var fljótur að segja þetta vera liðið sem hann vildi alltaf taka og að þetta sé stærsta djobbið í boltanum. Enn fúll að hafa verið rekinn með látum frá Real sennilega. Strigakjaftur er það orð sem honum hæfir.

Að þessu sögðu verður ekkert dregið úr hæfileikum hans. Hann hefur fengið fullt af peningum í gegnum tíðina en hann hefur líka skilað titlum, öllum þeim stærstu í bransanum og stefnan hans í vetur er klárlega sú sama. Hann hefur líka farið alltof oft frá Anfield með öll stigin og meira að segja drap titilvonir okkar þegar sá leikur skipti hann engu máli. Það er bara þannig að hann hefur búið til formúlur liða sem vinna no matter what þó hann virðist ekki alveg kominn á þann stað með United ennþá.

Eftir sterka byrjun komu töp fyrir City og Watford í deildinni og Feyenoord í Evrópudeildinni. José náði hefðbundnum fýlum og pirringi áður en þeir tóku þátt í sláturtíð ríkjandi meistara Leicester, unnu Evrópudeildarleik en náðu svo bara stigi gegn Stokeliði fullu af gömlum LFC kempum þar sem “Mighty Joe Allen” setti jöfnunarmark á OT. Þaðan frá eru liðnir sömu 16 dagarnir og voru frá okkar leik. José getur valið úr öllum sínum leikmannahópi utan þess að þær óvæntu fregnir bárust að Phil Jones er meiddur. Sú lukka að við unnum ekki kapphlaupið um að kaupa þann dreng.

Allavega, United liðið er afar sveiflukennt í frammistöðu og uppleggið hefur verið svolítið “stórkallalegt” í anda Mourinho-liða. Zlatan uppi á toppnum með Pogba fyrir aftan. Tilbúnir að verjast og sækja hratt en svo setja upp hápressutímabil í leikinn þar sem farið er mjög ofarlega á völlinn. Allt þetta þekkjum við eftir að hafa fylgst með liðum Mourinho. Í þessu liði eru miklir einstaklingshæfileikar sem geta klárað leiki en það er enn verið að slípa saman egóin í liðinu.

Svo satt að segja þá förum við LFC fólkið inn í þennan leik með okkar lið líklegra til að sigra. Sem hefur ekki oft verið raunin á undanförnum árum og staða sem stundum er erfitt að vinna með.

Jurgen okkar er hins vegar alveg örugglega með á hreinu hvað þarf til. Hann hefur fengið nógan tíma til að liggja yfir videotækinu og fara í gegnum uppleggið. Hann rifjaði að sjálfsögðu upp síðustu viðureignir félaganna þar sem við slátruðum United 2-0 á Anfield og gerðum svo jafntefli úti í 16 liða úrslitaviðureign Evrópudeildarinnar liðið vor.

Í þeim leikjum höfðum við valdið allan tímann og yfirspiluðum þessa erkifjendur að mestu í 180 mínútur. Nú er það nýtt tímabil og nýr stjóri sem liggur fyrir í flóðljósunum á Anfield sem verður pakkfullur og sennilega alrauður eftir að Klopp eggjaði fólk til þess að koma íklætt rauðu og búa til háværustu stemmingu í sögu nýja Anfield. Það verða um 9000 fleiri Scouserar á vellinum en á undanförnum árum og það gefur góða möguleika til þess að stemmingin verði ógnvænleg, nokkuð sem hefur skilað sér hingað til inn á völlinn í leikjum liðsins undir stjórn Klopp.

Við erum í aðeins fleiri vandræðum en United þegar kemur að meiðslum. Það var þó mikill léttir að heyra að Clyne og Lovren hafa náð fullri heilsu og verða því tilbúnir í slaginn frá byrjun. Það eru hins vegar smávægileg meiðsli að hrjá Adam Lallana auk þess að Wijnaldum virtist hafa tognað á nára í landsleik vikunnar, það virðist þó vera mun vægari tognun en upphaflega var talið svo hann á vona á að vera með. Þeir tveir ráðast á leikdag.

Þegar kemur að því að stilla upp liðinu þá eru það spurningarnar, verða þeir með…og svo hvor verður í markinu. Það er umræðan núna í undanfara leiksins. Karius átti stressuð augnablik gegn Hull og Swansea en virðist vera hugsaður sem markmaður númer eitt og þá er fullt eins líklegt að Klopp haldi áfram að stilla honum upp, líkt og gert var með De Gea sem átti nú býsna erfitt fyrsta tímabil fyrir United.

Þetta virðist hafa ýtt töluvert við honum Símoni okkar því hann kom fram í vikunni og lýsti því hvað hann vill ná sætinu sínu aftur – hver veit, kannski var inngrip Karius í liðið gert til að ýta við Mignolet sem hefur átt ágætis byrjun á tímabilinu. Spennandi að sjá, ef að Karius verður í markinu er hann orðinn markmaður númer eitt hjá félaginu, það er allavega mitt mat.

Að öðru leyti er liðið held ég að fara að verða eins og það hefur verið í undanförnum leikjum, enda frammistaðan góð. Það góð að sigur gæti jafnvel fært okkur toppsætið eftir töpuð stig hjá City í gær. Sem væri gaman.

Rennum í að tippa á byrjunarliðið:

Karius

Clyne – Lovren – Matip – Milner

Lallana – Henderson – Can

Mane – Firmino – Coutinho

Semsagt sama lið og hóf gegn Swansea. Það er ekki skynsamlegt að stilla upp tveimur tæpum á miðjunni og ég held að Lallana verði metinn mikilvægari en Wijnaldum af þeim tveimur. Karius er markmaður númer eitt í huga Klopp held ég og hann byrjar. Sturridge áfram á bekknum og kemur svo skælbrosandi einhvern tíma inná.

Samantekt

Mig langar SVO MIKIÐ að vinna Unitedlið undir stjórn Mourinho. Það bara einhvern veginn er svo svakalega mótivation fyrir mig að það hlýtur að vera nákvæmlega eins hjá alrauðum Liverpool-leikmönnum. Það mun ganga á ýmsu, hef t.d. trú á rauðu spjaldi tiltölulega snemma í leiknum, hasar og fjöri í takt við ofboðslegan Anfield hávaða.

Ég er handviss um það að okkar lið er í betra ástandi en gestirnir og að okkur mun takast að stýra því til sigurs. Þetta verður ekki auðvelt en við munum sigra þennan leik 2-1 með marki seint í leiknum. Ég hef trú á að við setjum mark úr föstu leikatriði, segjum bara Matip. United jafna í síðari hálfleik með einhverju flúki og í blálokin setur varamaðurinn Sturridge sigurmarkið.

Í ræðunni eftir leik mun Mourinho kenna málningu í búningsklefanum og AD2 um tapið…og við verðum öll flissandi af ánægju!

KOMA SVOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOO!!!!

46 Comments

  1. Toppsætið undir og það vær gott að ná því til að leggja línurnar. Engin pressa.

  2. Lallana er sagður vera mjög tæpur að ná þessum leik en maður vonar það besta.

    Þetta verður hörkuleikur eins og alltaf á milli þessara liða og segjir það mikið um stöðu liverpool að föst leikatriði eru talinn vera mesta hættan gegn Man utd en ekki að þeir nái ap yfirspila okkur eða séu einfaldlega sterkari út á vellinum.

    Mér finnst flestir vera að spá okkur sigri, flestir að tala um að við lítum betur út en þeir þessa dagana og það er satt en ég er með ótrúlega slæma tilfiningu fyrir þessum leik og þótt að ég hef trú á því að við endum fyrir ofan Man utd á þessari leiktíð þá spái ég að við töpum þessum leik 0-1 með skallamarki frá Zlatan. Það kemur okkur aðeins á jörðina aftur og við tökum gott run í leikjunum á eftir.
    Ef þessi spá gengur eftir sem ég vona svo innilega að geri það ekki þá er hægt að minna á það að þegar liverpool voru uppá sitt besta Þá var liðið alltaf í vandræðum með Man utd og töpuðu reglulega fyrir þeim en þegar liðið var ekki að berjast á toppnum þá vann liðið Man utd mjög reglulega.

    Lykilinn samt í þessum leik er miðsvæðið og verður fróðlegt að sjá E.Can og hvernig ástandi hann er í og svo verður fróðlegt að sjá hvað Klopp gerir ef Lallana er meiddur líka. Ég spái að hann fari með Coutinho niður og Sturridge upp á topp en Lucas væri líka valmöguleiki en ég vona að hann noti hann ekki.

    Vona það besta en spái því verst en hvernig sem fer þá er nóg eftir af mótinu.

  3. 1-0 ljótur sigur myndi fara langt með að þagga í United félögum mínum. In Klopp I trust.

    Koma svo!!!!

  4. Mane á eftir að hafa úrslitaáhrif í þessum leik og Milner mun sjá um sóknarmenn Utd.

  5. Sæl og blessuð.

    Nú má Klopparinn sýna að hann er forverabetrungur. Panikkið 2014 situr enn í manni, þegar lærisveinar Mourinho drápu niður tempóið með í raun hálf-vankað lið. Að þeir skyldu ekki knýja fram sigur með Nafna í broddi fylkingar og þá Sterling og Coutinho í banastuði, er rannsóknarefni. Nú hefur mikið vatn runnið til sjávar og allir hoknir af reynslu. Þetta verður einfalt plan hjá Sambandinu. Hægja, hanga, fella en þó fyrst og fremst, láta fella sig – með míkrófóninn í fremstu víglínu.

    Gegn þessu verður okkar lið að spila af ákafa og dirfsku. 130 km. á liðið á morgun, takk og fjögur mörk. Henderson skorar það fjórða og kyssir kameruna að gömlum sið.

  6. utd menn eru ótrúlega hrokafullir fyrir þennan leik bæði þegar maður hefur hitt þá og á samfélagsmiðlum, þeir eru sannfærðir um að valta yfir okkur. Djöfull er ég að vona að þeir fái stóran sokk upp í sig á morgun.

    3-1 fyrir Liverpool…….KOMA SVO

  7. 3-0 í hálfleik eftir algert blitzkrieg í fyrri. Firminho 2 og Coutinho 1. Rashford setur svo eitt eftir varnarklúður og Utd pressar síðasta korterið. Sturridge setur svo eitt í blálokin og við verðum einir á toppnum á betri markamun 😉

  8. Allt of mikil bjartsýni og það hefur aldrei virkað vel hjá okkur. Klopp þarf að taka á því.

  9. Verður fróðlegt að sjá hvað gerist þegar latasta liðið í deildinni mætir því duglegasta. Á góðum degi eigum við að valta yfir þetta lið en ég er hræddur um að ef við verðum að breyta miðjuni of mikið verður þetta erfitt. Svo er Karius, sem hefur ekkert virkað alltof öruggur, að fara að mæta einum mest ógnvænandi sóknarmanni deildarinnar.
    Þetta verður allavega rosalegur leikur og jeminn eini hvað það væri gaman að vinna hann á einhverju vafaatriði.

  10. Vinnum 1 – 0 og Milner skorar sigurmarkið úr vítaspyrnu í uppbótartíma sem átti að vera löngu liðinn. Auk þess mjög vafasöm vítapyrna. United hefur ekki tíma til að byrja á miðju, leikurinn flautaður af áður.

    Hversu sætt væri það??

  11. Spái okkur sigri þó að tölfræðin sé á móti okkur síðustu árin.

    Spái Sturridge með sigurmarkið.

  12. Ég spái 6-1 sigri. Kannski 7-1 en ég held samt frekar að það fari 6-1 ef ég á að vera alveg rosa hreinskilinn.
    Z-maðurinn með eina hjólhestaspyrnu frá miðju, en ég held að hann skori bara eitt þannig mark. Síðan held ég að leikmenn Liverpool borgar muni bara deila sínum mörkum á milli sín.

    Áfram Anfield!

  13. Sæl öll.

    Ég er orðin svo spennt og pirruð og stressuð ég er búin að heita á alla þá vætti góða og slæma sem fyrirfinnast um að við vinnum. Við bara verðum að vinna þennan leik ekki bara til að komast 6 stigum á undan þeim heldur upp á stolt okkar . Man.Utd. stuðningsmenn segja að verstu úrslitin séu jafntefli við munum aldrei vinna þá með Zlatan…en plízzzzzzzz við bara verðum.

    Ég er ekki viss um að ég geri mikið gagn í vinnunni á morgun þegar hugurinn verður á Anfield úff hvað ég hlakka til þegar lokaflautið glymur.

    Að sjálfsögðu munu mínir mennskora fleiri mörk en hinir ég stend við það alveg til loka því ég trúí endalaust á þá.

    Þangað til næst
    YNWA

  14. Vonandi gerum við eða strákarnir okkar það sem þeir gera best, að spila flottan sóknarbolta og þá koma stigin. Þetta verður jafn leikur samkvæmt öllu en 2-1 væri draumur og umfram það bara bónus. Vel spenntur nú þegar ..úff YNWA

  15. 44 ár. Ennþá er þetta stærstu leikirnir.
    Spennan magnast.
    Ég hef trú á okkar mönnum á morgun.
    Við erum fullir af krafti (Klopps)
    Hinir munu vera með leiðindi og reyna að hleypa leiknum upp í vitleysu.
    Fátt annað í vopnabúri þeirra.

    Ef menn halda haus og standa í lappirnar þrátt fyrir lúaleg trix úr bók Móra þá klárum við þetta klárlega.

    En spennandi verður það.
    YNWA

  16. Ég var tiltölulega bjartsýnn fyrir þennan leik en nú um helgina hafa gerst hlutir í Fantasy-liðinu mínu sem fá mig til að endurskoða málið:

    – Ég setti Joe Allen á bekkinn vegna þess að hann var eitthvað meiðslatæpur. Hann þakkaði mér “traustið” með því að skora tvö mörk.

    – Ég ákvað að nota mér triple captain fídusinn þessa umferðina á Aguero. Aguero byrjaði á bekknum, kom reyndar inn á í seinni hálfleik og brenndi af víti – niðurstaðan -3 stig á triple captain-inn.

    – Ég seldi Zlatan.

  17. Ef belgíska fuglahræðan kemst upp með enn eitt olnbogaskotið í þessum leik þá mun ég rífa nýja eplatréið mitt upp með rótum sökum tryllings… Annars munum við sigra, einfaldlega vegna þess að við erum betri og liðið okkar hefur gaman af þessu. Hver getur haft gaman að spila undir þessari portúgölsku fýlutusku?
    4-1 og sigurinn síst of stór. Get ekki beðið!!

  18. Sælir félagar

    Ég er óskaplega spenntur og kvíðinn fyrir þessum leik einhverra hluta vegna. Liverpool talið sigurstranglegra og á heimavelli og allt. Samt – miklar áhyggjur. Undanfarin misseri höfum vil alltaf klikkað á stórleikjunum sem skipta máli. Unnið þá aftur á móti þegar þeir skipta okkur engu máli. Leikurinn við Chelsea um árið er gott dæmi um það.

    Úff ég get ekki á heilum mér tekið af áhyggjum. Það fer alveg með mig ef við töpum þessu og ekkert getur bætt fyrir það tap. Ekkert. En samt vona ég að Klopp breyti örlögum okkar og stóru leikjanna sem skipta máli. Ég vona, ég vona. Þori ekki að spá bara vona . . .

    Það er nú þannig

    YNWA

  19. Þetta fer 3-1 Firmi með 2 og Mané með 1 og zladdi skorar að sjálfsögðu fyrir hitt liðið

  20. Ég er búinn að veðja fúlgum fjár á Man United sigur. Mér þykir Livperpool sigur líklegri (svona 40% á sigri og 40% á jafntefli og 20% á tap), og mun öskra og hoppa af gleði verði sigur Liverpool að veruleika. En ef það versta sem gæti gerst, gerðist, og Liverpool tapar, þá get ég í öllu falli huggað mig við það að ég fái fullt af pening. #vogunarráðgjöf

  21. Helgi J. engar áhyggjur, Zlatan er captain hjá mér þannig að það er nánast öruggt að hann mun ekki gera neitt gagn í leiknum – captaininn minn skilar aldrei stigum.

    Móri mun reyna að gera leikinn leiðinlegan, stillir upp hávöxnu liði til að nýta föstu leikatriðin. Klopp mun brýna fyrir okkar mönnum að brjóta ekki á hættulegum stöðum og ég hef fulla trú á því að þeir fari eftir því. Ef Fellaini, Zlatan, Pogba og Smalling byrja allir þá verð ég með hjartað í buxunum í hverju horni og hverri aukaspyrnu sem býður uppá fyrirgjöf. En aftur á móti gæti það hentað okkar snöggu stubbum að sækja gegn þessum turnum, ég er bara ekki viss.

    Langt síðan ég fékk frí í vinnunni til að sjá þennan leik, ég var ótrúlega spenntur. Núna er ég hinsvegar byrjaður að finna fyrir svartsýni og stressi. Vona að okkar menn komi vel mótiveraðir til leiks, Anfield mun óma um alla Liverpool-borg og að okkar menn fagni sigri í leikslok. Efsta sætið hljómar vel, en ég verð mjög mjög ánægður ef við verðum með 19 stig eftir leikinn.

    YNWA

  22. Þetta fer 3-0 með mörkum Firminho, Mane og Milners(víti). Mane tekur blind þannig hann að sér aldrei til sólar og brýtur illa af sér sem verðskuldar rautt sem gerir út um leikinn.

    YNWA

  23. Ég held ég hafi bara aldrei verið jafn rólegur fyrir þessa viðureign. Held þetta verði mjög öruggt. United verið afleitir og þessir fjórir leikir sem ég hef séð til þeirra hafa þeir ekki verið sannfærandi. Hreint út sagt lélegir.

    Smá nostradamus: Klopp brýtur gleraugun sín í fagnaðaræsing. ég er búinn að setja pening á að við vinnum með meira en 2 marka mun og ætla halda mig við það, spái 4-1 þar sem þeir ná að pota einu aulamarki eftir horn. Við skorum eitt mjög umdeilt mark. Mourinho trompast að leik lokum og kennir dómarum um því hann býr hliðin á old trafford og þorði ekki annað en að dæma þeim í óhag. Fær í kjölfarið 3 leikja bann og sekt.

  24. Hér spá allir því að shit utd skori, en er það endilega eitthvað sem þeir gera, það er efitt að skora með bláu rútunni, nymálaðri svo rauð málingin lekur ef, morono spilar alltaf vörn, bara vörn og ekkert nema vörn.

    ég er frekar stressaður og á ekkert frekar von á sigri, þó að upphátt myndi ég aldrei viðurkenna það, en það er eitt sem þarf að hafa í huga, þriggja marka sigur tryggir okkur efsta sætið!!!

    Min spá 3 0.

  25. Maður sveiflast allan skalann á svona degi. Aðra stundina svíf ég meðal skýjanna í bjartsýniskasti og sé okkur á toppnum og hina er bullandi þunglyndi eftir að hafa tapað þessum leik.

    Þetta verður eitthvað epískt.

  26. Með hnút í maganum.

    Hversu oft undanfarin ár hefur maður séð tækifærið í hillingum, plíss vinna næsta leik og gefið okkur stuðningsmönnunum / vúhúúú, / Kodak / snappchat / Twitter móment sem verður ódauðlegt……

    Nú sé ég kvöldið í hillingum ……. og ég trúi á Klopp.

    Þetta verður……… legend …… …… wait for it…….. …….. ……. dary. !

    Vítaspyrna á 98 mínútu og Milner smyr honum stöngin inn …….. SIGUR

  27. Altof mikil bjartsýni hérna, veit ekki á gott, 0-2 og De Ghea maður leiksins við með 25+ skot á markið United með 2

  28. #Jónas – Hvaða hvaða, það er góð tilfinning að vera bjartsýnn fyrir slaginn í kvöld. Þó áhrif okkar séu vissulega *gríðarlega* mikil hérna í kommentakerfinu þá hugsa ég að eilítil bjartsýni stuðningsmanna sem sitja við tölvuna í rúmlega 1600km frá Liverpool borg hafi um það bil ekki nein áhrif á gang leiksins í kvöld 😀

  29. 3-3 í leik sem bíður uppá allt sem þessir leikir hafa boðið uppá í gegnum tíðina, rautt spjald eða rauð , mörk í uppbótartíma og slagsmál. Megi ég hundur heita ef þetta verður ekki leikur sem talað verður um í framtíðinni ?

  30. Annað hvort verða LFC title contenders eftir kvöldið og senda alvöru skilaboð eða við verðum þarna í moðinu með utd og chelsea 😀
    Hvernig sem þetta fer þá er maður sáttur við LFC ..spilamennskan er uppá 10 og Klopp er snillingur. Þó það yrði jafntefli eða tap í kvöld þá myndi það ekki breyta því að Liverpool er að spila einn besta bolta sem hægt er að horfa á þó víðar yrði leitað.

  31. Ég man ekki eftir að hafa verið jafn rólegur fyrir Liverpool vs mutd leik. 3- 0 í hálfleik, Zlatan tekin úr vasanum á Lovren í hálfleik og Rooney skipt inná. Fellaini fær svo rautt fljótlega í seinni og okkar menn setja í cruise control og sigla þessu heim. Fáum samt eitt varnarklúður þegar Rashford potar inn einu áður en Sturridge setur eitt í lokin. 4-1 og málið dautt.

  32. Hvað er ég að gera hérna inni. Þetta er ekkert að slá á spennuna. Ég þarf eitthvað róandi. Over and out. Ég vona að ég komi aftur inn í kvöld í góðu skapi.

  33. Sæl öll…

    Nú gefst ég bara upp fer heim kem við í apótekinu í leiðinni og næ mér í eitthvað róandi…spurning um að taka hjartastuðtækið með heim. Svona leikir eiga að vera spilaðir eldsnemma morguns svo maður þurfi ekki að vera ónýtur allan daginn. Ég er alltaf hrikalega stressuð og spennt en maður minn hvað þessi leikur er að ganga frá mér. Held ég þurfið líka að tilkynna veikindi á morgun annaðhvort vegna gífurlegrar sorgar eða gífurlegrar gleði (vonast eftir því síðara)

    Held því enn fram að okkar menn vinni ( er samt svolítið óviss um það) en maður verður að trúa, það segir Klopp og ekki lýgur hann.

    Krakka mínir njótum kvöldsins og trúum….

    Ég var á leik Liverpool og Villareal og ef stemmingin í kvöld verður eitthvað í líkingu við það kvöld þá verður gaman að vera Poolari….KOMA SVO

    Þangað til næst
    YNWA

  34. Sælir félagar. Ég er erlendis og kemst ekki á pöbbinn, er einhver með stream á leikinn?

Kop.is Podcast #125

Liverpool – Man Utd 0-0 (Leik lokið)