Brendan Rodgers?

Hvað segiði, eigum við að reka Brendan Rodgers?

RodgersWestBrom

Það gustar um lágvaxna knattspyrnustjórann okkar þessa dagana. Þrjú slæm töp á tæpum mánuði hafa kálað því sem eftir lifði af vonum og draumum tímabilsins og skyndilega virðist hann sestur aftur í sjóðheita sætið sem hann hefur haft svo mikið fyrir að sleppa úr síðan í desember. Mikið er rætt um framtíð Rodgers og sitt sýnist hverjum.

Mín skoðun? Hún er sú að það er ómögulegt að ætla að leggja alla sök að fótum Rodgers, rétt eins og það er ómögulegt að firra hann allri sök vegna ytri aðstæðna. Þannig að áður en við getum kvaðið upp einhvern dóm um framtíð Rodgers er rétt að við förum yfir hvað hefur gerst á þessu tímabili.

Væntingar

Liðið er í 5. sæti í dag og vinnur ekki dollu á tímabilinu. Þetta þýðir að Brendan Rodgers er fyrsti knattspyrnustjóri Liverpool síðan 1950 til að vinna ekki eina dollu á sínum fyrstu þremur árum sem stjóri. Á blaðamannafundi fyrir helgina sagði Rodgers að liðið væri nokkurn veginn á pari ef þú berð saman getu liðsins og frammistöðu. En talaði hann svoleiðis í haust? Eða yfirmenn hans, eigendur félagsins?

Þann 16. ágúst í fyrra sagði Rodgers að stefnan væri sæti í topp 4 og bikar:

“The aim for us is we’d like to win a trophy like all of the top clubs and we want to be minimum in the top four and those will be the expectations for us.”

Degi áður hafði hann sagt nokkurn veginn það sama:

“Our aim is to be competitive. Like the top teams, we want to win a trophy. That would be an aim. In the league, it’s about sustaining Champions League football. For that you want to arrive in fourth. Once you have consolidated that, you can look beyond that. That’s certainly our aim this season.”

Hvernig eigum við að lesa orð stjórans öðruvísi en þau að hann og klúbburinn hafi verið að stefna á Meistaradeildarsæti og bikar? Það var stefnan, markmiðið og krafan. Og nú hafa bæði þessi markmið mistekist. Það er alveg sama hvað Rodgers segir í dag um að liðið sé „á pari“ miðað við getu, 5. sæti og undanúrslit voru ekki markmiðin í haust og því getum við ekki lýst neinu öðru yfir en að þetta tímabil sé slæmt. Engin markmið náðust = slæmt tímabil. Það þarf ekkert að ræða það frekar.

Á móti má hins vegar spyrja: voru menn að ofmeta þetta lið og klúbbinn í heild sinni þegar stefnan var sett á topp 4 síðasta sumar? Paul Tomkins, sem var á Íslandi um helgina, skrifaði í haust frábæran pistil sem ætti að vera skyldulestur fyrir aðdáendur Liverpool: “Why Liverpool never win the league”. Þar sýnir hann með tölfræði fram á svo að ekki verður um villst að liðin sem borga þrjá hæstu launapakkana vinna deildina alltaf og að lið eins og Liverpool, sem borgar talsvert minna í laun, á ekki séns.

Hvar er Liverpool í launastiga Úrvalsdeildarinnar? Í 5. sæti. Liverpool FC borgar 5. hæstu launin í deildinni, talsvert langt frá launapakka þriggja dýrustu liðanna. Það sama gildir um kostnað liða (þ.e. leikmannakaup). Þar er Liverpool aftur með 5. dýrasta liðið.

Er 5. sæti í deildinni þá ekki bara „á pari“ eins og Rodgers sagði?

Við skulum vinda okkur í tímabilið, skoða gengið aðeins nánar og sjá hvort hægt hefði verið að ná betri stöðu en 5. sæti í deildinni, eða lengra í öðrum keppnum.

Frammistaða

Evrópa

Svo við höldum áfram með golf-lingóið: ef 5. sæti er annað hvort á pari eða skolli þá er óhætt að segja að Rodgers hafi sprengt skorkortið á Evrópubrautinni, tekið par 5 holu með tíu höggum eða meira. (Ókei, nóg af golfi í bili.) Drátturinn í riðil Meistaradeildar var okkur nokkuð hliðhollur; við vissum að Evrópumeistarar Real væru sennilega of stór biti og það reyndist satt en samt voru menn svekktir að sjá þá labba svona auðveldlega yfir okkar menn á Anfield í haust. Basel eru gott lið en voru sennilega veikasta liðið úr potti 2, á pappír, á meðan Ludogorets voru nýliðar í Meistaradeildinni. Liverpool vann einn leik af fjórum gegn þessum tveimur liðum. Það er bara langt frá því að vera nógu gott.

Hluti af slæmu gengi í Meistaradeild er hægt að skrifa á reynsluleysi og slíkt en Rodgers átti sjálfur nokkrar gloríur sem erfitt er að útskýra eða afsaka. Hann stillti upp varaliðinu á Santiago Bernabeau, sagði á þeim tíma að leikmennirnir sem töpuðu helgina áður í Newcastle hefðu átt skilið að missa sæti sitt í liðinu, nema að svo setti hann þá leikmenn alla í liðið aftur gegn Chelsea helgina á eftir þrátt fyrir að „varaliðið“ hafi staðið sig þokkalega gegn Real. Þá átti hann að mínu mati verstu liðsuppstillingu sína í úrslitaleik riðilsins, gegn Basel á Anfield; ótrúlega hægt og miðjusinnað lið með engan sóknarþunga í leik sem varð að vinnast.

Rodgers stóð sig einfaldlega illa í Evrópu í vetur. Á móti er hægt að benda á hárfín atriði sem höfðu mögulega úrslitaáhrif í riðlinum – rauða spjald Lazar Markovic strax eftir hlé gegn Basel, þegar blása átti til sóknar, eða kæruleysisvörn sem gaf Ludogorets jöfnunarmark í uppbótartíma á útivelli – en liðið átti einfaldlega að gera betur og þar þarf Rodgers að axla ábyrgð.

Evrópudeildin sýndi í raun meira af því sama. Naumur 1-0 sigur heima og svo 1-0 tap úti þar sem liðið bakkaði allt of aftarlega í seinni hálfleik. Þeirri keppni lauk svo í vítaspyrnukeppni og enginn þjálfari í sögunni hefur verið gagnrýndur fyrir að tapa þeim.

Bikarkeppnir

Deildarbikarinn var góður. Liðið fór í undanúrslit og féll þar út í framlengingu á Stamford Bridge, gegn sterkasta liði Englands. Það var svekkjandi en það er engin leið að skamma stjórann fyrir það. Deildarbikarinn skrifast sennilega sem okkar best heppnaða þátttaka í keppni þetta tímabilið.

Það var aðeins meira bras í ensku Bikarkeppninni. Liðið þurfti umspil á útivelli gegn tveimur neðrideildarliðum (Bolton og Blackburn) til að komast á Wembley og þar átti Rodgers síðan næstum því jafn lélega liðsuppstillingu og gegn Basel. Sá leikur tapaðist sanngjarnt og þótt Villa sé ekki slæmt lið (hafa unnið okkur tvisvar í vetur) verður það að teljast ótrúlega svekkjandi að hafa ekki farið lengra hérna.

Samt, undanúrslit í báðum bikarkeppnum. Svekkjandi að ná í hvorugan úrslitaleikinn en enginn skandall, svo sem. Rodgers stóð sig betur hér en í Evrópu, svo mikið er víst.

Úrvalsdeildin

Liðið situr þegar þetta er skrifað í 5. sæti eftir 34 umferðir og með leik til góða á liðin í kringum sig. Samt er of langt í liðin fyrir ofan til að hægt sé að láta sig dreyma. 4. sætið er farið þetta árið, það var endanlega gulltryggt með þessu daufa jafntefli gegn West Brom í gær.

En hvernig metum við þetta tímabil, að því gefnu að 5. sæti sé hámarksniðurstaða? Við vonuðumst eftir meiru eins og á hverju tímabili en er raunhæft að segja að Rodgers hefði átt að geta betur gegn fjórum klúbbum sem eru með dýrari lið og hærri launapakka? Blindaði Öskubuskuævintýrið (sem breyttist í martröð rétt fyrir miðnætti) í fyrra okkur og lét okkur halda að liðið væri betra en það er? Eða er það algjört klúður að hafa ekki náð topp 4 í ár?

Fyrir mér, þegar við tölum um Úrvalsdeildina erum við að tala um tvær frammistöður hjá Liverpool. Hér er fyrri frammistaðan, þetta er staðan í deildinni í fyrstu 12 umferðunum eða fram til 24. nóvember:

Fyrstu12

Þarna er liðið í 12. sæti og þegar búið að gefa liðunum sem keppast um topp 4 á bilinu 3-18 stiga forskot. Þetta er einfaldlega skelfileg byrjun á tímabili og þegar við horfum yfir heildina er þetta ástæðan fyrir því að liðið var ekki með í baráttunni í ár.

Hér eru svo næstu 21-22 leikir, eða frá 24. nóvember og til dagsins í dag:

Seinni21

Þetta er rúmlega hálft tímabil, fimm mánuðir, og hér er Liverpool í 3. – 4. sæti með 44 stig. Á þessum tíma hafa aðeins þrír af 21 deildarleik tapast; United í desember og svo United aftur og Arsenal í mars/apríl. Gengið var á tíma það gott að í aðdraganda United-leiksins á Anfield fyrir mánuði var liðið ósigrað í fjóra mánuði, með besta gengið í deildinni frá áramótum og menn voru jafnvel að spá liðinu 2. sætinu.

Hvernig metum við Rodgers þá eftir svona tímabil í deild? Að mínu mati er hægt að skipta frammistöðu hans í deildinni á nokkuð hreinan hátt sem hér segir:

Slæmt: Hann missti Suarez og svo Sturridge en reyndi samt að spila sömu taktík án þeirra. Þá barði hann höfðinu allt of lengi við steininn þegar ljóst var orðið í haust að sú taktík myndi ekki virka með núverandi leikmannahópi.

Gott: Þegar allt virtist glatað í desember, og á tíma þar sem hann hefur sjálfur viðurkennt að hafa óttast starfsöryggi sitt, þá fann hann einhverja leið út úr ógöngunum. 3-4-3 leikkerfið náði því besta úr tiltækum leikmönnum og lífgaði á ótrúlegan hátt við tímabil sem var steindautt snemma í desember.

Slæmt: Þegar leikmenn á borð við Sturridge, Lucas og Gerrard komu aftur inn úr meiðslum reyndi hann að troða þeim inn í 3-4-3 kerfið sem varð til þess að of margir leikmenn voru að spila úr stöðu í kerfi sem hentaði hópnum ekki lengur. Þetta þýddi að liðið missti flughæð gegn Swansea og hrapaði svo til jarðar gegn United og Arsenal í þremur slæmum deildarleikjum í röð.

Þannig lít ég allavega á þetta. Rodgers er að sjálfsögðu vorkunn að hafa misst Suarez síðasta sumar, og svo Sturridge í meiðsli, og svo Sakho og svo Gerrard og svo Lucas og svo framvegis. Þetta var erfitt, hann fékk mjög slæma hönd á þessari leiktíð og ekki bætti úr skák að í stað Suarez og Sturridge fékk hann þrjár myglaðar rúsínur í framlínuna. En hann átti engu að síður að geta betur. Töp í haust gegn Aston Villa heima og Newcastle, West Ham og Crystal Palace úti voru rándýr og eru enn að kosta okkur. Bara fjögur jafntefli þar hefðu skipt sköpum í keppninni um fjórða sætið nú í vor. Hann vær samt mikið hrós fyrir að lífga tímabilið við og gengið á köflum var frábært í febrúar/mars, þar til það hrundi á ný og 4 stig af síðustu 12 í deildinni hafa gert út um vonir okkar.

Niðurstaðan: bikarkeppnirnar voru viðunandi, Evrópa var skelfileg og deildin hefur á heildina verið slæm en með stórum góðum kafla í miðjunni. Spurningin sem situr eftir er þessi: er þessi frammistaða nóg til að gefa Rodgers vinnufrið í sumar? Áður en ég kveð upp Stóradóm þurfum við að skoða tvo aðra þætti félagsins. Þetta er nefnilega ekki allt Brendan Rodgers að kenna.

FSG og innkaupastefnan

Þetta er nokkuð stórt mál og efni í aðra, langa grein. Fyrir mér horfa eigendamálin í hnotskurn svona: fyrir fjórum og hálfu ári komu inn menn sem keyptu félagið og björguðu því frá talsvert djúpum skít. FSG hafa fært félaginu stöðugleika og undir þeirra stjórn hefur fyrirtækið LFC blómstrað, eins og sést á auglýsingasamningum og því að stækkun Anfield er í fullum gangi þessa dagana. Þeir hafa einnig nútímavætt ansi margt í kringum félagið og staðið sig vel þar. Þetta er það sem þeir kunna best og gera best og þarna eru þeir að toppa sig.

Hvað knattspyrnuna sjálfa varðar hafa hlutirnir verið, tja, erfiðir. Þeir eru á þriðja knattspyrnustjóranum á þessum stutta tíma eftir að hafa rekið bæði Hodgson og Dalglish, auk þess sem Damien Comolli var ráðinn og svo rekinn fyrir óljósar sakir. Þeir hafa sveiflast frá því að setja stórar upphæðir í enska leikmenn (Carroll, Downing, Henderson) í það að leita að földum, ódýrum gimsteinum erlendis (Aspas, Luis Alberto, Manquillo, Coutinho) í það að vera núna aftur að yfirborga fyrir menn með Úrvalsdeildarreynslu (Lallana, Lovren, Lambert, Balotelli).

Á þessum tíma hafa þeir einnig mætt tveimur stórum áskorunum: þegar Torres fór og þegar Suarez fór. Þegar Torres fór settu þeir það fé allt í kaup á tveimur leikmönnum, Suarez og Carroll. Annar þeirra reyndist einn besti leikmaður í sögu félagsins en hinn náði aldrei að standa undir nafni. Samt, þeir sýndu metnað og reyndu af fullum krafti þarna og í tíð Comolli virtist þetta einnig hafa verið þaulskipulagt sem er virðingarvert þar sem þetta gerðist allt seint í janúarmánuði fyrir fjórum árum.

Síðasta sumar fór Suarez svo fyrir metfé. Ef FSG og þeirra menn eru störfum sínum hæfir áttu þeir að vera búnir að undirbúa þá sölu í a.m.k. ár, vonast kannski eftir að hann yrði kyrr en búið til Plan A, Plan B og Plan C til öryggis. Svo fór þó ekki. Liðið reyndi að fá Alexis Sanchez í staðinn frá Barca en þegar hann vildi ekki koma gerðist ekkert í rúman mánuð og svo var farið í skyndiákvörðunarkaup á Mario Balotelli sem var orðinn svo illa séður á 18 mánuðum hjá AC Milan að stuðningsmenn þeirra nánast fögnuðu þegar hann var seldur.

Hafi restin af innkaupunum frá síðasta sumri sannað sig á köflum í vetur (það býr enn mikið í Can, Markovic, Lovren, Lallana og Moreno) að þá einfaldlega féllu menn á því prófi að bæta liðinu upp missinn á Luis Suarez. Það er ekki að furða að menn eru þegar byrjaðir að tala um það sem stóra verkefni komandi sumars, að kaupa leikmann eða leikmenn sem áttu að koma inn fyrir ári síðan.

Hvað sem mönnum finnst um störf Brendan Rodgers í vetur þá er eitt algjörlega óumdeilanlegt: hann hefði pottþétt staðið sig betur í vetur ef yfirmenn hans hefðu keypt betri staðgengla fyrir Suarez.

Mín skoðun á FSG er sú að þetta eru góðir eigendur og ég er hrifinn af mörgu sem þeir hafa gert en nú einfaldlega verða þeir að gera nauðsynlegar breytingar á vinnulaginu í sambandi við leikmannakaup og -sölur. Rodgers er þar hluti af teymi sem hefur staðið sig allt of illa og farið illa með háar fjárhæðir á síðustu fjórum árum. Það versta er að stefnan virðist ekki skýr, menn skiptast á að ofborga fyrir Englendinga og kaupa óþekkta leikmenn frá Evrópu á tombóluprís og sjaldan gengur eitthvað upp.

Hvort sem Rodgers eða einhver annar stýrir Liverpool á næstu leiktíð heimta ég að þessi mál verði endurskoðuð og ég krefst þess að sjá betri og skýrari innkaupastefnu strax í sumar.

Aðrir valkostir

Það er verið að ræða Rodgers mikið núna. Stór hluti af því er vegna frammistöðu liðsins í vetur og vonbrigða stuðningsmanna en stór hluti af því er einnig vegna þess hverjir eru mögulega á lausu í sumar.

Við vitum að Jurgen Klopp hættir hjá Dortmund. Einnig er talið nokkuð líklegt að Manuel Pellegrini hætti hjá Man City, Rafa Benítez hætti með Napoli og þá er slúðrað um að Carlo Ancelotti gæti hætt með Real Madrid. Ef af þessu verður fer af stað ákveðinn stjórakapall þar sem nokkrir þjálfarar gætu skipt stóru liðunum sín á milli. Ancelotti hjá City? Rafa hjá Real? Klopp hjá Real og Rafa hjá City? Og svo framvegis.

Þetta, í bland við lélegt tímabil Liverpool, gerir fólk órólegt. Eins og nokkrir stuðningsmenn höfðu orði á í podcasti frá The Anfield Wrap í vikunni: hvað ef Rodgers fær tíma, hlutirnir batna ekki í haust og það þarf að reka hann á næsta vetri eða næsta vor en þá verða allir toppstjórarnir komnir í önnur störf? Hvað ef gengið batnar ekki á næsta ári en við höfum misst af Klopp, Ancelotti, Rafa, Pellegrini og fleirum til?

Þessi stjórakapall hefur klárlega áhrif á hugsanagang fólks í sumar. Í sama podcast-þætti TAW kom annar góður punktur einnig fram. “The knives are out,” sögðu þeir þar og vísuðu í skollaleik sem hefur verið leikinn nógu oft til að við þekkjum hann þegar hann fer af stað. Hugsið um umræðuna í kringum Liverpool allt frá tapinu gegn United. Blaðamenn grafa undan Rodgers, vísa í “innanbúðarmenn” sem reyna að koma þessu eða hinu á framfæri í skjóli nafnleysis. Á sama tíma heyrum við sögur af stuðningsmönnum sem hrópa ókvæði að Rodgers í hvert sinn sem liðið fær á sig mark, svo berast fréttir af því að ákveðnir leikmenn rífist við Rodgers í klefa eftir leik, og svo framvegis. Umræðan á Kop.is og víðar á netinu hefur líka verið að færast í neikvæðara horf; þeim virðist fjölga stöðugt sem kalla eftir brottrekstri Rodgers og þolinmæðin virðist þverra, hratt.

Yfirleitt leiðir þetta allt að sömu endalokum: Rodgers hættir með Liverpool. Eini óvissuþátturinn er hversu langan tíma það tekur, eftir að skollaleikurinn fer af stað. Það tók rúmlega ár hjá Houllier, frá því að fyrst bar á “the knives are out”-hegðuninni þar til hann steig til hliðar. Það tók tæp þrjú ár hjá Rafa, frá frægum blaðamannafundi í Newcastle og þar til hann var rekinn. Dalglish hafði svo mikið goodwill að hnífarnir fóru aldrei út hvað hann varðaði, hann flaug bara til Boston eftir tímabilið og var tilkynnt þar um starfslok. En nú eru hnífarnir svo sannarlega á lofti og beint að Rodgers. Spurningin er í raun bara, tekur það hann mánuð eða ár eða þrjú að bugast? Ekkert annað en gríðarleg velgengni og bikarar á hverju tímabili dugir til að verjast hnífunum og í hvert sinn sem liðið á lélegan leik eða lélegan mánuð fjölgar hnífunum.

Þetta er töpuð barátta, um leið og hún fer af stað.

Niðurstaða

Ég spurði kollega mína hér á Kop.is eftir leikinn í gær hvort þeir vildu halda Rodgers eða láta hann fara. Óformleg könnun, sagði ég. Niðurstaðan var afgerandi: þeir sögðu allir að þeir vilji halda Rodgers og gefa honum meiri tíma.

Ég er sammála því. Ég fór ansi nálægt því að missa trúna á honum í byrjun desember en viðsnúningurinn síðan þá hefur orðið til þess að ég er ekki reiðubúinn að samþykkja að hann sé kominn á endastöð með liðið, jafnvel þótt endalok tímabilsins ætli að verða slök.

Þannig að við getum lýst því hér með yfir: Kop.is stendur við bakið á Brendan Rodgers og vill að hann fái annað tímabil til að gera betur. En… þá verða líka ákveðnir hlutir að breytast. Við viljum skýrari innkaupastefnu og metnað á leikmannamarkaðnum í sumar, til að tryggja að hlutir eins og meiðsli Sturridge (eini almennilegi framherjinn) eða meiðsli Lucas (eini varnartengiliðurinn) fatli ekki liðið í fleiri vikur í einu á næstu leiktíð.

Þá er ljóst að Rodgers, verði hann áfram, verður að læra af sínum mistökum í vetur. Of mikið af leikmönnum sem fá ekki að spila sína bestu stöðu, of stífur í taktík og leikmannavali, of lítil þolinmæði gagnvart ungum leikmönnum eins og Markovic (hve oft tekinn út af í hálfleik?) eða Manquillo (man einhver eftir honum?). Rodgers hefur gert mýmörg mistök í vetur og verði hann áfram vonum við að hann læri af þeim og þau styrki hann í starfi næsta vetur.

Hvað FSG-menn gera er hins vegar erfitt að segja. Dalglish vann Deildarbikarinn, komst í úrslit enska Bikarsins og endaði á svipuðum slóðum og Rodgers er núna í deildinni. Það bjargaði honum ekki. FSG hafa sýnt að þeir eru hispurslausir þegar þessi mál eru annars vegar, bæði hjá Liverpool og Boston Red Sox í Ameríkudeildinni í hafnarbolta.

Mitt gisk? Það eru fimm deildarleikir eftir og ef liðið ætlar að spila þá alla illa og missa Tottenham og Southampton fram fyrir sig kostar það Rodgers starfið í vor. Það hefur áhrif á hugsanagang FSG að stjórar eins og Jurgen Klopp séu á lausu. Rodgers verður að rífa liðið í gang og sýna að það sé ennþá stígandi í verkefninu fram á vorið, þótt að engu sé að keppa.

Hlutirnir eru ekki svart/hvítir. Það er til fólk þarna úti sem vill kenna Rodgers um allt sem aflaga fer og fólk sem vill ekki heyra minnst á gagnrýni í hans átt og bendir á eigendurna. Sannleikurinn er sá að bæði Rodgers og FSG geta betur en hefur verið gert síðasta árið og við krefjumst þess að það verði sýnt í verki á næstu 13 mánuðum, innan og utan vallar.

Hvað finnst lesendum Kop.is?

Hvað á FSG að gera við Brendan Rodgers í vor?

Skoða niðurstöður.

Loading ... Loading ...

54 Comments

  1. Ég kaus að gefa honum annað tímabil. En það þarf líka að styrkja liðið í sumar, að hluta til þarf annan glugga svipaðan og janúar 2013: tveir leikmenn koma og eru báðir success. Nema hvað að ég tel að núna þurfi að kaupa einhverja “reynslubolta”, a.m.k. ekki bara að kaupa einhverja efnilega stráka. Það vantar menn með reynslu af því að vinna og hvað þarf til. Þurfa svosem ekkert endilega að vera á fertugsaldrinum.

  2. AMEN!….góður pistill. Ég held að eigendurnir séu ekkert á förum heldur. Þetta eru gæjar sem vilja láta verkin tala. Held að þeir muni hafa árangur sem erfiði. Þeir eru enn að læra.
    Miðað við alla peningana í boltanum og spillinguna þar á bakvið þá vitum við minnst um
    það sem gerist í kringum leikmannakaup og sölur. Svo er það nú bara þannig að sumir af þessum pésum eru með LONDON veikina. Köllum þá london-lömb. Vilja frekar vera varamenn hjá lundúnafélagi heldur en starter hjá norðanliði. Það er bara þeirra vandamál.
    Brendan er lika að læra. Maður hefði kannski viljað sjá einn reyndan með honum í þjálfaraliðið. Er ekki með neinn i huga en einhvern sem væri eldri og reyndar en Brendan og
    gæti hvíslað í eyra hans við og við. En örvæntum ekki LFC verður á fullu næsta tímabil no matter what.

  3. Sælir félagar

    Ég vil byrja á því að segja að ekkert gleður mig meira í lífinu af utanaðkomandi hlutum en þegar Liverpool vinnur MU. Það sem gleður mig næst mest er að horfa á MU tapa fyrir hvaða liði sem er. Vinir vorir í Liverpool Everton snýtti MU áðan og það var dásamlegt.

    En að máli málanna. Á BR að fara eða vera. Ég kaus fara og ástæður þess eru eftir farandi.

    1. Ég hefi alltaf sagt að það eigi að skoða mál BR eftir leiktíðina. Henni er lokið nún þó formlega séu 5 leikir eftir. Ekkert af markmiðum tímabilsins náðist eða mun nást og því segi ég það er ekki eftir neinu að bíða.

    2. Það eru eða verða mjög athygliverðir stjórar á lausu í sumar. Það er ekki víst að það tækifæri komi upp á næstu árum. Grípum gæsina.

    3. BR virðist læra mjög hægt og virðist vera þrárri en ands. . . . Hann lemur höfðinu í veggina og hættir ekki fyrr en það blæðir úr hausnum á honum. Það er of dýrt.

    4. Hvað sem má segja um kaup og innkaupastefnu þá er BR hluti af því batteríi. Þar hefur hann klikkar verulega.

    Ef þetta er dregið saman þá vegur það þyngra en allar vonir sem menn vilja binda við manninn. Því það eru aðeins vonir, sem þar að auki eiga sér hæpnar forsendur, sem mæla með að verði áfram.

    Níðurstaða: BR burt.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  4. Sælir aftur

    Daníel#1 það þarf að styrkja liðið hver sem verður með það. Miðað við kaup BR til þessa er hann ekki maðurinn til að stjórna því. Það eru því ekki málsrök að hann eigi að vera og svo að styrkja liðið.

    Það er nú þannig.

    UNWA

  5. Tja! Klopp var nú ekkert að brillera með Dortmund í vetur þó er það lið nokkuð betur mannað en LFC. Ancelotti er enginn guð, hann verður að hafa toppleikmenn til að ná árangri.
    Pelligrini er grin og Benitez þekkjum við vel og myndum gjarna vilja fá. Held það liggi nú ekkert á að reka Brendan til að sækja þessa hana yfir hafið.

  6. Öll kaupin okkar seinasta sumar, fyrir utan Super Mario, voru svona “breikka hópinn” kaup. Það sem vantaði var að landa einhverjum túrbókanínum til að vera aðalmaðurinn, einmitt eins og A.Sanchez sem við gátum ekki landað.

    Við erum með alveg ágætan hóp, en okkur VANTAR menn sem geta borið liðið á herðum sér þegar að ílla gengur, menn sem geta breytt leikjum á sitt einsdæmi. Ég sagði einhverntíman áður í kommenti hérna að öll liðin fyrir ofan okkur hafa svona menn, og þeir menn hafa bjargað ótal stigum fyrir þessi lið í vetur.

    Sem dæmi:

    United: Rooney/De Gea – Báru United algjörlega uppi fyrrihluta tímabilsins hjá þeim.
    Arsenal: Sanchez – Hann var á köflum það EINA sem var að gerast hjá Arsenal.
    City: Aguero/Silva
    Chelsea: Hazard/Costa

    Okkur vantar svona fallbyssur, í sumar á ekki að kaupa eitthvað fjall af leikmönnum, við eigum að eyða 150-200m í einhverja 2-4 TOPP leikmenn. Þá erum við farnir að vera á sama kaliber og liðin sem við viljum vera.

    Ég vill sjá Rodgers áfram, einfaldlega af því hvernig hann kom inn í klúbbinn, kom inn með gífurlega virðingu fyrir fortíðinni og endurvakti hinar og þessar hefðir. Liðið hefur líka svo oft spilað stórskemmtilegan bolta undir honum.

    Og það er bara 100% ekki hægt að einblína á hann útaf þessu gengi, eins og Kristján segir í greininni þá er þetta transfer committee að ríða honum hart. Alltof oft hefur það gerst síðan að FSG tóku við að samningar ganga ekki upp á mönnum sem við viljum, því að menn eru ekki tilbúnir til að borga þeim almennileg laun, eða nískast til um nokkrar milljónir á kaupverðinu.

  7. Þakka ber fyrir jafn ítarlegan og vel rökstuddan pistil.

    Ég las grein Tomkins og hún er, eins og bent er á, skyldulesning. Leitun er að jafn upplýsandi grein.

    En á grein Tomkins er þó einn galli að mínum dómi sem er orsakasamhengið. Ein ástæðan fyrir því að Liverpool er ekki meðal þeirra 4 liða sem greiða hæstu launin er að dýrir leikmenn vilja ekki koma til félagsins. Það hefur ekkert vantað upp á áhuga Liverpool að fá frábæra leikmenn. Það hefur vantað upp á áhuga leikmanna að koma til Liverpool. Sanchez er nýjasta dæmið en við vitum öll að þetta er raunverulegt vandamál.

    Ég skal ekkert fullyrða um hvort Brendan Rodgers sé hluti af skýringunni á þessu en mér finnst það mjög sennilegt. Ég hafði lengi trú á Brendan og virði hann enn sem manneskju og þjálfara en í vetur hefur hann sýnt svo ekki verður um villst að hann ræður ekki við verkefnið. Brendan er ekki lélegur þjálfari, öðru nær, en til að leiða félag af stærðargráðu LFC þarf frábæran þjálfara og það er Rodgers ekki og verður aldrei að mínum dómi.

    Undir venjulegum kringumstæðum væri fátt annað að gera en að vona það besta. Kannski stekkur Brendan upp lærdómskúrfuna í sumar? Kannski kemur til leiks í haust taktískur snillingur sem hefur ambiance til að lokka frábæra leikmenn til Liverpool? En ég tel engar líkur á að slíkt gerist. Brendan hefur einfaldlega náð eins langt eins og búast má við af honum og hans hæfileikum.

    Ég sagði hér fyrr “undir venjulegum kringumstæðum” enda fáránlegt að skipta um þjálfara til þess eins að skipta um þjálfara ef hann er svo engu betri en sá gamli. En svo vill til að á markaðnum eru nú lausir, eða líklega lausir, nokkrir frábærir þjálfarar og í því ljósi verður að líta til Brendan in/out umræðunnar.

    Í greininni er minnst á Klopp, Benitez og Ancelotti. Það væri hrein geggjun að freista þess ekki reyna að lokka einhvern þessara reyndu og heiðurskrýndu þjálfara til Liverpool. Þeir hafa allir sýnt í verki hvers þeir eru megnugir og allir væru þeir líklegri til að skila betri árangri en Rodgers að mínum dómi. Bæði við að lokka leikmenn til félagsins og leikfræðilegum árangri.

    Af þessum þremur sem ég nefndi er Benitez líklega minnsta áhættan. Hann myndi nánast byrja í vinnunni þar sem frá var horfið. Frábær þjálfari og einn besti taktíkerinn í bransanum.

    Besti þjálfarinn er þó að mínu viti Jurgen Klopp. Hæfileikar Klopps og Rodgers eru vart samanburðarhæfir eins og málið horfir við mér. Annar er snillingur í fótboltaþjálfun en hinn góður handverksmaður í besta falli.

    Mörgum kann að finnast að ég sé ósanngjarn í garð Brendan Rodgers. En þetta er hreinlega mín skoðun eftir langa umhugsun. Eftir þessi 3 ár hefur þjálfarinn því miður ekki sýnt fram á að hann ráði við að stjórna jafn stóru félagi.

    Menn ræða hér um að þurfi að kaupa stór nöfn og borga þeim vel. Brendan getur ekki einu sinni lokað samningi við Sterling! Stór nöfn koma ekki til LFC með þennan þjálfara og félagið er dæmt til að ströggla í grennd við 5 sætið. Brendan er því stærsta vandamál FSG um þessar mundir sem verður að taka á.

    Summa summarum: Brendan Rodgers verður að víkja fyrir betri manni og það fyrr en síðar.

  8. Ég hef verið talsmaður þess að menn séu raunhæfir og heiðarlegir í umfjöllun sinni um framtíð Rodgers, ef til vill af þeirri einu ástæðu að FSG er nú búið að eiga klúbbinn í 4 ár og eru á 3ja stjóranum.

    Þannig þegar KAR bendir hér á eldri tilvitnanir hjá Rodgers, þá er ágætt að hafa í huga eftirfarandi:

    1 – Þegar hann sagði þessi orð, þá var Sturridge í fullu fjöri og frískur.
    2 – Balotelli var ekki kominn til félagsins

    Ég held að það sé leitun að stuðningsmanni sem myndi ekki segja að fjarvera Sturridge hafi ekki verið mikið áfall. Hann er, á sínum besta degi, í heimsklassa. Nema, þessir góðu dagar hans eru fáir og langt á milli þeirra.

    Ég er ekki að halda fram neinum sérstökum rökum um að halda Rodgers eða reka hann, við þurfum bara að sjá stóru myndina.

    Sjálfur held ég að Rodgers hafi fallið á þessu prófi í vetur. Ekki út frá því hvað hann lagði upp með í byrjun tímabils, heludr vegna þess að hann var of lengi að finna svör við genginu, og virðist fallinn í sama pakka og þá – hann á engin svör.

    Sem sófasérfærðingur, og sem slíkur á pari við þá bestu, þá myndi ég telja að það hafi verið mikil taktísk mistök hjá honum að spila ekki Lambert meira í fjarveru Sturridge. Lambert myndi þó í það minnsta gefa sig 150% í alla leiki, ólíkt mönnum á borð við Sterling og Balotelli.

    Einnig myndi ég segja að það hafi verið mikil mistök hjá Rodgers að færa Gerrard svo afarlega, eins og hann hefur gert. Blindir menn gætu séð að hann skilar ekki varnarhlutverki sínu neitt nándar eins vel og hann ætti að gera, og því ætti að nýta hæfileika Gerrard framar á vellinum. Svona eins og Rafa Benítez hafði spáð að myndi gerast.

    Aftur á móti, þá er ég heldur ekkert á þeim buxunum að halda í Rodgers, bara að því bara. Það eru asnaleg rök að vilja reka hann núna því það eru svo margir góðir bitar á lausu – Ancelotti, Benítez, Pellegrini og Klopp. Þú breytir ekki bara til þess að breyta. Þú þarft að hafa einhverja sýn á það hverju breytingar myndu skila.

    Vandamálið liggur í tvennu – leikmannahópurinn er ekki nægilega góður og Rodgers virðist taka of langan tíma til þess að fá það besta út úr hópnum.

    Það var klúður aldarinnar, bókstaflega, hjá FSG og Rodgers að skipta Suarez út fyrir Balotelli. Ég veit ekki hvað menn voru að reykja eða taka inni á kontórnum, en megi allar góðar og vondar vættir forða þeim og okkur frá öðrum eins mistökum í sumar.

    Ég get ekki kosið í þessari kosningu. Ég myndi segja að ég væri óákveðinn. Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega hrifinn af Rodgers sem þjálfara, en ég er ekkert sannfærður um að hann sé heldur alveg vitavonlaus.

    Ég vil bara að klúbburinn breyti kaupstefnu sinni örlítið og fari að fjárfesta líka í alvöru leikmönnum, ekki bara kjúklingum sem mögulega verða góðir einn daginn. Hvort sem það er undir stjórn Rodgers eða einhvers annars, ég hef ekki sterka skoðun á því. Ég held að Rodgers geti gert fína hluti ef hann fær alvöru leikmenn til félagsins, en það sama á við um Ancelotti, Klopp og meira að segja Pellegrini.

    Eitt er þó ljóst, og það er að svona leiktíð má bara ekki eiga sér stað aftur. Rodgers, eins og ég sagði, féll á prófinu á þessari leiktíið, en hann má eiga upptökupróf á næstu leiktíð mín vegna. Klúbburinn þarf hins vegar að rífa sig upp og hætta þessari æskudýrkun alltaf hreint. 2-3 sterka leikmenn inn í sumar, sem detta strax í hópinn. Ef menn vilja, þá bara selja Sterling til að fjármagna það. Ég er til í það.

    Ef FSG er ekki tilbúið í slíkt, þá endar klúbburinn okkar eins og Arsenal síðustu ár.

    Homer

  9. #9

    Arsenal er í þessum skrifuðu orðum að eiga í fullu tré við verðandi PL meistara Chelsea.
    Arsenal er í 2 sæti PL.
    Arsenal er að fara í CL í 16 skiptið í röð á næstu leiktíð.
    Arsenal hefur keypt leikmenn á heimsmælikvarða eins og Özil og Sanchez.
    Arsenal eru ríkjandi FA Cup meistararar.
    Arsenal hefur tryggt sé réttinn til að spila úrslitaleikinn í FA cup í maí.

    Ég er með Liverpool í mínu DNA og hefði ekkert á móti að mitt félag hefði árangur Arsenal að miða við.

  10. Það vantar fleiri valkosti í könnunina til þess að ég geti svarað henni.

    Ég hef enga trú á að Ancelotti standi okkur til boða en ef Klopp væri til myndi ég þurfa að leggjast undir feld og hugsa málið alvarlega. Ég er mikill aðdáandi þess sem Rafa gerði hjá okkur, en mér skilst á innvígðum að hann sé einfaldlega of umdeildur meðal aðdáenda LFC til að koma til greina í djobbið af hálfu FSG.

    Þ.a. ef við fáum ekki Klopp þá styð ég Rodgers áfram.

  11. Tek undir með öllu sem Guderian skrifar. Menn tala um að splæsa í færri en betri leikmenn þetta sumar en það vilja hreint ekki margir heimsklassa leikmenn spila undir lítt þekktum þjálfara í evrópu. Það myndi hins vegar gjörbreytast ef við næðum að krækja í Klopp enda vita flestir hver sá gæi er og hvað hann hefur gert með fjárlítið lið.

  12. #10

    “eins og Arsenal síðustu ár” – sagði ég.

    Arsenal sem seldi hverja stórstjörnuna á fætur annarri.
    Arsenal sem ekki gat keypt sér heimsklassaleikmann fyrr en á síðustu leiktíð, og allir þeir leikmenn sem þeir misstu af.
    Með stjóra sem hefur tapað 7 af 12 leikjum gegn Mourinho, og gert 5 jafntefli.
    Arsenal sem hefur ekki getað gert neina alvöru að titilbaráttu allan þennan tíma, heldur verið svona næstum-því-nógu-góðir.
    Arsenal sem vann FA bikarinn 2005 og svo aftur 2014 – og ekkert annað í milltíðinni.

    Ég er ekki viss um að það sé til eftirbreytni að fylgja í fótspor Arsenal, til þess að eiga kannski séns eftir 10 ár á að standa í tilvonandi meisturum 🙂

    Homer

  13. rodgers er game over.

    hans tími hjá liverpool er búinn.

    þið þarna sem lifið í draumaheimi um að hann kaupi heimsklassa menn í sumar ég ætla strax að benda ykkur á árin 3 sem hann hefur verið hjá liverpool.. hann hefur ekki keypt 1.

  14. #13

    Ætla ekki að fara drepa umræðuna á dreif með því að fara að þrasa við þig.

    En þegar að menn eru farnir að ræða um Arsenal og árangur þess félags sem víti til að varast fyrir Liverpool get ég ekki orða bundist.

  15. Ég valdi að gefa BR annað tímabil. Tel það skynsamlegt miðað við allt og allt. Einng vegna þess að þá fær BR lokasjensinn á að sýna hvað í honum býr og hann veit það! Annar sjéns á 4. sætinu og dollu, markmið sem hann setti fyrir þetta tímabil.

    Hinsvegar kæmi það ekki á óvart að hann yrði boðaður á fund yfir Atlandshafið í sumar. Af eigendum sem ég hef lúmskan grun um að hafi mikið dálæti á þýsku stáli. Stáli sem stendur jafnvel ekki til boða sumarið 2016!

    Ég yrði ekkert súr yfir þvi.

  16. Anna? tímabil. Annars væri gaman a? fá þessa könnun mánu? eftir tímabili? þegar menn hafa anda? og meti? stö?una og bera saman ni?urstö?ur.

  17. Ég játa það að mér finnst Guderian í harðari kantinum gagnvart Rodgers, sérstaklega þegar kemur að þjálfunarhæfni hans og ýmsu öðru. Eimskipsdæmið hans úr fyrri þræði er sniðugt en aðeins of mikið fært í stílinn Rodgers í óhag (Suarez var ekki seldur Samskip, heldur Maersk; nýliðarnir voru ekki endilega á súperlaunum og eitthvað fleira sem ég gæti tínt til sem blörrar myndina – en það væri samt óþarfa leiðindi sem svona skemmtilegt komment á ekki skilið)

    Ég tek hins vegar undir tvennt með Guderian og fleirum, sem eru mínar sterkustu áhyggjur af framgangi Liverpool undir stjórn Rodgers:

    1. Evrópuboltinn hefur afhjúpað grimmilega hvers konar ungsveinn Rodgers er á hinu taktíska sviði. Þar er greinilega langt í land. Kannski svo langt að það sé alveg óraunhæft að búast við miklu.

    2. Er status Rodgers á leikmannamarkaðnum orðinn of veikur til að laða að sér eitthvað annað en efnilega leikmenn í næst-efsta getuflokki, sem komast örugglega ekki að hjá stærstu liðinum? Hvað þetta atriði varðar er ég ansi hræddur um að það tímabil sem er að enda hafi skaðað status hans varanlega. Eftir tímabilið í fyrra reis orðspor hans hátt. Eftir daufa byrjun í haust kom skemmtileg endurreisn sem olli því að allt þar til við töpuðum fyrir ManU, Arsenal og svo Aston Villa núna um daginn, var með tiltölulega auðveldum hætti hægt að láta Rodgers njóta vafans. Kannski væri þetta alvöru kall? Núna hins vegar, er loftið aðeins farið úr blöðrunni og örugglega sterkari efasemdir um það meðal mjög frambærilegra fótboltamanna hvort þeir vilji verja nokkrum af sínum dýrmætustu árum undir stjórn hans. Og það er verulega skaðlegt málstaðnum ef rétt reynist. Svo skaðlegt, að það eitt og sér gæti réttlætt siglingu á önnur mið, sérstaklega ef kapteinn Klopp væri til í að taka við dallinum.

  18. Ef betri stjóri er á lausu og vill koma til LFC þá á klárlega að losa sig við BR. Annars ekki.

  19. Ég held að það skipti ekki öllu hvort Brendan fari eða ekki á meðan eigendur eru ekki tilbúnir að kaupa “great players” þá er ég að meina að við þurfum hryggjasúlu í þetta lið með top leikmönnum, top markmann, top miðvörð, top miðjumann og top framherja.
    Við vorum að gera samning við Henderson sem er góður miðjumaður en ekki þessi top leikmaður eins og við þurfum.
    Liverpool verður því niður á þessum slóðum eins og við erum í dag á meðan eigendur eru bara að kaupa meðal leikmenn.
    Er ekki betra að kaupa tvo góða leikmenn frekar en 6-8 meðal leikmenn?

  20. Ef það væri hægt að fá Klopp þá má reka Rodgers. En alls ekki reka hann nema búið sé að linea upp öðrum manager.

  21. Ég kaus að gefa Rodgers annað timabil. Hann á það skillið. Ég hafði villjað sá aðra kostningu hvort við villjum hafa FSG áfram sem eigendur Liverpool eða fá nýja eigendur. Því ég vill frekar halda Rodgers og losa okkur við FSG frekar.

  22. Ferguson var búinn að vera 7 ár áður en hann vann titillinn. 7 ár 7 ár 7 ár.
    Ég ætla að biðja menn að anda aðeins með nefinu sínu stóra.
    1. Við erum með eitt allra efnilegasta liðið í evrópu.
    2. Suarez fór.
    3. Sturridge var og er meira og minna meiddur í vetur, og er enn!!!
    4. Ég er alveg klár á því að BR veit af vandamálunum hjá sínu liði. Hann þarf meira fjármagn til að jafna toppliðin.
    5. Miðað við efniviðinn sem við höfum og ef við kaupum svona 4 topp menn í sumar er ég ekki smeikur við næsta tímabil. Og það sver ég!!!!!!
    6. blablabla…
    7. blablabla……..
    8. bíddu vorum við ekki í 2 í fyrra??? þá með 2 markaskorara????
    9.blablabla….
    10. ÞAÐ VÆRI SRÓR MISTÖK EF VIÐ MYNDUM REKA HANN!!!!

  23. Þú segir semsagt að þetta sé töpuð barátta hjá BR nú þegar. Bara spurning um hvað hann hangi lengi á starfinu. Nema að til komi bikar á hverju ári !

    Það er ekki heil brú í þessu. Ef hann heldur starfinu í sumar og kemur okkur í topp 4 á næsta ári þá er hann að gera betri hluti með þetta lið en efni standa til. Ég skil stundum ekki til hvers er ætlast af þessum stjórum, að þeir fari framúr liðum sem vaða í peningum ?

  24. Mig langar til að koma einu á framfæri til viðbótar. Eftir þennan komment lofa ég því að tjá mig ekki framar um Brendan Rodgers á meðan hann stýrir LFC. Nóg er komið að mínum dómi og það líklega fyrir löngu.

    Sú niðurstaða að hann verði að víkja, ef betri maður finnst, helgast af því, í fyrsta lagi, að ég er ég verkfræðingur sem er ennfremur lektor í stjórnunarfræðum. Í annan stað að ég vinn töluvert í Þýskalandi og hef mikið álit á því hvernig Þjóðverjar nálgast vandamál.

    Þjóðverjar eru, að minni reynslu, mjög meðvitaðir um samhengi orsaka og afleiðinga. Ursachen und Wirkungen eins og þeir segja. Ef illa gengur í framleiðslunni er ekki rokið til og verkamennirnir skammaðir fyrir hyskni og leti. Þeir byrja á að skoða hvort vélarnar séu rétt stilltar, ferlarnir í lagi og fyrirskipanir skýrar.

    Þegar að þýska landsliðið fór sína sneypuför í Evrópukeppninni 2000 og komst ekki upp úr riðlunum og unnu ekki leik fóru þeir í ítarlega greiningu á orsökum og afleiðingu. Upp úr þeirri rýni kom áætlun um að koma þýskum fótbolta á þann efsta stall sem heimamenn telja sæma þjóðinni. Allir vita síðan um árangurinn og Þjóðverjar eru hrikalegir í dag. Bundesligan er, hvað sem líður yfirburðum Bayern, stoppfull af frábærum vel þjálfuðum fótboltaliðum og leikmönnnum.

    En á hverju skyldu þeir hafa byrjað endurreisina?

    Jú nákvæmlega; þeir byrjuðu á þjálfurunum. Út úr þýskum fótboltaakademíum renna núna vel menntaðir þjálfarar og greinendur sem vinna með fótboltann allt frá þolþjálfun til markaðsmála.

    Ein besta akademían er í Freiburg, þar sem ég vinn hluta úr ári, og ég hef verið svo heppinn að fá að horfa á æfingar hjá FC Freiburg og þessi nálgun Þjóðverjanna er fyrsta flokks út frá prinsippum stjórnunarfræðanna.

    Fer ekki nánar út í þá sálma en hlutverk þjálfarans er gífurlega mikilvægt. Ef hann kann sitt fag leysast önnur vandamál að stórum hluta. En eitt kemur líka til viðbótar tæknilegri færni og þekkingu sem er leiðtogahlutverkið sem Þjóðverjar leggja mikla áherslu á innan vallar sem utan.

    Eftir því sem að verkefnið er risavaxnara og viðurhlutameira er leiðtogahlutverkið mikilvægara. Þessi X-faktor sem er að vissu leyti óútskýranlegur og jafnvel ólæranlegur en gerir að verkum að leiðtoginn tekur rétta ákvörðun og nær 1% meira út úr mannskapnum. Fær liðið til að vinna eins og vél sem fær auka innspýtingu. Það er engin tilviljun að Þjóðverjar kalla liðin sín Mannschaft.

    Þá að Brendan Rodgers. Ég aldrei sagt að hann sé slæmur þjálfari. Ég fullyrði hins vegar að hann er ekki fær um að stýra stórliði eins og Liverpool. Hann er flinkur, kann fræðin og sitthvað annað en hann er ekki nógu sterkur leiðtogi að mínum dómi.

    Þetta vita frábærir leikmenn og umboðsmenn allra manna best. Það er búið að kortleggja styrkleika og veikleika Rodgers í drasl. Ég held að flestir séu búnir að komast að því að hann mun ekki komast mikið lengra með Liverpool.

    Af þessum sökum er Brendan Rodgers stærsta vandamál eigenda Liverpool eins og málið horfir við mér. Hann er fíllinn í herberginu.

    En ég er búinn með þetta BR rant forever – Elvis has left the building.

  25. Væntingar
    Eftir baráttu um titilinn fram á síðasta dag er aldrei ásættanlegt að tala um væntingar langt undir þeim árangri. Stjóri, eigendur eða leikmenn sem stefna ekki á að bæta tímabilið á undan hafa ekkert að gera í íþróttum. Flestir gerðu sér þó grein fyrir að aukið leikjaálag með Meistaradeild og miklar breytingar á hópi gæti tekið sinn toll og því stilltu flestir væntingar sínar fyrir tímabil á a.m.k. 4. sæti. Það munaði þó ekki miklu á efstu fjórum í fyrra og eftir sumarið hjá United var viðbúið að þeir yrðu með í vetur eins og raunin varð.

    Að komast upp úr riðli í Meistaradeildinni var sjálfsögð krafa í þessum riðli á meðan bikarkeppnir hefðu fyrir mér átt að sitja á hakanum í vetur og vera í höndum aukaleikaranna.

    Frammistaða
    Evrópa
    Til að byrja með til þeirra sem gagnrýna það að Liverpool sé með “læring” í stjórastöðunni eins og það er orðað þegar við tölum um að Rodgers sé ennþá að læra og hafi vonandi gert það í vetur þá bendi ég á að ekki alls fyrir löngu var Dortmund í sömu stöðu með Jurgen Klopp á sínu fyrsta tímabili í Meistaradeildinni. Dormund endaði í neðsta sæti síns riðils á hans fyrsta ári í Meistaradeildinni 2011/12. Þjóðverjarnir héldu sig við Klopp og töpuðu úrslitaleiknum árið eftir með marki á 89.mínútu. Þessi lið eru ekki beint sambærileg en stefna FSG er að treysta á ungan stjóra með ferskar hugmyndir rétt eins og þeir hafa gert í Hafnaboltanum. Þetta var rétt búið að skila okkur titlinum í fyrra. Dortmund sem nú er að missa Klopp er strax búið að ráða stjóra í nákvæmlega sama anda og þeir réðu Klopp, mann með ennþá minni reynslu. Hví halda menn að FSG myndu ekki gera það líka?

    Það breytir því ekki að frammistaða Liverpool í Meistaradeildinni var algjörlega til skammar í vetur, líklega sú versta sem félagið hefur sýnt. Þegar síðasta tímabili lauk var enginn að hugsa út í það að Liverpool færi sem eitthvert smálið inn í leiki gegn Real Madríd, félagið hefur oft mætt þessum Spænsku risum, gefið skít í hvað þau lið kosta og unnið þá, heima og heiman. Það sem boðið var upp á þessu tímabili var bara ekki boðlegt fyrir Liverpool. Það að klára svo ekki Basel í úrslitaleik er vandræðalegt og rétt merja annan leikinn gegn Ludogorets með marki í uppbótartíma er næstum brottrekstrarsök. Enda var rétt búið að reka Rodgers.

    Deildarbikar
    Fyrir tímabil var vitað að leikjaálag myndi aukast til muna með Evrópukeppninni og ofan á það átti að berjast um titilinn aftur. Fyrir mér hefði þessi keppni átt að fara algjörlega í leikmenn sem ekki voru í byrjunarliðinu sem og ungu leikmennina. M.ö.o. taka þessa keppni eins og Arsenal hefur gert í fjölmörg ár. Það að fara í undanúrslit og tapa var mun verra fannst mér en þegar þessari keppni var lokið í september á síðasta tímabili.

    FA bikarinn
    Þessi bikar er aðeins annað mál en það skal enginn segja mér að leiðin í undanúrslit með tveimur aukaleikjum hafi ekki tekið sinn toll, núna þegar mögulega munar bara fjórum stigum á Liverpool og 4.sæti gæti þetta verið það sem ræður úrslitum um Meistaradeild eða ekki.

    Deildin
    Við sjáum það bara á byrjun Arsenal og Man Utd hversu illa Liverpool klúðraði tímabilinu á því að byrja ennþá verr en þessi lið. Fyrir þessu gengi í deild eru þó nokkrar ástæður sem ég tel vonlaust að horfa framhjá og kenna bara Rodgers um allt saman. Hann lifir samt ekki af annað svona tímabil og ber klárlega mesta ábyrgð á þessu tímabili.

    Sala á Suarez átti ekki að koma til greina nema öruggt væri að félagið fengi plan A, B eða C í staðin. Suarez hjálpaði ekkert í sumar með að bíta aftur en það var ekki bara salan á honum sem fór með tímabilið heldur það að fá ekki nein mörk í staðin. Arsenal styrkti sig um svona 60-70% ígildi Suarez á meðan Liverpool missti hann og svo Sturridge allt tímabilið. Samkeppnin er harðari á toppnum en að hægt sé að ráða við svonalagað.

    Fyrir tímabilið lá fyrir að stækka þyrfti hópinn og bæta varnarleikinn, peningurinn var sannarlega notaður í það og vonandi koma þessi leikmannakaup öll mun sterkari til leiks að ári eftir undirbúningstímabil án truflana (og vonandi meiðsla). Það má ekki gleyma því að ofan á það að fá 8 nýja leikmenn í hópinn var HM í fótbolta sl. sumar og riðlar það undirbúningi töluvert. Þegar tímabilið hófst var liðið svo að spila 2-3 leiki á viku og Rodgers hafði engan tíma til að slípa liðið saman og það sást. Ofan á það má ekki vanmeta draug tímabilsins á undan sem ennþá hvíldi á liðinu.

    Leikmannakaupin voru engu að síður alls ekki nógu góð og sérstaklega ekki þeir sem höfðu reynslu af EPL og áttu að styrkja liðið strax. Það skrifast á þá sem keyptu þessa menn dýrum dómum.

    Hópurinn
    Flanagan er kannski ekki mikilvægasti leikmaður liðsins en mögulega var ekki farið í kaup á hægri bakverði þar sem hann var hugsaður til framtíðar. Hann hefur ekki ennþá spilað og þetta er ein mesta vandræðastaða liðsins í dag. Dejan Lovren hefur komið til eftir áramót en hafði augljóslega ekki hugmynd um sitt hlutverk fyrir áramót og leit hræðilega út, hér var klárlega ofborgað verulega fyrir reynslu af EPL sem er eitt það ofmetnasta í fótbolta í dag.

    Sakho hefur verið mikið meiddur sem hefur kostað okkur hrikalega illa. Hvað sem mönnum kann svo að finnst um Moreno hefur hann verið stöðugri en Enrique og betri en minn maður Cissokho. Rodgers hefur náð að laga varnarleikinn en það tók hálfu ári lengri tíma en vonast var eftir og það er of seint, sérstaklega þegar liðið skorar ekkert á sama tíma. Þetta eru samt góðar fréttir fyrir næsta tímabil enda líka búið að yngja upp í vörninni. Rodgers slípar liðið mun betur saman á heilu undirbúningstímabili.

    Það eitt að Gerrard flokkist sem vandamál hefur verið okkur rosalega erfitt í vetur, hann var rosalega berskjaldaður sem aftasti miðjumaður fyrir áramót enda liðið hreinlega hætt að verjast á fremstu mönnum líkt og það gerði tímabilið áður. Rodgers var allt of lengi að bregðst við Gerrard vandamálinu og deila má um hvort hann hafi gert það. Loks þegar Lucas fór í sína stöðu og var farinn að sýna sitt gamla góða form meiddist hann, dæmigert fyrir tímabilið í heild. Emre Can á sínu fyrsta tímabili var líklega ekki tilbúinn að taka við af þeim á miðjunni en hann verður það vonandi í byrjun næsta tímabils.

    Lallana voru stóru kaupin og skv. slúðri nú kaup sem Rodgers lagði áherslu á að fá. Hvort ekki hafi verið hægt að eyða 25m betur utan Englands er eitthvað sem FSG þarf að skoða virkilega vel fyrir næsta leikmannaglugga en Lallana meiddist fyrir tímabilið og hefur nánast aldrei náð að vera heill heilsu, hann fékk lítið frí þökk sé HM. Markovic er svo jafngamall og Sterling, hann er ekki að koma inn í vanstillt lið, úr stöðu og slá í gegn eins og skot. Hérna eigum við vonandi inni tvo “nýja” leikmenn sem geta skipt mjög miklu máli á næsta tímabili.

    Það að treysta svo heilan vetur á Balotelli til að fylla skarð bæði Suarez og Sturridge er með ólíkindum. Fyrir það fyrsta er varla hægt að finna ólíkari leikmann nema þá kannski Rickie Lambert. Balotelli kom inn alveg í lok ágúst og átti að umturna leikstíl sínum. Mögulega er hægt að vinna meira með Balotelli eftir heilt undirbúningstímabil en ólíklegt verður að teljast að hann verði áfram hjá Liverpool, svo slæmt hefur þetta tímabil verið.

    Eftir ágúst var Sturridge meiddur, Balotelli líka eða þá ekki í hópnum. Undir lok október/nóvember var ljóst að Lambert var mjög langt frá því að vera nógu góður og Borini hefur verið til sölu frá því í júní. Þrátt fyrir það var ekki reynt að leiðrétta mistök sumarsins í janúar eins og var t.d. gert þegar Sturridge var keyptur. Kannski er það að kosta okkur núna enda getur liðið ekki skorað.

    Sakho, Lucas og Sturridge eru okkar bestu menn í mikilvægum stöðum í hryggsúlu liðsins, þetta er bæði ekki nógu góð hryggsúla og hefur kostað okkur illa í vetur vegna tíðra meiðsla þessara manna.

    Niðurstaða: Hópurinn er núna nógu þéttur til að takast á við mikið leikjaálag og öfugt við síðasta sumar þarf ekki að kaupa inn annað en leikmenn sem fara beint í liðið og gera þá núverandi byrjunarliðsmenn að squad leikmönnum. Fyrsta verk ætti að vera það að gera Sturridge að 2-3. kosti í sókn Liverpool, ekki eina kostinum eins og er núna. Kaupa mörk. Næsta verk væri svo að fylla skarð Glen Johnson, það getur ekki verið flókið.

    Aðrir valkostir sem stjórar
    Ég held að starf Rodgers sé ekki í hættu núna og FSG meti þetta tímabil og reyni að laga það sem farið hefur úrskeiðis. FSG held ég að séu ekki mikið fyrir það að skipta um stjóra nema þegar þess þarf og finnst mér Hodgson og Dalglish dæmin hafa lítið sem ekkert að gera með Rodgers. Hodgson hefðu þeir rekið á fyrsta degi ef þeir hefðu eitthvað vitað um fótbolta, hann gat ekki verið mikið meira anti-Liverpool að öllu leiti. Dalglish var redding í þeirra augum til skemmri tíma. Mestu mistökin þeirra voru að semja við Dalglish og reka svo strax og þeir fundu þá tegund stjóra sem þeir voru að leita að. Þú rekur ekki Dalglish.

    Það verða líklega nokkrir stjórar á lausu í sumar en eins og markaðurinn er í dag á þetta við orðið um hvert einasta sumar. Það eitt að stuðningsmenn Liverpool eru að tala um stærstu bitana á þjálfaramarkaðnum núna er risabreyting frá því þegar FSG tók við.

    Klopp
    Klopp sem margir sjá sem lausn allra vandamála Liverpool er núna með Dortmund í 8. sæti í tveggja liða toppbaráttu, 37 stigum frá liðinu í efsta sæti. Þeir voru 19 stigum á eftir þeim í fyrra. Ekki misskilja mig, ég væri mikið til í að fá Þjóðverja til Liverpool og finnst Klopp frábær en hann er LANGT Í FRÁ trygging á betri árangri en Rodgers gæti náð, Rodgers hefur verið að byggja þetta lið upp og kannski líklegastur til að vinna úr þessum hópi? Hvort hann er laus en svo annað mál. Ég færi ekkert á taugum ef það færi svo að Rodgers yrði rekinn og Klopp kæmi í staðin, það væri ekki eins heimskulegt og stjóraskiptin 2010 en þetta er ekki eitthvað sem ég er að vonast eftir í sumar.

    Carlo Ancelotti
    Ancelotti var síðast hjá næstum því sambærilegu liði og Liverpool árið 1998 er hann var stjóri Parma í heimalandinu. Sambærilegu að því leiti að Parma var ekki ríkasta lið Ítalíu frekar en Liverpool á Englandi. Síðan þá hefur hann verið með Juventus, AC Milan, Chelsea, PSG og nú Real Madríd. Allt lið sem hafa verið þau ríkustu í sinni deild á þeim tíma sem hann hefur stýrt þeim. Er hann líklegur til að vera fáanlegur í uppbyggingarstarf hjá Liverpool og er hann yfir höfuð besti kosturinn í það starf?

    Diego Simeone
    Simeone væri ekki ósvipaður biti og þegar Liverpool landaði Benitez en hann er líklega ekki að fara frá A. Madríd og satt að segja er ég mun hrifnari af hugmyndum Rodgers heldur en Simeone þegar kemur að fótbolta. Engu að síður winner sem líklega er kominn til að vera í efsta klassa knattspyrnustjóra.

    Pellegrini
    Pellegrini hjá City landaði titlinum vissulega í fyrra en hefur lítið náð að gera með þetta rándýra lið, hvernig er hann meira spennandi hjá Liverpool en Rodgers?

    Rafa
    Benitez er sá sem ég væri persónulega langmest til í að fá og held að hann myndi vel geta unnið með FSG, hann fengi líklega oftar þá leikmenn sem hann óskar eftir hjá þeim en hann fékk síðast sem stjóri Liverpool. Eitthvað grunar mig að þeir sem mest eru á móti Rodgers nú hafi verið það einnig lokatímabil Benitez og vilja hann ekki aftur núna. Kannski verð ég á annarri skoðun eftir eitt ár en eins og er vill ég frekar bara halda Rodgers. Þetta er þó efni í annan pistil sem verður ekki skrifaður.

    Hnífar á lofti
    KAR talar um að hnífarnir séu komnir á loft og erfitt sé að ná þeim niður. Þetta finnst mér ekki alveg orðið svona slæmt hjá Rodgers ennþá. Houllier var ekkert að ná að bæta gengi eða leik liðsins í tvö tímabil á meðan Benitez var gagnrýndur fyrir ótrúlegustu hluti allann sinn feril hjá Liverpool. Fyrir utan stríðið við eigendur liðsins hafði hann t.a.m. aðal rétthafann (Sky) á móti sér í hálfvitum eins og Keys og Grey sem blessunarlega eru komnir með sínar risaeðluskoðanir til Arabíu í dag. Niðurstaðan varð sú að árið 2010 rak Liverpool Spænskan stjóra sem skilað hafði félaginu sínum stærsta titli (næstum tvisvar) sl 30 ár og fékk í staðin Englending eins og pressan hafði kallað eftir. M.ö.o. þegar Spænskur fótbolti var í sögulegum hápunkti rak Liverpool sigursælan Spánverja og réð í staðin Englending.

    Þessir með hnífana mættu jafnvel beina þeim að sjálfum sér takk fyrir pent.

    Niðurstaða
    FSG var í 2-3 ár að taka til eftir fyrri eigendur og eru að hluta til ennþá að því. Þeir hafa núna verið að byggja til framtíðar í 2-3 ár og núna hljótum við að vera komin að þeim tíma þar sem horft er til næsta árs. Þeir ætluðu sér ekki mikið meira en 5 ár í stóran titil og á næsta tímabili er komið að því.

    Frá því í fyrra hefur Rodgers talað um að næsta sumar verður hægt að hugsa aðallega um að styrkja byrjunarliðið. Með leikmannasölum, sjónvarpssamningi, miklu plássi á launaseðli sem og auknum auglýsingatekjum verða vonandi alvöru peningar í boði í sumar sem hægt er að nota til að landa “Mkhitaryan, Costa, Willian” kaupum næsta sumars og helst tveimur slíkum bitum.

    Svaraði auðvitað að ég vildi gefa honum annað tímabil en fyrir mér er Rodgers á gulu spjaldi. Liðið þarf að sýna framfarir á næsta tímabili og hvort sem launaseðillinn gefi það til kynna eða ekki þá dugar ekkert minna en a.m.k. sæti í Meistaradeildinni.

  26. Dæmið er einfalt, þeir ríkustu vinna laaaang oftast. Að mínu viti þarf Liverpool því fof að halda áfram að gera það sem gert hefur verið þau ár sem FSG hefur stjórnað klúbbnum, þe að auka tekjur og veltu félagsins. Fjárhagslega keppir Liverpool ekki við stærstu klúbbana. Í vetur var klúbburinn til rannsóknar vegna mögulegra brota á FFP reglum þannig að ég hef enga trú á því að klúbburinn sé að fara keppa um stærstu bitana á leikmannamarkaðinum. Ég held að FFP geti gagnast Lpool til lengri tíma litið en ég er því miður hræddur um að það muni taka tíma. Það sem mér finnst reyndar mest bölvað við FFP akkúrat núna er að í dag gagnast það sennilega mutd best. Bæði Móri og Pellegrini hafa talað um það í vetur að þeir hefðu viljað styrkja sín lið frekar en ekki getað vegna FFP.

    Klopp er klárlega einn af mínum uppáhaldsstjórum en jafnvel hann, með eitt besta lið heims í höndunum þurfti að selja hverja stjörnuna af annarri frá sér…..haldið þið að það verði eitthvað öðruvísi hjá Lpool?? Hvað missti Atletico marga leikmenn frá sér í sumar og fóru þeir vegna skorts á árangri eða lélegs þjálfara?? Eða snerist málið um það að borga 200-300 þús pund í vikulaun??

    Að því sögðu er gaman að fylgjast með öfgunum í umræðunni. Fyrir nokkrum vikum vorum við með svaka gott/efnilegt lið sem stefndi hraðbyri á toppinn. Nú er allt kolsvart og vonlaust..

    Ps. Ég hef ennþá trú á FSG og treysti því að þeir hafi betra vit en ég á stjóramálum.

  27. BR virðist ekki geta motiverað mannskapinn. Eins og þessi helgi spilaðist að þá gætum við verið 5 stigum fra 4. Sætinu og átt leik inni og þá mögulega komið okkur aftur inn í þá baráttu. En nei það var ákveðið að skíta upp á bak á móti WBA af öllum liðum. Manni finnst eins og þetta lið sé gjörsamlega hrunið og BR froðar bara einhverja steypu í viðtölum um að tímabilið sé á pari. Skrýtið að í ljósi þess að skv. Upprunalegu áætluninni átti liðið að vera í CL eftir þetta tímabil þ.e.a.s. þriðja tímabil hans.

  28. Fínn pistill og enn betri umræður.

    Ég gef Rodgers gult spjald fyrir þennan vetur líkt og Babú en það geri ég þó með þeim fyrirvara t.d. að við vinnum næstu tvo leiki og þetta tímabil verði klárað almennilega, ég nenni ekki neinu meltdown núna og stórtapi á Brúnni. Rodgers á að sýna okkur það að hann nái að hreinsa síðasta blett vetrarins af okkur með því að gera atlögu að fjórða sætinu, ekki síst eftir ánægjuleg úrslit dagsins.

    Ég hef mjög gaman af umræðu Guderian hér og það er kannski augljóst að ég tel stjórnun skipulagsheildar vera lykilatriði og get alveg tekið undir margt sem hann segir. Hins vegar eru þó ein skekkjumörk sem ég hef eiginlega aldrei áttað mig á með þýska þjálfara. Þeir ná yfirleitt engum árangri utan landsteinanna nema þá í landsliðabolta kannski og það er eitt af því sem hræðir mig við Klopp. Þjóðverjar eru háklassafólk sem gerir allt eftir miklu skipulagi eins og Guderian lýsir, en eru þeir kannski bestir í sínu samfélagi sem er sennilega að mestu leyti það “eðlilegasta”í Evrópu í dag ef að Bayern er tekið út úr jöfnunni.

    Akademíurnar og uppbyggingin er flott og allt hljómar vel, en ég viðurkenni alveg það að ég set það fyrir mig hversu öðruvísi þýskt umhverfi er hinu breska. Svo er talað um að Klopp sé líklegur til að meika það á Englandi því hann sé “breskur” stjóri í grunninn. Hvað þýðir það…því þrátt fyrir allt og allt þá er okkar maður eini Bretinn hjá efstu 7 liðunum. Þar eru Portúgali, Chilemaður, Frakki, Hollendingur, Breti, Argentínumaður og Hollendingur. Í þessari röð. Er þá gott mix að sækja þýskan þjálfara (miðað við þeirra record utan heimalands) sem er breskur. Þjálfara sem ekki hefur svo glatt sett pening í stór nöfn og hefur nú fallið á það sverð sitt að byggja liðið sitt upp innanfrá?

    En Guderian kemur með góða punkta og ef að Rodgers fær ekki séns þá vona ég að Klopp verði fyrir valinu frekar en einhver annar “efnilegur”.

    Þegar rætt er um fótboltalið dett ég oft til baka í sveitina mína og horfi til þess verks sem tamningamenn vinna. Þeir sem fylgjast með hestaíþróttum vita að þar eru knaparnir þeir sem vinna verðlaunin. Þeir eru oft ekki tamningamennirnir þó það gerist ekki oft. En þegar árangrinum er náð, landsmótsbikarinn kemur í hendur fólks og hesturinn frýsandi undir þá er það samspilið sem virkaði.

    Góður tamningamaður getur aldrei gert meira en það sem í hestinum býr, hann þarf að fá í hendurnar gæði til að vinna með. Í vetur hafa gæðin ekki verið nóg til að fara í sama far og í fyrra og stærsta atriðið þar er að missa úr stóran hlekk, eða hlekki úr liðinu sínu, því má ekki líta framhjá.

    Rodgers hefur gert fullt af feilum finnst mér, þó að þeir séu hluti leiksins, sem hefur orðið til þess að gæðingurinn hefur ekki náð þeim hæðum sem hann mögulega næði. Þar tel ég fyrst Evrópuklúðrin tvö, bæði CL og EL. Þá kemur ömurlegt tap fyrir Aston Villa í Fa bikarnum og svo haustið. Þar var hann alltof lengi fastur í “lærðu” fari með leikmannahóp sem réð ekki við það far. Basel leikurinn á Anfield var ferlegt sjokk þó vissulega rautt spjald Markovic hefði skekkt myndina og af þessum völdum tel ég lykilatriði að liðið leiki Evrópuleiki næsta vetur því þannig klúbbur á Liverpool að vera.

    Svo að tamningamaðurinn sem fékk ekki sama gæðing og í fyrra gerði vissulega mistök, en það kemur ekki í veg fyrir þá staðreynd að hráefnið þarf að verða betra. Enn og aftur segi ég líka að ég vill sjá félagið fara í annars konar kaup í sumar, því miður sá ég í Echo-inu í dag að hann er búinn að láta það frá sér að FSG ætli að halda sér við ungviði sem að eigi að vinna sig upp innan klúbbsins. Þar er ég algerlega ósammála á allan hátt og mun garga af gremju ef svo fer. Þá erum við bara í því farinu sem við verðum, dettum annað slagið inn í CL, komumst í einhver bikarúrslit og skiptum um stjóra á 3ja til 4ra ára fresti.

    Svo er allt annað mál að skoða þetta blessaða starf. Í dag er Pellegrini afskrifaður sem hálfgerður kjáni í pressunni, Wenger sem hefur verið úthrópaður síðustu ár er aftur að fá að vera góður, Louis Van Gaal þykir bara standa sig vel þó hann sé nú rétt ofan við okkar eftir mestu eyðslu sögunnar með meistaraliðið frá 2013, Pocchetino sagður vera kominn í of stórt starf og Koeman sé bara maðurinn….

    …það eru býsna sérstakir menn sem að nenna að vinna þetta starf og ég eiginlega veit ekki hvað mér finnst um þá athygli sem þessi eina einstaklingur skipulagsheildarinnar stöðugt fær. Ég hef af því áhyggjur að lykilmennirnir, þeir sem sparka í boltann raki inn peningum og mótivering þeirra sé sú ein, ekki síst því þeir geta bara bent á hvað stjórinn sé þetta og hitt þegar illa gengur. Það þoli ég ekki.

    Ég semsagt kaus já, eins og 2/3 þeirra sem að hafa hingað til kosið.

    En spjaldið er gult!

  29. Fràbær póstur hjà Guderian nr. 25
    Skil ekki ad menn vilji gefa Rodgers sjèns út af hinu og tessu. Annad hvort er madurinn nógu gódur til ad vera hjà okkur eda ekki. Mèr finnst hann bara hafa klúdrad of miklu og hafa synt litla kænsku í lykilleikjum. BR out a.s.a.p.

  30. Ég fagna frábærum umræðum hérna. Nú þegar hafa 400 manns kosið og ég verð að viðurkenna að það kemur mér á óvart hversu margir kjósa frekar að reka Rodgers en að gefa honum aðra leiktíð. Þriðjungur vill hann burt sem mér finnst há tala. Ég vissi að það væri hluti en átti kannski frekar von á 15-20%, ekki 37%.

    Ég skil sjónarmið þeirra sem vilja Rodgers burt mjög vel. Sigkarl og Guderian hafa fært mjög góð rök fyrir þeirri skoðun að láta hann fara og ég vísa í ummæli þeirra ef menn vilja góðan rökstuðning fyrir þessari skoðun.

    Ég kaus sjálfur já, að gefa honum aðra leiktíð en eitt sem ég tók þó ekki fram í pistlinum og ítreka hér er að hann á ekki meira inni en það. Að því gefnu að sumarinnkaupin verði ekki annað fíaskó og að hlutir eins og svakalegt meiðslavesen hefti störf hans ekki á næstu leiktíð þá verður hún hans síðasta ef hann sýnir ekki að hann geti stigið upp með liðið þegar mest á reynir.

    Palace og Chelsea í fyrra. Real í haust. Besiktas eftir áramót. Undanúrslit í báðum bikurum. Úrslitaleikir gegn United og Arsenal nú í vor. Hann fellur aftur og aftur á þessum stóru prófum sem skilja að titil og annað sæti, bikar og svekkelsi, fjórða sætið og það fimmta. Rodgers er ungur stjóri og hefur aldrei landað titli en á einhverjum tímapunkti verður hann að sýna að hann sé fær um þetta lokaskref.

    Klopp gat tekið það skref hjá Dortmund. Rafa gat tekið það skref með Valencia, á svipuðum aldri og Rodgers er nú og eftir að hafa þótt efnilegur stjóri í nokkur ár. Það er einfaldlega komið að Rodgers að stíga upp.

    Ef hann verður áfram (og ég er ekki sannfærður um að FSG gefi honum séns ef síðustu 5 leikirnir verða hörmung) þá er hann á gulu spjaldi eins og Maggi orðaði það.

    Allavega, fínar umræður og áhugaverð kosning.

  31. Gott og vel, Rodgers verður áfram.
    En – breytingar eru algjörlega nauðsynlegar. Það þarf að spyrja spurninga, leita svara og lausna. Og örugglega þarf að skipta um mannskap á Anfield.
    A) Leikmannakaupin hafa gengið illa. Hvers vegna? Þessu kerfi verður að breyta!
    B) Vörnin er oft kjánaleg. Hvernig stendur á því? Vörn byggist ekki á kappi og dugnaði. Vörn er skipulag, samvinna og skynsemi. Þjálfun og skipulagi þarf að breyta!
    C) Í íþrótt sem gengur út á aðskora mörk er frábær hugmynd að hafa markaskorara. Ekki eru Hendo, Allen, Gerrard eða Lucas að skora frá miðjunni.
    D) Brendan þarf að taka seinni hlutann af ódýra stjórnunarnámskeiðinu sem hann hefur væntalega farið á. Hann lærið að hrósa roooosalega mikið og vera jákvæður. Það er gott. En maður á EKKI að hrósa mönnum fyrir það eitt að mæta.

    Það er gaman að láta sig dreyma um stór nöfn, bæði leikmanna og þjálfara. En til þess að slíkir draumar rætist þarf að taka til hjá Liverpool.

  32. Sælir félagar

    Takk fyrir pistilinn KAR (ég gleymdi að þakka fyrir í fyrri kommentum) og takk fyrir frábærar og að mestu málefnalegar umræðum um þetta mál sem er viðkvæmt og sárt fyrir okkur sem viljum ekkert annað en hag okkar liðs sem bestan. Ég tók eftir því að Maggi og ef til vill fleiri sem vilja BR áfram eru með hann á gulu spjaldi. Ég reikna með að svo sé um fleiri þó það komi ekki fram.

    Það er gífurlega erfið ákvörðun að reka stjórann okkar og ekki síst af því að við öll höfum bundið við hann vonir og margir miklar vonir. Samt er það nú svo að menn, eins og ég og
    Guderian og ef til vill fleiri, sem höfum stutt BR fram að þessu erum komnir á þá skoðun að það sé best fyrir klúbbinn að hann fari. Það er ekki sagt í augnabliksbræði heldur að athuguðu máli.

    Því til grundvallar liggja ekki rök eins og að Rauðnefur hafi ekkert unnið með MU í 7 ár. Það bara kemur þessu máli ekkert við nema ef til sem vill samanburður á karekturum. Þar hefur verið tiltekið að mér sýnist eins og fleirum að BR hafi ekki þann sama karakter og Raunefur hefur og hafði. Stálharður, og enginn leikmaður hversu góður sem hann var, var stærri en klúbburinn, liðið, liðsheildin.

    Annars ætla ég eins og fleiri að hætta að tjá mig opinberlega um þetta mál að þessari athugasemd lokinni. Ég viðurkenni að spjaldið hjá mér er ekki alveg hárrautt. Það er í því gulur tónn. Sá guli tónn er ekki þar af skynsemisástæðum. Fjarri því. Hann er af tilfinningaástæðum því þetta er erfitt val og verður erfið ákvörðun.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  33. Frábær pistill og frábærar umræður. Þessa síða er náttúrulega þvílík snilld og þið síðuhaldarar eigið skilið mikið hrós fyrir.

    Ég vil gefa BR annað tímabil. Eg meina maður sem var næstum því búinn að skila liðinu sinn fyrsta meistaratitil síðan 1990 á skilið annans séns. Liðið var algerlega frábært á síðustu leiktíð og ég bara man ekki eftir því að hafa haft jafn mikið gaman að því að horfa á mitt lið spila fótbolta.

    Staðreyndin er bara sú að enginn, þ.e. BR, eigendur né við stuðningsmenn gátum gert okkur almennilega grein fyrir því hversu mikilvægur Suarez var liðinu á síðasta tímabil, m.ö.o. allir vanmátu áhrif brotthvarf hans á getu liðsins. Auk þess hefur Sturridge verið tæplega hálfur maður á þessu tímabili miðað við það síðasta.

    Liðið er einfaldlega miklu veikara en það var á síðasta tímabili og við keyptum ekki nægilega góða leikmenn.

    BR þarf að fá að versla a.m.k. 3 helst 4 leikmenn fyrir næsta tímabil sem gera tilkall í byrjunarliðið. Tvo sóknarmenn, einn í stað GJ og einn öflugan miðjumann. Ekki einhverja kjúklinga, heldur reynslubolta á aldrinum 24 – 29 ára, sem eru búnir að sanna sig sem byrjunarliðsmenn í sterkum liðum.

    Það er samt engin spurning að BR og þessi leikmannanefnd þarf að svara fyrir mörg flopp-kaup síðasta sumars og það er ljóst að það verður talsverð hreinsun í leikmannahópi, en að reka BR núna tel ég ansi harkalegt.

    Hann þarf hins vegar að byrja næsta tímabil vel og ef liðið byrjar tímabilið jafn illa og á þessu tímabili þá má vel vera að hann fái pokann sinn fyrir jól.

    Ef BR verður hins vegar rekinn þá vil ég sjá Klopp taka við liðinu.

  34. Ég myndi líklega sjá mikið á eftir Rodgers ef Liverpool myndi ákveða að skipta honum út núna. Ég vil sjá hann áfram.

    Það eru vissulega ákveðnir þættir í hans fari, hegðun og stíl sem má kannski betur fara og getur jafnvel litið kjánalega út í ákveðnum aðstæðum. Hann á það til að kannski tala of mikið stundum, tala í hringi og enda svo á því að tala sig út í horn. Hann líka hatar ekki að klappa sjálfum sér á bakið og er mjög stoltur maður – sem er bæði kostur og galli.

    Hann er enn einn af yngri stjórunum sem eru á þessu stigi í fótboltanum. Það að hann eigi kannski ekki alltaf svör við reynsluríkum mönnum eins og Wenger, Louis van Gaal, Mourinho eða hvað þeir nú allir heita er kannski ekkert óeðlilegt. Hann má þó eiga það blessaður að hann er oftar nær mjög fljótur að bregðast við mistökum og ræna að bæta þau.

    Hann hefur sína ákveðnu hugmyndir um hinn “fullkomna” leik og hefur reynt og nýtt margar aðferðir til að fá þær til að njóta sín sem best. Hann aðlagar lið sín mjög oft vel að þeirra styrkleikjum og þegar liðið nær tökum á því þá verða þeir helvíti seigir í því. Liðið tileinkaði sér stungusendingar, hlaup í eyður og hraða þegar leið á fyrstu leiktíð hans, all-in sóknarbolta með hápressu á þeirri annari og núna hefur honum tekist að þétta liðið all svakalega. Því miður hefur honum kannski aldrei tekist að finna þetta fullkomna jafnvægi á milli þess að vera með frábæra sókn og þétta vörn.

    Það er rosalega margt á þessari leiktíð sem hefur reynt heldur betur á taugarnar í manni. Ömurlegt gengi í Meistaradeildinni, detta strax út í Evrópudeildinni, leikurinn gegn Villa um daginn og einstaka leikir í deildinni sem gerðu mann gjörsmalega brjálaðan. Það vaknar hjá manni efi varðandi Rodgers, varðandi plönin hjá félaginu og hitt og þetta en svo þegar maður andar hægt og rólega þá eru hlutirnir kannski ekki það slæmir eftir allt.

    Það má vel vera að Rodgers sé búinn að toppa sig sem stjóri Liverpool. Tveir undanúrslitaleikir, annað sæti og slakar frammistöður í Evrópu. Kannski getur hann bara ekki meira. Svo aftur á móti gæti hann verið rétt að byrja, það er hellings potential í Rodgers, kannski á hann eftir að eiga sín Klopp ár, Rafa ár, Simone ár eða what ever, kannski mun hann eiga Mourinho eða Ferguson ár. Það er afar erfitt að segja til um það.

    Hann hefur aldrei unnið neitt nema kannski umspilsleikinn með Swansea hér um árið. Hann hefur ekki komist upp úr undanúrslitarimmu, ekki unnið bikarkeppni, ekki farið langt í útsláttarkeppni eða alvöru riðlakeppni og hvað þá unnið deild. Aftur á móti þá eru þeir ekki margir stjórar sem eru orðnir sigursælir á þessum aldri og kannski ekki komnir með fleiri blaðsíður í ævisögu sína en þetta.

    Ég held að hann eigi töluvert inni og sé þetta ár skoðað í stóru samhengi þá er þetta í raun og veru kannski ekki það ömurlega, glatað, skíta ár eins og maður heldur stundum. Eins og segir þá erum við nokkurn veginn á “pari” miðað við það sem við eigum að vera sbr. við launakostnað osfrv. Þrátt fyrir að við Liverpool sé “meðallið”, með skítinn í buxunum, vanhæfan stjóra, ömurlega leikmenn, framherjalausir og allt það þá erum við samt í touching distance frá 3.-4.sæti. Ólíklegt að við náum þeim en við erum a.m.k. afar nálægt. Þar erum við að tala um ríkjandi meistaralið City með sinn sykurpabba og Man Utd sem stilltu upp í vetur dýrasta byrjunarliði Úrvalsdeildarsögunnar (og eru ekki í Evrópukeppni). Þrátt fyrir allt erum við ekki það langt frá þeim. Liðið gæti endað með eitthvað í kringum 70 stig sem er bara nokkuð gott, það myndi sýna að við séum CL contenders sem áttu bara lélegt run á einhverjum tímapunkti.

    Þessi leiktíð hefur að ég held verið afar erfið fyrir Rodgers. Deildin er orðin harðari og erfiðari en oft áður með mörg lið að berjast um þessi efstu fjögur sæti. Hjá einhverjum liðum hafa hlutirnir bara allt í einu smollið en þetta hefur verið djöfulsins bras hjá Liverpool í vetur. Meiðsli lykilmanna í sókninni þýddu að Rodgers þurfti að spinna sig svolítið áfram með ungan leikmannahóp sinn, prófa hitt, prófa þetta og reyna að fá þetta til að smella. Það gekk, gekk svo ekki, gekk aftur. Þetta mjakast áfram.

    Ég sé meira jákvætt í því sem Rodgers hefur verið að gera en neikvætt. Ég vil ekki þurfa að sjá eftir honum. Ég held það mætti frekar endurskoða þessa kaupnefnd hjá félaginu en hún og Rodgers virðast ekki alveg í sync-i og kannski bara of margir með puttana í þessu. Ef Liverpool telur að fá Klopp inn sé upgrade á Rodgers og gerir okkur betri þá fine en ég veit það ekki og ég vil ekki afskrifa hann strax. Ég vil hann áfram.

  35. Ég kaus Brendan áfram…þurfum bara stræker og þá væri þetta ekki svona dautt. Ég myndi jafnvel bjóða Bendtner velkominn á Anfield staðan er þannig.

  36. Ef Rodgers verður látinn fara þá er það ekki af því að hann er ekki jafn hæfur og Klopp eða Ancelotti. Að ná árangri hjá stóru félagi snýst ekki bara um það að vera eitthvert fótboltaséni, allir eru þessir menn klárir í fótboltafræðunum.

    Hins vegar skortir Rodgers ‘credibility’ eða trúverðugleika. Það er ekki hægt að nota Rodgers sem aðdráttarafl þegar kemur að því að sækja bestu leikmenn í heimi. Ancelotti gæti tekið við Fiorentina og fengið Benzema á svæðið. Rodgers gæti það ekki.

    Þetta er svipað og í Seðlabankaheiminum. Ef Seðlabanka skortir ‘credibility’ og markaðurinn trúir þar af leiðandi ekki að hann muni halda sig við setta stefnu, þá aðlagar markaðurinn sig strax í dag að framtíðarvæntingum. Á sama hátt aðlagar leikmannamarkaðurinn sig að því að Liverpool er ekki trúverðugt í stefnu sinni að því að vera félag í fremstu röð, og Rodgers er ekki maður sem eykur þann trúverðugleika.

  37. Reka Rodgers ef hægt er að fá Ancelotti eða Klopp. Það væri allan daginn skref í rétta átt með fullri virðingu fyrir Rodgers, og menn ættu ekki að hugsa sig lengi um með þau skipti.
    En ef það er ekki í boði mætti hann fá reyna sig við næsta tímabil líka.

  38. Til að byrja með þá vil ég hrósa mönnum fyrir góð og málefnaleg skrif, þetta er sama umræða og var í gangi fyrir áramót, en þá var hún á allt öðru og lægra plani.

    Ég skil rök þeirra sem vilja hann í burtu og ég skil rök þeirra sem vilja að Rodgers fái annað tímabil. Ég kaus JÁ, ég vil að Rodgers fái annað ár til að snúa gengi liðsins við. Afhverju?

    Eftir höfðinu dansa limirnir

    Áður en Rodgers var ráðinn þá vildi FSG (þá NESV) að hann myndi vinna með director of football. Áherslan átti að vera á að fótboltinn og sú sýn sem er innan klúbbsins breytist ekki þrátt fyrir þjálfarabreytingar. Sókndjarfur og spennandi fótbolti og búa til stórstjörnur í stað þess að kaupa þær. Smarter than the rest. Mjög sexý hugmyndir, en vænlegar til árangurs?

    Nú er Liverpool búið að skipta um stjóra 5 sinnum síðustu 11 ár eða svo. Hvað hefur breyst? Ekkert. Við erum að upplifa hæðir inn á milli, en rosalegar lægðir í kjölfarið. Stöðugleikinn er enginn. Við berjumst á móti straumnum, komnir móðir upp öll þrepin, þurfum eitt skref í viðbót og opna dyrnar að fyrirheitna landinu. Nei nei, seljum okkar bestu menn, kaupum drasl í staðinn og byrjum upp á nýtt. Merkilegur andskoti.

    Mér er alveg sama hver kemur inn um dyrnar. Klopp, Benitez eða hvað hann nú heitir. Þeir þurfa samt að vinna undir/með nefndinni sem taldi að Balotelli og Lambert væru góð kaup.

    Klopp, frábær stjóri, virkilega spennandi. Minn nr 1 kostur sumarið 2012. Honum gekk nú afskaplega illa að snúa við gengi liðsins í vetur eftir að hafa misst sína bestu menn (hljómar kunnuglega). Nær ekki CL þetta árið.

    Benitez – hans tími hjá LFC er búinn. Ég vildi ekki missa hann sumarið 2010, vildi fá hann aftur allar götur síðan. Er hann samt sami stjórinn og hann var? Pako og allt það. Hann hefur nú ekki verið að gera neinar rósir í Seriu A eða með Napoli í evrópu.

    Mitt point er, og eins og með annað þá er það efni í annan pistil, er að stefnan er gölluð. Ofborga milljónir punda fyrir efnilega leikmenn sem flestir hafa eina eða tvær leiktíðir undir beltinu í efstu deild og ekkert hjarta. Eru ekki mótaðir sem karekterar eða leikmenn og ef við hittum á demant þá missum við hann því við erum ALLTAF í uppbyggingarstarfi. Liverpool hefur verið í uppbyggingu síðan ég fór að fylgjast með því. Magninnkaup á hverju ári, í stað gæða. Sjáið Chelsea sem dæmi, þeir eru að spila á sömu 11/12 viku eftir viku. Breiddin er ekkert ofboðsleg, en gæðin eru það samt.

    Við getum ekki haldið og sleppt. Ef við ætlum að fjárfesta í framtíðinni – en reka samt stjórann út frá einni slæmri leiktíð?

    Héldu menn að Balotelli myndi breytast? Héldu menn að Can kæmi inn í liðið og myndi skáka kaupum eins og Fabregas, þ.e. til skemmri tíma litið? Héldu menn að Markovic, með sína einu leiktíð í evrópu myndi koma inn með svipuðum látum og t.d. Hazard gerði á sínu tíma?

    Héldu menn að við þyrftum í alvöru 8 nýja leikmenn? Hvað hefur Lallana, Lambert, Markovic, Lovren og Balotelli t.d. spilað marga leiki? Var þetta öll þörfin fyrir aukinni breidd, öll 110 milljónir pundin? Hefði ekki verið betra að kaupa tilbúna leikmenn? Ég veit það er sjokkerandi, en það hefði jafnvel getað verið leikmenn í þær stöður sem þeir spila reglulega í. Alltaf endum við í striker-um sem við látum út á kannt, kanntmönnum sem við setjum í bakvörð eða nú miðjumönnum sem við setjum í miðvörðinn því vörn og miðja er svo léleg að hún er eins og gatarsigti með tvo miðverði.

    Ekki byrja svo með að við viljum kaupa stórt en það sé Rodgers að kenna að það gangi ekki eftir. Money talks bullshit walks. Þeir leikmenn sem við misstum af (Sanchez, Willian ofl) völdu allir stöðugri klúbb sem hefur náð meiri árangri síðustu ár og flestir amk fengið betur borgað þar einnig.

    Miðað við það sem menn hafa skrifað um nefndina (Times, Echo ofl). Þá setur nefndin sér ákveðin mörk hvað varðar kaupverð og laun þegar þeir fara á eftir leikmanni og eru ekki tilbúnir að ofborga (að þeirra mati) fyrir leikmenn. Þegar Arsenal kom inn í Sanchez, voru þeir þá tilbúnir að borga honum betur en skytturnar? Er hann ekki skilinn við konuna sem vildi bara London?

    Ég kaupi þetta ekki. Í peningageðveikinni sem fótboltinn er orðinn þá virðumst við ekki geta klárað leikmenn sem lið hærra skrifuð en Norwich eru einnig á eftir.

    Eina planið sem virðist vera til staðar er að leikmaður verður að vera yngri en X ára, kosta minna en X pund og vilja minna en Y í laun. Það sést líklega í meistaraplaninu sem fór í gang eftir að Suarez fór, eitthvað sem kom engum á óvart. Allir sem fylgjast með fótbolta vissu að þegar Real/Barca kæmu inn þá myndi hann gera allt til að komast í burtu (bókstaflega). Planið? Balotelli. Andstæðan við týpuna sem okkur vantar (hreyfanlegur, spilar á öxlinni á varnarmönnum). Hann var á svo góðu verði og sell-on value svo mikið! Ótrúlegt…

    Svo er slúðrið byrjað fyrir sumarið. Lacazetta, 20-30 marka maður í Frakklandi? Neibb, Danny Ings (eitt tímabil í efstu deild – gæti mögulega náð 10 mörkum!!) og Origi (15 mörk á þremur árum. 5 marka striker á tímabili að meðaltali). Svo eigum við auðvitað Sturridge inni…. einmitt. okkur er ekki viðbjargandi, svo skiljum við ekkert í því að við séum í ruglinu.

    Samkeppnin

    Líkurnar eru ekki með okkur – samkeppnin eru tvö olíufélög og tvö hrikalega vel rekin félög sem velta bæði 40-50% meira en Liverpool á leikdegi. Bara þau pund sem þeir fá aukalega inn á leikdegi skilar þeim s.a. 50 milljónum punda aukalega í kassann. Bætið við þetta Champions League, við erum þá að tala um svona 80-100 milljón punda tekjubil á milli þessara liða.

    100 milljónir punda umfram LFC í leikmannakaup og laun. Þetta er veruleikinn í dag.

    Pellegrini

    Er umboðsmaður hans að plögga honum inn í umræðuna hér á kop.is? Hann fer, að mínu mati, í flokk með Hodgson, stóra Sam og fleirum sem heitir worst case scenario. Það væri svipað múv og reka Benitez og ráða Hodgson.

    Niðurstaða

    EF út í það væri farið að láta Rodgers fara, þá þyrfti annar og betri kostur að vera klár og vera búinn að samþykkja kaup, kjör og að vinna innan þess ramma sem honum er settur. Þetta er ekkert gefið m.v. hvernig planið í kringum Suarez söluna var. Ef, og það er stórt ef, þeir ætla að láta Rodgers fara þá þarf að vera búllet-prúf plan í gangi og allt klappað og klárt áður en flugmiði aðra leið til Boston er sendur til Rodgers.

    Persónulega þá finnst mér það algjör vitleysa að reka Rodgers á þessum tímapunkti. Að reka stjóra, ári eftir að hann var einum leik frá því að gera okkur að meisturum. Sérstaklega þar sem við erum klúbbur sem er með það sem útgefna stefnu að við erum að horfa til framtíðar í öllum okkar kaupum og aðgerðum. Ef ekki verður stefnubreyting, ætti þá að kaupa leikmenn til framtíðar, en stjórinn væri ráðinn til skemmri tíma? Ef við skoðum leikmannahóp LFC vs topp fjórir klúbbarnir þá erum við með slakasta hópinn. Við erum jafnframt með yngsta hópinn en það er EKKERT samasemmerki á milli þess að vera efnilegur og góður. Tala nú ekki um ef við förum svo að missa efnilega leikmenn því við viljum borga þeim lægri laun en þeir fá annarsstaðar. Ekki svo byrja á umræðunni um að þeir hafi það eflaust svo slæmt að vera bara með 100.000 pund á viku….. ef ykkur stæði til boða helmingi hærri laun annarsstaðar fyrir sömu vinnu þá myndu flestir ekki hugsa sig um einu sinni, hvað þá tvisvar. Tala nú ekki um ef þú ert ekki local.

    Eigum við þá að fá nýjan stjóra inn til að starfa eftir sömu stefnu, bundinn af ákvörðunum sömu nefndar vinnandi með sömu mönnum sem ná ekki í efstu hilluna í búðinni þegar kemur að því að versla leikmenn? Þeir taka kannski úr efstu hillunni, fara svo á kassa og reyna að prútta verðið. Skella inn bónusum, vilja borga 20% extra ef maturinn er góður o.s.frv. Á meðan jakkafatakallinn er fyrir aftan þig í röðinni tilbúinn að borga markaðsverð fyrir vöruna, og jafnvel meira til að klára dílinn áður en aðrir risar koma inn og samkeppnin harðnar.

    Rodgers er ekki saklaus. Hann er heldur ekki sá sem á alla sökina. Er það alt muligt mand Ian Ayre sem er ekki að ná að loka díl-um? Er það kannski ekki bara leikmennirnir og umbarnir sem vita að það sé áhugi annarra liða sem bjóða betur, því nást ekki samningar og við missum af okkar helstu skotmörkum? Stundum verður bara að borga premium, þannig er það bara. Haldið þið t.d. að við myndum sjá eftir því í dag að hafa boðið Sanchez 200 þúsund pund í stað 150 þúsund og þá hugsanlega fengið hann? 50.000 pund eru svona 2,6 milljónir punda á ári. Hvað er CL sæti verðlagt á í dag?

  39. Sigurkarl 33″ þú talar um að það komi ekki málinu við að ferguson vann ekki neitt fyrstu 7 árin!!!!!! JÚ ÞAÐ KEMUR MÁLINU VIÐ!!! Þetta sýnir að lið Skrattans sýndi ferguson traust og trúði á hans boðskap. (eitt árið var hann nálægt því að falla) Og þeir uppskáru ríkulega fjandinn!!!!!!! Og svo talar þú um persónutöfra sem ferguson hefur framyfir BR!!!! GUÐMINNGÓÐURMAÐURLIFANDI!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!
    Ég ætla vona að BR verði aldrei eins karakter og ferguson!!!!!!!!!!!!!!! Og bíddu hefur BR ekki sýnt að hann hefur stáltaugar og einginn leikmaður sé stærri en klúbburinn eins og þú talar um rauðnefur hafði haft????? Fyrir tímabilið í fyrra setti BR Suarez í bann og lét hann æfa með unglingaliðinu!!! Kallast þetta ekki að sýna hver ræður og að klúbburinn er stærri en leikmaðurinn.
    Ég tek undir það sem ég hef áður sagt: BR þarf meira fjármagn til að jafna bestu liðin og ég treysti honum til þess.
    EINGINN VEIT HVER ÁTT HEFUR FYRR EN MIST HEFUR!!! Og hafðu það 🙂

  40. Aldrei reka hann nema að annað hvort Klopp eða Ancelotti séu tilbúnir að taka að sér stjórnun liðsins.

    Eins og þú segir réttilega þá er þetta sumar mjög stórt á þjálfaramarkaðinum. Getum við tælt til okkar betri stjóra í dag og eigum við þá að stökkva? Ef BR heldur áfram í meðalmennskunni og hans brottrekstur vís næsta sumar, verða bestu stjórar á laus þá menn á borð við Sam Allardyce og Guðjón Þórðarson…..

    Sophies choice í gangi hérna…. Langar alveg að gefa honum meiri séns en mann langar einnig í stjóra sem hafa meira undir sér…. erfitt…

  41. Ég gæti ekki verið meira sammála Guderian hér að ofan. Spot on. Spurningin er bara hvort klopp vilji taka við Liverpool. Enska pressan getur verið ömurleg.. og verður örugglega ekkert of hliðholl þýskum þjálfara – og fá lið í Englandi með jafn miklar væntingar. Klopp hefur margoft gefið Liverpool undir fótinn og Liverpool yrði fullkomin áskorun fyrir hann. Hann veit það örugglega manna best.

    Ég ræddi við fótboltafélaga mína í gærkvöld sem halda ýmist með Arsenal eða United og þeirra skoðun var nokkurn veginn einsog ég bjóst við – þeir vildu ólmir halda Rodgers áfram hjá Liverpool og að Klopp héldi sér eins fjarri Liverpool borg og hugsast gæti. Þeir voru í raun mjög uggandi yfir þeirri tilhugsun um Klopp og Liverpool í sameiningu.. Rodgers hefur núll fear factor og ég held að hann sé hreinlega á endastöð með liðið.

    Ég yrði ekki miður mín ef Rodgers fengi eitt ár í viðbót og Klopp tæki sér eins árs sabbatical.. það er hægt að hugsa sér margt verra. Ég yrði hins vegar miður mín ef það að gefa Rodgers frekari séns myndi hafa þau áhrif að Klopp endar hjá City í sumar.

  42. Ég kaus nú ekki í þessari könnun en ég er einn af því sem er komin með nóg af BR. og meðalmennskunni. Aðalástæðan er samt sú að núna eru betri þjálfarar en hann á lausu og ég væri mest til í að fá Rafa aftur til okkar. Ekki eingöngu er hann miklu betri þjálfari heldur er ég líka handviss um að hann mun geta lokkað til okkar heimsklassa leikmenn sem munu vilja spila fyrir hann.

    BR er bara ekki að ráða við þetta verkefni og það virðist sem að þessi pakki sem Liverpool FC er sé bara númeri of stór fyrir hann.

    Ég spyr menn hér sem vilja gefa honum eitt tímabil í viðbót, af hverju ? svo þegar við endum í 5 sæti næsta tíabil hvað þá ? Klopp, Rafa og Ancelotti farnir annað og eigum við þá enn og aftur að finna einhvern “efnilegann” stjóra ?

    Það er bara einn sjéns að ég væri til í að gefa BR einn sjéns enn, það er ef hann fengi einhvern góðan aðstoðamann með sér, með meiri taktíska þekkingu.

    Annars er BR bara á rauðu spjaldi hjá mér. Nóg komið ! !

  43. Þetta kemur niðrá okkur vantar QUALITY ekki QUANTITY allavega sérstaklega ekki núna þar sem líklegast verðum við ekki í meistaradeild.

    Okkur vantar menn sem eru game changers og lykilmenn ekki miðlungs squadplayera.
    Já ég veit að vandamálið er að það er erfitt að fá þessa heavy hittara þegar þú hefur ekki meistaradeildina en við vorum nú ekkert að ná í nein risa númer í seinustu gluggum heldur.

    þannig það þýðir ekkert að fela sig á bakvið það.
    Við Þurfum að eyða stórum fúlgum og bjóða sóðaleg laun á viku og hætta þessu það er ekki stefna Liverpool að vera samkeppnishæfir við stóru klúbbana í launum , Þegar við veifum nógu andskoti miklum seðlum framan í menn þá breytist ýmislegt.
    Aðeins þá egum við séns að lokka svona lykilmenn til okkar eins og staðan er í dag.

  44. FSG eru aldrei að fara eyða það miklum peningum í þjálfara að þeir fái menn á borð við Klopp og Ancelotti. Ekki til í dæminu.

    Þeir gætu væntanlega fengið Benites á 50% afslætti vegna þess að hann ELSKAR LFC af öllu hjarta og dreymir um að komast þangað aftur.

    Ég kaus BR eitt tímabil í viðbót en ég hef verið að tuða hér á spjallinu yfir því að hann virðist ekki hafa strategíuna eða punginn til að breyta leikskipulagi eða bregðast við mótleik andstæðinga eða spila taktískt eins og sumir stjórar gera.

    Hann er ungur og er enn að læra og með ungt lið. Kannski verður liðið léttara þegar goðsögnin er kominn vestur um haf og nýtt tímaskeið hefst.

    YNWA

    P.s. áhorf á deildina þar hækkar þá líklega um 20% þegar allir LFC aðdáendur fara að fylgjast með gemle sprikla þar….
    :O)

  45. sælir félagar.

    Ég vil gefa eitt ár í viðbót. Ég einfaldlega er ekki ennþá búinn að gera upp við mig hvað mér finnst um BR. Að mörgu leiti hefur hann heillað mig og að sama skapi hefur hann líka valdið gríðarlegum vonbrigðum.

    Ég tek heilshugar undir það sem Eyþór segir í #41.

    Það er svo margt við uppbyggingarfasa lfc sem öskrar á mann að það sé erfitt að gera kröfu um mikið meiri árangur. Horfandi til baka allt aftur til Evans tímans (á þeim tíma byrjaði ég að fylgjast með fyrir alvöru) þá hefur gengið rosalega illa fyrir klúbbinn að stabilísera sig sem eitthvað meira en 4 – 7 sætis lið. Benítez og Houllier áttu báðir atlögu ásamt því að RB náði undraverðum árangri í CL en síðan gaf alltaf eitthvað eftir líkt og við sjáum í vetur.

    Hinsvegar er það svo að það er alltaf sama gamla tuggan, lfc selur sína bestu menn og nær ekki að endurfjárfesta peningnum nægjanlega skynsamlega. Það jákvæða núna er að stór hluti af peningnum er í ungum og efnilegum leikmönnum sem flestallir eru spenntir fyrir að sjá þroskast. Það neikvæða er að við fengum ekkert útúr þeim sem við treystum á að væru tilbúnir í slaginn. Í sumar losnar um síðasta samninginn sem FSG kom ekki nálægt (Glen Johnson) og því er óhætt að segja að þá verði formlegri tiltekt eftir fyrri eigendur lokið og ástandið alfarið á ábyrgð FSG. Það verður jafnframt eitthvert svigrúm launalega til þess að bæta við.

    Mér finnst miklu fremur skipta öllu máli hvernig þetta svigrúm verði notað þ.e. hvaða leikmenn koma heldur en hver verður stjórinn næsta haust. Ef það er svo að BR sé þannig nafn að hann nái aldrei að lokka til sín risastjörnur þá er það veruleg áhyggjuefni en ég held nú samt að það hljóti meira að spila inn í. Menn geta gleymt umræðu um Ancelotti, það væri mesta stílbrot veraldsögunnar ef hann ákveddi að taka við liði í uppbyggingarfasa líkt og lfc. Klopp er nærtakara dæmi þó svo að ég haldi nú að hann sé jafnvel að horfa hærra. Þori ekki að tjá mig um Rafa 🙂 Það væri allavegana ánægjulegt að sjá hann aftur í bítlaborginni en ég held samt einhvern veginn að hans tími sé liðinn.

    Ég held að við megum ekki festast um of í þeirri hugsun að það séu svo margir góðir þjálfarar á lausu, miklu frekar á umræðan að snúast um hvaða þjálfari hentar best til þess að vinna eftir stefnu FSG, í dag er ég þokkalega sannfærður um að ekki myndu margir þjálfarar vera með mikið betri árangur. Stefna FSG þarf að taka skref upp á við í metnaði við leikmannakaup og ég vonast til þess að það gerist í sumar. Hvort að BR sé rétti maðurinn í það verk er annað mál en ég hef trú á honum. Hann náði að spila geggjaðan sóknarbolta á síðustu leiktíð og í vetur hefur hann sýnt að hann getur líka spilað varnarbolta. Ég er til í að gefa honum eina leiktíð í viðbóta til að reyna að samtvinna þetta.

    YNWA
    al

  46. Sælir félagar

    Fyrirgefðu Siggi Scheving#43, hef ég gert þér eitthvað. Við erum einfaldlega ósammála um þetta atriði og ég minntist aldrei á persónutöfra Rauðnefs væni minn. Ég talaði um persónustyrk.

    Það er þannig að ég þekki ekki persónustyrk þessara manna persónulega. En maður sem rutlar með skiptingar eins og BR, og virðist ekki ráða við menn eins og Sterling og Gerrard (sem er náttúrulega kóngur) hann hefir ekki persónustyrk á við gamla Rauðnef sem lét menn eins og Beckham, RvN, Ronaldo og Roy Keane fara þegar þeir héldu að þeir væru stærri en liðið.

    Það þarf sterk bein til að þola góða daga og líka slæma. Mér finnst BR ekki höndla það. Hann ofmetnaðist eftir síðustu leiktíð og var auðvitað ekkkert einn um það. Þar að auki réð ekki við ástandið fyrstu 3 mánuði leiktíðarinnar. Hann hafði ekki styrk til að horfast í augu við eigin mistök lengi vel. Hann féll á því prófi.

    Að öðru leyti vísa ég bara í það sem ég hefi áður skrifað. Ég vil benda á að ég er að setja þumalinn upp við mörg komment hér sem eru mér ósammála. Ég er ekki í stíði við neinn og afbið mér það að verið sé að rangtúlka það sem ég er að skrifa hér. Ég þarf ekkert “og hafðu það” til mín hérna. Ef menn eru mér ósammála þá er það í góðu lagi. Þar með er Þessu endanlega lokið hjá mér.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  47. Þegar Ferguson kom til Man utd hafði hann gert Aberdeen að bæði skoskum meisturum og Evrópumeisturum og stýrt Skotum á Heimsmeistaramóti. Hann hafði unnið bikara og reynslu af stórmótum, hafði það því framyfir Rogers í dag.

    En menn tala um innkaupastefnuna, eins og það eina sem FSG geri sé að kaupa óharnaða unglinga. Man enginn eftir Lallana(26), Lovren(25), Balotelli(24) og Lambert(33)? Þetta eru fjórir leikmenn sem allir komu síðasta sumar, ekki beint unglingar.

    Ég er algerlega sammála stefnu FSG að kaupa unga leikmenn í bland við eldri. Vandamálið er bara að við þurfum að stefna hærra, fá stærri nöfn. Ef við myndum kaupa Depay(21) þá myndi engin kvarta afþví að hann sé svo ungur. Vandamálið er ekki kaupstefnan sem slík, heldur gæði þeirra leikmanna sem koma inn, og það mun ekkert breytast með nýjum stjóra. Því segji ég að Rogers á að fá annað ár, en FSG verður að setja metnaðinn upp um gír eða tvo.

  48. Einn kom með nokkuð góða samlíkingu við Liverpool á leikmannamarkaðnum.

    Þú ert single, skellir þér á gott ball, kemur auga á sætustu dömuna á dansgólfinu, nærð augnkontakti, manar þig upp í að tala við hana en þarft svo rétt að skreppa að míga. Þegar þú kemur til baka er hún dottin í sleik við einhvern annan.

    En með Rodgers áfram eða ekki, mér finnst þetta mjög erfitt val. Mér finnst t.d. mjög hæpið að það séu keyptir leikmenn fyrir 20-25m án hans blessunar. Eyþór tekur þetta annsi vel fyrir, þetta svíður annsi mikið að hafa sett 110m í leikmenn sem hafa í raun ekki skilað neinu fyrir liðið, eða amk þeir hafa ekki bætt liðið neitt. Að hafa ekki keypt 20-30 marka leikmann síðastliðið sumar er auðvitað klúður aldarinnar, Suarez fór og vitandi það að Sturridge getur jú skorað 20-30, en hann getur líka verið meiddur nánast heilt tímabil eins og raunin er núna.

    Það verður að kaupa byrjunarliðsmenn og ég vil ekki fá 8 nýja leikmenn. Það eru fjórar stöður sem við þurfum nauðsynlega byrjunarliðsmenn: hægri bakvörð, miðjumann, kantmann og framherja. Allur skítur flýtur í velgegni, við gætum komist upp með að kaupa ekki fleiri ef þetta eru alvöru leikmenn sem eru fegnir inn, við eigum efnilega leikmenn í gámavís, núna er komið að því að fá menn með einhverja reynslu sem geta stígið upp þegar þörf er á.

  49. Elsku Sigkarl minn, þú mátt alveg hafa aðrar skoðanir en ég og ég ber virðingu fyrir því, og ég ber eingann kala til þín eða aðra á þessari síðu sem eru mér ósammála. Það hefur kannski farið fyrir brjósti á þér að ég skrifaði “og hafðu það” en það var bara í gríni gert enda setti ég broskall eftir þá setningu. Enda hef ég oftar en ekki gaman af þínum skrifum kæri vinur.
    En ef ég hef sært þig þá biðst ég afsökunar á því því það var ekki meiningin. Enda er ég viss um að við séum oftar sammála en ósammála 🙂 Haltu áfram að skrifa og þetta er búið af minni hálfu 🙂 Áfram Liverpool.

  50. Sæll Siggi

    Engir eftirmálar með það og ég biðst afsökunar á of hörðum viðbrögðum. Ef til vill er maður ofurviðkvæmur á þessum síðustu og verstu 🙂 Mínar bestu . . .

    Það er nú þannig

    YNWA

West Brom 0 Liverpool 0

Eitt sæti laust!