Unglingar í ferðalag?

Eins og við höfum áður rætt ætlar liðið okkar í lengsta æfingaferðalag enskra liða í sumar þegar þeir flakka um Asíu og Eyjaálfu til að leika við lið heimamanna sem verða ekki öll af sterkasta tagi.

Sitt sýnist hverjum um tilgang slíkra ferða annað en þeir peningar sem þær skila í kassann en þó hefur reynslan sýnt okkur það að svona ferðir hafa gefið mörgum ungum leikmönnum færi á að sýna sig fyrir okkur aðdáendunum sem og vinna grannt með þjálfurunum og það hefur alveg skilað þeim mörgum inn í aðalliðshópinn.

Skýrustu dæmin voru hjá Brendan þegar Suso, Wisdom og Sterling nýttu Ameríkuferðalagið á sínum tíma til að komast á blaðið hjá stjóranum sem skipti okkur heilmiklu máli á þeim tíma. Það er alveg eins með atvinnumannaliðin eins og hjá okkur áhugamönnunum – það að sjá hvernig ungir menn spjara sig í slíkum ferðum gefur góða vísbendingu um hvernig þeir munu höndla aðalliðið og þeirra ævintýri. Það finnst mér helsti og mesti tilgangur þessara ferðalaga.

Þess vegna langar mig aðeins að spá í hvaða leikmenn það verða sem gæti orðið spennandi að sjá fara með í ferðalagið núna og fá nokkrar spilmínútur.

Danny Ward

Hér er á ferð markmaður sem á alveg möguleika á að verða í aðalliðshóp af krafti. Hann hefur verið í lykilhlutverki í U-21s árs liðinu okkar og á nokkra leiki á bekknum í vetur auk þess sem hann lék nokkra leiki með Morecambe á láni. Þessi strákur er “nútímamarkmaður” á þann hátt að hann er mjög góður í fótunum bæði til þess að sparka sem og að vinna þá fótavinnu sem skilar mönnum mörgum “línumarkvörslum” en vandi hans liggur kannski í skorti á hæð og því að hann lendir í vandræðum með fyrirgjafir. Hann fær örugglega einhverjar mínútur en ég held að í framhaldinu verði þessi strákur svo lánaður til liðs í neðri deildunum næsta vetur.

Ég bind svo vonir við að hann verði tilbúinn til að bakka upp aðalmarkmann eftir þetta tímabil eða í síðasta lagi frá hausti 2017.

Tiago Ilori

TiagoIloriPortúgalinn sem kom frá Sporting fyrir tveimur árum hefur nú eytt síðustu tveimur árum á láni, fyrst hjá Granada og síðan Bordeaux. Hjá hvorugu liðinu var hann fastur byrjunarliðsmaður en hefur þó spilað um 30 leiki í alvöru fótbolta. Hann átti afskaplega góðan leik nú nýlega í Evrópukeppni U-21s árs liða gegn ensku liði með Harry Kane í fararbroddi og nú vill umbinn hans og pabbi meina að Liverpool ætli að gefa honum séns á undirbúningstímabilinu. Mikið hefur verið rætt um þennan strák sem kostaði mikla peninga (þó ég reyndar telji að það kaupverð hafi aldrei verið greitt í einni greiðslu heldur einhvers konar bónusverkefni) og ég held að allir séu sammála um það að nú verður að taka um hann ákvörðun. Hann er 22ja ára gamall og þá er nú ekki mikið lengur hægt að bíða eftir að efnilegi stimpillinn sé að baki. Hann er með góða spyrnutækni og er fljótur að hlaupa en veikleikarnir liggja í að hann er ekki mikill fyrir sér líkamlega og hefur verið að lenda í vandræðum með stöðuskilning. Hann mun örugglega fá mínútur til að sanna sig og verður annað hvort í leikmannahópi LFC í vetur eða seldur, menn fara varla að lána hann einu sinni enn…nema þá kannski í ensku deildina.

Jordan Williams

Líkamlega sterkur og feykilega duglegur varnarsinnaður miðjumaður hér á ferð. Fékk sínar fyrstu mínútur í treyjunni síðasta haust þegar hann kom inná gegn Middlesboro og var í hóp nokkrum sinnum í vetur þangað til að hann var lánaður til Notts County í vor en þar var hann fastur maður í liði sem féll úr C-deildinni. Hann hóf ferilinn hjá U-21s árs liðinu sem hafsent en var fljótlega færður fram á miðjuna og þar held ég að framtíðarhlutverk hans verði. Hann mun pottþétt fá leiki í sumarferðinni og í framhaldinu verður væntanlega metið hvort hann fær sæti í hópnum eða hvort hann fer í lánsrútuna. Þessi velski strákur verður 20 ára gamall í nóvember og sennilega þarf hann að fá að spila reglulega í vetur. Hins vegar er hann í miklum metum hjá Rodgers og gæti því alveg orðið hluti af hópnum, svona týpískur leikmaður til að fá reynslu í League Cup og Europa League fram að jólum og svo í gott lán.

Sheyi Ojo

SheyiOjoVængframherji sem varð 18 ára í þessari viku og við keyptum á sínum tíma frá MK Dons árið 2011. Lék sem senter fyrst í stað en nú er hann fyrst og fremst vængframherji með fulla vasa af “trikkum” sem eru til þess gerð að hræða lífið úr bakvörðum. Hann er mjög fljótur með og án bolta með öflugan vinstri fót. Hann var lánaður til Wigan í vor og var fastur maður þar í liði sem átti býsna erfitt en aðdáendur þess liðs hrifust mjög af stráknum. Hann er okkar “wildcard” fyrir tímabilið, gæti alveg nýtt sumarið til að sannfæra menn á Anfield um að halda honum þar líkt og Williams en þarna gæti líka farið næsti öflugi liðsmaður t.d. Derby County.

Þessi strákur virðist líka vera tilbúinn andlega fyrir fótbolta á fullorðins sviðinu, það sýndi hann í leikjum Wigan í vetur og það auðvitað skiptir miklu máli. Þetta er held ég “hráasti” talentinn í klúbbnum með eiginleika sem erfitt er að kenna mönnum en einmitt þeir búa jú stundum til stærstu stjörnurnar. Vonandi sjáum við einhverja slíka takta í sumarferðinni!

Jerome Sinclair

Yngsti leikmaður til að hafa leikið fyrir aðallið Liverpool. Var 16 ára og 6 daga gamall þegar hann lék gegn WBA í deildarbikar árið 2012 í kjölfar þess að við keyptum hann frá því ágæta liði sumarið áður. Hann meiddist illa leiktíðina 2012 – 2013 og var eiginlega alla leiktíðina 2013 – 2014 að ná sér af þeim meiðslum en síðasta ár virtist allt vera komið í rífandi gang og aftur hægt að sjá þá hæfileika sem urðu til þess að hann var keyptur og fékk sinn séns. Hann skoraði að vild með U21s árs liðinu og var lánaður til Wigan í mars en fékk þó fáa sénsa þar. Þegar hann kom úr því láni kom hann inná í tveimur leikjum aðalliðsins í ferlegum endinum en það sýndi okkur þó að hann er kominn ofar á blað hjá klúbbnum. Þessi strákur mun fá mínútur í sumarleikjunum, sér í lagi þar sem reikna má með að einhverjir af okkar öflugu senterum muni verða farnir þegar ferðalagið leggur af stað og ekki líklegt að nýir verði komnir í staðinn. Ef hann nýtir sénsinn þar gæti hann alveg fengið tækifærið í vetur.

Harry Wilson

HarryWilsonHér kemur svo sá strákur sem ég er spenntastur fyrir. 18 ára velskur landsliðsmaður sem hefur verið unnið býsna mikið með hjá unglingaliðunum og verður nú að fara að fá sénsinn í fullorðinsmannafótbolta og svona ferð er sniðin til að ýta honum yfir þann þröskuld. Þessi strákur er örvfættur með gríðarlega bolta- og spyrnutækni og fínan hraða en hingað til má telja líklegt að skortur á líkamsstyrk sé eina ástæða þess að hann hafi ekki fengið tækifærið. En núna verður að sjá hvort hann ræður við að gera sömu hluti með aðalliðinu og hann hefur gert reglulega fyrir yngri liðin. Ég sagði einhvern tíma hér að ég væri spenntari fyrir Ibe en Sterling og fyrir þessum strák er ég enn spenntari en ég var fyrir þeim báðum. Það er á köflum unun að horfa á þennan strák fara framhjá mönnum, hann hefur gríðarlegt auga fyrir stuttu spili og hér er kominn aukaspyrnuhæfileikamaður sem við söknum. Ef hann fær ekki séns í aðalliðshópnum í vetur verður að lána hann til öflugs liðs.

Þetta eru þeir sex sem ég er spenntastur fyrir. Jordan Rossiter væri pottþétt í þessum hóp líka en hann er ekki enn búinn að ná sér af meiðslum og verður ekki klár fyrr en í haust. Alveg gætum við séð spænsku drengina Pedro Chirivella og Sergi Canos fá mínútur en þeir eru þó held ég ekki alveg tilbúnir í aðalliðsfótbolta frekar en vinstri bakvörðurinn Joe Maguire sem þó gæti fengið að fara með sökum þess að Enrique virðist á leið frá klúbbnum og Flanno ekki alveg klár. Sá strákur gæti þó alveg átt framtíð hjá klúbbnum.

Ekki er ólíklegt að við sjáum líka menn á borð við Joao Carlos Teixeira eða Brad Smith fá mínútur en það held ég að væri til að reyna að fá lið til að kaupa þá bara. Af fleiri ungum mætti nefna Cameron Brannigan og Jack Dunn sem hafa verið öflugir liðsmenn U21s árs liðsins en að mínu mati númeri of litlir fyrir liðið.

Við sjáum svo auðvitað nýju mennina líka, þar fara nokkur óskrifuð blöð svo að vissulega er hægt að peppa sig upp fyrir þessa ferð ef maður er tilbúinn að skoða nýja menn.

Þó auðvitað maður sé enn eilítið bitinn af því að muna hversu frábærir menn eins og Iago Aspas og Andriy Voronin voru í þessum ferðum!

10 Comments

  1. Góð grein, ég er sjálfur líka spenntur fyrir að sjá hvað þessir menn geta gert, eflaust verður bróður partur þeirra lánaður út, en með því að spila vel á undirbúningstímabilinu auka þeir nátturulega möguleika sinn á að fara á lán til betra félags.

    Við þennan lista mætti hugsanlega bæta við nýjustu kaupum okkar Joe Gomez, trúi ekki öðru en að hann muni fá einhverjar mínútur.

  2. Flott samantekt Maggi, margir þarna sem búið er að tala um í nokkuð langan tíma núna og ættu að vera á þröskuldinum núna í sumar.

    Fer þó ekkert ofan af því að það hefði verið ekkert mál að skipuleggja leiki fyrir þá og ferðalög sem væru ekki svona fáránlega langt á milli. Stend við það sem ég sagði um daginn enda ferðast ekkert lið í EPL meira í sumar heldur en Liverpool.

    Á tíu mikilvægustu dögum undirbúningstímabilsins er Liverpool að ferðast tæplega 35.000 km. Flugtími er að meðaltali um 8,9 tímar í fimm löngum flugferðum. Meira að segja innanlands í Ástalíu er fjórfalt lengra en Reykjavík – Akureyri. Eðlilega spilar Liverpool ekkert á Anfield fyrir þetta tímabil en í heildina ferðast liðið um 37.000 km og er að meðaltali um 7,8 tíma í flugi, samtals áætla ég 47 tíma í flug eða næstum TVO HEILA DAGA. Það svosem gildir einu hvort við teljum þessa ferð til Finnlands með eða ekki.

    Allt eru þetta leikir gegn grín mótherjum heimamanna og mjög vel hægt að draga í efa notagildi þessara leikja.

  3. Ég hef mjög mikla trú á að Cameron Brannigan muni taka einhvern ef ekki mikinn þátt í fyrstu tveimur æfingarleikjunum því BR hefur mikið álit á honum og hann hefur stigið mikið upp með u-21 liðinu og er góður leikmaður sem kemur alltaf í seinniboltana fyrir framan vítateiginn hjá andstæðingunum

  4. BREAKING: Sky Sources: Liverpool agree deal with Hoffenheim to sign forward Roberto Firmino. #SSNHQ— Sky Sports News HQ (@SkySportsNewsHQ) June 23, 2015

    Jæææja. Sky Sports að staðfesta þetta. 😀 Fimmti leikmaðurinn að detta í hús og Júní ekki liðinn.

  5. Ef Firmino er eitthvað líkur landasínum Coutinho þá verður þetta góð kaup.
    Það er alltaf extra spennandi að fá Brassa þeir eru svo óútreiknalegir og tel ég að þetta verður allt eða ekkert leikmaður fyrir okkur. Vonandi Allt 😉

    5 leikmenn komnir inn ef þetta reynist satt svo að það má segja að Liverpool hafa verið duglegir en sem komnir er og ef marka má fréttirnar þá eru þeir ekki hættir og er Clyne næst á dagskrá.

  6. Roberto Firmino er orðinn fastur í brasilíska landsliðinu, var 3. besti leikmaður þýsku deildarinnar í ár spilandi með Hoffenheim og miðað við það sem amður hefur séð af honum er hann 10x betri slúttari og sendingamaður en Raheem Sterling…

  7. Tony Barrett talar reyndar um 29 milljón punda, en ég held (og vona!) að þetta séu samt góð skipti.

    N.b. þá er talað um að þessi kaup séu hugsuð burtséð frá því hvort Sterling fari eða ekki. Hver veit, kannski snýst honum hugur?

  8. Já 29 milljón punda er það sem menn eru að tala um, 25 + 4 í add-ons(árangurstengt og eitthvað)

    [img]https://scontent-lhr3-1.xx.fbcdn.net/hphotos-xaf1/v/t1.0-9/1012971_1005723259459683_2079703940574138968_n.png?oh=350dc224961d02b9216b6577d6073dbc&oe=55F2AB0C[/img]

One Ping

  1. Pingback:

Benteke-brjálæðið

Kop.is Podcast #86 – Firmino á leiðinni