Sumarhreingerningar á Anfield.

Næsta sumar verður vægast sagt áhugavert og nokkuð ljóst að nýtt þjálfarateymi kemur til með að gera töluvert af breytingum. Mig langar að skoða aðeins nánar hverjir eru líklegir til að fara og eins hverjir gætu fengið séns i hópnum á næsta tímabili sem eru samningsbundnir Liverpool en ekki í hóp (lánsmenn og unglingar). Ef hópurinn er skoðaður er auðvelt að sjá fyrir sér heilmiklar breytingar með tilheyrandi sparnaði í launakostnaði án þess þó að róta mikið í núverandi aðalliði. Lykilmenn Liverpool eru flestir á góðum aldri.

Hverjir fara?

Martin Skrtel
Efa að neinn af miðvörðum Liverpool sé öruggur með framtíð sína en með komu Matip hlýtur þetta að vera komið gott hjá Skrtel núna. Lovren eða Sakho verða vonandi einu núverandi miðverðirnir sem halda áfram. Skrtel hefur verið partur af of mörgum lélegum varnarlínum hjá Liverpool. Hann er sagður vera á um £75.000 á viku á samningi sem rennur út 2018 þannig að ef hann fer skapast pláss á launaseðli fyrir gæða leikmann, eins og Joel Matip. Eftir innkomu hans gegn Southamton ætti hann nú þegar að vera búinn að spila sinn síðasta leik.

Kolo Toure
Hann hefur einfaldlega verið allt of stór partur af þessu liði Liverpool. Hann hefur staðið sig að mestu leiti vel en það er langt síðan Toure fór yfir hæðina og ljóst að Liverpool þarf miklu meiri gæði í samkeppni um miðvarðastöðuna. Hann er að spila rúmlega 20 leiki öll tímabilin sín hjá Liverpool, þurfum 25 ára gamlan Toure. Hann kom frítt og er sagður vera með £65.000 á viku. Það eru laun fyrir mjög góðan leikmann.

Lucas Leiva
Alltaf orðað Lucas í burtu frá Liverpool og hann var svo gott sem farinn síðasta sumar og fékk tilboð frá Kína í janúar. Hann er sagður vera með um £80.000 pund á viku og samning til 2017. Leikmaður sem hefur ekki lengur þá snerpu sem þarf í Úrvalsdeildina og er þar fyrir utan alltaf meiddur. Hann gæti orðið mjög góður einhversstaðar á meginlandi Evrópu, eða þá heima í Braselíu. Gef því 85% líkur á að hann fari, þessi 15% eru upp á það ef hann tekur Jose Enrique á þetta í eitt ár.

Jose Enrique
Liverpool losnar loksins við Enrique í sumar og hans rosalega launapakka sem er sagður hljóða upp á £75.000 á viku. Ekkert mál að skilja afhverju hann hefur alltaf neitað að fara. Næsta lið mun líklega ekki bjóða honum meira en £7.500 á viku. Sorglegur ferill hjá Liverpool, hann var alls ekkert svo vonlaus þegar hann kom.

Mario Balotelli
Vonandi er Raniola umboðsmaður Balotelli búinn að plata eitthvað annað lið til þess að kaupa þennan ótrúlega ofmetna leikmann. Hann er sagður vera með samning upp á £110.000 sem sýnir vel hversu fáránlega örvæntingafull kaup þetta voru. Efa stórlega að það takist að selja hann, en hann verður ekki með Liverpool næsta tímabil, það er á hreinu.

Ádám Bogdán
Þessi mistök hafa nú þegar verið leiðrétt með því að kalla Danny Ward til baka. Hann er með £15.000 á viku sem færi líklega betur á bankabókinni hjá Ward. Hann klúðraði sínum séns í liðinu fáránlega og gæða markmaður væri löngu búinn að taka stöðu Simon Mignolet varanlega.

João Carlos Teixeira
Hann var í samningsviðræðum við Liverpool í janúar en hans samningur rennur út í sumar og hann þarf að fá spilatíma. Hann er sagður vera með £5.000 á viku þannig að brottför hans mun ekki hafa teljandi áhrif.

Steven Caulker
Hann er sagður vera með um £30.000 pund á viku. Hann fær ekki einu sinni séns á að sanna sig.

Þarna er ég búinn að telja upp átta leikmenn sem gætu farið án þess að það hafði mikil áhrif á liðið. Tæplega £400.000 á viku. Það er líklega búið að orða nánast alla leikmenn Liverpool við önnur lið núna undanfarið en það er ljóst að nokkrir eru mjög líklegir.

Joe Allen
Trúi ekki öðru en að Allen sé ekki hugsaður til framtíðar þó hann sé búinn að spila vel undanfarið. Klopp þarf að styrkja miðjuna og til að gera það tippa ég á að Allen verði fórnað. Hann er með £45.000 á viku og samning til 2017. Eitthvað var talað um samningsviðræður við hann á þessu tímabili, veit ekki hvernig það fór.

Christian Benteke
Var hann ekki að stimpla sig út núna með síðasta viðtali? Hann er greinilega hundpirraður hjá Liverpool og skilur ekki afhverju hann fær ekki fleiri sénsa. Því miður skilja allir aðrir mjög vel afhverju og eins og staðan er núna er hann ákaflega ólíkur því sem Klopp vill sjá frá sinum leikmönnum. Auðvitað vonar maður ennþá að hann springi út en það er rosalega dýrt að kaupa leikmann á £32,5 og borga honum £140.000 pund á viku ef hann stendur ekki undir því. Hann hefur nákvæmlega ekkert efni á að rífa kjaft annarsstaðar en inni á vellinum. Vill þó frekar halda honum en að gefa hann til West Ham á klink eins og Andy Carroll.

James Milner
Ef Klopp ætlar að endurnýja miðjuna þá myndi ég mikið frekar horfa á Milner heldur en Henderson, skil þá umræðu enganvegin. Milner kom til Liverpool út á loforð um að spila á miðjunni. Hann er kominn í nákvæmlega sama hlutverk hjá Liverpool og hann var hjá Man City enda ekki nógu góður til að spila á miðjunni hjá stórliði. Góður kostur að mörgu leiti en hann er með £120.000 pund á viku sem gerir hann einn launahæsta leikmann liðsins. Hann er ekki að spila í samræmi við það. Persónulega vill ég betri miðjumann og einnig betri vinstri kantmann eða hvaða stöðu hann hefur verið að spila.

Thiago Ilori
Hann fékk nýjan samning en hefur varla fengið séns síðan þá. Veit ekki hvert planið er með hann en hann er með £20.000 á viku. Góður leikmaður þarna einhversstaðar haldist hann heill. En hann þarf að fara frá Liverpool, sjálf síns vegna.

Luis Alberto
Hann hýtur að fara í sumar, er að standa sig mjög vel á Spáni og mögulega er hægt að selja hann fyrir a.m.k. sömu upphæð og hann kostaði.

Þarna eru komnir 13 leikmenn sem gætu farið af launaskrá án þess að hrista mikið upp í aðalliði Liverpool. Tæplega £800.000 á viku í launakostnað sem ætti að vera hægt að nota svo mikið mikið betur.

Líklega eru ekki margir sem eru alls ekki til sölu og rétt eins og að þessir 13 leikmenn fara aldrei allir í sumar er mjög líklegt að 1-2 fari sem maður er ekki endilega að sjá fyrir núna. Vona þó að þetta lið verði styrkt með eins litlu raski og hægt er. Þessi hópur er að meðtaka hugmyndir Klopp á þessu tímabili og kemur vonandi betur slípaður til leiks eftir undirbúningstímabil.

Launatölur sem ég nefni eru ekki staðfestar tölur heldur eitthvað sem ég tók héðan.


Lánsmenn og unglingar sem koma til greina

Það gleymist oft í umræðunni að mögulega þarf Klopp ekki að kaupa svo marga leikmenn og Liverpool selur mjög líklega fleiri í sumar en verða keyptir. Stefna félagsins er að byggja liðið upp á ungum leikmönnum, FSG leggur mjög mikla áherslu á unglingastarfið og Klopp hefur heldur betur sýnt að hann er tilbúinn að nota unga leikmenn. Eflaust hentar það hans þjálfunarstíl betur að móta unga og ferska leikmenn frekar en að reyna kenna gömlum hundi að sitja.

Einhverjir af þessum eiga eftir að koma inn í hópinn á næsta tímabili og spila töluvert af leikjum. Jafnvel brjóta sér leið í aðalliðið.

Lazar Markovic
Hann hlýtur að fá séns hjá Klopp. Rodgers var að nota hann fáránlega þegar hann kom í mjög sundurleitt Liverpool lið og þessi lánssamningur sem hann er á núna er illskiljanlegur. Þetta er leikmaður sem við keyptum 20 ára á £20m. Hann er núna tveimur árum eldri og gæti sprungið út hjá stjóra sem nær því besta út úr honum, Klopp er vonandi sá stjóri.

Danny Ward
Mikið verið látið með þennan strák undanfarin ár og honum hefur lengi verið spáð bjartri framtíð. Hann fékk nýjan samning núna nýlega og var að standa sig frábærlega í Skotlandi á láni hjá Aberdeen sem er í titilbaráttu. Ef hann ætlar að verða framtíðarleikmaður Liverpool þarf hann að vera nógu góður til að slá Mignolet úr liðinu, verði ekki keyptur nýr markmaður grunar mig að hann fari að banka fast á dyrnar strax í sumar. Einhver er ástæðan fyrir því að hann var kallaður heim úr láni frá Aberdeen sem er í titilbaráttu í fyrsta skipti í nokkra áratugi.

Sergi Canos
Veit ekki hvort hann er tilbúinn í Liverpool en útiloka það alls ekki. Klopp vantar kantmenn og hann hefur staðið sig frábærlega í Championship deildinni í vetur. Árinu eldri í betra liði undir stjórn Klopp er alls ekkert útilokað að hann fái sénsa. Hann er fæddur 1997 eins og fjölmargir aðrir spennandi leikmenn Liverpool.

Joe Gomez
Leiðinlegur frasi en Gomez verður eins og að fá nýjan leikmann í liðið. Hann hefur verið það lengi frá. Ef hann kemur jafn sterkur til baka og hann var fer hann beint í hópinn. Þetta er 1997 módel þannig að framtíðin er rosalega björt sleppi hann við meiðsli.

Danny Ings
Nákvæmlega sama með hann og Gomez. Hann byrjaði feril sinn hjá Liverpool vel og komi hann jafn sterkur til baka grunar mig að Klopp hafi heilmikil not fyrir hann enda fáir leikmenn Liverpool eins duglegir án bolta.

Marko Grujic
Þessi strákur var ekki keyptur til að fara eitthvert á láni. Hann fær alveg örugglega séns. Eins geta þeir vonandi hjálpað hvor öðrum að aðlagast hann og Markovic. Þetta er ein staðan á miðjunni, bara spurning hver af núerandi hópi fer í staðin.

Hér eru strax fimm leikmenn (sex með Ward) sem bætast við hópinn næsta sumar og fá líklega allir séns.

Ofan á það eru margir ungir leikmenn að standa sig mjög vel og gætu komið mikið meira við sögu á næsta tímabili.

Sheyi Ojo
Fyrsta nafn á blað yfir spennandi leikmenn í akademíunni. Hann skoraði þrennu í varaliðsleik um daginn í sömu stöðu og Milner hefur verið að spila hjá okkur undanfarið. Hann er miðjumaður að upplagi en með hraða til að spila á kantinum líka og kemur væntanlega þar inn í hópinn. Strákur sem var í hóp í síðasta leik fram yfir Ibe og kom inná sem varamaður þegar Liverpool vantaði mark. Hann fer a.m.k. ekki neitt á láni aftur, það held ég að sé ljóst.

Andre Wisdom
Hann fékk nýjan samning í sumar þannig að líklega er eitthvað verið að horfa til hans. Sé hann þó ekki brjóta sér leið inn í liðið. Á móti er talað um að ekki eigi að dæma miðverði fyrr en þeir verða um 25 ára gamlir, vonandi á það við um Wisdom.

Allan
Leikmaður sem Klopp gat ekki hrósað mikið meira og vildi fá hann strax í hópinn. Hann er 19 ára.

Jordan Rossiter
Ótrúlega óheppinn að meiðast vegna ofnotkunar landsliðsins á honum. Segir manni mögulega eitthvað að hann er ofnotaður í yngriflokka landsliðum Englands. Vonarstjarna akademíunnar undanfarin ár, vonandi ekki næsti John Welsh.

Pedro Chirivella
Enn einn gæða miðjumaðurinn sem er 19 ára. Chirivella, Ojo, Rossiter og Allan eru allir fæddir 1997 og Grujic er fæddur 1996. Það verður hörð barátta milli þeirra um sæti í liðinu og líklega spara þeir töluverðan pening sem annars færi í kaup á miðjumanni. Einhverjir af þeim hljóta að fara í hópinn á næsta tímabili.

Ryan Kent
Leikmaður sem ætti að vera Klopp vel að skapi, var að standa sig mjög vel á láni þegar hann var kallaður til baka. Hann er 20 ára núna og fer alveg örugglega í baráttu við Ibe, Markovic og Canos um kantstöðurnar. Fæddur 1996.

Harry Wilson
Yngsti landsliðsmaður Wales í sögunni, hann er enn einn leikmaðurinn fæddur 1997. Sé hann ekki fyrir mér banka fast á aðalliðsdyrnar næsta vetur en maður veit aldrei. Ekki langt síðan hann var talin mesta efnið á Melwood.

Kevin Stewart
Þetta er enginn unglingur en hann kom það flott inn í bikarkeppninni á þessu tímabili að hann fékk nýjan samning og er klárlega í plönum Klopp.

Cameron Brannagan
Búinn að koma við sögu í sex leikjum á þessu tímabili og líklega staðið sig hvað best af nýliðunum sem hafa fengið séns í vetur. Hann er 1996 módel.

Taiwo Awoniyi
Enn eitt 1997 módelið. Sóknarmaður sem engin okkar þekkir til enda keyptur ungur og lánaður strax til Þýskalands. Gríðarlegt efni sem var ein helsta hetja Nígeríu á HM U17 sem vakti áhuga Liverpool. Nígería vann það mót. Hann hefur eitthvað verið meiddur í Þýskalandi og ekki spilað mikið en maður veit aldrei með svona menn, Klopp skoðar hann líklega í sumar.

Það eru miklu fleiri efnilegir leikmenn á samningi hjá Liverpool en við höfum áður séð. Höfum ekki séð svona marga leikmenn í varaliðinu sem eru líklegir til að komast í aðalliðið síðan á síðustu öld. Árgangar 1996 og 1997 fara núna að banka fastar á aðalliðsdyrnar og í þeim aldurshópum á Liverpool fjölmarga góða leikmenn. Árgangar 1998 og 1999 eru svo ekki síður spennandi.


Mjög spennandi sumar framundan en eins og áður segir er alveg hægt að hreinsa töluvert mikið til án þess að selja kjarnan sem er á mála hjá okkar mönnum núna. Eins er mikið til af góðum ungum leikmönnum sem fylla vel upp í hópinn þegar þarf. Því ætti að vera svigrúm í sumar til þess að kaupa frekar fáa en góða leikmenn. Annar kosturinn við ungu leikmennina er að þeir eru núna búnir að æfa eftir sömu hugmyndum og aðalliðið. Nánast öruggt að Klopp á eftir að nota þennan mikla efnivið sem hann fær hjá Liverpool töluvert.

24 Comments

  1. Ég held að Ibe gæti verið á útleið líka í sumar Einar, ég einhver veginn finnst hann alveg dottinn út öllum plönum og virðist ekki vera það efni sem við vorum að vonast eftir.
    Annars vona ég að Liverpool haldi Allen, fínn leikmaður til að hafa á bekknum, treysti svo á að Rafa haldi Newcastle í deildinni og kaupi Lucas og Skrtel til sín.

  2. Skemmtileg upptalning og fróðleg. Á hvaða lyfjum hafa menn verið þegar samið var við Balotelli og fleiri svosem líka. Ef stór hluti af þessu gengur eftir þá verður til nánast nýtt lið á Anfield. Getur verið að Klopp sé að hugsa að losa sig við slatta af meiðslapésunum (Leiva, Sturridge, Enrique) og þess vegna sé að koma tilboð í Sturridge frá PSG. Veit ekki af hverju Caulker var fengin í vetur, einhver örvænting þar á ferð. Þá leiki sem ég hef séð með Toure þá finnst mér hann hafa staðið sig vel og verið öruggari heldur en flestir þeir sem hafa verið við hliðina á honum. Býst samt við að hann fari og vona ég að hann geti framlengt ferilinn í nokkur tímabil með því fara í lakara lið.
    Ef guttarnir sem fengið hafa eldskírnina í vetur bæta sig eins og menn gera oftast um tvítugt þá koma margir þeirra til greina sem byrjunarliðsmenn, eða nálægt því, til dæmis Comez, Ojo, Brannagan og Kent. Margir efnilegair þar á ferð þó enginn nýr Owen eða Fowler og það sem verst er enginn nýr Carragher.

  3. fín pistill verð samt að vera ósammála með Milner sé ekki af hverju við ættum að láta hann fara . Hann er harðduglegur, getur spilað margar stöður, hefur reynslu og síðan hefur hann verið nokkuð öflugur í að leggja upp mörk á þessu tímabili.

  4. Ég held að Ibe og Hendo séu ekki öruggir og ég er alls ekki sannfærður um að Hendo sé maðurinn sem geti rifið liðið upp á næsta plan, held að liðinu vanti flottan leiðtoga.

  5. Var Balo ekki á árangurstengdum launum? Finnst eins og það hafi verið yfirlýsingar um það þegar hann kom.

  6. Væri reyndar alveg til í að halda Toure eitt tímabil enn, svona upp á móralinn og fá bróðir hans frá City… Það yrði boost 🙂 annars gleðilega páska rauðu félagar ?? YNWA

  7. Nr. 1
    Vona nú að við gefumst ekki upp á Ibe alveg strax, það væri galið.

    Nr. 3
    Sammála því að það væri gott að halda Milner áfram og við gerum það líklega en ég vona að það sé ekki í eins stóru hlutverki. Er svo að benda á að hann er á rosalega háum launum og FSG horfir held ég í það ef hann er ekki að skila af sér í samræmi við það.

    Nr. 4
    Balotelli var alveg örugglega á árangurstengdum launum og þeir eru það líklega allir. Þessar tölur sem ég vinn með í greininni eru ekki staðfestar upplýsingar en gefur okkur eitthvað til að miða við. Þegar kemur að kaupum og sölum á leikmönnum eru laun oftast jafnstór ef ekki stærri factor heldur en kaupverðið.

  8. Framtíðin virðist vera björt þegar maður les yfir hverjir eru að koma uppúr akademíunni en það er frekar ólíklegt að við hendum þeim öllum í djúpu laugina þó svo að þeir fái flestir að spila einhverja leiki á undirbúningstímabilinu. Það þarf oft bland af ungum leikmönnum og svo reynslu boltum í bland til þess að ná árangri og vonandi leitar Klopp uppi einhverja góða reynslubolta úr Þýska boltanum til þess að styrkja byrjunarlið okkar. Það hefur verið talað um Götze, Reus og fleiri og ég vona það svo heitt og innilega að við fáum einhverja í líkingu við þá til okkar í sumar.

  9. Í fyrsta skipti í mörg ár er mér nokk sama hverjir fara. Það hafa alltaf verið leikmenn sem maður hefur ekki viljað missa og stressaður um að þeir fari. Gerrard, Torres, Suarez til dæmis, en nú er enginn í liðinu sem ég sæi á eftir.

  10. Er þetta ekki soldið bratt? Allen, Skrtel, Milner og Lucas eru svo sem ekki á þeim stað að þeirra yrði saknað en ég held að fókusinn verði varla á að losna við squad leikmenn heldur að losna við þá sem geta ekki neitt. Innan við helmingur leikmannakaupa misheppnast þannig að það ætti almennt að skila betri hóp að skipta út þeim sem eru lélegir á meðan hitt felur í sér áhættur. Stick to the devil you know held ég að kaninn kalli þetta.

  11. Skoðum þetta. Markahæstir og stoðsendingahæstir í PL. Við eigum ekki einn mann á þessum listum, okkur vantar leiðtoga – Okkur vantar world class leikmenn.

    Enska úrvalsdeildin:
    21 mark – Harry Kane, Tottenham
    19 – Jamie Vardy, Leicester
    18 – Romelu Lukaku, Everton
    16 – Sergio Aguero, Man City
    16 – Riyad Mahrez, Leicester
    14 – Odion Ighalo, Watford
    12 – Olivier Girud, Arsenal
    12 – Jermain Defoe, Sunderland
    11 – Diego Costa, Chelsea
    10 – Marko Arnautovic, Stoke
    9 – Gylfi Þór Sigurðsson, Swansea

    Flestar stoðsendingar:
    18 – Mesut Özil, Arsenal
    11 – Riyad Mahrez, Leicester
    10 – David Silva, Man City
    9 – Dele Alli, Tottenham
    9 – Kevin De Bruyne, Man City

  12. Mjög áhugavert að pæla í þessu. Ég hugsa að einhverjir þarna séu vissulega að spila upp á framtíð sína hjá klúbbnum. Leikmenn eins og Allen, Skrtel og Lucas hefðu allir gott af því að ná sannfærandi spilamennsku hjá klúbbnum næstu mánuði til þess að heilla stjórann.

    Ég held samt að liðið myndi ekki sjá mikið á eftir þeim, Allen og Lucas eru hvorugur lykilmenn á miðjunni þó svo að þeir vissulega detti inn á góða leiki og nýtist ágætlega sem hluti af hópnum. Það er hinsvegar óþarfi að halda þeim báðum sérstaklega með hliðsjón af fjölda ungra miðjumanna sem væri alveg hægt að gefa sénsinn í hallæri.

    Enrique, Toure og Skrtel eru svona helstu nöfnin í vörninni sem gætu farið (enrique og Toure nánast öruggt). Ég tek undir með Einari að Skrel hefur verið samnefnari síðustu 7 ár fyrir almennt séð frekar slappar LFC varnir. Ég gæti alveg sætt mig við að hann yrði seldur til þess að afla fjár fyrir önnur leikmannakaup. Hann er topp fagmaður sem kom sér aftur á kortið eftir að BR frysti hann á sínu fyrsta tímabili. Hann er bara ekki nógu góður sem hluti af aðalmiðvarðarpari og mín tilfinning er sú að hann hafi eiginlega aldrei náð góðu sambandi við neinn makker, amk virðast Lovren og Sakho vera að tengja ágætlega saman þessa dagana. Toure hefði í raun aldrei átt að fá framlengingu á sinn samning heldur hefði átt að vera komið replacement, ekki misskilja mig hann hefur gefið allt í sína leiki í vetur en að mínu mati er hann bara töluvert kominn yfir hæðina og mér finnst eins og flestir sem spili við hlið hans eigi oftast frekar slaka leiki. Hann hefur gefið allt í sinn LFC feril og það verður ekki tekið af honum en hann þarf Carra í toppformi við hliðina á sér til að ég sætti mig við hann í byrjunarliðinu.

    Balotelli verður bara settur í skrifstofustarf á Melwood frekar en að vera nálægt liðinu. Ég skil ekki þann klúbb sem er til í að taka sénsinn áfram á honum en Klopp þarf ekki einu sinni að prófa hann….game over (og ég held eiginlega að Balo sé jafnframt búinn á hæsta leveli í knattspyrnu).

    Ég veit ekki með Benteke, hann er svo innilega ekki að fara að spila sem 4 – 5 kostur hjá LFC og ég trúi því að hann sjái eftir að hafa farið til lfc en hinsvegar er ekki hægt að horfa framhjá því að hann hefur verið gríðarlega slakur undir stjórn Klopp og sénsarnir hans undanfarið eru svo fáir að hann nær illa að sanna sig. Líklegast snýst þetta bara um hvort klúbburinn og mögulegir kaupendur nái saman um söluverð í sumar. Ég skil ekki hvernig klúbburinn fékk þetta út að leikmaður sem hentar klúbbnum jafnilla væri fyrsti kostur fyrir sumarinnkaupin 2015, bara skil þetta ekki.

    Ég óttast hrikalega allar sögusagnir um að Henderson, jafnvel Sturridge séu að fara frá klúbbnum. Ekki vegna þess að þeir eru ómissandi heldur einfaldlega út af þeirri staðreynd að síðan 2008 hefur klúbburinn ávalt misst sína bestu menn og ALLLTOF oft gegn vilja klúbbsins. Þegar slíkt gerist er nánast ómögulegt að koma klúbbnum uppúr þeim miðjumoðs öldudal sem hann er í í dag.

    Það verður líka spennandi að sjá hversu aggresív hreinsunin í sumar verður….ef einhverjir lykilleikmenn fara á brott þá verður þetta örugglega töluvert. Vonandi í fyrsta skiptið í 3 ár sjáum við liðið samt raunverulega styrkjast milli tímabila. Ég er allavegana pínu spenntur að hugsa til þess að það verða eflaust fullt af nöfnum sem maður þekki lítið til sem munu verða keypt í sumar.

    YNWA
    al

  13. Það gerir mig svoldið spenntan að sjá Götze, Volland og ter Stegen orðaða við Liverpool liðið.
    Svo skal enginn segja mér annað en að allt sé kjaft fullt af óslípuðum demöntum í þýsku deildinni sem við þekkjum ekkert til. Klopp á klárlega eftir að skoða þá í sumar.

  14. Í fyrsta skipti hef ég engar áhyggjur af því hverjir fara og hverjir koma. Hef fulla trú á því að Klopp og hans teymi komi með meiri gæði í Liverpool klúbbinn. Tekur kannski 1-3 ár að fullkomna þetta. En ég hef 100% trú á að Klopp klári verkefnið með stæl.

    YNWA. In Klopp we trust.

  15. 16# ég skil ekki hvers vegna þú hræðist að missa Henderson. Hann er ofboðslega takmarkaður leikmaður með frábært þol. Hann getur ekki skorað, sendigata er mjög takmörkuð, og ég gæti haldið áfram en hann er svo langt frá því að vera ómissandi ég hefði frekar meiri áhyggjur að Coutinho fari.

  16. Algjørlega sammála Ása “19” Okkur vantar mikid betri midjumann en Henderson. Hann verdur heldur aldrei sá leidtogi sem vid turfum.

  17. Ég hef sagt það áður og segi það enn. Það er ólíklegt að Henderson verði áfram með fyrirliðabandið á hausti komanda. En hvort hann verður látinn fara, er annað mál.

    Ef hann nær upp fyrri getu eru fáir sem standa honum á sporði í box-to-box engine og hann hefur átt margar fallegar sendingar inn fyrir vörn og þessháttar. Spurningin er bara hversu slæm hælmeiðslin eru í raun og veru. Svo er hann líka afleitur slúttari, en kannski má laga það. Tala nú ekki um ef kafteinspressunni yrði létt af honum.

    Mín 50 cent eru ennþá á Emre Can sem upprennandi fyrirliða.

  18. Fæ seint skilið þá sem vilja losa sig við leikmenn eins og Allen. Við skulum ekki gleyma því að það er dýrmætt að eiga leikmenn sem ekkert vesen er á, skila sínu þegar þeir spila og gera ekki kröfu á byrjunarliðssæti.

    Voðalega eru menn blindaðir af FM eða Fifa.

    YNWA

  19. #19 og #20

    Tek alveg undir með ykkur að Henderson er engin heimsklassaleikmaður. Hinsvegar finnst mér hann með betri leikmönnum klúbbsins, vissulega hefur hann átt erfitt á þessu tímabili og ef meiri líkur en minni eru á að hann muni ekki ná upp fyrri getu þá getur það svosem alveg verið praktískt að selja hann og reyna að nýta peninginn skynsamlega en við vitum svosem líka alveg að það er ekki auðvelt.

    Ég er alls ekki að bera hann saman við Coutinho og alveg á hreinu að klúbburinn myndi aldrei selja slíkan leikmann nema af illri nauðsyn. Ég er frekar að horfa á menn eins og Can, Allen, Lucas, Milner. Ég held að Can sé að þróast á réttan hátt og virðist í dag vera orðin lykilmaður hjá Klopp, Milner er ólíklegur til þess að fara enda á svimandi háum launum og nýtist áfram að ég ágætlega hjá klúbbnum.

    Henderson hefur margt í sínum leik, gríðarleg orka sem nýtist bæði í vörn og sókn. Hann leggur upp mörk og á það alveg til að skora (mætti reyndar gera meira af því).

    Punkturinn minn er aðallega sá að ég myndi gjarnan vilja halda henderson og láta aðra miðjuðmenn eins og Allen og lucas fara þar sem mér finnst þeir leggja minna til liðsins, ég hef líka takmarkaðar væntingar um að þeir miðjumenn í unglingastarfinu núna nái að slá Henderson útúr liðinu en tel þó meiri líkur að þeir gætu komist framfyrir Allen og lucas.

    Þetta er alls ekkert skot á Allen og lucas sérstaklega, ég bara sé þá hvorugan bæta sig mikið meira sem lfc leikmenn og að mínu mati er núverandi geta ekki nægjanlega góð.

  20. Mér finnst erfitt að átta mig á því hvort við séum að sjá raunverulega getu leikmanna á vellinum eða hvort við séum að sjá þá fara eftir fyrirmælum um þá stöðu sem þeir spili í heildarhugmyndafræði.

    Klopp talaði um það þegar menn voru að koma úr meiðslum að loksins þá gæti liðið farið í að finna rythma og uppstillingu. Ef við tökum þann pól í hæðina að hann sé að spila þeim mönnum sem hann telur sterkasta hverju sinni. Þá er Henderson ekki jafn slæmur og við höldum. Við söknuðum hans allavega í leiknum gegn Southampton.

    En það er spurning hvort hann hafi kannski litið betur út hjá Rodgers en hann gerir hjá Klopp og hvort sú ímynd sem við höfum af honum passi í þessa ákveðnu stöðu í þessari ákveðnu hugmyndafræði. Hann var náttúrulega og er mögulega enn í meiðslum, þannig að kannski þarf hann líka að fá sinn tíma til að slípa sig inní nýtt kerfi.

    Að því sögðu þá er hann 26 ára á þessu ári og spurning hversu mikið svigrúm hann hafi til að bæta sig.

Opinn þráður – Johan Cruyff

Tengsl Liverpool og Dortmund