Liverpool 1-0 Bournemouth

Liverpool vann í kvöld skyldusigur á nýliðum Bournemouth í fyrsta heimaleik leiktíðarinnar en leikur liðsins var kannski ekki alltof sannfærandi.

Rodgers stillti upp óbreyttu liði frá því í leiknum gegn Stoke í síðustu umferð. Menn voru misjanflega kátir með það en þetta leit svona út:

Liðið er svona:

Mignolet

Clyne – Skrtel – Lovren – Gomez

Henderson – Milner
Ibe – Coutinho – Lallana
Benteke

Bekkur: Bogdan, Toure, Firmino, Moreno, Can, Origi, Ings

Gestirnir byrjuðu leikinn af miklum krafti og gerðu Liverpool erfitt fyrir með því að pressa hátt og ákaft. Þeir komu boltanum í netið snemma leiks en markið var dæmt af þar sem dómarinn mat það að sóknarmaðurinn hafi ýtt á bakið á Dejan Lovren í skallaeinvíginu. Mér fannst það nokkuð hart en líklega rétt og markið stóð ekki. Þar slapp Liverpool nú heldur betur með skrekkinn.

Nokkrum mínútum seinna komst Liverpool yfir þegar Henderson setti frábæra fyrirgjöf inn á teiginn þar sem Christian Benteke mætti á fjærstöngina og stýrði boltanum í netið. Coutinho var næstum því búinn að eyðileggja fyrir Benteke þegar hann var kolrangstæður en ákvað að stökkva á eftir boltanum rétt áður en hann barst til Benteke. Með réttu hefði þetta átt að vera dæmt af en sem betur fer var það ekki gert og Benteke opnaði markareikning sinn fyrir Liverpool í fyrsta heimaleik sínum.

Leikurinn var svolítið opinn það sem af leið leiks en ekki var mikið um bein færi hjá hvorugu liðinu. Bæði liðin áttu sín færi og skot en eiginlega ekkert sem var það nálægt að verða að marki fyrr en rétt undir lok leiksins þegar frábær fyrirgjöf Clyne frá hægri kantinum rataði til Benteke sem hittir boltann í jörðina og smá snerting frá Boruc, markverði Bournemouth, var nóg til að breyta stefnu boltans svo hann söng í þverslánni. Frábær sókn frá Liverpool og synd að Benteke bætti ekki við sínu öðru marki í leiknum.

Þetta var ekki beint liðið sem ég vildi sjá stillt upp í þessum leik og fannst mér liðið vera í svipuðum vandræðum og frá því í síðasta leik þá sérstaklega varðandi miðsvæðið og vængina. Mér hefur fundist afar lítið koma út úr Ibe í þessum fyrstu tveimur leikjum og hefði ég viljað sjá hann byrja á bekknum í dag. Ég hefði líka kosið að byrja með Lallana á bekknum eða þá að minnsta kosti aðeins aftar á vellinum en mér finnst þeir tveir saman sitt hvoru megin við Benteke og Coutinho ekki vera nógu effektískt fram á við. Hvorugur lék eitthvað illa, Lallana var að mínu mati góður í dag, en það hefur lítið verið að koma út úr þeim sóknarlega og vil ég sjá breytingu í næsta leik.

Lovren og Skrtel fannst mér halda áfram að leika vel. Þeir voru sterkir í loftinu og náðu að bægja mestu hættum Bournemouth í aðrar áttir og þvinguðu þá svolítið út í langskotin sem var jákvætt. Mjög flott ef þeir fara að smella og tvö ‘hrein lök’ í upphafi leiktíðar er mjög jákvætt og vonandi byggir upp sjálfstraust hjá þeim. Gomez heldur áfram að vera heillandi miðað við aldur og Clyne virðist ætla að vera mikill fengur fyrir okkur.

Henderson og Milner á miðjunni voru í svipuðum gír og frá því í síðustu viku. Þeir vinna vel og mikið, taka góðan þátt í spili en það virðist vera dregið úr framlagi þeirra að mínu mati þegar þeir eru tveir saman í hjarta miðjunar. Held þeir þurfi þriðja mann með sér, sérstaklega í næsta leik og vona ég að Can muni tilla sér þarna fyrir aftan þá og gefa þeim meira frelsi til að koma sér ofar á völlinn. Henderson þurfti reyndar að fara útaf vegna einhverja óþæginda í ökkla en það er vonandi ekki alvarlegt.

Moreno kom líflegur inn á vinstri kantinn og það er eitthvað sem ég held að við gætum alveg séð reglulega í vetur. Hann er hraður, leikinn með boltann og með ágætis fyrirgjafir á vinstri fæti. Það gefur Liverpool aukna vídd í sínum leik og hugsanlega eitthvað sem við gætum séð meira af. Ætli Rodgers takist að breyta Moreno í næsta Bale?!? 🙂

Maður leiksins fannst mér þó vera Benteke. Alveg hands down besti leikmaður Liverpool í dag. Hann fékk að mínu mati ekki nægilega mikla þjónustu líkt og gegn Stoke en þegar hann fékk boltann að sér þá gerði hann vel. Ég held hann hafi ekki tapað skallaeinvígi í dag og eru skallar hans góðir og hnitmiðaðir, samherjar hans þurfa bara að koma sér ofar á völlinn og í betri stöður og þetta gæti orðið algjör auðlind fyrir liðið. Hann var að pressa vel á varnarmenn Bournemouth og olli þeim miklum höfuðverk, hann skoraði gott mark og var hársbreidd frá því að setja annað. Líst vel á það sem við höfum séð af honum hingað til og hlakka ég mikið til að sjá hann með aðeins meiri sóknarþunga í kringum sig.

Liverpool er nú í bullandi toppbaráttu með sex stig líkt og Manchester-félögin tvö og eru strax komnir með nokkura stiga forystu á Arsenal, Chelsea og Tottenham. Það getur allt breyst mjög fljótt en sigur gegn Arsenal í næstu umferð gæti orðið svakalega mikilvægur fyrir framhaldið á leiktíðinni. Ég bíð spenntur efitr fyrstu “alvöru” þolraun tímabilsins en það er klárt mál að Liverpool þarf að gera aðeins betur ætli það sér að taka öll stigin af Arsenal.

62 Comments

  1. Frábært að vera með fullt hús stiga eftir þessar tvær umferðir. Stoke á útivelli eitt okkar alversta vígi undanfarin 7 ár og að mæta nýliðum í upphafi móts er yfirleitt óheillavænlegt. Mun betra að mæta þeim eftir september þegar vonin er byrjuð að deyja.

    Nokkrir punktar:
    – við erum á toppnum
    – við erum ekki búnir að fá á okkur mark
    – við erum 5 stigum á undan Chelsea
    – Benteke er búinn að skora!

    Já eitt að lokum, fanta flott innkoma hjá Moreno, sést langar leiðir að hann nennir ekki að sitja lengur á bekknum 🙂

  2. Fótbolti snýst um að ná í úrslit, Liverpool gerði það í þessum leik án þess að eyða of miklu púðri. Leikplanið gekk upp og allir sáttir.
    Tveir leikir tveir sigra og það án þess að hafa Sakho í liðinu, spurning hvort allir sérfræðingar síðunnar viti betur en Rodgers og vilji ólmir fá hann inní liðið í næsta leik.

  3. Gummi Ben:
    Af hverju leyfðu þeir ekki Benteke að brjóta vegginn og rífa netið ?!! Haha
    Tæpur en flottur sigur…3 stig!! Ekkert annað skiptir máli 🙂

  4. JESS virkilega sterkt að vera með 6 stig það er ekkert gefið í þessari deild en hvar var ibe að fá sér snæðing í sumarfríinu hann var hægari en lambert í þessum leik

  5. Við þurfum að vera graðari og kantarnir þurfa að dæla á Benteka, en flott að vinna,,,, Mánudagur ÆÆÆÆ aftur.

  6. Sæl og blessuð.

    Taugatrekkjandi en allt slapp þetta nú fyrir horn. Gott að vera komin með sex stig!

    Neikvætt: Hrikalegt að horfa á okkur falla til baka, glata miðjunni og láta þá hamra á vörninni trekk í trekk. Vafasamur dómur að dæma markið þeirra af, og vafasamur dómur að láta okkar mark standa. Misstum tökin á leiknum þegar Henderson hvarf af vettvangi. Can axlar ekki þessa ábyrgð enn að stýra leiknum. Kúrekastíll á honum. Hrikaleg nýting á færum! Oft á tíðum var vörnin á mörkunum, Lovren klobbaður og þetta hefði getað farið illa!

    Sumsé: Töpuðum miðjunni, vörnin var ekki graníttraust og sóknarmenn kiksuðu í dauðafærum.

    Jákvætt: Unnum og áttum hættulegar skyndisóknir, hefðu sentimetrar fallið réttu megin í nokkur skipti hefði þetta orðið stórsigur.

    Sumsé: Með smá heppni/herslumun hefði þetta getað orðið ærlegri sigur!

  7. 3 stig er það sem maður bað um og þau komu.

    Benteke átti að bæta við marki og Coutinho átti að líka að skora.

    Við höldum aftur hreinu og er það hið besta mál.
    Clyne er að koma gríðarlega sterkur inn.
    Lallana átt mun betri leik núna en síðast. Sást lítið í þeim fyrri en eftir að hann fór á miðjuna var hann meira í boltanum og skilaði honum vel frá sér og hljóp úr sér lungun.
    Ibe átti einfaldlega lélegan leik.
    Millner var frábær og hljóp manna mest á vellinum.
    Gomez átti í smá vandræðum framan af en var mjög sniðugt hjá Rodgers að láta Moreno fyrir framan hann.
    Benteke var frábært í þessum leik skoraði, hélt boltanum vel en átti að skora undir lokinn.

    Við erum með 6 stig.
    Chelsea eru með 1 stig
    Arsenal eru með 3 stig
    Tottenham eru með 1 stig.

    Ég held að það býr miklu meira í okkar lið en þeir sýndu í kvöld. Ég vill samt hrósa andstæðingunum fyrir að mæta og spila sinn leik. Þeir gáfu 100% í þetta og spila á köflum flottan bolta og ég held að þeir eiga eftir að ná í nokkur óvænt úrslit í vetur og halda sér uppi.

    Næsti leikur er gegn Arsenal og litu þeir virkilega vel út og reynir virkilega á okkur í þeim leik. Vonandi verður Henderson tilbúinn(annars bara Can inn)

    3 stig ekkert væl núna og fögnum því.

  8. Eftir þennan leik og þann síðasta hugsa ég ekki, vá hvað mínir menn eru góðir. Mjög sáttur en finnst eitthvað vanta.

  9. Drullufokking sterk úrslit! Þetta BM lið lítur drulluvel út og ef þeir halda svona dampi eitthvað fram á leiktíð eru þeir að fara að haldast uppi!

    Sigur er sigur hvernig sem hann vinnst og því ber að fagna!

    Nenni ekki að nöldra um neikvæðu punktana meðan við vinnum leiki!

    FOKKJÁ!

  10. Svona er að hafa sóknarmann!

    Hann skorar þessi framherjamörk (Benteke), Liverpool með Sterling, Lambert, Balotelli eða Borini frammi hefði gert jafntefli í þessum leik!
    Benteke á þessi 3 stig.
    Fyrstu 5-6 umferðirnar snúast um að safna stigum spilamennskan skiptir minni máli. Stigin telja og verða ekki tekin af okkur 🙂

  11. Messan

    Annan þáttinn í röð er Þorvaldur Örlygs að tuða um að Milner sé lélegur leikmaður

    Ég skildi það betur 2 mín síðar þegar í ljós kom að hann er Man City fan

    Annars enginn samba bolti frekar en hjá öðrum liðum þessar fyrstu umferðir, snýst mest um að ná í stig meðan leikmenn eru að slípast saman

    Helst að City komi ferskir undan sumri en önnur lið ekki að skera sig úr

  12. Frábær 3 stig. Við spiluðum einfaldlega við gríðarlega gott lið í dag og kláruðum leikinn með sigri og vil ég benda mönnum á að það hefur ekki gerst allt of oft hjá okkar mönnum. Fair play til Bournmouth, þeir voru óheppnir að tapa leiknum á rangstöðumarki og þeir spila mjög jákvæðan fótbolta og ég vona innilega að þetta lið þeirra haldi sér uppi ef spilamennska þeirra í vetur verður svona.

    Svo er annað mál, hvaða rétt höfum við poolarar á því að væla yfir spilamennsku liðsins í fyrstu tveimur leikjum liðsins? Hvað halda menn eiginlega að við séum? Við höfum ekki unnið deildina í einhver 25 ár og menn í alvöru gráta sumir hverjir úr sér augun eftir þessa fyrstu 2 leiki sem btw unnust. Liðið er að slípast saman, við erum fyrirfram með 5-6 sterkasta leikmannahóp deildarinnar. Fyrsti leikur er úti gegn Stoke sem er mjög erfiður leikur og svo er heimaleikur gegn nýliðum Bournmouth sem eru heldur betur hugnraðir og með flott fótbolatalið.

    Verum smá raunsæir og styðjum okkar menn, ef menn geta það ekki þegar við vinnum hvenær þá?

  13. Þá er ég aðallega að benda á ummæli í færsluni hér á undan, á þessum þræði eru allir til fyrirmyndar. Áfram Liverpool.

  14. Persónulega fannst mér Moreno koma sterkur inn, vissulega kom hann inn óþreyttur, en hann virtist fíla sig vel með minni varnarskyldur og meiri möguleika á að sækja. Alveg spurning um að leyfa Moreno hreinlega að byrja næst og þá á vængnum, þess vegna í staðinn fyrir Ibe. Lallana fannst mér eiga ágætis spretti, en það svosem kom lítið út úr þeim, og það var líka hann sem átti skotið úr aukaspyrnunni alræmdu. Þá fannst mér Firminho ekki koma inn með þann kraft sem maður var að vonast eftir.

    Ég væri semsagt alveg til í að sjá Moreno og t.d. Ings koma inn í staðinn fyrir Ibe og Lallana. En mikið svakalega er nú gaman að hafa nokkra valkosti í uppstillingunni.

  15. Sorrý, það var víst Milner sem átti skotið í spyrnunni “góðu”.

  16. Þetta var gott að fá þennan sigur núna þar sem leikjaplanið er að fara þyngjast allverulega núna….

    Veit ekki hvað mér finnst um milner/ henderson combóið…. Þetta var erfitt hjá þeim í dag rétt einsog á móti stoke… Klárlega eitthvað sem þarf að smella einsog svo margt annað….
    En móment fyrrihálfleiks er klárlega þegar myndavélarnar beindu sjónum sínum af þeim mikla snilling mario balotelli þar sem hann var gjörsamlega að brillera í sinni bestu stöðu…
    Fallega kleinum þessi gæji

  17. Mignolet – traustur – 7
    Gomez – þvílíkt efni, pollrólegur á boltanum – 7
    Clyne – sókndjarfur og sterkur í vörn allan leikinn – 7
    Skrtel – leiðtoginn í vörninni var góður – 7
    Lovren – átti mjög góðan leik – 8
    Milner – mjög sterkur – 8
    Henderson – útaf meiddur en var sterkur – 7
    (E.Can) – ryðgaður fyrst en byrjaði síðan að ryðja mönnum úr vegi – 6
    Lallana – lúnkinn og þindarlaus en þarf að vera aðeins meira direkt – 7
    Coutinho – frábær leikmaður sem spilaði vel – 8
    (Moreno) – var óvenjusprækur og fínn á kantinum – 7
    Ibe – átti fínan leik en var tekinn útaf fyrir Firmino – 6
    (Firmino) – sást lítið en hæfileikarnir eru þarna – 6
    Benteke – þvílíkt naut, hann er rosalegur, tryggði sigurinn – 9

  18. Horfði á leikinn, sá síður en svo skemmtilegan leik frekar en þann í fyrstu umferðinni en annar 1-0 sigurinn í röð gefur okkur 6 stig – við getum ekki haft fleiri stig. Þess vegna var ég miklu meira en sáttur.

    Kom síðan heim, las ummælin í þræðinum á undan þessum og hef síðan haft á tilfinningunni að við höfum alls ekki unnið þennan leik, séum með 0 stig og lífið sé ömurlegt.

    Næsta skref var að fletta upp á tímabilinu 2013-14 en þá unnust þrír fyrstu leikirnir 1-0, og við enduðum í öðru sæti í lok tímabilsins. Ummælin við þræðina þrjá voru öllu jákvæðari þá.

  19. þetta var nú ekki merkilegur leikur hjá okkar mönnum. Erum heppnir að vera búnir að vinna þessa tvo fyrstu leiki þrátt fyrir mjög slaka frammistöðu. Markið hjá Benteke var auðvitað kolólöglegt. Margir leikmenn virkilega slakir og engin ástæða til að vera bjartsýnn, Kveðja Hjalti, og ekki vera að gagnrýna mína sýn á þetta, þetta er bara það sem mér finnst og ég er ekki með Liverpool gleraugun á mér!

  20. 3 stig eru alltaf 3 stig. Mér fannst samt að Brendan hefði átt að nota 2 frammi á heimavelli og pressa betur í stað þess að láta þessa nýliða taka svona á okkur í þessum leik. fara bara í 4-4-2.

  21. “Ég bíð spenntur efitr fyrstu „alvöru“ þolraun tímabilsin”

    Fyrir mér á þetta ekki alveg við. Mér finnst nefnilega Stoke á útivelli og hvað þá eftir áfallið á síðustu leiktíð gegn þeim vera Alvöru þolraun og vel það.

  22. Gott kvöld!

    Sammála skýrsluhöfundi að liðið okkar var ekkert að spila sannfærandi EN á meðan við tökum þrjú stig úr slíkum leikjum þá er mér nokk sama, eiginlega bara drullusama. Það er nefnilega þannig að það mun taka okkur smá tíma að fínpússa og finna réttu blönduna en á meðan það er að gerast þá er gríðarlega sterkt að vinna svona leiki. BM voru eins og maður bjóst við, alveg grenjandi vitlausir og baráttuglaðir. Full respect til þeirra.

    Þetta var hárréttur dómur þegar markið þeirra var flautað af, mjög erfitt að sjá þetta brot en brot var það og boltinn er nú þannig að það má ekki gera hvað sem er.

    Vona samt innilega að Henderson sé ekki alvarlega meiddur.

    Annars mjög sterkur sigur og fullt af jákvæðum punktum! Sterk vörn og markvörður, vinnusöm miðja, hættulegar sóknaraðgerðir og við náum að gera það sem telur í þessum fótbolta, sem er að skora fleiri mörk en hinir.

    YNWA!

  23. Mér er alveg sama hvernig stigin koma, ef þau bara koma. Ósanngjarnt að dæma liðið út frá spilamennsku í fyrstu umferðum, enda þarf liðið tíma til að spila sig saman.
    Klassi Benteke, klassi Henderson (Þurfum stoðsendingavél).

    Hef trú á að næsti leikur muni spilast öðruvísi fyrir okkur. Minna physical lið sem einkennist minna af baráttu og meira af spilamennsku. Finnst við líta betur út gegn þannig liðum þó úrslitin séu okkur oft ekki hagstæð. Vonandi er sjálfstraustið að vaxa með okkur í þessum fyrstu tveim leikjum og þá gæti verið gaman næsta mánudag. Get ekki beðið.

    Koma svo!

  24. Þetta minnir óneitanlega mikið á tímabilið fyrir tveimur árum. Byrjar vel en samt ekki með einhverri snilldarspilamensku og flugeldasýningum. Stóri munurinn er sá að vörnin núna er miklu sterkari.

    Mér finnst Liverpool vera komið með vörn sem minnir á varnir stóru liðana. Þau fá á sig vissulega sín færi en þau eru miklu færri en í fyrra. Það er miklu meiri taktur í öftustu línunni og þeim mun erfiðara að fara upp kantana, með Clyne og Gomez sitt hvoru meginn við Lovren og Skrtel.

    Tel nokkrar ástæður liggja að baki. Henderson og Milner verja vörnina miklu betur en Gerrard gerði í hlutverki varnartengiliðs. Tilkoma Clyne og Gomez í vörnina færir liðið upp á annað stig og svo er Lovren hægt og bítandi finna fjölina sína. Í þessum tveimur leikjum er hann búinn að vera miklu betri en hann var nokkurn tíman í fyrra og segir mér það að hann þurfti bara tíma til að finna sig.
    Það var oft í leiknum þar sem ég sá tvær agaðar varnalínur fyrir framan boltann, enda kom á daginn að Bormouth skapaði sér ekkert mikið af færum.

    Þar fyrir utan er Liverpool miklu líklegra að skora með Benteke frammi og ég fæ ekki betur séð en hann er búinn að afsanna það algjörlega að hann sé einhvers konar Andy Carrol týpa. Hann er t.d miklu teknískari, Hraðari og tekur miklu meira þátt í spili. Þar fyrir utan hefur hann alla hæfileikana hans Carol. Góður skallamður og sterkur líkamlega. Tala nú ekki um hvað hann er góður að taka við bolta. þegar það er sendur hár bolti á hann.

    Núna býður Sturridge á kanntinum í ofvæni eftir því að komast í sitt heitasta form. Ef hann nær að mingla með svipuðum hætti við Benteke og hann gerði við Suarez Þá verður gaman að vera til í vetur.

  25. Getur einhver sagt mér hvar ég get séð seinni hálfleik þar sem við þurftum að fara út á dekk í hálfleik og hvar ég get séð MNF 😉

  26. Fullt hús stiga og hreint mark eftir 2 leiki. Það er augljóst mál að það hefur greinilega verið unnið í varnarleiknum hjá Liverpool á æfingarsvæðinu í sumar. Finnst liðið einblína fyrst og fremst á að verja markið og sækja svo. Sem er jákvætt. Þótt þetta sé ekki sannfærandi þá er tilefni til bjartsýni og jákvæðni. Ef þeir vinna leiki þrátt fyrir slakan leik er mér skítsama. Þetta er ekki fokking Real Madrid.

  27. Ég sakna commentanna frá Sigkarli…
    Það er nú þannig.

  28. Góð 3 stig. Ég er kannski í ruglinu, en mér fannst við bara miklu betri og hefðum átt skilið að vinna stærra. Bournemouth stóð sig vel, en mér fannst þetta í raun aldrei í alvöru hættu.
    2 leikir búnir, 6 stig, Benteke, Clyne og Millner hafa komið mjög vel inn í liðið, og þetta á bara eftir að smyrjast betur.
    Ég nenni ekki að taka þátt í einhverju bölmóðsþrugli og er bara bjartsýnn á þetta.

  29. Er einhver hér sem skilur og getur útskýrt fyrir mér á fótboltamáli hvaða erindi Lallana á í byrjunarliðið aftur og aftur?

    Í hvaða topp 4 liði myndi hann vera byrjunarliðsmaður, öðru en Liverpool?

  30. 32# mér finnst lallana ekkert verri leikmaður en cazorla/ramsey/willian/navas/janusaj eða herrera allt eru þetta byrjunarliðsmenn í sínum liðum, lallana á góðum degi gæti labbað inní öll þessi lið man nú ekki allveg hvernig þetta var en fyrir 2 árum þá var hann stigahæstur í fantasy af öllum miðjumönnum deildarinnar. Hann glímdi við mikil meiðsli á síðasta seasoni og það eru búnir 2 leikir af þessu seasoni og hann var flottur í dag.

  31. Já hvar skal byrja. Þetta var ok en alls ekki sannfærandi. Þykir vörnin og markmaðurinn enn veikir hlekkir. Ibe hefur allskonar hæfileika en hann er ekki byrjunarliðsmaður í dag Can var hálf týndur í sinni innkomu. Lalana virkar dáldið eins og hann sé ekki viss um hvaða hlutverki hann eigi að gegna í þessu liði. En jákvæðu hlutirnir eru fleirri, Gomez er góður, Benteker nýtir vel sýn færi, og Sturrridege mættir í byrjun okt. og svo
    eigum Ings á bekknum.

  32. # Brynjar …. Ég er sammála þér varðandi allt í færslunni þinni, nema að það má bæta því við varðandi samanburðinn á Carroll og Benteke að Benteke hefur líka mikið betra jafnvægi heldur en Carroll, e.t.v. lægri þyngdarpunkt. Það var t.d. auðveldara að brjóta á Carroll og hann virkar alltaf brothættur, svona eins og fallandi ísturn. En það virðist alveg sama hvað menn pönkast í Benteke hann er stöðugri en standpína!

  33. Þetta voru 3 stig þó sigurinn hafi ekki verið sannfærandi. Sú var samt tíðin að svona leikir töpuðust eða duttu í markalaust jafntefli.

    Held að við eigum talsvert inni. Miðvarðaparið leit vel út, og Benteke var góður, djö…á hann eftir að hrella andstæðinga okkar í vetur. Frinimo verður að fá að spila meira og fá smá blóð á tennurnar. Vona að Henderson verði klár gegn Arsenal, en ein spurning að lokum: Eigum við eftir að sjá Moreno spila meira á kantinum? Djö átti hann flotta innkomu.

    Ég er sáttur eftir leikinn. Það á alltaf að fagna sigrum. Þessi sigur á eftir að telja því að Þetta Bornemouth lið á eftir að gera usla í vertur. Greinilega komnir til að skemmta sér og gefa allt í hvern leik.

    Y.N.W.A

  34. Finnst grátlegt að segja frá því að ég sá ekki fyrsta heimaleik tímabilsins en eftir að lesa hvað menn hafa að segja er ég ekki viss hvort að það hafi verið þess virði eða ekki.

    Ég verð að vera sammála þeim hér að ofan sem segja að þetta er dæmigerður leikur, miðað við lýsingar, sem að hefði dottið í 0-0 jafntefli fyrir ekki svo mörgum árum síðan en Rodgers virðist vera að gera eitthvað rétt þar sem þessir leikir eru að vinnast.

    Eru menn ekki að detta í svipaða rútínu og í fyrra þegar að kemur að fyrstu leikjunum með tuðið? Það voru fjórir leikmenn í byrjunarliði sem eru nýjir í liðinu og verða að fá tíma til þess að fóta sig á vellinum. Alls voru 8 nýir leikmenn í hópnum og þurfa þeir allir tíma. Einn af þeim er mjög ungur en er að sýna að aldurinn skiptir ekki alltaf máli. Milner, Clyne og Big Ben er auðvitað vanir EPL boltanum en ekki vanir mannskapnum í kringum sig.
    Það sýnir sig kannski best þegar að Henderson átti flott hlaup innfyrir vörn Stoke í fyrsta leiknum og Benteke tók hlauðið inn í teig. Benteke dróg sig aðeins út þar sem var opið svæði en Henderson reiknaði með því að hann myndi stinga sér á milli miðvarðana.
    Þetta tekur allt tíma svo að við skulum slaka á.

    Einnig eru menn ekki alveg að átta sig á því að Can er einungis 21 árs, hann er ekki 27 ára eins og hann lítur út fyrir að vera og var spilað í heilt tímabil út úr sinni stöðu. Hann er ekki fullmótaður leikmaður og einn af þeim sem þarf svipaðan tíma og Lovren er að fá til þess að aðlagast. Nákvæmlega það sama má segja um Ibe sem hefur verið að flakka á milli klúbba til þess að fá leikreynslu á ýmsum sviðum.

    3 stig er hinsvegar það sem skiptir máli en Arsenal verða ekki auðveldir í taumi í næsta leik, þeir eru að fara vel af stað og eru ekki með marga lykilmenn meidda eins og meginþorra síðasta tímabils. Þeir eru klárlega eitt af þeim liðum sem mun berjast um bikarinn og von ég innilega að Rodgers sé með solid game plan fyrir þann leik.

    YNWA – In Rodgers we trust!

  35. Þetta er virkilega góð staða sem við erum í núna eftir fyrstu tvo leikina. Það er erfitt að kvarta yfir 6 stigum. Þessi úrslit þýða að við getum farið á Emirates frekar rólegir þar sem margir af okkar helstu keppinautum eru með 1-4 stig þannig jafnvel þó að leikurinn tapist erum við ekki að missa nein lið langt fram úr okkur. Það ætti að létta á pressunni.

    Varðandi leikinn í gærkvöldi þá voru þetta samt sem áður blendnar tilfinningar. Ég geri mér grein fyrir að þetta er leikur númer tvö og við þurfum að gefa nýjum leikmönnum tíma að aðlagast. Það vonandi gerist sem fyrst.

    Ég finn þó virkilega til með Bournemouth en loksins féll e-ð með okkur. Hversu oft hefur maður pirrað sig á dómgæslu sem fallið hefur gegn okkur. Persónulega þá fannst mér nú markið sem þeir skoruðu vera mjög soft brot. Allavega þá var atvik seinna í leiknum þar sem Skrtel svo gjörsamlega rígheldur í leikmann Bournemouth og hefði þá alveg eins geta fengið dæmt á sig víti. Hvort sem þetta var brot eða ekki þá er sjaldnast dæmt á atvik eins og þetta á Englandi.

    Svo verður að viðurkennast að markið okkar var púra rangstæða m.v. nýju reglurnar. Línuvörðinn hefur aðeins gleymt þessari reglu en ég held að það megi reikna með því að þetta mark verði notað sem kennslumyndband hvernig þessi nýja regla á að virka.

    En svona er víst fótboltinn. Ég þakka kærlega fyrir þrjú stig og ætla bara leyfa mér að vera pínu bjartsýnn að við getum náð í einhver stig á Emirates.
    Aftur á móti finnst mér þetta Bournemouth lið virkilega skemmtilegt og vona þeirra vegna að þeir haldi sér uppi. Það er ekki oft sem nýliðar koma á Anfield og spila jafn mikinn pressubolta og við sáum í kvöld.

    Mér finnst líka vert að nefna eitt annað. Það er mín skoðun að breiddin hefur ekki verið jafn góð í langan tíma. Jú vissulega væri hægt að vera með betri menn í flestum stöðum en það er ekki langt síðan að bekkurinn okkar innihélt menn eins og Coates, Suso, Assaidi en í dag erum við leikmenn eins og Ings, Moreno, Firmino, Origi á bekk og eigum Markovic og Sakho utan hóps ásamt fleiri meiddum.
    Þetta verður strangt tímabil og ég vil að Brendan verði duglegur að leyfa þeim sem eru utan hóps að spila leiki eins og bikarleikina og sérstaklega EL leikina. Það er tilvalið fyrir leikmenn eins og Markovic, Origi, Ings og fleiri sem munu fá færri tækifæri í deildinni.

    En 6 stig, ja takk!

  36. Þetta var gríðarlega mikilvægt að landa 3 stigum og halda hreinu, næsti leikur verður einn af þeim erfiðari sem menn fá á þessu tímabili enda ekki oft sem við fáum stig á Arsenal vellinum.

    Ég væri til í að sjá Moreno fyrir framan Gomez í næsta leik á kostnað Ibe sem mér finnst að eigi að fá að spila bikarleiki og evrópu leikina en ekki vera fastamaður í deildarleikjum.
    Firmino mætti svo koma inn fyrir Lallana enda þurfum við einhverja töfra í næsta leik og ég held að Firmino eigi það frekar til en Lallana.

  37. Hvernig var það, var ekki einhver fastagestur hér inni sem henti inn tenglum á einhverja asíska vefsíðu þar sem hægt var að horfa á MOTD? Og svona í framhjáhlaupi, er ekki hægt að mixa einhverja stafræna síu sem lokar á svartagallsrausara og nettrollara? Þetta tvennt er doltið að eyðileggja fyrir mér stemmninguna eftir ágætis byrjun leiktíðar.

  38. Við byggjum vonandi ofan á þetta. Ég hef þó áhyggjur af Brendan. Af hverju spilar hann ekki með tvo frammi og fer í 4-4-2 á heimavelli, þannig náum við líka að pressa lið betur. Sérstaklega þegar svona botn lið mætir. Mér fannst við heldur ekki nægilæga ákveðnir og tilbúnir í þennan leik, andstæðingurinn var mikið ákveðnari. Af hverju færði hann t.d. Jordon Ibe á vinstri kant þegar hann er búinn að vera mjög líflegur á hægri? Það virkaði engan vegin að mínu mati. Af hverju var Toure á bekknum í stað Sakho? Vona að við sjáum ákveðnara Liverpool lið á móti Arsenal. Það gæti orðið okkar veikleiki þegar líður á ef Brendan hefur ekki í sér að að setja Henderson eða Milner stundum á bekkinn, mér finnst þeir hafa verið vonbrigði sóknarlega séð.

    Við erum Liverpool, ég vil gera meiri kröfur til okkar. Þokkalega ánægður með kaupin í sumar nema ég hefði viljað sjá nýjan markvörð og miðjumann með góða sendingargetu sem opnar varnir og til að stjórna miðjunni. Vonandi kaupum við að minnsta kosti góðan miðjumann, Allen og Lucas meiga fara mín vegna.

  39. Ég hefði ekkert endilega dæmt brot á Bournemouth í aðdraganda marksins sem að þeir skora.

    Hins vegar er það alveg ljóst að það er dæmt á svona í 90% tilvika þegar að sóknarmaður setur hendurnar á axlir varnarmanns. Sér í lagi þegar að varnarmaðurinn floppar aðeins og lætur sjást að þessi snerting hafi átt sér stað.

    Varnarmenn Bournemouth (og Liverpool) fengu nokkrar aukaspyrnur í gær þegar þeir hentu sér niður við litla sem enga snertingu. Sér í lagi þegar þegar að þeir voru að skýla boltanum.

    Það liggur alveg fyrir að sóknarmenn mega varla snerta varnarmenn án þess að þeir láti sig falla í jörðina, og í 95% tilfella er dæmd aukaspyrna. Þetta virkar ekki eins í hina áttina.

  40. Alvöru þolraunin er bara sú að snúa til baka á völl þar sem var skitið yfir liðið okkar 6-1 og vinna þennan ógeðs völl og halda hreinu!

    Seinni þolraunin var að mæta gjörsamlega óútreiknanlegum nýliðum sem hafa engu að tapa og allt að vinna á fyrsta heimaleik okkar og unnum þann leik ekki sannfærandi kanski en við tókum þessi 3 stig.

    Kasta þessu neikvæðis tali útum gluggan þar sem ég sé ekkert nema jákvætt við fyrstu 2 leikina.
    Klárt mál að að Arsenal leikurinn verður virkilegt challange og þetta er einfalt hver einasti leikur er úrslitaleikur þið getið haldið ykkar neikvæðu rökum fyrir ykkur sjálfa sem við á.

  41. Benteke er sannkallað beast og er bara þrælflínkur og fjölhæfur gaur. Hugsið ykkur bara þegar Sturridge kemur til baka, hef trú á að þeir geti orðið magnað framherjapar. Ekki segja að við munum áfram spila með einn frammi því þetta verður eins og þegar Suarez var hjá okkur, þá var hreinlega ekki annað hægt en að hafa bæði Sturridge og Suarez inná. Það sama verður með Sturridge og Benteke. Þeir verða eins og Tvíhöfði í gamla daga, þú bara sendir ekki annan þeirra í frí eða setur á bekkinn.

    Mótið byrjar sannarlega betur en maður hafði vonað, frábært að hafa strax halað inn sex stigum. En þetta er ekki fögur spilamennska og líklega ekki í anda séra Friðriks og hans fleygu orða ,,Látið aldrei kappið bera fegurðina ofurliði.” En þetta er líklega óumflýjanlegt miðað við aðstæður. Bæði erum við að tjúna inn nýja leikmenn og í raun nýtt skipulag með þessari miðjuuppstillingu. Síðan hefur það auðvitað mikil áhrif að Gerrard er farinn og það kallar að mörgu leyti á nýja hugsun og nýtt upplegg. Hans viðvera hafði áhrif á hvert einasta strá á vellinum. Það eru því nýjir tímar sem þarf að bregðast við, hanna og þróa. En auðvitað höfum við líka verið lánsamir. Ófagrir, afar tæpir sigrar sem bragðast svolítið eins og viðbrennt ristabrauð. Pínu vont en samt gott.

    Við höfum unnið fyrir þessum stigum – gleðjumst og höfum trú á að Liverpool vélin sé að fínstillast, við erum með sterka grúppu sem með réttum aðferðum getur orðið að þrælsterku liði.

  42. Það var ekkert eðlilegt við það í fyrra að tapa 6-1 fyrir Stoke og alveg til skammar og Brendan heppinn að halda starfinu í dag satt best að segja. Að segja svo “óútreiknanlegum nýliðum” er furðulegt líka því að við höfum mætt Bournemouth síðustu tvö ár og eigum að geta tekið mikið betur á þeim en þetta, spiluðum einfaldlega illa á móti þeim og vorum heppnir að tapa ekki og getum þakkað dómaranum það. Vörnin er betri hjá okkur en sóknin er alls ekki góð og þarf Brendan virkilega að skoða það því að þessi heppni verður ekki með okkur í hverjum leik. Mér fannst leikmenn Liverpool líka bara linir og alveg til skammar að pressa ekki svona botnlið og spila ekki með tvo frammi.

    Mér líst ágætlega á hópinn í ár en mér finnst Brendan ekki vinna næginlega úr þessu í fyrstu tveim leikjum og var hreinlega bara heppinn að fá fullt hús stiga úr þeim. Það munaði nú engu að hann skipti markinu út á móti Stoke 🙂

    Ég hef ekki skrifað hér mikið en hef fylgst með Liverpool í 34 ár og er mjög bjartsýnn maður og hef haft trú á Brenden en ég hef þá tilfinningu að þetta sé síðasta árið hans. Mér líst illa á aðstoðarmenn hans og uppstillingar í leikjum. Sjáið t.d. á móti Stoke þar sem hann lætur markmanninn senda ítrekað langa bolta á Benteke en þar engin með honum að hlaupa á eftir þeim boltum sem hann skallaði í eyðurnar bakvið varnarmennina líkt og Emile Heskey og Owen voru notaðir mikið. Ég er ekki mikið fyrir svoleiðis fótbolta en fjandinn hafi það hafðu þá tvo frammi ef þú ætlar að beita þessari aðferð eitthvað. Mín skoðun….gaman að ræða um fótbolta raunsætt en ekki vera stimplaður sem neikvæður ef maður gerir kröfur til liðsins.

  43. Á mér draum að sjá liðið svona í vetur, að minnsta kosti á heimavelli 🙂 Vona innilega Illarramendi komi þá erum við nær City, Chelsea og Arsenal.

    Mignolet
    Clyne – Skrtel – Sakho – Gomez/Moreno
    Can/Henderson/Milner – Illarramendi?? – Coutinho
    Firmino – Benteke -Sturridge

  44. Er ekki Podcast í kvöld. Maður er alveg lost þegar Maggi leggur manni ekki fyrir línurnar.

    Vonlaust að fara inn í Arsenal-leikinn án álits. Hvað þýða síðustu tveir sigrar?

    Hvernig verður framhaldið?

  45. Það er ekki hægt annað en þakka liðinu okkar fyrir frammistöðuna í þessum tveimur fyrstu leikjum. Þeir sem eru á öðrum buxum ættu að skipta um gleraugu – nei ég segi nú bara svona. En hvað um það þá er gott að sækja 3 stig á völl sem okkar menn voru hýddir á í lok síðustu leiktíðar. Það þarf karakter til. Svo lék lánið við okkur í síðasta leik og það er bara í góðu lagi.

    Næsti leikur verður erfiður og ég held að Brendan verði að hugsa betur uppleggið en í leiknum við Bournm., huga að liðs-skipan og mótivera liðið til sigurs eða í það minnsta til jafnteflis. Það held ég að verði kallinum erfitt því mér fannst hann hefði mátt leggja síðasta leik upp sókndjarfara en raun bar vitni um. Svo tek ég undir með Gunnari Garðars #32 að það vona ég að Sigkarlinn fari að láta heyrast í sér. Góður penni og þorir að láta álit sitt í ljós bæði til vamms og hróss.

    Góðar stundir.

  46. Hvað segja menn um ástæður þess að Liverpool hætti að skora svona mörg mörk? Ná leikmenn Liverpool ekki að spila sig í gegnum pressu andstæðinganna?

    Hver er munurinn á liðinu í fyrra og í hitt í fyrra? Þorvaldur Örlyggson segir að Liverpool eigi ekki séns í efstu fjögur sætin. Hvernig ætlar Liverpool að komast í fjórða sætið? Með hvaða spilamennsku? Direct á Benteke?

  47. #52
    Fyrir tveim árum, þegar LFC gerði sína bestu atlögu að titlinum síðan sautjánhundruð og súrkál þá unnust fyrstu þrír leikirnir 1-0 og þá var engin flugeldasýning. Það tímabil enduðum við þó á að skora 100 mörk í deild. Lítið að marka fyrstu leikina meðan þetta er allt að slípast til.

  48. Podcast er klárt það vantar ekki, hýsingin er hinsvegar verulega að stríða okkur og útséð að við náum þættinum ekki inn í kvöld. Fari það í kolbölvað.

    Ætla út í rigninguna núna til að öskra á ljósastaura, það vinnur vonandi eitthvað á pirringnum.

  49. Djöfull vona ég að ég geti troðið ullarsokki það djúpt ofaní þennan þorvald að hann komi út úr honum aftanfrá. Ef að þessi fáfræðingur ætlar að vera fastagestur í messunni í ár þá er þessi þáttur ekki til fyrir mér hann er nógu slappur án gumma ben, það kom eintómt bull útúr þessum manni. hann ángríns talaði allan þáttinn eins og liverpool væri minni klúbbur en stoke og hlóg bara af rökum frá audda og hjörvari að þetta væri 5 liða barátta um top 4

  50. #54,

    Það er t.d. hægt að nota Dropbox share link í hallæri. En auðvitað síður elegant… 🙂

  51. #53 Þá áttum við inni (var í banni fyrstu 6 leikina minnir mig) mann að nafni Luis Suares sem var alls ekkert slakur það season. Það er enginn í þessu liði í dag sem er hálfdrættingur á við hann því miður.

    Gott að vinna en mikið ofboðslega er þetta léleg spilamennska á heimavelli gegn B’mouth. Ég er ansi hræddur um að þetta verði skipsbrot á mánudag. Spái 5-0 fyrir Arsenal

  52. Meðan við vinnum lélegu leikina hvað gerum við í þeim góðu ?1

  53. Nr.56
    Þannig að hver og einn þurfi að hlaða þættinum niður? Getum svosem græjað það þannig meðan hýsingin er að stríða okkur.

  54. Fyrir þá sem eiga playstation 3 eða 4 að þá er hægt að sjá motd og motd 2 live í gegnum bbc sports app sem hægt er að ná í ef menn búa til breskan aðgang sem er mjög auðvelt. Það er líka hægt að ná í bbc sports app í smart tv ef menn skipta location á sjónvarpinu yfir á UK og þá er hægt að horfa á þetta live í gegnum það.

Liðið gegn Bournemouth

Kop.is Podcast #93