Ludogorets á morgun

Mikið væri nú einfalt að henda sér bara beint út í eymdar og volæðis tjörnina á þessum tímapunkti, enda ástandið ansi fjarri því að vera gott hjá okkar ástkæra félagi. Liðið sem færði okkur fremst á sófabrúnina á síðasta tímabili, hefur nú neglt okkur fast að stólbakinu svo í brakar. Það eru margar og stórar spurningar á lofti hjá stuðningsmönnum og einnig hjá hinum sem fylgjast með enska boltanum. Fullt af fólki líka með svörin á reiðum höndum, vita upp á hár hvað er að og hvernig skuli vinna úr málunum. Við sófaspekingarnir erum nefninlega alveg skarp gáfuð kvikindi upp til hópa, allavega að okkar mati. En þessi veröld fótboltans (frekar en þessi almenna) er ekki bara svört og hvít þótt það virðist stundum vera þannig. Hún getur líka verið svolítið grá. En einhvern tíman heyrði ég speki á þá leið að fortíðin sé gagnslaus að mestu leiti, það sem eigi að nota hana í er að læra af henni. Annars skuli huga að núinu með augastað á framtíðina.

Þótt ástandi sé slæmt, þá er það ekki þannig að tækifærin liggi ekki fyrir framan okkur. Á morgun er leikur í deild þeirri sem við höfum stefnt á í fjölda ára og vitið þið hvað? Leikurinn byrjar í stöðunni 0-0, það er magnaður fjandi. Vitið þið annað? Innan okkar vébanda eru fjöldinn allur af virkilega öflugum landsliðsmönnum sem hafa ekki náð að sýna sitt rétta andlit í alltof langan tíma. Hættu menn að kunna að sparka fótbolta, bara svona allt í einu? Það er afskaplega ólíklegt og mætti frekar ætla að eitthvað sé ekki alveg í lagi sem snýr að andlega þættinum. Það sem fer langmest í taugarnar á mér við núverandi ástand er þetta bölvaða andleysi sem virðist vera yfir flestum leikmönnum liðsins þegar þeir stíga inn á leikvöllinn. Auðvitað er hægt að hrópa og kalla á Brendan Rodgers, og á hann skilið alveg hellings skerf af ástandi liðsins eins og það er núna. En gleymum því samt ekki að þetta eru atvinnumenn í fótbolta, þeir gera lítið annað en að stunda þessa vinnu sína sem er jafnframt þeirra (flestra) helsta áhugamál. Það á ekki að þurfa að peppa þessa gaura í að vinna fyrir feitum launatékkunum sínum.

Eins og ég segi, þá er alveg hægt að leggjast í tuðið og horfa bara í svartnættið. Persónulega finnst mér skemmtilegra að reyna að berja mér á brjóst og vonast til þess að fleiri hugsi eins og þar með rífi upp stemmninguna. Það er alveg sama á hvern er horft þar. Það vantar stemmarann í stjórann. Það vantar stemmarann í leikmenn. Það vantar stemmarann í stuðningsmennina á Anfield. Það vantar stemmarann í stuðningsmenn á Spot. Það vantar stemmarann í stuðningsmennina á Kop.is. Það er líka alltaf létt mál að benda á þann næsta við hliðina og velta fyrir sér orsökum og afleiðingum. Myndast betri stemmning ef liðið spilar vel? Spilar liðið betur ef stemmningin er betri? Ég hef lesið nokkur kommentin hérna inni um það að menn hafi ekki lengur áhuga á að horfa á Liverpool spila leiki. Gott og vel, þá snúa menn sér að einhverju öðru. Vonandi verður bara fjör í því sem frítíminn fer þá í. Ég er bara ekki í þeim hópi og get helst ekki hugsað mér það að missa af einni einustu mínútu hjá liðinu. Ég gæti líka alveg verið án þess að sjá yfirlýsingar um þetta efni trekk í trekk, finnst sjálfum lítil stemmning í því.

Á morgun er leikur í Meistaradeild Evrópu og nokkrir góðir félagar mínir ferðast núna langa leið til að komast á leikinn og fylgja liðinu sínu. Það er vonandi að þeir fái nú góðan leik og eins góð úrslit. Í mínum huga eru bjartir tímar framundan og ég er þess alveg viss að það sé bara tímaspursmál hvenær okkar menn rífi sig upp úr þessu sleni og sýni okkur eitthvað meira í ætt við það sem við sáum á síðasta tímabili. Það getur vel verið að ég sé í einhverjum Pollýönnuleik, en fjandinn hafi það, ég nenni ekki einhverju svartsýnisrausi. Ég bara hlýt að bera þá von í brjósti að þessir fínu fótboltamenn fari að sýna takta á vellinum og skemmta okkur svolítið. Við erum með hámenntað lið í þjálfunarfræðum sem hafa gert mikið af mistökum það sem af er, en ég hef líka trú á því að þeir finni réttu blönduna.

Það fyrsta sem ég sé í stöðunni er að Brendan sýni nú dug sinn og áræðni og geri alvöru breytingar á liðinu. Ég hef verið að æpa á það að taka Steven Gerrard úr varnartengiliðnum í talsverðan tíma núna og ekki ómerkari maður en Jamie Carragher er á nákvæmlega sömu skoðun. Vörnin lekur mörkum eins og enginn sé morgundagurinn, en við sjáum samt leik eftir leik, sömu þrjá sem eiga að covera þessar þrjár lykilstöður er snúa að varnarleiknum. Skrtel, Lovren og Gerrard eru bara óhagganlegir. Það eina sem haggar þeim eru sóknarmenn andstæðinganna, því þeir virðast alls ekki geta orðið í vegi fyrir þeim. Ég er ekkert endilega að segja að það eigi að droppa Gerrard á bekkinn, nei, ég tel hann hafa alveg helling uppá að bjóða. Ég vil sjá hann framar á vellinum. Nú er maður farinn að hljóma eins og illa rispuð plata. Ég skil heldur ekki af hverju Kolo Toure hélt ekki sæti sínu eftir Real Madrid leikinn um daginn. Nú veit ég ekki ástandið á Sakho, en mikið væri ég til í að sjá Kolo og Sakho í miðvarðarstöðunum, með Lucas sem sópara þar fyrir framan. Held þó að hann hafi ekki ferðast með liðinu og sé líklegur í næsta leik í deild. En við þurfum að hrista upp í þessu og fá inn hungraða menn. Rífa sig í gang.

Ég hef lítið spáð í þessu Ludogorets liði. Ágætis lið og allt það og hafa verið að sýna fína takta í nokkrum sinna leikja í þessari deild. Stóra málið er engu að síður okkar menn, erfiðustu andstæðingar þeirra eru þeir sjálfir og það vita allir sem eitthvað hafa séð til liðsins. Það er ennþá stór möguleiki á að komast áfram í 16 liða úrslit þessarar keppni og þá verða menn að nýta tækifærið í Sofia. Ef einhver hefði sagt það fyrir nokkrum mánuðum að til að komast í 16 liða úrslit í CL þá þyrftu okkar menn að vinna einn útileik við Lodogorets í Búlgaríu og svo heimaleik gegn Basel á Anfield, þá held ég að menn hefðu verið bara nokkuð til í það. Einhverji vilja halda því fram að Brendan Rodgers kunni einfaldlega ekki á þessa keppni, við þá vil ég segja eitt. Þetta er FÓTBOLTI. Er enska deildin öðruvísi en Meistaradeildin? Uhh, já. Er Brendan með mikla reynslu úr Meistaradeildinni? Nei, ekki mikla. Er búlgarska deildin öðruvísi en Meistaradeildin? Er sú svissneska öðruvísi? Er Paulo Sousa þrautreyndur þjálfari í Meistaradeildinni? Mér finnst þetta allt frekar slakar afsakanir og því sé ég þetta bara sem hefðbundna leiki sem eru alveg jafn vinnanlegir og aðrir, meira að segja aðeins meira vinnanlegir en aðrir.

Hvað um það. Eins og sést þá er þetta ekki hefðbundin upphitun. Ég bara varð að létta þessu af mér og þið sem ennþá eruð að lesa, þið eigið heiður skilinn. Best að fara að spá í liðið sjálft. Jon Flanagan, Daniel Sturridge, Suso, Sakho og Mario Balotelli eru allir fjarri góðu gamni og ferðuðust ekki með liðinu til Búlgaríu. Enrique og Henderson eru aftur heilir heilsu og eru klárir í slaginn. Ég ætla að skipta þessu í tvennt, annars vegar ætla ég að stilla upp liðinu eins og ég vil sjá það og hins vegar eins og ég held að Brendan muni stilla því upp.

Mitt lið:

Mignolet

Manquillo – Kolo – Lovren – Moreno

Lucas

Henderson – Lallana – Gerrard

Borini – Lambert

Já, ég er að vonast eftir tígulmiðju með Lallana fremstan og Borini sem hlaupatík frammi með Lambert. Stóra málið í mínum huga er að koma Stevie í meiri sóknarstöðu og fá Lucas til að verja vörnina. Því miður þurfti ég að velja á milli Lovren og Skrtel, því helst hefði ég viljað henda þeim báðum út, en af tveim slæmum, þá var Skrtel svo hörmulegur í síðasta leik að ég vil heldur halda Lovren inni og láta Kolo spila réttum megin í vörninni.

Spáin mín:

Mignolet

Johnson – Skrtel – Lovren – Moreno

Henderson – Gerrard – Can

Coutinho – Lambert – Sterling

Sem sagt spái ég því að Moreno komi inn fyrir Manquillo og að Glen færist yfir hægra megin og að svo komi þeir Henderson og Can inn fyrir Allen og Lallana á miðjuna. Gott og vel, bæði þessi lið eiga að vera með gæðin til að klára þennan leik. En við vitum ansi hressilega af því að engir leikir vinnast á pappírum og stóra spurningin verður sú hvernig menn mæta til leiks, með hvaða hugarfari. Nú er bakið komið upp við vegg, menn þurfa nauðsynlega úrslit og ég er á því að menn bregðist rétt við þeim aðstæðum og sparki sér í gang. Ég ætla að spá okkur 1-3 útisigri og þarna stígum við eitt skref í áttina að því að komast upp úr þessum riðli. Bjartsýnn? Já. Óraunhæfur? Nei. Klár fyrir framan skjáinn á morgun? HELL YEAHHH.

36 Comments

  1. Sammála Steina hérna um allt…nema Manquillo.

    Finnst hann enn ekki tilbúinn til að spila svo stórt hlutverk og myndi velja Johnson. Segi aftur eins og í leikskýrslunni minni síðast, ég vona að Brendan hætti þrjóskunni og hlusti á okkur Ssteina hvorn bakvörðinn sem hann velur!

  2. Svo sammála SStein, sama hvað illa gengur þá kíki ég alltaf á leikjaröðunina eftir leik og bíð spenntur næsta leik. Elska LFC og við ætlum að vinna á morgun.

  3. Væri meira en til í þitt lið Steini, en guð minn góður ég skal lofa ykkur því að hann stilli upp Johnson, Skrtel og Lovren í vörnina með Gerrard fyrir framan og einn striker(Lambert) enn eina ferðina.

    Þessi leikur fer 1-1

    Með von um breytt skipulag og hvarfi þrjóskunnar í Brendan, Your’s truly
    -Davíð

  4. bið bara um sigur og mér er alveg hvernig við förum að því.

    Áfram Liverpool!!!

  5. Mér er drullu sama hverjir þeir 11 verða sem byrja leikinn á meðan að við fáum 3 stig og góða framistöðu.

    Það er nafnið framána sem skiptir mestu

    Koma svo LIVERPOOL

  6. Takk fyrir þessa upphitun.
    Ekki hefði mig grunað það í vor að ég myndi í Nóvember hafa eins lítinn áhuga á leik í Meistaradeildinni eins og ég hef í dag.

    En allur niðurgangur hættir á endanum og vonandi er þessi kveisa sem herjað hefur á okkar menn yfirstaðinn.

    Koooma svo!

  7. Sæl öll,

    Aldrei hefur mér dottið í hug, þau rúm 30 ár sem ég hef fylgst vel með liðinu, sleppt því að horfa á leik með Liverpool eða hætt að horfa á leik á einhverjum tímapunkti á meðan honum hefur staðið. Alveg sama hvert gengið hefur verið þetta eða hitt tímabilið. Það sem meira er mér á aldrei eftir að detta þetta í hug, ég get fullyrt það. Það er alveg æðislegt að fylgjast með þessu liði og ekki skemmir frábær vettvangur eins og þessi til að lesa um það.

    Ég á ekki von á því að BR breyti uppleggi Liverpool fyrir útileikinn á morgun. Því óttast ég að Liverpool fái a.m.k. mark á sig. Ekki eingöngu vegna þess hvernig gengið hefur í haust, heldur aðalega vegna þess hvernig varnarleikurinn hefur verið alla tíð undir stjórn BR.

    Ég er sammála uppstillingunni hjá SSteini en ekki leikmannavali. Ég mundi vilja sjá Johnson fyrir Manquillo, Can inn fyrir Lucas, Enrique fyrir Monreo og Sterling inn fyrir Borini. Liverpool þarf í flesta leiki meiri líkamlegan styrk að mínu viti og því vel ég framangreinda leikmenn fram yfir hina. “Litli – Stóri” frammi sem báðir geta skorað og hafa sýnt að þeir nenna að pressa varnarmenn. Að mínu viti ættu varnarmenn Liverpool að ráða við fyrirgjafir á móti þessu liði og Liverpool þarf að verja vörnina betur. Þess vegna vil ég þétta miðjuna, og því vil ég sjá tígul miðju, gefa eftir vængina fyrir framan bakverði og “leifa” fyrirgjafir. Sóknarleikurinn færi í gegnum Gerrard, Lallana, Sterling og Lambert, Can situr eftir ásamt miðvörðum sem aldrei, aldrei fara upp í sömu línu og Can í uppspili Liverpool. Andstæðingurinn þyrfti að hafa áhyggjur af skotum (Gerrard), stungum (Lallana-Sterling), skallaboltum (Lambert). Mikilvægast væri þó að vera miklu beinskeyttari og klára sóknir þó að það væri ekki nema með ömurlegu skoti. Koma sér í varnarstöðu og reyna að halda markinu hreinu. Fótbolti er svo einfaldur, afhverju er maður ekki þjálfari (hehehehe).

    En eins og ég sagði, hef ég ekki trú á að BR breyti mikið upplegginu á útivelli. Því óttast ég, ef illa gengur á morgun, að leikmenn missi enn meira trúna á aðferðafræðinni og BR er þá kominn algjörlega út í horn. Mér finnst ég skynja, á líkamstjáningu leikmanna, að þeir eru byrjaðir að missa trúna. Þá spyr maður sig hvort stórar breytingar er lausnin þ.e. Gerrard og Johnson út?

    Hvað svo sem BR gerir verður hann að fara laga varnarleikinn því að ekki getur liðið, enn sem komið er, skorað 3-4 mörk í leik til að sigra þá. Mig hrillir við hugsuninni hvað gerist ef að Liverpool tapar á morgun. Því vona ég að BR droppi við á þessari síðu fyrir leik og leggi leikinn upp líkt og gert er hér að ofan, þá sigrar Liverpool 2-0.

    p.s. hvar væri man. city án Aguero?

  8. Sammála Steina með uppstillinguna með einni undantekningu, en mig grunar að Johnson verði settur í hægri bak.
    Einnig VERÐUR bara Rodgers að fara að setja Lucas í DM, en hann er greinilega ekki í uppáhaldi (og hefur ekki verið lengi)

    Sem betur fer er gullfiskaminnið í fullum gangi, ég er búinn að steingleyma Palace leiknum. BRING IT ON!!!

  9. Það er ekki stemmingsleysi í liðinu, það er fyrst of fremst skortur á sjálfstrausti og það vantar karakter með drifkraft einsog við höfum oft haft í okkar liði í gegnum árin t.d einsog Mcallister, Hamann, Hyypia, Carragher, held að Gerrard sé í andlegri lægð eftir að hafa séð eftir sínu síðasta tækifæri að vinna deildina með LFC semog ófarirnar á HM.

    Að leiknum sjálfum þá tel ég að við vinnum hann og vonandi er botninum náð og sigur myndi gefa liðinu sjálfstraust til að fara upp brekkuna sem við erum komnir í 1-2 fyrir LFC.

  10. Frábær upphitun, og það sem meira er hún fær mann til að taka upp bjartsýnina aftur.. Ég ætla að spá algjörri veislu og þetta fer 4-2 fyrir okkar mönnum og ekkert helv**** rugl!

  11. Vonandi að menn hysji upp um sig á morgun. Vona einnig að við fáum að sjá varnarlínu sem inniheldur ekki Lovren… Ég meina, hversu illa þarf hann í alvöru að spila til að missa sitt sæti ef hann heldur því enn og aftur á morgun?

  12. Er ekki stemmningsleysi í liðinu Keli? Skortur á sjálfstrausti? Heldur þú að Crystal Palace menn hafi komið inn í leikinn um síðustu helgi að springa úr sjálfstrausti, hvað þá eftir að vera lentir undir eftir um 90 sekúndur? Veit ekki hvaða nafn er best yfir þetta, mér fannst orðið “stemmningsleysi” lýsa þessu ástandi fínt. “Andleysi” er annað orð yfir þetta. Ég get reyndar alveg kvittað undir það að það vanti drifkraft frá mönnum, held reyndar að hann sé til staðar þarna víða eins og sást á síðasta tímabili, en hann næst ekki fram.

    Viola, held við neyðumst til að nota Lovren þangað til Sakho kemur tilbaka, af tveimur slæmum kostum þá er betra að nota hann í sína réttu stöðu heldur en að spila jafn slökum (ef ekki slakari) Skrtel út úr sinni réttu stöðu (eða þá Kolo).

  13. Takk fyrir góða upphitun Steini. Ég beið spenntur eftir þessu frá þér því þú finnur alltaf stemninguna fyrir mann þegar ég á lítið til af henni sjálfur.

    Ég er orðinn drulluspenntur fyrir þessum leik. Mér er sama hvað gengið er hingað til, bara tækifærið til að klára okkur áfram úr þessum riðli er nóg til að gera mann spenntan. Það er ekki til neins að dreyma um að komast í Meistaradeildina ef menn ætla svo ekki að kalla það veislu þegar liðið okkar er í baráttunni um að komast upp úr riðlinum.

    Hitt er svo annað mál að ég hef ekki mikla trú á sigri í kvöld. Sóknin er ekki sú öflugasta þessa dagana og jafnvel þótt slúðrið sé rétt og Kolo Touré og Lucas komi inn til að þétta varnarkjarnann aðeins er ég langt því frá sannfærður að við getum haldið hreinu í kvöld.

    Ég myndi þiggja jafnteflið í þessum leik því ef það gerist og Real vinnur Basel í Sviss (krossleggjum fingur, vona að C.Ronaldo sé að eltast við markametið) þá nægir okkur bara einhvers konar sigur á Basel í lokaumferðinni.

    Ég ætla því að spá því að við náum þessu jafntefli og leggjum upp í must-win leik gegn Basel á Anfield í lokaumferðinni. 0-0 í kvöld og ég er sáttur.

    YNWA

  14. Á eftir því sem undan er gengið þráir maður bara öruggan sigur.

    ÁFRAM LIVERPOOL!!!!!!!!!!

  15. Fyrst að farið er að ræða um Sakho þá er hann á enn verri blaðsíðu en Sturridge með meiðsli, því miður ekki bara á ferlinum með okkur…mér finnst orðið mjög erfitt að stóla á hann í rauninni.

    Alveg sammála því að hann sé öflugur leikmaður en það er ekki neitt eðlilegt að hann hefur verið heill u.þ.b. 35% af þeim tíma sem hann hefur verið á Anfield og þessi meiðsl hans eru yfirleitt vöðvameiðsli sem er býsna sérkennilegt hjá þetta stórum og kraftmiklum manni.

    Ég vona innilega að slúðrið sem Kristján talar um sé rétt, farið verði í það í alvörunni að styrkja varnarleik liðsins sem hefur svo alls ekki bara snúist um hafsentana og Gerrard verði settur ofar til að koma að sóknarleiknum með flinkari leikmönnunum okkar.

    Svo er ég að sjálfsögðu á sömu línu og Steini varðandi áhorf. Áhugi minn á fótbolta almennt hefur minnkað mikið með árunum, hef ekki horft á heilan CL-leik sem inniheldur ekki LFC frá því við vorum síðast með árið 2009 og það fækkar stöðugt þeim leikjum sem ég horfi á í ensku deildinni sem ekki innihalda okkar menn.

    En leikjum með Liverpool sleppi ég aldrei nema að nauðsyn krefji…og hlakka alltaf til að setjast niður við það…mismikið auðvitað, en alltaf hlakka ég til!

  16. Tilfinningin fyrir þessum leik er mestmegnis kvíði. Þetta eru ekki mínir uppáhaldsleikir enda um algjöran skyldusigur að ræða og okkar menn eru alls ekki að standa sig vel í þeim leikjum um þessar mundir.

    Ég hef sagt það frá því dregið var í þessa riðla að ef Liverpool ræður ekki við Ludogorets þá hefur liðið ekkert að gera í þessa keppni, hvað þá í svona leik þar sem allt er undir og okkar menn með bakið upp við vegg.

    Ég hef samt trú á því að okkar menn klári þetta nú í kvöld.

    Tippa á að liðið verði eitthvað á þessa leið

    Mignolet
    Johnson – Toure – Lovren – Moreno
    Can – Gerrard
    Sterling – Henderson – Lallana
    Lambert

    Toure kæmi þá inn fyrir Skrtel, Johnson haldi sæti sínu í liðinu og Can verði á miðjunni frekar en Lucas. Rodgers hefur talað það mikið um Gerrard fyrir þennan leik og mikilvægi leiksins er það mikið að hann haggar honum líklega ekki.

    Henderson kemur pottþétt inn ef hann er heill og Lambert fær líklega séns áfram uppi á toppi með Lallana með sér á vellinum.

    Hef trú á að þetta hafist 1-3

  17. Maggi, ég er búinn að vera á einhverju tölfræðiflippi í vikunni (sjá pistil sem ég set inn á næstu dögum) þannig að ég fletti Sakho snöggvast upp. Síðan hann kom til Liverpool hafa verið spilaðir 61 alvöru leikur (æfingaleikir ekki taldir með). Þeir skiptast svona hjá Sakho:

    22 í byrjunarliði (3 sinnum skipt út af).
    2 inná af bekknum.
    8 ónotaður varamaður.
    2 ekki valinn í hóp.
    27 meiddur.

    Hann hefur sem sagt verið meiddur í 44% af leikjum liðsins sem er vægast sagt skelfilegt. Ég pirra mig á því að Rodgers skuli hafa hann á bekknum eða utan hóps í 12 af 34 leikjum sem hann gæti hafa spilað þar sem mér finnst Sakho ekki fá sama séns og t.d. Skrtel og Lovren sem fá alltaf að halda áfram þrátt fyrir mýmörg mistök, en það verður samt að taka það með í reikninginn að það er mjög erfitt að ætla að byggja upp vörnina þína í kringum leikmann sem missir úr nærri helming leikja vegna meiðsla. Sama hvað sá maður heitir.

    Þar með er því komið til skila. Vonandi meiðist Sakho aldrei aftur (né Sturridge) en ég myndi ljúga ef ég segðist vongóður um slíka heilsu.

    Til gamans þá er hér tölfræði Sturridge síðan hann kom:

    Liverpool hefur spilað 82 leiki síðan hann var keyptur.
    Sturridge hefur spilað 52 þeirra:
    46 í byrjunarliði (20 sinnum skipt út af).
    6 inná af bekknum.
    1 ónotaður varamaður.
    30 leikir meiddur.

    Sturridge hefur s.s. misst af 37% leikja síðan hann kom til Liverpool (og sú tala mun hækka fram að áramótum), og Sakho 44%.

    Úff. Hættið að meiðast strákar, plís.

  18. Til gamans (og af því að ég get ekki hætt að fletta upp) þá er hér tölfræði meiðslakóngsins Harry Kewell sem ég held að hljóti að vera sá mest meiddi af stórkaupum okkar síðustu áratugina.

    Kewell var hjá Liverpool í 5 tímabil.
    Liverpool spilaði 291 leik á þessum árum.
    Harry Kewell tók þátt í 139 þeirra.

    Hann var því meiddur í 152 leikjum eða 52% spilaðra leikja á meðan hann var hjá Liverpool. Það er hægt að bæta svona 10 leikjum við þetta þar sem hann byrjaði inná en fór út af meiddur (þ.m.t. tvo eða þrjá úrslitaleiki á þessum tíma).

    Vonandi verður þetta aldrei toppað, þótt Sakho og Sturridge séu í raun ekki langt undan.

  19. Þó ég hafi litla trú á byrjunarliði Liverpool um þessar mundir þá er það mín sannfæring það sé aðeins tímaspursmál að vissir grunnþættir fari að smella saman og þá tekur liðið miklum framfara kipp í kjölfarið.
    Auðvitað vona ég að Liverpool sigri þennan leik en ef ekki þá væri ágætisbyrjun að tapa með sæmd. Það er snöggt um skárra en að sitja hálf pirraður fyrir framan skjáinn og sjá liðið gera ítrekað í brók og sýna ekkert nema algjöra meðalmennsku.

    Spái jöfnum leik og vona að Liverpool vinni en ef ég má vera raunsær þá held ég að þeir tapi þessum leik með einu marki og það verði mikil úrhellisrigning hjá aðhangendum Liverpool eftir þennan leik, jafnvel þó það sér sólskyn úti.

  20. Fínn pistill hér ofan. Sagt það áður og segi enn, vil sjá Stevie G. ofar á vellinum, hann á helling eftir þar. Annars á Rodgers bara hafa hann á bekknum.

    Það er eitthvað meira en lítið að í okkar herbúðum og ég er ekki að sjá að Rodgers snúi lukkuhjólinu sér í vil alveg á næstunni. Gerist djarfur og spái okkur þó jafntefli á meðan Basel tapar fyrir Real og svo alvöru Anfield kvöld í síðustu umferð riðlakeppninnar.

  21. Flott tölfræði hjá þér Kristján með S & S.

    Ef að upplýsingar eru réttar og hvorugur er með fyrr en í janúar þá eru það 10 leikir a.m.k. sem þeir missa af.

    Það þýðir að Sakho hefur misst af 52% leikja frá því hann kom, sem er það sama og Kewell og Sturridge 47%…

    Ég fíla þessa leikmenn báða, en það er einfaldlega MJÖG erfitt að horfa framhjá slíkri meiðslasögu!

  22. “Ég fíla þessa leikmenn báða, en það er einfaldlega MJÖG erfitt að horfa framhjá slíkri meiðslasögu!”

    Það er allavega mjög erfitt að ætla að treysta á þá sem máttarstólpa liðsins með slíka meiðslasögu. Það gæti beðið erfið ákvörðun, t.d. að fórna öðrum þeirra (væntanlega Sakho) og eiga hinn sem lúxusviðbót (Sturridge) þegar heill. Það er allavega erfitt að vera með tvo á háum launum sem spila svona lítið.

    Þetta gæti þýtt að Sakho víki á næsta ári og sá peningur/launapakki fari í að kaupa framherja (ásamt t.d. brottför Borini). Ef menn vildu svo kaupa góðan miðvörð í stað Sakho yrði það kannski að gerast með brottför annars (t.d. Skrtel eða Lovren, og eflaust Kolo Touré frítt í burtu næsta sumar).

    En þetta er allt þráðrán svo sem. Nú eru menn eitthvað að hvísla á Twitter að FSG muni íhuga stöðu Rodgers ef hann tapar í kvöld og er þ.a.l. úr leik í CL, jafnvel þótt allir blaðamenn hafi fengið þau skilaboð á mánudag að hann væri öruggur í starfi. Menn hafa svo sem gefið svokallaðan “kiss of death” (segjast styðja stjóra, reka hann svo nokkrum dögum seinna) áður í boltanum, það er ekki það.

    Svona slúður eykur allavega bara á spennuna fyrir kvöldið. Það er mikið undir í þessum leik!

  23. Sakho er reyndar mættur til æfinga aftur og verður vonandi klár á næstunni. Hversu lengi sem það svo dugar.

  24. Ókí..las einhvers staðar að hann væri úti fram á nýár…vona innilega að hann sé heill og haldist það um hríð.

  25. Vill ekki sjá Skrtel í liðinu og væri til í að sjá Gerrard spila sem tían í þessum leik

  26. Takk fyrir að koma okkur í gírinn Steini. Það þýðir ekert að gefast upp núna:-). Ég heyrði í gær að Lovren hefði á þessu tímabili gert 5 mistök sem hafa leitt til marks. Metið væri 6 svo crucial mistök á einni leiktíð, þannig að hann væri á góðri leið með að slá það og ekki einu sinni komin jól. Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti það, en Kristján tölfræðimaður er kannski með þetta einhversstaðar?

    Annars er ég eiginlega enn þreyttari á Skrtel en Lovren. Mér hefur alltaf fundist allt skipulag á varnarleiknum betra þegar hann er ekki inná. Það er mín tilfinning.

  27. Takk fyrir upphitunina.

    Bruce Grobbelaar er einn af mínum uppáhaldsmarkvörðum. Þó svo að hann færi í nokkrar skógarferðir til þess að bjarga Rauðhettu frá úlfinum þá var alltaf hægt að fyrirgefa honum.

    Nú verður að halda hreinu í kvöld og Mignolet verður að nota teigin. Það er orðið afar þreytt ef hann heldur að hann sé einhver óhreyfanleg grísk stytta með allt niður um sig.

    Er innilega sammála Grobba:

    Bruce Grobbelaar says Simon Mignolet is ‘worse than Dracula’ with crosses
    • Liverpool’s poor start blamed on their goalkeeper
    • ‘At least Dracula comes out of his coffin now and then’

  28. Hjartanlega sammála með Sakho það er ekki hægt að hafa miðvörð sem er svona mikið meiddur þú þarft helst að finna þér vörn og halda þig við hana stöðugt rót á vörninni skapar bara vandræði

  29. Jesús almáttugur hvað sigur i kvold gæti lyft manni hressilega uppúr þunglyndi siðustu margra vikna i boltanum.

  30. Getur verið að Mignolet eigi meiri þátt í lélegri vörn okkar en mann grunar.

    Maður tekur helst eftir þegar markverðir eiga lykilvörslur og er það svo sannarlega mikilvægt. En hitt sem maður sér kannski ekki eins vel er hvernig markmaðurinn stjórnar og vinnur með varnarmönnunum fyrir framan hann. Það væri gaman að sjá tölur á mörkum fengnum á okkur frá tímum Reina vs Mignolet. En það er auðvitað erfitt að bera saman slíkt með allt aðra vörn fyrir framan sig.

    Annars er ég spenntari en ég bjóst við fyrir þennan leik í kvöld. Spái þessu 1-1.

  31. Ég er alveg í sömu “sætaröð” og Babu, stress og kvíði fyrir þessum leik. Vona það besta en bý mig undir þð versta. Ég vill sjá tvo frammi, og GERRARD í tíunni fyrir aftan þá.

    KOMA SVO LIVERPOOL FC ! ! ! ! !

  32. Það var líklega töluverð bjartsýni að spá því að Liverpool fengi bara á sig eitt mark í kvöld. Árangur liðsins á útivelli síðan Rodgers tók við er afleitur varnarlega, sá versti af öllum þeim liðum sem hafa ekki fallið um deild. Liðið er að fá mun oftar á sig tvö mörk í leik á útivelli heldur en það nær að halda hreinu eða fá bara á sig eitt mark. Þetta er ævintýralega lélegt.
    http://basstunedtored.com/2014/11/25/two-goals-away-is-too-many/

    Simon Mignolet og Martin Skrtel eru alls ekki í uppáhaldi hjá mér og hafa ekki verið það. Dejan Lovren er að stimpla sig inn í þennan hóp með látum en þó verð ég að viðurkenna að ég á erfitt með að ímynda mér miðvarðapar sem myndi standa sig vel í núverandi leik(ó)skipulagi Liverpool. Þeim er alveg smá vorkun enda oftar en ekki einu leikmenn liðsins með eiginlegar varnarskyldur. Kolo Toure treysti ég ekki hætishót betur t.a.m.

    Auðvitað miklu skemmtilegra að hafa bara átta sóknarleikmenn og skora bara meira en andstæðingurinn eins og í fyrra en slík hugmyndafræði gengur ALDREI upp til lengdar og við erum heldur betur að brenna okkur á því núna.

    Það að setja Lucas beint inn fyrir Gerrard myndi ekki leysa okkar vandamál mikið þó líklega myndi þetta eitthvað lagast. Varnarleikurinn liggur mun betur fyrir honum en Gerrard þó yfirferðin á honum sé ekki mikið meiri.

    Satt að segja væri Emre Can eini leikmaðurinn í Liverpool sem ég myndi vilja að yrði gefinn séns í þessari DM stöðu. Þar er mjög kraftmikill og sterkur leikmaður sem hefur töluverða yfirferð og ætti að vernda svæðið varnarlega miklu betur en við höfum séð það sem af er þessu tímabili. Næstur á eftur honum hjá mér væri Jordan Henderson, hann hefur a.m.k. kraftinn í þetta og er góður á boltann þegar við höfum hann. Vissulega samt betra að hafa hann áfram í sinni box-to-box stöðu.

    Varnartengiliðurinn er a.m.k. ekkert að vernda miðverðina eins og staðan er í dag og bakverðirnir hjálpa ekki mikið til heldur. Liverpool spilar nú orðið alltaf með sókndjarfa bakverði sem eru á köflum meira kantmenn heldur en varnarmenn og skilja eftir sig stórt svæði sem enginn er að vernda á meðan nema helst miðverðirnir sem þá eru komnir með tvö hlutverk. Við erum kannski ekki að fá á okkur það mörg mörk úr skyndisóknum en hurðin skellur oft ansi nærri hælum og það er ekki tilviljun að miðvarðaparið sé að slá met yfir varnarmistök við núverandi aðstæður. Leikmenn sem blómstra svo með landsliðum sínum. Andstæðingurinn fær mun meiri tíma inni á vallarhelmingi Liverpool en eðlilegt er og allt of mörg föst leikatriði sem okkar mönnum er gjörsamlega fyrirmunað að verjast.

    Enn eitt sem er ekki að hjálpa miðvarðaparinu er miklu verri varnarleikur fremstu manna en við sáum á síðasta tímabili. Þetta helgast líklega aðallega af miklu meira leikjaálagi sem sannarlega bítur í núna ásamt auðvitað því að núverandi sóknarmenn eru ekki svipur á sjón m.v. þá sem við vorum með í fyrra. Liðið er ekki að vinna boltann eins ofarlega á vellinum og áður og andstæðingurinn sleppur miklu oftar í gegn á öftustu varnarlínu.

    Það er allt í rugli hjá okkur núna, vonandi smellur þetta bráðlega en það er full mikil einföldun að mínu mati að úthúða miðvarðaparinu og markmanni fyrir allt sem miður fer.

    Fyrsta verk mitt væri að finna miklu betra hlutverk fyrir Gerrard og fá betri mann í hans stöðu, það væri a.m.k byrjun. Steven Gerrard án kraftsins og hraðans sem hann hafði fyrir segjum 5 árum er ekkert nema lúxusleikmaður í dag 34 ára. Hann er ennþá gríðarlega hættulegt vopn sóknarlega sem á að nota sparlega. Lúxusleikmenn á aldrei undir nokkrum kringumstæðum að nota aftast á miðjunni í skítverkunum.

  33. Er liðið svona ???
    Mignolet
    manq. sahko,kolo,moreno
    Can, Gerrard, Henderson
    Couth, Lambert, Sterling

  34. ” ‘At least Dracula comes out of his coffin now and then’” þetta fer aftan á treyju

  35. Liðið

    Liverpool XI: Mignolet, Manquillo, Skrtel, Toure, Johnson, Lucas, Allen, Henderson, Gerrard, Sterling, Lambert.

  36. Hvað er málið með Moreno fæ hann ekkert að spila núna? Miklu betri en Glen No defence.

Var Damien Comolli rekinn of snemma?

Liðið gegn Ludogorets