Burnley á morgun

Þá er komið að fyrsta heimaleiknum á tímabilinu, en hann umpólaðist reyndar yfir í útileik vegna stækkunar á Anfield. Nýliðar Burnley munu því taka á móti okkar mönnum. Ég hef oft og reglulega talað um það að oft sé betra að mæta stóru strákunum í upphafi leiktíðar, heldur en litlu strákunum sem virka oft eins og kvígur þegar þeim er hleypt út á vorin eftir langa inniveru yfir vetrartímann. Það er mikið sprikl í gangi og menn algjörlega ákveðnir í að sýna sig og sanna á stóra sviðinu. Þeir töpuðu reyndar í fyrsta leik tímabilsins á heimavelli gegn Swansea, en þeir koma eflaust til með að leggja allt í sölurnar gegn Liverpool, liðinu sem tók þeirra besta mann frá þeim síðast þegar þeir kláruðu tímabil í efstu deild.

Burnley eru eflaust reynslunni ríkari síðan síðast en það held ég að sé ljóst að þeir verða í mikilli baráttu í vetur fyrir lífi sínu í þessari deild. Þeir eru einfaldlega ekki með mjög burðugt lið og þeir hafa lítið sem ekkert styrkt það í sumarglugganum. Þetta stefnir sem sagt í þrjóskuleik að ég held. Yfirleitt hef ég verið skíthræddur fyrir svona leiki, leiki þar sem við verðum með boltann megnið af leiknum og eigum erfitt með að nýta svæði þar sem mótherjinn liggur mjög aftarlega. Þarna mun hápressan vonandi skipta miklu máli, pressa strax á menn, vinna boltann og þá myndast svæði til að hlaupa í.

Annars ætla ég ekki að þykjast vita mikið um þetta Burnley lið. Maður þekkir þarna nokkur nöfn frá því síðast, en þau eru ekki mörg. Heaton markvörður er einn þeirra sterkasti maður og gæti alveg átt það inni á bankabókinni sinni að eiga draumaleik gegn Liverpool, það væri eitthvað svo týpiskt. Annar sem heillaði mig talsvert fyrir um tveim árum síðan var George Boyd. Þeir eru einnig með Michael Kightly sem lofaði góðu á sínum tíma þegar hann skaust upp á sjónarsviðið með Wolves, en hefur lítið gert í því að standa undir þeim væntingum. Scott Arfield er svo sprækur strákur og sömu sögu er að segja af Andre Gray. Í framlínunni hafa þeir einnig Sam Vokes sem var nokkuð öflugur með Wales á EM síðasta sumar. Það er sem sagt lítið um stjörnum hjá þeim, enda ekki við því að búast hjá liði sem var að koma upp í efstu deild. En Leicester sýndi það og sannaði á síðasta tímabili að fótbolti er liðsíþrótt og það er allt hægt í boltanum.

Vonandi að það verði ekki á morgun og að okkar menn mæti til leik með öll sín sóknarvopn. Við virðumst vera svolítið eins og skylmingarmaður sem beitir sverði sínu á fimlegan hátt og getur auðveldlega sært andstæðinga sína, jafnvel með banasárum, en notar ekki skjöld í bardögum sínum. Þeir sem hafa séð skylmingastríðsmyndir, þeir sjá að það er ansi erfitt að halda lífi lengi í slíkum bardögum ef þú ert án skjaldar, þar sem andstæðingarnir beita honum mikið fyrir sig og geta því varist áhlaupum okkar. Síðasti leikur súmmaði þetta svolítið upp fyrir okkur. Það góða í þessu er að sverðið okkar er verulega vel brýnt og alveg stórhættulegt og því ber að beita og það af krafti.

Ég elska hápressuna hans Klopp. Ég hreinlega elska Jurgen Klopp, þetta er ekki flókið. Ég hef ekki verið svona ánægður með knattspyrnustjóra Liverpool frá því að Dalglish var með liðið í fyrra skiptið. Hann gerir alveg fullt af mistökum, en hann viðurkennir það líka fúslega. Það mættu fleiri taka sér það til fyrirmyndar. Hann talar líka við okkur stuðningsmenn eins og að við séum nánast vitibornar mannverur og notar mál sem við öll skiljum. Ekkert skraut, engar lykkjur, bara hard core og blátt áfram á staðreyndum. Hann sér líka um að liðið er bara assgoti skemmtilegt áhorfs og maður fer inn í alla leiki með góða von um að ná einhverju út úr leiknum.

En eitt virðist fylgja þessum Klopp áherslum og það er stór meiðslalisti. Sem betur fer er hópurinn stór og maður kemur í manns stað og allt það, en það er engu að síður erfitt og vont að vera í stanslausu hringli með liðið. Mané, Milner og Sturridge eru tæpir á að ná þessum leik. Einhver þeirra gæti það jafnvel, en líklegast taka menn ekki miklar áhættur svona í upphafi tímabils. Ojo, Karius, Lucas, Gomez og Sakho eru þar fyrir utan frá vegna meiðsla. Við erum í 2. sæti í deildinni (ég veit, á markahlutfalli) og í efsta sæti í meiðsladeildinni. Þetta er svaðalegur árangur eftir aðeins einn spilaðan leik. Ég svo sem tæki þessari stöðu í vor.

En hvernig stillum við þessu nú upp? Þar sem Karius er meiddur, þá mun Mignolet standa í rammanum. Clyne mun eflaust verða í hægri bakverðinum en það er alveg spurning hvað Klopp gerir varðandi miðverðina. Ég gæti alveg séð fyrir mér að Matip komi inn í miðvörðinn við hlið Lovren og Klavan færi á bekkinn. Moreno hefur verið mikið gagnrýndur fyrir sína frammistöðu, en það hefur enginn verið keyptur inn í þessa stöðu síðan, þannig að hann heldur sínu sæti. Can bankar eflaust hraustlega á dyrnar inn á miðsvæðið, spurning hvað Klopp gerir þar. Ég sé hann ekki droppa Henderson eða Wijnaldum, kannski líklegast að Lallana yrði sá sem myndi verða fórnað og jafnvel færður framar í stöðuna hans Mané. Ég giska bara á óbreytta miðju. Mané meiddist lítillega í vikunni og verður því væntanlega engin áhætta tekin með hann. Coutinho hlýtur bara að verða á sínum stað, en spurningin er með framherjastöðuna. Origi gæti alveg dottið inn fyrir Firmino, eða hreinlega Ings gegn sínum gömlu félögum. Svo er spurning með standið á Sturridge. Ég ætla að tippa á þetta svona:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Moreno

Can – Henderson – Winjaldum
Lallana – Origi – Coutinho

Það er orðið rugl erfitt að ráða í það hvernig stillt er upp á miðju og framar á vellinum. Það er ákaflega góður hausverkur, bæði fyrir okkur upphitara, sem og Jurgen Klopp. Það er ennþá sumar, ég er Poolari og því er ég bjartsýnn. Okkar þjóðflokkur kann best við sig á sumrin, því það er jú alltaf stutt í næsta tímabil. Ég held að við eigum eftir að vinna þetta Burnley lið, en það verður erfitt, þeir verða þrjóskir. Ég ætla að spá okkur 2-1 sigri þar sem Wijnaldum og Origi setja mörkin.

26 Comments

  1. Spái 4-2-3-1, Can og Henderson á miðjunni, síðan annað hvort Wijnaldum eða Lallana með brössunum fyrir aftan Origi.

  2. 4-2-3-1
    Mignolet
    Clyne Matip Klavan Milner
    Henderson Can
    Lallana Firmino Coutinho
    Origi

    3 – 0 Firmino, Origi og Sturridge setja mörkin.

  3. Loksins kominn annar ízlenskur Bliki í Úrvalsdeildina (Gylfi nottlega Bliki, þó svo að hann hafi spriklað eitthvað með Hafnfirzka fimleikafélaginu sex vetra gamall).

    Fagna komu Jóhanns Berg í Burnley og óska honum alls hins besta.

    Sagt er að Mané hafi horft agndofa á markið sem Jóhann Bergz skoraði á móti Swizzz.

    Það er oft sagt að erfitt sé að spá, sérstaklega um framtíðina en á alskýjuðum laugardegi á Spot tökum við þetta:

    Burnley – Liverpool : 0 – 5.

  4. Menn verða að átta sig á því að hápressa verður ekki á morgun því að hún virkar ekki þegar lið vilja einfaldlega setja langa boltan fram. Liverpool munu setja pressuna á þá en þeir s.s ætla sér samt að sendan langan fram hvort sem pressan kemur eða ekki.
    Þetta verður sem sagt baráttuleikur þar sem við verðum meira með boltan og þeir pakka í vörn. Nú verður fróðlegt að sjá hvað Klopp leggur með til þess að opna vörnina hjá þeim.

    Eigum við ekki bara að vera bjartsýnir og trúa því að það takist og að liverpool vinnur leikinn en þeir sem halda að þetta sé eitthvað auðvelt eiga eftir að bregða mikið.

  5. Ef við vinnum ekki Burnley þá þýða þessi góðu úrslit á móti Arsenal ekki neitt ! Ég spái þessu 0-2 fyrir LFC.

  6. Höddi B: Laukrétt.

    Spái 0-1 eða 1-2 í erfiðum leik.

    Áfram Liverpool!

  7. Sá blálokin af Friday Night Football.
    Flott sett og flottir í setti. Við fáum næsta föstudagsleik. Það verður fylgst með því.

    Ætla ekki að minnast á leikinn sem var í gangi en geri orð Carra að mínum. “Hope not”.

    Leikurinn á morgun er gildra. Menn verða að vera klárir og mæta dýrvitlausir. Ég mun styðja liðið alla leið og ennþá meira ef þeir lenda í basli.
    Enda munu þeir hafa þetta yfir línuna. 2-3 fyrir okkar mönnum og Studge kemst á blað.

    Bið að heilsa Benteke og gangi honum vel, sé ekki eftir honum.
    YNWA

  8. Gylfi Bliki hahahahahahahahahahahahahahahaha!!!!! 🙂

    Hann ólst upp steinsnar frá Kaplakrika og foreldrar hans búa þar ennþá í Setberginu í Hafnarfirði.
    Þó að hann hafi spriklað eitthvað smávegis fyrir liðið horlitunum úr Kópavoginum að þá er Gylfi Þór FH ingur í gegn.

  9. # 9 Kristján Atli

    Veit að Gylfi fæddist Hafnfirzkur en æfði með Blikum. Held að sölurnar á honum hafi gefið Blikum einhverjar 150 milljónir sem uppeldisfélag. (More to come, fuck you Swansea). Ungr Gylfi aungvar brekkur né gras habbði nema Hellisgerði. Þá orti Flosi:

    Ef hitti ég hýran Hafnfirðing,
    í Hellisgerði.
    Aftan og framan og allt í kring,
    er ég á verði.

    Þess vegna varð Gylfi Kópavogsbúi. (nú kallað hælisleitandi)

  10. Vid verdum bara ad vinna leikinn a morgun og vonandi hafa okkar menn einhverjar lausnir i ár gegn lidum sem liggja mjog aftarlega, treysti a Klopp tar. Vonandi stillir Klopp upp jafn miklu eda enn meiru sóknarlidi og sidustu helgi tvì tad er ljóst ad okkar menn munu stjórna leiknum og hafa boltann allavega 70 % leiktimans.

    Spài 1-3 og Coutinho, Origi og Lallana skora

  11. Ef ég þekki liði mitt rétt þá töpum við á morgun, vinnum svo næstu þrjá leiki og gerum jafntefli við Swansea. En mikið vill ég að Klopp sé með ráð undir rifi hverju og við steamrollum yfir Burnley.

  12. Rífumst aðeins um Fh og Blika hérna. Eruði for real?
    Annars spà ég 1-3 sigri okkar. Studge með 2 og Firmino 1.

  13. Kannski er Gylfi Hafnfirðingur. Kannski er hann Kópavogsbúi. Eflaust má færa fyrir því rök að Gylfi okkar Sigurðsson er Fáskrúðsfirðingur í húð og hár. Það má samt ekki gleyma því í þessari umræðu að Heiðar vinur minn Helguson er Dalvíkingur. Emre Can er Frankfurtari. Samuel Jackson er Washingtonari. Veit ekki af hverju eða nákvæmlega hvernig það tengist þessari umræðu. Týndi þræðinum. Um hvað vorum við að tala?

    Já, Liverpool. Sean Dyche og hans fríða föruneyti mæta væntanlega dýrvitlausir til leiks. Þeir gráta ennþá Danny Ings, en hann var auðvitað orðinn einskonar átrúnaðargoð í Burnley. Menn, konur og börn fara enn þann dag í dag með Ingsuleysisbænina á leikdegi. Þetta verður ekki auðvelt.

    Að því sögðu trúi ég því að við klárum þennan leik á morgun. Liverpool væri ekki Liverpool ef þeir myndu ekki fá mark á sig, þannig mín spá er að þetta fari 2-1 fyrir rauðliðum. Firmino potar inn tveimur og Sam Vokes skallar einum inn eftir hornspyrnu.

    Ljótur sigur eða fallegur, skiptir ekki öllu. 3 stig takk!

  14. Vil sjá liðið svona, ef Mané er ekki með

    Mignolet
    Clyne Lovren Matip Ragnar
    Can
    Winjaldum Lallana
    Firmino Origi Coutinho

  15. Sælir drengir, ég biðla til ykkar hætta skjóta á Moreno, þessi neikvæðni kemur okkur ekkert og er orðin leiðinleg, fyrir ykkur sem minna vita um fótbolta og halda að kaupa leikmann á 50m+ sé lausnin þá þó Moreno sé eini aðal liðs vinstri bakvörðurinn okkar þá erum við með hellingur af leikmönnum sem geta leyst þessa stöðu af vel, hverjir eru það? Ragnar Klavan, Lucas Leiva, Emre Can, James Milner, Joe Gomez svo eitthverjir séu nefndir. Þetta er ekki lítill listi af mönnum og líklega meira og betra en flest öll lið í úrvalsdeildinni, enginn leikmaður sem er vinstri bakvörður að upplagi var frír fyrir okkur í þessum glugga nema Juanma guttinn.

  16. Sælir félagar

    Þetta verður hunderfitt þar sem Burnley mun leggja liðsrútunni í teignum og kýla svo fram og treysta á skyndisóknir. Það gæti ef til vill tekist ef vörnin verður í ruglinu eins og á móti Arsenal. Ég ætla samt að vona að við náum að kreista út sigur í þessum leik. Spái eins marks sigri 0 – 1 eða 1 – 2

    Það er nú þannig

    YNWA

  17. Held að þessi leikur sé ekki sýndur, þeir sýna bara einn leik kl 14 og það er ekki þessi, correct me if Im wrong

  18. Smári og Eiríkur Már slakiði aðeins á það er enginn að rífast hérna ég og Kilroy vorum aðeins að ræða um Gylfa þetta er hins vegar allt í góðu en mig langaði bara að svara því sem að hann sagði.

    Þetta verður erfiður leikur og ég held að við vinnum ekki með nema einu marki 1-0 eða 2-1 en þetta verður sigur okkar manna í dag. En ef að við vinnum ekki leikinn þá verða örugglega nóg af mönnum til að kenna Moreno eða Mignolet um það.

    YNWA!

  19. Sælir, vitið þið um einhverja síðu sem sýnir leikinn í heild sinni? Er staddur á grikklandi og næ ekki að horfa á hann á einhverjum pöbb og þarf því að horfa á hann um kvöldið.

    P.s. Var brjáluð stemning á seinasta leik sem ég sá á irish pub í chania. Liverpool hjartað nær langt.

  20. http://streamshunter.tv
    Setjið þessa síðu á speed dial eða hvar sem síður eru vistaðar. Hægt að
    að horfa á allar íþróttagreinar í beinni. Fínt stream. Er að horfa núna á
    Stoke Man City í góðum gæðum. YNWL. Eitt enn. Þegar linkurinn á leikinn
    er settur á opna þá í öðrum glugga klikka á close og vúla leikurinn klár.

  21. Er einhver hér sem þekkir til hvort það sé einhver góð pay-per-view síðu sem er traustsins verð?

Benteke til Palace

Burnley – Liverpool 2-0 (leik lokið)